Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 82/2015

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 82/2015

Fimmtudaginn 22. september 2016

A

gegn

Vinnumálastofnun


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Agnar Bragi Bragason lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni þann 9. desember 2015, kærði A til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 30. nóvember 2015, um að synja umsókn hans um atvinnuleysisbætur.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 11. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun með umsókn, dags. 26. október 2015. Með bréfum, dags. 16. nóvember 2015, óskaði Vinnumálastofnun eftir frekari gögnum frá kæranda vegna umsóknarinnar. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 30. nóvember 2015, var umsókn kæranda hafnað á þeirri forsendu að hann væri í fullu starfi og því ekki í virkri atvinnuleit, sbr. 14. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Kæra barst úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 9. desember 2015. Með bréfi, dags. 11. desember 2015, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 28. janúar 2016. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 4. febrúar 2016, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 18. febrúar 2016.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að í vottorði atvinnuveitanda komi fram að hann sé í 100% starfi. Um mistök sé að ræða sem hann hafi ekki tekið eftir. Hið rétta sé að kærandi starfi öðru hvoru hjá nýlega stofnuðu einkahlutafélagi. Fyrirtækið hafi fengið ákveðnar tekjur sem verja megi til launa kæranda en það sé styrkur frá B og hver einasti kostnaðarliður sé skilgreindur nákvæmlega. Verkefnið sé unnið á tímabilinu 1. júní 2015 til 31. maí 2017 og hlutverk kæranda sé stjórnun á verkefninu sjálfu en ekki á faglegum þáttum þess. Það sé fyrirhugað, og að vissu leyti staðfest, að vinnuframlag kæranda í mars, ágúst, september og október 2015 jafngildi 25% starfshlutfalli en 41,5% starfshlutfalli í ágúst og september 2016 og apríl og maí 2017. Hann geri þó fastlega ráð fyrir því að vera kominn í fast starf í ágúst 2016.

Kærandi tekur fram að vinnuframlag hans fyrir tímabilið ágúst 2015 til desember 2017 jafngildi því 10% starfshlutfalli en ekki 100% eins og ranglega hafi verið skráð. Kærandi bendir á að hann sé virkur í atvinnuleit og óski því eftir því að ákvörðunin verði tekin til endurskoðunar hið fyrsta. Þá tekur kærandi fram að ef hann fái starf við hæfi muni hann segja upp hjá fyrirtækinu.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að ákvörðun stofnunarinnar sé tekin á grundvelli 14. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Vísað er til þess að samkvæmt a-lið 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 sé virk atvinnuleit skilyrði fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta en með virkri atvinnuleit samkvæmt 14. gr. laganna sé meðal annars átt við færni til flestra almennra starfa, frumkvæði að starfsleit, vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara, og að atvinnuleitandi sé reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi óháð því hvort um fullt starf, hlutastarf eða vaktavinnu sé að ræða. Þá sé það einnig skilyrði að atvinnuleitandi eigi ekki rétt á launum eða öðrum greiðslum í tengslum við störf á vinnumarkaði þann tíma sem hann teljist vera í virkri atvinnuleit nema ákvæði 17. eða 22. gr. laganna eigi við.

Vinnumálastofnun tekur fram að lög nr. 54/2006 gildi um þá sem verða atvinnulausir og markmið þeirra sé að tryggja tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan atvinnulausir séu að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt, sbr. 1. og 2. gr. laganna. Þá segi meðal annars í 1. mgr. 9. gr. laga nr. 54/2006 að launamönnum sé heimilt að sækja um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar þegar þeir verði atvinnulausir. Stofnunin bendir einnig á að það sé gert ráð fyrir því í f-lið 1. mgr. 13. gr. laganna að umsækjandi leggi fram vottorð fyrrverandi vinnuveitanda, sbr. 16. gr., og þar skuli jafnframt tilgreina ástæður starfsloka. Samkvæmt framangreindu geti sá sem sé í fullri vinnu og í ráðningarsambandi við vinnuveitanda ekki talist í virkri atvinnuleit.

Samkvæmt fyrirliggjandi ráðningarsamning sé kærandi í 100% starfi hjá einkahlutafélagi  og á vinnuveitandavottorði frá fyrirtækinu komi fram að kærandi starfi í fullu starfi en fái aðeins greidd lágmarkslaun þar til fyrirtækið afli meiri tekna. Gögn í máli kæranda hafi því sýnt að hann hafi verið í fullri vinnu hjá tilteknu fyrirtæki. Umsókn kæranda hafi því verið hafnað, enda ekki unnt að telja að framangreint fyrirtæki sé fyrrverandi vinnuveitandi í skilningi laga nr. 54/2006.

Vinnumálastofnun bendir á að fyrirtækið sé í eigu kæranda og eiginkonu hans. Vinnuveitendavottorð sem liggi fyrir í málinu sé undirritað af eiginkonu kæranda og erindi frá fyrirtækinu, sem fylgt hafi með kæru til nefndarinnar, sé sömuleiðis undirritað af eiginkonu hans. Þegar kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun hafi komið fram að hann sinnti fullu starfi hjá fyrirtækinu. Nú haldi kærandi og fyrirtæki í hans eigu því fram að hann komi einungis til með að starfa við verkefni fyrirtækisins í um tvo daga á mánuði eða 4 klukkustundir á viku. Þó komi fram í nýju vottorði vinnuveitanda að kærandi starfi í fullu starfi en fái einungis lágmarkslaun þar til félagið afli meiri tekna. Að mati Vinnumálastofnunar geti styrkveitingar til fyrirtækis í eigu kæranda ekki ráðið starfshlutfalli hans heldur sé það raunverulegt vinnuframlag kæranda sem eigi að endurspeglast í uppgefnu starfshlutfalli hans. Þau laun sem kærandi ákveði að greiða sjálfum sér hafi ekki áhrif á það hvort kærandi uppfylli skilyrði 14. gr. laga nr. 54/2006.

Vinnumálastofnun telur að þau gögn, sem nú liggi fyrir í máli kæranda, feli einungis í sér vanburðug viðbrögð kæranda og fyrirtækis hans við niðurstöðu stofnunarinnar en ekki raunverulega breytingu á starfshlutfalli kæranda. Að mati Vinnumálastofnun beri kæranda að upplýsa um þær styrkveitingar sem hann tilgreini í kæru sinni og þá hvort styrkur sá, sem kærandi hafi fengið til að sinna tilteknu verkefni, geri ráð fyrir því að verkefnastjóri fyrirtækisins sinni einungis umræddu starfi tvo daga í mánuði.

Þá bendir Vinnumálastofnun á að fyrir liggi gildur ráðningarsamningur á milli kæranda og fyrirtækisins frá 1. ágúst 2015. Uppsögn á þeim samningi feli í sér að kærandi taki út þann uppsagnarfrest sem lög og kjarasamningar áskilja. Kærandi eigi því rétt á uppsagnarfesti á 90% starfi sínu, sé það ætlunin að færa starfshlutfall hans hjá fyrirtækinu úr 100% í 10%. Ekki verði fallist á að kærandi geti fengið greiddar atvinnuleysisbætur á sama tíma og hann hafi rétt á greiðslum launa í uppsagnarfresti, sbr. 51. gr. laga nr. 54/2006.

Með vísan til framangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi sé í fullu starfi og að hann eigi ekki rétt á greiðslum atvinnuleysistrygginga.

IV.  Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að synja umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur á þeirri forsendu að hann væri í fullu starfi og því ekki í virkri atvinnuleit, sbr. 14. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Í 1. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um gildissvið laganna en þar segir að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Í 2. gr. laganna kemur fram að markmið þeirra sé að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt.

Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 er fjallað um almenn skilyrði þess að vera tryggður samkvæmt lögunum. Eitt af þeim skilyrðum er að vera í virkri atvinnuleit samkvæmt 14. gr. laganna. Í 1. mgr. 14. gr. segir að sá teljist vera í virkri atvinnuleit sem uppfylli eftirtalin skilyrði:

a. er fær til flestra almennra starfa,

b. hefur heilsu til að taka starfi eða taka þátt í virkum vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. þó 5. mgr.,

c. hefur frumkvæði að starfsleit og er reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt er fyrir samkvæmt lögum og kjarasamningum, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, og uppfyllir skilyrði annarra laga,

d. hefur vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara,

e. er reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi,

f. er reiðubúinn að taka starfi óháð því hvort um fullt starf eða hlutastarf er að ræða eða vaktavinnu,

g. á ekki rétt á launum eða öðrum greiðslum í tengslum við störf á vinnumarkaði þann tíma sem hann telst vera í virkri atvinnuleit nema ákvæði 17. eða 22. gr. eigi við,

h. hefur vilja og getu til að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum sem standa honum til boða, og

i. er reiðubúinn að gefa Vinnumálastofnun nauðsynlegar upplýsingar til að auka líkur hans á að fá starf við hæfi og gefa honum kost á þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum.

Í gögnum málsins liggur fyrir ótímabundinn ráðningarsamningur, dags. 15. júní 2015, á milli kæranda og einkahlutafélags þar sem fram kemur að kærandi sé í 100% starfi hjá fyrirtækinu. Vinnumálastofnun leit því svo á að kærandi væri ekki í virkri atvinnuleit í skilningi 14. gr. laga nr. 54/2006 og var umsókn hans því hafnað. Af hálfu kæranda hefur komið fram að fyrir mistök hafi starfshlutfall hans hjá fyrirtækinu verið skráð 100% og því til stuðnings hefur kærandi lagt fram leiðréttan ráðningarsamning þar sem fram kemur að starfshlutfallið sé einungis 10%. Þá hefur kærandi einnig lagt fram nýtt vottorð vinnuveitanda, dags. 2. desember 2015, þar sem fram kemur að starfshlutfall hans hjá fyrirtækinu sé 10% á tímabilinu 1. ágúst til 31. október 2015. Vinnumálastofnun hefur vísað til þess að ekki sé um að ræða raunverulega breytingu á starfshlutfalli kæranda.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála verður ekki fram hjá því litið að kærandi hefur lagt fram leiðrétt gögn er staðfesta að hann var ekki í 100% starfi á þeim tíma sem umsókn hans barst Vinnumálastofnun en þeim hefur ekki verið hnekkt af hálfu stofnunarinnar.

Að framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að Vinnumálastofnun beri að taka mið af framangreindum gögnum við mat á því hvort kærandi uppfylli skilyrði þess að vera tryggður samkvæmt lögum nr. 54/2006. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og lagt fyrir Vinnumálastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 30. nóvember 2015, í máli A um að synja umsókn hans um atvinnuleysisbætur er felld úr gildi og málinu vísað til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta