Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 148/2013

Fimmtudaginn 8. október 2015

 

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 24. september 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 12. september 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 7. október 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 24. október 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 30. október 2013 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust 27. nóvember 2013. Þær voru sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 29. nóvember 2013 og óskað eftir sjónarmiðum embættisins. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fædd 1945. Hún er einstæð og býr í eigin 92 fermetra fasteign að B stað í sveitarfélaginu C.

Kærandi er öryrki til margra ára og fær greiddan örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins auk vaxtabóta.

Að sögn kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hennar til hækkunar á mánaðarlegum afborgunum lána á sama tíma og tekjur hafi staðið í stað.

Heildarskuldir kæranda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara, eru 14.206.862 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað árið 2005.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 11. október 2011 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hennar.

Með bréfi til umboðsmanns skuldara 27. júní 2013 tilkynnti umsjónarmaður að uppi væru aðstæður sem leiddu til þess að lengra yrði ekki haldið með málið og vísaði í því sambandi til 15. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Umsjónarmaður hafi unnið að samningi til greiðsluaðlögunar til kynningar fyrir kröfuhafa og verið í símasambandi við kæranda. Hafi kærandi greint frá því að fyrirhugaðar væru breytingar á tekjum hennar þar sem hún hygðist leigja út herbergi í íbúð sinni. Umsjónarmaður hafi gert drög að samningi til greiðsluaðlögunar í samræmi við þetta. Áform kæranda hafi ekki gengið eftir. Hafi umsjónarmaður þá gert tilraun til að semja við Íbúðalánasjóð um að veita kæranda greiðslufrest í einhvern tíma en án árangurs. Tilkynnti umsjónarmaður því kæranda að ekki væri annar kostur fyrir hendi en að selja fasteign hennar. Frumvarp yrði gert þannig að kærandi fengi hluta af söluhagnaði til að koma sér upp annarri fasteign.

Umsjónarmaður hafi eftir þetta gert ítrekaðar tilraunir til að ná sambandi við kæranda en án árangurs. Hafi hann því sent kæranda bréf 13. júní 2013 og veitt henni sjö daga frest til að hafa samband við sig. Kærandi hafi ekki sinnt bréfinu. Umsjónarmaður telji ekki unnt að vinna málið frekar en kærandi hafi neikvæða greiðslugetu upp á um 10.000 krónur á mánuði. Því sé ekki svigrúm fyrir kæranda til að greiða af veðkröfum á fasteign hennar eins og áskilið sé samkvæmt a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. Í lge. sé ýmist gert ráð fyrir að eignum sé haldið eða þær seldar. Til að halda eign verði að vera unnt að sýna fram á greiðslugetu til að standa undir mánaðarlegum greiðslum. Sé það ekki unnt verði að selja eignina. Þá segi í 5. mgr. 13. gr. lge. að ef skuldari framfylgi ekki ákvörðun umsjónarmanns um að selja fasteign eða hann komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu, skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge. Í ljósi þessa, svo og ákvæðis 1. mgr. 16. gr. lge. sem mæli fyrir um að frumvarp til greiðsluaðlögunar skuli samið í samráði við skuldara, óskaði umsjónarmaður eftir því að greiðsluaðlögunarheimildir yrðu felldar niður.

Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf 12. ágúst 2013 þar sem henni var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild hennar til greiðsluaðlögunar. Í svari kæranda 9. september 2013 kom fram að hún hefði átt við veikindi að stríða og því hafi henni reynst erfitt að svara bréfum sem henni hafi borist. Kærandi sjái ekki ávinning af því að selja íbúð sína þar sem um sé að ræða ódýrasta húsnæðiskostinn fyrir hana. Fjölskylduvinur hafi boðist til að greiða kæranda 70.000 krónur á mánuði til að gera henni kleift að halda húsnæðinu. Kærandi geti framvísað staðfestingu þessa efnis.

Með bréfi til kæranda 12. september 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. og 1. mgr. 16. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Þess er krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar verði hrundið og kæranda veitt áframhaldandi heimild til greiðsluaðlögunar samkvæmt lge.

Kærandi kveðst hafa búið að B stað í sveitarfélaginu C.um langt skeið. Kærandi sé öryrki en hún hafi misst neðan af öðrum fætinum fyrir nokkrum árum. Því komist hún ekki ferða sinna nema í sérútbúinni bifreið. Sökum örorku sinnar þurfi kærandi einnig að búa í húsnæði þar sem hún komist auðveldlega um. Að mati kæranda verði ekki séð að horft hafi verið til 1. mgr. 13. gr. lge. þegar tekin var ákvörðun um að hún skyldi selja eign sína en í lagagreininni segi að umsjónarmaður geti ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í tilviki kæranda sé ekki hægt að halda því fram af sanngirni að kærandi geti verið án húsnæðisins og sé þá horft til aldurs kæranda og örorku. Einnig þyrfti hún að greiða mun hærri leigu ef hún flytti í leiguhúsnæði.

Kærandi hafi möguleika á að auka tekjur sínar með því að leigja út herbergi. Einnig bendir hún á að verði henni gert að selja íbúð sína og taka húsnæði á leigu verði það dýrara en að borga af þeim húsnæðislánum sem hvíli á íbúð hennar en á eigninni hvíli tvö íbúðarlán samtals að fjárhæð 11.120.946 krónur.

Miðað við gögn umsjónarmanns sé fasteign kæranda metin á 15.890.000 krónur og bifreið hennar á 1.400.000 krónur. Gríðarlegt framboð eigna sé á því svæði sem kærandi búi. Myndi eign kæranda því að öllum líkindum seljast á undirverði. Þar sem veðkröfur á eigninni nemi 11.120.946 krónum, auk þess sem kærandi skuldi samningskröfur, liggi fyrir að fjárhagsstaða kæranda yrði neikvæð ef eign hennar myndi seljast um það bil á því verði sem gert sé ráð fyrir. Því sé ljóst að ráðagerð umsjónarmanns gangi ekki upp. Afskrifa verði samningskröfur að hluta eða öllu leyti til að hún geti haldið áfram án þess að safna upp skuldum.

Í 1. gr. lge. komi fram að markmið laganna sé að gera einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi  milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð. Markmiði lge. verði ekki náð með því að synja kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar.

Kærandi telur það í ósamræmi við lge. verði ekki reynt til þrautar að koma á nauðasamningi á milli hennar og lánardrottna hennar. Í fyrsta lagi sé það vegna þess að tekjur kæranda muni aukast á næstu mánuðum þar sem hún eigi von á umönnunarbótum. Í öðru lagi vegna þess að fjölskylduvinur vilji hjálpa henni og hafi undirritað yfirlýsingu um að hann muni veita kæranda fjárhagslegan stuðning að fjárhæð 20.000 krónur á mánuði út árið 2015. Með þeirri aðstoð breytist mánaðarleg greiðslugeta hennar frá því að vera neikvæð um 10.000 krónur í að vera jákvæð um 10.000 krónur. Í þriðja lagi sé vísað til væntanlegrar höfuðstólslækkunar húsnæðislána. Loks hafi kærandi hug á að leigja út herbergi í íbúð sinni en það hafi enn ekki gengið eftir. Fái kærandi leigjanda muni hagur hennar vænkast töluvert.

Samkvæmt framansögðu liggi fyrir að þær forsendur, sem umboðsmaður skuldara byggi ákvörðun sína á, hafi breyst.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. geti umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Þá segi í 5. mgr. 13. gr. lge. að  framfylgi kærandi ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr., skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Fram hafi komið að kærandi sé mótfallin sölu á fasteign sinni. Umsjónarmaður hafi metið það svo að kærandi þyrfti að selja eign sína þar sem greiðslugeta hennar sé neikvæð. Umsjónarmaður hafi ítrekað reynt að koma kæranda í skilning um að þetta sé óhjákvæmileg niðurstaða en kærandi hafi ekki látið ná í sig. Umboðsmaður skuldara taki undir mat umsjónarmanns á 1. mgr. 13. gr. lge., enda hafi kærandi lagst gegn sölu eignarinnar svo sem svar hennar frá 9. september 2013 beri með sér. Þá sé ómögulegt að taka tillit til þess að fjölskylduvinur kæranda muni hugsanlega styrkja hana um tiltekna fjárhæð svo að hún geti haldið eigninni en það sé ekki varanleg lausn á greiðsluvanda kæranda.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. og 1. mgr. 16. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Kærandi krefst þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild hennar til greiðsluaðlögunar verði hrundið og að henni verði veitt áframhaldandi heimild til greiðsluaðlögunar samkvæmt lge. Ef umboðsmaður skuldara fellir niður greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara getur skuldari kært þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge. Við úrlausn málsins fyrir kærunefndinni getur því aðeins komið til þess að kærunefndin staðfesti ákvörðun umboðsmanns skuldara eða felli hana úr gildi. Verði fallist á kröfu kæranda um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi leiðir það sjálfkrafa til þess að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda halda áfram. Skilja verður kröfugerð kæranda með tilliti til þessa.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. og 1. mgr. 16. gr. lge.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. getur umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í 5. mgr. segir að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna, skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. Í 1. mgr. 16. gr. lge. segir að umsjónarmaður skuli eins fljótt og auðið sé eftir að kröfulýsingarfrestur sé liðinn gera frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun. Skuli frumvarpið samið í samráði við skuldara. Í 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. skal skuldari greiða fastar mánaðarlegar greiðslur af þeim veðkröfum sem eru innan matsverðs eignar á tímabili greiðsluaðlögunar. Greiðslurnar megi ekki nema lægri fjárhæð en þeirri sem ætla má að mati umsjónarmanns að svari til hæfilegrar leigu á almennum markaði fyrir þá eign er greiðsluaðlögun varðar nema sérstakar og tímabundnar aðstæður séu fyrir hendi.

Í athugasemdum með frumvarpi til lge. kemur fram að markmið aðgerða þeirra sem gripið hafi verið til vegna skuldavanda fólks hafi verið að forða fólki frá því að missa heimili sín og gera því kleift að standa undir greiðslubyrði lána. Að jafnaði skuli gefa skuldara kost á að búa áfram í húsnæði sínu ef það telst ekki bersýnilega ósanngjarnt svo sem vegna stærðar þess eða verðmætis. Umsjónarmaður getur þó ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í ljósi nauðsynjar skuldara á að halda íbúðarhúsnæði er almennt miðað við að skuldari verði ekki krafinn um sölu þess nema í sérstökum tilvikum. Þó verður að gæta þess að skuldari geti til frambúðar staðið undir greiðslubyrði afborgana af húsnæði.

Í athugasemdum með 13. gr. lge. segir að í ljósi þess að í greiðsluaðlögun felist að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils sé rétt að gera skuldara að leggja sitt af mörkum til að eins hátt hlutfall verði greitt af kröfum og sanngjarnt sé.

Í málinu er óumdeilt að greiðslugeta kæranda er neikvæð um 10.000 krónur á mánuði áður en greitt er af fasteignaveðlánum. Samkvæmt því hefur kærandi ekki greiðslugetu til að greiða af veðlánum innan matsverðs íbúðar hvort sem miðað er við mat umsjónarmanns eða lægra verðmat. Samkvæmt þessu lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge. Einnig taldi umsjónarmaður skorta á að kærandi viðhefði nauðsynlegt samráð við gerð frumvarps til samnings um greiðsluaðlögun samkvæmt 1. mgr. 16. gr. lge. Því felldi umboðsmaður skuldara niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda með ákvörðun 12. september 2013.

Kærandi telur líkur á að tekjur hennar aukist innan tíðar en það hefur hún ekki staðfest með gögnum eða öðrum viðhlítandi hætti. Þá liggur fyrir í málinu yfirlýsing frá tilteknum einstaklingi um að hann muni veita kæranda „fjárhagslega aðstoð sem nemi að upphæð kr. 20.000,- á mánuði út árið 2015.“ Jafnvel þó að tekið yrði tillit til þessa liggur fyrir að nefnd fjárhagsleg aðstoð myndi ekki leysa greiðsluvanda kæranda.

Miðað við ákvæði lge. er eini möguleikinn til að koma á greiðsluaðlögunarsamningi í tilvikum sem þessum að selja þá eign sem veðsett er til að létta á greiðslubyrði skuldara vegna fasteignaveðkrafna. Þá telur kærunefndin að ekki sé unnt að líta öðruvísi á málavexti, meðal annars með hliðsjón af bréfi kæranda sjálfrar frá 9. september 2013, en að hún hafi hafnað því að framfylgja fyrirmælum umsjónarmanns um sölu á eigninni að B stað í sveitarfélaginu C. Við þessar aðstæður verður að telja að umsjónarmanni hafi borið að leggja til við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður með vísan til 5. mgr. 13. gr., sbr. 15. gr. lge.

Í málinu liggur einnig fyrir að kærandi sinnti ekki beiðni umsjónarmanns um upplýsingar, sbr. bréf umsjónarmanns til kæranda 13. júní 2013. Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. lge. verður frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun ekki samið nema í samráði við skuldara og verður að telja að umbeðnar upplýsingar kæranda hafi verið nauðsynlegar til að koma á slíkum samningi. Þegar framanritað er virt verður að telja að skort hafi á samstarfsvilja kæranda í málinu sem var nauðsynlegur til að hægt væri að uppfylla skilyrði 1. mgr. 16. gr. lge.

Samkvæmt öllu framansögðu er hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður staðfest.

 

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta