Mál nr. 36/2013
Fimmtudaginn 25. júní 2015
A og B
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Eggert Óskarsson.
Þann 4. mars 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 18. febrúar 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.
Með bréfi 19. mars 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 4. apríl 2013.
Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 15. apríl 2013 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kærenda bárust með bréfi 21. ágúst 2013.
I. Málsatvik
Kærendur eru fædd 1979 og 1968. Þau búa í eigin 165,3 fermetra einbýlishúsi að C götu nr. 20 í sveitarfélaginu D. Kærendur eiga sex börn, þar af búa fimm hjá kærendum og eitt er hjá þeim aðra hverja helgi. Kærandi A er heimavinnandi húsmóðir en kærandi B er með skipstjórnarmenntun og starfar sem háseti á skipi frá E stað.
Heildarskuldir kærenda samkvæmt greiðsluáætlun umboðsmanns skuldara eru 67.318.814 krónur en þar af falla 2.231.675 krónur utan samnings, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2005 og 2007.
Kærendur rekja fjárhagserfiðleika sína meðal annars til atvinnuleysis og veikinda annars kæranda.
Kærendur sóttu um greiðsluaðlögun 18. ágúst 2010. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 2. desember 2010 var þeim veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. lge.
Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 19. október 2012 var lagt til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge. þar sem kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt a- og d-liðum 1. mgr. 12. gr. lge. á meðan frestun greiðsla, svokallað greiðsluskjól, stóð yfir. Í bréfi umsjónarmanns kemur fram að kærendur hafi enga fjármuni lagt fyrir í greiðsluskjóli en miðað við fyrirliggjandi upplýsingar hefðu þau átt að geta lagt fyrir um 4.000.000 króna. Þá hafi kærendur ekki greitt fasteignagjöld á tímabilinu.
Með bréfi umboðsmanns skuldara til kærenda 8. nóvember 2012 var þeim var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Kærendur svöruðu ekki bréfi umboðsmanns skuldara.
Með bréfi til kærenda 18. febrúar 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður með vísan til 15. gr., sbr. a- og d-liði 1. mgr. 12. gr. lge.
II. Sjónarmið kærenda
Kærendur krefjast þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild þeirra til greiðsluaðlögunar verði felld úr gildi með vísan til 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærendur telja að ákvörðun umboðsmanns skuldara eigi sér ekki stoð í lögum, sé því ólögmæt og því ekki í samræmi við lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins.
Umboðsmaður skuldara byggi ákvörðun sína á því að kærendur hafi vikið frá skyldum sínum samkvæmt a- og d-liðum 1. mgr. 12. gr. lge., annars vegar með því að leggja ekki til hliðar af launum sínum það sem var umfram það sem þau hafi þurft til framfærslu og hins vegar með því að stofna til nýrra skulda á greiðsluaðlögunartíma.
Kærendum hafi verið veitt heimild til greiðsluaðlögunar 2. desember 2010. Í kjölfarið hafi þeim verið tilkynnt að þau mættu ekki greiða af lánum samkvæmt 11. gr. lge. Á þessum tíma hafi kærendum ekki verið tilkynnt og/eða kynnt sú skylda þeirra að leggja til hliðar af launum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Kærendum hafi fyrst verið ljós skylda þeirra til að leggja fé til hliðar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. 3. október 2012 þegar þeim var kynnt greiðsluáætlun og drög að frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun sem hafi átt að taka gildi 1. nóvember 2012. Umboðsmaður skuldara fullyrði í ákvörðun sinni að þessi skylda hafi verið kynnt kærendum en fullyrðingin sé ekki studd frekari gögnum. Að mati kærenda hafi það ekki verið fyrr en 3. október 2012 þegar greiðsluáætlun lá fyrir að hægt hafi verið að gera ákveðnar og skýrar kröfur til kærenda um hversu mikið þeim hafi borið skylda til að leggja til hliðar af tekjum sínum. Útgjöld sjö manna fjölskyldu geti verið misjöfn á milli mánaða. Afar ósanngjarnt sé að ætla kærendum að leggja tiltekna fjárhæð til hliðar þegar það hafi ekki legið skýrt fyrir hver sú fjárhæð ætti að vera. Kærendur kveða ljóst að þau hafi engan ásetning haft til að brjóta gegn skyldum sínum í greiðsluskjóli. Að mati kærenda hafi umsjónarmanni borið að upplýsa þau um þessa skyldu og þá um leið að tilgreina umfang hennar með skýrum hætti. Að mati kærenda sé það grundvallarforsenda fyrir því að þau hafi getað uppfyllt skyldur sínar að þau hafi haft nákvæma vitneskju um hverjar þessar skyldur væru.
Af lögskýringargögnum sé ljóst að samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. séu gerðar kröfur um saknæmi. Í athugasemdum við ákvæðið komi fram að víki skuldari augljóslega frá skyldum sínum með vísvitandi hætti, geti slíkt leitt til þess að umsjónarmaður fái greiðsluaðlögunarumleitanir felldar niður. Af þessu megi ráða að ekki sé nægilegt að skuldari sýni af sér gáleysi. Það verði að vera án nokkurs vafa að skuldari hafi viðhaft umrædda háttsemi af ásetningi og gegn betri vitund. Ætla megi að löggjafinn hafi með orðinu vísvitandi gert kröfu um beinan ásetning og því dugi líkindaásetningur ekki til þess að brotið hafi verið gegn ákvæðinu. Að auki skuli túlka íþyngjandi reglu með þrengjandi lögskýringu samkvæmt íslenskum rétti. Jafnframt liggi það fyrir samkvæmt íslenskum rétti og dómafordæmum að lagaregla sem kveði á um íþyngjandi skyldu hins almenna borgara verði að vera skýr. Af þessu leiði að umboðsmaður skuldara verði að sýna fram á að skilyrði 12. gr. lge. um ásetning séu uppfyllt til að geta byggt á reglunni, þ.e. að skuldarar hafi með ásetningi brotið gegn umræddu lagaákvæði. Að mati kærenda hafi það ekki verið gert enda sé því harðlega mótmælt að háttsemi þeirra geti talist augljós og vísvitandi.
Varðandi framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara sem embættið byggi á í ákvörðun sinni þá hafi kærendur lagt fram gögn varðandi lækniskostnað að fjárhæð 290.098 krónur og komi sú fjárhæð til lækkunar á útreiknaðri greiðslugetu þeirra. Kærendur fullyrða að þess utan hafi þau orðið fyrir umtalsverðum útgjöldum vegna eldsneytiskostnaðar þar sem þau hafi mikið þurft að sækja til lækna í Reykjavík. Kærendum hafi láðst að geyma greiðslukvittanir vegna þess kostnaðar enda grunlaus um að þau þyrftu á þeim að halda til að réttlæta útgjöld sín. Í framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara sé heldur ekki tekið tillit til þess að báðir kærendur séu reykingafólk og hafi reykt til margra ára. Kostnaður vegna þess sé að minnsta kosti um 95.000 krónur á mánuði en báðir kærendur reyki einn og hálfan pakka á dag. Því sé ljóst að framfærslukostnaður kærenda hafi verið mun meiri en framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara geri ráð fyrir. Kærendur telji ekki um að ræða óþarfa bruðl eða eyðslu og eigi þau ekki að fyrirgera rétti sínum til greiðsluaðlögunar með þessari háttsemi.
Umboðsmaður skuldara hafi fullyrt að kærendur hafi brotið gegn skyldu sinni samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að láta hjá líða að greiða fasteignagjöld í greiðsluskjóli. Kærendur telja að við mat á þeim lið sé átt við nýjar skuldbindingar á grundvelli nýrra samninga sem gætu rýrt hagsmuni kröfuhafa. Umrætt lagaákvæði sé íþyngjandi og eigi að túlka þröngt. Því telji kærendur að d-liður 1. mgr. 12. gr. lge. geti ekki átt við um vanskil skuldbindinga sem tilkomnar séu vegna lífsnauðsynlegra notkunar á þjónustu sem hafi verið stofnað til fyrir tíma greiðsluaðlögunar. Þessi vanskil séu til komin vegna þess að það fé sem kærendur hafi haft til framfærslu hafi ekki dugað. Kærendur eigi [sex] börn og þar af sé eitt langveikt. Langveikt barn útheimti mikil ófyrirséð útgjöld sem ekki sé tekið tillit til í framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. skuli skuldari ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna nema skuldbindingar sem stofnað sé til séu nauðsynlegar til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða.
Kærendur hafi sótt um heimild til greiðsluaðlögunar 18. ágúst 2010 og hafi frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hafist 18. október 2010, sbr. lög nr. 128/2010. Öllum umsækjendum sem hafi notið frestunar greiðslna hjá umboðsmanni skuldara hafi átt að vera kunnugt um skyldur sínar samkvæmt 12. gr. lge. Öllum umsækjendum sem nutu frestunar greiðslna hafi verið sent bréf 8. apríl 2011 þar sem brýndar hafi verið fyrir þeim skyldur þeirra samkvæmt 12. gr. lge. Þá hafi skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. lge. fylgt með ákvörðun um samþykki umsóknar kærenda um greiðsluaðlögun 2. desember 2010 sem þeim hafi borist með ábyrgðarbréfi. Auk þess séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og skuldara. Umræddar upplýsingar hafi enn fremur verið aðgengilegar á heimasíðu umboðsmanns skuldara. Hafi kærendum því mátt vel vera ljóst að þau skyldu halda til haga þeim fjármunum sem þau hafi haft aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum sínum, þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa.
Greiðsluskjól kærenda hafi staðið yfir í 24 mánuði en miðað sé við tímabilið frá 1. nóvember 2010 til 31. október 2012. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærendur haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:
Launatekjur 1. nóvember 2010 til 31. október 2012 að frádregnum skatti | 12.506.881 |
Umönnunarbætur og meðlagsgreiðslur | 1.972.829 |
Vaxta- og barnabætur | 1.275.415 |
Samtals | 15.755.125 |
Mánaðarlegar meðaltekjur | 656.464 |
Framfærslukostnaður á mánuði | 552.564 |
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði | 103.900 |
Samtals greiðslugeta í 24 mánuði | 2.493.589 |
Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærendur hafi haft 656.464 krónur í meðaltekjur á mánuði hið minnsta á 24 mánaða tímabili sem notað sé til viðmiðunar á þeim tíma er kærendur hafi notið greiðsluskjóls.
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kærenda hafi verið um 552.564 krónur á mánuði á tímabili greiðsluskjóls og hafi þá einnig verið gert ráð fyrir óvæntum útgjöldum. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið í því skyni að kærendum sé veitt svigrúm til að bregðast við óvæntum, minni háttar útgjöldum. Samkvæmt því sé miðað við framfærslukostnað febrúarmánaðar 2013 fyrir tvo fullorðna einstaklinga með fimm börn á fullu framfæri og eitt barn á hálfu framfæri, auk kostnaðar vegna rafmagns, hita, fasteignagjalda, trygginga og dagvistunar samkvæmt upplýsingum frá kærendum sjálfum. Samkvæmt þessu sé gengið út frá því að kærendur hafi haft getu til að leggja fyrir um 2.493.589 krónur á fyrrnefndu tímabili sé miðað við meðalgreiðslugetu sem nemi 103.900 krónum á mánuði í 24 mánuði.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar við mat á því hvort skuldarar hafi sinnt skyldum sínum í greiðsluskjóli að þeim er jafnan játað nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjalda sem fella megi undir almennan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
Fyrir umsjónarmann hafi kærendur lagt fram kvittanir vegna lyfja- og tannlæknakostnaðar að fjárhæð 290.098 krónur. Að sögn kærenda hafi lyfja- og lækniskostnaður verið hár og því hefði þeim ekki reynst unnt að leggja fjármuni til hliðar. Samanlögð fjárhæð útgjalda samkvæmt framlögðum kvittunum nemi aðeins um 12% af þeirri fjárhæð sem kærendur hefðu átt að geta lagt til hliðar á tímabilinu. Framlagðar kvittanir skýri því aðeins að hluta skort á sparnaði.
Umboðsmaður skuldara hafnar því að við útreikning á framfærslukostnaði kærenda eigi að taka tillit til kostnaðar þeirra vegna reykinga. Ef fallist væri á hærri framfærslukostnað kærenda vegna reykinga væri þar með samþykkt að reykingafólk greiddi minna til kröfuhafa en þeir sem ekki reykja. Því þyki ekki rétt að taka sérstakt tillit til kostnaðar vegna reykinga kærenda.
Kærendur hafi stofnað til nýrra skulda í greiðsluskjóli. Samkvæmt upplýsingum frá sveitarfélaginu D nemi fjárhæð ógreiddra gjalda sem orðið hafi til eftir að umsókn kærenda var tekin til greina 309.036 krónum. Um sé að ræða vanskil vegna fasteignagjalda, skólavistunargjalda, skólafæðis og leikskólagjalda. Með því að láta hjá líða að standa skil á umræddum gjöldum hafi kærendur brotið gegn skyldum sínum samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. enda megi skuldari ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna á meðan leitað er greiðsluaðlögunar. Skyldur kærenda samkvæmt 12. gr. hafi ítrekað verið kynntar þeim á tímabilinu. Greiðslugeta kærenda hafi verið jákvæð á tímabili greiðslufrestunar og hafi þegar verið tekið tillit til þess í áætluðum framfærslukostnaði að kærendur greiði umrædd gjöld.
Kærendur hafi haldið því fram að þau hafi orðið fyrir útgjöldum vegna læknis- og lyfjakostnaðar barna sinna og hafi þar af leiðandi ekki geta staðið í skilum með umrædd gjöld. Jafnframt hafi kærendur vísað til fjölskyldustærðar sinnar í þessu sambandi. Miðað við framfærslutekjur kærenda og að teknu tilliti til framfærslukostnaðar fjölskyldunnar hefðu kærendur þó átt að geta staðið í skilum með þau gjöld sem féllu í gjalddaga á tímabili greiðsluskjóls ásamt því að leggja fé til hliðar á tímabilinu.
Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. a- og d-liði 1. mgr. 12. gr. lge.
IV. Niðurstaða
Kærendur telja að embætti umboðsmanns skuldara hafi ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni og upplýst kærendur um skyldur þeirra við greiðsluaðlögunarumleitanir þegar sótt var um heimild til greiðsluaðlögunar 18. ágúst 2010. Nánar tiltekið telja kærendur að þau hafi ekki verið upplýst um skyldu þeirra til að leggja til hliðar fjármuni samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. fyrr en 3. október 2012 þegar þeim var kynnt greiðsluáætlun og drög að frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun.
Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál er snerta starfssvið þess. Af reglunni leiðir að stjórnvaldi ber að leiðbeina aðilum að eigin frumkvæði. Engar formkröfur eru fyrir hendi varðandi leiðbeiningarskylduna. Þannig geta upplýsingar verið bæði skriflegar og munnlegar, almennar eða sérstakar, komið fram í bæklingum eða á vefsíðum.
Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram sú meginregla að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Með setningu laga nr. 128/2010, sem tóku gildi 18. október 2010, var lögfest bráðabirgðaákvæði II lge. þess efnis að tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. lge. mundi hefjast við móttöku umsókna sem bærust umboðsmanni skuldara fyrir 1. júlí 2011. Frestunin skyldi einnig gilda um umsóknir sem umboðsmaður skuldara hafði móttekið fyrir gildistöku laganna en í þeim tilvikum hófst greiðslufrestun við gildistöku laganna 18. október 2010. Fram kemur í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn og frestun greiðslna hafist. Bar kærendum því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna frá 18. október 2010.
Í tilefni af gildistöku laga nr. 128/2010 sendi umboðsmaður skuldara kærendum sérstakt upplýsingaskjal 18. október 2010 þar sem greint var frá skyldum þeirra í greiðsluskjóli í samræmi við 12. gr. lge. Þar á meðal var greint frá því að kærendum bæri að leggja fyrir fé sem væri umfram það sem þurfti til reksturs heimilis, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Þá var sérstaklega vakin athygli á því að væri þessum skyldum ekki fylgt gæti það valdið synjun greiðsluaðlögunar á síðari stigum. Samkvæmt gögnum málsins voru kærendur einnig upplýst um skyldur sínar í samræmi við 1. mgr. 12. gr. lge. með skriflegum leiðbeiningum sem fylgdu með ákvörðun umboðsmanns skuldara 2. desember 2010 þar sem þeim var veitt heimild til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt greiðsluáætlun, sem einnig fylgdi ákvörðun umboðsmanns skuldara, var mánaðarleg greiðslugeta kærenda eftir greiðslu framfærslukostnaðar nákvæmlega tiltekin. Þá sendi umboðsmaður skuldara kærendum bréf 8. apríl 2011 og 27. nóvember 2012 en á þeim tíma voru þau í greiðsluskjóli. Í bréfunum var meðal annars minnt á skyldur þeirra til að leggja til hliðar fjármuni sem voru umfram framfærslukostnað samkvæmt 12. gr. lge.
Kærunefndin telur að embætti umboðsmanns skuldara hafi samkvæmt framansögðu leiðbeint kærendum eftir að þau sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar með fullnægjandi hætti. Að þessu virtu er það álit kærunefndarinnar að umboðsmaður skuldara hafi framfylgt leiðbeiningarskyldu stjórnsýslulaga við meðferð málsins. Kærendum bar því að virða skyldur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. frá birtingu laga nr. 128/2010 þann 18. október 2010.
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a- og d-liða 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar. Ákvörðunin byggist á því að kærendur hafi ekki lagt til hliðar þá fjármuni sem þeim hafi verið skylt að leggja til hliðar á því tímabili sem þau nutu greiðsluskjóls og þau hafi stofnað til skulda á sama tímabili.
Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. er skuldara óheimilt að stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem skaðað gætu hagsmuni lánardrottna nema skuldbinding sem stofnað hafi verið til hafi verið nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt 1. mgr. skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.
Eins og fram er komið tilkynnti umsjónarmaður með bréfi til umboðsmanns skuldara 19. október 2012 að hann teldi að kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt a- og d-liðum 1. mgr. 12. gr. lge. Fór umsjónarmaður þess á leit við umboðsmann að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge. Í framhaldi af þessu felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður 18. febrúar 2013.
Að mati umboðsmanns skuldara hefðu kærendur átt að leggja til hliðar 2.493.589 krónur eftir að umsókn þeirra um greiðsluaðlögun hafði verið lögð fram, eða allt frá 18. október 2010 til 31. október 2012. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á greiðsluaðlögunarumleitunum kemur fram að greiðslugeta kærenda hafi að meðaltali verið 103.900 krónur á mánuði í greiðsluskjóli. Kærendur hafi lagt fram gögn um kostnað sem nemi 290.098 krónum en þau hafi ekki lagt til hliðar fjármuni á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana.
Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kærenda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:
Tímabilið 1. nóvember 2010 til 31. desember 2010: Tveir mánuðir | |
Nettótekjur B | 549.393 |
Nettómánaðartekjur B að meðaltali | 274.697 |
Nettótekjur A | 0 |
Nettótekjur alls | 549.393 |
Mánaðartekjur alls að meðaltali | 274.697 |
Tímabilið 1. janúar 2011 til 31. desember 2011: 12 mánuðir | |
Nettótekjur B | 5.524.903 |
Nettómánaðartekjur B að meðaltali | 460.409 |
Nettótekjur A | 0 |
Nettótekjur alls | 5.524.903 |
Mánaðartekjur alls að meðaltali | 460.409 |
Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir | |
Nettótekjur B | 7.489.206 |
Nettómánaðartekjur B að meðaltali | 624.101 |
Nettótekjur A | 0 |
Nettótekjur alls | 7.489.206 |
Mánaðartekjur alls að meðaltali | 624.101 |
Tímabilið 1. janúar 2013 til 31. janúar 2013: Einn mánuður | |
Nettótekjur B | 611.208 |
Nettótekjur A | 0 |
Mánaðartekjur alls að meðaltali | 611.208 |
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli | 14.174.710 |
Nettómánaðartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli | 524.989 |
Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kærenda og bætur var greiðslugeta kærenda þessi í greiðsluskjóli í krónum:
Tímabilið 1. nóvember 2010 til 31. janúar 2013: 27 mánuðir | |
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli | 14.174.710 |
Meðlag | 631.411 |
Umönnunargreiðslur | 1.469.019 |
Bótagreiðslur 2011 og 2012 | 1.728.094 |
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli | 18.003.234 |
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli | 666.786 |
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns | 552.564 |
Greiðslugeta kærenda á mánuði | 114.222 |
Alls sparnaður í 27 mánuði í greiðsluskjóli x 114.222 | 3.426.673 |
Að mati umboðsmanns skuldara hafa kærendur gefið viðhlítandi skýringar og lagt fram gögn vegna óvæntra útgjalda vegna lyfja- og tannlæknakostnaðar að fjárhæð 290.098 krónur sem telja verði að hafi verið nauðsynleg til framfærslu kærenda og fjölskyldu þeirra í skilningi 12. gr. lge. Er þetta í samræmi við fyrirliggjandi gögn og verður lagt til grundvallar við úrlausn málsins.
Svo sem fram er komið er það mat kærunefndarinnar að kærendum hafi mátt vera það ljóst að þeim hafi borið skylda til að leggja til hliðar af tekjum sínum á tímabili greiðsluskjóls í samræmi við skýr fyrirmæli í a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna stendur er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum.
Kærendur benda á að í áætluðum framfærslukostnaði hafi ekki verið gert ráð fyrir kostnaði þeirra vegna tóbaksnotkunar sem nemi um 95.000 krónum á mánuði. Samkvæmt gögnum málsins upplýstu kærendur hvorki um þennan kostnað við meðferð málsins hjá umboðsmanni skuldara né hjá skipuðum umsjónarmanni. Komu þessar upplýsingar því hvorki fram í umsókn þeirra um greiðsluaðlögun né á síðari stigum málsins. Þannig lágu engar upplýsingar fyrir um þennan meinta kostnað kærenda fyrr en við meðferð málsins hjá kærunefndinni. Við mat umboðsmanns skuldara á framfærslukostnaði umsækjenda um greiðsluaðlögun er meðal annars byggt á gögnum og upplýsingum frá umsækjendum sjálfum.
Það er mat kærunefndarinnar að kostnaður vegna tóbaksnotkunar teljist ekki til nauðsynlegs framfærslukostnaðar undir venjulegum kringumstæðum í skilningi a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Við meðferð málsins hjá umsjónarmanni var ítrekað óskað eftir upplýsingum um frávik frá reiknuðum framfærslukostnaði kærenda. Þá var kærendum veitt tækifæri á að láta álit sitt í ljós áður en umboðsmaður skuldara tók ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild þeirra til greiðsluaðlögunar. Kærendur greindu ekki frá meintum kostnaði vegna tóbaksnotkunar við framangreind tækifæri. Í ljósi þess að meintur kostnaður er umtalsverður í hlutfalli við annan framfærslukostnað kærenda verður að mati kærunefndarinnar að telja ótrúverðugt af hálfu kærenda að upplýsa ekki um hann við fyrrnefnda eftirgrennslan umsjónarmanns og umboðsmanns skuldara. Verður með hliðsjón af framangreindu ekki tekið tillit til kostnaðar vegna tóbaksnotkunar að fjárhæð 95.000 krónur á mánuði á meðan kærendur voru í greiðsluskjóli.
Samkvæmt framansögðu og að teknu tilliti til óvæntra útgjalda að fjárhæð 290.098 krónur vegna lyfja- og tannlæknakostnaðar hefðu kærendur átt að gera lagt fyrir 3.136.575 krónur á tímabili greiðsluskjóls en af málatilbúnaði þeirra verður ekki annað ráðið en þau hafi enga fjármuni lagt fyrir.
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist einnig á því að kærendur hafi stofnað til nýrra skulda í greiðsluskjóli í andstöðu við d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Um er að ræða vanskil vegna fasteignagjalda, skólavistunargjalda, skólafæðis og leikskólagjalda samtals að fjárhæð 309.036 krónur. Verður að telja að með þessari háttsemi hafi kærendur brotið gegn þeim skyldum sem á þeim hvíldu samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. enda var gert ráð fyrir þessum útgjöldum í útreikningi á framfærslukostnaði þeirra.
Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að kærendur hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt a- og d-liðum 1. mgr. 12. gr. lge. og að umboðsmanni skuldara hafi því samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna borið að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er með vísan til þess staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.
Lára Sverrisdóttir
Arndís Anna K. Gunnarsdóttir
Eggert Óskarsson