Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 106/2013

Fimmtudaginn 25. júní 2015

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Eggert Óskarsson.

Þann 10. júlí 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 27. júní 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 17. júlí 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 21. ágúst 2013. Greinargerð umboðsmanns var send kæranda með bréfi 29. ágúst 2013 þar sem henni var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við greinargerðina. Engar athugasemdir bárust.

I. Málsatvik

Kærandi er fædd 1955. Hún býr ein í eigin íbúð að B götu nr. 23 í sveitarfélaginu C. Kærandi er öryrki og fær tekjur sínar frá Tryggingastofnun ríkisins og Lífeyrissjóði verzlunarmanna. Mánaðarlegar tekjur hennar eru 211.413 krónur á mánuði.

Heildarskuldir kæranda nema 26.397.019 krónum en þar af falla 15.000 krónur utan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Að mati kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hennar til ársins 2010 er hún greindist með vefja-, slit- og liðagigt og var í framhaldi metin til örorku. Kærandi gerir ráð fyrir að verða áfram óvinnufær.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 12. júní 2012 var kæranda veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt lge. og var umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunar­umleitunum hennar. Á fundi umsjónarmanns og kæranda 6. maí 2013 var kæranda gerð grein fyrir þeirri afstöðu umsjónarmannsins að kveða þyrfti á um sölu fasteignar hennar og bifreiðar í frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun þar sem kærandi hefði ekki nægilega greiðslugetu til þess að standa undir afborgunum af eignunum. Með tölvupósti 10. maí 2013 lýsti kærandi því yfir að hún væri mótfallin sölu eignanna.

Með bréfi 21. maí 2013 fór umsjónarmaður fram á það við embætti umboðsmanns skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður með vísan til 15. gr. lge., sbr. 5. mgr. 13. gr. sömu laga.

Með bréfi 21. júní 2013 tilkynnti umboðsmaður skuldara kæranda um hugsanlega niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge. Var henni með bréfinu gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós og leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings áður en endanleg ákvörðun yrði tekin um það hvort fella skyldi niður heimild hennar til greiðsluaðlögunar. Engar athugasemdir bárust frá kæranda og lýsti hún því yfir símleiðis hinn 26. júní 2013 að hún hygðist hvorki andmæla bréfinu né leggja fram frekari gögn í málinu.

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru eru ekki settar fram neinar sérstakar kröfur, en skilja verður kæruna þannig að kærandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. geti umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Þá segi í 5. mgr. 13. gr. laganna að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna, skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr.

Í athugasemdum við 13. gr. frumvarpsins er síðar varð að lge. segi að við mat á því hvort mælt skuli með sölu fasteignar skuldara samkvæmt 1. mgr. 13. gr. skuli meðal annars horft til þess hvort íbúðarhúsnæði skuldara sé bersýnilega verulega umfram þá stærð sem skuldara og fjölskyldu hans hæfir, auk þess sem miklar líkur þurfi að vera á því að hann geti greitt afborganir af áhvílandi veðlánum eftir að greiðsluaðlögun lýkur. Þá segi í niðurlagi 1. mgr. 13. gr. lge. að umsjónarmanni sé heimilt að leita afstöðu lánardrottna áður en mælt sé með sölu fasteignar, þyki honum ástæða til.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. skuli skuldari greiða fastar mánaðarlegar greiðslur af þeim veðkröfum sem séu innan matsverðs eignar á tímabili greiðsluaðlögunar. Þessar greiðslur megi ekki nema lægri fjárhæð en þeirri sem umsjónarmaður ætli að svari til hæfilegrar leigu á almennum markaði fyrir þá eign er greiðsluaðlögun varði nema sérstakar og tímabundnar aðstæður séu fyrir hendi. Við slíkar aðstæður sé umsjónarmanni heimilt að ákveða tímabundið lægri mánaðargreiðslu veðkrafna en þó ekki lægri en 60% af hæfilegri leigu.   

Samkvæmt greiðsluáætlun séu áætluð heildarútgjöld kæranda vegna framfærslu og rekstrar fasteignar alls 169.994 krónur. Miðað við útborgaðar tekjur kæranda, sem nemi 201.475 krónum, sé greiðslugeta hennar jákvæð um 31.481 krónu í mánuði hverjum. Mánaðarleg afborgun af veðkröfum innan matsverðs fasteignar nemi 88.174 krónum og afborgun af bílaláni um 35.000 krónum á mánuði. Ljóst sé að greiðslugeta kæranda þyrfti að hækka umtalsvert til þess að hún geti staðið straum af afborgunum veðlána um fyrirsjáanlega framtíð. Enn fremur liggi fyrir að kærandi hafi ekki nægilegar tekjur til þess að standa undir mánaðarlegum greiðslum af fasteign, yrði miðað við 60% af hæfilegu leiguverði fyrir sambærilega fasteign samkvæmt áskilnaði a-liðar 1. mgr. 21. gr. lge. Auk þessa sé ekki líklegt að talið yrði að aðstæður kæranda féllu undir undanþágu ákvæðisins þar sem ekkert liggi fyrir um að tekjur kæranda muni hækka í framtíðinni.

Samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra og miðað við framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara sé greiðslugeta kæranda 31.481 króna. Ekki verði talið að kærandi geti staðið skil á raunafborgunum veðkrafna innan matsverðs eignar, sbr. a-lið 1. mgr. 21. gr. lge., og sé því fallist á mat umsjónarmanns um nauðsyn þess að selja fasteign kæranda.

Með vísan til forsendna fer umboðsmaður skuldara fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.

Í 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin. Eins og fram hefur komið tilkynnti umsjónarmaður umboðsmanni skuldara með bréfi 21. maí 2013 að þar sem kærandi hefði ekki samþykkt sölu fasteignar sinnar og bifreiðar, þrátt fyrir að hafa ekki greiðslugetu til að halda eignunum, teldi umsjónarmaðurinn rétt að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður, sbr. 15. gr. lge. Var kæranda í kjölfarið gefinn kostur á að koma að athugasemdum, en með símtali 26. júní lýsti kærandi því yfir að hún hefði ekki frekari athugasemdir eða gögn.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. getur umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í 5. mgr. 13. gr. lge. segir að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi hann með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara verði felldar niður samkvæmt 15. gr. laganna.

Í athugasemdum með frumvarpi til lge. kemur fram að markmið aðgerða þeirra sem gripið hafi verið til vegna skuldavanda fólks hafi verið að forða fólki frá því að missa heimili sín og gera því kleift að standa undir greiðslubyrði lána. Að jafnaði skuli gefa skuldara kost á að búa áfram í húsnæði sínu ef það telst ekki bersýnilega ósanngjarnt, svo sem vegna stærðar þess eða verðmætis. Umsjónarmaður getur þó ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án.

Þegar skuldari heldur eftir eignum sem veðkröfur á hendur honum hvíla á skal hann greiða fastar mánaðarlegar greiðslur af þeim veðkröfum eins og mælt er fyrir um í a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. Fastar mánaðargreiðslur mega samkvæmt lagaákvæðinu ekki nema lægri fjárhæð en þeirri sem ætla má samkvæmt mati umsjónarmanns að svari til hæfilegrar leigu á almennum markaði fyrir eignina sem greiðsluaðlögun varðar nema sérstakar og tímabundnar ástæður séu fyrir hendi. Við slíkar aðstæður er umsjónarmanni heimilt að ákveða tímabundið lægri mánaðargreiðslu til greiðslu veðkrafna en þó ekki lægri en 60% af hæfilegri leigu. Þessar kröfur falla ekki niður þegar greiðsluaðlögun lýkur.

Í athugasemdum með 13. gr. í frumvarpi til lge. segir að í ljósi þess að í greiðsluaðlögun felst að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunar­tímabils sé rétt að gera skuldara að leggja sitt af mörkum til að eins hátt hlutfall verði greitt af kröfum og sanngjarnt er. Í málinu liggur fyrir greiðsluáætlun sem byggð er á framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara og hefur henni ekki verið mótmælt af hálfu kæranda. Samkvæmt áætluninni er greiðslugeta kæranda 31.481 króna á mánuði þegar framfærsla hefur verið greidd. Miðað við ákvæði lge. er eini möguleikinn til að koma á greiðsluaðlögunarsamningi í tilvikum eins og því sem hér um ræðir að selja þá eign sem veðsett er, enda ljóst að kærandi getur ekki staðið undir greiðslum af veðkröfum samkvæmt a-lið 1. mgr. 21. gr. lge., jafnvel þótt miðað yrði við að sérstakar og tímabundnar ástæður væru fyrir hendi.

Sem fyrr segir hefur kærandi ítrekað lýst yfir þeirri afstöðu sinni að hún vilji ekki að eignir hennar verði seldar. Hefur kærandi þannig ekki framfylgt ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. 13. gr., sbr. 5. mgr. sömu greinar. 

Með vísan til alls framangreinds er ákvörðun umboðsmanns skuldara staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

 

Lára Sverrisdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Eggert Óskarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta