Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 537/2015

ÚRSKURÐUR ÚRSKURÐARNEFNDAR UM LEIÐRÉTTINGU VERÐTRYGGÐRA FASTEIGNAVEÐLÁNA

Nr. 357/2015


Ár 2015, fimmtudaginn 15. október, er tekið fyrir mál nr. 603/2015; kæra A og B, dags. 12. ágúst 2015. Í málinu úrskurða Eva Dís Pálmadóttir, Ingi Tryggvason og Kristján Jónasson. Upp er kveðinn svofelldur

 

ú r s k u r ð u r :

 

I.


Málavextir eru þeir að af hálfu kærenda var sótt um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána þann 21. maí 2014. Útreikningur ríkisskattstjóra á leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána kærenda var birtur þeim 11. nóvember 2014 og grundvallaðist hann á þeim verðtryggðu lánum sem tilgreind voru í lið 5.2 í skattframtölum þeirra árin 2009 og 2010, vegna tekjuáranna 2008 og 2009, nánar tiltekið lánum lánastofnunar X nr. 1 og 2 og láni lánastofnunar Y nr. 3 að 55% hluta. Kærendur gátu samþykkt leiðréttingarfjárhæð og ráðstöfun hennar frá og með 23. desember 2014.

Með erindi til ríkisskattstjóra, dags. 16. mars 2015, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, óskuðu kærendur eftir breytingum á skattframtölum þeirra vegna tekjuáranna 2008-2010. Í erindinu kom fram að beiðni þeirra hafi áður verið hafnað með úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 25. september 2014. Í úrskurðinum hafi verið vísað til þess að kærendur hafi keypt sumarhús og engin húsbyggingarskýrsla hafi legið fyrir vegna ársins 2008 og 2009. Kærendur tóku fram að kaup þeirra á sumarhúsinu hafi tengst öðrum viðskiptum. Kærendur buðust til að leggja fram reikninga sem sýndu fram á að breytta skuldastöðu þeirra mætti rekja til fasteignarbyggingar en ekki annars og því skyldi öll skuldin vera talin fram í lið 5.2 í skattframtölum kærenda. Með viðbótarrökstuðningi, dags. 20. mars 2015, sendu kærendur gögn vegna framkvæmda við fasteign F í M götu. Í erindinu kom fram að aðeins hluti reikninga hafi náðst saman og búið væri að farga mestu af þeim gögnum sem tengdust húsbyggingunni. Kærendur töldu að gögnin sýndu þó fram á að framkvæmdir hefðu verið í húsinu í M götu. Unnið hafi verið að vatnslögnum, raflögnum, uppsetningu ljósa, frágangi innréttinga, frágangi á klæðningu, smíði palla og frágangi á lóð, flísalögn, uppsetningu á stiga á milli hæða, ásamt ýmsu öðru. Heildarupphæð þessara reikninga hafi verið um 1.400.000 kr. Kærendur lögðu áherslu á að allri upphæðinni sem fengin hafi verið að láni hjá lánastofnun Y hafi verið varið í húsbygginguna í M götu. Mistök hafi verið gerð við framtalsgerð vegna áranna 2006 og 2007 þegar umrætt lán hafi verið sett að 50% hluta í reit 5.2. Með svari ríkisskattstjóra, dags. 6. ágúst 2015, var kröfu kærenda hafnað. Ríkisskattstjóri vitnaði til úrskurðar embættisins, dags. 25. september 2014, þar sem kröfu kærenda um að 100% láns nr. 3 hjá lánastofnun Y yrði viðurkennt sem grundvöllur vaxtabóta var hafnað. Ríkisskattstjóri vitnaði til þess að í þeim úrskurði hefði komið fram að engin húsbyggingarskýrsla hefði fylgt skattframtali kærenda árið 2007 er sýndi aukinn kostnað vegna fasteignarinnar F í M götu þannig að skýra mætti ráðstöfun lánsins frá lánastofnun Y vegna þess. Þar hefði jafnframt komið fram að eina fjárfestingin sem sjá mætti á skattframtali 2007 hafi verið kaup á sumarbústað fyrir 12.000.000 kr. hinn 23. mars 2006, en framangreint lán hjá lánastofnun Y hafi verið tekið þann 14. mars 2006. Aðeins 55% hluti lánsins hafi verið viðurkenndur og sá hluti yrði leiðréttur. Þá hafi kærendur ekki heldur sýnt fram á að endurbætur á fasteign F í M götu hafi verið framkvæmdar og því væri ekki unnt að reikna leiðréttingu lánsins á grundvelli 2. mgr. 19. gr. laga nr. 35/2014.

Með kæru, dags. 12. ágúst 2015, er kærð fjárhæð leiðréttingar, sbr. 9. gr. laga nr. 35/2014. Kærendur krefjast þess að hlutfallstala láns nr. 3 verði breytt úr 55% í 100% í lið 5.2 í skattframtölum þeirra árin 2007 til 2010. Í kæru kemur fram að kærendur viti ekki hvers vegna þessi misfærsla hafi verið gerð. Skattframtal árið 2011 hafi þó verið rétt að mati kærenda. Kærendur leggja áherslu á að sumarbústaður hafi verið hluti af greiðslu vegna viðskipta við félagið H ehf. og vísa kærendur til skattframtals árið 2007. Ekki krónu af umræddu fasteignaveðláni hafi verið varið til kaupa á sumarbústað. Gögn sem kærendur hafi sent sýni fram á kostnað við framkvæmdir við fasteign F í M götu.

 

II.

 

Í lokamálslið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2014, kemur fram það skilyrði fyrir því að lán sé leiðrétt samkvæmt ákvæðum þeirra laga að vaxtagjöld af því láni hafi verið viðurkennd sem grundvöllur útreiknings vaxtabóta, í heild eða hluta, á tímabilinu frá 1. janúar 2008 til 31. desember 2009. Krafa kærenda felur því í raun í sér kröfu um að tiltekið lán þeirra nr. 3 hjá lánastofnun Y verði talið hafa uppfyllt skilyrði um ákvörðun vaxtabóta, sbr. B-lið 68. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Að því er snertir skilyrði, í lokamálslið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2014, um að lán hafi verið viðurkennt sem grundvöllur útreiknings vaxtabóta, skal tekið fram að ríkisskattstjóri ákveður vaxtabætur við álagningu opinberra gjalda ár hvert. Ákvæðið verður ekki túlkað með þeim hætti að í því felist heimild til að taka tillit til lána sem kunna að uppfylla skilyrði B-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003 án þess að skattframtölum áranna 2009 og 2010 hafi verið sérstaklega breytt til samræmis.

Af framangreindu leiðir að krafa kærenda, eins og hún er orðuð, fellur ekki undir kærumeðferð þá sem kveðið er á um í 14. gr. laga nr. 35/2014 og úrskurðarnefndin starfar samkvæmt. Af kæru er jafnframt ljóst að krafa um að lán verði viðurkennt sem grundvöllur vaxtabóta hefur fengið úrlausn og verið hafnað að hluta hjá ríkisskattstjóra, sbr. lög nr. 90/2003, um tekjuskatt. Samkvæmt framansögðu er ekki á valdsviði úrskurðarnefndarinnar að taka til efnislegrar úrlausnar kröfu kærenda varðandi breytingu lána í lið 5.2 í skattframtölum þeirra. Þrátt fyrir kröfugerð kærenda í máli þessu má þó ráða af kæru að kærendur krefjist þess að allt lánið verði lagt til grundvallar leiðréttingu.

Í 2. mgr. 19. gr. laga nr. 35/2014 kemur fram að þrátt fyrir að einstaklingur hafi fært verðtryggt fasteignaveðlán með þeim lánum á skattframtölum 2009 og 2010 sem ekki veittu rétt til vaxtabóta af vaxtagjöldum sé engu síður heimilt að óska eftir því að slík lán verði lögð til grundvallar útreikningi leiðréttingar, enda hafi lán þessi sannanlega verið nýtt til endurbóta á íbúðarhúsnæði á því tímabili sem leiðrétting samkvæmt lögum þessum tekur til.

Kærendur hafa byggt á því að lán nr. 3 hjá lánastofnun Y hafi alfarið verið nýtt vegna framkvæmda við íbúðarhúsnæði þeirra. Samkvæmt skattframtali kærenda árið 2007 var staða umrædds láns 19.114.934 kr. í árslok 2006. Viðurkennt er í málinu að 55% af því láni hafi verið vegna framkvæmda á fasteign kærenda F í M götu árið 2006. Kærendur hafa byggt á því að 45% af því láni hafi einnig verið nýtt vegna endurbóta á fasteign F í M götu. Samkvæmt þeirri staðhæfingu kærenda hefði fjárhæð láns hjá lánastofnun Y vegna framkvæmda á árinu 2006 verið 8.601.720 kr. í árslok 2006. Í málinu liggja fyrir tveir reikningar og kvittun fyrir millifærslu á blikksmiðju vegna framkvæmda á árinu 2006 og er samanlögð fjárhæð þeirra 857.739 kr. og sú fjárhæð er því ekki nálægt þeirri fjárhæð sem  samsvarar 45% af láni nr. 3 hjá lánastofnun Y. Engin gögn hafa verið lögð fram um tildrög lántökunnar eða önnur þau gögn sem sýna fram á að 45% láns nr. 3 hjá lánastofnun Y hafi sannanlega verið nýtt til endurbóta á íbúðarhúsnæði, sbr. 2. mgr. 19. gr. laga nr. 35/2014. Ákvörðun ríkisskattstjóra verður því ekki hnekkt. Kröfu kærenda er hafnað.

 

 Ú r s k u r ð a r o r ð :

 Kröfu kærenda er hafnað.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta