Mál nr. 684/2021 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 684/2021
Fimmtudaginn 17. mars 2022
A
gegn
Vinnumálastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.
Með kæru, móttekinni 21. desember 2021, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 18. nóvember 2021, um að fella niður bótarétt hans í tvo mánuði.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 2. september 2020 og var umsókn hans samþykkt 25. september 2020. Í október 2021 var ferilskrá kæranda send til C vegna starfs hjá fyrirtækinu. Þann 3. nóvember 2021 bárust Vinnumálastofnun upplýsingar frá fyrirtækinu um að kærandi hefði hafnað starfinu. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 10. nóvember 2021, var óskað eftir skriflegri afstöðu kæranda vegna höfnunar á atvinnutilboði hjá umræddu fyrirtæki. Skýringar bárust frá kæranda samdægurs. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 18. nóvember 2021, var kæranda tilkynnt að bótaréttur hans væri felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar með vísan til þess að hann hefði hafnað atvinnutilboði hjá framangreindu fyrirtæki.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 21. desember 2021. Með bréfi, dags. 22. desember 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 25. janúar 2022 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 26. janúar 2022. Athugasemdir bárust frá kæranda 1. febrúar 2022 og voru þær kynntar Vinnumálastofnun með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 8. febrúar 2022. Frekari athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru kemur fram að kærandi hafi verið boðinn í atvinnuviðtal til C sem sé nuddstofa, en sjálfur sé kærandi menntaður nuddari. Atvinnuviðtalið hafi komið í gegnum atvinnumiðlun. Kærandi hafi mætt í viðtalið þar sem talað hafi verið um að hann ætti að koma í prufu síðar meir. Kærandi hafi hins vegar ekkert heyrt meira frá fyrirtækinu. Það næsta sem kærandi hafi heyrt varðandi umrætt starf hafi verið bréf frá Vinnumálastofnun þess efnis að hann hefði hafnað starfi. Með öðrum orðum hafi kærandi aldrei fengið neitt atvinnutilboð heldur hafi hann einungis mætt í umrætt viðtal. Kæranda hafi því þótt afar torkennilegt að fá bréf þess efnis að hann hefði hafnað atvinnutilboði og í kjölfarið niðurfellingu bótaréttar.
Kærandi telji ákvörðun Vinnumálastofnunar ganga í berhögg við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda hafi málið ekki verið rannsakað til hlítar áður en ákvörðun hafi verið tekin í málinu. Þá telji kærandi að stofnunin hafi ekki gætt fyllilega að andmælarétti hans, sbr. 13. gr. sömu laga. Umræddar reglur séu svokallaðar efnisreglur og brot gegn þeim geti valdið því að ákvörðun sé afturkölluð sé hún ógildanleg, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 37/1993. Kærandi telji þá stöðu vera í sínu máli. Kærandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Vinnumálastofnun verði gert að greiða honum atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 18. nóvember 2021 til 18. janúar 2022.
Í athugasemdum kæranda er vísað til þess að ekki liggi fyrir í málinu að hann hafi hafnað starfinu, enda liggi ekkert fyrir um það að honum hafi yfirhöfuð verið boðið starfið. Hann hafi mætt í atvinnuviðtal líkt og gögn málsins sýni fram á. Kærandi hafi talið framferði atvinnurekanda í umræddu viðtali ófaglegt en hafi ekki hafnað vinnunni, enda hafi samskipti hans og atvinnurekanda lyktað með þeim hætti að atvinnurekandi hafi ætlað að hafa samband við hann og þá í þeim tilgangi að bjóða honum í prufu. Þá hafi jafnframt komið fram í viðtalinu að fleiri væru að sækja um. Þegar ekkert hafi heyrst frá atvinnurekanda hafi kærandi álitið sem svo að hann hefði einfaldlega ekki komist áfram í ráðningarferlinu. Kærandi geri athugasemdir við það að ekki hafi verið falast eftir gögnum frá atvinnurekanda hvað varði ráðningarferlið, hve margir hafi sótt um, hverjir hafi fengið boð í prufu og hvernig mati hafi verið háttað varðandi hæfi hvers og eins umsækjanda. Kærandi mótmæli staðhæfingu atvinnurekanda þess efnis að kærandi hefði hafnað starfi þar sem hann væri að hefja eigin rekstur sem rangri og ósannaðri. Hið rétta sé að kærandi hafi verið spurður út í framtíðaráform og þá hafi hann nefnt eigin rekstur í því samhengi. Kærandi hafi hins vegar ekki neitað starfinu á þeim forsendum að hann ætlaði í eigin rekstur, enda hefði tilgangur þess að mæta í umrætt starfsviðtal ekki verið neinn ef staðreynd málsins væri sú að hann væri að hefja rekstur. Þá beri að líta til þess að kærandi sé enn í atvinnuleit, enda ekki í eigin rekstri þótt það sé draumur hans að gera það einn daginn. Það sé því einfaldlega rangt að kærandi hafi hafnað starfi á þessum grundvelli, enda skorti gögn fyrir þessari staðhæfingu atvinnurekanda.
Vinnumálastofnun haldi því fram að kærandi sé ekki virkur í atvinnuleit í skilningi 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistrygginga og vísi í því tilliti til þess að samkvæmt ákvæðinu þurfi sá sem sækist eftir starfi að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, án sérsaks fyrirvara, og hafa til þess vilja og getu. Kærandi ítreki að ekkert í gögnum málsins bendi til þess að hann hafi hafnað starfinu. Raunar sé ekkert í gögnum málsins sem bendi til þess að hann hafi yfirhöfuð fengið boð um starfið. Það sé því ótækt að halda því fram að hann hafi hafnað starfinu, hver svo sem ástæðan fyrir því kunni að vera. Til að hafna starfi þurfi fyrst að bjóða hlutaðeigandi einstaklingi starf. Það hafi ekki verið gert í tilviki kæranda og gögn málsins sýni með engum hætti fram á að svo hafi verið. Kærandi hafi verið samkvæmur sjálfum sér frá upphafi hvað varði ráðningarferlið. Hann viðurkenni að honum hafi ekki litist á vinnustaðinn og að atvinnurekandinn og vinnustaðurinn hafi verið ófagmannlegur, auk þess sem atvinnurekandi hafi í viðtali óskað eftir vinnu um helgar og á kvöldin sem hafi ekki hentað kæranda. Kærandi kannist hins vegar ekki við að hafa fengið boð um að mæta í prufu, hvað þá boð um starfið, og því sé illskiljanlegt hvernig Vinnumálastofnun komist að þeirri niðurstöðu að hann hafi hafnað boði um starf. Þá bendi kærandi á að í starfsviðtalinu hafi ekki verið rætt um kaup og kjör og að slíkt bendi til þess að ráðningarferlið hafi verið komið skammt á veg. Kærandi hafi því talið að atvinnurekandi hafi einfaldlega ráðið annan aðila til starfans og því hafi ákvörðun Vinnumálastofnunar komið honum í opna skjöldu þegar stofnunin hafi tekið þá ákvörðun að hafna greiðslum honum til handa. Líkt og fram komi í kæru telji kærandi að Vinnumálastofnun hafi brotið gegn ákvæðum 10. og 13. gr. laga nr. 37/1993 og því ítreki hann gerðar kröfur.
III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar
Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysistrygginga með umsókn, dags. 2. september 2021. Með erindi, dags. 25. september 2021, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt og bótaréttur ákveðinn 100%. Þann 3. nóvember 2021 hafi Greiðslustofu Vinnumálastofnunar borist upplýsingar frá C um að kærandi hefði hafnað starfi hjá fyrirtækinu. Það starf sem um ræði sé starf nuddara, auk móttöku, og tilgreindur vinnutími hafi verið frá klukkan 8:00 til 16:00. Þann sama dag hafi atvinnurekandi einnig haft samband á símatíma stofnunarinnar þar sem hann hafi talið þörf á að gefa frekari útskýringar á tilkynningu fyrirtækisins. Samkvæmt atvinnurekanda hafi kærandi gefið þær skýringar að hann væri sjálfur að undirbúa rekstur og hefði af þeim sökum hafnað starfinu. Með erindi, dags. 10. nóvember 2021, hafi verið óskað eftir skriflegri afstöðu kæranda til ástæðna höfnunar á atvinnutilboði. Í erindi til kæranda hafi verið vakin athygli á hugsanlegum viðurlögum. Skýringar hafi borist frá kæranda samdægurs. Í erindi kæranda segi að hann hafi ekki hafnað starfi en að atvinnurekandi hafi ekki haft samband eftir fyrsta viðtal. Þá hafi kærandi tekið fram að vegna fjölskylduaðstæðna gæti hann ekki unnið á kvöldin og um helgar líkt og atvinnurekandi hafi virtst vera að falast eftir. Þá hafi kærandi talið að atvinnurekandi hefði óþægilega og ófaglega nálgun í viðtalinu. Þann 18. nóvember 2021 hafi Vinnumálastofnun fjallað um höfnun kæranda á atvinnutilboði hjá C. Fyrir hafi legið skýringar kæranda. Kærandi hafi verið upplýstur um að það væri mat stofnunarinnar að skýringar hans teldust ekki gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar og bótaréttur væri því felldur niður í tvo mánuði sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir.
Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstkalinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Mál þetta lúti að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslu atvinnuleysistrygginga til kæranda vegna höfnunar á starfi. Fyrir hafi legið afstaða kæranda en skýringar hafi ekki verið metnar gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.
Markmið laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir séu að leita sér að nýju starfi. Með þessu sé verið að tryggja stöðu og öryggi fólks í atvinnuleysi. Því sé gert ráð fyrir að þeir sem teljist tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins séu í virkri atvinnuleit þann tíma og séu jafnframt reiðubúnir að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum sem þeim standi til boða. Atvinnuleysistryggingar veiti þannig þeim sem tryggðir séu fjárhagslegt úrræði í tímabundnu atvinnuleysi sínu. Ríkar kröfur beri að gera til þeirra sem hafni starfi á innlendum vinnumarkaði um að þeir hafi til þess gildar ástæður samkvæmt lögunum, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi.
Eitt af skilyrðum þess að umsækjandi um atvinnuleysisbætur eigi rétt til greiðslna atvinnuleysistrygginga sé að vera í virkri atvinnuleit, sbr. a. lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í 14. gr. laganna sé nánar kveðið á um hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Þar sé útlistað að umsækjandi þurfi meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi, án sérstaks fyrirvara, og hafa til þess vilja og getu. Að öðrum kosti verði ekki litið á hlutaðeigandi í virkri atvinnuleit.
Í 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um viðurlög vegna höfnunar á starfi eða atvinnuviðtali. Ákvæðið sé svohljóðandi:
,,Sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 5. mgr. Hið sama á við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar.“
Þá segi orðrétt í 4. mgr. sömu greinar:
,,Vinnumálastofnun skal meta við ákvörðun um viðurlög skv. 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna aldurs hans, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima. Enn fremur er Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar hann hafnar starfi fjarri heimili sínu sem og til ráðningar hans í ótímabundið starf innan tiltekins tíma. Þá er heimilt að taka tillit til aðstæðna þess sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt vottorði sérfræðilæknis. Getur þá komið til viðurlaga skv. 59. gr. hafi hinn tryggði leynt upplýsingum um skerta vinnufærni.“
Vinnumálastofnun sé gert að meta skýringar atvinnuleitenda vegna höfnunar á atvinnutilboði með hliðsjón af þeirri ríku skyldu sem hvíli á umsækjendum um atvinnuleysisbætur til að vera reiðubúnir að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, án sérstaks fyrirvara, og hafa til þess vilja og getu.
Kærandi hafi gefið skýringar á höfnun á atvinnutilboði til Vinnumálastofnunar. Kærandi hafi sagst ekki hafa hafnað starfinu en að atvinnurekandi hefði ekki haft samband eftir viðtalið, auk þess sem kærandi gæti ekki unnið kvöld- og helgarvinnu líkt og atvinnurekandi virtist vera að sækjast eftir. Þá hafi honum ekki litist á vinnustaðinn og að hans mati hafi atvinnurekandi verið ófagmannlegur sem og vinnustaðurinn. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi tilgreindur vinnutími verið frá klukkan 8:00 til 16:00. Samkvæmt upplýsingum frá C hafi kærandi hafnað starfinu af þeirri ástæðu að hann væri að undirbúa eigin rekstur.
Líkt og áður hafi verið rakið hvíli rík skylda á atvinnuleitendum til að taka því starfi sem þeim bjóðist, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi. Þá sé atvinnuleitendum skylt að taka þeim störfum sem kunni að bjóðast, án sérstaks fyrirvara. Að mati Vinnumálastofnunar séu skýringar kæranda ekki þess eðlis að þær réttlæti höfnun á atvinnutilboði. Atvinnuleitendum sé skylt að taka þeim störfum sem kunni að bjóðast, án sérstaks fyrirvara. Út frá fyrirliggjandi gögnum sé ekki fallist á að kærandi hafi verið reiðubúinn að taka því starfi sem hafi boðist.
Með vísan til framangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli sæta biðtíma í tvo mánuði frá ákvörðunardegi, sbr. 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður bótarétt kæranda í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.
Ákvæði 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 er svohljóðandi:
„Sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 5. mgr. Hið sama á við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar.“
Þá segir svo í 4. mgr. 57. gr. laganna:
„Vinnumálastofnun skal meta við ákvörðun um viðurlög skv. 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna aldurs hans, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima. Enn fremur er Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar hann hafnar starfi fjarri heimili sínu sem og til ráðningar hans í ótímabundið starf innan tiltekins tíma. Þá er heimilt að taka tillit til aðstæðna þess sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt vottorði sérfræðilæknis. Getur þá komið til viðurlaga skv. 59. gr. hafi hinn tryggði leynt upplýsingum um skerta vinnufærni.“
Fyrir liggur að kærandi fór í atvinnuviðtal vegna starfs sem nuddari hjá C. Fyrirtækið tilkynnti Vinnumálastofnun að kærandi hefði hafnað starfinu á þeirri forsendu að hann væri sjálfur að undirbúa eigin rekstur. Þegar Vinnumálastofnun innti kæranda eftir skýringum vegna höfnunar á atvinnutilboði vísaði hann til þess að atvinnurekandinn hafi falast eftir kvöld- og helgarvinnu en sá vinnutími væri ekki hentugur vegna fjölskylduaðstæðna. Atvinnurekandi hafi verið ófaglegur og þau langt frá því að ná saman. Kærandi vísaði einnig til þess að ekki hafi verið haft samband við hann aftur eftir viðtalið. Á grundvelli þessa tók Vinnumálastofnun þá ákvörðun að fella niður bótarétt kæranda í tvo mánuði með vísan til þess að hann hefði hafnað atvinnutilboði. Fyrir úrskurðarnefndinni hefur kærandi mótmælt því sem röngu, hann hafi ekki fengið neitt atvinnutilboð. Þá hefur kærandi vísað til þess að staðhæfing atvinnurekanda um að hann væri að hefja rekstur sé röng og ósönnuð.
Við mat á því hvort heimilt sé að beita viðurlögum samkvæmt 1. mgr. 57. gr. laganna kemur til skoðunar hvort kærandi hafi sannanlega hafnað starfi, enda um íþyngjandi ákvörðun að ræða. Að mati úrskurðarnefndarinnar verður því að gera þær kröfur að fyrirliggjandi gögn bendi eindregið til þess að rétt sé að beita því úrræði. Af gögnum málsins verður ekki ráðið, svo óyggjandi sé, hvort kæranda hafi sannanlega verið boðið starf og hann hafnað því. Að því virtu er hin kærða ákvörðun felld úr gildi.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 18. nóvember 2021, um að fella niður bótarétt A, í tvo mánuði, er felld úr gildi.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir