Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 18/2015

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 22. september 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 18/2015.

1. Málsatvik og kæruefni

 Málsatvik eru þau að umsókn kæranda, A, um greiðslu atvinnuleysisbóta var samþykkt á fundi Vinnumálastofnunar þann 12. janúar 2015 en hann var ekki talinn eiga rétt á tekjutengdum greiðslum, sbr. 2. mgr. og 7. mgr. 32. gr. laga laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una ákvörðun stofnunarinnar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 18. febrúar 2015. Hann krefst þess að fá greiddar tekjutengdar atvinnuleysisbætur. Vinnumálastofnun telur að kærandi eigi ekki rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum.

 Kærandi sótti um greiðslu atvinnuleysisbóta þann 4. desember 2014. Umsókn hans var samþykkt á fundi Vinnumálastofnunar þann 12. janúar 2015 og hann fékk ákvarðað nýtt bótatímabil samkvæmt 31. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Hins vegar var hann ekki talinn eiga rétt tekjutengdum bótum á þeim grundvelli að hann hefði ekki starfað á innlendum vinnumarkaði á viðmiðunartímabilinu fyrir tekjutengdar atvinnuleysisbætur. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun Vinnumálastofnunar þann 24. febrúar 2015. Rökstuðningur var veittur með bréfi, dags. 3. mars 2015.

 Í kæru kæranda kemur fram að hann hafi unnið í B árið 2014 hjá C sem sé íslenskt fyrirtæki en einnig með starfsemi í B. Starfsmenn C séu með A1 vottorð sem þýði að þeir séu í íslenska tryggingakerfinu. Fyrirtækið skili tryggingagjaldi á Íslandi en skv. skattalögum séu skattar greiddir í B. Eins séu upplýsingar um greiðslu skatta í B aðgengilegir Vinnumálastofnun hjá Ríkisskattstjóra. Öll gögn séu til um hans tekjur og hann hafi ásamt fyrirtækinu litið svo á að þeir væru betur tryggðir í íslenska tryggingakerfinu en engin leið sé að sjá fyrir að það eigi ekki við um tekjutengingu atvinnuleysisbóta.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 20. mars 2015, kemur fram að skv. 1. mgr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skuli sá sem teljist tryggður skv. III. eða IV. kafla laganna öðlast rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í allt að þrjá mánuði frá þeim tíma er grunnatvinnuleysisbætur skv. 33. gr. laganna hafi verið greiddar í samtals hálfan mánuð nema annað leiði af lögunum. Þá er vísað í 2. mgr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem fram kemur m.a. að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem umsækjandi hafi starfað á innlendum vinnumarkaði. Einnig er vísað í 7. mgr. 32. gr. laganna.

Þá segir að í athugasemdum við greinargerð með frumvarpi því er hafi orðið að 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé tekið fram að hafi umsækjandi ekki starfað á innlendum vinnumarkaði á öllu viðmiðunartímabilinu þá sé gert ráð fyrir að miðað sé við meðaltal heildarlauna hans yfir það tímabil sem hann hafi unnið á íslenskum vinnumarkaði. Þá sé sérstaklega tekið fram að ekki skuli tekið mið af tekjum umsækjanda sem hann hafi unnið til utan innlends vinnumarkaðar.

Kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur þann 4. desember 2014 og umsókn hans hafi verið samþykkt þann 12. janúar 2015. Viðmiðunartímabil hans til útreiknings á tekjutengdum atvinnuleysisbótum skv. 2. mgr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé 4. maí 2014 til 4. október 2014. Það liggi fyrir að á viðmiðunartímabilinu hafi kærandi verið við störf í B, en samkvæmt 2. mgr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé einungis tekið tillit til starfa umsækjanda á innlendum vinnumarkaði.

Kærandi rökstyðji rétt sinn til tekjutengdra atvinnuleysisbóta á þann veg að greitt hafi verið fyrir íslenskt tryggingagjald af störfum hans í B. Að mati Vinnumálastofnunar leiði það ekki til þess að kærandi geti átt rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum skv. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ljóst sé af orðalagi ákvæðisins, sem og af athugasemdum í greinargerð með frumvarpi því sem hafi orðið að 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, að ætlunin með tekjutengdum atvinnuleysisbótum sé að koma til móts við tekjutap þeirra umsækjenda sem starfað hafi á innlendum vinnumarkaði og aflað sér tekna þar.

Þá vilji Vinnumálastofnun jafnframt vekja athygli á að í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi því er hafi orðið að 47. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sem kveði á um ávinnslutímabil í öðru aðildarríki segi að jafnframt þyki rétt að taka fram að þrátt fyrir að starfstímabilin í öðrum aðildarríkjum eða Færeyjum hafi sem slík áhrif á tryggingarhlutfall umsækjanda samkvæmt frumvarpinu sé ekki heimilt að taka tillit til þeirra launa sem umsækjandi hafi unnið sér inn þar í landi við útreikning á tekjutengdum atvinnuleysisbótum skv. 32. gr. frumvarpsins. Þá segi að þar sé sérstaklega tekið fram að eingöngu sé heimilt að taka tillit til þeirra tekna sem aflað sé hér á landi enda erfiðleikum bundið að færa sönnur á tekjur sem greiddar séu í öðrum ríkjum.

Í athugasemdunum sé því enn fremur hnykkt á því að við útreikning á tekjutengdum atvinnuleysisbótum skv. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé stofnuninni ekki heimilt að taka tillit til þeirra launa sem umsækjandi hafi unnið sér inn utan innlends vinnumarkaðar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 25. mars 2015, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 13. apríl 2015. Kærandi hefur ekki nýtt sér það.

2. Niðurstaða

 Umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur var samþykkt á fundi Vinnumálastofnunar þann 12. janúar 2015. Kærandi var hins vegar ekki talinn eiga rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum.  Ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi eigi rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum.

Um tekjutengdar atvinnuleysisbætur er fjallað í 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ákvæði 2. mgr. 32. gr. laganna hljóðar svo:

„Tekjutengdar atvinnuleysisbætur launamanna skv. 1. mgr. skulu nema 70% af meðaltali heildarlauna og skal miða við sex mánaða tímabil sem hefst tveimur mánuðum áður en umsækjandi varð atvinnulaus. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald en ekki skal miða við tekjur af störfum er umsækjandi gegnir áfram, sbr. 17. og 22. gr. Einungis skal miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem umsækjandi hefur starfað á innlendum vinnumarkaði. Aldrei skal þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna.“

 Þá segir svo í 7. mgr. 32. gr. laganna:

„Sá sem uppfyllir skilyrði III. eða IV. kafla en hefur ekki starfað á innlendum vinnumarkaði á viðmiðunartímabili skv. 2. eða 3. mgr. öðlast rétt til grunnatvinnuleysisbóta skv. 33. gr. í samræmi við tryggingarhlutfall hans skv. 15. eða 19. gr. Hið sama á við þegar tekjutengdar atvinnuleysisbætur skv. 1. mgr. reynast lægri en grunnatvinnuleysisbætur sem hinn tryggði á rétt á skv. 33. gr.“

 Af framangreindu má ráða að ekki er heimilt að greiða umsækjanda tekjutengdar atvinnuleysisbætur hafi hann ekki starfað á innlendum vinnumarkaði á því sex mánaða viðmiðunartímabili sem hefst tveimur mánuðum áður en umsækjandi varð atvinnulaus. Ágreiningslaust er að kærandi vann í B og greiddi skatta þar á framangreindu viðmiðunartímabili. Kærandi telur hins vegar að hann eigi rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum í ljósi þess að hann greiddi tryggingagjald á Íslandi. Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða telur að skýra beri hugtakið „innlendur vinnumarkaður“ eftir orðanna hljóðan. Að mati nefndarinnar nær hugtakið því ekki yfir þau störf sem unnin eru og greiddir eru skattar af erlendis. Greiðsla tryggingagjalds á Íslandi breyti ekki þeirri niðurstöðu.   

Að framangreindu virtu er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja kæranda um greiðslu tekjutengdra atvinnuleysisbóta staðfest.

Úrskurðarorð

 Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli A um synjun á greiðslu tekjutengdra atvinnuleysisbóta, er staðfest.

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta