Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 124/2010

Föstudaginn 24. september 2010.

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú r s k u r ð u r

Mál þetta úrskurðuðu Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.

Með kæru, dags. 3. mars 2010, kærir A til úrskurðarnefndar almannatrygginga synjun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu endurhæfingarlífeyris.

Óskað er endurskoðunar.

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að með umsókn, dags. 3. janúar 2010, sótti kærandi um endurhæfingarlífeyri. Með bréfi, dags. 15. febrúar 2010, tilkynnti Tryggingastofnun ríkisins kæranda að vegna búsetu erlendis ætti hún ekki rétt á endurhæfingarlífeyri hér á landi fyrr en eftir þriggja ára biðtíma.

 

Í rökstuðningi fyrir kæru segir:

 „Ég, A krefst þess að endurskoðaður verði grundvöllur synjunar ykkar á greiðslu endurhæfingalífeyris meðan á endurhæfingu minni stendur. Ég er fædd og uppalinn hér á landi, lendi í slysi hér árið 1982 og verð fyrir fötlun sökum framheilaskaða. Er nú í endurhæfingu hjá B Taugasálfræðing og er að fara inná Reykjalund Mánudaginn 8. Mars.

Ég lendi í alvarlegri ákeyrslu 8 ára gömul. Gekk yfir götu með vinkonum mínum og verð fyrir bifreið með þeim afleiðingum að ég höfuðkúpubrotna, fékk útvortis heilablæðingu og var meðvitundarlaus.

Þegar nú er litið til baka á mín unglingsár má greinilega sjá afleiðingu slyssins á flestu sviðum lífs míns m.a. í námi og atvinnu. Þar hef ég ekki verið samstíga mínum jafnöldrum. Hvort sem það er fjölskyldan eða samfélagið í heild sinni náði ég aldrei að uppfylla eðlilegar kröfur. Ég byrjaði fljótt að missa trúna á sjálfa mig og efi og vonleysi greip um sig. Mér fannst ég ekki passa inní þetta samfélag og sá mér ekki annað fært enn að flýja frá heimalandi mínu, fjölskyldu og vinum í þeirri von að ég myndi eiga farsælla líf annars staðar.

Í þessu samhengi vil ég benda á mikilvægar staðreyndir mér til málsbóta. Ég uppfylli búsetu skilyrði 3ja ára búseta fyrir slysdag, þar sem ég er fædd og uppalin hér á landi og hafði aldrei farið erlendis, og að rannsóknir hafa sýnt fram á að 60-70% af fólki sem verður fyrir höfuðmeiðslum á barnsaldri og gerir sér ekki grein fyrir afleiðingum heilaskaða á líf sitt flytur til annara landa. Flýr samfélag sitt og sína nánustu þar sem andlega er aðeins hægt að taka við svo miklu áreiti, þótt meiningin sé af hinu góða.

Ég get ekki séð fyrir mér og 8 ára syni mínum. Höfuðáverkar mínir hafa ekki áhrif á greind mína og sjást ekki utan á mér. Þetta er fötlun, framheilaskaði sem hefur haft og hefur áhrif á allt líf mitt, getu mína til að stjórna lífi mínu þ.e. skóla, atvinnu, heimili og daglegu lífi.

Þar sem ég gerði mér ekki grein fyrir því að ég væri að lifa við stöðugar afleiðingar slyssins, né neinn annar, var endurhæfing ekki lausn á vanda mínum á sínum tíma. Í dag er bæði ég og aðrir meðvitaðir um þessa fötlun og afleiðingar hennar. Ég vil fá þá aðstoð til endurhæfingar sem ég hefði fengið á sínum tíma ef meðvitund hefði verið um afleiðingar áverka af þessu tagi. Nú þegar ég veit að það er mögulegt þá vil ég hjálp og aðstoð í þeirri viðleitni minni til að eignast betra líf.“

 

Úrskurðarnefndin óskaði með bréfi, dags. 17. mars 2010, eftir greinargerð Trygginga­stofnunar. Greinargerðin er dagsett 29. mars 2010. Í henni segir svo:

 Kæruefni

Kærandi hefur ekki notið greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins. Kærandi sótti um endurhæfingarlífeyri í ársbyrjun 2010. Umsóknin var aldrei tekin til efnislegrar umfjöllunar þar sem búsetuskilyrði töldust ekki uppfyllt. Umsókninni var því synjað af þeim ástæðum. Við það er kærandi ósáttur og kærir synjunina til úrskurðarnefndar almannatrygginga.

Lög sem málið snerta

Um endurhæfingarlífeyri er fjallað í 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, sbr. 11. gr. laga nr. 120/2009 um breytingu á þeim lögum.

Lagagreinin hljóðar svo:

7.gr.  Endurhæfingarlífeyrir

Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18-67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys.  Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar.  Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.

Um endurhæfingarlífeyri gilda ákvæði a-liðar 1. mgr. 4. mgr. og 5. mgr. 18.gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007.  Um aðrar tengdar bætur fer eftir sömu reglum og gilda um örorkulífeyri, sbr. þó 1. mgr. 10.gr. þessara laga.  Sjúkrahúsvist í endurhæfingarskyni skemur en eitt ár samfellt hefur ekki áhrif á bótagreiðslur.

Tryggingastofnun ríkisins hefur eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt.

Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd ákvæðis þessa, m.a. um hvaða aðila skuli falið að annast gerð endurhæfingaráætlunar.

Málavextir

Kærandi lenti í bílslysi fyrir 28 árum árið 1982 þá átta ára gömul. Hún varð fyrir höfuðáverka og telur sig ekki hafa borið þess bætur síðan. Bjó í X árin 1998 til 2009. Hefur búið á Íslandi síðan í júní 2009. Fór á göngudeild Grensásdeildar haustið 2009 til mats á áverkum sínum, þar sem aldrei hafði farið fram formlegt mat á afleiðingum slyssins og hún telur sig glíma við ýmis einkenni sem líklegt er að megi að hluta rekja til heilaáverka.

Þann 3. janúar 2010 sótti kærandi síðan um endurhæfingarlífeyri til Tryggingastofnunar ríkisins. Henni var synjað þar sem hún taldist ekki uppfylla það skilyrði laga að hafa verið búsett á Íslandi að minnsta kosti þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram.

Lagarök

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 18.gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þá eiga þeir einir rétt til örorkulífeyris sem hafa verið búsettir á Íslandi a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram eða í sex mánuði ef starfsorka var óskert er þeir tóku hér búsetu.  Samkvæmt 3. mgr. 7.gr. laga nr.99/2007 um félagslega aðstoð eins og henni var breytt með 11.gr. laga nr. 120/2009 þá gildir þetta sama búsetuskilyrði einnig um endurhæfingarlífeyri. Þessi regla tók gildi 1. janúar 2010 þegar lög nr. 120/2009 tóku gildi.  Í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 120/2009 kemur fram að það sé talið eðlilegt og sanngjarnt að sömu kröfur séu gerðar um búsetutíma hér á landi hvort sem um er að ræða örorku- eða endurhæfingarlífeyri.

Umsókn kæranda er dagsett 3. janúar 2010. Þá höfðu núgildandi lög nr. 120/2009 um breyting á lögum nr. 99/2007 tekið gildi. Það er því ljóst að kærandi uppfyllir ekki búsetuskilyrði núgildandi laga til þess að eiga rétt á endurhæfingarlífeyri á Íslandi. Ef litið er til þriggja síðusta ára fyrir umsókn þá hafði hún einungis búið á Íslandi síðustu sex mánuði fyrir umsókn og starfsorka hennar var skert er hún tók sér búsetu hér að nýju.  Kærandi uppfyllir því ekki búsetuskilyrði fyrir greiðslu endurhæfingarlífeyris fyrr en í júní 2012 ef hún mun búa samfleytt á Íslandi þangað til.

 

Niðurstaða

Miðað við núgildandi lög er Tryggingastofnun ekki heimilt að greiða kæranda endurhæfingarlífeyri.

 

Greinargerðin var send kæranda með bréfi, dags. 16. apríl 2010, og henni gefin kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Athugasemdir bárust frá lögmanni kæranda þann 11. júní 2010 og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi, dags. 11. júní 2010. Athugasemdir bárust frá Tryggingastofnun ríkisins þann 15. júní 2010, og voru þær sendar lögmanni kæranda til kynningar.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Ágreiningur í máli þessu varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins á greiðslu endurhæfingarlífeyris til kæranda vegna þess að hún uppfyllti ekki búsetuskilyrði 18. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007.

Í rökstuðningi fyrir kæru segir kærandi að hún hafi lent í slysi 8 ára gömul og búi enn við afleiðingar þess. Kærandi segir að hún hafi fæðst og alist upp hér á landi og því uppfylli hún búsetuskilyrðið um þriggja ára búsetu fyrir slysdag. Þá segir kærandi að hún vilji fá hjálp og aðstoð til að eignast betra líf.

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærandi hafi sótt um endurhæfingarlífeyri í ársbyrjun 2010. Umsókn hennar hafi aldrei verið tekin til efnislegrar umfjöllunar þar sem hún hafi ekki talist uppfylla það skilyrði laga að hafa verið búsett á Íslandi að minnsta kosti þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram.

Heimild til greiðslu endurhæfingarlífeyris er í 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð nr. 99/2007.  Þar segir:

 Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.

Um endurhæfingarlífeyri gilda ákvæði a-liðar 1. mgr. 4. mgr. og 5. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007. Um aðrar tengdar bætur fer eftir sömu reglum og gilda um örorkulífeyri, sbr. þó 1. mgr. 10. gr. þessara laga. Sjúkrahúsvist í endurhæfingarskyni skemur en eitt ár samfellt hefur ekki áhrif á bótagreiðslur.“

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar eiga þeir einir rétt til örorkulífeyris sem hafa verið búsettir á Íslandi a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram eða í sex mánuði ef starfsorka var óskert er þeir tóku hér búsetu. Samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð gildir sama búsetuskilyrði einnig um endurhæfingarlífeyri.

Úrskurðarnefnd almannatrygginga hefur ekki heimild lögum samkvæmt til að víkja frá fortakslausu lagaákvæði um framangreint búsetuskilyrði. Þegar af þeirri ástæðu er synjun Tryggingastofnunar um greiðslu endurhæfingarlífeyris staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Synjun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu endurhæfingarlífeyris til A er staðfest.

 

 

F. h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

Friðjón Örn Friðjónsson,

formaður

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á hjalp@utn.is

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta