Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 178/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 178/2021

Mánudaginn 13. september 2021

A

gegn

Barnaverndarnefnd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.

Með kæru, móttekinni 31. mars 2021, kærði C lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndarnefndar B frá 25. mars 2021 vegna umgengni hans við dóttur sína, D

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Stúlkan D er X ára gömul stúlka sem lýtur forsjá föður síns. Móðir stúlkunnar var að kröfu Barnaverndarnefndar B svipt forsjá dóttur sinnar með dómi Héraðsdóms B, uppkveðnum 25. nóvember 2020. Landsréttur staðfesti dóm héraðsdóms þann 30. apríl 2021. Barnaverndarnefnd B hefur gert þær kröfur fyrir dómi að kærandi verði sviptur forsjá stúlkunnar. Kærandi er kynfaðir stúlkunnar.

Fjallað var um umgengni kæranda við stúlkuna í tímabundnu fóstri á fundi Barnaverndarnefndar B þann 6. október 2020 og úrskurðaði barnaverndarnefndin í málinu 13. október 2020. Samkvæmt úrskurðinum átti umgengni að fara fram einu sinni í mánuði í þrjár klukkustundir í senn. Kærandi kærði úrskurð nefndarinnar til úrskurðarnefndar velferðarmála sem felldi úrskurðinn úr gildi.

Mál stúlkunnar var tekið fyrir að nýju á fundi Barnaverndarnefndar B þann 16. mars 2021. Fyrir þeim fundi lá fyrir greinargerð starfsmanna barnaverndar, dags. 9. mars 2021. Úrskurður var kveðinn upp í málinu þann 25. mars 2021. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

Barnaverndarnefnd B ákveður að A, hafi umgengni við D, einu sinni í mánuði í fjórar klukkustundir í senn á meðan forsjársviptingarmál er rekið fyrir dómstólum. Umgengni fari fram á heimili föður og föðurömmu eða öðrum fyrirfram ákveðnum stað sem aðilar koma sér saman um.“

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 31. mars 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 6. apríl 2021, var óskað eftir greinargerð Barnaverndarnefndar B ásamt gögnum málsins. Greinargerð Barnaverndarnefndar B barst nefndinni þann 3. maí 2021 og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 18. maí 2021, var hún send lögmanni kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að úrskurður Barnaverndarnefndar B verði felldur úr gildi og málinu verði vísað aftur til nýrrar meðferðar hjá barnaverndarnefnd.

Stúlkan D sé dóttir kæranda og E og þau fari sameiginlega með forsjá stúlkunnar en nú séu rekin mál gegn þeim báðum fyrir Héraðsdómi B þar sem þess sé krafist að þau verði svipt forsjá stúlkunnar. Málin séu rekin hvort í sínu lagi þar sem ávallt hafi verið stefnt að því að stúlkan yrði í umsjá föður síns þar til nýlega þegar gerð hafi verið krafa um að hann yrði einnig sviptur forsjá.

Kærandi og móðir stúlkunnar hafi verið í sambúð þar til stúlkan hafi orðið þriggja mánaða en þá hafi hún flutt með móður til móðurömmu. Þar hafi kærandi notið umgengni aðra hvora helgi. Eftir að stúlkan flutti með móður sinni hafi barnavernd borist fjölmargar tilkynningar vegna áhyggja í umsjá móður og andlegs óstöðugleika hennar. Í september 2019 hafi stúlkan farið á F, vistheimili barna, með stuðningi á vegum barnaverndar. Fyrst um sinn hafi móðir verið með stúlkunni á F en í október 2019 hafi kærandi alfarið tekið við umsjá stúlkunnar inni á F.

Það hafi fljótlega orðið ljóst að kærandi þyrfti stuðning og fræðslu til að aðstoða hann við uppeldi dóttur sinnar. Kærandi hafi verið að verða faðir í fyrsta skipti og stúlkan hafi að mestu verið í umsjá móður. Þá sé kærandi greindur bæði með […]. Á F hafi kærandi og dóttir hans fengið nauðsynlegan stuðning og leiðbeiningar. Kærandi hafi sýnt miklar framfarir og tekist að tileinka sér flest það sem hafi verði lagt fyrir hann af hálfu starfsmanna F á þeim tveimur til þremur mánuðum sem hann dvaldi þar með dóttur sinni.

Í janúar 2020 hafi mál stúlkunnar verið tekið fyrir hjá barnavernd og lagt til að móðir myndi afsala sér forsjá stúlkunnar, ella yrði hún svipt forsjánni. Þar sem vel hafi gengið hjá kæranda og dóttur hans hafi verið lagt upp með að kærandi myndi flytja með stúlkuna af F í eigin íbúð en njóta stuðnings inni á heimilinu. Einnig hafi kærandi og dóttir hans notið aðstoðar frá stuðningsfjölskyldu sem stúlkan dvaldi hjá fjóra daga í mánuði.

Stuðningurinn við heimili kæranda hafi gengið vel, enda hafi hann alltaf verið samvinnufús. Þar að auki hafi móðir kæranda flutt inn á heimilið og veitt þar aðstoð eftir fremsta megni. Þá hafi systir kæranda komið til landsins og einnig veitt stuðning eftir fremsta megni. Kærandi sé í fullri vinnu hjá G, sé að hitta sálfræðing og reyni að þiggja og nýta allan þann stuðning sem honum hafi staðið til boða.

Vegna Covid-19 faraldursins hafi komið bakslag í þann stuðning sem kærandi og dóttir hans hafi notið. Óumdeilt sé í málinu að stuðningurinn hafi borið árangur og að kærandi hafi sýnt framfarir en að mati starfsmanna barnaverndar hafi það gengið of hægt og því verið óskað eftir því að kærandi myndi gangast undir endurmat á forsjá. Kærandi hafi verið samþykkur því að undirgangast slíkt mat, enda bæði í hans þágu og dóttur hans að greina hvaða stuðningsúrræði geti nýst þeim best. Vegna skýrslna frá starfsmanni H, sem hafði veitt stuðning inni á heimili kæranda, um áhyggjur af tengslaröskun hjá barninu hafi það einnig verið mat barnaverndar að nauðsynlegt væri að vista barnið utan heimilis á meðan endurmat á forsjárhæfni færi fram. Að lokum hafi stúlkan verið vistuð utan heimilis kæranda í tvo mánuði og umgengni kæranda við barnið ákveðin tvisvar í mánuði í þrjá tíma í senn.

Kærandi hafi verið ósáttur við umgengnina eins og hún hafi verið ákveðin þegar stúlkan hafi verið tekin af heimili hans, ekki síst í ljósi þess að meðal þeirra þátta sem hafi átt að endurmeta væru tengsl hans og barnsins en þegar svo ungt barn eigi í hlut sé óhjákvæmilegt að sú mynd skekkist þegar barnið sé tekið út af heimilinu og hitti ekki föður sinn nema í þrjá tíma í senn á tveggja vikna fresti. Kærandi hafi þó áfram sýnt samstarfsvilja og umgengni gengið vel frá því að barnið hafi verið tekið af heimili kæranda. Kærandi og móðir hans hafi ávallt sinnt umgengni og unnið hana í sátt við vistforeldra og barnavernd.

Mál sé nú rekið fyrir Héraðsdómi B þar sem farið sé fram á að kærandi verði sviptur forsjá stúlkunnar. Enn sé óljóst hvort stúlkan snúi aftur á heimili kæranda eða hvort hún fari í varanlegt fóstur. Kærandi hafi óskað eftir dómkvaðningu matsmanns til að endurmeta forsjárhæfni hans þar sem hann telji fyrirliggjandi mat svo gallað í veigamiklum atriðum að ekki sé rétt að byggja á því. Héraðsdómur hafi hafnað beiðninni en Landsréttur hafi snúið þeim úrskurði við og nú sé matsferli í gangi þar sem verið sé að meta forsjárhæfni kæranda að nýju, meðal annars með tilliti til þeirra úrræða sem kveðið sé á um í lögum nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Ekki hafi verið tekið tillit til þeirra úrræða í fyrri greinargerðum sem framkvæmdar hafi verið af hálfu barnaverndar. Þá hafi móðir kæranda sótt um leyfi til að gerast fósturforeldri svo að hún geti tekið við forsjá barnsins ef svo færi að kærandi verði sviptur henni. Hún hafi fengið jákvæða umsögn frá Barnavernd I og ekkert sé því til fyrirstöðu að hún gerist fósturforeldri.

Kærandi hafi óskað eftir rýmri umgengni við dóttur sína undir rekstri málsins en barnaverndarnefnd hafi ekki fallist á þá ósk. Þá hafi móðir kæranda einnig óskað eftir umgengni við barnið en ekki hafi verið orðið við þeirri beiðni heldur talið nægja að hún nyti umgengni við kæranda. Úrskurðarnefnd velferðarmála hafi áður haft mál stúlkunnar til meðferðar, en með úrskurði nefndarinnar frá 12. febrúar 2021 í máli nr. 528/2020 hafi úrskurður Barnaverndarnefndar B frá 13. október 2020 verið felldur úr gildi. Í það skipti hafði barnaverndarnefnd úrskurðað um að umgengni skyldi vera einu sinni í mánuði í þrjá tíma í senn. Úrskurðarnefnd hafi fallist á sjónarmið kæranda um að varakrafa hans um umgengni við stúlkuna tvisvar í mánuði í þrjár klukkustundir í senn væri hófleg og ekki til þess fallin að raska markmiðum tímabundins fósturs eða hagsmunum barnsins.

Kærandi hafi mætt fyrir fund barnaverndarnefndar þann 16. mars 2021 ásamt lögmanni þar sem málið hafi verið tekið fyrir að nýju. Þar hafi kærandi farið fram á að umgengni yrði aukin verulega með vísan til breyttra aðstæðna. Kærandi hafi aðallega farið fram á að umgengni færi fram allar helgar og að barnið myndi gista að minnsta kosti eina nótt til að byrja með. Til vara hafi kærandi farið fram á að umgengni færi fram aðra hvora helgi og að stúlkan myndi gista að minnsta kosti eina nótt. Ef svo færi að barnaverndarnefnd teldi ekki rétt að stúlkan myndi gista fyrst um sinn hafi kærandi farið fram á það til þrautavara að umgengni yrði einu sinni í viku, sex klukkustundir í senn. Til þrautaþrautavara hafi kærandi farið fram á að umgengni yrði aukin umfram það sem kveðið hafi verið á um og umfram það sem lagt hafi verið til í tillögu barnaverndar. Í þeim efnum hafi verið vísað til þess að rétt væri að umgengni yrði að minnsta kosti tvisvar í mánuði líkt og úrskurðarnefnd velferðarmála hafi talið hóflegt samkvæmt úrskurði sínum í máli nr. 528/2020.

Barnaverndarnefnd hafi bæði virt úrskurð úrskurðarnefndar og kröfur kæranda að vettugi þar sem hinn kærði úrskurður kveði aðeins á um eina klukkustund til viðbótar við mánaðarlega umgengni. Kærandi njóti því áfram umgengni einu sinni í mánuði en nú í fjórar klukkustundir í stað þriggja.

Kærandi telji sig njóta of lítillar umgengni og í of skamman tíma í senn. Kærandi hafi áður kært sambærilega niðurstöðu barnaverndarnefndar, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 528/2020. Nefndin hafi tekið að miklu leyti undir sjónarmið kæranda í málinu og virst beina því til barnaverndarnefndar að varakrafa kæranda um umgengni tvisvar sinnum í mánuði í þrjár klukkustundir í senn væri hófleg. Barnavernd hafi á hinn bóginn farið fram á nánast sömu umgengni aftur fyrir barnaverndarnefnd en hafi þó bætt við einni klukkustund við hvert skipti. Tillögur barnaverndar, sem barnaverndarnefnd hafi fallist á, virðast grundvallast á eldri greinargerðum og afstöðu fósturforeldra. Í þeim efnum sé meðal annars fallist á skoðun fósturforeldra um að ekki sé tilefni til að fjölga skiptum heldur fremur lengja hvert skipti.

Kærandi byggi kröfur sínar á öllum sömu málsástæðum og gert hafi verið fyrir úrskurðarnefnd velferðarmála í máli nr. 528/2020. Ákvörðun barnaverndarnefndar sé nær alfarið sú sama og telji kærandi hinn nýja úrskurð háðan sömu annmörkum og sá fyrri. Umgengni hans og móður hans við barnið sé of lítil og engin haldbær rök séu fyrir eins lítilli umgengni og raun beri vitni. Farið sé gegn ráðum sérfræðinga um að æskilegt sé að tryggja ríka umgengni kæranda við barnið, ef til vistunar utan heimilis komi. Afstaða þessi komi fram í ýmsum gögnum sem barnavernd hafi látið vinna einhliða undir rekstri málsins.

Frá síðustu kæru kæranda hafi ýmislegt breyst sem leitt hafi til þess að kærandi hafi farið fram á mun rýmri umgengni fyrir barnaverndarnefnd en áður. Fyrir liggi að nú sé vinna hafin við að meta forsjárhæfni kæranda að nýju eftir að Landsréttur sneri við úrskurði héraðsdóms þar sem beiðni kæranda hafi verið hafnað. Kærandi sé vongóður um góða niðurstöðu og bindi vonir við það að hann verði ekki sviptur forsjá með dómi. Óvíst sé hvað verði en fari svo að kærandi verði sviptur forsjá telji hann liggja beinast við að móðir sín fari með forsjá barnsins. Hún hafi sótt um leyfi til að verða fósturforeldri og fengið góða umsögn frá Barnaverndarnefnd I. Þess beri að geta að móðir kæranda hafi á sínum tíma farið fram á að barnið yrði í hennar umsjá undir rekstri málsins. Þeirri beiðni hafi verið hafnað, meðal annars á þeim grundvelli að móðir kæranda hafi ekki leyfi til að vera fósturforeldri og að þörf væri að meta hæfi hennar og aðstæður. Nú liggi sú umsögn fyrir og því geti barnaverndaryfirvöld ekki lengur borið þessa ástæðu fyrir sig. Kærandi hafi alla tíð sagt að hann muni flytja af heimilinu ef það yrði gert að skilyrði fyrir því að barnið færi í umsjá móður hans. Barnavernd virðist á hinn bóginn ekki hafa mikinn áhuga á að ræða og skoða þennan möguleika. Nú þegar barnið hafi verið hjá fósturforeldrum í nokkra mánuði virðast þeirra viðhorf skipta meira máli en réttur barnsins til þess að þekkja uppruna sinn og alast upp hjá sinni nánustu fjölskyldu. Kærandi byggi á því að ef sýnt sé fram á að unnt sé að tryggja stöðugleika og öryggi barnsins hjá sinni nánustu fjölskyldu þá mæli hagsmunir barnsins með því að barnið sé í umsjá fjölskyldumeðlims. Það að líta fram hjá ömmu barnsins, sem sé hæfur uppalandi, og fela fremur utanaðkomandi aðilum umsjá þess brjóti gegn grundvallarreglu stjórnsýsluréttar um meðalhóf.

Þótt kæra þessi snúi ekki beinlínis að möguleikanum á því að barnið fari í fóstur hjá móður kæranda eða umgengni hennar sem slíkri þá tengist þetta óhjákvæmilega þar sem umgengni kæranda og móður hans fari fram saman á heimili hennar. Framkvæma þurfi heildarmat á hagsmunum barnsins til framtíðar. Barnaverndaryfirvöld hafi víðtækar heimildir til að fylgjast með umgengni og gæta þess að stúlkan sé örugg, auk þess sem ekkert sé fram komið sem gefi til kynna að hagsmunum stúlkunnar sé raskað með einhverju móti með rúmri umgengni við föður sinn og ömmu. Þvert á móti virðist stúlkan og glöð að hitta þau bæði og umgengni gangi almennt vel.

Í ljósi aðstæðna telji kærandi nauðsynlegt að umgengni barnsins við föðurfjölskyldu verði aukin strax. Það sé besta leiðin til að tryggja stöðugleika barnsins og mun æskilegri heldur en að barnið sé áfram nær alfarið í umsjá fósturforeldra sem það muni að öllum líkindum ekki alast upp hjá. Umgengni í því horfi sem hún sé í dag sé á hinn bóginn til þess fallin að raska tengslum barnsins við föðurfjölskyldu sína. Markmið tímabundins fósturs sé að styrkja ekki tengsl barnsins við fósturfjölskyldu eða raska tengslum við forsjáraðila. Þvert á móti sé markmið tímabundins fósturs, meðal annars að búa svo um að barn geti snúið aftur inn á heimili sitt. Nú sé búið að sýna fram á að það sé raunhæft að barnið komi til með að njóta forsjár eins af sínum nánustu ættingjum. Hver sem niðurstaða málsins fyrir héraðsdómi verði sé ljóst að fari svo að kærandi verði sviptur forsjá þá vilji föðuramma barnsins taka við forsjánni. Umgengni kæranda fari nú þegar fram með móður hans á heimili hennar og ekkert sé því til fyrirstöðu að umgengni þeirra beggja verði aukin verulega þegar í stað.

Kærandi telji hinn kærða úrskurð illa rökstuddan og í allra besta falli séu engin rök þar að finna sem styðji þá niðurstöðu barnaverndarnefndar að líta fram hjá forsendum úrskurðar í máli nr. 528/2020. Hinn kærði úrskurður horfi að miklu leyti til frásagna fósturforeldra, líkt og tillaga barnaverndar. Í þeim efnum sé meðal annars vísað til þess að barnið sofi lengi eftir umgengni og sýni öðruvísi hegðun gagnvart fósturforeldrum. Kærandi telji ekki rétt að draga of miklar ályktanir af þessari frásögn fósturforeldra. Það liggi fyrir að umgengni sé jafnan að fara fram í kringum hádegi og skarist þar af leiðandi á við svefntíma barnsins. Eðli málsins samkvæmt sofi barnið ekki vel í umgengni, enda færi þá í raun engin umgengni fram. Því sé ekkert óeðlilegt við það að barnið sofni í kjölfar umgengni og sofi ef til vill eitthvað lengur en vanalega. Þá sé enn fremur ekki hægt að draga of miklar ályktanir af breyttri hegðun gagnvart fósturforeldrum fyrst um sinn eftir umgengni. Stúlkan sé að koma úr umgengni við föður sinn sem hún hafi myndað tengsl við fyrstu mánuði ævi sinnar. Það sé ekki útilokað að stúlkan sé hreinlega að bregðast illa við því að vera sífellt tekin frá föður sínum eftir skamma stund. Þess utan sé vel þekkt að börn hagi sér öðruvísi eftir að hafa farið í heimsóknir til annarra þar sem ef til vill gildi aðrar reglur og viðmið. Megi sem dæmi nefna heimsóknir til afa og ömmu sem geti haft áhrif á daglegar venjur.

Tillaga barnaverndar og hinn kærði úrskurður beri þess merki að verulegt tillit hafi verið tekið til afstöðu fósturforeldra í máli þessu. Megi í þeim efnum meðal annars benda á niðurstöðu um að fjölga ekki skiptum heldur fremur lengja tíma umgengni hverju sinni sé í samræmi við afstöðu fósturforeldra. Samkvæmt 74. gr. a. bvl. skuli kanna viðhorf fósturforeldra við ákvörðun um umgengni en þeir teljist þó ekki aðilar málsins í þeim tilfellum sem um tímabundið fóstur sé að ræða. Með vísan til þessa telji kærandi varhugavert að byggja í of miklum mæli á afstöðu fósturforeldra. Þá sé einnig varhugavert að draga þá ályktun að aukinn þroski stúlkunnar sé tilkominn vegna fósturforeldra. Það þurfi að hafa í huga að stúlkan sé á aldri þar sem þroski eykst verulega, enda séu börn á þessum aldri að læra að ganga, tala og eiga samskipti við annað fólk. Sem dæmi eigi sér stað mikið þroskastökk við það eitt að byrja á leikskóla og þótt fósturforeldrar barnsins standi sig eflaust vel sé ekki unnt að skrifa allt jákvætt í fari barnsins á þeirra aðkomu. Jafnframt sé rétt að benda á að fósturforeldrar séu ekki sérfróðir aðilar og beri þar af leiðandi ekki að taka vangaveltur þeirra umfram mat sérfróðra aðila um að tryggja þurfi ríka umgengni við kæranda.

Kærandi sé sammála vísun hins kærða úrskurðar til þess að tryggja þurfi stöðugleika í lífi stúlkunnar. Kærandi sé á hinn bóginn ósammála því að rétt sé að tryggja þennan stöðugleika með því að vista stúlkuna hjá fósturforeldrum og lágmarka umgengni við sig og ömmu barnsins. Það virðist sem svo að hreinlega sé gengið út frá því að stúlkan verði varanlega hjá fósturforeldrum og því sé rétt að tryggja stöðugleika stúlkunnar í þeirra umsjá. Með vísan til alls þess, sem hafi verið rakið hér að framan, sé ljóst að þetta sé ekki raunin. Rök standi fremur til þess að stúlkan muni ekki koma til með að vera áfram hjá núverandi fósturforeldrum. Kærandi sé vongóður um að hann geti farið með forsjá stúlkunnar en ef niðurstaðan verði sú að hann teljist ekki fær til þess þá liggi fyrir að amma stúlkunnar muni óska þess að taka við forsjánni. Kærandi fái því ekki séð hvernig hagsmunir barnsins séu best tryggðir með því að kveða á um eins litla umgengni og raun beri vitni, ekki nema það sé hreinlega stefnt að því að stúlkan verði áfram í varanlegu fóstri hjá fósturforeldrum og því sé talið rétt að styrkja tengsl stúlkunnar við þá. Það þætti kæranda undarleg nálgun á þessu stigi málsins. Kærandi fái ekki séð að rýmri umgengni raski stöðugleika og ró stúlkunnar. Þvert á móti gæti það raskað hagsmunum stúlkunnar ef kæranda og ömmu sé því næst sem kippt út úr lífi hennar áður en endanleg niðurstaða fáist í málið.

Kærandi telji nauðsynlegt að minnast á að upphaf þess að barnavernd hafi talið þörf á endurmati á forsjárhæfni kæranda í kjölfar fyrsta matsins hafi verið skýrslur starfsmanns Ylfu ehf. þar sem því hafi verið lýst að stúlkan sýndi merki tengslaröskunar. Þetta hafi þótt vera alvarlegt merki um að það væri nauðsynlegt að koma stúlkunni úr umsjá kæranda og stúlkan væri sökum þessa vistuð utan heimilis á meðan forsjárhæfni kæranda hafi verið endurmetin. Þegar nýtt mat hafi legið fyrir hafi komið í ljós að matsmaður hafi blásið á þessar áhyggjur og talið engin merki tengslaröskunar til staðar. Kærandi sé ekki sáttur við það hvernig þetta mat hafi farið fram og niðurstöður þess, enda byggi það ekki á neinum mælanlegum prófum, en þar sé þó komist að þeirri niðurstöðu að stúlkan sé ekki haldin tengslaröskun sem eitt og sér sé til marks um að stúlkunni stafi engin hætta á umgengni við kæranda og líklega hafi ekki verið þörf á að grípa til eins róttækra úrræða og gert hafi verið þegar stúlkan hafi verið vistuð utan heimilis tímabundið.

Kærandi byggi kröfur sínar á því að barn eigi rétt á umgengni við kynforeldra sína og aðra sem séu því nákomnir, sbr. 1. mgr. 74. gr. bvl. Sá réttur sé í samræmi við mannréttindaákvæði og alþjóðasamninga sem Ísland hafi fullgilt. Kærandi byggi jafnframt á því að kynforeldrar eigi rétt á umgengni við barn í fóstri nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins, samkvæmt 2. mgr. 74. gr. bvl. Kærandi bendi á að réttur barns til að njóta umgengni við kynforeldra sína sé sérstaklega ríkur, enda komi fram í greinargerð með frumvarpi sem varð að barnaverndarlögum að „ef neita á um umgengnisrétt með öllu eða takmarka hann verulega verður þannig að sýna fram á að hann sé bersýnilega andstæður hagsmunum barnsins“. Kærandi telji að ekkert sé fram komið sem sýni að rýmri umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum stúlkunnar. Þá telji kærandi að markmið fósturs standi ekki í vegi fyrir kröfum hans þar sem kröfurnar feli í sér mjög hóflega aukningu á umgengni og séu ekki til þess fallnar að raska markmiðum þess fósturs sem nú standi yfir. Þvert á móti telji kærandi rök standa til þess að réttara sé að tryggja stöðugleika til lengri tíma með því að lengja umgengni stúlkunnar við kæranda og móður hans. Það sé mikilvægt að hafa í huga að stúlkan sé enn í tímabundnu fóstri og mikilvægt að raska ekki tengslum kæranda og stúlkunnar þar sem óljóst sé hver niðurstaða málsins verði fyrir dómstólum. Að sama skapi sé mikilvægt að raska ekki tengslum stúlkunnar við ömmu sína ef til þess komi að hún taki við forsjá barnsins. Kröfur kæranda byggi því einnig á meginreglu barnaverndarlaga um að hagsmunir barnsins skuli ávallt hafðir í fyrirrúmi, sbr. 1., 3., og 4. mgr. 4. gr. laganna.

Kærandi byggi kröfu sína jafnframt á því að stúlkan hafi aldrei verið í hættu stödd í umgengni né hafi hún komist í uppnám í tengslum við umgengni við kæranda og ömmu sína. Kærandi telji sig hafa getu og hæfni til að sinna dóttur sinni í umgengni og að innsæi hans í þarfir dóttur sinnar sé dýpra en nokkurn tímann áður. Kærandi sé reglusamur og nýti sér ýmis stuðningsúrræði til að halda áfram að standa sig og bæta. Móðir kæranda, amma barnsins, búi hjá honum og veiti honum kærkominn stuðning í daglegu lífi og þegar umgengni fari fram. Hún hafi fengið góða umsögn Barnaverndar I vegna umsóknar sinnar um leyfi til að gerast fósturforeldri og ljóst sé að hún sé hæf til að sjá um stúlkuna. Kærandi elski dóttur sína og sýni henni mikla ástúð og umhyggju. Það hafi reynst kæranda erfitt að vera svo mikið frá dóttur sinni og það sé einlægur vilji hans að fá að umgangast dóttur sína meira en hann geri nú. Kærandi vilji í þeim efnum vera í fullu samstarfi við barnavernd og vistforeldra. Kærandi telji í öllu falli ljóst að ekkert tilefni sé til að hafa umgengni eins litla og raun beri vitni.

Kærandi telji, með vísan til alls framangreinds, að ekkert sé því til fyrirstöðu að fallist verði á kröfu hans um aukna umgengni. Um sé að ræða hóflega kröfu sem sé ekki til þess fallin að raska markmiðum þess tímabundna fósturs sem sé enn í gildi eða hagsmunum barnsins. Þótt stefnt sé að varanlegu fóstri af hálfu barnaverndar, verði á þessu stigi málsins að gera ráð fyrir þeim möguleika að stúlkan snúi aftur í umsjá kæranda. Ekkert í málinu bendi til þess að umgengni kæranda við stúlkuna raski hagsmunum hennar, hvorki öryggi hennar né stöðugleika. Enn síður bendi nokkuð til þess að stúlkan geti borið skaða af umgengni við kæranda.

III.  Sjónarmið Barnaverndarnefndar B

Í greinargerð Barnaverndarnefndar B kemur fram að um sé að ræða tæplega X ára stúlku sem lýtur forsjá föður síns. Móðir stúlkunnar hafi verið svipt forsjá hennar þann 25. nóvember 2020 með dómi Héraðsdóms B. Landsréttur staðfesti dóminn þann 30. apríl 2021.  Barnaverndarnefnd B hafi gert þær kröfur fyrir dómi að faðir stúlkunnar verði jafnframt sviptur forsjá hennar, sbr. bókun nefndarinnar frá 1. september 2020.

Fjallað hafi verið um umgengni föður við stúlkuna í tímabundnu fóstri á fundi Barnaverndarnefndar B þann 6. október 2020 og úrskurðaði nefndin í málinu þann 13. október sama ár. Samkvæmt úrskurðinum átti umgengni að fara fram einu sinni í mánuði í þrjár klukkustundir í senn. Faðir stúlkunnar kærði úrskurð nefndarinnar til úrskurðarnefndar velferðarmála sem felldi úrskurðinn úr gildi. Í niðurstöðu úrskurðarnefndar, dags. 16. febrúar 2020, hafi meðal annars verið vísað í niðurstöðu tveggja matsmanna sem segi mikilvægt að telpan eigi umgengni við föður vegna fyrri tengsla þeirra. Þá segi jafnframt að fósturforeldrar hafi ekki verið mótfallnir umgengni telpunnar við föður sem hafi verið til staðar áður en barnavernd úrskurðaði um umgengni þann 13. október 2020.

Samkvæmt barnaverndarlögum eiga fósturforeldrar ekki aðild að barnaverndarmáli á meðan um tímabundna fósturvistun sé að ræða. Fósturforeldrar búi þó yfir mikilvægum upplýsingum um líðan barna í fóstri og séu þær upplýsingar hluti af þeim gögnum sem tekið sé tillit til þegar starfsmenn móti tillögur að fyrirkomulagi umgengni í fóstri. Þegar úrskurðað hafi verið í máli stúlkunnar þann 13. október 2020 hafði hún verið í umsjá fósturforeldra sinna frá 17. júlí 2020, eða í tæpa þrjá mánuði. Fósturforeldrar höfðu lýst erfiðri líðan stúlkunnar í kjölfar umgengni hennar við föður og greint hafi verið frá þeim lýsingum í greinargerð starfsmanns sem og úrskurði barnaverndarnefndar þann 13. október 2020.

Í kjölfar þess að úrskurðarnefnd felldi úr gildi úrskurð Barnaverndarnefndar B þann 16. febrúar 2020 hafi verið fjallað um mál stúlkunnar að nýju á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar B og bókað um málið þann 4. mars 2021. Stúlkan hafði þá verið í umsjá fósturforeldra í tæpa átta mánuði og átt reglulega umgengni við föður og föðurömmu. Í bókun meðferðarfundar kemur fram að faðir hafi óskað eftir umgengni einu sinni í viku í sex klukkustundir í senn. Þá segir að fósturforeldrar lýsi erfiðri líðan stúkunnar í kjölfar umgengni og að það taki stúlkuna allt að viku að jafna sig, hún sofi illa, eigi erfitt með að kveðja fósturfeður á leikskólanum og sé ónóg sjálfri sér. Í bókun meðferðarfundar hafi verið lagt til að umgengni yrði aukin um klukkustund í senn og yrði þannig einu sinni í mánuði í fjórar klukkustundir. Faðir hafi ekki fallist á tillögur starfsmanna, málið hafi verið lagt fyrir fund Barnaverndarnefndar B þann 16. mars 2021 og hinn kærði úrskurður kveðinn upp þann 25. mars 2021.

Í niðurstöðu úrskurðar segir meðal annars:

„Að mati barnaverndarnefndar ber þannig að horfa til frásagna fósturforeldra af líðan telpunnar í kjölfar umgengni. Þá verður einnig ekki framhjá því litið sem fram kemur í seinna forsjárhæfnimati sem framkvæmt var á föður varðandi hegðun og líðan telpunnar í umsjá föður en matsmaður hafði m.a. áhyggjur af mögulegum þroskafrávikum telpunnar eftir að hafa fylgst með henni í umsjá föður. Stúlkan sýndi erfiða hegðun í umsjá föður, tjáði sig með öskrum og bendingum. Í umsjá fósturforeldra lýsti matsmaður telpunni sem mjög rólegri, hún dundaði sér, öskraði ekkert og sat í fangi fósturforeldra. Matsmaður varð aldrei var við neitt af þeirri hegðun telpunnar sem hún viðhafði í umgengni við föður þegar hún var í umsjá fósturforeldra sinna. Barnaverndarnefnd telur að tillögur starfsmanna um umgengi föður við telpuna einu sinni í mánuði í fjórar klukkustundir í senn séu til þess fallnar að komið sé til móts við tilmæli þeirra sérfræðinga sem mælt hafa með því að faðir hafi umgengi við telpuna vegna þeirra fyrri tengsla.“

Frá því að barnaverndarnefnd kvað upp úrskurð sinn þann 25. mars síðastliðinn hafi stúlkan átt umgengni við föður í samræmi við niðurstöðu úrskurðarins. Samkvæmt upplýsingum frá fósturforeldrum stúkunnar sé líðan stúlkunnar ekki góð í kjölfar umgengni. Í dagálsnótu, dags. 26. apríl síðastliðinn, lýsa fósturfeður krefjandi hegðun stúlkunnar og vanlíðan í kjölfar umgengninnar.

Í niðurstöðu úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 16. febrúar 2021, þar sem úrskurður Barnaverndarnefnar B um umgengni föður við stúlkuna var felldur úr gildi sé meðal annars vísað til þess að ekki liggi fyrir endanlegt mat á forsjárhæfni föður. Nýtt forsjárhæfnimat barst Barnavernd B þann 29. apríl 2021. Í niðurstöðu matsins komi fram að faðir sé mjög háður móður sinni varðandi marga grunnþætti daglegs lífs. Þar sé að finna lýsingar á hegðun stúlkunnar og líðan þegar fósturvistun hennar hófst. Þar segir að við þær uppeldisaðstæður sem stúlkan hafi búið við í umsjá föður hafi vaknað áhyggjur um slaka tilfinningastjórnun stúlkunnar og að birst hafi einkenni sem talið hafi verið sambærileg þeim sem koma fram hjá börnum með tengslaröskun og einhverfu. Þá sé greint frá því að lýsingar á stúlkunni þegar hún kom í fóstur bendi til þess að stúlkan hafi ekki verið á góðum stað í þroska og verulega mörgu verið ábótavant. Hún hafi tekið stórstígum framförum að mati þeirra sem til hennar þekkja og ekki beri lengur á þeim einkennum sem áhyggjur voru af fyrir ári síðan.

Í niðurstöðu forsjárhæfnimatsins segir einnig að föður skorti alla grunnfærni sem viðkemur því að ala upp barn og hann tileinki sér þá færni hægt. Þá sé einnig bent á að erfitt sé að tala um foreldrafærni einstaklings sem sé háður eigin foreldri með marga grunnþætti daglegs lífs.

Í svari matsmanns varðandi þá spurningu hvort önnur úrræði en forsjársvipting gætu komið að gagni til að tryggja velferð barnsins, sé á það bent að sá aðili sem á hvað mest undir í málinu sé stúlkan sjálf. Bendir matsmaður á að stúlkan hafi búið á ólíkum heimilum og hún hafi verið farin að sýna alvarleg einkenni tengslaröskunar, jafnvel einhverfueinkenni. Hjá fósturforeldrum hafi borið á þessum einkennum í fyrstu og allt hafi bent til vanrækslu, en fljótlega hafi orðið framfarir hjá stúlkunni og staða hennar sé sérlega góð í dag.

Matsmaður segir að íhuga þurfi vel hvort færa eigi stúlkuna aftur í þær aðstæður sem hún var í fyrir ári síðan. Með þeirri ákvörðun væri verið að taka hana úr aðstæðum, sem hún býr við núna þar sem hún vex og dafnar, í tilraunaskyni og von um að það myndi ganga betur. Matsmaður eigi erfitt með að réttlæta þá ákvörðun og telji slíka ákvörðun ekki í samræmi við velferð barnsins.

Að mati Barnaverndar B sé erfitt að sjá hvernig rökstyðja eigi þá ákvörðun að stúlkan fari á ný í umsjá föður ef horft sé til þeirra þriggja mata sem gerð hafa verið á forsjárhæfni föður. Þegar fyrsta mat, sem faðir undirgekkst og dagsett sé 2. desember 2019 hafi verið framkvæmt, var faðir enn með stúlkunni á F, vistheimili barna, og sagði matsmaður föður ekki getað búið stúlkunni viðunandi aðstæður án aðstoðar og mælti matsmaður með því að faðir færi ekki einn með stúlkuna heim af F. Annað matið, sem faðir undirgekkst og dagsett sé 20. ágúst 2020, hafi verið framkvæmt eftir að faðir fór með stúlkuna af F og hafði notið víðtæks stuðnings inn á heimili sitt. Faðir hafi ekki verið talinn búa yfir nægri hæfni til að annast stúlkuna. Niðurstöður þriðja matsins, dags. 25. apríl síðastliðinn, hafa verið reifaðar hér að framan og fela í sér að faðir sé ekki metinn hæfur til að annast stúlkuna.

Markmiðið í þessu máli, og í samræmi við úrskurð barnaverndarnefndar þann 1. september 2020, sé að stúlkan fari í varanlegt fóstur. Í ljósi þess sé lögð áhersla á að hún upplifi öryggi og ró á fósturheimilinu. Meta verði umgengni með hliðsjón af hagsmunum stúlkunnar fyrst og fremst.

Í tilvitnuðu forsjárhæfnismati, dags. 25. apríl 2021, taki matsmaður undir þá hugsun sem fram komi í fyrri forsjárhæfnismötum sem faðir hefur gengist undir þar sem segi að fari stúlkan í fóstur sé mælt með að faðir hafi rúma umgengni við hana, umfram það sem gengur og gerist í svona málum. Matsmaður segir að föður og stúlkunni líði vel saman og samverustundir þeirra á milli ættu að geta verið þroskandi og gefandi fyrir báða aðila. Mikilvægt sé að það ríki sátt og samvinna um útfærslu á þessu.

Með hliðsjón af öllu framansögðu er það mat barnaverndar að ákvörðun um umgengni sem tekin hafi verið á fundi barnaverndarnefndar þann 25. mars 2021 samræmist hagsmunum stúlkunnar vel. Mánaðarleg umgengni í tímabundnu fóstri í fjórar klukkustundir í senn sé að mati barnaverndar hæfileg, sérstaklega ef horft sé til líðanar stúlkunnar og hegðunar í kjölfar umgengninnar.

Barnavernd ítreki það sem áður hafi komið fram og bendi á að með ákvörðun Barnaverndarnefndar B þann 1. september 2020 hafi orðið sú breyting í vinnslu málsins að ekki væri stefnt að því að stúlkan færi aftur í umsjá kæranda heldur væri stefnt að því að hún alist upp í varanlegu fóstri hjá núverandi fósturforeldrum. Í ljósi þess sé lögð áhersla á að hún upplifi öryggi og ró á fósturheimilinu og sé það mat nefndarinnar að rýmri umgengni en úrskurðað hafi verið um geti raskað ró telpunnar og stefnt í hættu þeim stöðugleika sem reynt hafi verið að tryggja henni á fósturheimilinu. Þegar nauðsynlegt sé að vista svo ungt barn utan heimilis, án þess að vitað sé hvað framtíðin beri með sér, sé mikilvægt að vistunin raski sem minnst ró og öryggi barnsins. Mikil umgengni við kynforeldri á óvissutímum geti haft í för með sér hættu á að barnið upplifi kvíða og spennu. Ungur aldur stúlkunnar hafi í för með sér að hún ráði illa við breytingar og geti ekki tjáð sig sjálf um eigin hag.

Umgengni samkvæmt 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 þurfi að ákvarða í samræmi við hagsmuni og þarfir stúlkunnar. Rétturinn til umgengni og umfang hans geti verið takmarkaður og háður mati á hagsmunum hennar þar sem meðal annars beri að taka tillit til markmiðanna sem stefnt sé að með fósturráðstöfuninni og hversu lengi fóstri sé ætlað að vara.  Fari hagsmunir telpunnar og kæranda ekki saman verði hagsmunir kæranda að víkja, sbr. 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Það sé mat Barnaverndarnefndar B að umgengni telpunnar við kæranda hafi verið hæfilega ákveðin með hinum kærða úrskurði nefndarinnar frá 25. mars 2021.  

Í ljósi alls framangreinds, gagna málsins og með hagsmuni stúlkunnar að leiðarljósi sé gerð krafa um að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

IV. Afstaða fósturforeldra

Í greinargerð starfsmanna Barnaverndar B, dags. 9. mars 2021, kemur fram að fósturforeldrar telji að umgengni einu sinni í mánuði þjóni hagsmunum stúlkunnar og tíðari umgengni raski ró stúlkunnar. Ef lengja eigi umgengni sé frekar rétt að lengja hana í hvert skipti þannig að hún sé jafnvel sex tímar í senn einu sinni í mánuði.

V. Afstaða barns

Sökum ungs aldurs stúlkunnar var afstaða hennar til umgengni við kæranda ekki könnuð.

VI.  Niðurstaða

Stúlkan D er rúmlega X árs gömul stúlka sem lýtur forsjá kæranda sem er kynfaðir stúlkunnar.

Með hinum kærða úrskurði frá 25. mars 2021 var ákveðið að kærandi hefði umgengni við stúlkuna einu sinni í mánuði í fjórar klukkustundir í senn á meðan forsjársviptingarmál væri rekið fyrir dómstólum. Umgengni færi fram á heimili föður og föðurömmu eða öðrum fyrir fram ákveðnum stað sem aðilar kæmu sér saman um.

Kærandi krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og málinu verði vísað til nýrrar meðferðar hjá barnaverndarnefndinni.

Í greinargerð starfsmanna Barnaverndar B, dags. 9. mars 2021, segir:

„Það er mat starfsmanna Barnaverndar B að þrátt fyrir að þeir fagaðilar sem metið hafi forsjárhæfni föður hafi greint frá því að mikilvægt sé að faðir eigi umgengni við telpuna vegna fyrri tengsla þeirra þá sé ekki hægt að horfa framhjá því sem fram kemur í endurmati á forsjárhæfni föður þar sem m.a. komu fram ólíkar lýsingar á hegðun telpunnar í umsjá föður og á fósturheimilinu og eru þær lýsingar í samræmi við upplifun fósturforeldra á líðan telpunnar í kjölfar umgengni. Starfsmenn benda einnig á að hvergi í gögnum málsins kemur fram að fósturforeldrar hafi tjáð sig með einhverjum hætti um fyrirkomulag umgengni eins og það var áður en úrskurður barnaverndarnefndar var kveðinn upp 13. október 2020, en lýsingar fósturforeldra á líðan stúlkunnar í tengslum við umgengni lá fyrir í greinargerð starfsmanna dags. 14. september 2020 sem og í úrskurði barnaverndarnefndar þann 13. október 2020 og var á þá leið að stúlkan sýndi vanlíðan og erfiða hegðun í kjölfar umgengni. Starfsmenn leggja til að stúlkan hafi umgengni við föður sinn einu sinni í málinu í fjórar klukkustundir í senn, umgengni fari fram á heimili föður og föðurömmu sem annast eftirlit með umgenginni. Þannig verði umgengni aukinn í tímalengd en ekki í fjölda skipta. Starfsmenn telja að þannig haldist sé hægt að viðhalda fyrri tengslum föður og telpunnar en ekki raska þeirri ró sem telpan þarfnast.“

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. bvl. á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns, sem ráðstafað er í fóstur, við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Það er meginregla í barnaverndarstarfi að hagsmunir barns skuli ávallt vera í fyrirrúmi og beita skuli þeim ráðstöfunum sem barni eru fyrir bestu. Við úrlausn þessa máls ber því að líta til þeirrar stöðu sem stúlkan er í. Það er gert til að unnt sé að taka ákvörðun um umgengni hennar við kæranda á þann hátt að hún þjóni hagsmunum hennar best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Samkvæmt því, sem fram kemur í framangreindum lagaákvæðum, ber að leysa úr kröfum kæranda með tilliti til þess hvað þjónar hagsmunum stúlkunnar best með tilliti til stöðu hennar. Samkvæmt gögnum málsins er stúlkan í tímabundnu fóstri og lýtur forsjá kæranda. Barnið er í tímabundnu fóstri hjá fósturforeldrum en Barnaverndarnefnd B hefur gert þá kröfu fyrir dómi að kærandi verði sviptur forsjá stúlkunnar.

Í niðurstöðu hins kærða úrskurðar kemur fram að Barnaverndarnefnd B taki undir mat starfsmanna barnaverndar frá 9. mars 2021. Stúlkan hafi verið vistuð í umsjá fósturforeldra í átta mánuði og ætla megi að þeir þekki vel þarfir hennar og líðan og séu til þess bærir að meta hvaða áhrif umgengni við kæranda hafi á stúlkuna. Fósturheimili stúlkunnar sé hennar fjórða heimili frá fæðingu og ljóst að hún hafi búið við mikinn óstöðugleika í lífi sínu. Þá segir í niðurstöðu barnaverndarnefndar að horfa beri til frásagna fósturforeldra af líðan stúlkunnar í kjölfar umgengni. Auk þess verði einnig ekki fram hjá því litið sem fram komi í seinna forsjárhæfismati sem framkvæmt hafi verið á kæranda varðandi hegðun og líðan stúlkunnar í umsjá kæranda þar sem matsmaður hafði meðal annars áhyggjur af mögulegum þroskafrávikum hennar eftir að hafa fylgst með henni í umsjá kæranda. Stúlkan hafi sýnt erfiða hegðun í umsjá kæranda og hafi tjáð sig með öskrum og bendingum. Í umsjá fósturforeldra lýsti matsmaður stúlkunni sem mjög rólegri, hún hafi dundað sér, hafi ekkert öskrað og setið í fangi fósturforeldra. Matsmaður hafi aldrei orðið var við neitt af þeirri hegðun stúlkunnar sem hún viðhafði í umgengni við kæranda þegar hún var í umsjá fósturforeldra sinna. Barnaverndarnefnd telji því að tillögur starfsmanna um umgengni kæranda við stúlkuna einu sinni í mánuði í fjórar klukkustundir í senn séu til þess fallnar að komið sé til móts við tilmæli þeirra sérfræðinga sem mælt hafa með því að faðir hafi umgengni við stúlkuna vegna þeirra fyrri tengsla.

Í málinu liggur fyrir nýtt forsjárhæfismat Í sálfræðings, dags. 25. apríl 2021. Í matinu kemur meðal annars fram að matsmaður taki undir mat sálfræðinganna J og K um að kærandi hafi rúma umgengni við stúlkuna umfram það sem gengur og gerist í svona málum. Vísar matsmaður til þess að kærandi sé viðkunnanlegur og hlýr í viðmóti og elski dóttur sína. Þá hafi ekki verið annað hægt að sjá í umgengni en að þeim liði vel saman og ættu samverustundir þeirra á milli að geta verið þroskandi og gefandi fyrir báða aðila.

Samkvæmt gögnum málsins er það afstaða sérfræðinga að mikilvægt sé að stúlkan eigi umgengni við föður vegna fyrri tengsla þeirra. Forsendur hins kærða úrskurðar eru þær að það séu ekki hagsmunir stúlkunnar að hafa umgengni við kæranda tvisvar í mánuði og í því sambandi verði að horfa til líðanar stúlkunnar í kjölfar umgengni. Eðli málsins samkvæmt eru það yfirleitt einungis fósturforeldrar sem eru til frásagnar um líðan hennar eftir umgengni við kæranda. Ráðið verður af ítarlegu forsjárhæfismati Í þar sem hann ræddi meðal annars við fósturforeldra um líðan stúlkunnar eftir umgengni að umgengni við kæranda getur haft neikvæð áhrif á líðan hennar og hegðan. Úrskurðarnefndin telur þetta ekki óeðlilegt, enda liggur fyrir að náin og rík tengsl séu á milli stúlkunnar og kæranda.

Í málinu liggja fyrir ítarleg gögn sérfræðinga sem telja að það séu hagsmunir stúlkunnar að hún hafi rúma umgengni við kæranda. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur sem fyrr að það séu hagsmunir stúlkunnar að eiga umgengni við kæranda tvisvar í mánuði þrjár klukkkustundir í senn á meðan forsjársviptingarmálið er rekið fyrir dómstólum. Byggir það mat á áliti þeirra sérfræðinga sem hafa komið að máli barnsins og lagt til að umgengni verði umfram það sem almennt gerist í málum sem þessum.

Með vísan til framangreinds eru hin kærða ákvörðun felld úr gildi. Lagt er fyrir Barnaverndarnefnd B að úrskurða að nýju um umgengni með vísan til mats úrskurðarnefndar velferðarmála á gögnum málsins.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður Barnaverndarnefndar B frá 25. mars 2021 varðandi umgengni D, við A, er felldur úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar Barnaverndarnefndar B.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

                                                                                                           Kári Gunndórsson

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta