Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 548/2015

ÚRSKURÐUR ÚRSKURÐARNEFNDAR UM LEIÐRÉTTINGU VERÐTRYGGÐRA FASTEIGNAVEÐLÁNA


NR. 548/2015


Ár 2015, fimmtudaginn 15. október 2015, er tekið fyrir mál nr. 622/2015; kæra A, dags. 16. september 2015. Í málinu úrskurða Eva Dís Pálmadóttir, Ingi Tryggvason og Kristján Jónasson. Upp er kveðinn svofelldur

 

ú r s k u r ð u r :


 I.


Málavextir eru þeir að kærandi sótti um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána þann 26. ágúst 2014. Útreiknuð leiðrétting lána kæranda var 2.592.110 kr. Frádráttur vegna niðurfærslna var 10.059.131 kr. Leiðréttingarfjárhæð kæranda var því 0 kr. og var sú fjárhæð birt honum 11. nóvember 2014. Kærandi gerði samtals fimm athugasemdir til ríkisskattstjóra, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 35/2014 um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, þann 11. mars 2015. Var þeim svarað á tímabilinu 16. mars til 13. júlí 2015. Kæranda var tilkynnt þann 10. september 2015 að frestur hans til að samþykkja leiðréttingarfjárhæð og ráðstöfun hennar rynni út 16. sama mánaðar, sem og frestur til að kæra til úrskurðarnefndarinnar eða gera athugasemd til ríkisskattstjóra.

Með kæru, dags. 16. september 2015, hefur kærandi kært framkvæmd leiðréttingar, sbr. 11. gr. laga nr. 35/2014. Í raun snýr kæran að fjárhæð leiðréttingar, sbr. 9. gr. sömu laga. Í kæru kemur fram að kærandi hafi sótt um leiðréttingu vegna láns nr. 1, sem kærandi hafi tekið hjá lánastofnun X til kaupa á fasteigninni F1. Kaupverð fasteignarinnar hafi verið 22.500.000 kr. og lánið 16.300.000 kr., verðtryggt og með 4,85% vöxtum. Kærandi kveðst hafa glatað öllu eigin fé og fer í kæru yfir stöðu sína, atvinnumissi og það að hann hafi misst umrædda fasteign á nauðungarsölu í september 2010. Jafnframt upplýsir kærandi um að lánastofnun X hafi krafið hann um greiðslu glataðrar veðkröfu í kjölfar nauðungarsölunnar.

Kærandi segir að ríkisskattstjóri hafni útgreiðslu leiðréttingar lána hans á þeim forsendum að hann hafi í ýmsum sértækum aðgerðum verið búinn að fá alls um 10,2 milljónir í leiðréttingu. Þessi túlkun og meginforsenda sé röng. Fé það sem þarna sé vísað til hafi farið óskipt til leiðréttingar á lánum sem hvíla á íbúð við M götu. Íbúðin sé þinglýst eign kæranda en með réttu í eigu fyrrum eiginkonu hans, B, en hún hafi búið í íbúðinni ásamt tveimur dætrum aðila frá því þau hafi fest kaup á henni í mars 2005. Fjárhagsstaða fyrrverandi eiginkonu kæranda hafi orðið til þess að eignin gat ekki verið skráð á hana. Hún hafi þó greitt af áhvílandi lánum með ýmsum hætti.

Kærandi upplýsir jafnframt að í nóvember 2012 hafi hann hafið framkvæmd greiðsluaðlögunarsamnings fyrir atbeina embættis umboðsmanns skuldara og lokið þeim samningi með skilum í nóvember 2013. Krafan sem lánastofnun X hafi gert á hendur kæranda vegna láns er glataði veðtryggingu hafi verið hluti af þeim samningi og hafi kærandi með efndum hans gert full skil á láni sínu nr. 1. Skorar kærandi á úrskurðarnefndina að kynna sér öll gögn þar að lútandi.

Kærandi upplýsir jafnframt um það að við lok greiðsluaðlögunarinnar hafi hann sótt um afmáningu skulda, áhvílandi á íbúð í M götu, fyrir hönd fyrrverandi eiginkonu sinnar. Sýslumaður hafi hafnað erindi hans þar sem kærandi hafi ekki haft heimilisfesti eða lögheimili í eigninni.

Kærandi kveðst krefjast leiðréttingar og þess að geta nýtt hana vegna íbúðarhúss síns, er hann hafi keypt 26. maí sl. Fasteignin F3 sé við N götu.

 

II.

           

Ágreiningsefni máls þessa snýr í raun að fjárhæð leiðréttingar, sbr. 9. gr. laga nr. 35/2014. Leiðrétting lána kæranda samkvæmt 7. gr. laga nr. 35/2014 er 2.592.110 kr.  Kærandi hefur ekki mótmælt fjárhæð hennar. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem ákvörðun ríkisskattstjóra um leiðréttingarfjárhæð byggist á, eru samkvæmt 8. gr. laga nr. 35/2014 dregnar samtals 10.059.131 kr. frá útreiknaðri leiðréttingarfjárhæð lána samkvæmt 7. gr. laga nr. 35/2014, sbr. 9. gr. sömu laga. Þar af eru 3.640.239 kr. vegna lækkunar láns frá lánastofnun X, samkvæmt samkomulagi lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila, dags. 15. janúar 2011 (110% leið) og 6.262.468 kr. vegna niðurfellingar fasteignaveðkrafna lánastofnunar Y vegna greiðsluaðlögunar. Að lokumst dragast frá leiðréttingu lána 121.398 kr. vegna sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu.

Um frádráttarliði einstaklinga er fjallað í 8. gr. laga nr. 35/2014. Þar kemur fram í c-lið 1. mgr. að frá þeirri fjárhæð leiðréttingar sem ákvarðast samkvæmt 7. gr. laganna skuli draga m.a. lækkun skulda samkvæmt eða í tilefni af samkomulagi lánveitanda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila (110% leiðinni), dags. 15. janúar 2011, óháð því hvort sótt hafi verið sérstaklega um slíka lækkun eða hún framkvæmd að frumkvæði lánveitanda. Í d-lið sömu lagagreinar kemur fram að hið sama eigi við um niðurfelling fasteignaveðkrafna í kjölfar greiðsluaðlögunar samkvæmt lögum nr. 101/2010, um greiðsluaðlögun einstaklinga. Gildir þetta þrátt fyrir ákvæði 33. gr. laga nr. 101/2010.

Nánar er fjallað um frádráttarliði í 3. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 698/2014, um samræmt verklag og viðmið við leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Þar segir að þeir frádráttarliðir einstaklings skv. 8. gr. laga nr. 35/2014 sem komið hafa til framkvæmda eða samkomulag verið gert um, á tímabilinu 1. janúar 2008 til samþykktardags ákvörðunar um útreikning leiðréttingar skv. 3. mgr. 10. gr. laganna dragist frá leiðréttingarfjárhæð skv. 7. gr. laga nr. 35/2014.

Upplýsingar liggja fyrir um að kærandi hafi fengið niðurfærslu samkvæmt 110% leiðinni hjá lánastofnun X, hvoru tveggja frá kæranda og sjóðnum. Rétt er hjá kæranda að sú niðurfelling er vegna láns hans nr. 2, áhvílandi á þinglýstri fasteign hans að M götu. Fjárhæð niðurfellingar, 3.640.239 kr., liggur fyrir í þeim gögnum og hefur ekki verið mótmælt. Því hefur heldur ekki verið mótmælt að hún hafi fengist eftir 1. janúar 2008. Vegna sjónarmiða kæranda, um að niðurfelldar skuldir hvíli ekki á heimili hans, skal kæranda bent á að í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar var lögð fram breytingartillaga á 8. gr. frumvarps sem varð að lögum nr. 35/2014. Meiri hlutinn lagði til að greininni yrði breytt þannig að skilyrði um að frádráttur væri miðaður við fasteignaveðlán vegna öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota í 1. málsl. 1. mgr. 8. gr. frumvarpsins yrði samræmt við 1. málsl. 1. mgr. 11. gr., en undir þá grein féllu fasteignaveðkröfur í víðara samhengi. Frumvarpinu var breytt til samræmis og skilyrði um að fasteignaveðlán hafi verið vegna öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota var fellt út og lögin samþykkt með þeirri breytingu. Af fyrrnefndri breytingatillögu meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar, um að fella brott skilyrði um að frádráttur hafi tengst íbúðarhúsnæði til eigin nota, er ljóst að 8. gr. laga nr. 35/2014 verður ekki túlkuð með þeim hætti sem kærandi heldur fram heldur.  Lán kæranda var lækkað samkvæmt samkomulagi lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila (110% leiðinni). Sú lækkun kemur til frádráttar útreiknaðri leiðréttingu lána kæranda, sbr. c-lið 8. gr. laga nr. 35/2014, hvort sem hún var að frumvæði kæranda eða ekki. Hið sama á við um lækkun vegna sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu, sbr. f-lið sömu lagagreinar.

Samkvæmt forsendum ríkisskattstjóra undirritaði kærandi þann 9. desember 2012 frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun. Lengd greiðsluaðlögunartímabils skyldi vera 12 mánuðir og fól frumvarpið í sér eftirgjöf krafna. Á grundvelli samningsins afskrifaði lánastofnun Y lán nr. 3, auk annarra skuldbindinga.  Lán nr. 3 mun hafa verið veðskuldabréf sem áður hafi verið með veði í fasteign kæranda F1, sem seld var nauðungarsölu. Því er rangt hjá kæranda að allan frádrátt frá útreiknaðri leiðréttingu lána hans sé að rekja til lána er hvíldu á fasteigninni F2. Afskrift lánastofnunar Y vegna þessa láns nam 6.262.468 kr. Kærandi hefur hvorki mótmælt fjárhæð niðurfærslunnar, að hún hafi fengist í gegnum greiðsluaðlögunarferlið eða að það hafi verið eftir 1. janúar 2008.

Með vísan til framangreinds er ljóst að frádráttur frá útreiknaðri leiðréttingu vegna lækkunar lána kæranda, samkvæmt samkomulagi lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila, vegna niðurfellinga fasteignaveðkrafna á grundvelli samnings um greiðsluaðlögun einstaklinga samkvæmt lögum nr. 101/2010 og vegna sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu, er í samræmi við framangreind lagafyrirmæli sem um hana gilda. Ekki er um að ræða frádrátt vegna niðurfellingar glataðrar veðkröfu lánastofnunar X, eins og kærandi virðist telja, enda sú krafa ekki endanlega niðurfelld. Sú lækkun á fasteignaveðlánum sem kærandi hefur þegar fengið er verulega hærri en útreiknuð leiðrétting lána hans. Ákvörðun ríkisskattstjóra um leiðréttingarfjárhæð, að teknu tilliti til frádráttarliða, verður ekki hnekkt. Kröfu kæranda er því hafnað.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð :

 

Kröfu kæranda er hafnað.

 



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta