Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 354/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 354/2019

Miðvikudaginn 22. apríl 2020

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 29. ágúst 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 21. ágúst 2019 um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta vegna ársins 2018.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk greiddar tekjutengdar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins á árinu 2018. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 21. ágúst 2019, var kæranda tilkynnt um að endurreikningur á tekjutengdum bótagreiðslum til hans á árinu 2018 hefði leitt í ljós ofgreiðslu að fjárhæð X kr. Með bréfinu var kærandi krafinn um endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 29. ágúst 2019. Með bréfi, dags. 30. ágúst 2019, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Þann 7. september 2019 bárust viðbótargögn frá kæranda og voru þau send Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. september 2019. Með bréfi, dags. 19. september 2019, barst greinargerð Tryggingastofnunar og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. september 2019. Athugasemdir bárust frá kæranda með tölvupósti, mótteknum 23. september 2019, og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Með bréfi, dags. 4. október 2019, barst viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 8. október 2019. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur meðal annars fram að kærandi kæri Tryggingastofnun ríkisins fyrir upplýsingafölsun og tilraun til fjárdráttar. Stofnunin haldi þeirri lygi fram að samkvæmt skattframtali hans fyrir árið 2018 hafi hann haft lífeyrissjóðstekjur að fjárhæð X kr. Kærandi geti staðfest að hann hafi ekki haft neinar lífeyrissjóðstekjur umfram þær íslensku, um það bil X kr. á ári, sem komi frá Greiðslustofu lífeyrissjóða.

Í athugasemdum kæranda, dags. 6. september 2019, kemur fram að hann vilji að úrskurðarnefnd geri sjálfstætt mat á þýðingu norsku skattskýrslunnar og jafnframt upplýsi hann hvar í skattskýrslunni sé að finna greiðslur frá lífeyrissjóði.

Eftirfarandi sé skráð í tekjulið á skattskýrslu kæranda:

„[...]“

Annað sé ekki skráð í skattskýrslu kæranda.

Alderspensjon þýði ellilífeyrir á íslensku. Pensjon þýði lífeyrir og avtalefestet pensjon þýði samningsbundinn lífeyri, en þessi lífeyrir sé hugsaður fyrir þá sem ljúki störfum við 62 ára aldur og fylgi hann þeim út lífið.

Pensjon frá B, sé gjafalífeyrir sem C bjóði öllum sínum starfsmönnum þegar þeir hafi lokið störfum. Starfsmenn hafi aldrei lagt eina krónu í þennan eftirlaunasjóð, þetta sé bara þáttur í að gera vel við starfsfólkið. Pensjon frá D sé einnig gjöf en þessum lífeyri sé ætlað að sjá til þess að starfsmenn fái minnst 60% af sínum hæstu launum í ellilífeyri og sé skráð sem laun í kvittun.

Ekkert af ofantöldu geti verið sambærilegt íslenskum lífeyrissjóðsgreiðslum, enda sé allur lífeyrir frá NAV fjármagnaður í gegnum skatta.

Kærandi leggi fram kvittun frá NAV fyrir einn mánuð 2018 en kærandi geti, ef þess sé óskað, sent kvittanir fyrir alla mánuði ársins 2018, en þeir séu nákvæmlega eins. Að öðru leyti vísi kærandi til gagna sem hann hafi sent til nefndarinnar vegna kæru hans í máli nr. 20/2019.

Í athugasemdum kæranda, dags. 23. september 2019, segir að kærandi vilji leggja áherslu á að hann fái engar lífeyrissjóðsgreiðslur frá NAV eða öðrum norskum aðilum, en Tryggingastofnun ríkisins haldi því fram að hann hafi haft X kr. í lífeyrissjóðstekjur.

Kærandi viðurkenni að hann fái viðbótarlífeyri frá NAV sem lífeyrissjóðstekjur í tekjuáætlun fyrir árið 2018. Það hafi verið í samræmi við upplýsingar sem kærandi hafi fengið á þeim tíma frá Tryggingastofnun ríkisins á Íslandi. Það hafi farið að renna á kæranda tvær grímur þegar hann hafi uppgötvað hvað hann hafi haft háar lífeyrissjóðstekjur án þess að hafa norskar lífeyrissjóðstekjur. Tryggingastofnun hefði átt að leiðrétta þessi mistök kæranda. Jafnframt hefði stofnunin átt að bíða með þennan endurreikning þar til úrskurður í máli nr. 20/2019 lægi fyrir.

Það sé óheyrt að eitt Norðurlandanna notfæri sér ellilífeyrisgreiðslur annars Norðurlands til þess að skerða ellilífeyri sem þegnar landsins eigi rétt á. Kærandi geti ímyndað sér að atvinnu- og félagsmálaráðherra Noregs, Anniken Hauglie, myndi ekki líka við að norskum ellilífeyri væri líkt við norskar eða íslenskar lífeyrissjóðstekjur.

Kærandi hafi nú kynnt sér hvernig lífeyrissjóðir á Íslandi virka. Samkvæmt íslenskum lögum sé öllum launamönnum rétt og skylt að eiga aðild að lífeyrissjóði viðkomandi starfsstéttar. Atvinnurekendum sé einnig rétt og skylt að halda eftir iðgjaldi af launum launþega og skila því til lífeyrissjóðsins ásamt mótframlagi sínu. Sjóðfélagar á aldrinum 16–70 ára greiða 4% af launum sínum til sjóðsins og launagreiðendur 8%.

NAV sé á fjárlögum og fái þannig fjármagn í gegnum skatta. Launþegar í Noregi séu því ekki skyldugir til aðildar að lífeyrissjóði en það séu til margir lífeyrissjóðir í Noregi þar sem öllum sé frjálst að notfæra sér þá þjónustu. Það sé með þá eins og íslenska lífeyrissjóði þar sem menn greiði til dæmis 4% af laununum sínum, ákveðna fasta upphæð á mánuði, og sjóðirnir reyni að ávaxta fjármunina eftir bestu getu þar til viðkomandi fari á ellilaun.

Basispensjon, eða grunnlífeyrir, samanstandi af grunnlífeyri (grunnpensjon) og viðbótarlífeyri (tilleggspensjon) og sé notaður við útreikning á ellilífeyri fyrir einstaklinga sem falli undir gamla líkanið, þ.e. fæddir árið 1962 eða fyrr.

Kærandi rekur upplýsingar á vefsíðu NAV og greinir frá því hvernig útreikningur á ellilífeyri fari fram samkvæmt því:

„Til að fá viðbótarlífeyri verður maður að hafa áunnið lífeyrisstig (punkta) í amk þrjú ár. Skattyfirvöld ákveða árlega lífeyrisstig (punkta) á grundvelli meðal annars tekna.

[...]

Stærð viðbótarlífeyris er háð fyrri atvinnutekjum (lífeyristekjum) og fjölda ára, þ.e. árum sem lífeyrisstig eru áunnin Stærð viðbótarlífeyris er háð fyrri atvinnutekjum (lífeyristekjum) og fjölda ára, þ.e. árum sem lífeyrisstig eru áunnin/uppunnin (lög um almannatryggingar §§ 3-8 - 3-12). Almannatryggingakerfið var tekið upp árið 1967. Það er því aðeins mögulegt að afla viðbótarlífeyris frá 1967.

Mikilvægustu þættir við útreikning á viðbótarlífeyri eru:

Grunnupphæðin (G)

Lífeyrisprósentan - er 45% lífeyrisstig fyrir 1992 og 42% lífeyrisstig frá og með 1992.

Lokastigstalan er meðaltal 20 hæstu eða hvers árs lífeyristiga við 20 eða færri ára áunnin/ uppunnin lífeyrisstig. Árleg lífeyrisstig eru reiknuð af lífeyristekjum hvers árs. Launatekjur og atvinnurekstrartekjur teljast lífeyristekjur. Hægt er að færa umönnunarstig upp á 3,00 hvert ár fyrir einstaklinga sem gegna umönnunarstörfum. (Heimaverandi ólaunaðar húsmæður með börn. Innfelt af G.I.)

Fjöldi stigaára, þ.e. ára sem stig eru uppunnin/áunnin, innlögð eða reiknuð framtíðarlífeyrisstig fyrir.

Hér er venjuleg uppskrift (dæmi) til að reikna út árlegan viðbótarlífeyrir (Tilleggspensjon):

G x 42% / (45% fyrir ár fyrir 1992) x lokalífeyrisstigastaða x fjöldi lífeyrisstiga 40

Einstaklingar sem eru með örorkulífeyri eða hafa lífeyri sem eftirlifandi maki eru reiknaðir með framtíðarlífeyrisstigum.

Til að fá fullan viðbótarlífeyri þarf 40 ára lífeyrisstiga-uppvinnslu (stigár). Lágmarkskrafa fyrir reiknaðan viðbótarlífeyri er 3 stig.

Fyrir einstaklinga fæddir fyrir 1937 eru sérstakar reglur um bætur við útreikning viðbótarlífeyris. Þar sem þessir einstaklingar hafa ekki haft tækifæri til að afla sér 40 ára viðbótarlífeyris.

Áður en maður nær 70 ára aldri er viðbótarlífeyrir reiknaður út á grundvelli lífeyrispunkta sem aflað er til og með því ári sem nær nær 66 ára aldri. Lífeyrisstig sem uppunnin er á árabilinu 67, 68 og 69 eru talin frá 70 ára aldri.

Lífeyrisstig:

Lífeyrisstig eru reiknuð af lífeyristekjum, fyrst og fremst launatekjum og persónulegum tekjum af atvinnustarfsemi á hverju ári, frá einu ári til 17 og til árs þar sem maður nær 69 (lög um almannatryggingar § 3-12 - 3-15). Sumar bætur frá almannatryggingakerfinu - atvinnuleysisbætur, foreldrabætur, umönnunargreiðslur, hjúkrunar- og veikindabætur - eru einnig taldar lífeyristekjur. Lífeyristekjur ákvarðast af skattayfirvöldum.

Aðeins eru reiknaðir lífeyristekjur tekna sem eru hærri en grunnupphæðin.

Útreikningurinn byggist á meðaltali grunnfjárhæðar fyrir hvert almanaksár.

Þegar tekjur eru undir 6 x grunnupphæðinni (G) eru lífeyrisstig reiknuð út á eftirfarandi hátt:

[400 000 -78 024/78 024 = 4,13 lífeyrisstig]

Hér var meðaltalið G árið 2011 að fjárhæð NOK 78.024 notað og gerir ráð fyrir NOK 400.000.- tekjum.

Fyrir tekjur á milli 6 G og 12 G er aðeins 1/3 af tekjunum talinn með. Tekjur yfir 12 G eru ekki taldar með. Hæsta lífeyrisskor sem nú er hægt að vinna sér inn er 7,00. Dæmi hér að neðan sýnir 12 G tekjur sem samsvara 936 288 norskum krónum. +

Tekjur upp í 6G: 468 144

Tekjur milli 6G og 12G:

[468 144/3 =156.048]

[624 192 – 78 024/78 024=7]

Þessar reglur eiga við um tekjuárin frá 1992 og áfram. Við útreikning lífeyristiga fyrir árin 1971-1991 eru tekjur milli 1 G og 8 G að fullu teknar með í reikninginn en tekjur á milli 8 G og 12 G eru taldar með 1/3. Við útreikning lífeyrisstiga fyrir árin 1967-1970 eru tekjur milli 1 G og 8 G að fullu teknar með í reikninginn, en tekjur yfir 8 G eru ekki grundvöllur fyrir launatekjum. Tekjur fyrir 1967 veita ekki lífeyrisstig.“

Af framangreindu megi sjá hversu lítinn hluta af lífeyrisstigum tekjur hafi, ef þær hafi þá yfir höfuð áhrif þar sem byrjunarprósentan sé 3 stig og allur útreikningur ellilífeyris miðist við grunnupphæð en ekki beinar tekjur.

Af öllum gögnum, sem kærandi hafi sent til úrskurðarnefndarinnar, ætti að vera augljóst að viðbótarlífeyrir eigi ekkert skylt við íslenskar eða norskar lífeyrissjóðsgreiðslur.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að kærður sé endurútreikningur tekjutengdra greiðslna ársins 2018.

Kærandi hafi verið á ellilífeyrisgreiðslum frá 1. maí 2014. Samkvæmt almannatryggingalögum beri Tryggingastofnun að framkvæma uppgjör á hverju ári og endurreikna fjárhæðir lífeyris á grundvelli tekna, auk þess sem stofnunin hafi eftirlit með því að áætlaðar tekjur séu í samræmi við upplýsingar sem stofnunin afli úr staðgreiðsluskrá skattyfirvalda og hafi jafnframt eftirlit með því að áætlaðar tekjur séu í samræmi við upplýsingar sem stofnunin afli úr staðgreiðsluskrá skattyfirvalda.

Í 16. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007 sé kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Fram komi í 2. mgr. 16. gr. að til tekna skuli teljast tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Skýrt sé tekið fram í 7. gr. laga um tekjuskatt að eftirlaun, lífeyrir og aðrar hliðstæðar starfstengdar greiðslur séu skattskyldar tekjur. Því sé ekki hægt að fallast á með kæranda að greiðslur sem hann fái frá Noregi falli ekki undir II. kafla laga nr. 90/2003. Misræmi í tekjuáætlun kæranda miðað við endanlegar tekjur á árinu 2018, hafi leitt til þess að greiðslur til hans hafi orðið hærri en hann hafi átt rétt á og þess vegna hafi myndast mismunur við uppgjör.

Tryggingastofnun greiði lífeyri á grundvelli tekjuáætlunar viðkomandi árs, sbr. 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Ábyrgð á tekjuáætlun sé hins vegar í höndum bótaþegans sem beri að upplýsa Tryggingastofnun um allar breytingar sem kunni að verða á högum hans, sbr. 1. mgr. 39. gr. laga um almannatryggingar og 3. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta. Hægt sé að breyta tekjuáætlun hvenær sem er á árinu til að koma í veg fyrir ofgreiðslu bóta eins og fram komi á heimasíðu Tryggingastofnunar.

Samkvæmt 7. mgr. 16. gr. almannatryggingalaga skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Jafnframt komi fram í 6. mgr. að Tryggingastofnun skuli hafa eftirlit með því að áætlaðar tekjur séu í samræmi við upplýsingar sem stofnunin afli úr staðgreiðsluskrá skattyfirvalda.

Í máli þessu liggi fyrir gögn um niðurstöðu endurreiknings, greiðsluskjöl, útreikningur ellilífeyris 2018 hjá Tryggingastofnun, norskt skattframtal 2018 og yfirlit frá kæranda.

Tryggingastofnun beri samkvæmt 16. gr. laga um almannatryggingar að framkvæma endurútreikning með tilliti til endanlegra tekna kæranda á árinu 2018. Ef um misræmi sé að ræða á milli tekjuáætlunar og raunverulegra tekna geti myndast mismunur sem kærandi þurfi síðan að standa skil á. Niðurstaða vegna endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðslna ársins 2018 hafi leitt til skuldar kæranda að fjárhæð X kr., sbr. bréf til kæranda, dags. 21. ágúst 2019. Við uppgjör sé stuðst við raunverulegar tekjur kæranda eins og þær birtist á skattframtali en ekki við áætlaðar tekjur eins og þær séu settar fram í tekjuáætlun.

Tryggingastofnun bjóði skjólstæðingum stofnunarinnar upp á ýmis greiðsluúrræði vegna skulda sem myndast vegna vanáætlunar á tekjuáætlunum sínum og standi það kæranda til boða eins og öðrum.

Að öllu virtu telji Tryggingastofnun að framkvæmd endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðslna hafi verið framkvæmd á réttmætan hátt samkvæmt lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að í athugasemdum kæranda sé því haldið fram að Tryggingastofnun falsi upplýsingar við endurreikning og uppgjör bóta. Þessu mótmæli stofnunin alfarið og bendi á að með endurreikningi og uppgjöri tekjutengdra bóta sé stofnunin eingöngu að framfylgja því lögboðna hlutverki sem henni sé falið samkvæmt lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar. Varðandi endurútreikning fari Tryggingastofnun eingöngu eftir þeim upplýsingum sem komi fram á skattframtali kæranda. Upplýsingar um tekjur kæranda á norsku skattframtali teljist til opinberra upplýsinga og geti kærandi varla haldið því fram að Tryggingastofnun falsi þær upplýsingar. Bent skuli á að kærandi beri sjálfur ábyrgð á því að tekjuáætlun sé rétt hverju sinni og bendi stofnunin einnig á að hægt sé að breyta tekjuáætlun rafrænt hvenær sem er inni á vef Tryggingastofnunar.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2018.

Kærandi fékk greiddar tekjutengdar bætur á árinu 2018. Samkvæmt 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Tryggingastofnun um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt.

Í 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 2. mgr. 16. gr. laganna kemur fram að til tekna skuli telja tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Sé litið til þeirra laga kemur fram að til tekna skuli telja eftirlaun og lífeyri, sbr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. tekjuskattslaga. Samkvæmt 23. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar skal ellilífeyrir lækka um 45% af tekjum lífeyrisþegans, sbr. 16. gr., uns lífeyririnn fellur niður. Ellilífeyrisþegi skal hafa 25.000 kr. almennt frítekjumark við útreikning ellilífeyris. Þá skal ellilífeyrisþegi hafa 100.000 kr. sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna.

Á grundvelli 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Ef í ljós kemur við endurreikning að bætur hafi verið ofgreiddar ber Tryggingastofnun að innheimta þær samkvæmt 55. gr. laga um almannatryggingar. Sú meginregla er ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.

Samkvæmt gögnum málsins skilaði kærandi 18. desember 2017 tekjuáætlun vegna ársins 2018 þar sem gert var ráð fyrir X kr. í lífeyrissjóðstekjur, X kr. í vexti og X kr. í erlendan lífeyri. Tryggingastofnun lagði þá tekjuáætlun til grundvallar við ákvörðun greiðslna til kæranda og meðhöndlaði erlendan lífeyri með sama hætti og lífeyrissjóðstekjur. Kærandi sendi inn eftirfarandi tekjuáætlun með bréfi, dags. 20. mars 2018:

„[...]“

Með bréfi, dags. 8. ágúst 2018, var kæranda tilkynnt um að bótaréttur ársins hafi verið endurreiknaður. Meðfylgjandi var greiðsluáætlun vegna ársins 2018 og þær tekjuforsendur sem lágu henni til grundvallar. Af tekjuforsendunum verður ráðið að Tryggingastofnun meðhöndlaði allar greiðslur frá Noregi sem kærandi gaf upp í fyrrgreindri tekjuáætlun sem lífeyrissjóðstekjur nema grunnpensjon frá NAV. Kærandi var einnig upplýstur um kröfu að fjárhæð X kr.

Kærandi skilaði inn nýrri  tekjuáætlun 25. september 2018 þar sem gert var ráð fyrir greiðslum úr lífeyrissjóði að fjárhæð X kr., lífeyrisgreiðslum úr séreignarsjóðum að fjárhæð X kr., vöxtum að fjárhæð X kr., erlendum lífeyri að fjárhæð X kr., erlendum grunnlífeyri að fjárhæð X kr. og launum að fjárhæð X kr. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 18. október 2018, var kæranda tilkynnt um að bótaréttur vegna ársins hafi verið endurreiknaður. Ljóst er af gögnum málsins að Tryggingastofnun lagði tekjuáætlun kæranda til grundvallar en meðhöndlaði „erlendan lífeyri“ sem lífeyrissjóðstekjur við ákvörðun greiðslna, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar velferðarmála í máli kæranda nr. 20/2019 þar sem framangreind ákvörðun stofnunarinnar frá 18. október 2018 var tekin til endurskoðunar. Kærandi var jafnframt upplýstur um inneign að fjárhæð X sem yrði lögð inn á bankareikning hans.

Í endurreikningi Tryggingastofnunar, sem byggðist á íslensku og norsku skattframtali kæranda ársins 2019, var gert ráð fyrir lífeyrissjóðstekjum að fjárhæð X kr., tekjum úr séreignarsjóði að fjárhæð X kr. og vöxtum og verðbótum að fjárhæð X kr.

Af gögnum málsins er ljóst að endurkrafa myndaðist á hendur kæranda sökum þess að þær lífeyrisssjóðtekjur, sem Tryggingastofnun leit til við endurreikninginn, voru hærri en gert var ráð fyrir í tekjuáætlun kæranda. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ráða megi af kæru að ágreiningur málsins lúti að því að við endurreikninginn leit Tryggingastofnun á ákveðnar tekjur kæranda frá Noregi sem lífeyrissjóðstekjur, en kærandi byggir á því að hann fái engar lífeyrissjóðstekjur umfram þær íslensku. Samkvæmt norsku skattframtali kæranda fékk hann eftirfarandi lífeyrisgreiðslur frá Noregi:

„[...]“

Samkvæmt gögnum málsins leit Tryggingastofnun á hluta af greiðslum „Alderspensjon fra folketrygden“ sem lífeyrissjóðstekjur við endurreikninginn, þ.e. svokallað „tilleggspensjon“. Þá leit Tryggingastofnun jafnfram á lífeyri frá [...] frá NAV sem lífeyrissjóðstekjur við endurreikninginn. Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur nú þegar úrskurðað um meðhöndlun Tryggingastofnunar á framangreindum lífeyrisgreiðslum kæranda frá Noregi. Í úrskurði nefndarinnar í máli kæranda nr. 149/2017 komst úrskurðarnefndin að þeirri niðurstöðu að  lífeyrir [...] frá NAV, þ.e. [...] og lífeyrir frá [...] þ.e. frá [...], væru lífeyrissjóðsgreiðslur sambærilegar við greiðslur úr skyldubundum atvinnutengdum lífeyrissjóðum, enda væri um lífeyri tengdan atvinnustarfsemi að ræða. Þá hefur úrskurðarnefndin nú þegar úrskurðað um að „tilleggspensjon“ skuli skerða ellilífeyri kæranda frá Tryggingastofnun með sama hætti og greiðslur úr skyldubundum atvinnutengdum lífeyrissjóðum, sbr. úrskurð í máli kæranda nr. 20/2019. Úrskurðarnefnd velferðarmála fellst því á að Tryggingastofnun hafi verið rétt að líta á framangreindar tekjur kæranda frá Noregi sem lífeyrissjóðstekjur við endurreikning og uppgjör ársins 2018. Úrskurðarnefndin vísar til þess rökstuðning sem kemur fram í framangreindum úrskurðum nefndarinnar.

Niðurstaða endurreiknings Tryggingastofnunar var sú að kærandi hefði fengið ofgreiddan ellilífeyri og orlofs- og desemberuppbætur, samtals að fjárhæð X kr., að teknu tilliti til innborgunar. Endurkrafa myndaðist á hendur kæranda vegna þess að lífeyrissjóðstekjur kæranda voru vanáætlaðar í tekjuáætlun. Tryggingastofnun greiðir tekjutengdar bætur á grundvelli upplýsinga úr tekjuáætlun viðkomandi greiðsluþega. Þá ber stofnuninni lögum samkvæmt að endurreikna bætur með hliðsjón af upplýsingum skattyfirvalda og innheimta ofgreiddar bætur.

Með hliðsjón af öllu framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta endurreikning og uppgjör Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2018.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum greiðslum A, á árinu 2018, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

                                                                                                                                                                                             Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta