Mál nr. 81/2015
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 81/2015
Fimmtudaginn 22. september 2016
A
gegn
Vinnumálastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Agnar Bragi Bragason lögfræðingur.
Með kæru, dags. 2. desember 2015, kærir A til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 13. ágúst 2015, um innheimtu ofgreiddra bóta.
Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 11. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi þáði atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun á tímabilinu 11. júní 2014 til 30. apríl 2015. Við eftirlit með greiðslum atvinnuleysisbóta í júní 2015 kom í ljós að kærandi var með tímabundið atvinnuleyfi á þeim tíma sem hann þáði atvinnuleysisbætur. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 9. júní 2015, var kæranda greint frá þeim upplýsingum og óskað eftir afstöðu hans. Með bréfi, dags. 6. júlí 2015, barst Vinnumálastofnun afstaða kæranda.
Með ákvörðun, dags. 13. ágúst 2015, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda að hann hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á framangreindu tímabili og krafðist greiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta að fjárhæð 664.996 kr. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir ákvörðun Vinnumálastofnunarinnar með tölvupósti þann 26. ágúst 2015 og var hann veittur með bréfi stofnunarinnar, dags. 4. september 2015. Kæra barst úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 3. desember 2015. Með bréfi, dags. 28. janúar 2016, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 17. febrúar 2016. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 22. febrúar 2016, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi greinir frá því að hann hafi verið í góðri trú um að hafa öll tilskilin réttindi til að þiggja atvinnuleysisbætur og að hann hafi fylgt leiðbeiningum Vinnumálastofnunar í einu og öllu. Kærandi mótmælir því að hafa fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur og hafnar því að Vinnumálastofnun hafi heimild til að innheimta hinar meintu ofgreiddu bætur. Stofnunin hafi brugðist leiðbeiningar- og rannsóknarskyldum sínum og það væri verulega ósanngjarnt gagnvart kæranda og ólögmætt ef kröfu um endurgreiðslu yrði fylgt eftir.
Kærandi tekur fram að hann hafi verið í stöðugu sambandi við starfsmenn Vinnumálastofnunar vegna umsóknar um atvinnuleysisbætur. Hann hafi lagt fram öll umbeðin gögn og veitt starfsfólki allar umbeðnar upplýsingar, þar á meðal um stöðu atvinnuleyfis. Kærandi hafi því verið í góðri trú um réttindi sín til atvinnuleysisbóta og verði ekki látinn bera hallann af því að hafa ekki fengið réttar leiðbeiningar. Starfsmaður Vinnumálastofnunar hafi viðurkennt að mistök hefðu átt sér stað í máli kæranda, en hann verði ekki látinn bera ábyrgð á þeim mistökum eða yfirsjón af hálfu stofnunarinnar. Kærandi bendir á að það sé hlutverk Vinnumálastofnunar að ganga úr skugga um að tilskilin leyfi séu til staðar og að þau gögn og upplýsingar sem kærandi hafi lagt fram við umsókn um atvinnuleysisbætur veittu rétt til greiðslna. Þá bendir kærandi á að Vinnumálastofnun hefði borið, í samræmi við rannsóknarreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að afla nauðsynlegra gagna eða óska eftir þeim teldi stofnunin ástæðu til að taka atvinnuleyfi hans til frekari skoðunar áður en ákvörðun hafi verið tekin um að samþykkja greiðslur til hans. Engin ný gögn hafi verið lögð fram eða breytingar á aðstæðum kæranda sem gefi tilefni til að Vinnumálastofnun breyti afstöðu sinni um rétt hans til bóta. Ákvörðun hafi þannig ekki verið tekin á réttum grunni í upphafi og stofnunin því brugðist rannsóknarskyldum sínum, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga.
Kærandi telur að hin kærða ákvörðun brjóti gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga þar sem um mjög íþyngjandi ákvörðun sé að ræða. Sú upphæð sem kærandi sé krafinn um sé ósanngjörn og ómálefnaleg og í engu samræmi við þær aðstæður sem séu uppi í málinu. Kærandi bendir á að Vinnumálastofnun hafi ekki verið heimilt að gera efnislegar breytingar á fyrri ákvörðun sinni um að veita kæranda bætur, sbr. 23. gr. stjórnsýslulaga. Þá hafi skilyrði 25. gr. stjórnsýslulaga um afturköllun ekki verið uppfyllt í málinu.
III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar
Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi verið með útgefið tímabundið atvinnuleyfi þegar hann hafi sótt um atvinnuleysisbætur þann 11. júní 2014. Kærandi hafi því haft heimild til að ráða sig til vinnu hér á landi án takmarkana, sbr. d-lið 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Hann hafi því ekki átt rétt á greiðslum atvinnuleysistrygginga þann tíma sem hann hafi þegið greiðslur eða á tímabilinu 11. júní 2014 til 30. apríl 2015. Þrátt fyrir að rekja megi ofgreiðslu á atvinnuleysisbótum til kæranda til mistaka Vinnumálastofnunar beri honum að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar bætur, sbr. 2. mgr. 39. gr. laganna. Ákvæðið sé afgerandi og ekki verði séð að Vinnumálastofnun geti tekið vægari ákvörðun en að endurkrefja kæranda um ofgreiddar bætur.
Vinnumálastofnun bendir á að ekkert álag hafi verið lagt á skuld kæranda þar sem honum verði ekki kennt um þá annmarka sem hefðu leitt til ákvörðunar stofnunarinnar um að greiða honum atvinnuleysisbætur. Það sé afstaða Vinnumálastofnunar að réttilega hafi verið staðið að ákvörðun í máli kæranda og að honum beri að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 664.996 kr.
IV. Niðurstaða
Ágreiningur máls þessa lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að krefja kæranda um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar að fjárhæð 664.996 kr.
Í 1. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um gildissvið laganna, en þar segir að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Í 2. gr. laganna kemur fram að markmið þeirra sé að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt.
Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 er fjallað um almenn skilyrði þess að vera tryggður samkvæmt lögunum. Eitt af þeim skilyrðum er að hafa heimild til að ráða sig til vinnu hér á landi án takmarkana, sbr. d-liður 1. mgr. 13. gr. Óumdeilt er að þegar kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun í júní 2014 var hann með útgefið tímabundið atvinnuleyfi. Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun hafði kærandi heimild til að starfa hjá B á tímabilinu 1. maí 2014 til 30. september 2014 og hjá C á tímabilinu 14. október 2014 til 31. maí 2015. Kærandi hafði þannig ekki heimild til að ráða sig til vinnu hér á landi án takmarkana á og átti því ekki rétt á greiðslum atvinnuleysistrygginga á þeim tíma. Þrátt fyrir þær aðstæður kæranda þáði hann atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun á tímabilinu 11. júní 2014 til 30. apríl 2015 en ágreiningslaust er að um mistök var að ræða af hálfu stofnunarinnar
Í 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 kemur fram að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. laganna en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildi um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hafi fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Kæranda ber því, með vísan til þess sem hér hefur verið rakið og samkvæmt fortakslausu ákvæði 2. mgr. 39. gr. laganna, að endurgreiða ofgreiddar bætur. Í máli þessu hefur ekkert álag verið lagt á skuld kæranda og því er ekki ágreiningur um það atriði. Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 13. ágúst 2015, í máli A um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta að fjárhæð 664.996 kr. er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Kári Gunndórsson