Mál nr. 26/1996
Á L I T
K Æ R U N E F N D A R F J Ö L E I G N A R H Ú S A M Á L A
Mál nr. 26/1996
Skipting sameiginlegs kostnaðar: Tæki í þvottahús.
I. Málsmeðferð kærunefndar.
Með bréfi, ódags. en móttekið 12. apríl 1996, beindi A, til heimilis að X nr. 2, hér eftir nefnd álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, sama stað, hér eftir nefnd gagnaðili, um skiptingu kostnaðar vegna sameiginlegra tækja í þvottahúsi.
Erindið var lagt fram á fundi nefndarinnar 24. apríl. Samþykkt var að gefa gagnaðila kost á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum, í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Greinargerð gagnaðila, dags. 9. maí, var lögð fram á fundi kærunefndar 22. maí. Á fundi kærunefndar þann 12. júní var málið síðan tekið til úrlausnar.
II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni.
Stigahúsin X nr. 2 og 4 hafa sameiginlegt þvottahús með þvottavél, þurrkara og þeytivindu. Einungis hluti íbúa notar þessi tæki en aðrir hafa eigin vélar í íbúðum sínum. Notendur skrá fjölda kílowattstunda við hverja notkun. Ágreiningur aðila varðar skiptingu kostnaðar vegna viðgerða á tækjum í þvottahúsinu.
Kærunefnd telur að skilja beri álitsbeiðni svo að krafa álitsbeiðanda sé eftirfarandi:
Að talið verði að kostnaði við viðgerðir á tækjum í þvottahúsi beri að skipta í samræmi við not eigenda af þvottahúsinu.
Álitsbeiðandi vísar í C-lið 45. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994, máli sínu til stuðnings. Sumir eigenda noti vélarnar aldrei. Eðlilegt sé því að þeir eigendur sem noti vélarnar greiði fyrir viðgerðir. Þá vakni hins vegar sú spurning við hvaða tímabil aftur í tímann eigi að miða. Auk þess sé notkun mismikil hjá þeim sem noti vélarnar á annað borð og þá vakni sú spurning hvort miða eigi við notaðar kílowattstundir eða eitthvað annað.
Af hálfu gagnaðila er því haldið fram að öllum eigendum beri að taka þátt í þessum kostnaði, án tillits til þess hver hafi notað vélarnar. Í greinargerð gagnaðila er þetta álit ekki rökstutt frekar.
III. Forsendur.
Í 2. tl. B-liðar 45. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús er kveðið á um að viðhalds- og rekstrarkostnaður sameiginlegs þvottahúss, þar með talið kaupverð og viðhald sameiginlegra tækja, skiptist og greiðist að jöfnu. Ákvæði C-liðar sömu greinar kveður á um að hvers kyns kostnaði skuli þó skipt í samræmi við not eigenda, ef unnt er að mæla óyggjandi not hvers og eins. Ákvæði C-liðar er undantekning frá meginreglu og ber því að skýra þröngt skv. almennum lögskýringarreglum, sbr. einnig athugasemdir við ákvæðið í greinargerð þar sem segir svo: "Þessi regla kemur aðeins til álita í algerum undantekningartilvikum. Hún byggist á því, að ef fullljóst er um not hvers og eins, þá séu notin eðlilegasti og sanngjarnasti skiptagrundvöllurinn. Rétt er að ítreka að þessi undantekningarregla myndi hafa mjög þröngt gildissvið." Ákvæði C-liðar verður þannig t.d. beitt til að deila niður rafmagnskostnaði í samræmi við nýtingu einstakra íbúðareigenda á vélum, eins og tíðkast hefur í húsinu. Slík kostnaðarskipting byggist á mælingu á notuðum kílowattstundum. Hins vegar liggur ekki fyrir nein mæling á sliti tækja við hverja notkun þeirra frá upphafi, auk þess sem notkun einstakra íbúða er mismunandi frá einum tíma til annars, m.a. vegna breytinga á eignarhaldi.
Kærunefnd telur því að kostnaður vegna viðhalds á tækjum þvottahúss falli ótvírætt undir ákvæði 2. tl. B-liðar 45. gr. Með vísan til þess sem að ofan greinir verður að telja að öllum eigendum beri að taka jafnan þátt í kostnaði vegna viðgerða á tækjum þvottahússins.
IV. Niðurstaða.
Það er álit kærunefndar að öllum eigendum beri að taka þátt í kostnaði vegna viðgerða á tækjum þvottahússins.
Reykjavík, 3. júlí 1996.
Valtýr Sigurðsson
Guðmundur G. Þórarinsson
Karl Axelsson