Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 53/2010

Miðvikudagurinn 1. desember 2010

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú r s k u r ð u r

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.

Með kæru, dags. 1. febrúar 2010, kærir B fyrir hönd hagsmuna A synjun Tryggingastofnunar ríkisins um uppbót/styrk til bifreiðakaupa.

Óskað er endurskoðunar.

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að með umsókn til Tryggingastofnunar, dags. 9. nóvember 2009, sótti kærandi um uppbót/styrk vegna bifreiðakaupa hreyfihamlaðra. Í umsókninni kom fram að kærandi hafi ekki ökuréttindi. B, umboðsmaður kæranda í máli þessu, er tilgreindur sem ökumaður. Með bréfi, dags. 26. nóvember 2009, synjaði Tryggingastofnun umsókn kæranda á þeirri forsendu að hvorki kærandi né heimilismaður hafi ökuréttindi.

 

Í rökstuðningi með kæru segir:

 „Ég undirritaður B vil mótmæla synjun á bifreiðastyrk til A sem sótt var um í desember 2009. A sótti um 1.200.000.- styrk til bifreiðakaupa sem hann ætlaði að nota til kaupa á bíl sem hann var búinn að finna hjá Heklu bílaumboð (sjá skjal).

A er bundinn við hjólastól og hefur verið það alla sína tíð. Hann hefur verið duglegur að koma sér á framfæri og er mjög virkur í starfi og félagslífi. Keyptur var bíll fyrir A snemma árs 2009 og hefur hann nýst honum gríðarlega vel, en bíllinn er orðinn 10 ára gamall og því farinn að nálgast síðasta snúning. Á þessum stutta tíma hefur þurft að fara í ýmislegt viðhald á bílnum eins og gengur og gerist á gömlum bíl og hefur mikill kostnaður fallið á fjölskyldu hans vegna þess. Bíllinn hefur verið í mikilli notkun og hefur A notið góðs af því að eiga bíl til eigin nota því það auðveldar honum að umgangast skyldmenni sín sem eru mörg hver á X, sem og að fara á samkomur, afmæli, íþróttaviðburði og skemmtanir sem hann sækir mikið. A hefur ekki ökuréttindi þannig að hann hefur fengið fjölskyldumeðlimi, vini sem og starfsfólk á sambýlinu til að keyra fyrir sig bílinn þegar hann hann fer útúr húsi. Því er bíllinn ávallt staddur fyrir utan X þar sem hans heimili er (sjá skjal).

A er aðstoðarmaður við þjálfun hjá meistaraflokki X í knattspyrnu. C þjálfari, D aðstoðarþjálfari og A fara saman á bílnum á æfingar til X nánast daglega. Það sýnir hversu gott samstarf er hjá þeim því þeir sækja A fyrir hverja æfingu og keyra saman á bíll A á æfingar. Þetta væri ekki hægt nema að A hefði bíl til umráða, að fá að stýra og taka þátt í starfi eins af stærri knattspyrnuliðum á landinu X, er hans ást og yndi. A hefur starfað með C nánast óslitið sðastliðin 10 ár.

Ég held að það þurfi ekkert að þylja upp marga hluti til að sjá hversu mikilvægt það er fyrir einstakling eins og A að eiga bifreið til eigin nota eins og nánast annar hver landsmaður á. A er orðinn 31.árs og á sín bestu ár framundan, það er vilji minn og fjölskyldunnar að hann eigi sem auðveldast með að fara allra sinna ferða  og þess vegna var gripið til þess ráðs og kaupa fyrir hann bíl í fyrra sem var greiddur af fjölskylu hans, en betur má ef duga skal. A notar bílinn mikið og keyrir nánast daglega  á X. Því viljum við að öryggi hans sé gott og hann geti ferðast um á nýlegri bíl sem þarfnast ekki mikils viðhalds.

Ástæðan fyrir því að ég vil fara með málið lengra varðandi þessa synjun sem A fékk er sú að ég og A erum búnir að vera bestu vinir síðastliðin 3 ár og síðastliðið ár hafa samskipti okkar og samvera aukist gríðarlega með tilkomu bílsins,  og höfum við sótt ýmsa viðburði  þá sérstaklega íþróttaviðburði saman með lítilli fyrirhöfn . A er bróðir sambýliskonu minnar og hófst okkar vinskapur út frá því og hef á ég áhuga að berjast fyrir hans rétti því mér finnst vera á hann vegið með synjun frá Tryggingastofnun Ríkisins, þess vegna leita ég til ykkar.

Send var inn umsókn fyrir A varðandi bifreiðastyrk í Desember 2009 og voru skjót viðbrögð við þeirri umsókn frá ykkur, sem var synjun. Það svar kom nokkuð flatt upp á okkur þar sem allt var til staðar sem þurfti og krafist var skýringar við. Þær voru að ef A væri ekki með ökuréttindi sem hann er að sjálfsögðu ekki með(sjá fjölfötlunarvottorð hjá tryggingastofnun) þyrfti einstaklingur með sama lögheimili og A að vera skráður fyrir bílnum sem gengur heldur ekki upp þar sem A býr á sambýli og er enginn með ökuréttindi þar.Samkvæmt starfsmanni Tryggingastofnunar ríkisns er ástæðan  sú að það var búið að misnota þennan styrk hjá fólki sem hefur þegið styrkinn og ekki notað hann á réttum forsendum þ.e.a.s. keypt bíl sem er ekki einungis fyrir fatlaðan einstakling, sem er synd fyrir þá sem þurfa á honum að halda en geta það ekki sökum svona notkunar.

A hefur aldrei þegið styrk til bifreiðakaupa hjá Tryggingastofnun ríkisins svo ekki hefur hann átt mökuleika á  að misnota styrkinn.”

 

Úrskurðarnefndin óskaði eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins með bréfi dags. 18. febrúar 2010. Greinargerðin er dags. 9. apríl 2010. Þar segir m.a.:

 

 1. Kæruefni

Þann 22. febrúar 2010 barst Tryggingastofnun kæra frá B vegna A. Kærð er synjun á uppbót/styrk vegna kaupa á bifreið.

 

2. Málavextir

Kærandi sótti um uppbót/styrk vegna bifreiðkaupa þann 7. nóvember 2009. Í umsókninni kemur fram að kærandi hefur ekki sjálfur gilt ökurskírteini. Skráður ökumaður er D en hann er skráður til heimilis að X. Kærandi er býr hins vegar að X.

Þann 26. nóvember var kæranda synjað um uppbót/styrk vegna bifreiðakaupa þar sem að skilyrði um að umsækjandi eða annar heimilimaður hafi sjálfur ökuréttindi voru ekki uppfyllt. Ekki var tekin efnisleg afstaða til annarra skilyrða sem koma fram í reglugerð nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða.

 

3. Uppbót/styrkur vegna bifreiðakaupa

Uppbót vegna bifreiðakaupa er veitt samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007. Samkvæmt ákvæðinu er heimilt að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt er að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar.

Styrkur vegna bifreiðakaupa er veittur samkvæmt  3. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð. Samkvæmt ákvæðinu er heimilt að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg er vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta.

Sett hefur verið reglugerð um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða, nr. 170/2009. Í 3. gr. reglugerðarinnar er fjallað um uppbót vegna bifreiðakaupa og í 4. og 5. gr. um styrki vegna bifreiðakaupa. Í 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar, svo og 2. mgr. 4. gr., kemur fram að eingöngu megi veita uppbót/styrk vegna bifreiðakaupa ef að hinn hreyfihamlaði hefur sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður.

 

4. Skilyrðið um ökuréttindi umsækjanda eða heimilismanns

Þess ber að geta að reglugerð um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða, nr. 170/2009 var sett þann 30. janúar s.l., en hún tók við af eldri reglugerð um styrki og uppbætur Tryggingastofnunar ríkisins til hreyfihamlaðra vegna bifreiða, nr. 752/2002, með síðari breytingum.

Með þessari nýju reglugerð hefur aðgengi að uppbótum og styrkjum verið rýmkað verulega frá því sem áður var. Eitt af þeim atriðum sem sérstaklega var tekin afstaða til var hversu ströng skilyrði ætti að setja um að umsækjandi hefði sjálfur ökuréttindi. Í eldri reglugerð hafði eins og nú verið skilyrði fyrir veitingu uppbótar vegna bifreiðakaupa að umsækjandi eða heimilismaður hans hefðu ökuréttindi. Fyrir veitingu styrkja vegna bifreiðakaupa voru hins vegar strangari skilyrði en í þeim tilvikum þurfti umsækjandi sjálfur að hafa ökuréttindi.

Í nýju reglugerðinni hafa skilyrði til þess að eiga rétt á styrk vegna bifreiðakaupa, hvort sem það er skv. 4. gr. eða 5. gr reglugerðarinnar, verið rýmkuð á þann hátt að nú þurfa umsækjendur ekki sjálfir að hafa ökuréttindi heldur dugir að heimilismaður hafi slík réttindi. Núna eru því gerðar sömu kröfur til ökuréttinda umsækjanda og heimilismanns hans hvort sem um er að ræða uppbætur vegna bifreiðakaupa samkvæmt 3. gr. eða styrki til bifreikaupa samkvæmt 4. eða 5. gr. reglugerðarinnar.

 

5. Niðurstaða

Miðað við skýrt og afdráttarlaust orðalag ofangreindra ákvæða er ljóst að umsækjendi á ekki rétt á uppbót eða styrk til bifreiðakaupa. Rétt er að benda á að sú niðurstaða Tryggingastofnunar er í samræmi við fordæmi úrskurðarnefndar m.a. í málum nr. 246 og 247 frá árinu 2009. Einnig er þetta í samræmi við ítrekaða túlkun á sambærilegum ákvæðum eldri reglugerðar nr. 752/2002, með síðari breytingum.

Tryggingastofnun ítrekar því fyrri synjun sína.

 

Greinargerðin var send umboðsmanni kæranda með bréfi, dags. 25. maí 2010, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Slíkt hefur ekki borist.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um uppbót/styrk vegna bifreiðakaupa hreyfihamlaðra.

Í rökstuðningi með kæru er vísað til þess að kærandi hafi verið virkur í starfi og félagslífi þrátt fyrir að vera bundinn í hjólastól. Kærandi starfi sem aðstoðarmaður við þjálfun hjá meistaraflokk X í knattspyrnu. Einnig var bent á mikilvægi þess að kærandi eigi bifreið til eigin nota í þeim tilgangi að auðvelda honum að komast ferða sinna. Meðfylgjandi kæru fylgdu bréf þar sem þörf kæranda fyrir bílnum var ítrekuð. Vísað hefur verið til þess hversu hamlandi það sé fyrir kæranda að þurfa nýta sér ferðaþjónustu fatlaðra til þess að komast ferða sinna. Ferðirnar séu takmarkaðar og aðeins innan höfuðborgarsvæðisins. Fjölskylda kæranda búi utan höfuðborgarsvæðisins og einnig sé starf hans utan þess.

Í greinargerð Tryggingastofnunar er vísað til gildandi laga og reglna um skilyrði til að hljóta styrki og uppbætur vegna bifreiðakaupa. Fram kemur að stofnunin hafi synjað kæranda um styrk þar sem hvorki hann né annar heimilismaður hafi réttindi til að aka.

Í 1. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð nr. 99/2007 segir að heimilt sé að greiða til elli- örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt er að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar.  Þá er einnig heimilt að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg er vegna þess að líkamsstarfemi sé hömluð eða vantar líkamshluta, sbr. 3. mgr. sömu greinar. Ráðherra setur reglugerð um greiðslur samkvæmt ákvæðinu. Reglugerð nr. 170/2009 hefur verið sett um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða með vísan til framangreindrar heimildar.

Á grundvelli 3. gr. reglugerðar nr. 170/2009 er heimilt að greiða elli- og örorkulífeyrisþega og örorkustyrksþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar. Uppbótina er eingöngu heimilt að veita að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum sem nefnd eru í sömu grein. Annað þeirra er að hinn hreyfihamlaði hafi sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður. Samkvæmt 4. gr. reglugerðarinnar er fjallað um heimild til að veita styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg er vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta. Ákveðin skilyrði eru tiltekin í fimm liðum fyrir veitingu styrksins. Þeirra á meðal er að hinn hreyfihamlaði hafi sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður. Þá segir í 5. gr. reglugerðarinnar um veitingu styrkja sem nema allt að 50-60% af kaupverði bifreiðar að það sé skilyrði að hinn hreyfihamlaði aki sjálfur eða annar heimilismaður.

Í umsókn kæranda um uppbót/styrk til bifreiðakaupa hreyfihamlaðra kemur fram að kærandi hafi ekki ökuréttindi sjálfur. Þá var skráður sem ökumaður bifreiðar B, til heimilis að X. Kærandi er hins vegar til heimilis að X.

Skilyrði reglugerðar nr. 170/2009 um að hinn hreyfihamlaði hafi sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður sé tilnefndur sem ökumaður bifreiðarinnar eru skýr og orka ekki tvímælis. Í tilviki kæranda er þetta skilyrði ekki uppfyllt. Skráður ökumaður hefur skráð lögheimili á öðrum stað en kærandi og telst hann því ekki heimilismaður í skilningi ákvæða reglugerðarinnar. Engar undantekningarheimildir er að finna frá framangreindu skilyrði reglugerðarinnar.

Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið skortir úrskurðarnefnd almannatrygginga laga- og reglugerðarheimildir til að veita kæranda uppbót/styrk til bifreiðakaupa. Úrskurðarnefnd almannatrygginga hefur því ekki heimild til annars en að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um uppbót/styrk til bifreiðakaupa.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn A um uppbót/styrk til bifreiðakaupa hreyfihamlaðra er staðfest.

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

Friðjón Örn Friðjónsson

formaður

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta