Mál nr. 30/2002. Úrskurður kærunefndar:
Úrskurður kærunefndar útboðsmála 10. desember 2002
í máli nr. 30/2002:
Hringiðan ehf.
gegn
Ríkiskaupum.
Með bréfi 15. nóvember 2002, sem barst kærunefnd útboðsmála sama dag, kærir Hringiðan ehf. útboð Ríkiskaupa nr. 13000 auðkennt IP net fyrir framhaldsskóla og símenntunarstöðvar" sem fram fór fyrir hönd menntamálaráðuneytisins.
Kærandi krefst þess að úrskurðað verði að ákvörðun kærða um að vísa tilboði kæranda frá sé ógild. Jafnframt krefst kærandi þess að fyrirhugaður samningur kærða við Skýrr hf. verði stöðvaður og lagt fyrir kærða að leggja nýtt mat á framkomin tilboð, þar sem tilboð kæranda verði meðal gildra tilboða sem valið verði á milli. Verði ekki á það fallist krefst kærandi þess að nefndin láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu kærða. Þá er gerð krafa um að kærða verði gert að greiða kostnað kæranda við að hafa kæruna uppi.
Kærði krefst þess að kröfum kæranda verði hafnað.
Upplýst er að hinn 10. október 2002 var gengið að tilboði Skýrr hf. Að þessu virtu voru ekki talin efni til að fjalla um kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar um stundarsakir í sérstakri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 83. gr. laga nr. 94/2001.
I.
Með hinu kærða útboði óskaði kærði eftir tilboðum í uppsetningu og rekstur IP nets fyrir framhaldsskóla og símenntunarstöðvar á Íslandi. Kærandi skilaði inn tilboði, dags. 21. júlí 2002. Tilboð voru opnuð 23. júlí 2002, en alls bárust 16 tilboð frá 10 aðilum. Með tölvupósti, dags. 21. ágúst 2002, óskaði kærði eftir svörum kæranda við 16 tölusettum spurningum í tengslum við tilboð sitt. Frestur til að svara spurningunum var veittur til kl. 16.00 daginn eftir, þ.e. 22. ágúst 2002. Sendi kærandi svör innan frestsins. Niðurstaða kærða var að taka tilboði frá Skýrr hf. og var sú niðurstaða tilkynnt bjóðendum, þ. á m. kæranda, með símbréfi dags. 10. október 2002. Í kjölfarið óskaði kærandi skriflegra upplýsinga um ástæður fyrir höfnun tilboðs síns. Í bréfi kærða til kæranda, dags. 18. október 2002, kemur fram að tilboðinu hefði verið vísað frá á grundvelli f-liðar 28. gr. laga nr. 94/2001 um opinber innkaup þar sem kærandi hafi gefið rangar upplýsingar um fjárhagslega og tæknilega getu sínu með því að tilgreina sem tækni- og netstjóra í fullu starfi einstakling sem væri fastur starfsmaður annars fyrirtækis.
II.
Kærandi reisir kröfur sínar á því, að ákvörðun kærða um að vísa tilboði kæranda frá hafi ekki verið byggð á fullnægjandi upplýsingum um málsatvik. Umræddur einstaklingur sé meðeigandi að kæranda og komi því í ríkum mæli að starfseminni. Kærandi telur sig ekki hafa veitt rangar tæknilegar upplýsingar heldur sé í mesta lagi um misskilning að ræða sem kæranda hefði verið í lófa lagið að leiðrétta ef honum hefði verið gefinn kostur á. Telur kærandi að kærði hafi brotið gegn rannsóknarreglu og andmælareglu stjórnsýsluréttar sbr. 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Einnig telur hann að kærði hafi brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga, með því að vísa frá tilboði hans á grundvelli smávægilegs misræmis í upplýsingum um tæknilega getu kæranda.
Kærði telur ekki grundvöll til að taka kröfur kæranda til greina með vísan til staðreynda málsins og gildandi reglna um opinber innkaup og að rétt hafi verið staðið að útboðinu. Kærði telur ljóst að kærandi hafi gefið vísvítandi rangar upplýsingar um starfsmenn sína og fyrirhugaða þátttöku þeirra í verkefninu og því hafi á grundvelli 28. gr. laga nr. 94/2001 um opinber innkaup borið að vísa honum frá. Kærði byggir jafnframt á því að niðurstaða útboðsins hafi legið fyrir 10. október 2002 og verið tilkynnt kæranda samdægurs. Þar sem kæra hafi ekki komið fram innan fjögurra vikna beri samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga nr. 94/2001 að vísa henni frá.
Kærandi mótmælir því að kæran hafi komið fram að liðnum fresti samkvæmt lögum um opinber innkaup. Það sé ákvörðunin sem tilkynnt var með bréfi 18. október 2002 sem kærð sé og kæra vegna hennar hafi borist innan lögboðins fjögurra vikna frests.
III.
Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga nr. 94/2001 um opinber innkaup skal kæra borin skriflega undir kærunefnd útboðsmála innan fjögurra vikna frá því kærandi vissi eða mátti vita um ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem hann telur brjóta gegn réttindum sínum. Í 3. gr. starfsreglna kærunefndar útboðsmála nr. 982/2001 kemur fram að umræddur frestur miðist við móttökudag hjá skrifstofu nefndarinnar eða póstlagningardag kæru.
Í máli þessu liggur fyrir að kæranda var tilkynnt ákvörðun um val tilboðs með símbréfi 10. október 2002. Samkvæmt ótvíræðum orðum 1. mgr. 78. gr. laga nr. 94/2001 bar kæranda að bera kæru undir nefndina innan fjögurra vikna frá þeim degi. Bréf kærða til kæranda 18. október 2002 fól ekki í sér ákvörðun, heldur rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun að hafna tilboði kæranda. Getur það ekki haggað þessari niðurstöðu að rökstuðningur kaupanda er almennt mikilvægur við mat á því hvort efni séu til að bera mál undir nefndina. Samkvæmt þessu verður ekki hjá því komist að hafna kröfum kæranda án þess að tekin sé efnisleg afstaða til málsins.
Úrskurðarorð :
Kröfum kæranda, Hringiðunnar ehf. vegna útboðs Ríkiskaupa nr. 13000 auðkennt IP net fyrir framhaldsskóla og símenntunarstöðvar" er hafnað.
Reykjavík, 10. desember 2002.
Páll Sigurðsson
Sigfús Jónsson
Stanley Pálsson
Rétt endurrit staðfestir.
10.12.02