Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 509/2017

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 12. september 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 509/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17070037

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 18. júlí 2017 kærði einstaklingur er kveðst heita [...] vera fæddur [...], og vera ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 28. júní 2017, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og endursenda hann til Danmerkur.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar á grundvelli 1., 2. og 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Til vara krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og Útlendingastofnun verði gert að taka málið til meðferðar að nýju.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 21. febrúar 2017. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum, þann sama dag, kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Danmörku. Þann 3. mars 2017 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Danmörku, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Þann 8. mars 2017 barst svar frá dönskum yfirvöldum þess efnis að þau samþykktu viðtöku kæranda á grundvelli b-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 28. júní 2017 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að hann skyldi endursendur til Danmerkur. Kærandi kærði ákvörðunina þann 18. júlí 2017 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda, ásamt fylgigögnum, barst kærunefnd 11. ágúst 2017.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að umsókn kæranda um alþjóðlega vernd yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og hann skyldi endursendur til Danmerkur. Lagt var til grundvallar að Danmörk virði ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, þar með talið bann við endursendingu til ríkis þar sem líf og frelsi kæranda kynni að vera í hættu (non-refoulement). Því fæli flutningur kæranda til Danmerkur ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga. Þá var talið að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat stofnunarinnar að sérstakar aðstæður í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga væru ekki til staðar í málinu. Kærandi var ekki talinn í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem áhrif hefði á mál hans. Aðstæður kæranda féllu ekki undir 16. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og væru ekki slíkar að ástæða væri til að beita 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar í málinu. Kærandi skyldi yfirgefa Ísland og bæri að senda hann til Danmerkur, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Við meðferð máls kæranda hjá Útlendingastofnun byggði hann á því að taka ætti umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi með vísan til 4. mgr. 8. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar en þar kemur fram að aðildarríkið þar sem ólögráða barn leggur fram umsókn skuli bera ábyrgðina, að því tilskildu að slíkt samræmist hagsmunum barnsins. Þá hafi kærandi gert alvarlega athugasemd við rannsókn tannfræðilegra gagna vegna aldursgreiningar sem gerð var á honum þann 7. apríl 2017. Þá krafðist kærandi að aldur hans yrði ákvarðaður út frá þeim gögnum sem hann lagði fram hjá Útlendingastofnun. Þá mótmælti kærandi því að verða endursendur til Danmerkur og bar við að heilsufar hans væri bágborið auk þess sem talsmaður kæranda óskaði eftir því að kærandi yrði látinn gangast undir [...]. Í ákvörðun Útlendingastofnunar er tekið fram að í 113. gr. laga um útlendinga segi að niðurstaða úr aldursgreiningu skuli metin í samhengi við önnur atriði málsins og vafi metinn kæranda í hag. Í ljósi þessa bendi Útlendingastofnun á að í samþykki danskra stjórnvalda komi fram að kærandi sé fæddur [...] sem styðji við niðurstöðu aldursgreiningar sem kærandi hafi undirgengist. Í framangreindri aldursgreiningu sé niðurstaðan sú að kærandi sé eldri en 18 ára og uppgefinn aldur hans fái ekki staðist. Það sé því mat Útlendingastofnunar að hafið sé yfir verulegan vafa að kærandi hafi verið að minnsta kosti 18 ára þegar hann sótti um alþjóðlega vernd á Íslandi. Þá sjái Útlendingastofnun enga ástæðu til að draga í efa þær aðferðir sem beitt sé í aldursgreiningu á kæranda.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi dvalið í Danmörku í tvö ár og sé mótfallinn því að vera sendur þangað aftur og muni frekar fremja sjálfsvíg en að hverfa aftur þangað. Kærandi hafi verið hræddur við að greina dönskum stjórnvöldum frá réttum aldri sínum og því verið meðhöndlaður sem fullorðinn þar í landi og búið í flóttamannabúðum með fullorðnum einstaklingum. Kærandi kveðst ekki hafa notið lögfræðiþjónustu í Danmörku. Kærandi kveðst hafa kynnst [...] stelpu í Danmörku og þau hafi byrjað að vera saman en hún [...]. Þegar upp hafi komist um samband þeirra hafi [...] hótað kæranda, ráðist á hann í tvígang og beitt hann líkamlegu ofbeldi. [...]. Þá hafi kærandi ekki leitað til lögreglunnar í Danmörku af ótta við þessa aðila.

Í greinargerð kæranda er byggt á því að ekki megi senda hann til Danmerkur m.a. vegna ákvæða 4. mgr. 8. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Kærandi bendi á að samkvæmt ákvæðinu skuli aðildarríki þar sem fylgdarlaust, ólögráða barn leggi fram umsókn um alþjóðlega vernd, bera ábyrgð á meðferð umsóknarinnar, að því tilskildu að barnið eigi ekki aðstandendur í öðru aðildarríki og að slíkt samræmist hagsmunum barnsins. Við komu kæranda til landsins hafi hann verið skilríkjalaus og kvaðst vera fæddur [...]. Í þjónustuviðtali hjá Útlendingastofnun kvaðst kærandi hins vegar vera fæddur árið [...]. Kærandi hafi gengist undir tannrannsókn þann 7. apríl sl. og niðurstaða þeirrar rannsóknar hafi verið sú að hann sé eldri en 18 ára. Þrátt fyrir tannrannsókn á kæranda haldi hann því fram að hann sé barn að aldri. Í niðurstöðu tannrannsóknarinnar sé hvorki sett fram meðaltal né staðalfrávik úr þeim rannsóknum sem gerðar hafi verið á honum svo leggja mætti mat á niðurstöður rannsóknarinnar. Þess í stað hafi tannlæknum verið alfarið falið að meta aldur kæranda sem sé breyting á því sem áður hafi verið í sambærilegum málum. Kærandi vísar máli sínu til stuðnings til þriggja sambærilegra mála þar sem niðurstöður úr þessum þremur aðferðum voru nákvæmlega þær sömu og hjá kæranda. Í þeim málum hafi rannsakendur þó tekið saman meðaltal úr rannsóknunum þremur og Útlendingastofnun ákveðið að fara skyldi með mál einstaklinganna eins og þeir væru yngri en 18 ára. Þá geri kærandi athugasemd við að bætt hafi verið við mati á þroskastigi neðri góms endajaxla hans án þess að skýra ástæður þess og veki það upp spurningar um það hvers vegna umrædd aðferð sé notuð í tilviki kæranda en ekki í fyrri greiningum. Þá telji kærandi að breytt framsetning aldursgreininga hafi leitt til þess að niðurstaðan hafi verið önnur í tilviki kæranda en aðferðafræðin og niðurstaðan hafi verið sú sama og því hefði átt að fara eins með mál kæranda og hinna þriggja málanna. Annað sé brot á jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar sem lögfest sé í 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en brot á reglunni feli í sér efnisannmarka og leiði yfirleitt til þess að ákvörðun teljist ógildanleg.

Kærandi vísar til fjölda skýrslna varðandi aldursgreiningar þ. á m. til skýrslu Evrópsku stuðningsskrifstofunnar í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd (e. European Asylum Support Office), frá árinu 2013, og skýrslu Asylum Information Database (AIDA), frá árinu 2015 og leiðbeininga Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, frá árinu 2016, um aldursgreiningar. Kærandi bendi á að samkvæmt 113. gr. laga um útlendinga skuli meta niðurstöður úr líkamsrannsókn í samhengi við önnur atriði málsins og vafi metinn umsækjanda í hag. Samkvæmt ofangreindu ákvæði beri að meta vafa á aldri kæranda honum í hag og fara með mál hans líkt og hann sé yngri en 18 ára. Kærandi bendi á að ljóst sé að vafi leiki á um aldur hans og verði því ekki slegið föstu að hann sé eldri en 18 ára. Þá megi setja spurningarmerki við heimild Útlendingastofnunar til að ákvarða aldur kæranda á annan hátt en gert hafi verið í málum þar sem niðurstaða tanngreiningar hafi verið sú sama. Kærandi telji að meðhöndla eigi mál hans eins og hann sé fæddur [...], líkt og hann haldi sjálfur fram, og taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi í stað þess að senda hann til Danmerkur í samræmi við 4. mgr. 8. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.

Kærandi byggir á því að taka skuli umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Vísar kærandi m.a. til lögskýringargagna við ákvæðið. Þá kveði c-liður 1. mgr. 36. gr. laganna einungis á um heimild til handa stjórnvöldum til að synja kæranda um efnismeðferð umsóknar sinnar en ekki skyldu. Kærandi hafi undirgengist [...]. Hvað varði [...] heilsu kæranda þá hafi hann leitað til [...] á eigin vegum þar sem Útlendingastofnun hafi hafnað beiðni hans um [...] . [...]. Kærandi telji að ofangreint auk þeirrar staðreyndar að hann sé mjög ungur að árum setji hann í viðkvæma stöðu skv. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Kærandi vísar í 1. mgr. 6. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, 2. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003, 3. mgr. 25. gr. og 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og 1. mgr. 3. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013, en í þessum ákvæðum sé kveðið á um að ávallt skuli hafa hagsmuni barnsins að leiðarljósi þegar ráðstafanir séu gerðar er varði börn. Kærandi bendir á 3. mgr. 20. gr. tilskipunar Evrópubandalagsins nr. 95/2011 sem kveði á um að við matið á alþjóðlegri vernd skuli taka sérstakt tillit til berskjaldaðra barna og hafa skuli það sem barninu sé fyrir bestu að leiðarljósi, sbr. 5. mgr. sömu greinar. Með hliðsjón af framangreindu verði að líta svo á að sú afstaða kæranda sjálfs að vilja ekki vera endursendur til Danmerkur vegi þyngst við mat á því hvað honum sé fyrir bestu.

Þá fjallar kærandi í greinargerð sinni ítarlega um aðstæður og réttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd í Danmörku, svo og ástand mannréttindamála og breytinga á stefnu danskra stjórnvalda í innflytjendamálum. Meðal annars komi fram að löggjöf í garð umsækjenda hafi verið hert til muna og á sama tíma heimildir stjórnvalda gagnvart umsækjendum rýmkaðar. Þá bendi kærandi á að fylgdarlaus börn á flótta í Evrópu hafi vaxið ört á síðustu árum. Þessi börn séu meðal viðkvæmustu einstaklinga í heiminum og berskjöldun þeirra fari hríðversnandi. Þá hafi dönsk stjórnvöld sætt margskonar gagnrýni fyrir að sinna þörfum fylgdarlausra barna í hæliskerfinu hjá sér afar illa. Þá hafi dönsk stjórnvöld verið gagnrýnd m.a. fyrir að synja mörgum fylgdarlausum börnum um vernd.

Kærandi gerir jafnframt athugasemdir við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun, einkum að rannsókn málsins hafi ekki verið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga. Kærandi bendi m.a. á að ljóst sé að verði hann endursendur til Danmerkur standi hann frammi fyrir raunverulegri hættu á að vera áframsendur til svæðis þar sem m.a. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna telji einstaklinga eiga hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Slík ákvörðun bryti í bága við 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 1. mgr. 33. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 1. mgr. 36. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef heimilt sé að krefja annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda.

Fyrir liggur í máli þessu að dönsk stjórnvöld hafa samþykkt viðtöku á kæranda á grundvelli b-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, en Ísland skuldbatt sig til að fylgja reglugerðinni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Samþykki Danmerkur er byggt á því að kærandi sé með umsókn um alþjóðlega vernd til meðferðar þar í landi. Eru skilyrði c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga uppfyllt.

Í 2. mgr. 36. gr. kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Þá er í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga tekið fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því landi sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Við mat á því hvort senda eigi umsækjanda um alþjóðlega vernd til ríkis, sem hefur samþykkt að taka við honum á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, ber stjórnvöldum að leggja sjálfstætt mat á hvort aðstæður þar brjóti gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem kveður á um að enginn maður skuli sæta pyndingum eða ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið lagt til grundvallar að sú meðferð, sem einstaklingur eigi von á, verði að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi til þess að falla undir 3. gr. sáttmálans. Við það mat verði að horfa til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar og í einhverjum tilvikum kyns, aldurs og heilsufars viðkomandi. Þá ber stjórnvöldum að leggja mat á hvort málsmeðferð vegna umsókna um alþjóðlega vernd tryggi umsækjendum raunhæfa leið til að ná fram rétti sínum, sbr. 13. gr. sáttmálans. Í samræmi við framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu skal mat á meðferð umsókna um alþjóðlega vernd og móttöku og aðbúnaði umsækjenda í viðtökuríki taka mið af einstaklingsbundnum aðstæðum í hverju máli.

Við komu kæranda til landsins kvaðst hann vera fæddur [...]. Í þjónustuviðtali hjá Útlendingastofnun kvaðst kærandi hins vegar vera fæddur árið [...]. Kærandi undirgekkst aldursgreiningu þann 7. apríl 2017 sem fólst í rannsókn tannfræðilegra gagna. Í aldursgreiningarskýrslu, dags. 12. apríl 2017, kemur fram að það sé mat þeirra tannlækna sem hana skrifa að kærandi sé eldri en 18 ára og að uppgefinn aldur, þ.e. 17 ára og sex mánuðir, geti ekki staðist. Tekið er fram að niðurstaðan af aldursgreiningu sé byggð á sameiginlegu mati á sjúkrasögu, klínískri skoðun, og aldursútreikningum og mati á röntgenmyndum. Við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun lagði kærandi fram afrit af kennivottorði og þjóðernisvottorði frá [...] til sönnunar á aldri sínum. Skilríkin voru send til flugstöðvardeildar lögreglustjórans á Suðurnesjum til að rannsaka áreiðanleika skilríkjanna. Niðurstaða skýrsluhöfundar, [...], er sú að kennivottorðið og þjóðernisvottorðið eru [...]. Þá kemur fram í svari danskra stjórnvalda, dags. 8. mars 2017, við beiðni Útlendingastofnunar um endurviðtöku á kæranda að hann er skráður þar með fæðingardaginn [...].

Í málinu liggja ekki fyrir önnur gögn en framburður kæranda sem benda til þess að hann sé barn. Þau skilríki sem kærandi lagði fram til sönnunar á aldri sínum eru skv. rannsókn lögreglu [...] og geta þar af leiðandi ekki komið til skoðunar við matið.

Í 1. mgr. 113. gr. laga um útlendinga segir að niðurstaða úr líkamsrannsókn til þess að ákvarða aldur útlendings skuli metin í samhengi við önnur atriði málsins og vafi metinn umsækjanda í hag. Kærunefnd hefur litið til niðurstöðu aldursgreiningarskýrslu á tönnum þar sem fram kemur það mat tannlækna um að útlokað sé að sá aldur sem kærandi gaf upp geti verið réttur. Í því sambandi tekur kærunefnd fram að nefndin telur ekki tilefni til að draga í efa að aðferðafræði sem greiningin er byggð á, þ.e. sjúkrasögu, klínískri skoðun ásamt aldursútreikningum og mati á röntgenmyndum, og að greiningin beri með sér þá niðurstöðu að lægsti mögulegi aldur kæranda hafi verið 18.11 ár í apríl 2017 og að í því sambandi hafi vafi í formi staðalfráviks verið virtur kæranda í hag.

Samkvæmt framansögðu hefur kærandi gefið upp tvo mismunandi fæðingardaga hjá íslenskum stjórnvöldum, bæði [...] og [...]. Kærandi hefur ekki stutt framburð sinn varðandi aldur gögnum öðrum en þeim sem samkvæmt niðurstöðu lögreglu eru [...]. Þá liggja fyrir í málinu gögn, bæði tanngreining og gögn frá dönskum stjórnvöldum, sem benda eindregið til þess að ekki sé vafi á því að kærandi sé fullorðinn. Þegar litið er með heildstæðum hætti til gagna málsins, þ.m.t. líkamsrannsóknar á tönnum kæranda, upplýsinga frá dönskum stjórnvöldum og misvísandi framburðar kæranda um aldur sinn sem hann hefur stutt [...] gögnum, er það mat kærunefndar að ekki sé fyrir hendi vafi um að kærandi sé fullorðinn. Tekur meðferð máls hans mið af því.

Kærandi er ungur karlmaður sem kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 8. maí 2017 ekki vera við góða [...] heilsu en í gögnum málsins kemur fram að kærandi hafi [...].

Skilgreiningu á einstaklingi í sérstaklega viðkvæmri stöðu er að finna í 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga en þar kemur fram að átt sé við einstaklinga sem hafa sérþarfir sem taka þarf tillit til við meðferð máls eða geta ekki að fullu eða með engu móti nýtt sér rétt eða uppfyllt skyldur sem kveðið er á um í lögunum án aðstoðar eða sérstaks tillits, t.d. fólk með geðraskanir eða geðfötlun og einstaklingar sem hafa orðið fyrir alvarlegu líkamlegu ofbeldi. Í ljósi alls framangreinds er það mat kærunefndar að kærandi sé einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga.

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð í Danmörku, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

· Denmark 2016 Human Rights Report (United States Department of State, 3. mars 2017)

· Amnesty International Report 2016/17 - Denmark (Amnesty International, 22. febrúar 2017)

· Freedom in the world 2016 – Denmark (Freedom House, 2016)

· Report by Nils Muižnieks Commissioner for Human Rights of the Council of Europe Following his visit to Denmark from 19 to 21 November 2013 (Council of Europe: Commissioner for Human Rights, 24. mars 2014)

· Dublin II – national asylum procedure in Denmark (Danish Refugee Council, 2011)

· Country Factsheet Denmark (European Union Agency for Fundamental Rights, september 2010)

· Upplýsingar af heimasíðu sem danska Útlendingastofnunin heldur úti: www.nyidanmark.dk, Udlændingestyrelsen og Styrelsen for International Rekruttering og Integrations

· Upplýsingar af heimasíðu sem dönsk heilbrigðisyfirvöld halda úti: www.sundhedstyrelsen.dk, Sundhedsstyrelsen

Samkvæmt svari danskra stjórnvalda um viðtöku kæranda er mál kæranda enn til meðferðar í Danmörku, en dönsk stjórnvöld samþykktu að taka við kæranda á grundvelli b-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Kærandi á því enn kost á að leggja fram gögn í máli sínu sem styðji við umsókn hans um alþjóðlega vernd þar í landi. Í framangreindum gögnum kemur fram að danska útlendingastofnunin (d. Udlændingestyrelsen) tekur ákvarðanir er varða umsóknir um alþjóðlega vernd í Danmörku og eiga umsækjendur um alþjóðlega vernd þess almennt kost að bera synjun dönsku útlendingastofnunarinnar undir sérstaka kærunefnd útlendingamála (d. Flygtningenævnet). Danska útlendingastofnunin skoðar sérstaklega hvert mál fyrir sig með tilliti til þeirra upplýsinga sem umsækjandinn veitir ásamt þeim almennu upplýsingum sem liggja fyrir um aðstæður í heimaríki hans. Almennt kemur umsækjandi, sem hefur kært synjun á umsókn um alþjóðlega vernd, fyrir hina dönsku kærunefnd útlendingamála og skýrir mál sitt munnlega fyrir nefndinni. Hafi umsækjandi um alþjóðlega vernd í Danmörku fengið lokaniðurstöðu í máli sínu getur hann lagt fram nýja umsókn um alþjóðlega vernd telji hann nýjar ástæður eða breyttar aðstæður vera fyrir hendi í máli hans sem ekki voru fyrir hendi þegar mál hans var áður til meðferðar. Þá eiga umsækjendur um alþjóðlega vernd þess kost að leggja fram beiðni fyrir Mannréttindadómstól Evrópu um bráðabirgðaráðstöfun, skv. 39. gr. málsmeðferðarreglna dómstólsins, telji þeir endanlega niðurstöðu um synjun á alþjóðlegri vernd og brottvísun til heimaríkis hafa í för með sér hættu á ofsóknum eða meðferð sem muni brjóta í bága við ákvæði mannréttindasáttmálans.

Dönsk yfirvöld tryggja umsækjendum ekki endurgjaldslausa lögfræðiaðstoð við meðferð máls á fyrsta stjórnsýslustigi. Hins vegar eiga umsækjendur rétt á lögfræðiaðstoð sér að kostnaðarlausu við meðferð máls á kærustigi. Þá veita frjáls félagasamtök að nafni Dansk Flygtningehjælp lögfræðiráðgjöf til umsækjenda um alþjóðlega vernd þeim að kostnaðarlausu.

Umsækjendur um alþjóðlega vernd eiga rétt á að vera í Danmörku á meðan mál þeirra er til meðferðar fyrir dönskum stjórnvöldum. Af framangreindum gögnum um Danmörku má ráða að umsækjendur fá gistingu í móttökumiðstöðvum þar til ákvörðun um brottvísun kemur til framkvæmdar eða umsækjandi yfirgefur Danmörku sjálfviljugur. Jafnframt eiga umsækjendur rétt á dagpeningum til grunnframfærslu eða mat án endurgjalds í móttökumiðstöðvum auk þess að eiga rétt á nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu sem þeir þurfa á að halda.

Athugun kærunefndar á aðstæðum umsækjenda um alþjóðlega vernd í Danmörku hefur ekki leitt í ljós gögn sem gefa tilefni til að líta svo á að aðstæður eða móttökuskilyrði þeirra þar í landi séu þess eðlis að hætta sé á að endursending kæranda þangað brjóti í bága við 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá benda öll gögn til þess að kæranda séu tryggð úrræði til að leita réttar síns í Danmörku bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Enn fremur er haft til hliðsjónar að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur ekki lagst gegn endursendingu umsækjenda um alþjóðlega vernd til Danmerkur á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.

Kærandi hefur greint frá því að hann óttist ofbeldi af hálfu [...] í Danmörku sem hafi bæði hótað honum og beitt hann ofbeldi. Þau gögn sem kærunefndin hefur kynnt sér benda til þess að kærandi geti leitað aðstoðar yfirvalda í Danmörku óttist hann tilgreinda aðila eða að á honum verði brotið.

Heilsufar er einn af þeim þáttum sem stjórnvöldum ber að líta til við mat á því hvort aðstæður umsækjanda um alþjóðlega vernd teljist sérstakar í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og mæli þannig með því að umsókn hans verði tekin til efnismeðferðar. Fara þarf fram heildstætt mat á aðstæðum umsækjanda þar sem litið er til heilsufarsupplýsinga og upplýsinga um þær aðstæður sem bíða kæranda í viðtökuríki, þ.m.t. hvort sú heilbrigðisþjónusta sem umsækjandi hefur aðgang að í viðtökuríki sé fullnægjandi. Kærunefnd leggur áherslu á að mat á því hvort heilsufar umsækjanda teljist sérstakar ástæður er ekki bundið við skoðun á heilbrigðiskerfi móttökuríkis heldur þarf matið að fara fram á einstaklingsgrundvelli með hliðsjón af atvikum málsins. Meðal þeirra atvika sem sérstaklega þarf að líta til eru áhrif flutnings til viðtökuríkis á heilsufar umsækjanda að teknu tilliti til aðstæðna við flutning, sbr. einkum 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Verði niðurstaða heildstæðs mats á atvikum málsins sú að gögn málsins bendi eindregið til þess að framkvæmd synjunar á efnismeðferð umsóknar komi til með að hafa verulegar og óafturkræfar neikvæðar afleiðingar á andlega eða líkamlega heilsu umsækjanda telur kærunefnd að taka beri slíkar umsóknir til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda sé þá öruggt að einstaklingur verði ekki fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð við framkvæmd slíkrar ákvörðunar, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 68. gr. stjórnarskrárinnar.

Eins og að framan greinir kvaðst kærandi í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 8. maí 2017 ekki vera við góða [...] heilsu og [...]. Í fyrrgreindum skýrslum um aðstæður í Danmörku kemur fram að umsækjendur um alþjóðlega vernd eiga rétt á nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu sem þeir þurfa á að halda. Jafnframt stendur umsækjendum ýmis heilbrigðisþjónusta til boða í móttökumiðstöðvum, svo sem viðtalsfundir með sálfræðingi eða lækni. Þó svo að mikið álag sé á hæliskerfi Danmerkur um þessar mundir telur kærunefnd ekki forsendur til annars, í ljósi þeirra upplýsinga sem liggja fyrir um aðstæður í Danmörku, en að leggja til grundvallar við úrlausn málsins að kærandi geti leitað sér heilbrigðisþjónustu við hæfi þar í landi. Þá telur kærunefnd að gögn málsins bendi ekki til þess að flutningur kæranda til Danmerkur komi til með að hafa slík áhrif á kæranda að taka beri umsókn hans til efnismeðferðar á þeim grundvelli. Kærandi er ekki í meðferð sem óæskilegt væri að rjúfa og ekkert kemur fram í gögnum um heilsufar hans að hann sé ekki fær til þess að ferðast. Í ljósi aðstæðna í Danmörku og að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda, m.a. sérstaklega viðkvæmrar stöðu kæranda, er það því mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi slíkar sérstakar ástæður sem mæli með því að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Hins vegar beinir kærunefndin því til Útlendingastofnunar að tryggja að fyrir endursendingu kæranda verði dönsk stjórnvöld upplýst um heilsufar kæranda í samræmi við 32. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.

Kærandi kvaðst í framangreindu viðtali ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hann lagði fram umsókn sína þann 21. febrúar 2017.

Líkt og fram hefur komið gerir kærandi athugasemd við rannsókn Útlendingastofnunar með vísan til rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga. Kærandi telur að rannsókn Útlendingastofnunar hafi verið ábótavant þar sem ákvörðunin hafi verið tekin á grundvelli ófullnægjandi upplýsinga m.a. þar sem ekki hafi verið aflað [...] á því hvort kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu.

Rannsóknarreglan í 10. gr. stjórnsýslulaga mælir fyrir um að stjórnvald afli þeirra gagna sem eru nauðsynleg svo mál sé nægilega upplýst. Reglan gerir kröfu um rannsókn sem er fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar stjórnvalds en gerir hvorki kröfu um að aflað sé allra upplýsinga sem varpað gætu ljósi á málið né að stjórnvald afli ófáanlegra gagna. Þá segir í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga að við meðferð mála vegna umsókna um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga. Af 10. gr. stjórnsýslulaga leiðir að stjórnvöldum ber að tryggja að mál þar sem reynir á 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga séu nægjanlega upplýst með tilliti til heilsufars. Þegar stjórnvöld búa yfir upplýsingum um að heilsufar umsækjanda um alþjóðlega vernd kunni að vera af því alvarleikastigi að aðstæður hans geti talist sérstakar í skilningi 2. mgr. 36. gr. laganna ber þeim að bregðast sérstaklega við því með því að gera reka að því að upplýsingum um heilsufar verði bætt við málið, sbr. jafnframt 7. gr. stjórnsýslulaga. Þetta á til dæmis við ef stjórnvöld búa yfir upplýsingum um að umsækjandi hafi leitað eftir læknismeðferð.

Við töku ákvörðunar í máli kæranda lá fyrir að kærandi hefði farið til [...] hér á landi til að leita sér aðstoðar vegna [...] heilsufars, en kærandi hafði greint frá því í viðtali hjá stofnuninni þann 8. maí 2017. Það er mat kærunefndar að það hefði verið vandaðri málsmeðferð að leiðbeina kæranda um að leggja fram gögn er það varðar, ef einhver væru fyrir hendi. Kærunefnd barst [...] mat varðandi kæranda með greinargerð kæranda og hefur nú verið tekin afstaða til [...] heilsu hans, sbr. það sem að framan er rakið. Kærunefnd hefur nú komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun í máli kæranda og telur ekki forsendur til að aðhafast frekar vegna athugasemdar í greinargerð varðandi málsmeðferð Útlendingastofnunar í málinu.

Í máli þessu hafa dönsk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi og senda kæranda til Danmerkur með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er því staðfest.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Anna Tryggvadóttir

Erna Kristín Blöndal Þorbjörg Inga Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta