Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 541/2015

ÚRSKURÐUR ÚRSKURÐARNEFNDAR UM LEIÐRÉTTINGU VERÐTRYGGÐRA FASTEIGNAVEÐLÁNA

NR. 541/2015

Ár 2015, fimmtudaginn 15. október, er tekið fyrir mál nr. 578/2015; krafa A, dags. 30. júlí 2015, um endurupptöku úrskurðar nr. 183/2015. Í málinu úrskurða Eva Dís Pálmadóttir, Ingi Tryggvason og Kristján Jónasson. Upp er kveðinn svofelldur

 

ú r s k u r ð u r :


 I.


Með bréfi, dags. 16. september 2015, hefur kærandi farið fram á það að úrskurðarnefndin endurupptaki úrskurð sinn nr. 183/2015, sem kveðinn var upp 7. maí 2015, í máli kæranda. Með úrskurðinum var kröfu kæranda um breytta ráðstöfun leiðréttingarfjárhæðar hafnað, sbr. 11. gr. laga nr. 35/2014 um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, hafnað.

Í beiðni umboðsmanns kæranda um endurupptöku málsins kemur fram að í upphaflegum úrskurði sé skautað framhjá meginefni í kæru. Auk þess kemur fram þar að ætla megi að svör banka X séu ekki með öllu rétt og stangist gögn bankans m.a. á við umsögn hans. Þannig beri kröfulýsing í söluandvirði fasteignarinnar F, dags. 6. september 2010, með sér að gerðarþoli við nauðungarsöluna sé fyrrverandi eiginmaður kæranda, B, en ekki kærandi. Hann sé þar einn skráður útgefandi og einnig veðsali. Kærandi sé þar skráð meðskuldari.

Umboðsmaður kæranda tekur einnig fram að við útreikning á leiðréttingarfjárhæð kæranda sé einungis reiknað vegna ársins 2008, sem sé í fullu samræmi við skattframtöl hennar og fyrrverandi eiginmanns hennar. Enda hafi það verið svo að hjónaskilnaður þeirra hafi gengið í gegn á árinu 2009 og við þann skilnað hafi fyrrverandi eiginmaður kæranda orðið 100% eigandi fasteignar og tekið yfir allar áhvílandi skuldir, þ.m.t. lán það sem um sé deilt. Kærandi hafi jafnframt afsalað sér hlut í fyrirtæki og fyrrverandi eiginmaður hennar yfirtekið hann. Það hljóti því að teljast mjög óeðlilegt að kæranda sé ætlað að vera skuldari á láni sem samkvæmt þinglýstum skjölum sé ekki hennar skuld lengur. Það sé afar einkennilegt af hálfu banka X að telja skuldina tengjast kæranda á nokkurn hátt þó svo að óumdeilt sé að hún hafi verið í hjónabandi þegar lánið hafi verið tekið upphaflega. Af hálfu kæranda er tekið fram að hún hafi ekki verið lengur í hjónabandi með fyrrverandi eiginmanni sínum þegar krafist hafi verið uppboðs á fasteign sem þau hafi átt sameiginlega fyrir hjónaskilnað. Það hljóti að eiga að vera hægt að treysta þinglýstum skjölum í tengslum við skilnað.

Í erindi umboðsmanns kæranda er einnig tekið fram að samkvæmt útreikningum ríkisskattstjóra sé ekki reiknað með leiðréttingum á lánum á fasteigninni F, sem skráð hafi verið í reit 5.2 í skattframtölum, nema vegna ársins 2008. Engin leiðrétting sé á nafni kæranda vegna ársins 2009, enda telji bankinn að á árinu 2009 tilheyri skuldirnar fyrrverandi eiginmanni kæranda. Það sé því mikið ósamræmi í því að þegar kemur að ráðstöfun leiðréttingar skuli eitt af lánunum sem einungis hafi verið reiknuð út leiðrétting vegna ársins 2008 birtast sem glötuð veðkrafa hjá kæranda. Lánið hafi verið skráð þannig við útreikning leiðréttingar að árið 2008 hafi hlutur hvors skuldara verið 50% og síðan hafi 25% af útreiknaðri fjárhæð komið til leiðréttingar, í samræmi við það hlutfall lánsins sem nýtt hafi verið til íbúðarkaupa. Á árinu 2009 sé leiðrétting reiknuð 100% hjá fyrrverandi eiginmanni kæranda en ekki hjá kæranda, og síðan komi 25% af útreiknaðri fjárhæð inn í leiðréttingu hjá honum. Það stangist því margt á í þessu. Kærandi krefst þess að leiðréttingin vegna skulda kæranda á árinu 2008 gangi ekki inn á hið glataða veð samkvæmt láni banka X nr. 1, heldur fari inn á núverandi íbúðalán hennar hjá sjóði Y.

Við meðferð upphaflegrar kæru kæranda þann 13. apríl 2015 óskaði úrskurðarnefndin eftir umsögn banka X, sbr. 5. mgr. 14. gr. laga nr. 35/2014, um það hvort kærandi hafi fengið niðurfellingu vegna glataðs veðs láns nr. 1, hvort kærandi hafi verið skuldari lánsins og hvort krafa banka X hafi verið endanlega felld niður. Var óskað gagna sem vörpuðu ljósi á umrædd atriði. Svar barst frá bankanum í kjölfarið. Í svari bankans var tekið fram að fasteignin F, hafi verið seld nauðungarsölu þann 8. september 2010. Áhvílandi á 2. veðrétti eignarinnar hafi verið veðskuldabréf 1 og hafi kærandi verið útgefandi bréfsins ásamt fyrrverandi maka hennar. Við uppgjör nauðungarsölunnar hafi orðið ljóst að söluandvirði fasteignarinnar myndi aðeins greiða upp ógreiddar lögveðskröfur og hluta af láni á 1. veðrétti. Ekkert hafi því komið upp í greiðslu á láni nr. 1 og í kjölfar árangurslausrar innheimtu hafi krafa bankans vegna lánsins verið flutt í kröfuvakt hjá innheimtufyrirtæki Z og hafi hún því ekki verið endanlega felld niður. Var úrskurðarnefndinni send kröfulýsing bankans í söluandvirði fasteignarinnar.  Kæranda var þann 22. apríl 2015 send umsögn banka X og gögn frá bankanum til yfirferðar. Var kæranda gefin kostur á að leggja fram gögn og skýringar og tjá sig um þau atriði í gögnum banka X sem hún teldi ástæðu til innan 7 daga frá dagsetningu erindisins. Kærandi var upplýst um að ella yrði málið tekið til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni eins og það lægi fyrir. Ekkert svar barst frá kæranda innan tiltekins frests. 

Úrskurðarnefndin sendi nýja beiðni um umsögn til banka X, sbr. 5. mgr. 14. gr. laga nr. 35/2014, þann 29. september 2015, í kjölfar endurupptökubeiðni kæranda. Í umsögn bankans, dags. 30. sama mánaðar, kemur fram að meðfylgjandi umsögn sé afrit af veðskuldabréfi nr. 1, sem útgefið hafi verið 27. júní 2005. Þar sjáist að kærandi og fyrrverandi eiginmaður hennar hafi verið útgefendur að skuldabréfinu og greiðendur af láninu til afskriftardags, þann 29. mars 2012. Þegar tveir lántakar séu að láni sé við greiðslumat við lánveitingu byggt á upplýsingum um tekjur beggja. Ef annar lántakinn vilji síðar losna undan skyldu sinni sem greiðandi gerist það ekki af sjálfu sér, þrátt fyrir hjónaskilnað. Óska þurfi eftir því við bankann að hann leysi viðkomandi undan skyldu sinni sem greiðanda og sá sem eftir sitji þurfi að fara í greiðslumat svo unnt sé að meta hvort tekjur hans dugi til að greiða einn af láninu. Ekki verði séð að kærandi hafi óskað eftir því við bankann að verða leyst undan skyldu sinni sem greiðandi. Breytingar á eignarhaldi fasteignar með þinglýsingu losi greiðanda heldur ekki sjálfkrafa undan skuld hans, sem hvíli á viðkomandi eign, heldur breytist hún þá í lánsveð. Banki X tekur fram að hann geti ekki svarað fyrir uppgjör kæranda við fyrrum eiginmann sinn við skilnað þeirra, enda sé bankinn ekki aðili að því samkomulagi.

Í umsögn banka X var tekið fram, varðandi þann hluta athugasemdar sem sneri að því að kærandi njóti aðeins leiðréttingar vegna umrædds láns fyrir árið 2008, að fyrrverandi eiginmaður kæranda hafi ranglega einn verið skráður fyrir láninu í umsjónarkerfi ríkisskattstjóra. Það hafi verið leiðrétt.

Umsögn banka X var send kæranda til athugasemda og andmæla þann 30. september 2015. Svar barst frá umboðsmanni kæranda þann 13. október 2015. Þar kom fram að í umsögn banka X kæmi fram að skuldabréf nr. 1 hafi verið afskrifað af hálfu bankans 29. mars 2012, að bréfið hafi ranglega verið skráð í umsónarkerfi ríkisskattstjóra og banki X hafi nú leiðrétt það. Jafnframt sé þar gagnrýnt að kærandi hafi ekki sótt um leiðréttingu á viðkomandi láni árið 2009.  Tekið er fram í svarinu að það sé ekkert óeðlilegt við lántöku hjóna, sem eigi fasteign saman, að bæði séu skráð skuldarar veðlána. Það sé hins vegar óeðlilegt að lánastofnun telji sig geta litið framhjá þinglýstum skjölum, bæði hvað varðar þinglýsta skiptayfirlýsingu sem C hrl., hjá lögmannsstofunni Þ samdi og dagsett sé 25. nóvember 2009, sem og þinglýstu afsali dagsettu 8. október 2010, þar sem banki X sé lýstur réttur eigandi fasteignar F að lokinni nauðungarsölu eignarinnar. Í afsali komi fram að fyrrverandi eiginmaður kæranda hafi einn verið þinglýstur eigandi. Í skiptayfirlýsingunni komi skýrt og greinilega fram að bæði fasteignin sem og skuldir vegna hennar séu kæranda óviðkomandi og að eignarhluta hennar verið þinglýst á nafn fyrrverandi eiginmanns hennar. Við kröfulýsingu í söluandvirði fasteignar F hafi banki X ekki gert neina kröfu á hendur kæranda, né heldur eftir að nauðungarsölu lauk.

Síðan er farið yfir mismun á útreikningi leiðréttingar vegna áranna 2008 og 2009 sem þarflaust er að rekja nánar. Vísað er til þess að kærandi hefði aldrei átt rétt á vaxtabótum vegna ársins 2009, enda gekk skilnaður í gegn það ár. Ítrekað er í kæru að hin glataða veðtrygging eigi eingöngu við gagnvart fyrrverandi eiginmanni kæranda.

Af hálfu kæranda voru lögð fram ný gögn. Nánar tiltekið var um að ræða nauðungarsöluafsal, dags. 8. október 2010, vegna fasteignarinnar F. Rétt er að fyrrverandi eiginmaður kæranda var samkvæmt afsalinu einn þinglýstur eigandi fasteignarinnar áður en henni var afsalað til banka X. Einnig var lögð fram skiptayfirlýsing, dags. 25. nóvember 2015, þar sem m.a. kemur fram að kærandi muni afsala fasteigninni F til fyrrverandi eiginmanns síns, sem muni taka að sér greiðslu áhvílandi veðlána. Af efni skiptayfirlýsingarinnar má ráða að áhvílandi veðskuldir hafi verið á nafni fyrrverandi eiginmanns kæranda, fyrir utan þá veðkröfu sem deilt er um í þessu máli. Er sérstaklega tekið fram í skiptayfirlýsingunni að svo sé ekki. Engin gögn voru lögð fram af hálfu kæranda um að óskað hafi verið eftir eða samþykkt hafi verið af hálfu banka X nafnabreyting á því láni og þar með losa kæranda undan því.

                       

II.

 

Um endurupptöku fyrri úrskurða úrskurðarnefndarinnar fer samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar kemur fram í 1. mgr. að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt eigi aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða  ef íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Í 2. mgr. sömu lagagreinar kemur fram að eftir að þrír mánuður séu liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tölul. 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun skv. 2. tölul. 1. mgr. var byggð á, verði beiðni um endurupptöku máls þó ekki tekin til greina, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verður ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.

Mál þetta varðar beiðni kæranda um endurupptöku á úrskurði nr. 183/2015. Kæruefnið var sú ákvörðun ríkisskattstjóra að leiðréttingarfjárhæð kæranda væri ráðstafað inn á kröfu banka X nr. 1, er glatað hefði veðtryggingu sinni. Með greindum úrskurði var kröfu kæranda hafnað.

Af hálfu kæranda hafa ekki verið lagðar fram nýjar upplýsingar um málsatvik, heldur eingöngu nýr rökstuðningur og ítarlegri kröfugerð. Við uppkvaðningu upphaflegs úrskurðar var gengið út frá þeirri forsendu að kærandi hefði verið skuldari láns nr. 1 þegar það glataði veðtryggingu sinni árið 2010 og að lánið hefði ekki verið endanlega niðurfellt. Skiptayfirlýsing milli kæranda og fyrrverandi eiginmanns hennar um að sá síðarnefndi skyldi taka að sér greiðslu lánsins gat aldrei verið skuldbindandi gagnvart banka X sem átti kröfu á hendur báðum aðilum. Hefðu kærandi og fyrrverandi eiginmaður hennar þurft að sækja um og fá samþykkt skuldaraskipti hjá bankanum, sbr. 13. gr. veðskuldabréfs nr. 1, en ekki er að sjá að það hafi þau gert. Þvert á móti virðist kærandi byggja málatilbúnað sinn á því að það skyldi gerast sjálfkrafa. Það að banki X hafi tilgreint fyrrverandi eiginmann kæranda sem gerðarþola í kröfulýsingu við nauðungarsölu fasteignar hefur heldur ekki þýðingu, enda ljóst að kærandi var þá ekki lengur eigandi umræddrar fasteignar þótt hún hafi ekki verið leyst undan skuldbindingum sínum sem greiðandi eins áhvílandi láns.

Málatilbúnaður kæranda varðandi það að hún hafi ekki fengið útreiknaða leiðréttingu lána vegna ársins 2009 skiptir ekki máli í þeim efnum, enda óumdeilt að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 1. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2014 til að fá útreiknaða leiðréttingu á lánum, áhvílandi á fasteign fyrrverandi eiginmanns hennar, eftir skilnað aðila.

 Í ljósi framangreinds er ekki að sjá annað en að upphaflegur úrskurður hafi verið byggður á réttum og fullnægjandi upplýsingum um málsatvik. Ekki er tilefni til endurupptöku á þeim grundvelli sem fram kemur í beiðni.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð :

 

Endurupptökubeiðni kæranda er hafnað.



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta