Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 35/1996

Á L I T

K Æ R U N E F N D A R  F J ÖL E I G N A R H Ú S A M Á L A

 

Mál nr. 35/1996

 

Skipting sameiginlegs kostnaðar: Tæki í þvottahúsi.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar.

Með bréfi, dags. 13. maí 1996, beindi A, til heimilis að X nr. 38, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við húsfélagið X nr. 38, hér eftir nefnt gagnaðili, um skiptingu kostnaðar vegna sameiginlegra tækja í þvottahúsi.

Erindið var lagt fram á fundi nefndarinnar 22. maí. Samþykkt var að gefa gagnaðila kost á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum, í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Greinargerð gagnaðila, dags. 29. júní, var lögð fram á fundi kærunefndar 3. júlí og var málið tekið til úrlausnar.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni.

Ágreiningur aðila varðar gjaldtöku fyrir notkun þvottavéla í þvottahúsi fjölbýlishússins. Þvottavélar eru í u.þ.b. helmingi íbúða hússins. Þeir sem nota þvottahúsið skrá stöðu á rafmagnsmæli við upphaf og lok notkunar á þvottavélunum. Húsfélagið innheimtir síðan 15 kr. fyrir hverja kílowattstund. Ágreiningur aðila varðar skiptingu kostnaðar vegna viðgerða á tækjum í þvottahúsinu.

Álitsbeiðandi heldur því fram að húsfélaginu sé ekki heimilt að innheimta meira en sem nemur raunverulegum kostnaði sem sé rúmlega 7 kr./kwst, samkvæmt þeim upplýsingum sem álitsbeiðandi aflaði sér hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur.

 

Krafa álitsbeiðanda er:

Að talið verði að álitsbeiðanda beri ekki að greiða nema sem svarar kostnaðarverði rafmagns fyrir hverja notaða kílowattstund, samkvæmt skráðri notkun þvottavéla.

 

Af hálfu gagnaðila er því haldið fram að gjaldtaka húsfélagsins vegna þvottahúss sé heimil á grundvelli C-liðar 45. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Um sé að ræða hóflegt gjald sem ætlað sé til greiðslu á rekstrarkostnaði, þ.á.m. tilfallandi viðgerðarkostnaði. Gagnaðili telur að líta megi svo á að allur rekstarkostnaður sé óyggjandi vegna notkunar.

 

III. Forsendur.

Samkvæmt 2. tl. B-liðar 45. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús skal viðhalds- og rekstarkostnaður sameiginlegs þvottahúss, þar með talið kaupverð og viðhald sameiginlegra tækja, skiptast og greiðast að jöfnu. Ákvæði C-liðar sömu greinar kveður á um að hvers kyns kostnaði skuli þó skipt í samræmi við not eigenda, ef unnt er að mæla óyggjandi not hvers og eins. Regla C-liðar er undantekning frá meginreglu og ber því að skýra hana þröngt samkvæmt almennum lögskýringarreglum. Í athugasemdum við ákvæðið í greinargerð segir jafnframt: "Þessiregla kemur aðeins til álita í algjörum undantekningartilvikum. Hún byggist á því, að ef fullljóst er um not hvers og eins, þá séu notin eðlilegasti og sanngjarnasti skiptagrundvöllurinn. Rétt er að ítreka að þessi undantekningarregla myndi hafa mjög þröngt gildissvið." Ákvæði C-liðar verður þannig beitt varðandi deilingu rafmagnskostnaðar í samræmi við notkun einstakra íbúðareigenda á vélum, eins og tíðkast hefur í húsinu. Slík mæling byggist á notuðum kílowattstundum og því óyggjandi hver not hvers og eins eru. Ekki er um slíka mælingu að ræða hvað slit þvottavélanna varðar enda ekki unnt að mæla slit með þessum hætti.

Kostnaður vegna viðhalds á tækjum þvottahúss fellur því ótvírætt undir ákvæði 2. tl. B-liðar 45. gr. laga nr. 26/1994. Með vísan til þess sem að ofan greinir verður að telja að öllum eigendum beri að taka jafnan þátt í kostnaði vegna viðgerða á tækjum þvottahússins.

 

IV. Niðurstaða.

Það er álit kærunefndar að öllum eigendum beri að taka þátt í kostnaði vegna viðgerða á tækjum þvottahússins. Húsfélaginu er því óheimilt að innheimta gjald umfram raunkostnað rafmagns fyrir hverja notaða kílowattstund.

 

 

Reykjavík, 17. júlí 1996.

 

 

Valtýr Sigurðsson

Guðmundur G. Þórarinsson

Karl Axelsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta