Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 4/2014.  Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 19.mars 2014

í máli nr. 4/2014:

Fastus ehf.

gegn

Ríkiskaupum og

Landspítala

Með kæru 6. mars 2014 kærir Fastus ehf. útboð nr. 15554 auðkennt „Rannsóknartæki og rekstrarvara f. LSH“. Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála afstöðu til þess hvort rétt sé að verða við kröfu kæranda um stöðvun útboðsins. Varnaraðilum hefur verið gefinn kostur á að tjá sig um stöðvunarkröfu kæranda.

Af gögnum málsins verður ráðið að á árinu 2011 hafi kærandi tekið þátt í samkeppnisviðræðum sem stofnað var til af hálfu varnaraðila í tengslum við útboð nr. 14981 vegna fyrirhugaðra kaupa tækja og rekstrarlausna fyrir nýja kjarna- og bráðarannsóknarstofu Landspítala. Ákveðið var að ganga að tilboði Medor ehf. í útboðinu, en kærandi og fleiri bjóðendur kærðu þá ákvörðun til kærunefndar útboðsmála. Með úrskurðum nefndarinnar 18. október 2012 var ákvörðunin felld úr gildi og lagt fyrir varnaraðila að auglýsa innkaupin að nýju. Í kjölfarið krafðist Ríkiskaup þess fyrir dómi að úrskurðir kærunefndar yrðu felldir úr gildi, en þeirri kröfu var hafnað með dómi Hæstaréttar Íslands hinn 17. október 2013 í máli nr. 366/2013. Í kjölfar þeirrar niðurstöðu hafa varnaraðilar nú stofnað til nýs útboðs um kaup á rannsóknartækjum og rekstrarvöru fyrir Landspítala sem kærandi hefur hug á að taka þátt í. Kveðst kærandi í því skyni hafa sótt útboðsgögn 26. febrúar sl.

Kæra kæranda byggir að meginstefnu á því að með tilteknum skilmálum í útboðsgögnum, sem varða eiginleika boðinna tækja og forsendur fyrir vali þeirra, stefni varnaraðilar að því að útiloka kæranda frá þátttöku í útboðinu eða draga verulega úr möguleikum kæranda til þess að verða valinn. Telur kærandi að í þessu felist brot á ákvæðum laga nr. 84/2007 um opinber innkaup, einkum 14., 40. og 72. gr. laganna.

Niðurstaða

Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi bjóði vörur sem tengjast rekstri heilbrigðisstofnana, þ.á m. ýmis rannsóknartæki og rekstrarvörur sambærilegar þeim sem varnaraðilar óska eftir í hinu kærða útboði. Þá hefur hann sótt útboðsgögn vegna þess útboðs sem kæra hans lýtur að. Hefur kærandi því lögvarða hagsmuni í skilningi 1. mgr. 93. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup og er heimilt að hafa uppi kröfu um stöðvun umræddra innkaupa á þeim grundvelli sem áður er lýst.

Í kæru tilgreinir kærandi þá skilmála útboðsgagna sem hann telur að útiloki hann með ólögmætum hætti frá þátttöku í útboðinu. Vísar hann til þess að gerð sé ófrávíkjanleg krafa um að tæki sem framkvæmi tilteknar mælingar komi frá einum og sama framleiðandanum auk þess sem gerð sé krafa um að einstakir hlutar samtengdra tækja geti starfað sjálfstætt ef bilun á sér stað í öðrum hlutum. Þá sé ekkert sem réttlæti að haga stigagjöf í tengslum við þann tíma sem það taki að framkvæma tilteknar mælingar þannig að möguleikar kæranda á að verða valinn séu verulega skertir. Fyrir liggi að umræddar mælingar taki lengri tíma með tækjum kæranda heldur en með tækjum keppinauta hans. Í greinargerð varnaraðila er því hins vegar haldið fram að með skilmálum þessum sé meðal annars reynt að stuðla að samhæfingu á rannsóknarstarfsemi, sem best verði náð með einsleitum tækjum, auk þess sem reynt sé að spara pláss á rannsóknarstofum og draga úr hættu á mistökum í rannsóknarferli sem aukist við það að unnið sé með tæki frá fleiri framleiðendum. Þá séu mælingar mjög oft framkvæmdar í mikilli tímaþröng og því skipti hver mínúta sem sparast við framkvæmd mælinga verulegu máli.

Að virtum fyrirliggjandi gögnum málsins og að teknu tilliti til skýringa varnaraðila er það mat nefndarinnar að ekki hafi nægilegar líkur verið leiddar að því, að svo stöddu, að umræddir skilmálar séu ómálefnalegir eða brjóti að öðru leyti gegn ákvæðum laga um opinber innkaup. Með vísan til 1. mgr. 96. gr. laga um opinber innkaup, sbr. 15. gr. laga nr. 58/2013, verður því ekki fallist á kröfu kæranda um stöðvun innkaupaferlis um stundarsakir. Að öðru leyti bíður efnisleg úrlausn kærunnar úrskurðar kærunefndar.

Ákvörðunarorð:

Kröfu kæranda, Fastus ehf., um að stöðvað verði innkaupaferli vegna útboðs nr. 15554 auðkennt „Rannsóknartæki og rekstrarvara f. LSH“, er hafnað.

                                                                             Reykjavík, 19. mars 2014                                                             

                                                             Skúli Magnússon                                                            

             Ásgerður Ragnarsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta