Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 169/2024 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 169/2024

Þriðjudaginn 25. júní 2024

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með kæru, dags. 5. apríl 2024, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 1. mars 2024 um bætur til kæranda úr sjúklingatryggingu.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um bætur úr sjúklingatryggingu með umsókn, dags. 17. desember 2021, vegna meðferðar á C, á tímabilinu X til Y. Sjúkratryggingar Íslands synjuðu umsókn kæranda með ákvörðun, dags. 1. mars 2024, á þeim grundvelli að ekki lægi fyrir bótaskylt tjón sem að öllum líkindum mætti rekja til þátta sem féllu undir gildissvið sjúklingatryggingar samkvæmt 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 5. apríl 2024. Með bréfi, dags. 18. apríl 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð Sjúkratrygginga Íslands barst þann 26. apríl 2024. Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 30. apríl 2024, var greinargerð Sjúkratrygginga Íslands send lögmanni kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru greinir kærandi frá því að hafa sótt um bætur úr sjúklingatryggingu samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu vegna afleiðinga meðferðar sem hún hafi hlotið á C á tímabilinu X til Y.

Málsatvik séu nánar tiltekið þau að þann X hafi kærandi leitað á C vegna meiðsla sem hún hafi orðið fyrir tveimur vikum áður. Slysið hafi orðið með þeim hætti að hún hafi verið á […] þegar […] hennar hafi kippt í vinstri fót hennar með þeim afleiðingum að hún hafi hlotið áverka á vinstra hné. Á C hafi kærandi greint frá verkjum í vinstra hné. Þar hafi henni verið gefinn teygjusokkur og veittar almennar ráðleggingar. Kærandi hafi leitað aftur á C þann X vegna sömu einkenna en þar hafi hún lýst miklum verkjum og að hún gæti ekki stigið í fótinn. Þar hafi komið fram í sjúkraskrá að vægur vökvi hafi verið við hnéð en röntgen hafi ekki sýnt beináverka. Þó hafi verið grunur um liðþófaáverka en ákveðið hafi verið að bíða með segulómskoðun. Kærandi hafi áfram leitað á C vegna sömu einkenna en þann X hafi hún fengið beiðni um myndgreiningu. Þar hafi meðal annars komið í ljós liðþófaáverki og að hnéskel hennar væri mjög löskuð. Þann X hafi kærandi farið í aðgerð í Orkuhúsinu vegna áverka sinna.

Kærandi hafi sótt um bætur úr sjúklingatryggingu samkvæmt lögum um sjúklingatryggingu með tilkynningu sem hafi borist Sjúkratryggingum Íslands þann 22. desember 2021. Með bréfi, dags. 1. mars 2024, hafi Sjúkratryggingar Íslands hafnað bótaskyldu samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu með þeim rökum að ekkert benti til þess að meðferð hafi ekki verið hagað með fullnægjandi hætti. Það sé mat Sjúkratrygginga Íslands að einkenni kærandi megi þess í stað rekja til grunnástands hennar. Kærandi mótmæli afstöðu Sjúkratrygginga Íslands og vilji koma eftirfarandi á framfæri í því samhengi.

Kærandi byggi kröfu um rétt til bóta úr sjúklingatryggingu á því að hún hafi orðið fyrir líkamlegu tjóni vegna vangreiningar á tímabilinu X til Y. Byggi hún rétt sinn til bóta á 2. gr. laga um sjúklingatryggingu en samkvæmt upphafsmálslið greinarinnar skuli greiða bætur á grundvelli laganna, án tillits til þess hvort einhver beri skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, enda megi að öllum líkindum rekja tjónið til einhvers af þeim atvikum sem tilgreind séu í 1. til 4. tölulið 2. gr. Ákvæðið áskilji aðeins að tjón megi að öllum líkindum rekja til þeirra atvika sem lögin varði, sem þýði að slakað sé á kröfum um sönnun um orsakatengsl ef vafi leiki á um þau, sbr. Hrd. 388/2021, þar sem fyrrnefnd sjónarmið hafi verið staðfest af Hæstarétti. Kærandi telji hafið yfir vafa að einkenni hennar megi rekja til þess að ekki hafi tekist að greina áverka hennar í upphafi. Hún leggi áherslu á að jafnvel þó ekki hafi legið fyrir í byrjun hversu slæmir áverkar hennar hafi verið, þá hafi áframhaldandi einkenni hennar átt að leiða til þess að frekari rannsóknir yrðu gerðar.

Samkvæmt lögum um sjúklingatryggingu eigi þeir rétt til bóta sem verði fyrir meðal annars líkamstjóni í tengslum við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð hér á landi. Kærandi telji að líkamstjón hennar, megi rekja til þess að ekki hafi verið staðið rétt að læknismeðferð, sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna þar sem áverkarnir hafi ekki verið greindir fyrr en rúmlega tveimur mánuðum síðar, þrátt fyrir að hún hafi ítrekað leitað læknisaðstoðar vegna einkenna sinna. Samkvæmt 1. tölul. heyri undir lögin þau atvik, þar sem ætla megi að komast hefði mátt hjá tjóni ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræði hefði verið hagað eins vel og vandlega og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði, sbr. Hrd. 388/2021, þar sem talið hafi verið að hafi væri yfir vafa að læknisskoðun hefði ekki verið hagað eins vel og unnt hafi verið.

Máli sínu til stuðnings bendi kærandi á meðfylgjandi sjúkragögn en í meðfylgjandi komunótu frá X segi:

„Við skoðun eru merki um vægan hydrops. Verkjar við flexion, extension og palpation yfir liðbili.“

Þá segi í komunótu frá X:

„Fáum röntgen af hné, ekki að sjá brot. Gæti verið liðþófaáverki. Tel allt í lagi að gefa þessu aðeins lengri tíma. Heyri í henni í símatíma í lok næstu viku. Ef hún er ekki betri þá sendi ég beiðni fyrir MR. Fékk diclomex rapid en þoldi það illa, fær illt í magann. Prófa að skipta yfir í celecoxib og fær omeprazol með. Fær einnig lítinn pakka af parkodin.“

Hnéð er bólgið eða vökvi inná lið. Mikil eymsi og hreyfigetan skert.“

Þá segi í komunótu þann X:

„Fær áverka á hné í X. Röntgen eðlileg en miklir verkir í liðnum. Draghölt og getur ekki staðið lengi í fæturna. Við skoðun er hún hvellaum. Ég panta MRI af hnélið til nánari skoðunar. Varla unnið nema slitrótt.“

Þá segi í læknabréfi þann X:

„Talsvert hydrops með Bucket-handle rifu í lateral menisci sem er hliðrað medialt. Medial menisci og ligamentum eru heil. Hún er nú afleidd af verkjum, gengur við hækju. Erfiðleikar með að sinna vinnu. Þakklátur ef þú gætir metið þessa konu í forgangi vegna mikilla einkenna.“

Að mati kæranda sé auðsýnt að það hefði átt að senda hana í frekari rannsóknir strax í X vegna viðvarandi einkenna og þá hefðu áverkarnir mögulega greinst fyrr en raun hafi borið vitni og ástand hennar kynni að vera betra í dag. Þar sem kærandi hafi ekki fengið rétta greiningu í upphafi hafi liðið langur tími þar til hún hafi gengist undir aðgerð og liðið miklar kvalir. Hún bendi á að hún hafi ítrekað beðið um að fá segulómskoðun sem hún hafi ekki fengið fyrr en löngu síðar. Kærandi hafi einnig ekki getað fengið réttar ráðleggingar þann tíma sem hún hafi verið vangreind og hafi því lagt of mikið álag á hnéð en hún hafi verið áfram við vinnu þar til hún hafi verið óvinnufær vegna verkja. Kærandi telji það eiga þátt í þeim einkennum sem hún glími við í dag.

Með vísan til þessa sem og gagna málsins kæri hún höfnun Sjúkratrygginga Íslands á bótarétti hennar samkvæmt lögum um sjúklingatryggingu og telji að skilyrðum laganna sé fullnægt þannig að hún eigi rétt til bóta vegna líkamstjóns þess sem hafi hlotist vegna vangreiningar á áverkum í vinstra hné hennar.

III. Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að kærandi hafi sótt um bætur úr sjúklingatryggingu samkvæmt lögum nr. 111/2000 með umsókn sem hafi borist stofnuninni þann 22. desember 2021. Sótt hafi verið um bætur vegna afleiðinga meðferðar sem hafi farið fram á C á tímabilinu X til Y. Aflað hafi verið gagna frá meðferðaraðilum og hafi málið verið tekið fyrir á fundi fagteymis sem skipað sé læknum og lögfræðingum Sjúkratrygginga Íslands. Með ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 1. mars 2024, hafi umsókn kæranda um bætur úr sjúklingatryggingu verið synjað á þeim grundvelli að ekki væri um að ræða bótaskylt atvik með vísan til 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu. Synjun á bótaskyldu sé nú kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála. Í hinni kærðu ákvörðun segir meðal annars svo:

„MÁLAVEXTIR

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum leitaði umsækjandi á C þann X vegna verks í vinstra hné. Hún hafði fest sig í hnénu sirka tveimur vikum áður, á […] þegar […] togaði í fótinn og rétti úr hnénu. Þennan dag hafði hún svo verið að labba niður pall þegar henni fannst eins og eitthvað hafi smollið, með tilheyrandi verkjum. Hún var skoðuð og greind með innra brengl. Fékk hún ráðleggingar um bólgueyðandi lyf, kælingu, hvíld og endurkomu eftir þörfum.

Þann X kom umsækjandi aftur á C vegna bólgu og verkja í hné. Greindi hún frá því að einkenni hefðu byrjað fyrir þremur vikum en síðan þá verið versnandi. Við skoðun var því lýst að hún gæti ekki stigið í fótinn vegna verkja. Umsækjandi var send í röntgenrannsókn sem sýndi ekki beináverka en grunur vaknaði um liðþófaáverka. Henni var ráðlögð sjúkraþjálfun og að gefa áverkanum lengri tíma til þess að jafna sig, ef hún yrði ekki betri þá yrði ráðlögð segulómrannsókn. Í eftirfylgd á C þann X var einkennum hennar lýst batnandi, án þess þó að vera einkennalaus. Umsækjandi hafði þá ekki farið í sjúkraþjálfun en henni áfram ráðlagt það sama og áður. Þann X leitaði umsækjandi aftur á C en þá var hún farin að versna, vegna gruns um liðþófaáverka var gerð beiðni um segulómun sem var framkvæmd daginn eftir. Í rannsóknarsvari var lýst svokallaðri bucket-handle rifu í hliðlæga liðþófa vinstra hnés auk beinbjúgs í miðlægu lærbeinshnúfu en öðrum vefjum í hnénu lýst sem eðlilegum. Í framhaldi var send beiðni til bæklunarlæknis í Orkuhúsinu.

Þann X hitti umsækjandi bæklunarlækni í Orkuhúsinu. Var því lýst að hún hafi fengið áverka á vinstra hné þegar hún var ung og að hún hafi verið að læsast í hnénu af og til síðan en versnað í X þegar […] kippti í hnéð. Bæklunarlæknir taldi aðgerðarábendingu vera til staðar. Þann X gekkst hún svo undir aðgerð. Í aðgerðalýsingu kom fram að liðþófaáverkinn hafi greinilega verið eldri áverki og aðgerð framkvæmd í samræmi við það. Í endurkomu hjá aðgerðalækni, dags. X var líðan umsækjanda lýst ágætri og mælt með áframhaldandi sjúkraþjálfun.

FORSENDUR NIÐURSTÖÐU

Við ákvörðun um hvort einstaklingur eigi rétt til bóta samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu er litið til þess hvort tjón megi rekja til þess að ekki hafi verið rétt staðið að meðferð sjúklings, mistaka heilbrigðisstarfsmanna, vangreiningar, tækjabúnaðar og/eða áhalda, hvort beita hefði mátt annarri meðferðaraðferð eða tækni eða hvort heilsutjón hafi orðið vegna sýkingar eða annars fylgikvilla sem ósanngjarnt þykir að sjúklingur þoli bótalaust. Fylgikvilli þarf að vera alvarlegur í samanburði við veikindi sjúklings og tiltölulega sjaldgæfur svo skilyrði séu fyrir greiðslu bóta.

Samkvæmt gögnum málsins leitaði umsækjandi á C þann X vegna áverka sem hún varð fyrir tveimur vikum áður, hún var skoðuð og greind með innra brengl í hné, grunur vaknaði strax um liðþófaáverka en meðferð ráðlögð án aðgerðar. Í tvígang eftir þetta leitaði umsækjandi á C þar sem sami klíníski grunur lá fyrir og áfram ráðlagt meðferð án aðgerðar. Innan mánaðar frá því að umsækjandi leitaði fyrst á C fékk hún beiðni um segulómrannsókn. Daginn eftir var segulómrannsókn framkvæmd þar sem liðþófaáverki var greindur. Í framhaldi var umsækjandi send til bæklunarlæknis í Orkuhúsinu þar sem hún var sett upp fyrir aðgerð. Í aðgerð kom í ljós að umræddur áverki væri að öllum líkindum gamall og aðgerðin gerð samkvæmt því.

Að mati SÍ er ljóst að óháð því hvort áverkinn á liðþófanum var nýr eða gamall þá var meðferð samkvæmt nýjustu ráðlegginum um liðþófaskaða. Svo lengi sem ekki liggur fyrir viðvarandi læsing hnéliðs vegna innslegins liðþófa er ekki þörf á bráðri skoðun á liðnum með segulómum og er jafnframt samkvæmt klínískum leiðbeiningum ekki ráðlagt gera segulómun fyrr en meðferð, án aðgerðar er fullreynd.[1] Að mati SÍ fékk umsækjandi fullnægjandi meðferð með verkjalyfjum, upplýsingagjöf og ráðlegginum um sjúkraþjálfun.

Að öllu ofangreindu virtu verður ekki annað séð en að meðferð umsækjanda á C hafi verið hagað eins vel og unnt var og í samræmi við almennt viðurkennda og gagnreynda læknisfræði. Með vísan til þessa eru skilyrði 1.-4. tl. 2. gr. laganna ekki uppfyllt.

NIÐURSTAÐA

Með vísan til þess sem að framan greinir og fyrirliggjandi gagna málsins er það mat Sjúkratrygginga Íslands að ekki liggi fyrir bótaskylt tjón sem að öllum líkindum megi rekja til þátta sem falla undir gildissvið sjúklingatryggingar samkvæmt 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu.

Ekki er því heimilt að verða við umsókn umsækjanda um bætur úr sjúklingatryggingu.“

Í ljósi þess að ekki verði annað séð en að afstaða Sjúkratrygginga Íslands til kæruefnisins hafi nú þegar komið fram í ákvörðun stofnunarinnar, dags. 1. mars 2024, þyki ekki efni til að svara kæru efnislega og vísi stofnunin til þeirrar umfjöllunar sem fram komi í gögnum málsins. Engin ný gögn hafi verið lögð fram sem taka þurfi afstöðu til. Sjúkratryggingar

Með vísan til framangreinds beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Sjúkratrygginga Íslands um bætur á grundvelli laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu. Kærandi telji að afleiðingar meðferðar sem hún hlaut á C, á tímabilinu X til Y séu bótaskyldar samkvæmt 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.

Í 2. gr. laga um sjúklingatryggingu segir um tjónsatvik sem lögin taka til:

„Bætur skal greiða án tillits til þess hvort einhver ber skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, enda megi að öllum líkindum rekja tjónið til einhvers eftirtalinna atvika:

1.    Ætla má að komast hefði mátt hjá tjóni ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræðir hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði.

2.    Tjón hlýst af bilun eða galla í tæki, áhöldum eða öðrum búnaði sem notaður er við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð.

3.    Mat sem síðar er gert leiðir í ljós að komast hefði mátt hjá tjóni með því að beita annarri meðferðaraðferð eða -tækni sem völ var á og hefði frá læknisfræðilegu sjónarmiði gert sama gagn við meðferð sjúklings.

4.    Tjón hlýst af meðferð eða rannsókn, þ.m.t. aðgerð, sem ætlað er að greina sjúkdóm og tjónið er af sýkingu eða öðrum fylgikvilla sem er meiri en svo að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli það bótalaust. Annars vegar skal líta til þess hve tjón er mikið og hins vegar til sjúkdóms og heilsufars sjúklings að öðru leyti. Þá skal taka mið af því hvort algengt er að tjón verði af meðferð eins og þeirri sem sjúklingur gekkst undir og hvort eða að hve miklu leyti gera mátti ráð fyrir að hætta væri á slíku tjóni.“

Í athugasemdum við 2. gr. í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að það sé skilyrði bótaskyldu að tjón tengist rannsókn eða sjúkdómsmeðferð, en verði ekki rakið til skaðlegra afleiðinga og tjóns sem hljótist af sjúkdómi sem sjúklingur sé haldinn fyrir. Afleiðingar sem raktar verða til sjúkdóms sjálfs eru þannig ekki bótaskyldar, en hins vegar getur tjón verið bótaskylt ef það er fyrst og fremst rakið til mistaka eða dráttar á greiningu eða við meðferð. Í athugasemdunum segir að bæta skuli tjón sjúklings ef könnun og mat á málsatvikum leiði í ljós að líklegra sé að tjónið stafi af til dæmis rangri meðferð en öðrum orsökum. Sé niðurstaðan hins vegar sú að eins líklegt sé að tjónið sé óháð meðferðinni sé bótaréttur ekki fyrir hendi.

Ákvæði 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu lýtur að því hvort rétt hafi verið staðið að læknismeðferð. Ákvæðið tekur til allra mistaka sem verða við rannsókn, meðferð og svo framvegis. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að orðið mistök sé hér notað í mun víðtækari merkingu en almennt tíðkist í lögfræði. Ekki skipti því máli hvernig mistökin séu, átt sé meðal annars við hvers konar ranga meðferð, hvort sem orsök hennar sé röng sjúkdómsgreining sem rekja megi til atriða sem falli undir 1. eða 2. tölul. 2. gr. eða annað sem verði til þess að annaðhvort sé beitt meðferð sem eigi ekki læknisfræðilega rétt á sér eða látið sé hjá líða að grípa til meðferðar sem við eigi. Í athugasemdunum segir enn frekar að samkvæmt 1. tölul. sé það ekki skilyrði að unnt sé að telja að læknir eða annar starfsmaður sem hlut hafi átt að máli hafi við meðferð sjúklings gerst sekur um handvömm eða vanrækslu sem komast hefði mátt hjá með meiri aðgæslu.

Samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu skal greiða bætur, enda megi að öllum líkindum rekja tjón til nánar tilgreindra tilvika sem meðal annars eru talin röng meðferð. Þetta felur í sér líkindareglu, þannig að séu meiri líkur á því en minni að tjón kæranda verði rakið til dæmis til mistaka skuli að öðrum skilyrðum uppfylltum greiða bætur samkvæmt lögunum.

Kærandi byggir kröfu sína um bætur úr sjúklingatryggingu á 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu. Hún hafi leitað á C eftir að hafa fengið áverka á vinstra hné þegar kippt hafi verið í vinstri fót hennar á […]. Hún hafi leitað á C X og X þar sem hún hafi verið mjög verkjuð og hafi ekki getað stigið í fótinn. Hún hafi ekki verið send í segulómskoðun þó grunur væri um liðþófaáverka. Þann X hafi hún leitað á C á ný og fengið myndgreiningu. Þá hafi komið í ljós liðþófaáverki og að hnéskel hennar væri mjög löskuð. Þann X hafi hún svo farið í aðgerð í Orkuhúsinu vegna áverka sinna. Að mati kæranda hefði átt að senda hana í frekari rannsóknir strax í X vegna viðvarandi einkenna og þá hefðu áverkarnir greinst mun fyrr. Hún hafi ekki fengið rétta greiningu í upphafi og verið kvalin lengi. Þá hafi hún ekki getað fengið réttar ráðleggingar þann tíma sem hún hafi verið vangreind og hafi því lagt of mikið álag á hnéð. Kærandi telur að líkamstjón hennar megi rekja til þess að ekki hafi verið staðið rétt að læknismeðferð, sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna.

Í samskiptaseðli D læknanema, dags. X, segir:

„Kemur haltrandi inn. Festi sig í vinstra hnénu fyrir ca 2 vikum síðan. Fann að hún bólgnaði upp en hélt samt áfram að vinna (er […], stendur í ca 12 klst á dag). Er síðan að labba niður pall í dagi vinnunni og finnst að eitthvað hafi smollið og varð töluvert verkjaðari eftir það.

Fær læknisskoðun

Teygjusokkur og heim með ráðleggingar.“

Í samskiptaseðli E læknis, dags. X, segir:

„X ára kona kemur vegna verk í vinstra hnéi. Verið tæp i hnéinu í lengri tíma og fann kipp í hnéi fyrir 2 vikum og hefur hægt og rólega versnað siðan. Vinnur sem […] og er á fótum 12 tíma í senn við vinnu.

Við skoðun eru merki um vægan hydrops. Verkjar við flexion, extension og palpation yfir liðbili.

Fær NSAIDs, ráðleggingar um kælingu og hvild og endurkoma PN.“

Í samskiptaseðli F læknanema, dags. X, segir:

„S: leitar aftur á BMT af því verkur og bólga í vinstra hné hefur aukist.

Notast við hækju en treysti sér ekki til að labba allan ganginn og fékk hjólastól.

B: Slasaði sig fyrir um 2 vikum síðan. Kom á bmt X. og var þá ráðlagt að taka NSAID og fékk teygjusokk. Segist hafa versnað síðan og segir NSAID lítið virka og að henni líði illa af þeim.

Á/p: Hnéð er bólgið eða vökvi inná lið. Mikil eymsi og hreyfigeta skert.

Fær læknisskoðun og pöntum röntgen af hné.“

Þann sama dag var gerð beiðni um sjúkraþjálfun af G læknakandídat.

Í samskiptaseðli G læknakandídats, dags. X, segir:

„X ára gömul kona sem leitar á bmt vegna verkja í hné. Einkenni byrjuðu á […] fyrir 3 vikum. Fékk verk við […], […] togaði í fótinn og rétti úr hnénu. Við það small og kom sterkur verkur. Frá þvi verið versnandi. Getur nú ekki stigið vegna verkja.

Skoðun:

Getur ekki stigið í fót vegna verkja. Nær ekki fullri extension (ca aktívt og aðeins lengra passívt). Aktív Aðeins vökvi í liðnum. Ekki mikil bólga umhverfis hnéð. Getur lyft upp fætinum. Quadricep femoris sin þreifast heil og eymslalaus. Hvellaum við þreifingu yfir patellu (segir það gamalt) Emsli yfir inferior patellar sin, þreifast heil. Eymsli yfir liðbili lateralt. Ekki eymsli yfir collat ligamentum.

Hnéð er stabílt í varus og valgus stress testi og drawer testi. McMurrey test órætt. Smellur ekki en kemur hik við nánast fulla extension bæði í in- og útrotation.

Fáum rtg af hné, ekkí að sjá brot. Gæti verið liðþófaáverki. Tel allt í lagi að gefa þessu aðeins lengri tíma. Heyri í henni í símatíma í lok næstu viku. Ef hún er ekki betri þá sendi ég beiðni fyrir MR.

Fékk didomex rapid en þoldi það illa, fær illt í magann. Prófa að skipta yfir í celecoxib og fær omeprazol með. Fær einnig litinn pakka af parkodin.“

Í samskiptaseðli H læknanema, dags. X, segir:

„Fær áverka á hné fyrir 10 dögum síðan og hefur verið að taka doxabix og parkodin fyrir svefninn. Hefur verið að vinna […] og því ekki náð að hvíla fótinn nægilega vel, sem hefur ollið henni auknum verkjum. Ráðlegg henni að taka því rólegra, svona á verki þurfi hvíld.

Fær endurnyjun á parkodin með þeim leiðbeiningum að nota það sparlega og þetta sé einungis á meðan verkirnir séu svona miklir. Sé að hún á bókaðan símatima á morgun hjá G sem þekkir betur inn á hennar sögu, því læt ég hana um mat á frekari myndgreiningu eða frekari skoðun.“

Í samskiptaseðli G læknakandídats, dags. X, segir:

„Sjá bmt nótu 4/8

Einkenni hafa lagast helling. Er betri en ekki laus við þau. Þreytt og smá bólga á kvöldin. Er dugleg að kæla. Ekki byrjuð í sjúkraþjálfun.

Gefum þessu lengri tíma. Hún hefur samband ef versnun eða þetta lagast ekki nægilega. Þá ráðlagt að gera MR rannsókn.“

Í beiðni, I læknis, um myndgreiningu, dags. X, segir:

„X ára kona sem er slæm i vinstra hné. Fær verk i X, togað í fótlegginn og fær við það mjög slæman verk. RTG eðlileg. Skánar töluvert á þeim tíma en versnar aftur. Er núna draghölt aftur.

Ekki greinilegur vökvi í liðnum, verulega aum við þreifingu á hnéskel. getur ext og flex ágætlega en ekki fuyllkomin flexion.“

Í umsögn Í sérfræðings um rannsókn kæranda, dags. X, segir meðal annars:

„Rannsóknardagur; X 17:00

Svar - Texti: Rannsóknarsvar: MRI vinstri hnéliður: Aukin vökvaútfylling í hnélið, sérstaklega í recess suprapatellaris. Krossbönd eru heil. Eðlilegt útlit á medial menisci. Patalogiskar breytingar í lateral menisci sem er hliðruð medialt með Bucket-handle rifu. Beinbjúgur í medial femur condyle. Niðurstaða: - Talsvert hydrops með Bucket-handle rifu i lateral menisci sem er hliðrað medialt. Medial menisci og ligamentum eru heil.“

Í læknabréfi I læknis, dags. X, segir:

„Sæll J

Þessi unga kona […] og er hraust. Slæmí vinstra hné. Fær verk í X, togað í fótleggínn og fær við það mjög slæman verk. RTG eðlileg. Skánar töluvert á þeim tíma en versnar aftur. Er núna draghölt aftur.

Ekki greinilegur vökvi í liðnum, verulega aum við þreifingu á hnéskel. getur ext og flex ágætlega en ekki fullkomin flexion.

MRI vinstri hnéliður:

Aukin vökvaútfylling í hnélið, sérstaklega í recess suprapatellaris. Krossbönd eru heiL Eðlilegt útlit á medial menisci.

Patalogiskar breytingar í lateral menisci sem er hliðruð medialt með Bucket-handle rifu. Beinbjúgur í medíal femur condyle.

Niðurstaða:

- Talsvert hydrops með Bucket-handle rifu í lateral menisci sem er hliðrað medialt. Medial menisci og ligamentum eru heil.

Hún er nú afleidd af verkjum, gengur við hækju. Erfiðleikar með að sinna vinnu.

Þakklátur ef þú gætir metið þessa konu í forgangi vegna mikilla einkenna.“

Í vinnublaði J bæklunarlæknis, dags. X, segir:

„Fékk áverka á vinstra hné ung, síðan þá verið að læsast aðeins í hnénu, síðan aftur núna í X þá var eins og hnéð væri að læsast, þá var kippt í hnéð og var mjög vont, var í X líklega. Fann mikið fyrir þessu en er að […] og þurfti að mæta, varð ekki nógu góð en fór í leyfi e 3 daga og í sumarfríi, lá mikið og hvíldi sig. Orðin þokkaleg en með staf og illt, fór 4 x upp á slysó á þessum tíma, sagt að væri tognun, fór í rtg. í fyrradag fékk hún verkjakast, þarf alltaf að príla aðeins upp á pall i vinnunni, varð mjög slæm, símtal við lækni, myndataka X, læknisskoðun e það og send beiðni X.

Þarf að fara í liðspeglun, er með liðþófaskemmd sem er að læsa hnénu, vill koma í aðgerð“

Í aðgerðarlýsingu J bæklunarlæknis, dags. X, segir svo:

„Svæfing. Deyfi í vinstra hné og portöl. Stöðugt hné og hálflæst í réttu en full beygja. Stereliserað. Geri lateral og medial portal

Suprapatellart flnt.

Patellar brjósk fínt.

Þéttur fituvefur anteriort við hnéskel og væg þunn hástæð medialiseruð plíca.

Interkondylert er brjósk gott.

Medialt er brjósk fínt á femur og tibia.

Medialt er menisk fínn.

Krossbönd í lagi.

Lateralt er brjósk á femur í lagi og á tibiu smá skemmd posterolateralt.

Lateralt er menisk með bucket handel rifu sem læsir hnénu, reponera en greinilega eldri áverki og menisk fellur ekki létt aftur í sitt far, klippi því menisk og snyrti meö shaver, um helmingur farinn af posterior og lateral hluta.

Stenstrip á göt, deyfing 1 hnéð, umbúðir.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, tekur sjálfstæða afstöðu til bótaskyldu í málinu á grundvelli fyrirliggjandi gagna sem nefndin telur nægjanleg. Fyrir liggur að frá því að kærandi kom fyrst til skoðunar fékk hún meðferð í samræmi við einkenni og skoðun. Samkvæmt samskiptaseðli G læknakandídats, dags. X, höfðu einkenni kæranda lagast og hún verið betri. Ljóst er því að kærandi var á tímabili batnandi en þegar einkenni fóru að verða þrálát var henni vísað í segulómun og í kjölfar þess til bæklunarsérfræðings. Úrskurðarnefndin telur að ekki verði séð að meðferð kæranda hafi verið áfátt eða að önnur meðferð hefði leitt til betri útkomu fyrir hana. Bótaskylda er því ekki fyrir hendi á grundvelli 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.

Með vísan til þess er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að skilyrði bótaskyldu samkvæmt 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu séu ekki uppfyllt í tilviki kæranda. Synjun Sjúkratrygginga Íslands um bótaskyldu samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja A, um bætur samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

 

 



[1] Praktisk Medicin: https://www.Draktiskmedicin.se/sjukdomar/meniskskada-medial-2/


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum