Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 147/2013

Fimmtudaginn 8. október 2015


 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 23. september 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 2. september 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 26. september 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 24. október 2013.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 30. október 2013 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kærenda bárust 20. mars 2014 og voru þær sendar embætti umboðsmanns skuldara með bréfi sama dag og óskað eftir athugasemdum embættisins. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1978 og 1970. Þau eru í sambúð og búa ásamt þremur börnum sínum í eigin 300,2 fermetra einbýlishúsi með bílskúr að C götu nr. 4, sveitarfélaginu D.

Kærandi A er öryrki og fær greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins og lífeyrissjóði. Kærandi B er stálsmiður hjá X hf. Einnig hefur hann fengið tekjur frá sjúkrasjóði vélstjóra vegna veikinda sem hann hefur átt við að stríða. Kærendur frá einnig greiddar vaxtabætur, barnabætur og barnalífeyri. Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur kærenda eru 534.654 krónur að meðaltali.

Heildarskuldir kærenda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara, eru 80.990.771 króna.

Kærendur rekja fjárhagserfiðleika sína til ársins 2008 en þá hafi kærandi A veikst og orðið óvinnufær. Einnig hafi kærandi B misst yfirvinnu. Kærendur hafi reynt að selja fasteign sína að C götu nr. 4 en það hafi ekki tekist.

Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 30. júní 2011. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 7. mars 2012 var kærendum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 12. júlí 2012 tilkynnti umsjónarmaður að hann teldi að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil samkvæmt 15. gr. lge. Umsjónarmaður hafi tilkynnt kærendum að hann teldi nauðsynlegt að ákvarða um sölu á fasteign kærenda. Kærendur hafi óskað eftir því að umsjónarmaður endurskoðaði þessa afstöðu. Hafi þau lagt fram nýjar upplýsingar og skýringar og meðal annars greint frá því að þau hafi staðið í framkvæmdum við eignina í töluverðan tíma. Framkvæmdunum væri ekki lokið en ástand eignarinnar hefði áhrif á verðmæti hennar og hæfilegt leiguverð. Umsjónarmanni hafi borist athugasemd frá Kreditkorti ehf. og ósk um skýringar á úttekt á greiðslukorti sem átt hafi sér stað skömmu fyrir umsókn kærenda um greiðsluaðlögun. Að sögn kærenda hafi þau þá staðið í framkvæmdum við eignina, bæði til að ljúka við hana og til að forða henni frá skemmdum. Hafi þau sótt um svokallaða 110% leið og talið að þau myndu fá aðlögun fasteignaveðkrafna samkvæmt þeirri leið. Niðurstaða hafi ekki legið fyrir en samkvæmt verðmati sem kærendur hafi fengið hjá löggiltum fasteignasala hafi þau talið að veðkröfur myndu lækka umtalsvert. Því hafi þau í góðri trú talið sig geta tekist á hendur skuldir vegna framkvæmda á eigninni og að greiðslugeta þeirra myndi standa undir lánum vegna þessa. En kærendur hafi verið svikin um 110% leiðina. Hafi einn kröfuhafa, Sameinaði lífeyrissjóðurinn, lagt fram verðmat á eigninni sem kærendur telji byggt á röngum forsendum og því hvorki sanngjarnt né rétt. Á þeim tíma hafi komið upp ágreiningur á milli kærenda og lífeyrissjóðsins um verðmæti eignarinnar og niðurstöðu 110% leiðarinnar. Í framhaldi af þessu hafi kærendur tekið skyndiákvörðun um að óska greiðsluaðlögunar og sótt um sama dag, þann 30. júní 2011. Kærendur kveðast hafa farið vel yfir málið með starfsmanni umboðsmanns skuldara þegar sótt var um greiðsluaðlögun. Hafi starfsmanninum verði kynntur ágreiningur við lífeyrissjóðinn um verðmæti fasteignarinnar og 110% leiðina. Einnig hafi þau upplýst um ástand eignarinnar og nauðsyn þess að gera tilteknar ráðstafanir til að forða eigninni frá skemmdum. Einnig hafi þau greint frá kaupum á aðföngum og öðrum skuldbindingum skömmu fyrir umsókn um greiðsluaðlögun.

Í samráði við umboðsmann skuldara hafi verið ákveðið að láta reyna á það í frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun hvort kærendur gætu haldið fasteigninni með því að greiða mánaðarlega til veðhafa. Hafi það verið gert með þeim hætti að í frumvarpi hafi verið lagt til að kærendur greiddu mánaðarlega til veðkröfuhafa sem svaraði til hæfilegrar leigu, samkvæmt ákvörðun umsjónarmanns, en umsjónarmaður hafi talið hæfilegt leiguverð 200.000 krónur á mánuði.

Þrír kröfuhafar hafi gert athugasemdir við frumvarpið, þar af hafi tveir hafnað frumvarpinu meðal annars á þeim forsendum að kærendur uppfylltu ekki skilyrði til að leita greiðsluaðlögunar. Landsbankinn hafi hafnað frumvarpinu og frekari samningsumleitan, enda taldi bankinn að vísa skyldi kærendum úr greiðsluaðlögun á grundvelli 15. gr., sbr. b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Hafi bankinn talið að í öndverðu hefði átt að hafna umsókn kærenda um greiðslulögun þar sem þau hefðu fengið 600.000 króna yfirdráttarlán 28. júní 2011 en umsókn þeirra um greiðsluaðlögun hafi verið lögð fram 30. júní sama ár. Teldi bankinn að með þessu hafi kærendur stofnað til skulda á þeim tíma er þau hafi verið ófær um að standa við fjárskuldbindingar sínar.

Múrbúðin hafi hafnað niðurfellingu krafna að hluta eða öllu leyti þar sem annar kærenda hafi sótt um og fengið reikningsviðskipti hjá Múrbúðinni í lok maí 2011. Kærandinn hafi síðan tekið út vörur fyrir rúmar 600.000 krónur og með því stofnað til fjárskuldbindinga sem hann hafi verið ófær um að standa við, sbr. b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. 

Umsjónarmaður hafi leitað eftir leiðbeiningum hjá embætti umboðsmanns skuldara um framhald málsins. Hafi umboðsmaður talið rétt að umsjónarmaður vísaði málinu til embættisins í samræmi við 15. gr. lge.

Með bréfum umboðsmanns skuldara til kærenda 1. og 17. ágúst 2013 var þeim gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Kærendur hafi svarað bréfunum og lagt fram frekari gögn.

Með bréfi til kærenda 2. september 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður með vísan til 15. gr., sbr. a–, c- og d-liði 1. mgr. 12. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur gera ekki kröfur í málinu en skilja verður málatilbúnað þeirra svo að þau krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærendur telja sig hafa staðið við skuldbindingar sínar gagnvart umboðsmanni skuldara. Þau hafi lagt til hliðar allt sitt umframfé. Samkvæmt lögum beri þeim að forða fasteign sinni að C götu nr. 4 frá skemmdum og það hafi þau gert eftir bestu getu en framkvæmdum vegna þessa hafi fylgt kostnaður. Brýn nauðsyn hafi verið á að forða leka- og rakaskemmdum því ella hefði mikið tjón orðið og eignin ekki verið íbúðarhæf. Hefðu kærendur ekki gert við eignina hefðu þau orðið skaðabótaskyld gagnvart Sameinaða lífeyrissjóðnum og fasteignin tapað verðgildi sínu.

Þá hafi kærendur ekki greitt skólagjöld sín af fé sem var umfram framfærslukostnað og álíti þau sig ekki hafa brotið gegn skyldum sínum samkvæmt a- og c-liðum 1. mgr. 12. gr. lge. Kærendur hafi tekið námslán til að greiða skólagjöldin.

Kærendur greina frá því að þau hafi fengið 4.000.000 króna lán frá foreldrum kæranda A og hafi féð verið notað til viðgerða á C götu nr. 4. Kærendur hafi endurgreitt lánið en nú hafi foreldrarnir greitt þeim féð til baka til að þetta myndi ekki leiða til niðurfellingar greiðsluaðlögunarumleitana. Vinnuframlag við fasteignina samkvæmt nótum hafi verið 7.404.500 krónur.

Fjárhagur kærenda á tímabili greiðsluskjóls hafi verið eftirfarandi:

 

Mánaðarleg heildarútgjöld 455.252
"Hægt að leggja fyrir" 465.735
Lagt fyrir í 23 mánuði 10.711.913
Lagt út fyrir efni 136.510
Lagt út fyrir vinnu 7.404.500


Eftir standi 3.170.894
Greidd skólagjöld 2.078.600
Námslán tekin til að greiða skuld við foreldra 4.000.000
Eftirstöðvar -2.907.706

 

Það sem vanti upp á séu 829.106 krónur sem séu inni á bankareikningi.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Samkvæmt útreikningum embættisins sé áætlað að kærendur hefðu átt að geta lagt til hliðar 10.711.882 krónur á tímabili greiðsluskjóls. Kærendur hafi lagt fram kvittanir alls að fjárhæð 12.589.219 krónur vegna náms þeirra beggja og vegna framkvæmda og/eða viðgerða á fasteign. Þar af nemi kvittanir vegna fasteignarinnar 10.653.419 krónum. Þá hafi kærendur lagt fyrir 1.508.418 krónur. Geri embættið út af fyrir sig ekki athugasemdir við framlögð gögn kærenda að öðru leyti en því að ráðstöfun svo hárrar fjárhæðar á tímabili frestunar greiðslna, svokallaðs greiðsluskjóls, teljist til brota á þeim skyldum sem á kærendum hvíli samkvæmt 12. gr. lge. Gera verði þá kröfu til einstaklinga, sem glími við svo verulega fjárhagserfiðleika að íhlutunar sé þörf, að þeir dragi úr útgjöldum sem ætla megi að hægt sé að komast hjá eða fresta og sérstaklega á meðan þeir standi í greiðsluaðlögunarumleitunum vegna endurskipulagningar fjármála sinna. Skuldurum í greiðsluaðlögun séu settar ákveðnar skorður á ráðstöfun fjár í greiðsluskjóli. Þeim sé í fyrsta lagi skylt að leggja fyrir það fé sem er umfram framfærslukostnað og í öðru lagi að ráðstafa ekki því fé sem gagnast gæti lánardrottnum sem greiðsla.

Ekki verði fallist á að kostnaður við framkvæmdir/og eða viðgerðir á fasteign að fjárhæð 10.653.419 krónur falli undir undanþágu 12. gr. lge. um að útgjöldin séu nauðsynleg skuldurum eða heimili þeirra til lífsviðurværis eða eðlilegs heimilishalds. Fyrir liggi að fasteign kærenda sé ekki fullbúin og bendi framlögð gögn og aðstæður allar til þess að um meira en nauðsynlegar viðgerðir á fasteign hafi verið að ræða. Telji embættið að kærendur hafi því brotið gegn skyldum sínum samkvæmt a- og c-liðum 1. mgr. 12. gr. lge. á tímabili greiðsluskjóls með því að hafa ráðstafað allt of miklu fé á ofangreindan hátt í stað þess að leggja það til hliðar. Vísað sé til úrskurðar kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 18/2013 því til stuðnings en þar hafi kærandi ráðstafað fé á tímabili greiðsluskjóls, meðal annars til viðhalds á fasteign. Hafi kærunefndin talið að kærandi hefði ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a- og c-liðum 1. mgr. 12. gr. lge.

Kærendur hafi einnig lagt fram reikninga vegna náms þeirra við Háskólann á Bifröst, alls að fjárhæð 2.067.200 krónur. Telji embættið að með því að greiða skólagjöld með því fé sem til hafi fallið umfram framfærslukostnað kærenda á tímabilinu í stað þess að nota fengin námslán til greiðslu skjólagjalda hafi kærendur brotið gegn skyldum sínum samkvæmt a- og c-liðum 1. mgr. 12. gr. Einnig telji embættið að kærendur hafi brotið gegn d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að stofna til skulda við Lánasjóð íslenskra námsmanna í þeim tilgangi að greiða lánsféð til nákominna.

Þá hafi kærendur lagt fram tölvupóst sem sýni framkomna kæru til ríkisskattstjóra vegna tekjuársins 2012 þar sem kærðar séu ofáætlaðar tekjur frá lífeyrissjóði. Að sögn kærenda sé um að ræða 950.000 krónur. Ekki liggi fyrir niðurstaða ríkisskattstjóra og þá verði ekki heldur séð að þessi fjárhæð hafi áhrif á niðurstöðu málsins þar sem talið sé að kærendur hafi átt að leggja fyrir mun hærri fjárhæð á tímabili greiðsluskjóls.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. a-, c- og d-liði 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a- og c- og d-liða 1. mgr. 12. gr. lge., þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari ekki láta af hendi eða veðsetja eignir eða verðmæti sem gagnast geta lánardrottnum sem greiðsla. Samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. má skuldari ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna nema skuldbinding sem stofnað er til sé nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum, skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Eins og fram er komið tilkynnti umsjónarmaður með bréfi til umboðsmanns skuldara 12. júlí 2012 að hann teldi að fram væru komnar upplýsingar sem hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge., sbr. b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Eftir að hafa veitt kærendum rétt til andmæla, meðal annars vegna brota á skyldum þeirra í greiðsluskjóli samkvæmt a-, c- og d-liðum 1. mgr. 12. gr. lge., felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður 2. september 2013.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II þeirra laga hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kærenda um greiðsluaðlögun. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Bar kærendum því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn þeirra var móttekin hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt gögnum málsins hafa kærendur verið upplýst um skyldur sínar samkvæmt a-, c- og d-liðum 1. mgr. 12. gr. lge.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á því að kærendur hafi ráðstafað alls 12.589.219 krónum á tímabili greiðsluskjóls. Hafi féð farið til að greiða fyrir nám þeirra beggja og framkvæmdir og/eða viðgerðir á fasteign þeirra. Því hafi þau ekki lagt til hliðar þá fjármuni sem þeim hafi verið unnt á því tímabili sem þau nutu greiðsluskjóls en þau hefðu aðeins lagt til hliðar 1.508.418 krónur. Kærendur kveðast á hinn bóginn hafa lagt til hliðar 829.106 krónur. Þá mótmæla kærendur því mati umboðsmanns skuldara að þau hafi brotið skyldur sínar í greiðsluskjóli samkvæmt 12. gr. lge., enda hafi ráðstöfun þeirra á fé meðal annars verið til að forða fasteign þeirra frá skemmdum.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum Ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kærenda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

 

Tímabilið 1. júlí 2011 til 31. desember 2011:  Sex mánuðir
Nettótekjur A 706.060
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 117.677
Nettótekjur B 2.129.106
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 354.851
Nettótekjur alls 2.835.166
Mánaðartekjur alls að meðaltali 472.528


Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir
Nettótekjur A 1.707.955
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 142.330
Nettótekjur B 2.727.987
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 227.332
Nettótekjur alls 4.435.942
Mánaðartekjur alls að meðaltali 369.662


Tímabilið 1. janúar 2013 til 31. ágúst 2013: Átta mánuðir
Nettótekjur A 1.309.594
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 163.699
Nettótekjur B 3.118.557
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 389.820
Nettótekjur alls 4.428.151
Mánaðartekjur alls að meðaltali 553.519


Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 11.699.259
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 449.972

 

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt greiðsluáætlun umboðsmanns skuldara frá júlí 2013, tekjur kærenda, námslán samkvæmt gögnum frá Lánasjóði íslenskra námsmanna, barnalífeyri samkvæmt gögnum frá Tryggingastofnun ríkisins og bætur var greiðslugeta kærenda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

 

Tímabilið 1. júlí 2011 til 31. ágúst 2013: 26 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 11.699.259
Bótagreiðslur 2011, 2012 og 2013 2.482.402
Barnalífeyrir 1.897.878
Námslán 6.283.909
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 22.363.448
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 860.133
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt greiðsluáætlun umboðsmanns 3.7.2013 455.252
Greiðslugeta kærenda á mánuði 404.881
Alls sparnaður í 26 mánuði í greiðsluskjóli x 404.881 10.526.896

 

Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna stendur er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum.

Samkvæmt fyrirliggjandi bankayfirliti nemur sparnaður kærenda 1.508.418 krónum. Samkvæmt upplýsingum frá Ríkisskattsstjóra um tekjur kærenda á tímabilinu 1. júlí 2011 til 31. ágúst 2013, auk upplýsinga um námslán, barnalífeyri, barnabætur, vaxtabætur og sérstaka vaxtaniðurgreiðslu, var greiðslugeta kærenda 404.881 króna á mánuði að teknu tilliti til áætlaðs framfærslukostnaðar frá því að þau lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 30. júní 2011 og þar til greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður 2. september 2013.

Samkvæmt ofangreindu vantar 9.018.478 krónur upp á sparnað kærenda á tímabili greiðsluskjóls. Kærendur hafa framvísað kvittunum alls að fjárhæð 9.938.584 krónur til að sýna fram á ráðstöfun fjár umfram nauðsynlegan framfærslukostnað á tímabili greiðsluskjóls. Í fyrsta lagi er um að ræða 1.950.800 krónur vegna skólagjalda þeirra beggja við Háskólann á Bifröst á tímabilinu ágúst 2011 til júní 2013. Eðli málsins samkvæmt er ekki gert ráð fyrir háum kostnaði við háskólanám til margra missera í framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara, enda byggja framfærsluviðmiðin á kostnaði sem nauðsynlegur er til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða. Í tilviki kærenda verður ekki séð að skólagjöld þeirra um lengri tíma hafi verið nauðsynleg til að sjá þeim og fjölskyldu þeirra farborða á tímabili greiðsluskjóls, enda höfðu báðir kærendur laun á tímabilinu svo sem tilgreint hefur verið. Verður því ekki hjá því komist að telja greiðslu skólagjalda að fjárhæð 1.950.800 krónur á tímabili greiðsluskjóls í andstöðu við skyldur kærenda samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Í öðru lagi hafa kærendur framvísað neðangreindum reikningum að fjárhæð 7.404.500 krónur vegna vinnu við fasteign þeirra á tímabilinu ágúst 2011 til október 2012 en um er að ræða 14 mánaða tímabil er kærendur voru í greiðsluskjóli:

 

Dagsetning Fjárhæð Lýsing vinnu*
5. október 2012 2.208.800 Vinna við þakleka, fyllt í
    sprungur og þakdúkur lagaður
24. ágúst 2012 1.054.200 Múrvinna á austur- og suðurhlið.
    Vinna við rakaskemmdir og leka
5. júní 2012 903.600 Múrvinna á vestur- og norðurhlið
30. október 2011 1.154.600 Múrvinna og hleðsla við svalir
    og vinna við rakaskemmdir
27. september 2011 1.229.900 Vinna við leka- og rakaskemmdir
3. ágúst 2011 853.400 Vinna við einangrun á húsi
Samtals: 7.404.500  

*Lýsing vinnu eins og tilgreint er í reikningum.

 

Kærendur kveða fasteignina hafa legið undir skemmdum og nauðsynlegt hafi verið að gera við eignina því ella hefði mikið tjón orðið og eignin orðið óíbúðarhæf. Ekki verður annað séð en að hluti framlagðra reikninga sé vegna byggingar á fasteign kærenda, svo sem múrvinna á öllum hliðum húss og vinna við einangrun. Aðeins hluti vinnu virðist vegna skemmda en hvorki liggur fyrir hver viðgerðarkostnaður einn og sér var né hvort hann var nauðsynlegur til að forða bráðu tjóni. Kærendur höfðu ekki samráð við umsjónarmann vegna þessara fjárútláta. Verður með engu móti fallist á það sjónarmið kærenda að þeim hafi verið heimilt að ráðstafa svo verulegri fjárhæð á tímabili greiðsluskjóls en hér er um að ræða kostnað sem jafngildir framfærslu fjölskyldunnar í ríflega 16 mánuði. Er ráðstöfun þessa fjár samkvæmt framansögðu í andstöðu við skyldur kærenda samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Í þriðja lagi hafa kærendur framvísað kvittunum að fjárhæð 583.284 krónur vegna byggingarefnis á tímabilinu maí 2011 til nóvember 2012. Þar af eru 250.711 krónur vegna kaupa á útihellum. Liggur ekkert fyrir um að efniskaup þessi hafi verið nauðsynleg í skilningi a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. og telur kærunefndin því að ráðstöfun 583.284 króna til kaupa á byggingarefni hafi einnig verið í andstöðu við skyldur kærenda samkvæmt þeirri lagagrein.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið fellst kærunefndin á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Svo sem rakið hefur verið er skuldurum óheimilt, á saman tíma og leitað er greiðsluaðlögunar, að láta af hendi verðmæti sem gagnast geta lánardrottnum sem greiðsla samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. Með ráðstöfun á framangreindum 9.018.478 krónum teljast kærendur hafa brotið skyldur sínar samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. en fjárhæðina hefði átt að leggja fyrir til að nýta sem greiðslu til kröfuhafa við samning um greiðsluaðlögun. Samkvæmt því telur kærunefndin að umboðsmaður skuldara hafi réttilega komist að þeirri niðurstöðu að kærendur hafi ekki sinnt skyldu sinni samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. á meðan þau leituðu greiðsluaðlögunar.

Þá liggur fyrir að kærendur stofnuðu til námslána að fjárhæð 6.283.909 krónur á tímabili greiðsluskjóls. Miðað við tekjur þeirra og framfærslukostnað samkvæmt neysluviðmiði umboðsmanns skuldara var kærendum ekki nauðsynlegt að stofna til þessara skulda til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða en tekjur þeirra, bætur og barnalífeyrir námu 16.079.539 krónum á tímabilinu og framfærslukostnaður 11.836.552 krónum á sama tíma. Kærendur kveðast hafa tekið námslánin til að greiða skólagjöld og til að endurgreiða fjölskyldumeðlimum 4.000.000 króna. Hafa kærendur að mati kærunefndarinnar stofnað til nýrra skulda í skilningi d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. með töku námslánanna, enda voru tekjur þeirra umfram kostnað við framfærslu 4.242.987 krónur (16.079.539 krónur - 11.836.552 krónur) á tímabilinu svo sem áður hefur verið rakið. Fellst kærunefndin því einnig á niðurstöðu umboðsmanns skuldara þess efnis að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt því lagaákvæði.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að kærendur hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt a-, c- og d-liðum 1. mgr. 12. gr. lge. og að umboðsmanni skuldara hafi því borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta