Mál nr. 100/2021 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 100/2021
Fimmtudaginn 20. maí 2021
A
gegn
Vinnumálastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.
Með kæru, dags. 22. febrúar 2021, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 14. janúar 2021, um upphæð greiðslna í sóttkví á grundvelli laga nr. 24/2020.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Með umsókn, dags. 4. janúar 2021, sótti kærandi um greiðslur frá Vinnumálastofnun á grundvelli laga nr. 24/2020 um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir vegna barns kæranda sem sætti sóttkví. Umsókn kæranda var samþykkt með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 14. janúar 2021. Kærandi sótti um greiðslur vegna sex daga og námu greiðslur til kæranda alls 53.508 kr.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 23. febrúar 2021. Með bréfi, dags. 26. febrúar 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 15. mars 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 17. mars 2021, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi lögmanns kæranda, dags. 30. mars 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 8. apríl 2021, voru athugasemdir kæranda sendar til Vinnumálastofnunar. Frekari athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi greinir frá því að hafa sætt sóttkví frá 29. október 2020 til 5. nóvember 2020 að skipun landlæknis. Eins og aðrir launamenn fái hann desemberuppbót sem sé föst tala samkvæmt kjarasamningi. Þessa kjarabót sé hægt að reikna með á hverju ári sem launamaður, sem afkomu sem greiðist einu sinni á ári. Kærandi hafi því miður verið í sóttkví í sama mánuði og hann fái sína desemberuppbót greidda. Þar af leiðandi þurfi hann samkvæmt Vinnumálastofnun að greiða sín laun að hluta til sjálfur með sinni árlegu greiðslu.
Samkvæmt 2. gr. laga um greiðslur í sóttkví komi fram að markmið laganna sé að styðja við atvinnurekendur sem greiði launamönnum sem sæti sóttkví laun þegar önnur réttindi, svo sem veikindaréttur samkvæmt kjarasamningum, eigi ekki við. Með því sé stefnt að því að einstaklingar geti fylgt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda um að sæta sóttkví án þess að hafa áhyggjur af afkomu sinni. Markmið laganna sé skýrt, kærandi hefði hundsað fyrirmæli landlæknis hefði hann vitað hvernig Vinnumálastofnun myndi reikna afkomu hans. Þetta sé misrétti og óásættanlegt sé að túlka lög á þennan hátt. Kærandi geri kröfu um að desemberuppbót hans verði ekki tilgreind sem laun í sambandi við greiðslur í sóttkví.
Í athugasemdum lögmanns kæranda kemur fram að afstöðu Vinnumálastofnunar sé mótmælt. Ákvörðun Vinnumálastofnunar byggi á rangri túlkun 5. og 6. gr. laga nr. 24/2020 sem sé bæði andstæð tilgangi lagasetningar og feli í sér ómálefnalega mismunun. Þess sé krafist að greiðsluréttur kæranda verði leiðréttur og hækkaður í samræmi við þá útreikninga sem fram komi í athugasemdum kæranda.
Í nefndaráliti velferðarnefndar Alþingis frá 150. löggjafarþingi 2019-2020, þingskjal 1155, segi um markmið lagasetningarinnar að með því sé stefnt að því að einstaklingar geti fylgt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda um að sæta sóttkví án þess að hafa áhyggjur af afkomu sinni. Lögin hafi þannig verið hugsuð að þau eigi að halda bæði atvinnurekendum og launafólki skaðlausu vegna sóttkvíar og stuðla þannig að því að einstaklingar fylgi fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda og fari ekki leynt með hugsanleg einkenni eða útsetningu fyrir smiti í þeim tilgangi að varast launatap. Lögin séu þannig mikilvægur þáttur í því að tryggja hlýðni við sóttvarnarreglur og virka þátttöku launafólks í þeim.
Lögin geri ráð fyrir því að engu máli skipti hvort atvinnurekandi haldi launagreiðslum áfram til launamanns þrátt fyrir sóttkví hans eða hvort launamaður þurfi sjálfur að sækja um greiðslur haldi launagreiðandi þeim ekki áfram. Þetta sé augljóst af greinargerð með 5. gr. laganna þar sem segi í upphafi hennar um 5. gr.: „Lagt er til að heimilt verði að greiða atvinnurekanda launakostnað hafi hann greitt launamanni sem sætir sóttkví laun.“ Í upphafi 2. mgr. í greinargerð með 5. gr. segi síðan: „Jafnframt er lagt til að kveðið verði á um að heimilt sé að greiða launamanni launatap hafi hann ekki fengið greidd laun, svo sem vegna rekstrarörðugleika eða tekjufalls atvinnurekanda, á þeim tíma er launamaðurinn sætti sóttkví…“ Þessi jafnstaða launamanns og atvinnurekanda, óháð því hvort hann fái laun frá atvinnurekanda eða sæki sjálfur um, endurspeglist síðan í greinargerð með 6. gr. laganna. Þar segi í 2. mgr. þegar fjallað er um endurgreiðslurétt atvinnurekanda sem greitt hafi launamanni óskert laun í sóttkví hans: „Sem dæmi má nefna launamann sem hefur fengið greiddar 420.000 kr. í laun í þeim mánuði sem hann sætti sóttkví eða 14.000 kr. á dag (420.000/30). Atvinnurekandi fær því greiddar 14.000 kr. fyrir hvern dag sem launamaðurinn er í sóttkví að uppfylltum öðrum skilyrðum. Hafi launamaðurinn verið í sóttkví í 14 daga getur atvinnurekandinn því átt rétt á greiðslu að fjárhæð 196.000 kr. (14.000x14).“
Síðar í greinargerð með 6. gr. segi í 5. mgr. hennar: „Sem dæmi má nefna launamann sem sætir sóttkví í apríl. Atvinnurekandi greiddi honum ekki laun í sóttkví og námu skert laun hans 220.000 kr. umræddan mánuð en laun hans í febrúar námu hins vegar 420.000 kr. Sú reikniregla sem hér er lögð til leiðar til þess að greiðslur til viðkomandi starfsmanns vegna tekjutaps hans nema 14.000 kr. á dag (420.000/30). Hafi hann sætt sóttkví í 14 daga getur hann því átt rétt á greiðslu að sjárhæð 196.000 kr. (14.000x14).“
Af þessu sé ljóst að grundvallarregla um útreikning byggi á því að ekki skipti máli hvor sæki um, atvinnurekandi eða launamaður. Lögin byggi á því að þessi líku tilvik beri að meðhöndla með líkum hætti, óháð því hver viðtakandi endurgreiðslu Vinnumálastofnunar sé.
Hefði B, launagreiðandi kæranda, greitt honum laun í sóttkví hefði endurgreiðsla reiknast samkvæmt launaseðli fyrir nóvember 2020. Sá launaseðill hefði verið nákvæmlega eins og launaseðill fyrir október en að viðbættri desemberuppbót. Útreikningur hefði því verið: dagvinna 469.710 kr., verkfæragjald 6.435 kr., orlof 61.250 kr. og desemberuppbót 94.000 = 631.395 kr. Réttur atvinnurekanda til endurgreiðslu hefði því orðið 631.395/30 x 6 = 126.279. Þannig hefði atvinnurekandi fengið bæði endurgreidd þau reglulegu laun sem hann greiddi kæranda og hluta þeirrar desemberuppbótar sem hann greiddi kæranda í nóvember 2020.
Réttarstaða kæranda, þrátt fyrir þann tilgang laganna að tryggja honum sömu stöðu og ef hann hefði haldið launum, leiði hins vegar til þess að endurgreiðsla til hans reiknist 53.508 kr. af þeirri ástæðu einni að desemberuppbót hans, sem hafi safnast upp yfir 12 mánuði, sé öll tekjufærð í nóvember. Kærandi telji því útreikning og niðurstöðu Vinnumálastofnunar ekki samræmast tilgangi og markmiðum laga nr. 24/2020 og telji að sér beri sama greiðsla og atvinnurekanda hans hefði borið, eða 126.279 kr. í stað 53.508 kr.
Fallist úrskurðarnefnd ekki á þessa kröfu kæranda sé byggt á því til vara að taka beri tillit til desemberuppbótar með sama hætti og tekið sé tillit til greiðslu orlofs en um öldungis sambærilegar greiðslur sé að ræða. Orlof sé reiknað af höfuðstól launa sem tiltekin prósenta, bætt við mánaðarleg laun og myndi stofn til endurgreiðslu atvinnurekanda. Desemberuppbót samkvæmt kjarasamningum ávinnist sem föst krónutala fyrir hvern unninn mánuð, 7.833 kr. pr. mánuð, en sé ekki færð á launaseðil þótt um öldungis sambærilega greiðslu sé að ræða og orlof. Því beri að haga útreikningi á endurgreiðslu til kæranda þannig að einungis verði honum talið til tekna 1/12 hluti desemberuppbótar í hverjum mánuði. Endurgreiðslu til hans ætti því að haga sem hér segir: Heildarlaun í nóvember 2020 verði laun alls 483.886 kr. – desemberuppbót 2020, 94.000 kr. + desemberuppbót í nóvember 7.833 kr. = umreiknuð heildarlaun 397.719 kr. Heildarlaun í október til viðmiðunar verði laun alls 537.395 kr. + 7.833 kr. = umreiknuð heildarlaun 545.228 kr.
Réttur kæranda til endurgreiðslu sé því 545.288 – 397.719 = 147.509, eða 24.584 kr. á dag sem lækki í 21.000 á dag samkvæmt hámarksákvæði 6. gr. laganna eða 126.000 kr. í stað kr. 53.508 kr.
III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar
Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að lög nr. 24/2020 um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir taki til greiðslna til atvinnurekanda sem greitt hafa launamönnum, sem sæta sóttkví, laun. Enn fremur gildi lögin um greiðslur til launamanna sem sæta sóttkví en fá ekki greidd laun frá atvinnurekanda. Þá gildi lögin um greiðslur til sjálfstætt starfandi einstaklinga sem sæta sóttkví.
Markmið laga nr. 24/2020 sé að styðja við atvinnurekendur sem greiði launamönnum sem sæta sóttkví laun þegar önnur réttindi, svo sem veikindaréttur samkvæmt kjarasamningum, eiga ekki við. Með því sé stefnt að einstaklingar geti fylgt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda um að sæta sóttkví án þess að hafa áhyggjur af afkomu sinni.
Mál þetta varði útreikning Vinnumálastofnunar vegna umsóknar kæranda um greiðslur í sóttkví. Ákvörðunin hafi verið tekin á grundvelli 1. mgr. 6. gr. laga nr. 24/2020. Í 6. gr. laganna sé fjallað um hvernig reikna skuli út fjárhæð greiðslna til launþega sem sætt hafa sóttkví. Í 1. mgr. 6. gr. laganna sé fjallað um hvað teljist til heildarlauna en þar segi að greiðsla til atvinnurekanda skuli taka mið af heildarlaunum launamanns í þeim almanaksmánuði eða almanaksmánuðum sem hann eða barn í hans forsjá hafi verið í sóttkví. Til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald þann mánuð sem launamanni hafi verið gert að vera í sóttkví. Til að finna út fjárhæð greiðslna fyrir hvern dag skuli miða við 30 daga í mánuði. Lögin geri því ráð fyrir að til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald þann mánuð sem launamanni var gert að sæta sóttkví. Í 2. mgr. 6. gr. laganna sé kveðið á um hvernig skuli ákvarða greiðslur í þeim tilvikum er launamaður sækir um greiðslur vegna launa í sóttkví. Þar komi fram að þegar launamaður sæki um greiðslu á grundvelli 2. mgr. 5. gr. skuli greiðsla taka mið af heildarlaunum hans fyrir undanfarandi almanaksmánuð áður en honum hafi verið gert að vera í sóttkví eða hann hafi annast barn í sóttkví. Heildargreiðslur til launamanns geti þó aldrei verið hærri en sem nemi mismun heildarlauna þann mánuð sem honum hafi verið gert að vera í sóttkví eða hann hafi annast barn í sóttkví og heildarlauna undanfarandi mánaðar.
Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 24/2020 komi fram að greiðslur taki mið af heildarlaunum launamanns í þeim almanaksmánuði eða almanaksmánuðum sem hann hafi sætt sóttkví en með almanaksmánuðum sé átt við þau tilvik þegar sóttkví vari yfir mánaðamót. Gert sé ráð fyrir að til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald þann mánuð sem launamanni hafi verið gert að sæta sóttkví. Desemberuppbót teljist því til launa þegar greiðslur í sóttkví séu reiknaðar. Af þessum sökum teljist desemberuppbót til heildarlauna þegar greiðslur til launþega séu reiknaðar. Útreikningurinn byggi lögum samkvæmt á því að tekið sé mið af heildarlaunum launþega fyrir undanfarandi almanaksmánuð áður en honum hafi verið gert að vera í sóttkví eða hann hafi annast barn í sóttkví. Samkvæmt skýru orðalagi ákvæðisins geti greiðslur aldrei orðið hærri en sem nemi mismun heildarlauna þann mánuð sem launþega hafi verið gert að vera í sóttkví/hafi annast barn í sóttkví og heildarlauna undanfarandi mánaðar. Greiðsla desemberuppbótar, líkt og aðrar launagreiðslur, geti því valdið hækkun eða lækkun á heildargreiðslum til starfsmanns eftir því hvenær viðkomandi stafsmaður hafi sætt sóttkví.
Kærandi hafi sótt um greiðslur í sóttkví vegna sex daga. Laun kæranda fyrir októbermánuð hafi numið alls 537.395 kr. Laun kæranda í sóttkvíarmánuði, þ.e. nóvember, hafi verið alls 483.886 kr. Vert sé að taka fram að jafnvel þó að upphaf sóttkvíar sé í lok októbermánaðar komi frádráttur launa vegna sóttkvíar fram á launaseðli nóvembermánaðar. Vegna skilyrða 2. mgr. 6. gr. laga nr. 24/2020 geti greiðslur til launþega aldrei orðið hærri en sem nemi mismun heildarlauna þann mánuð sem launþega hafi verið gert að vera í sóttkví/hafi annast barn í sóttkví og heildarlauna undanfarandi mánaðar. Mismunur milli launa kæranda í sóttkvíarmánuði og undanfarandi mánaðar hafi einungis verið 53.508 kr. Greiðslur í sóttkví nemi því 53.508 kr. vegna viðkomandi starfsmanns. Framlag til lífeyrissjóðs sé -2.140 kr. Mótframlag kæranda til lífeyrissjóðs sé 6.153 kr. Reiknuð staðgreiðsla launa sé -16.155 kr. Útborguð laun frá stofnuninni hafi því verið 35.213 kr. Stofnunin telji sér óheimilt að standa að útreikningi greiðslna til kæranda með öðrum hætti þegar litið sé til skýrs orðalags 6. gr. um annars vegar heildarlaun og hins vegar um mismun heildarlauna í sóttkvíarmánuði og undanfarandi mánaðar.
Í ljósi framangreinds telur Vinnumálastofnun að útreikningur vegna greiðslna í sóttkví skuli reiknaður með þeim hætti sem stofnunin hafi lagt til grundvallar með vísan til 6. gr. laga nr. 24/2020 og athugasemda við 6. gr. í frumvarpi til laganna.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að greiða kæranda 53.508 kr. á grundvelli laga nr. 24/2020 um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir. Ágreiningur málsins lýtur að útreikningi Vinnumálastofnunar vegna þeirrar greiðslu.
Í 2. gr. laga nr. 24/2020 kemur fram að markmið laganna sé að styðja við atvinnurekendur sem greiða launamönnum sem sæta sóttkví laun þegar önnur réttindi, svo sem veikindaréttur samkvæmt kjarasamningum, eigi ekki við. Með því sé stefnt að því að einstaklingar geti fylgt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda um að sæta sóttkví án þess að hafa áhyggjur af afkomu sinni.
Í 5. gr. laganna er kveðið á um skilyrði fyrir greiðslum vegna launamanna en þar segir í 1. mgr. að heimilt sé að greiða atvinnurekanda launakostnað eftir því sem nánar sé mælt fyrir um í lögunum. Í athugasemdum við 5. gr. í frumvarpi til laganna kemur fram að lagt sé til að heimilt verði að greiða atvinnurekanda launakostnað hafi hann greitt launamanni sem sæti sóttkví laun. Gert sé ráð fyrir að skilyrði fyrir greiðslum verði það að launamaður hafi sætt sóttkví og hafi ekki getað sinnt vinnu að öllu leyti eða hluta þaðan sem hann sætti sóttkví. Þannig sé gert ráð fyrir að ekki geti komið til greiðslna til atvinnurekanda hafi launamaður sinnt starfi sínu áfram þaðan sem hann hafi sætt sóttkví, enda hafi atvinnurekandi þá notið vinnuframlags starfsmannsins á því tímabili sem um ræðir hverju sinni. Jafnframt sé gert ráð fyrir að skilyrði fyrir greiðslu til atvinnurekanda sé það að önnur atvik hafi ekki staðið í vegi fyrir því að launamaður hafi mætt til vinnu á vinnustað og að atvinnurekandi hafi sannanlega greitt launamanni laun á meðan hann sætti sóttkví. Í 2. mgr. 5. gr. segir að heimilt sé að greiða launamanni launatap hafi hann ekki fengið greidd laun, svo sem vegna rekstrarörðugleika eða tekjufalls atvinnurekanda, enda séu skilyrði a-c-liða 1. mgr. uppfyllt. Vinnumálastofnun sé heimilt að óska eftir staðfestingu frá atvinnurekanda um að laun hafi ekki verið greidd og upplýsingum um ástæður þess. Í athugasemdum við 5. gr. í frumvarpi til laganna kemur fram að í yfirlýsingu forsætisráðherra, Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins sé gert ráð fyrir því að Samtök atvinnulífsins muni beina þeim tilmælum til atvinnurekenda að laun verði greidd til launamanna sem sæta sóttkví að fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda. Í ljósi þess megi ætla að það muni heyra til undantekninga að launamenn sæki um greiðslur þar sem þeir hafi ekki fengið greidd laun á meðan þeir sættu sóttkví.
Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 24/2020 skal greiðsla til atvinnurekanda taka mið af heildarlaunum launamanns í þeim almanaksmánuði eða almanaksmánuðum sem hann eða barn í hans forsjá var í sóttkví. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald þann mánuð sem launamanni var gert að vera í sóttkví. Til að finna út fjárhæð greiðslna fyrir hvern dag skal miða við 30 daga í mánuði. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laganna skal greiðsla til launamanns taka mið af heildarlaunum hans fyrir undanfarandi almanaksmánuð áður en honum var gert að vera í sóttkví eða hann annaðist barn í sóttkví. Heildargreiðslur til launamanns geta þó aldrei verið hærri en sem nemur mismun heildarlauna þann mánuð sem honum var gert að vera í sóttkví eða hann annaðist barn í sóttkví og heildarlauna undanfarandi mánaðar.
Kærandi byggir meðal annars á því að framangreind framkvæmd feli í sér ómálefnalega mismunun. Samkvæmt jafnræðisreglu 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 skulu allir vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Þá skulu stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti við úrlausn mála, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ljóst er að framangreindur útreikningur Vinnumálastofnunar á tímabundnum greiðslum vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví eða vegna barns í sóttkví á við um alla einstaklinga sem sækja um greiðslur fyrir umrætt tímabil á grundvelli laga nr. 24/2020 og því bendir ekkert til annars en að jafnræðis hafi verið gætt. Því er ekki fallist á að hin kærða ákvörðun feli í sér ómálefnalega mismunun.
Líkt og að framan greinir lýtur ágreiningur málsins að útreikningi Vinnumálastofnunar vegna greiðslu til kæranda sem annaðist barn sem var í sóttkví. Sóttkví barns kæranda stóð yfir í átta daga á tímabilinu 29. október til og með 5. nóvember 2020 og sótti kærandi um greiðslur vegna sex daga á tímabilinu. Laun kæranda fyrir október 2020, sem var undanfarandi almanaksmánuður áður en barni hans var gert að sæta sóttkví, voru 537.395 kr. Laun kæranda fyrir nóvember 2020, þann mánuð er barni hans var gert að sæta sóttkví, voru 483.886 kr. en af þeirri upphæð nam desemberuppbót 94.000 kr. Þar sem greiðsla desemberuppbótar hækkaði heildarlaun kæranda fyrir sóttkvíarmánuð var lítill munur á heildarlaunum þess mánaðar og samanburðarmánaðar. Greiðsla til kæranda nam því einungis 53.509 kr., eða mismun launa þessara tveggja mánaða, og hefur Vinnumálastofnun vísað til þess að óheimilt sé að standa að útreikningi greiðslna til kæranda með öðrum hætti þegar litið sé til skýrs orðalags 6. gr. laga nr. 24/2020.
Samkvæmt 6. gr. laga nr. 24/2020 skal telja til launa hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Í 7. gr. laga nr. 113/1990 um tryggingagjald kemur fram að til gjaldstofns samkvæmt 6. gr. sömu laga teljist hvers konar laun og þóknanir, þar með talið ákvæðislaun, biðlaun, nefndarlaun, stjórnarlaun, launauppbætur, staðaruppbætur, orlofsfé og greiðslur fyrir ónotað orlof og framlag vinnuveitanda í lífeyrissjóð. Samkvæmt framansögðu fellur desemberuppbót því undir laun í skilningi 6. gr. laga nr. 24/2020.
Í grein 1.1.5.1. í kjarasamningi milli Samtaka atvinnulífsins og Samiðnar – sambands iðnfélaga fyrir hönd aðildarfélaga í málmiðnaði, byggingariðnaði og skrúðgarðyrkju kemur fram að desemberuppbót fyrir hvert almanaksár, miðað við fullt starf, hafi á árinu 2020 verið 94.000 kr. Uppbótin skuli greiðast eigi síðar en 15. desember ár hvert, miðað við starfshlutfall og starfstíma, öllum starfsmönnum sem verið hafa samfellt í starfi hjá atvinnurekanda í 12 vikur á síðustu 12 mánuðum eða eru í starfi fyrstu viku í desember. Heimilt sé með samkomulagi við starfsmann að uppgjörstímabil sé frá 1. desember til 30. nóvember ár hvert í stað almanaksárs. Þá kemur fram að desemberuppbót innifeli orlof, sé föst tala og taki ekki breytingum samkvæmt öðrum ákvæðum. Af framangreindu er ljóst að um áunnin réttindi er að ræða í samræmi við starfshlutfall og starfstíma viðkomandi sem greitt er út eftir að ávinnslutímabili lýkur.
Kærandi fékk greidda desemberuppbót 1. desember 2020 að fjárhæð 94.000 kr., með launum fyrir nóvembermánuð, í samræmi við kjarasamningsbundinn rétt sinn. Að mati úrskurðarnefndarinnar getur sú greiðsla ekki talist sem laun fyrir nóvembermánuð nema hlutfallslega í samræmi við framangreinda ávinnslu- og reiknireglu kjarasamnings Landssambands íslenzkra verzlunarmanna og Samtaka atvinnulífsins. Er því aðeins heimilt að telja kæranda til tekna í nóvember 1/12 af fjárhæð desemberuppbótarinnar, eða 7.833 kr. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar hjá Vinnumálastofnun.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 14. janúar 2021, um greiðslu á grundvelli laga nr. 24/2020 til handa A, er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar stofnunarinnar.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir