Hoppa yfir valmynd

Nr. 399/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 22. ágúst 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 399/2019

í stjórnsýslumálum nr. KNU19050063 og KNU19050064

 

Kærur [...] og [...]

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Með kæru, dags. 31. maí 2019, kærðu [...] (hér eftir K), fd. [...] og [...] (hér eftir M), fd. [...], ríkisborgarar [...], ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 16. maí 2019, um að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærendur krefjast þess að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að þeim verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 78. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og lagt verði fyrir stofnunina að taka mál þeirra til nýrrar meðferðar og ákvörðunar.

Fyrrgreindar ákvarðanir voru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og bárust kærurnar fyrir lok kærufrests.

Í ljósi þess að málsatvik, málsástæður og kröfur kærenda í málum KNU19050063 og KNU19050064 eru sambærilegar, kærendur eru í hjúskap og eru með sama umboðsmann, auk þess sem ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum þeirra eru að mestu leyti samhljóða, verður kveðinn upp einn úrskurður í báðum málum.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærendur sóttu um dvalarleyfi hér á landi þann 21. desember 2018 á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga. Með ákvörðunum Útlendingastofnunar, dags. 16. maí 2019, var kærendum synjað um dvalarleyfi hér á landi. Umboðsmanni kærenda var tilkynnt um ákvarðanirnar þann 20. maí 2019 og kærðu kærendur ákvarðanirnar til kærunefndar útlendingamála þann 31. maí 2019. Greinargerð kærenda barst kærunefnd þann 18. júní sl. Þann 12. ágúst sl. bárust viðbótargögn frá kærendum.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar kom fram að kærendur væru búsett í [...] en að sonur þeirra væri búsettur hér á landi ásamt eiginkonu sinni og barni. Vísaði stofnunin til og reifaði skilyrði 78. gr. laga um útlendinga. Í niðurstöðu sinni vísaði stofnunin til þess að kærendur hefðu búið alla sína tíð í [...]. Óumdeilt væri að kærendur hefðu fjölskyldutengsl við landið enda ættu þau hér uppkomin son og barnabarn og þá lægi fyrir að sonur þeirra hefði sent kærendum peningagreiðslur til heimaríkis. Af fyrirliggjandi gögnum væri hins vegar ekki séð að rík umönnunarsjónarmið væru til staðar í málum kærenda. Þá var það mat Útlendingastofnunar að það teldist ekki bersýnilega ósanngjarnt að veita kærendum ekki dvalarleyfi hér á landi enda byggju þau saman í [...].

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð byggja kærendur á því að K þarfnist umönnunar einkasonar þeirra, sem sé búsettur hér á landi ásamt eiginkonu sinni og barni. Eins þarfnist barnabarn þeirra hér á landi umönnunar K. Þá sé M atvinnulaus og hafi engin félagsleg tengsl án eiginkonu sinnar í [...]. Þá séu kærendur á framfæri sonar síns sem sendi þeim reglulega peninga. Vísa þau til þess að K hafi oft komið hingað til lands og sonur þeirra hafi farið eins oft og hann hafi haft tök á til [...] til að aðstoða K. Sonur þeirra eigi hins vegar ekki auðvelt með að sinna K í [...] og skilja eiginkonu og barn eftir hér á landi, þar sem eiginkona hans þurfi aukna aðstoð við umönnun barns þeirra sem sé ungt og athafnasamt. Aðeins með því að fá dvalarleyfi hér á landi hafi K möguleika á því að aðstoða son sinn og fjölskyldu við umönnun barnabarns en eiginkona sonar kæranda sé með [...] og þarfnist þar af leiðandi töluverðrar aðstoðar við umönnun barnabarns kærenda sem sé fædd árið 2017.

Kærendur telja að Útlendingastofnun hafi brotið gegn reglum stjórnsýsluréttar við meðferð málsins. Rannsóknarskyldu hafi verið ábótavant og meðalhófs ekki gætt við töku ákvarðanna. Þá skorti jafnframt á fullnægjandi rökstuðning og telja kærendur þrönga túlkun stofnunarinnar á umönnunarskilyrðum skv. 78. gr. laga um útlendinga skorta lagastoð. Í fyrsta lagi sé því haldið fram að kærendur séu stödd á landinu en það sé rangt. Þá sé framlag K í þátttöku uppeldis og umönnunar barnabarns mikilvægt í ljósi aðstæðna en K sé einnig kennaramenntuð. Þá sé M atvinnulaus og K geti því ekki stólað á umönnun eiginmanns síns. Séu aðstæður K þess eðlis að bersýnilega ósanngjarnt væri að veita henni ekki dvalarleyfi hér á landi og leyfi til þess að njóta ríkra samvista við son sinn og fjölskyldu. Sé hún föst í heimaríki án félagslegra tengsla og sé háð umönnun og framfærslu frá Íslandi. Í öðru lagi hafi Útlendingastofnun ekki gætt meðalhófs. Þá skorti fullnægjandi rökstuðning fyrir synjun stofnunarinnar á dvalarleyfi til handa K en hana megi skilja svo að þar sem K eigi maka í [...], M, sé heimilt að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli 78. gr. laga um útlendinga. Þá eigi kærendur ekki aðra fjölskyldu en son þeirra sem þau geti stólað á. Jafnframt vísa kærendur til þess að sú túlkun Útlendingastofnunar þess efnis að umönnunarsjónarmið 78. gr., sbr. 20. gr. reglugerðar um útlendinga feli í sér að aðeins umsækjandi um dvalarleyfi þurfi að njóta umönnunar einhvers aðila hér á landi en ekki öfugt sé án lagastoðar. Í ákvæði 78. gr. laga um útlendinga sé vísað til þess að rík umönnunarsjónarmið þurfi að vera til staðar en engin afstaða sé tekin í ákvæðinu um það hver þurfi að njóta umönnunar hvers. Í tilfelli K sé ljóst að rík umönnunarsjónarmið séu til staðar þar sem bæði K þarfnist umönnunar aðila hér á landi, sem og barnabarn hennar þarfnist umönnunar K hér landi. Því sé ekki hægt að halda því fram að ekki séu til staðar rík umönnunarsjónarmið í tilfelli K og uppfylli hún því skilyrði 78. gr. laganna.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi á grundvelli þess að hann teljist hafa sérstök tengsl við landið, að fullnægðum skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr. laganna, sé hann eldri en 18 ára og falli ekki undir ákvæði um önnur dvalarleyfi samkvæmt lögum þessum eða fullnægi ekki skilyrðum þeirra.

Fyrir liggur að kærendur hafa aldrei haft dvalarleyfi hér á landi og hafa því ekki myndað tengsl við landið með lögmætri dvöl. Þrátt fyrir að útlendingur hafi ekki dvalist hér á landi getur hann í undantekningartilvikum talist hafa sérstök tengsl við landið þegar heildstætt mat á aðstæðum hans leiðir til þess, t.d. ef rík umönnunarsjónarmið eru til staðar og bersýnilega væri ósanngjarnt að veita umsækjanda ekki dvalarleyfi á grundvelli þeirra, sbr. 4. mgr. 78. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt 9. mgr. 78. gr. laga um útlendinga getur ráðherra sett reglugerð um nánari skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt 78. gr., m.a. hvenær geti komið til beitingar undantekningarreglu 4. mgr. ákvæðisins. Í 20. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 hefur ráðherra útfært við hvaða aðstæður getur komið til veitingar dvalarleyfis á grundvelli sérstakra tengsla þegar umsækjandi hefur ekki búið á Íslandi. Kemur þar fram að útgáfa slíks dvalarleyfis sé heimil eigi umsækjandi uppkomið barn eða foreldri sem búi á Íslandi og sé íslenskur ríkisborgari eða hafi ótímabundið dvalarleyfi eða dvalarleyfi sem geti myndað grundvöll fyrir ótímabundið dvalarleyfi. Umsækjandi þurfi að sýna fram á að hann hafi verið á framfæri þessa aðstandanda í að minnsta kosti ár og að fjölskyldu- og félagsleg tengsl hans við heimaríki séu slík að bersýnilega ósanngjarnt væri að veita honum ekki dvalarleyfi hér á landi. Þá kemur fram að umönnunarsjónarmið önnur en framfærsla þurfi að jafnaði að mæla með veitingu dvalarleyfis.

Samkvæmt gögnum málsins eru kærendur [...] árs og [...] ára. Gögn málsins benda ekki til annars en að þau hafi búið í heimaríki alla sína tíð en að tengsl kærenda við landið séu þau að einkasonur þeirra er búsettur hér á landi ásamt eiginkonu sinni og barni, sem eru íslenskir ríkisborgarar

Kærendur halda því fram að þau séu á framfæri sonar síns sem er búsettur hér á landi. Til stuðnings þeirri staðhæfingu hafa þau lagt fram gögn sem bera með sér að á tímabilinu desember 2017 til maí 2019 hafi sonur þeirra og tengdadóttir sent til þeirra vel á aðra milljón íslenskra króna. Þá hafa kærendur lagt fram vottorð frá ráðuneyti efnahagsmála og viðskipta í [...], dags. 11. október 2018, þar sem fram kemur að M hafi verið skráður atvinnulaus frá 11. október s.á. og fengi ekki atvinnuleysisbætur. Þá kemur fram í greinargerð að K sé ekki í vinnu vegna veikinda en framlögð gögn bera með sér að hún þjáist af sykursýki og krónískum blóðsjúkdómi (e. Chronic anemia). Ekki liggur fyrir hvort K njóti félagslegrar aðstoðar vegna veikinda sinna. Í ljósi framangreindra gagna er það mat kærunefndar að ekki sé tilefni til að byggja á öðru en að kærendur hafi sýnt fram á að þau hafi verið á framfæri uppkomins sonar síns hér á landi í að minnsta kosti eitt ár, sbr. 20. gr. reglugerðar um útlendinga.

Eins og að framan greinir er ljóst af gögnum málsins að sonur og barnabarn kærenda hér á landi séu einu afkomendur þeirra. Verður því ekki byggt á öðru en að fjölskyldutengsl þeirra við heimaríki séu ekki sterk. Við mat á félagslegum tengslum kærenda við heimaríki telur kærunefnd að annars vegar verði að líta til þess að líkur standi til sterkra tengsla í ljósi þess að gögn málsins benda til þess að kærendur hafi búið í heimaríki alla tíð. Á hinn bóginn verður að líta til þess að kærendur stunda ekki atvinnu í heimaríki auk þess sem frásögn þeirra bendir til tíðra ferða hingað til lands frá árinu 2011.

Að mati kærunefndar er sú ríkulega aðstoð sem kærendur hafa fengið við framfærslu í heimaríki frá einkasyni sínum og aðrar aðstæður kærenda, svo sem veikindi K og skortur á tengslum þeirra við heimaríki, þess eðlis að að rík umönnunarsjónarmið séu til staðar í málinu og að bersýnilega væri ósanngjarnt að veita kærendum ekki dvalarleyfi á grundvelli þeirra, sbr. 4. mgr. 78. gr. laga um útlendinga. Verður ákvörðun Útlendingastofnunar því felld úr gildi.

Þar sem ekki hefur verið tekin afstaða til grunnskilyrða dvalarleyfis hjá Útlendingastofnun verður lagt fyrir stofnunina að veita kærendum dvalarleyfi á grundvelli 78. gr. laga um útlendinga, að uppfylltum skilyrðum 55. gr. laganna.

 

Úrskurðarorð

Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru felldar úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að veita kærendum dvalarleyfi á grundvelli 78. gr. laga um útlendinga, að uppfylltum skilyrðum 55. gr. laganna.

The decisions of the Directorate of Immigration are vacated. The Directorate is instructed to grant the appellants residence permit based on Art. 78 of the Act on Foreigners, subject to other conditions set forth in Art. 55 of the Act on Foreigners.

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                          Anna Tryggvadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta