Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 15/2008. Úrskurður kærunefndar útboðsmála:

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 9. desember 2008

í máli nr. 15/2008:

Bifreiðastöðin 5678910

gegn

Ríkiskaupum           

Hinn 21. september 2008 kærði Bifreiðastöðin 5678910 útboð Ríkiskaupa „nr. 14521-Leigubifreiðaakstur“. Í kæru voru kröfur kæranda orðaðar með eftirfarandi hætti:

„1.  Þess er krafist að ákvörðun Ríkiskaupa vegna útboðs nr. 14521 þann   13. ágúst 2008, að taka tilboði Hreyfils svf., kt. 640169-3549, Fellsmúla 28, Reykjavík, í útboðinu, sem er leigubifreiðaakstur fyrir íslenska ríkið á og frá höfuðborgar­svæðinu, verði úrskurðuð ólögmæt og viðurkennd verði skaðabóta­skylda Ríkiskaupa gagnvart kæranda.

2.   Þess er einnig krafist að Ríkiskaup verði úrskurðuð til að greiða kæranda kostnað við að halda fram kæru þessari.“

Kærða var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir vali á tilboði. Með bréfi, dags. 29. október 2008, bárust athugasemdir kærða, sem krafðist þess að öllum kröfum kæranda yrði hafnað og að kæranda yrði gert að greiða málskostnað í ríkissjóð. Athugasemdir kæranda við greinargerð kærða bárust með bréfi, dags. 10. nóvember 2008.

 

I.

Í júní 2008 auglýsti kærði rammasamningsútboð þar sem óskað var eftir tilboðum í leigubílaakstur á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum. Í útboðslýsingu sagði m.a. að eftirfarandi gögn skyldu fylgja með tilboði:

            „A. Almennar upplýsingar.

              -         Almennar upplýsingar um fyrirtækið og starfsemi þess.

              -         Nafn, heimilisfang, kennitölu og stofndag.

              -         Nöfn eigenda og stjórnarmanna.

             B.     Upplýsingar er varða verkefnið.

              -         Greinargóð lýsing á því hvernig fyrirtækið hyggst þjónusta   verkefnið þ.e.:

o       Hvernig afgreiðslukerfi bjóðanda er háttað, sbr. hvort geta sé til að veita ítarupplýsingar um hvaðan og hvert ekið, klukkan hvað og hve marga kílómetra og hve lengi stóð ferðin. Hvort möguleiki sé að senda yfirlit um viðskiptin eftirá með rafrænum hætti eftir kennitölum kaupanda og greiðslukortum þar sem upplýsingar um veittan afslátt koma fram.

-         Skrá yfir leigubifreiðastjóra í þjónustu með atvinnuleyfi til  leigubifreiðaaksturs.

-         Gildandi gjaldskrá fyrirtækisins.

-         Staðfesting á starfsleyfi bjóðanda.“

Í þeim hluta útboðslýsingar sem bar heitið „Lágmarkskröfur um hæfi bjóðenda“ var m.a. undirkaflinn „Tæknilega geta“ og í honum sagði m.a. eftirfarandi.

„-  Leigubílastöð sem tekur þátt í útboðinu skal hafa að minnsa kosti 35 leigubílaleyfi skráð á stöðina á hverjum tíma.

-   Biðtími frá því að beðið er um leigubíl þar til hann er kominn á staðinn skal að jafnaði ekki vera lengur en 5 mínútur hvar sem er innan höfuðborgarsvæðisins.“

Þá sagði í útboðslýsingu að „eftirfarandi atriði [yrðu] höfð til hliðsjónar við mat á tilboðum:

Fjöldi bíla á skrá            15

Afgreiðslukerfi                10

Startgjald                       25

Kílómetragjald                50“

 

Um valforsenduna „Fjöldi bíla á skrá“ sagði svo:

„Gerð er krafa um að bjóðandi sé með að minnsta kosti 50 bíla á skrá hjá sér. Fyrir aukinn fjölda er gefin stig aukalega skv. eftirfarandi töflu:

201+                gefa 15 stig

151-200           gefa 12 stig

101-150           gefa 8 stig

71-100             gefa 5 stig

35-70               gefa 0 stig“

 

Kærandi var meðal bjóðenda í útboðinu en kærði ákvað að velja tilboð frá Hreyfli svf. Í rökstuðningi kærða til kæranda, dags. 19. september 2008, kom fram að tilboði kæranda var hafnað á þeim grundvelli að ekki hefðu öll tilskilin gögn fylgt með tilboði og því hafi tilboðið ekki verið tekið gilt.

 

II.

Kærandi er leigubifreiðastöð sem sem áður hét Nýja leigubílastöðin ehf.Kærandi telur að framkvæmd rammasamnings eftir útboð á leigubílaakstri árið 2007 hafi verið ólögmæt. Í því útboði hafi verið samið við Nýju leigubílastöðina ehf. og Hreyfil svf. í flokki II en Nýja leigubílastöðin ehf. hafi ekki fengið eina einustu ferð í þeim flokki. Kærandi segir að Hreyfill svf. hafi sinnt yfir 99,5% af heildarkeyrslu fyrir ríkisstofnanir á grundvelli rammasamnings sem gerður var í kjölfar útboðs á leigubílaakstri 2007. Þá segir kærandi að Hreyfill svf. hafi ráðið undirverktaka sem sé ekki aðili að rammasamningnum og að samkeppniseftirlitið, neytendastofa og einkaleyfastofa hafi fjallað um málefni tengd þeim undirverktaka.

            Kærandi telur að kærði hafi viljað koma Nýju leigubílastöðinni ehf. algerlega frá akstri fyrir ríkisstofnanir og hafi því sagt upp samningnum um leigubílaakstur frá og með vorinu 2007. Til þess að koma kæranda frá samningnum hafi kærði krafist nafnalista yfir alla leigubílstjóra en kærandi segir slíka lista hafa verið notaða til að kúga bílstjóra. Auk þess hafi verið sett skilyrði um fjölda bíla sem hafi útilokað alla aðra en Hreyfil svf. frá því að hljóta viðkomandi samning enda þurfi yfir 200 bíla til að hljóta fullt hús í þeim valflokki og einungis Hreyfill svf. uppfylli það. Kærði hafi gert þetta þrátt fyrir að hafa ekki upplýsingar um það hversu marga bíla þurfi í raun til að geta uppfyllt samninginn. Kærandi telur að þetta sé eingöngu gert til að hanna stigagjöf útboðsins sérstaklega fyrir Hreyfil svf.

Kærandi segir að rangt sé að velta samningsins 2007 hafi dregist saman en það hafi verið ástæða kærða fyrir uppsögn samningsins.

            Kærandi gerir athugasemdir við það að bæði 2007 og 2008 sé gert ráð fyrir því að keyrsla eftir samningnum hefjist nokkrum dögum eftir að niðurstaða útboðsins liggur fyrir. Þá bendir kærandi á að í útboðinu 2007 hafi kærði tekið fram að yfirleitt væri samið við fleiri en einn aðila í rammasamningsútboðum en engu að síður sé eingöngu samið við Hreyfil svf. í útboðinu 2008.

Kærandi segist hafa sent athugasemd til samkeppniseftirlitsins um leið og útboðsgögn í hinu kærða útboði hafi legið fyrir.

           

III.

Kærði segir að hlutverk kærunefndar útboðsmála komi fram í 2. mgr. 91. gr. laga nr. 84/2007, um opinber innkaup. Samkvæmt ákvæðinu beri kærunefnd útboðsmála ekki að hafa eftirlit með ákvæðum annarra laga en laga nr. 84/2007, um opinber innkaup, og nefndin geti þannig ekki fjallað um meint brot á samkeppnislögum eða öðrum lögum. Þá telur kærði einnig að nefndin geti ekki fjallað um framkvæmd samninga sem gerðir eru á grundvelli opinberra útboða og auk þess sé kærufrestur liðinn vegna framkvæmdar á síðasta samningi um leigubíla­þjónustu.

Kærði segir að eingöngu Hreyfill svf. hafi skilað inn umbeðnum gögnum með tilboði sínu og því hafi öðrum tilboðum verið vísað frá. Með tilboði kæranda hafi ekki fylgt umbeðin skrá yfir leigubifreiðastjóra í þjónustu kæranda með atvinnuleyfi til leigubifreiðaaksturs. Kærði segir kæranda hafa borið við þagnarskyldu gagnvart bílstjórum en kærði segir að sú skylda sé ekki fyrir hendi

Þar sem kærandi hafi ekki gert neinar athugasemdir við útboðsgögn, þrátt fyrir að hafa sótt gögnin 26. júní 2008, telur kærði að kærufrestur sé liðinn að því er varðar umbeðnar upplýsingar í útboðslýsingu og valforsendur útboðsins.

Að lokum segir kærði að val á tilboði hafi verið tilkynnt 20. ágúst 2008 en þar sem kæra hafi ekki borist nefndinni fyrr en 29. september sé kærufrestur liðinn.

 

IV.

Hið kærða útboð var auglýst í júní 2008, ákvörðun um val á tilboði var tilkynnt 20. ágúst, rökstuðningur kærða barst kæranda 19. september og kæra barst nefndinni 29. september.

Samkvæmt 1. mgr. 94. gr. laga nr. 84/2007, um opinber innkaup, skal kæra borin undir kærunefnd útboðsmála innan fjögurra vikna frá því að kærandi vissi eða mátti vita um þá ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem hann telur brjóta gegn réttindum sínum. Alltaf er þó heimilt að bera kæru undir kærunefnd útboðsmála innan 15 daga frá því að rökstuðningur samkvæmt 75. gr. laganna er veittur.

 Af athugasemdum við 94. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 84/2007 má ráða að ætlast sé til þess að kærufrestur verði túlkaður þröngt og upphaf hans miðað við fyrsta mögulega tímamark. Orðalag 94. gr. og athugasemdir við ákvæðið í frumvarpinu leiða til þess að 2. málsl. 1. mgr. 94. gr. ber að túlka þannig að framlenging kærufrests eigi aðeins við um þau atriði sem rökstuðningur samkvæmt 75. gr. lýtur að. Tilgangur með rökstuðningi skv. 75. gr. er að upplýsa bjóðendur þannig að þeir geti áttað sig á því hvers vegna þeim sjálfum eða tilboði þeirra var hafnað. Þannig er ástæðan fyrir framlengingu kærufrests í 2. málsl. 1. mgr. 94. gr. sömuleiðis að gefa bjóðendum tíma til að átta sig á rökstuðningi fyrir höfnun.

Kærandi byggir kæru sína annars vegar á atriðum sem lúta að framkvæmd eldri samnings um leigubifreiðaakstur og hins vegar á atriðum sem komu skýrlega fram í útboðs­gögnum. Augljóst er að um leið og kærandi fékk vitneskju um þær ákvarðanir og athafnir, sem hann byggir á, taldi hann þær þá þegar brjóta gegn réttindum sínum. Rökstuðningur kærða hefur engu breytt þar um enda lýtur hann eingöngu að höfnun á vali tilboðs. Höfnunin byggði á því að kærandi skilaði ekki tilskildum gögnum en tilgreining þeirra kom skýrt fram í útboðsgögnum og kærandi sjálfur útskýrði í tilboði sínu ástæðu þess að hann lét upp­lýsingarnar ekki fylgja með tilboðinu. Rökstuðningur kærða, dags. 19. september 2008, fól því ekki í sér neina þá nánari útskýringu sem réttlætir framlengingu kærufrests og því ber að miða upphaf kærufrests við það þegar kærandi vissi eða mátti vita um þá ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem hann telur brjóta gegn réttindum sínum. Þar sem liðnar eru meira en fjórar vikur frá því að kærandi vissi um þau atriði sem hann telur brjóta gegn réttindum sínum er kærufrestur liðinn, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 94. gr. laga nr. 84/2007, um opinber innkaup, og því ber að vísa málinu frá.

Kærði hefur krafist þess að kæranda verði gert að greiða málskostnað til ríkissjóðs. Samkvæmt seinni málslið 3. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007 getur kærunefnd útboðsmála úrskurðað kæranda til að greiða málskostnað sem rennur í ríkissjóð ef kæra er bersýnilega tilefnislaus eða höfð uppi í þeim tilgangi að tefja fyrir framgangi opinberra innkaupa. Kærunefnd útboðsmála telur skilyrðum ákvæðisins ekki fullnægt og verður því að hafna kröfunni.

 

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda, Bifreiðastöðvarinnar 5678910, vegna útboðs Ríkiskaupa „nr. 14521-Leigubifreiða­akstur“ er vísað frá.

 

Kröfu kærða, Ríkiskaupa, um aðkærandi, Bifreiðastöðvarinnar 5678910, greiði málskostnað í ríkissjóð, er hafnað.

 

                                                               Reykjavík, 9. desember 2008.

                                                               Páll Sigurðsson

                                                               Sigfús Jónsson

                                                               Stanley Pálsson

 

 

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík, 9. desember 2008.




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta