Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 149/2013

Fimmtudaginn 8. október 2015

 

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 24. september 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 9. september 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 3. október 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 24. október 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 30. október 2013 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með greinargerð hans 28. október 2013. Þær voru sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 30. október 2013 og óskað eftir sjónarmiðum embættisins. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur 1952. Hann er kvæntur og býr ásamt eiginkonu sinni í 182,5 fermetra einbýlishúsi að B götu nr. 4 í sveitarfélaginu C sem hann á að 50% hluta á móti eiginkonu sinni.

Kærandi er húsasmiður að mennt en hann er atvinnulaus og fær greiddar atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun auk vaxtabóta.

Að sögn kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hans til atvinnuleysis.

Heildarskuldir kæranda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara, eru 56.825.149 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað árin 2004, 2005 og 2007.

Umsókn kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar barst umboðsmanni skuldara 29. júní 2011. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 7. júní 2012 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hans.

Með bréfi til umboðsmanns skuldara 28. febrúar 2013 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Í bréfinu kemur fram að greiðslugeta kæranda sé neikvæð. Helsta eign kæranda sé 50% eign í einbýlishúsinu að B götu nr. 4 í sveitarfélaginu C. Miðað við fasteignamat ársins 2013 sé verðmæti eignarinnar 53.300.000 krónur og telji umsjónarmaður að það verð endurspegli markaðsvirði eignarinnar. Mánaðarlegar afborganir veðkrafna, sem hvíli á fasteigninni og séu innan matsverðs hennar, nemi 302.586 krónum. Í hlut kæranda kæmu 50% eða 151.293 krónur. Þá sé kærandi skráður umráðamaður tveggja bifreiða sem séu í eigu Lýsingar. Krafa Lýsingar vegna bifreiðanna sé 2.467.415 krónur en markaðsverðmæti bifreiðanna að mati umsjónarmanns sé 2.053.000 krónur.

Umsjónarmaður hafi upplýst kæranda um að hann væri með neikvæða greiðslugetu. Samkvæmt 1. mgr. 13. lge. geti umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir sem hann telji með sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Það sé ákvörðun umsjónarmanns að leggja til sölu fasteignarinnar samkvæmt 21. gr. lge.

Á fundi 23. nóvember 2012 hafi kærandi greint frá því að hann myndi ekki una ákvörðun umsjónarmanns um að selja fasteignina eða ráðstafa bifreiðum. Kærandi hafi viljað fá svigrúm til að auka tekjur sínar þannig að hann gæti staðið undir mánaðarlegum afborgunum af fasteigninni og bílalánum. Einnig hafi hann viljað bíða eftir því að fasteigna- og bílalán yrðu endurreiknuð en það myndi hafa í för með sér verulega lækkun afborgana af lánum. Í janúar 2013 hefði erlent fasteignalán kæranda verið endurreiknað. Umsjónarmaður hafi haft samband við kæranda í janúar það ár og hafi kærandi upplýst að hann væri enn atvinnulaus. Því væri greiðslugeta kæranda enn neikvæð. Umsjónarmaður hafi því á ný upplýst kæranda um að hann legði til að fasteign hans yrði seld og bifreiðum ráðstafað þar sem hann myndi hvorki geta greitt af fasteigna- né bílalánum, óháð mögulegum endurútreikningi annarra lána. Kærandi hefði notið frestunar greiðslna, svokallaðs greiðsluskjóls, frá 29. júní 2011 og hefði greiðslugeta hans ekki breyst á þeim tíma. Kærandi hefði ítrekað fyrri afstöðu sína um að hann legðist gegn sölu eignanna.

Umsjónarmaður telji ekki unnt að vinna málið frekar. Því sé honum ekki annað fært en að óska þess að umboðsmaður skuldara felli niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda með vísan til 15. gr. lge. en í 5. mgr. 13. gr. lge. segi að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns um að selja eignir eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Fasteignagjöld vegna B götu nr. 4 fyrir árin 2011 og 2012 hafi ekki verið greidd. Skuld, sem stofnað hafi verið til í greiðsluskjólinu, nemi alls 339.797 krónum en þar af sé hluti kæranda 169.898 krónur. Í greiðsluskjóli séu lagðar ákveðnar skyldur á skuldara. Þannig sé honum skylt að greiða gjöld sem falli til eftir að greiðsluskjól komist á svo sem fasteignagjöld. Telja verði að með vanskilum fasteignagjalda á tímabili greiðsluskjóls hafi kærandi stofnað til nýrra skuldbindinga í skilningi d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Með vísan til alls framangreinds hafi umsjónarmaður ekki séð sér annað fært en að tilkynna umboðsmanni skuldara um að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil á grundvelli 15. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf 3. júlí 2013 þar sem honum var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild hans til greiðsluaðlögunar. Í svari kæranda frá 16. júlí 2013 hafi komið fram að aðstæður hans myndu breytast 1. ágúst 2013 og myndu tekjur hans þá aukast til muna. Gögn varðandi tekjur myndu liggja fyrir fljótlega. Einnig sé hann að semja um fasteignagjöld við sveitarfélagið C. Biðji hann því um frest á niðurfellingu greiðsluaðlögunar.

Með bréfi til kæranda 9. september 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. 1. og 5. mgr. 13. gr. og d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki kröfur í málinu en skilja verður kæru hans svo að hann krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærandi kveður laun sín hafa hækkað frá og með 1. október, sbr. staðgreiðsluyfirlit frá ríkisskattstjóra. Hann sé verktaki og ættu brúttó laun þá að geta verið 220.000 krónur en hann reikni með að þau verði hærri miðað við verkefnastöðu hans. Einnig muni tveir synir kæranda styrkja hann fjárhagslega ef þurfa þætti. Þá hafi kærandi gert greiðslusamkomulag við sveitarfélagið C vegna fasteignagjalda. Samkomulagið sé í skilum.

Þá séu öll lán á hendur kæranda vitlaust reiknuð og ólögleg. Bifreiðir verði seldar um leið og lán vegna þeirra hafi verið endurútreiknuð. Fljótlega verði farið í mál vegna erlends fasteignaláns (samtök lánþega).

Kærandi telur húsnæði sitt ekki of stórt en í því búi fjórir einstaklingar.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Í d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. sé kveðið á um að skuldari skuli ekki stofna til nýrra skulda eða gera ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna nema skuldbinding sem stofnað sé til sé nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða. Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. geti umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Þá segi í 5. mgr. 13. gr. lge. að framfylgi kærandi ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr., skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Að því er varði d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. hafi kæranda borið að greiða af lögveðskröfum sem til hafi fallið eftir að hann komst í greiðsluskjól samkvæmt 3. gr. lge. Kærandi hafi verið í greiðsluskjóli síðan 29. júní 2011. Undir rekstri málsins hjá umsjónarmanni hafi komið í ljós að kærandi hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að láta hjá líða að greiða lögveðskröfur af fasteign sinni að B götu nr. 4 í sveitarfélaginu C á tímabili greiðsluskjóls. Samkvæmt yfirliti frá sveitarfélaginu C nemi ógreidd fasteignagjöld vegna 50% eignarinnar sem fallið hafi til á tímabili greiðsluskjóls 318.983 krónum.

Ætla megi að með hátterni sínu hafi kærandi stofnað til nýrra skuldbindinga sem skaðað hafi hagsmuni kröfuhafa samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Þó hafi greiðslugeta kæranda verið neikvæð á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana.

Víkur þá að fasteign kæranda. Í sérstökum athugasemdum við 13. gr. frumvarps er síðar varð að lge. segi að við mat á því hvort mælt skuli með sölu fasteignar skuldara samkvæmt 1. mgr. 13. gr. skuli meðal annars horft til þess hvort íbúðarhúsnæði skuldara sé bersýnilega verulega umfram þá stærð sem skuldari og fjölskyldu hans hæfi, auk þess sem miklar líkur þurfi að vera á því að hann geti greitt afborganir af áhvílandi veðlánum eftir að greiðsluaðlögun ljúki. Þá segi í niðurlagi 1. mgr. 13. gr. lge. að umsjónarmanni sé heimilt að leita afstöðu lánardrottna áður en mælt sé með sölu fasteignar, þyki honum ástæða til.

Í bréfi umsjónarmanns til embættisins 28. febrúar 2013 sé að finna upplýsingar um mánaðarlegar tekjur kæranda vegna tekjuáranna 2011 og 2012. Komi þar fram að meðaltal mánaðartekna hans hafi verið 104.896 krónur árið 2011 og 98.563 krónur árið 2012. Einnig greini frá því í bréfinu að mánaðarlegur framfærslukostnaður kæranda, samkvæmt framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara fyrir hjón sem reki eina bifreið, sbr. 4. mgr. 16. gr. lge., sé 135.303 krónur á mánuði. Við útreikning á framfærslu sé miðað við að eiginkona kæranda greiði helming af framfærslukostnaði og öðrum kostnaði við rekstur heimilis. Af framangreindu sé ljóst að mánaðarleg greiðslugeta kæranda sé neikvæð.

Helsta eign kæranda sé 50% fasteignarinnar að B götu nr. 4, sveitarfélaginu C sem sé 182,5 fermetra einbýlishús með bílskúr. Eiginkona kæranda sé eigandi eignarinnar á móti kæranda. Fasteignamat eignarinnar fyrir árið 2013 sé 53.300.000 krónur. Telji umsjónarmaður að fasteignamatið endurspegli raunverulegt markaðsverð eignarinnar. Helmingshlutdeild kæranda í mánaðarlegum afborgunum af veðkröfum innan matsverðs eignarinnar sé 151.293 krónur. Þá sé kærandi umráðamaður tveggja bifreiða í eigu Lýsingar.

Í bréfi umsjónarmanns sé áréttað að af ákvæðum lge. og lögskýringargögnum megi draga þá ályktun að þrjú tilgreind grunnskilyrði þurfi að vera fyrir hendi til þess að skuldari geti almennt haldið fasteign. Í fyrsta lagi að ekki sé um að ræða fasteign sem umsjónarmaður telji með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í öðru lagi að skuldari geti greitt fastar mánaðargreiðslur af þeim veðkröfum sem séu innan matsverðs fasteignar samkvæmt a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. Í þriðja lagi að skuldari sé til frambúðar fær um að greiða af skuldbindingum sem hvíli á eigninni. Uppfylli skuldari ekki öll skilyrðin þurfi umsjónarmaður að íhuga sölu eignarinnar.

Fram komi í fyrrnefndu bréfi umsjónarmanns að meðal veðkrafna sem hvíli á fasteign kæranda sé erlent fasteignalán á fyrsta veðrétti að fjárhæð 44.327.690 krónur. Lánið hafi verið endurútreiknað í janúar 2012. Fyrir liggi að greiðslugeta kæranda sé neikvæð og standi hann því ekki undir föstum mánaðarlegum greiðslum af fasteigninni eða afborgunum af bílasamningum, óháð mögulegum endurútreikningi lána. Greiðslugeta kæranda hafi ekki breyst frá því að hann komst í greiðsluskjól 29. júní 2011. Hafi umsjónarmaður því lagt til að fasteignin yrði seld og bifreiðunum ráðstafað.

Fyrir liggi að einu tekjur kæranda frá maí 2009 hafi verið atvinnuleysisbætur. Samkvæmt staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra hafi kærandi ekki fengið bótagreiðslur fyrir apríl og maí 2013. Fyrir júní 2013 hafi kærandi fengið 239.528 krónur. Frá ársbyrjun 2011 hafi atvinnuleysisbætur kæranda verið í kringum 100.000 krónur á mánuði. Upplýsingar vegna ágúst 2013 liggi enn ekki fyrir. Kærandi hafi greint frá því að tekjur hans myndu aukast til muna frá og með 1. ágúst 2013 en hann hafi ekki skýrt frá ástæðum þess. Að mati umboðsmanns skuldara breyti möguleg tekjuaukning litlu sem engu um hvort kærandi geti haldið eignarhluta sínum í einbýlishúsi að verðmæti 53.300.000 krónur né greitt af bílasamningum.

Telja verði að kærandi hafi með framferði sínu komið í veg fyrir sölu á eignarhluta sínum í fasteigninni og ráðstöfun á fyrrnefndum bifreiðum samkvæmt 1. og 5. mgr. 13. gr. lge.

Kærandi hafi greint frá því að tveir synir hans væru að flytja inn á heimili hans og muni þeir styrkja hann í þeim tilgangi að halda húsinu við Múlalind 4. Embættið telji ekki tilefni til að líta til þessa. Í fyrsta lagi liggi engin gögn fyrir um þetta. Í öðru lagi hafi ekki verið tekið tillit til slíkra ráðstafana í sambærilegum málum þar sem greiðslur frá börnum skuldara séu ekki tryggðar til framtíðar og það leysi ekki fjárhagsvanda skuldara til frambúðar.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af öllum gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. 1. og 5. mgr. 13. gr. og d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. 1. og 5. mgr. 13. gr. og d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Í d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. er kveðið á um að skuldari skuli ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna. Sú undantekning er gerð að heimilt er að stofna til nýrra skuldbindinga þegar skuldbinding er nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. getur umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í 5. mgr. segir að framfylgi skuldari  ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna, skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. Í 15. gr. lge. segir komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skal gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin.

Með bréfi 28. febrúar 2013 fór umsjónarmaður þess á leit við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður á grundvelli d-liðar 1. mgr. 12. gr. og 1. og 5. mgr. 13. gr., sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Í framhaldi af þessu felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður 9. september 2013.

Kærandi sótti um heimild til að leita greiðsluaðlögunar 29. júní 2011. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði 1. mgr. II lge. hófst tímabundin frestun greiðslna við móttöku umsóknar kæranda og bar kæranda samkvæmt 5. mgr. sama ákvæðis eftir þann tíma að virða skyldur skuldara við greiðsluaðlögun sbr. 12. gr. laganna. Samkvæmt 4. mgr. II bráðabirgðaákvæðisins tekur tímabundin frestun greiðslna samkvæmt ákvæðinu ekki til þeirra krafna sem urðu til eftir að umsókn kæranda var lögð fram. Kæranda bar því að greiða áfallin fasteignagjöld eftir að umsókn var lögð fram.

Kæranda var veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar með ákvörðun umboðsmanns skuldara 7. júní 2012. Samkvæmt 3. mgr. 11. gr. lge. tekur frestun greiðslna ekki til krafna sem urðu til eftir að heimild til að leita greiðsluaðlögunar var veitt. Kæranda bar því einnig að greiða áfallin fasteignagjöld eftir að umboðsmaður skuldara samþykkti umsókn hans.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafa fallið til fasteignagjöld á fasteign kæranda og eiginkonu hans að fjárhæð 597.519 krónur á tímabilinu 15. janúar 2012 til 1. júlí 2013. en á þeim tíma hefur kærandi notið greiðsluskjóls. Þessi gjöld eru í vanskilum og er hluti kæranda 50% eða 298.759 krónur. Af þessari fjárhæð eru 314.797 krónur frá árinu 2012 og þar af er hluti kæranda 157.398 krónur eða 13.116 krónur að meðaltali á mánuði. Fyrir liggur að greiðslugeta kæranda var 11.647 krónur í júní 2012 en neikvæð um tæplega 16.000 krónur í september 2013. Í báðum tilvikum er gert ráð fyrir greiðslu fasteignagjalda í þeim framfærslukostnaði sem reiknaður hefur verið út fyrir kæranda. Samkvæmt þessu hafði kærandi getu til að standa í skilum með fasteignagjöld á árinu 2012 en ekki á árinu 2013. Samkvæmt þessu stofnaði kærandi til nýrra skulda í skilningi d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. á árinu 2012. Í ljósi þessa verður að líta svo á að kærandi hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Verður þá vikið að fasteign kæranda. Eins og fram hefur komið tilkynnti umsjónarmaður umboðsmanni skuldara með bréfi 28. febrúar 2013 að kærandi hefði ekki framfylgt ákvörðun umsjónarmanns um sölu fasteignar sinnar, sbr. 1. og 5. mgr. 13. gr. lge. Var kæranda í kjölfarið gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekaði kærandi þá afstöðu sína að hann vildi ekki að fasteign hans yrði seld.

Í athugasemdum með frumvarpi til lge. segir að markmið aðgerða þeirra sem gripið hafi verið til vegna skuldavanda fólks hafi verið að forða fólki frá því að missa heimili sín og gera því kleift að standa undir greiðslubyrði lána. Að jafnaði skuli gefa skuldara kost á að búa áfram í húsnæði sínu ef það telst ekki bersýnilega ósanngjarnt svo sem vegna stærðar þess eða verðmætis. Umsjónarmaður geti þó ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í ljósi nauðsynjar skuldara á að halda íbúðarhúsnæði er almennt miðað við að skuldari verði ekki krafinn um sölu þess nema í sérstökum tilvikum. Þó verður að gæta þess að skuldari geti til frambúðar staðið undir greiðslubyrði afborgana af húsnæði.

Þegar skuldari heldur eftir eignum, sem veðkröfur á hendur honum hvíla á, skal hann greiða fastar mánaðarlegar greiðslur af þeim veðkröfum eins og mælt er fyrir um í a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. Fastar mánaðargreiðslur mega samkvæmt lagaákvæðinu ekki nema lægri fjárhæð en þeirri sem ætla má, samkvæmt mati umsjónarmanns, að svari til hæfilegrar leigu á almennum markaði fyrir eignina sem greiðsluaðlögun varðar nema sérstakar og tímabundnar ástæður séu fyrir hendi. Við slíkar aðstæður er umsjónarmanni heimilt að ákveða tímabundið lægri mánaðargreiðslu til greiðslu veðkrafna en þó ekki lægri en 60% af hæfilegri leigu. Þessar kröfur falla ekki niður þegar greiðsluaðlögun lýkur.

Í athugasemdum með 13. gr. lge. segir að í ljósi þess að í greiðsluaðlögun felist að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils sé rétt að gera skuldara að leggja sitt af mörkum til að eins hátt hlutfall verði greitt af kröfum og sanngjarnt sé.

Fyrir liggur að kærandi hefur þegið atvinnuleysisbætur frá maí 2009 að undanskildum átta mánuðum; febrúar til apríl og september til nóvember 2010 og apríl til maí 2013. Kærandi fékk atvinnuleysisbætur að hluta árin 2009 og 2010 á móti tekjum af eigin atvinnurestri. Á árunum 2011 og 2012 voru einu tekjur hans atvinnuleysisbætur. Í málinu liggur fyrir greiðsluáætlun frá september 2013 sem byggð er á framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara. Samkvæmt áætluninni er greiðslugeta kæranda neikvæð um tæplega 16.000 krónur á mánuði þegar framfærslukostnaður hefur verið dreginn frá tekjum. Miðað við ákvæði lge. er eini möguleikinn til að koma á greiðsluaðlögunarsamningi í tilvikum eins og því sem hér um ræðir að selja þá eign sem veðsett er, enda ljóst að kærandi getur ekki staðið undir greiðslum af veðkröfum samkvæmt a-lið 1. mgr. 21. gr. lge., jafnvel þó að miðað yrði við að sérstakar og tímabundnar ástæður væru fyrir hendi. Samkvæmt þessu lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr., sbr. 1. og 5. mgr. 13. gr. lge.

Í kæru til kærunefndarinnar 24. september 2013 kveðst kærandi vera verktaki og ættu laun hans að geta verið 220.000 krónur brúttó frá 1. október. Í bréfi kæranda til kærunefndarinnar 28. október 2013 greindi kærandi frá því að laun hans hefðu hækkað í um 220.000 krónur á mánuði. Einnig kveður hann tvo syni sína muni styrkja sig fjárhagslega „ef þurfa þyki“. Þessar fullyrðingar kæranda eru í ósamræmi við fyrirliggjandi gögn en hann hefur ekki staðfest þær með viðhlítandi hætti.

Sem fyrr segir hefur kærandi ítrekað lýst yfir þeirri afstöðu sinni að hann vilji ekki að fasteignin verði seld. Hefur kærandi þannig ekki framfylgt ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. 13. gr., sbr. 5. mgr. sömu lagagreinar.

Með vísan til alls framangreinds er ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. 1. og 5. mgr. 13. gr. og d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. staðfest.

 

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanirA er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta