Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 77/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 2. mars 2012 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 77/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 11. febrúar 2010, vakti Vinnumálastofnun athygli  kæranda, A, á því að greiðslur atvinnuleysisbóta til hans á grundvelli bráðabirgðaákvæðis VI með lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, myndu falla niður frá og með 1. mars 2010. Kærandi kærði þessa ákvörðun til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi, dags. 6. maí 2010, og krafðist þess að ákvörðuninni yrði hrundið. Vinnumálastofnun krafðist þess að hin kærða ákvörðun yrði staðfest. Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða kvað upp úrskurð í málinu 7. desember 2010 og staðfesti ákvörðun Vinnumálastofnunar.

Kærandi sótti fyrst um greiðslur atvinnuleysistrygginga 2. febrúar 2009, en sótti um endurkomu á atvinnuleysisskrá þann 20. janúar 2010. Við endurkomu var honum reiknaður bótaréttur í samræmi við 3. gr. þágildandi laga um atvinnuleysistryggingar varðandi sjálfstætt starfandi einstaklinga, sbr. 18. og 19. gr. laganna. Með bréfi, dags. 11. febrúar 2010, vakti Vinnumálastofnun athygli hans á því að greiðslur bóta til hans á grundvelli bráðabirgðaákvæðis VI með lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, myndu falla niður frá og með 1. mars 2010. Kærandi kærði þá ákvörðun til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi, dags. 6. maí 2010, og krafðist þess að ákvörðuninni yrði hrundið. Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðs­aðgerða staðfesti þá niðurstöðu með úrskurði sínum þann 7. desember 2010.

Í kjölfar úrskurðarins leitaði kærandi til umboðsmanns Alþingis með kvörtun og í framhaldi af því beindi umboðsmaður spurningum um málið til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 27. maí 2011. Með bréfi til umboðsmanns Alþingis, dags. 20. júní 2011, tilkynnti úrskurðarnefndin að málið yrði tekið upp að nýju. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 21. júní 2011, var tilteknum spurningum beint til Vinnumálastofnunar um málið og óskað eftir frekari gögnum. Vinnumálastofnun svaraði spurningum nefndarinnar og lagði fram frekari gögn, sbr. bréf dags. 4. júlí 2011. Kröfur aðila eru þær sömu og áður, þ.e. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest en kærandi að henni verði hrundið og honum greiddar fullar atvinnuleysisbætur frá og með 1. apríl 2010 að telja.

Kærandi á og rekur fyrirtækið B en það er einkahlutafélag. Samkvæmt upplýsingum úr hlutafélagaskrá Creditinfo er kærandi stofnandi, stjórnarmaður og framkvæmdastjóri fyrirtækisins og hann er með prókúruumboð fyrir það. Í málinu liggja fyrir gögn frá skattyfirvöldum sem sýna staðgreiðslu skatta af launum kæranda sem hann fékk frá félaginu árið 2009. Kærandi sótti fyrst um greiðslur atvinnuleysistrygginga 2. febrúar 2009, fyrir gildistöku laga nr. 37/2009 um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar. Hann var á hlutabótum í fjóra mánuði, frá febrúar til maí 2009 en fór í fulla vinnu eftir það. Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur að nýju þann 20. janúar 2010. Honum var reiknaður bótaréttur sem sjálfstætt starfandi einstaklingi. Meðal gagna málsins er fyrri blaðsíða eyðublaðs RSK 5.02 stimplað móttekið af Vinnumálastofnun 22. janúar 2010, en síðari blaðsíðuna vantar.  

Í nóvember 2008 voru gerðar breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar, en með b-lið 1. gr. laga nr. 131/2008 var ákvæði til bráðabirgða bætt við lög um atvinnuleysistryggingar, sbr. ákvæði VI til bráðabirgða. Á grundvelli þessa bráðabirgðaákvæðis, sem gilti upphaflega til 1. maí 2009, var heimilt að greiða sjálfstætt starfandi einstaklingum atvinnuleysisbætur þótt þeir uppfylltu ekki að öllu leyti skilyrði f- og g-liðar 1. mgr. 18. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 20. og 21. gr. sömu laga. Þessi breyting hafði í för með sér að undanþága var veitt frá reglum um að sjálfstætt starfandi einstaklingur þyrfti að stöðva atvinnurekstur sinn til þess að geta fengið greiddar atvinnuleysisbætur. Til þess að uppfylla skilyrði undanþágunnar þurfti sjálfstætt starfandi einstaklingur meðal annars að leggja fram tilkynningu til skattyfirvalda um verulegan samdrátt í rekstri sem leitt hefði til tímabundins atvinnuleysis. Þessa tilkynningu var meðal annars hægt að gera úr garði með því að fylla út áðurnefnt eyðublað RSK 5.02.

Meðal gagna málsins er útfyllt eyðublað „Endurkoma á sama bótatímabil“ stimplað móttekið af Vinnumálastofnun 22. janúar 2010. Þar kemur fram að ástæða minnkaðs starfshlutfalls  kæranda séu lítil verkefni og að hann sé í 40% starfi. Á grundvelli þessarar umsóknar kæranda og þeirra fylgigagna sem hann lagði fram var fallist á umsókn hans um greiðslu atvinnuleysisbóta. Samkvæmt færslum í samskiptasögu Vinnumálastofnunar og kæranda sem eru meðal gagna máls þessa má ráða að Vinnumálastofnun hafi lagt til grundvallar að kærandi væri sjálfstætt starfandi einstaklingur.

Með 26. gr. laga nr. 37/2009, sem tók gildi 8. apríl 2009, var bráðabirgðaákvæði VI laga um atvinnuleysistryggingar breytt með tilteknum hætti, en meðal annars var gildistími ákvæðisins framlengdur til ársloka 2009. Samkvæmt 27. gr. laga nr. 37/2009 skyldu breytingar þær, sem kveðið var á um í lögunum, ekki gilda um þá sem þegar fengu greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði við gildistöku laganna nema breytingarnar myndu leiða til betri réttar fyrir hinn tryggða og skyldi hann þá óska leiðréttingar á greiðslum úr sjóðnum hjá Vinnumálastofnun fyrir 1. júní 2009. Þrátt fyrir þessar breytingar hélt kærandi áfram töku atvinnuleysisbóta án þess að til nokkurra breytinga hafi verið gripið á stöðu hans innan atvinnuleysistryggingakerfisins.

Með 26. gr. laga nr. 134/2009 voru enn á ný gerðar breytingar á bráðabirgðaákvæði VI laga um atvinnuleysistryggingar, meðal annars var kveðið á um að þeir sem þegar hefðu fengið greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli ákvæðisins á tímabilinu frá 21. nóvember 2008 til 31. desember 2009 skyldu eiga rétt á að fá greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli ákvæðisins í allt að tvo mánuði að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum. Í skjóli síðastnefndu reglunnar kveðst Vinnumálastofnun hafa, með bréfi dags. 11. febrúar 2010, vakið athygli kæranda á því að greiðslur atvinnuleysisbóta til hans á grundvelli bráðabirgðaákvæðis VI með lögum um atvinnuleysistryggingar myndu falla niður frá og með 1. mars 2010. Hafi honum jafnframt verið tilkynnt að hann kynni að eiga rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta á grundvelli IV. kafla laga um atvinnuleysistryggingar. Þar sem skráning kæranda hafi ekki tekið gildi fyrr en 1. febrúar 2010 hafi bótaréttur hans ekki fallið niður fyrr en í lok mars 2010. Kærandi kveðst ekki kannast við að hafa fengið þetta bréf. Fram kemur að lögmaður kæranda hafi óskað eftir afriti bréfsins í tengslum við kæru kæranda til úrskurðarnefndarinnar en honum verið tjáð að ekki væri til afrit bréfsins.

Af hálfu kæranda kemur fram að hann hafi ekki verið með rekstur á eigin kennitölu heldur hafi hann rekið fyrirtæki og verið þar launþegi. Þess er farið á leit að kærandi verði kærður inn á launþegaskrá og út af skrá fyrir sjálfstætt starfandi einstaklinga. Frá upphafi hafi legið fyrir að kærandi hafi verið launþegi hjá eigin fyrirtæki en reglurnar hafi hins vegar verið þær að farið hafi verið með slíka einstaklinga sem sjálfstætt starfandi, þar til breyting hafi verið gerð á lögum um atvinnuleysistryggingar með lögum nr. 37/2009. Þá hafi slíkir einstaklingar getað sótt um að færast í flokk launþega. Kærandi hafi aldrei fengið vitneskju um að honum bæri að kæra sig inn sem launþega og hafi hann þó verið í sambandi við starfsmenn Vinnumálastofnunar fram í maí 2009, en samkvæmt bráðabirgðaákvæði VII í áðurnefndum breytingalögum hafi borið að gera það fyrir 1. júní 2009. Af hálfu Vinnumálastofnunar sé á því byggt að með bréfi, dags. 11. febrúar 2010, hafi kæranda verið tilkynnt að greiðslur myndu falla niður á grundvelli bráðabirgðaákvæðis VI frá og með 1. mars 2010. Kærandi kveðst ekki kannast við bréf þetta. Lögmaður kæranda kveðst hafa óskað þess að honum yrði sent afrit umrædds bréfs og hafi honum borist svar þess efnis að ekki væri til afrit af slíkum bréfum en Vinnumálastofnun hafi þóst hafa sent bréfið. 

Kærandi hafi síðan verið endurskráður í janúar 2010, en þá hefði átt að nýskrá hann sem launþega. Hann hafi verið felldur undir skilmála sjálfstætt starfandi einstaklinga og hafi getað fengið tveggja mánaða bætur en hafi orðið að stöðva rekstur. Ekkert hafi orðið af því enda hafi beiðni hans verið sú að fá sig skráðan sem launþega. Við lagabreytinguna hefði átt að skrá kæranda sem launþega og enda þótt formsins vegna hefði átt að koma ósk um slíkt frá honum fyrir 1. júní 2009 hafi verið viðurhlutamikið að fella út möguleika á atvinnuleysisbótarétti hans sem launþega á þeirri forsendu að það hafi farist fyrir enda hafi breytingin átt að leiða til betri réttar fyrir hann svo sem fram komi í bráðabirgðaákvæði VII. Um þetta leyti hafi hann líka farið af atvinnuleysisskrá og komist í fulla vinnu. Ætlast verði til að þegar slík meginbreyting verði á lögum sem varði ákveðinn hóp fólks sem býr við ákveðna réttarstöðu að slíkt sé tryggilega kynnt.

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 14. október 2010, kemur fram að samkvæmt þágildandi 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi tryggingarhlutfall kæranda, þegar hann sótti um atvinnuleysisbætur þann 2. febrúar 2009, verið byggt á reglum er gilt hafi um sjálfstætt starfandi einstaklinga innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Vinnumálastofnun hafi verið gert, samkvæmt þágildandi 4. mgr. 19. gr. laganna, að taka mið af skrám skattyfirvalda til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi einstaklinga á ávinnslutímabili. Hafi verið litið til þess hvort staðið hafi verið skil á tryggingagjaldi á ávinnslutímabili og ekki horft til þeirra launa sem atvinnuleitandi hafi greitt sér á tímabilinu. Hafi kærandi í framhaldinu verið samþykktur með 100% bótarétt og fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samræmi við rétt sinn.

Með lögum nr. 37/2009 um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar hafi skilgreiningu á sjálfstætt starfandi einstaklingum verið breytt og eingöngu þeir sem höfðu starfað við rekstur á eigin kennitölu skilgreindir sem sjálfstætt starfandi einstaklingar innan kerfisins. Breytingin hafi átt við um þá sem sótt hafi um atvinnuleysisbætur eftir 8. apríl 2009 þegar lagabreytingin tók gildi. Þeir sem störfuðu hjá eigin einkahlutafélögum, sameignarfélögum eða hlutafélögum lutu þar með reglum um launafólk, sbr. a-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kveðið sé á um lagaskil í bráðabirgðaákvæði VII með lögum nr. 37/2009 um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt athugasemdum með frumvarpi sem varð að lögum nr. 37/2009 hafi þótt ástæða til að leggja til að breytingar þær sem tóku gildi með lögunum hefðu ekki áhrif á rétt þeirra sem þegar fengu greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði nema breytingarnar leiddu til betri réttar fyrir hinn tryggða. Hafi  þeim sem þegar höfðu fengið greiddar atvinnuleysisbætur verið gert að óska leiðréttinga á greiðslum fyrir 1. júní 2009. Kærandi hafi ekki óskað leiðréttinga á grundvelli ákvæðisins. Því hafi hann áfram verið skráður sem sjálfstætt starfandi einstaklingur og hafi bótaréttur hans haldist í 100% eins og áður hafi verið ákveðið.

Fram kemur af hálfu Vinnumálastofnunar að ágreiningur í máli þessu snúi að því hvort breyting sú sem samþykkt var með lögum nr. 134/2009 á bráðabirgðaákvæði VI með lögum um atvinnuleysistryggingar eigi við í máli kæranda. Sú regla sem komi fram í 4. mgr. bráðabirgðaákvæðis VI eigi við um þá sem kunni að eiga rétt til greiðslu eða hafi fengið greitt á grundvelli 1. og 2. mgr. ákvæðisins. Kærandi hafi þegið greiðslur á grundvelli bráðabirgðaákvæðis VI með lögum um atvinnuleysistryggingar. Með tilkomu 4. mgr. bráðabirgðaákvæðisins hafi löggjafinn ákvarðað að þrír mánuðir séu hæfilegur tími fyrir sjálfstæða atvinnurekendur á atvinnuleysisbótum í minnkuðu starfshlutfalli til að meta hvort rekstrarforsendur fyrirtækis séu brostnar. Þeir sem þegar hafi fengið greitt á grundvelli ákvæðisins eigi rétt á að fá greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli þess í tvo mánuði frá gildistöku laganna. Með vísan til framangreindra sjónarmiða telji stofnunin að kærandi falli undir bráðabirgðaákvæði VI með lögum um atvinnuleysistryggingar og þar af leiðandi 4. mgr. sama ákvæðis. Í ljósi þess að kærandi hafi fengið greiddar bætur á grundvelli bráðabirgðaákvæðis VI telji stofnunin að kærandi hafi átt rétt á að fá greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli ákvæðisins til 1. mars 2010.

Þegar heimild samkvæmt bráðabirgðaákvæði VI með lögum um atvinnuleysistryggingar sleppi, taki við almenn skilyrði laganna. Samkvæmt f- og g-lið 18. gr. laganna sé eitt af skilyrðum fyrir atvinnuleysistryggingum sjálfstætt starfandi einstaklinga að þeir hafi stöðvað rekstur og leggi fram staðfestingu um stöðvun reksturs, sbr. 21. gr. laganna. Í samræmi við 21. gr. laganna telji Vinnumálastofnun nægilegt að umsækjendur skili staðfestingu á lokun launagreiðendaskrá frá ríkisskattstjóra. Samkvæmt þeim gögnum sem fyrir liggi hjá Vinnumálastofnun hafi kærandi ekki stöðvað rekstur og beri því að synja honum um atvinnuleysisbætur.

Kæranda var send greinargerð Vinnumálastofnunar með bréfi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 19. október 2010, og var honum veittur frestur til 2. nóvember 2010 til að koma frekari athugasemdum á framfæri í máli þessu. Af hálfu kæranda barst úrskurðarnefndinni bréf, dags. 1. nóvember 2010.

Með bréfi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða til Vinnumálastofnunar, dags. 21. júní 2011, í tilefni þess að nefndin hafði ákveðið að taka málið fyrir að nýju, var óskað eftir tilteknum gögnum. Einnig var óskað eftir upplýsingum um það hvort Vinnumálastofnun hafi tilkynnt kæranda um að hann væri meðhöndlaður sem sjálfstætt starfandi einstaklingur í kjölfar umsóknar hans um atvinnuleysisbætur og hvort stofnunin hafi upplýst hann um þær breytingar sem gerðar voru á lögum um atvinnuleysistryggingar með lögum nr. 37/2009 og þá sérstaklega það ákvæði laganna sem laut að fresti til 1. júní 2009 að breyta réttarstöðu sinni úr sjálfstætt starfandi einstaklingi í launamann.

Í svarbréfi Vinnumálastofnunar, dags. 4. júlí 2011, kemur fram að meðfylgjandi bréfinu sé afrit af umsókn kæranda frá 2. febrúar 2009 og fylgigögnum sem honum hafi verið gert að skila til stofnunarinnar að undanskilinni virðisaukaskattskýrslu. Fram kemur að Vinnumálastofnun hafi ekki undir höndum skjalið RSK 5.02 í heild sinni og telji stofnunin líklegt að stofnuninni hafi aðeins borist fyrri hluti skjalsins. En af þeim hluta skjalsins sem stofnunin hafi undir höndum megi sjá tilkynningu til launagreiðendaskrár ríkisskattstjóra um samdrátt í rekstri fyrirtækisins B ehf. Hafi kæranda verið gerð grein fyrir því að hann þyrfti að skila slíkri tilkynningu þegar hann sótti um hjá stofnuninni enda væri hann með eigið einkahlutafélag. Hefði kæranda mátt vera það ljóst þegar hann sótti um greiðslur atvinnuleysistrygginga þann 2. febrúar 2009 að hann teldist sjálfstætt starfandi einstaklingur í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.  

Í fyrrnefndu svarbréfi Vinnumálastofnunar kemur einnig fram að stofnunin veki athygli á öllum lagabreytingum á heimasíðu stofnunarinnar. Hafi lög nr. 37/2009 verið birt á heimasíðu stofnunarinnar. Samkvæmt lögunum hafi þeim sem þegar hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur, verið gert að óska leiðréttinga á greiðslum fyrir 1. júní 2009. Sé rétt að taka fram að framangreindar breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar hafi ekki leitt til betri réttar kæranda er frestur til að óska leiðréttingar hafi runnið út í júní 2009.

Í febrúar 2010 hafi Vinnumálastofnun sent bréf til eigenda atvinnurekstrar og sjálfstætt starfandi einstaklinga sem hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur samkvæmt bráðabirgða­ákvæði VI við lög um atvinnuleysistrygginga og hafi kæranda verið þeirra á meðal. Ekki hafi verið tekið afrit af öllum þeim bréfum sem send hafi verið út en stofnunin hafi undir höndum eintak af bréfinu á stöðluðu formi og fylgi það bréfi stofnunarinnar.

Lögmanni kæranda voru send framangreind gögn og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 15. desember 2011. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Kærandi sótti fyrst um greiðslur atvinnuleysisbóta þann 2. febrúar 2009. Hann fékk í kjölfarið greiddar bætur sem sjálfstætt starfandi einstaklingur í samræmi við 3. gr. þágildandi laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 18. og 19. gr. laganna.

Þann 8. apríl 2009 gengu í gildi lög nr. 37/2009 um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar. Með lögunum var skilgreiningu á sjálfstætt starfandi einstaklingum breytt þannig að eingöngu þeir sem starfa við rekstur á eigin kennitölu skyldu teljast sjálfstætt starfandi einstaklingar innan kerfisins. Þeir sem störfuðu hjá eigin einkahlutafélögum, sameignarfélögum eða hlutafélögum skyldu hins vegar lúta reglum um launafólk.

Kærandi starfaði á þessum tíma hjá eigin einkahlutafélagi og lagabreytingin gat því samkvæmt orðanna hljóðan átt við um hann.

Breytingin átti hins vegar aðeins við um þá sem sóttu um atvinnuleysisbætur eftir 8. apríl 2009 er lagabreytingin tók gildi. Í bráðabirgðaákvæði VII með lögum nr. 37/2009 var fjallað um stöðu þeirra sem þáðu bætur þegar breytingin tók gildi. Samkvæmt ákvæðinu gilti breytingin ekki um þá nema hún leiddi til betri réttar fyrir þá og skyldu þeir þá óska leiðréttingar á greiðslum úr sjóðnum hjá Vinnumálastofnun fyrir 1. júní 2009.

Kærandi fékk greiddar hlutaatvinnuleysisbætur frá 2. febrúar til 20. maí 2009, en hóf störf eftir það. Kærandi þáði því atvinnuleysisbætur þegar lögin tóku gildi þann 8. apríl 2009. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði VII átti breytingin því ekki við um hann nema það leiddi til betri réttar fyrir hann og skyldi hann þá óska leiðréttingar á stöðu sinni fyrir 1. júní 2009.

Kærandi óskaði ekki leiðréttingar á stöðu sinni fyrir 1. júní 2009, en hann hætti hins vegar á atvinnuleysisbótum þann 20. maí 2009, áður en frestur samkvæmt framansögðu rann út.

Þann 20. janúar 2010 lagði kærandi fram umsókn um endurkomu á sama bótatímabili og óskaði þess að skráningin tæki gildi 1. febrúar 2010 þar sem hann var í fullu starfi út janúarmánuð. Ástæða umsóknar var samdráttur í verkefnum einkahlutafélags kæranda.

Þegar kærandi óskaði eftir endurkomu á atvinnuleysisskrá þann 1. febrúar 2010 var hann launþegi í skilningi gildandi laga um atvinnuleysistryggingar, en hann rak þá eigið einkahlutafélag. Í ljósi þess að um var að ræða endurkomu á sama bótatímabili var staða hans í kerfinu hins vegar byggð á sömu forsendum og skráning hans á fyrra bótatímabilinu. Af þeirri ástæðu var á því byggt að kærandi væri sjálfstætt starfandi einstaklingur, en þannig var hann skráður á fyrra bótatímabilinu og hann óskaði ekki leiðréttingar áður en frestur til þess rann út þann 1. júní 2009.

Almennt er á því byggt í bótakerfinu að við endurkomu á sama bótatímabili haldist réttindi bótaþega óbreytt. Á það meðal annars við um lengd bótatímabils og áhrif viðurlaga, biðtímaákvarðana og ítrekunaráhrifa. Hlutfall bótaréttar helst einnig óbreytt, þ.e. lækkar ekki, en hlutfallið getur hins vegar hækkað með ávinnslu milli bótatímabila.

Í máli þessu þarf að taka afstöðu til þess hvort skráning kæranda sem sjálfstætt starfandi einstaklings skuli halda sér við endurkomu hans á sama bótatímabili. Þetta er ekki sjálfsagt í ljósi þess að í millitíðinni hefur átt sér staða lagabreyting sem myndi leiða til þess að kærandi væri meðhöndlaður sem launamaður, væri hann að koma nýr inn í kerfið. Einnig er ljóst að meðhöndlun kæranda sem launþega myndi leiða til betri réttar fyrir hann, en sem launþegi ætti hann rétt á bótum vegna samdráttar í verkefnum hlutafélags síns. Sem sjálfstætt starfandi einstaklingur á hann hins vegar aðeins rétt á bótum í rúman mánuð.

Sú sérstaða er uppi í máli kæranda að hann hætti á bótum þann 20. maí 2009 áður en frestur til að óska eftir leiðréttingu á skráningu hans rann út þann 1. júní 2009. Það er því skiljanlegt að hann hafi ekki óskað eftir breytingu á skráningu sinni, enda var hann ekki lengur bótaþegi í kerfinu og gerði ekki sérstaklega ráð fyrir því að þurfa að þiggja atvinnuleysisbætur að nýju.

Með hliðsjón af þeirri sérstöðu málsins að kærandi fór úr kerfinu áður en lögbundinn frestur hans til að breyta skráningu sinni úr sjálfstætt starfandi einstaklingi yfir í launþega, þykir ekki sjálfsagt að meðhöndla hann sem sjálfstætt starfandi við endurkomu hans á sama bótatímabili. Við mat á þessum þætti málsins verður ekki hjá því litið að meðhöndlun kæranda sem sjálfstætt starfandi einstaklings er í andstöðu við núgildandi b-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og er kæranda afar þungbær.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið er hinni kærðu ákvörðun hrundið.

 

Úr­skurðar­orð

Þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að greiðslur atvinnuleysisbóta til A falli niður frá og með 1. mars 2010 er hrundið.

 

Brynhildur Georgsdóttir, for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

 

Sératkvæði Helga Áss Grétarssonar

 

I.

Kæra í máli þessu barst 11. maí 2010. Kæruatriðin lúta meðal annars að því hvort réttilega hafi verið staðið að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnun að meðhöndla kæranda sem sjálfstætt starfandi einstaklings þegar afstaða var tekin til umsóknar hans um atvinnuleysisbætur, dags. 2. febrúar 2009. Sú ákvörðun Vinnumálastofnunar var tekin meira en ári eftir að kæra í málinu barst. Almennt séð er kærufrestur vegna þessarar ákvörðunar löngu liðinn, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og 28. gr. stjórnsýslulaga. Því er haldið fram af hálfu kæranda að hann vissi ekki að hann væri meðhöndlaður sem sjálfstætt starfandi einstaklingur, þ.e. honum hafi ekki verið tilkynnt sú ákvörðun. Jafnframt er því haldið fram að honum hafi ekki verið leiðbeint um þessa réttarstöðu sína.

Þegar litið er til bréfs Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 26. febrúar 2009, sem og þeirrar staðreyndar að kærandi lagði fram, skömmu síðar, eyðublaðið RSK 5.02, verður því slegið föstu að kærandi hafi vitað að hann væri meðhöndlaður sem sjálfstætt starfandi einstaklingur þegar fallist var á umsókn hans um atvinnuleysisbætur frá 2. febrúar 2009. Um leið og greiðsla atvinnuleysisbóta til hans hófst, var honum tilkynnt að fallist hefði verið á umsókn hans að öllu leyti. Auðsýnilegt er að óþarfi var fyrir Vinnumálastofnun að tilkynna kæranda sérstaklega á hvaða lagagrundvelli þessi ákvörðun var tekin, sbr. fyrri málslið 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Kæranda var því tilkynnt þessi ákvörðun með fullnægjandi hætti, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærufrestur vegna þessarar ákvörðunar er liðinn og því verður þetta kæruatriði ekki tekið til nánari skoðunar, þ.e. ákvörðun Vinnumálastofnunar í mars 2009 um að kærandi skyldi teljast sjálfstætt starfandi einstaklingur verður ekki endurskoðuð. Þessi niðurstaða er einnig reist á þeirri forsendu að Vinnumálastofnun hafi veitt kæranda fullnægjandi leiðbeiningar í þessum efnum, sbr. 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga.

 

II.

Eins og áður hefur verið rakið var lögum um atvinnuleysistryggingar breytt með lögum nr. 37/2009. Lögin voru birt í A-deild Stjórnartíðinda 7. apríl 2009 en þá þáði kærandi greiðslu atvinnuleysisbóta á þeim grundvelli að hann væri sjálfstætt starfandi einstaklingur. Ekki var í lögunum kveðið á um skyldu Vinnumálastofnunar að veita hverjum og einum atvinnuleitanda upplýsingar um efni laganna, sbr. svohljóðandi 27. gr. þeirra:

Þær breytingar sem mælt er fyrir um í lögum þessum skulu ekki gilda um þá sem þegar fá greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði við gildistöku laga þessara, nema breytingarnar leiði til betri réttar fyrir hinn tryggða og skal hann þá óska leiðréttingar á greiðslum úr sjóðnum hjá Vinnumálastofnun fyrir 1. júní 2009.

Fram hefur komið að Vinnumálastofnun veiti upplýsingar um lagabreytingar af þessu tagi á heimasíðu sinni. Telja verður að slík upplýsingagjöf fullnægi skyldum stofnunarinnar skv. 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga. Þessi skilningur á leiðbeiningarskyldu stjórnvalda samrýmist einnig því orðalagi 27. gr. laga nr. 37/2009 að atvinnuleitendur skyldu „þá óska leiðréttingar á greiðslum úr sjóðnum“. Óski einstakir aðilar hins vegar um nánari upplýsingar um réttarstöðu sína ber Vinnumálastofnun að leiðbeina þeim sérstaklega, sbr. fyrrnefnd 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga. Kærandi óskaði ekki eftir slíku við Vinnumálastofnun. Sem sjálfstætt starfandi einstaklingur naut kærandi 100% bótaréttar og auðsýnilegt var að breytt skráning í launamann í apríl 2009 hefði haft í för með breytingar á bótahlutfalli hans. Engu máli skiptir í þessu sambandi að kærandi fór af atvinnuleysisskrá áður en fyrrnefndur frestur rann út 1. júní 2009.

Kærandi breytti ekki réttarstöðu sinni úr því að vera sjálfstætt starfandi einstaklingur í að vera launþegi fyrir 1. júní 2009. Hann var því áfram sjálfstætt starfandi einstaklingur í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Sú staða var óbreytt þegar hann sótti aftur um greiðslu atvinnuleysisbóta í byrjun febrúar 2010. Þessi réttarstaða verður leidd af a-lið 26. gr. laga nr. 134/2009, sbr. gildandi 2. málsl. 4. mgr. bráðabirgðaákvæðis VI laga um atvinnuleysistryggingar. Einnig verður til þess að líta að kærandi gat frá og með 1. mars 2010 öðlast rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta sem sjálfstætt starfandi einstaklingur með því að stöðva rekstur sinn og leggja fram staðfestingu þess efnis, sbr. f- og g-liði 1. mgr. 18. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 20. og 21. gr. sömu laga.

Jafnframt liggur fyrir að umsókn kæranda um endurkomu í atvinnuleysistryggingakerfið byggðist í reynd á fyrri rétti hans í kerfinu en engum gögnum er til að dreifa sem sýna að kærandi hafi sem launamaður á tilteknu ávinnslutímabili fyrir 1. febrúar 2010 unnið sér inn 100% bótarétt, þ.e. sú ályktun verður ekki dregin af gögnum málsins að kærandi hafi frá og með 1. febrúar 2010 átt 100% bótarétt sem launþegi. Þetta er þýðingarmikið atriði þar sem atvinnuleysistryggingakerfið er reist á því að sjálfstætt starfandi einstaklingur eða launþegi vinni sér inn rétt í kerfinu með því að greiða ákveðið hlutfall atvinnutekna sinna til sjóðsins yfir tiltekið ávinnslutímabil, sbr. 15. gr. og 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í atkvæði meirihlutans er hvorki skilgreint hvert sé ávinnslutímabil kæranda sem launþega, sbr. 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og hvert skuli vera bótahlutfall hans, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Með vísan til ofanritaðs, og þeirra raka sem Vinnumálastofnun hefur fært fram fyrir hinni kærðu ákvörðun, þá verður hún staðfest.

 

Úr­skurðar­orð

Sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að greiðslur atvinnuleysisbóta til A falli niður frá og með 1. mars 2010 er staðfest.

Helgi Áss Grétarsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta