Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 339/2017

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 15. júní 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 339/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17040011

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 19. apríl 2017 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 30. mars 2017, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og endursenda hann til Þýskalands.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar með vísan til 1. mgr. 36. gr., sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Til vara krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og Útlendingastofnun gert að taka málið til meðferðar að nýju með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 20. febrúar 2017. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum, þann 20. febrúar 2017, kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Þýskalandi og Ungverjalandi. Þann 7. mars 2017 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Þýskalandi, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Þann 9. mars 2017 barst svar frá þýskum yfirvöldum þess efnis að þau samþykktu viðtöku kæranda á grundvelli b-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 30. mars 2017 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að hann skyldi endursendur til Þýskalands. Kærandi kærði ákvörðunina þann 19. apríl 2017 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 28. apríl 2017.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að umsókn kæranda um alþjóðlega vernd yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og hann skyldi endursendur til Þýskalands. Lagt var til grundvallar að Þýskaland virði ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, þar með talið bann við endursendingu til ríkis þar sem líf og frelsi kæranda kynni að vera í hættu (non-refoulement). Því fæli flutningur kæranda til Þýskalands ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga. Þá var talið að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat stofnunarinnar að sérstakar aðstæður í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga væru ekki til staðar í málinu. Kærandi var ekki talinn í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem áhrif hefði á mál hans. Jafnframt var það mat Útlendingastofnunar að kærandi gæti leitað á náðir lögregluyfirvalda í Þýskalandi þyrfti hann á vernd að halda. Aðstæður kæranda féllu ekki undir 16. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og væru ekki slíkar að ástæða væri til að beita 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar í málinu. Kærandi skyldi yfirgefa Ísland og bæri að senda hann til Þýskalands, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi í viðtali hjá Útlendingastofnun gert athugasemdir við að verða sendur aftur til Þýskalands þar sem hann eigi í útistöðum við hóp manna. Kærandi hafi upphaflega flutt til Þýskalands eftir að hann keypti hlut í [...] þar í landi. Kærandi hafi starfað á [...] sem hann hafi átt ásamt öðrum samlöndum sínum. Til að byrja með hafi kærandi fengið greiðslur fyrir vinnuframlag sitt en hann hafi óskað eftir að selja hlutinn sinn þegar greiðslur hættu að berast. Þá hafi kærandi ekki fengið greitt fyrir sinn hlut og hinir eigendurnir hafi snúið aftur til [...] með arðinn. Mágur kæranda hafi fengið innistæðulausa ávísun frá mönnunum handa kæranda sem hafi í kjölfarið látið lögregluyfirvöld í [...] vita og nú sé opið mál á hendur mönnunum í [...]. Mennirnir sem kærandi óttist hafi snúið aftur til Þýskalands og hóti nú að láta myrða kæranda láti hann ekki fella niður málið gegn þeim í [...]. Kærandi hafi óttast að verða myrtur og hafi í kjölfarið sótt um alþjóðlega vernd í Þýskalandi. Hafi kærandi einnig leitað til lögreglunnar í Þýskalandi en fengið þau svör að hann gæti fengið nálgunarbann á mennina sem hann óttist en til þess þurfi hann að leita aftur til lögreglunnar sem hann hafi ekki gert.

Kærandi vísar til þess í greinargerð að 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kveði aðeins á um heimild til handa stjórnvöldum til að synja kæranda um efnismeðferð umsóknar sinnar um alþjóðlega vernd en ekki skyldu. Meginregla laga um útlendinga sé að taka skuli allar umsóknir um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar nema að undantekningarreglur laganna eigi við og rétt þyki að beita þeim en í samræmi við almennar lögskýringarreglur skuli túlka undantekningarreglur í lögum þröngt.

Kærandi byggir á því í greinargerð að ótækt sé að beita c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og að taka eigi mál hans til efnismeðferðar vegna sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 36. gr. sömu laga. Vísar kærandi til athugasemda með frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga og athugasemda með frumvarpi því er varð að lögum nr. 115/2010 sem breyttu þágildandi lögum um útlendinga. Með hinum nýju lögum sé leiddur í ljós vilji löggjafans til að víkka út gildissvið ákvæðisins miðað við beitingu stjórnvalda á sambærilegu ákvæði í þágildandi lögum um útlendinga.

Þá kemur fram í greinargerð að álag á hæliskerfi Þýskalands sé mikið en Þýskaland sé það Evrópuland sem taki við hvað mestum fjölda umsækjenda um alþjóðlega vernd. Vegna mikils fjölda þeirra sem sæki um vernd í Þýskalandi séu margar móttökumiðstöðvar afar fjölmennar og jafnvel yfirfullar. Ekki fáist fjármunir til þess að veita umsækjendum viðeigandi og mannúðlega þjónustu auk þess sem engar samræmdar reglur séu um aðbúnað fólks í slíkum miðstöðvum. Iðulega sé aðbúnaður ekki fullnægjandi, t.d. varðandi hreinlæti. Jafnframt njóti umsækjendur takmarkaðrar lögfræðiaðstoðar við meðferð máls þeirra í Þýskalandi. Þeir hafi ekki sjálfkrafa aðgang að lögfræðiaðstoð heldur sinni góðgerðarfélög og frjáls félagasamtök slíkri þjónustu en það sé þó bundið við ákveðin svæði í Þýskalandi og standi ekki alltaf til boða. Reyndin sé því sú að viðtöl við umsækjendur eigi sér oft stað áður en umsækjendur hafi haft tækifæri til að hafa samband við lögfræðing nema þeir geti greitt fyrir þjónustuna. Fari umsækjendur með málið fyrir dómstóla geti þeir sótt um gjafsókn. Mat á því hvort fallist verði á slíka beiðni velti á því hversu líklegt dómstólnum þyki að fallist verði á umsóknina en sami dómstóll taki ákvörðun um gjafsókn og dæmi í hælismálinu. Þá er vísað til alþjóðlegrar skýrslu þar sem finna megi gagnrýni 12 frjálsra félagasamtaka á gæði þýska hæliskerfisins, framkvæmd hælisviðtala og margar ákvarðanir þýskra stjórnvalda í málaflokknum.

Í greinargerð kemur fram að þýsk stjórnvöld hafi gripið til ýmissa takmarkana á réttindum flóttamanna á síðasta ári. Réttur til fjölskyldusameiningar hafi verið felldur niður hjá þeim sem veitt sé viðbótarvernd á tímabilinu 17. mars 2016 til mars 2018, frelsi til að flytja sig um set í Þýskalandi sé takmarkað og þá hafi rétturinn til ótímabundins dvalarleyfis verið þrengdur verulega. Einnig ríki mismunun gagnvart flóttafólki í Þýskalandi þegar það sæki um vinnu eða reyni að koma sér þaki yfir höfuðið. Enn fremur séu andúð, hótanir og ofbeldi gagnvart umsækjendum um alþjóðlega vernd og flóttamönnum vandamál um allt Þýskaland. Árásir á búsetuúrræði umsækjenda hafi stóraukist og hægri öfgahópar fengið byr undir báða vængi. Ný rannsókn frá Háskólanum í Leipzig sýni að útlendingahatur hafi aukist samhliða auknum fjölda flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd. Þá fari stuðningur við þjóðernisflokkana AfD og PEGIDA sívaxandi.

Enn fremur er á það bent í greinargerð kæranda að kerfisbundinn galli á aðbúnaði og meðferð umsækjenda um alþjóðlega vernd í aðildarríki sé ekki forsenda þess að umsókn sé tekin til meðferðar í öðru aðildarríki en því sem ber ábyrgð skv. Dyflinnarreglugerðinni. Það fái m.a. stoð í túlkun dómstóls Evrópusambandsins frá 16. febrúar 2017 og greinargerð innanríkisráðuneytisins um endursendingar umsækjenda um alþjóðlega vernd til Ítalíu frá desember 2015. Ekki sé nauðsynlegt að sýna fram á kerfislæga annmarka á málsmeðferð eða móttöku umsækjenda í viðtökulandinu heldur skuli miða við það hvort veruleg ástæða sé til að ætla að hlutaðeigandi einstaklingur standi frammi fyrir raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð í viðtökuríkinu sem samrýmist ekki 3. gr. mannréttindasáttmálans.

Þá kemur fram að kærandi telji með tilliti til málavaxta að hann standi frammi fyrir raunverulegri hættu á að sæta ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð sem brjóti í bága við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu verði hann sendur til Þýskalands. Þessi sérstaða felist aðallega í því gríðarlega álagi sem sé á þýska hæliskerfinu og að hlutfallslega fáum [...] umsækjendum um alþjóðlega vernd sé veitt vernd í Þýskalandi. Að mati kæranda sé það nærri óumdeilt að sérstakar ástæður mæli með því að umsókn kæranda verði tekin til efnismeðferðar hérlendis og beri stjórnvöldum í slíkum tilvikum, með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, skylda til þess að gera slíkt.

Að lokum er á því byggt í greinargerð kæranda að Útlendingastofnun hafi með ákvörðun sinni brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins, sem sé lögfest í 10. gr. stjórnsýslulaga, þar sem hin kærða ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli ófullnægjandi upplýsinga. Þær heimildir sem Útlendingastofnun vísi til séu úreltar og nýrri útgáfur nú fáanlegar. Kærandi hafi vísað til fjölmargra heimilda sem hreki í mikilvægum atriðum rökstuðning Útlendingastofnunar og sýni að nákvæmari rannsóknar sé þörf. Skortur á heimildum geti ekki talist nægur grundvöllur fyrir jafn íþyngjandi ákvörðun eins og raun beri vitni í máli kæranda. Kærandi telur svo gróflega brotið gegn framangreindri rannsóknarreglu að ekki komi annað til greina en að ógilda ákvörðun Útlendingastofnunar og að taka skuli mál kæranda til meðferðar að nýju hjá Útlendingastofnun.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Fyrir liggur í máli þessu að þýsk stjórnvöld hafa samþykkt viðtöku á kæranda á grundvelli b-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, en Ísland skuldbatt sig til að fylgja reglugerðinni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Samþykki Þýskalands er byggt á því að kærandi sé með umsókn um alþjóðlega vernd til meðferðar þar í landi.

Í c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að umsókn um alþjóðlega vernd skv. 37. gr. skuli tekin til efnismeðferðar nema heimilt sé að krefja annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda. Í 2. mgr. 36. gr. kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Þá er í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga tekið fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því landi sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Við mat á því hvort senda eigi umsækjanda um alþjóðlega vernd til ríkis, sem hefur samþykkt að taka við honum á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, ber stjórnvöldum jafnframt að leggja sjálfstætt mat á hvort aðstæður þar brjóti gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá ber stjórnvöldum að leggja mat á hvort málsmeðferð vegna umsókna um alþjóðlega vernd tryggi umsækjendum raunhæfa leið til að ná fram rétti sínum, sbr. 13. gr. sáttmálans. Í samræmi við framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu skal mat á meðferð umsókna um alþjóðlega vernd og móttöku og aðbúnaði umsækjenda taka mið af einstaklingsbundnum aðstæðum í hverju máli.

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð í Þýskalandi, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

· Asylum Information Database, Country Report: Germany (European Council on Refugees and Exiles, mars 2017),

· Report by Nils Muižnieks Commissioner for Human Rights of the Council Of Europe Following his Visit to Germany on 24th April and from 4 to 8 May 2015 (Council of Europe: Commissioner for Human Rights, 1. október 2015),

· Germany 2016 Human Rights Report (United States Department of State, 3. mars 2017),

· Amnesty International Report 2016/17 - Germany (Amnesty International, 22. febrúar 2017),

· Freedom in the world 2016 – Germany (Freedom House, 11. mars 2016).

Í ofangreindum gögnum kemur fram að umsækjendur um alþjóðlega vernd í Þýskalandi eiga rétt á viðtali áður en ákvörðun er tekin í máli þeirra hjá þýsku útlendingastofnuninni (þ. Bundesamt für Migration und Flüchtlinge). Umsækjendur sem fengið hafa synjun á umsókn sinni hjá útlendingastofnun geta kært niðurstöðuna til sérstaks stjórnsýsludómstóls. Fái umsækjendur synjun á umsókn sinni hjá útlendingastofnun eða stjórnsýsludómstól eiga þeir möguleika á því að leggja fram viðbótarumsókn um alþjóðlega vernd hjá útlendingastofnun. Ef nýjar upplýsingar eða gögn liggja fyrir í máli umsækjanda, aðstæður hafa breyst í máli hans eða verulegir annmarkar voru á fyrri málsmeðferð, geta skilyrði viðbótarumsóknar verið uppfyllt. Umsækjendur geta borið mál sitt undir þýska dómstóla sé viðbótarumsókn þeirra synjað. Jafnframt eiga umsækjendur þess kost að leggja fram beiðni fyrir Mannréttindadómstól Evrópu um bráðabirgðaráðstöfun skv. 39. gr. málsmeðferðarreglna dómstólsins, telji þeir endanlega niðurstöðu um synjun á alþjóðlegri vernd hafa í för með sér hættu á ofsóknum eða meðferð sem brýtur í bága við ákvæði mannréttindasáttmálans.

Þýskaland er aðildarríki Evrópusambandsins og hefur innleitt tilskipanir sambandsins vegna meðferðar og móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd. Af framangreindum gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður og aðbúnað umsækjenda um alþjóðlega vernd í Þýskalandi má ráða að umsækjendur eiga rétt á húsnæði og mataraðstoð. Þá telur kærunefnd ljóst af þeim gögnum sem nefndin hefur kynnt sér að þýsk stjórnvöld uppfylli skyldur sínar varðandi lögfræðiaðstoð við umsækjendur um alþjóðlega vernd skv. tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 32/2013 um málsmeðferð við veitingu og afturköllun alþjóðlegrar verndar, sbr. 19. og 20. gr. hennar. Jafnframt bendir ekkert til þess að [...] umsækjendum sé synjað sjálfkrafa um alþjóðlega vernd í Þýskalandi eða þeir endursendir til heimaríkis án þess að leyst sé úr málum þeirra á einstaklingsgrundvelli.

Athugun kærunefndar á aðstæðum umsækjenda um alþjóðlega vernd í Þýskalandi hefur ekki leitt í ljós gögn sem gefa tilefni til að líta svo á að aðstæður eða móttökuskilyrði þeirra þar í landi séu þess eðlis að hætta sé á að endursending umsækjenda um alþjóðlega vernd til Þýskalands brjóti í bága við 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá benda öll gögn til þess að umsækjendum um alþjóðlega vernd séu tryggð úrræði til að leita réttar síns í Þýskalandi bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Enn fremur er haft til hliðsjónar að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur ekki lagst gegn endursendingu umsækjenda um alþjóðlega vernd til Þýskalands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.

Kærandi hefur greint frá því að hann óttist að menn sem hann hafi verið í viðskiptum með verði honum að aldurtila. Í viðtali við kæranda hjá Útlendingastofnun kemur fram að hann hafi leitað til lögreglu í Þýskalandi sem hafi tjáð honum að hann geti fengið nálgunarbann á mennina sem hann óttist en kærandi hafi ekki farið þess á leit við lögreglu að slíkt bann yrði sett á mennina. Í ljósi frásagnar kæranda og þeirra gagna sem kærunefnd hefur kynnt sér er það mat kærunefndar að kærandi geti leitað aðstoðar og verndar lögreglu í Þýskalandi sé þess þörf.

Kærandi, sem er hraustur karlmaður á miðjum aldri, hefur greint frá því að hann sé við ágæta andlega og líkamlega heilsu. Kærunefnd telur ekkert benda til þess að kærandi teljist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Það er mat kærunefndar, að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda, að aðstæður kæranda séu ekki slíkar að sérstakar ástæður mæli með því að mál hans verði tekið til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 17. mars 2017 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hann lagði fram umsókn sína þann 20. febrúar 2017.

Vegna athugasemdar kæranda um að niðurstöður Útlendingastofnunar hafi ekki verið studdar nægum gögnum og að stofnunin vísi aðeins til fárra heimilda sem séu orðnar úreltar tekur kærunefnd fram að rannsóknarreglan í 10. gr. stjórnsýslulaga mælir fyrir um að stjórnvald afli þeirra gagna sem eru nauðsynleg svo mál sé nægjanlega upplýst. Reglan gerir kröfu um rannsókn sem er fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar stjórnvalds en gerir hvorki kröfu um að aflað sé allra upplýsinga sem varpað gætu ljósi á málið né að stjórnvald afli ófáanlegra gagna. Útlendingastofnun vísaði til heimildar sem voru á meðal þeirra nýjustu á þeim tíma er mál kæranda var í vinnslu. Skoðun kærunefndar á skýrslum sem hafa verið gefnar út síðar hafa ekki leitt í ljós breytingar á aðstæðum í Þýskalandi sem áhrif gætu haft á niðurstöðu þessa máls. Kærunefnd telur því ekki grundvöll fyrir athugasemdum kæranda varðandi þær skýrslur sem Útlendingastofnun vísar til. Kærunefnd útlendingamála hefur skoðað gögn varðandi aðstæður í Þýskalandi og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun varðandi aðbúnað og málsmeðferð umsækjenda um alþjóðlega vernd þar í landi. Er það afstaða kærunefndar að ekkert bendi til þess að slíkur ágalli hafi verið á rannsókn Útlendingastofnunar að fella beri ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi. Jafnframt telur kærunefnd að Útlendingastofnun hafi uppfyllt skyldu sína samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga hvað varðar einstaklingsbundna greiningu á því hvort að kærandi teljist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu.

Í máli þessu hafa þýsk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi og senda kæranda til Þýskalands með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er því staðfest.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.


Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Hjörtur Bragi Sverrisson

Anna Tryggvadóttir Erna Kristín Blöndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta