Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 98/2011

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 4. apríl 2012 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 98/2011.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 22. júní 2011, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði á fundi sínum þann 22. júní 2011 fjallað um umsókn hennar um atvinnuleysisbætur frá 17. maí 2011. Umsókninni var synjað þar sem vinna hennar á ávinnslutímabili bótaréttar náði ekki því lágmarki sem kveðið er á um skv. 2. mgr. 15. gr., sbr. 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 4. júlí 2011. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 17. maí 2011. Þar sem vinna á vinnslutímabili bótaréttar samkvæmt framlögðum gögnum náði ekki því lágmarki sem kveðið er á um í 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar var umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur hafnað. Ákvörðun Vinnumálastofnun var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 22. júní 2011. Meðfylgjandi umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur var vinnuveitandavottorð frá X ehf., þess efni að kærandi hafi verið þar við störf tímabilið 1. janúar til 27. desember 2007.

Í kæru kæranda kemur fram að á ávinnslutíma bótaréttar hafi hún unnið nánast 24 klukkustundir á sólarhring við umönnunarstörf. Hún hafi hins vegar ekki fengið nein laun á þessu tímabili. Hún bendir á að á „ávinnslutímabili bótaréttar“ hafi hún hugsanlega sparað ríkinu um 30 milljónir króna samtals eða um 8 milljónir króna á ári samkvæmt upplýsingum úr velferðarráðuneytinu. Kærandi kveður móður sína hafa látist 5. maí 2011 eftir tveggja vikna legu á Landspítalanum. Eftir það hafi kærandi farið að athuga með vinnu og látið skrá sig hjá vinnumiðlun. Það sé ekki auðvelt að fá vinnu um þessar mundir og hún hafi því sótt um atvinnuleysisbætur. Þá hafi komið í ljós að eftir tæp 40 ár á vinnumarkaði hafi hún glatað réttindum sínum til atvinnuleysisbóta við (launalaus) umönnunarstörf síðustu fjögur árin. Umönnunarstörfin hafi hafist við andlát föður hennar í janúar 2007. Móðir hennar hafi orðið sjónskert á sama tíma og hafi ekki getað verið ein enda orðin 86 ára gömul. Kærandi kveðst hafa selt sinn hlut í fyrirtæki sínu og alveg hætt störfum þar í júlí 2007. Hún hafi annast móður sína og séð um allt sem hún hafi þurft með. Líðan móðurinnar hafi verið þannig síðustu árin að hefði kærandi ekki annast hana hefði hún orðið að fara á hjúkrunardeild.

Kærandi kveðst hafa sótt um umönnunarbætur árið 2007 en verið synjað um þær. Hún hafi kært þá ákvörðun til úrskurðarnefndar almannatrygginga sem hafi staðfest synjun Tryggingastofnunar ríkisins. Forsendur synjunarinnar hafi verið þær að kærandi hafi ekki átt sama lögheimili og móðir hennar. Þó hafi verið óumdeilt að móðir hennar hafi þarfnast umönnunar allan sólarhringinn.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 9. ágúst 2011, vísar stofnunin til þess að lög um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Sé markmið atvinnuleysistryggingalaganna að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð meðan þeir séu að leita sér að starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt.

Fram kemur að í e-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé mælt fyrir um það skilyrði að launamaður teljist tryggður samkvæmt lögunum ef hann hefur verið launamaður á ávinnslutímabili skv. 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Með hugtakinu ávinnslutímabil sé átt við þann tíma sem launamaður þurfi að vera virkur á vinnumarkaði til að teljast vera að fullu tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Í 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé mælt nánar fyrir um ávinnslutímabil en skv. 1. mgr. 15. gr. laganna teljist launamaður að fullu tryggður samkvæmt lögunum, hafi hann starfað samfellt á síðustu tólf mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sæki um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum.

Í V. kafla laga um atvinnuleysistryggingar sé mælt fyrir um þau tilvik er leiði til þess að atvinnuleysistryggingar geymist er þátttöku á vinnumarkaði sé hætt tímabundið. Í 3. og 4. mgr. 23. gr. laga um atvinnuleysistryggingar komi fram að einstaklingur sem hverfi af vinnumarkaði í allt að 24 mánuði og sæki síðan um atvinnuleysisbætur geti talist tryggður í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Þannig geti upphaf ávinnslutímabilsins verið að hámarki 36 mánuðir aftur í tímann frá þeim degi er umsókn hafi borist enda hafi umsækjandi ekki verið virkur á vinnumarkaði á síðustu 24 mánuðum. Hafi hann ekki sótt um atvinnuleysisbætur innan 24 mánaða frá þeim tíma er hann sannanlega hafi hætt þátttöku á vinnumarkaði falli réttur hans til geymdrar atvinnuleysistryggingar niður.

Af gögnum máls þess megi ráða að kærandi hafi síðast verið í launuðu starfi á innlendum vinnumarkaði þann 27. desember 2007. Hún hafi ekki sótt um greiðslur atvinnuleysistrygginga fyrr en með umsókn dagsettri 17. maí 2011, u.þ.b. 39 mánuðum eftir að síðasta starfi hafi lokið.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 12. ágúst 2011, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 26. ágúst 2011. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda

2.

Niðurstaða

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur þann 17. maí 2011. Samkvæmt vinnuveitandavottorði hafði hún síðast starfað frá 1. janúar til 27. desember 2007. Í III. kafla laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna. Í e-lið 1. mgr. 13. gr. laganna kemur fram að launamaður telst tryggður ef hann hefur verið launamaður á ávinnslutímabili skv. 15. gr. laganna. Í 15. gr. laganna er kveðið á um ávinnslutímabil launamanna og eru 1. og 2. mgr. 15. gr. laganna svohljóðandi:

Launamaður, sbr. a-lið 3. gr., telst að fullu tryggður samkvæmt lögum þessum eftir að hafa starfað samfellt á síðustu tólf mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum, sbr. þó 4. mgr.

Launamaður sem starfað hefur skemur en tólf mánuði en lengur en þrjá mánuði á síðustu tólf mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar, telst tryggður hlutfallslega í samræmi við lengd starfstíma að öðrum skilyrðum uppfylltum, sbr. einnig 4. mgr.

Í V. kafla laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um tilvik er leiða til þess að atvinnuleysistryggingar geymast. Í 3. mgr. 23. gr. laganna kemur fram að við útreikninga á ávinnslutímabili skv. 15. eða 19. gr. þegar komi til geymdrar atvinnuleysistryggingar skuli líta til síðustu tólf mánaða sem hinn tryggði hafi starfað á innlendum vinnumarkaði á síðustu 36 mánuðum frá móttöku umsóknar enda leiði ekki annað af lögunum. Í 4. mgr. sömu lagagreinar kemur fram að sæki hinn tryggði ekki um atvinnuleysisbætur innan 24 mánaða frá þeim degi er hann sannanlega hafi minnkað starfshlutfall sitt falli réttur hans til að geyma atvinnuleysistrygginguna niður.

Eins og fram hefur komið var kærandi síðast á innlendum vinnumarkaði þann 27. desember 2007. Hún sótti um atvinnuleysisbætur þann 17. maí 2011 eða 39 mánuðum eftir að síðasta starfi lauk. Kærandi uppfyllir því ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar um lágmarksbótarétt á ávinnslutímabili og verður því ekki komist hjá því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 22. júní 2011 í máli A um synjun á umsókn um atvinnuleysisbætur er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta