Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 16/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 16/2021

Mánudaginn 31. maí 2021

A og B

gegn

Barnaverndarnefnd C

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.

Með kæru, dags. 13. janúar 2021, kærði D lögmaður, f.h. A, og B, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndarnefndar C, dags. 17. desember 2020, um umgengni fósturbarns þeirra, E, við móður sína.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Drengurinn E er X ára gamall og lýtur forsjá Barnaverndarnefndar C. Móðir drengsins afsalaði sér forsjá hans með dómsátt þann 24. mars 2020 í Héraðsdómi C. Drengurinn var tekinn úr umsjá móður í apríl 2018 þegar hann var X mánaða gamall. Hann var fyrst um sinn vistaður hjá móðurforeldrum sínum en hefur verið í umsjá núverandi fósturforeldra frá því í nóvember 2018. Drengurinn á tvær hálfsystur sammæðra. Eldri systir drengsins hefur lögheimili hjá föður sínum og er í jafnri umgengni við báða foreldra sína. Drengurinn á umgengni við eldri systur sína aðra hvora viku dagpart í senn. Móðir drengsins fer með forsjá yngri systur hans og er hún búsett hjá móður. Kærendur eru föðurforeldrar drengsins.

Móðir hefur höfðað mál til ógildingar dómsáttarinnar og hefur jafnframt lýst því yfir að hún muni óska eftir endurskoðun ráðstöfunar samkvæmt 34. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.), gangi ógildingarmál hennar ekki eftir.

Á meðan tímabundin fósturvistun stóð yfir átti móðir umgengni við drenginn aðra hvora helgi í þrjár klukkustundir í senn. Þegar gengið var frá varanlegri fósturvistun hjá kærendum náðist ekki samkomulag um umgengni til reynslu. Barnaverndarnefnd C úrskurðaði um eina umgengni sem fór fram í október 2020. Á meðferðarfundi starfsmanna barnaverndarnefndar var lögð til umgengni móður við drenginn tvisvar sinnum á ári sem móðir felldi sig ekki við. Ekki náðist samkomulag um umgengni og var málið því tekið til úrskurðar samkvæmt 74. gr. bvl.

Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem bent er á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„Barnaverndarnefnd C ákveður að F hafi umgengni við E í tvær klukkustundir, undir eftirliti í húsnæði á vegum Barnaverndar C 4 sinnum á 12 mánuðum og fyrsta umgengni fari fram í kringum jól, í samráði við móður og fósturforeldra. Náist ekki sameiginleg niðurstaða um umgengni um jól skuli umgengni fara fram þann 26. desember. Umgengni verði svo í mars, júlí og október. Fósturforeldrum er heimilt að vera viðstödd umgengnina kjósi þau það.“

Kærendur lögðu fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 13. janúar 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. janúar 2021, var óskað eftir greinargerð Barnaverndarnefndar C ásamt gögnum málsins. Greinargerð Barnaverndarnefndar C barst nefndinni þann 17. febrúar 2021 og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 19. febrúar 2021, var hún send lögmanni kæranda til kynningar og veittur frestur til að gera athugasemdir. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kærenda

Í kæru kemur fram að kærður sé úrskurður Barnaverndarnefndar C um að móðir drengsins hafi umgengni við hann fjórum sinnum á 12 mánuðum. Kærendur krefjast þess að úrskurðinum verði breytt þannig að umgengniskröfu móður verði hafnað og umgengni verði ákveðin einu sinni næstu 12 mánuði, en endurskoðuð eftir það. Kærendur krefjast þess að önnur ákvæði hins kærða úrskurðar standi óhögguð. Um kæruheimild fósturforeldra vísast til 2. mgr. 74. gr. a. bvl., sbr. 51. gr. sömu laga.

Hvað varði málavexti eins og þeir horfi við kærendum, vísast til málavaxtalýsingar í hinum kærða úrskurði og meðfylgjandi greinargerðar starfsmanna Barnaverndarnefndar C. Kærendur taki undir þá lýsingu sem þar komi fram.

Móðir drengsins hafi haldið uppi kröfu um umgengni allt frá upphafi fósturs hans hjá kærendum. Drengurinn hafi alfarið verið hjá kærendum frá 21 mánaða aldri, en dvaldist einnig mikið hjá þeim fyrir þann tíma. Allt frá 14 mánaða aldri dvaldi drengurinn til skiptis hjá kærendum og móðurömmu sinni þannig að hann dvaldi allar helgar hjá kærendum en virka daga hjá móðurforeldrum. Kærendur hafi ávallt sótt hann í leikskóla á föstudögum og skilað honum aftur þangað á mánudagsmorgni.

Ákveðið hafi verið um varanlegt fóstur drengsins í mars 2020 eftir að forsjársviptingarmáli hafi lokið með sátt við móður. Umgengni hafi verið ákveðin til reynslu í þrjú skipti sumar og haust 2020. Eins og lýst sé í gögnum málsins hafi umgengnin sjálf gengið ágætlega en hún hafi haft áhrif á drenginn og sett hann úr jafnvægi. Með afsali forsjár af hálfu móður og varanlegu fóstri hafi forsendur umgengninnar tekið breytingum. Tillaga starfsmanna Barnaverndarnefndar C hafi verið sú að umgengni væri hæfileg tvisvar á ári. Kærendur hafi tekið undir það að mestu leyti en þó talið að einu sinni á ári væri hæfilegt. Móðir hafi krafist umgengni aðra hvora helgi.

Með hinum kærða úrskurði hafi umgengni við móður verið ákveðin tvær klukkustundir í senn, fjórum sinnum á ári. Auk þess hafi verið ákveðið að umgengni skyldi vera undir eftirliti í húsnæði á vegum Barnaverndar C. Einnig hafi það verið sérstaklega tiltekið að fósturforeldrum væri heimilt að vera viðstödd umgengnina, kysu þau það. Umgengni hafi farið samkvæmt úrskurðinum 26. desember 2020.

Kærendur byggi kæru sína á því að inntak þeirrar umgengni sem úrskurðað hafi verið um geti ekki þjónað þeim markmiðum sem fóstrið byggi á, þ.e. að um varanlegt fóstur sé að ræða sem eigi að standa til 18 ára aldurs drengsins og markmið þess sé að drengurinn aðlagist fósturfjölskyldunni sem sinni eigin. Þá sé drengurinn á viðkvæmum aldri, eigi erfiða sögu og mikilvægt að honum séu sköpuð skilyrði til að honum sé mögulegt að mynda stöðug og örugg geðtengsl við fósturforeldra sína, sem séu og verða hans aðalumönnunaraðilar.

Fram komi í gögnum málsins að móðir sé nú að leita leiða til að hnekkja niðurstöðu forsjársviptingarmálsins og vilji fá drenginn aftur búsettan hjá sér. Sá málarekstur sé á frumstigi og alls óvíst með niðurstöðu hans. Því beri að vinna málið á þeirri forsendu að um barn í varanlegu fóstri sé að ræða.

Kærendur byggi kröfur sínar meðal annars á forsögu málsins og hæfni móður til að sinna umgengni. Drengurinn eigi erfiða sögu að baki allt þar til hann hafi komið til kærenda í fóstur og hafi þá loks fundið ró og frið. Fram komi í gögnum málsins að samkvæmt upplýsingum frá leikskóla sé greinilegur munur á líðan drengsins frá þeim tíma, hann sé almennt glaður og í góðu jafnvægi. Þá segja starfsmenn leikskóla að allur aðbúnaður drengsins hjá kærendum sé til fyrirmyndar og augljóst sé að á milli hans og þeirra ríki mikill kærleikur. Það komi jafnframt fram í gögnum málsins að móðir eigi við persónuleikaraskanir að stríða, auk vímuefnavanda. Þá sé hún áhættusækin, hvatvís, ævintýragjörn og virðist höndla illa daglegt líf. Kærendur hafi upplifað markaleysi hennar í tengslum við framkvæmd umgengni og sé því meðal annars lýst í gögnum málsins að hún hafi mætt óboðin í umgengni drengsins við móðurömmu og hleypt öllu í uppnám. Kærendur telji að sú uppákoma hafi verið afar erfið fyrir drenginn.

Umgengni hafi að jafnaði valdið drengnum nokkru ójafnvægi. Hann hafi verið lengi að jafna sig, verið ringlaður og jafnvel óviss um hvort hann eigi enn heima hjá kærendum og haldi að hann eigi líka heima hjá móður. Grunur sé um að móðir „mati“ drenginn á slíkum upplýsingum.

Þá byggi kærendur jafnframt á því að hinn kærði úrskurður sé ekki í samræmi við niðurstöður í sambærilegum málum hjá úrskurðarnefnd velferðarmála. Kærendur benda á ítrekaðar forsendur í nýlegum úrskurðum er varða umgengni fósturbarna við foreldra sína um að haga verði umgengni þannig að fósturbörnin fá frið til að aðlagast fósturfjölskyldu sinni, enda markmið varanlegs fósturs að tryggja til frambúðar umönnun barnanna, öryggi þeirra og þroskamöguleika. Þá sé einnig ítrekað byggt á því að líta beri til þess að með umgengni kynforeldra við fósturbörn sé ekki verið að reyna styrkja tengsl þeirra, heldur viðhalda þeim tengslum sem þegar séu fyrir hendi, ekki síst í þeim tilgangi að börnin þekki uppruna sinn. Þá hafi einnig í úrskurðum nefndarinnar verið vísað til þess að það séu ríkir hagsmunir fósturbarna að tengslamyndun þeirra við fósturforeldra sé ótrufluð.

Enn fremur byggi kærendur sérstaklega á úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 353/2018 frá 30. nóvember 2019. Í þeim úrskurði sé staðfest neitun Barnaverndarnefndar C um aukna umgengni kynmóður við barn í varanlegu fóstri, meðal annars með eftirfarandi rökstuðningi:

„[...] lögvarðir hagsmunir drengsins eru að hann búi við stöðugleika, frið og ró í fóstrinu, fái svigrúm til að tengjast fósturfjölskyldunni áfram og að umgengni valdi sem minnstri truflun. Drengnum líður vel og ekkert bendir til að hann hafi þörf fyrir breytingar. Það geta ekki talist hagsmunir drengsins að vera í miklum tengslum við kynforeldri þar sem slík tengsl eiga ekki að vera varanleg og til frambúðar.

Að mati úrskurðarnefndarinnar hefur drengurinn hvorki getu né þroska til að meta hvernig umgengni eigi að vera háttað. Á þessum tíma í lífi drengsins eru það því ekki hagsmunir hans að tekin verði áhætta með því að auka umgengni eða gera tilraunir með aukna umgengni, svo sem kærandi leggur til, en aukin umgengni myndi raska ró drengsins í fóstrinu.“

Þannig byggi kærendur á því að það geti í raun ekki verið neinn ágreiningur um hvernig best skuli hagað umgengni í varanlegu fóstri og telja að þau grundvallarsjónarmið eigi vel við í máli þessu. Kærendur vilji standa vörð um réttindi drengsins um að ná stöðugleika og ró í fóstrinu hjá þeim sem ætlað er að vara til 18 ára aldurs.

Þá skal þess getið að kærendum sé vel kunnugt um grundvallarréttindi hvers barns til að þekkja uppruna sinn og njóta beinna samskipta og tengsla við líffræðilega foreldra sína. Þau virði þann rétt drengsins og munu ávallt leitast við að styðja við umgengni hans við upprunafjölskyldu sína svo að hann megi njóta þeirra réttinda.

Rétt sé að taka fram að drengurinn njóti umgengni við hálfsystur sína sem sé X ára gömul. Sú stúlka dveljist aðra hvora viku hjá foreldrum sínum. Umgengni sé aðra hvora viku í þrjá tíma í senn með þeim hætti að fósturforeldrar sækja hana á heimili hennar hjá föður og skila henni aftur þangað. Þá hafi drengurinn einnig notið umgengni við móðurömmu sína með reglubundnum hætti en til standi að taka nýja ákvörðun hjá Barnaverndarnefnd C um tilhögun þess til lengri tíma.

Með vísan til þessara samvista drengsins við upprunafjölskyldu sína, auk umgengni einu sinni til tvisvar á ári við móður, megi slá því föstu að drengurinn sé að viðhalda tengslum sínum við upprunafjölskyldu sína og þekki uppruna sinn.


 

III. Sjónarmið Barnaverndarnefndar C

Barnaverndarnefnd C krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Í greinargerð Barnaverndarnefndar C kemur fram að drengurinn hafi farið úr umsjá móður sinnar þegar hann hafi verið X mánaða. Drengurinn hafi í fyrstu verið vistaður hjá móðurforeldrum sínum og hafi á þeim tíma haft ríkulega umgengni við kærendur. Hann hafi farið í umsjá kærenda þegar hann var X mánaða gamall. Fyrst í tímabundið fóstur og gengið hafi verið frá varanlegri fósturvistun hans hjá kærendum í kjölfar þess að móðir drengsins hafi afsalað sér forsjánni með dómsátt sem undirrituð hafi verið þann 24. mars 2020. Móðir hafi átt ríkulega umgengni við drenginn þar til gengið hafi verið frá varanlegu fóstri. Umgengni hafi verið aðra hvora helgi í þrjár klukkustundir í senn.

Eftir að gengið hafi verið frá varanlegri fósturvistun drengsins hafi verið óskað eftir afstöðu móður til umgengni í varanlegu fóstri. Krafa móður hafi verið á þá leið að umgengni yrði aðra hvora helgi og einn virkan dag í mánuði. Að auki hafi móðir óskað eftir því að fá að sækja drenginn vikulega, einn virkan dag í leikskóla og eiga með honum samveru fram að kvöldmat. Þegar afstöðu kærenda hafi verið aflað í samtali við þau þann 29. apríl 2020, hafi kærendur greint frá því að umgengni hefði að mestu gengið vel í tímabundnu fóstri en bakslag hefði komið í kjölfar einnar umgengni og drengurinn verið lengi að jafna sig. Kærendur hafi greint frá því að drengurinn hefði verið í miklu ójafnvægi í eina og hálfa viku í kjölfar umgengninnar. Þá komi fram hjá kærendum að engin umgengni hafi verið síðan móðir afsalaði sér forsjá þann 24. mars 2020 og að mati kærenda væri drengurinn í betra jafnvægi en áður. Kærendur hafi viljað að tekin yrði ákvörðun um tíðni umgengni.

Fjallað hafi verið um málið á meðferðarfundi starfsmanna barnaverndar þann 6. maí 2020. Starfsmenn barnaverndar hafi lagt til að umgengni yrði til reynslu í þrjú skipti og að þeim tíma liðnum yrði máið endurmetið. Móðir hafi ekki fallist á tillögur starfsmanna og hafi viljað að málið yrði lagt fyrir fund barnaverndarnefndar. Vegna sumarleyfa hafi málið verið lagt fyrir fund Barnaverndarnefndar C þann 1. september 2020. Hafði móðir þá átt umgengni við drenginn í júní og ágúst í samræmi við tillögur starfsmanna. Umgengni í júní hafi að mati kærenda gengið vel og drengurinn ekki sýnt merki um vanlíðan í kjölfarið. Samkvæmt kærendum hafi drengurinn átt erfitt í kjölfar umgengni í ágúst.

Í greinargerð starfsmanna Barnaverndar C, dags. 25. ágúst 2020, sem hafi legið fyrir fund Barnaverndarnefndar C þann 1. september 2020, komi meðal annars fram að starfsmenn teldu rök fyrir því að mögulega þjónaði það hagsmunum drengsins að hafa umgengni eitthvað ríflegri en yfirleitt tíðkist í varanlegu fóstri. Í greinargerðinni sé vísað til aðstæðna móður. Hún væri með yngri systur drengsins alfarið í sinni umsjá og eldri systir drengsins í umgengni aðra hvora viku. Fram komi að starfsmenn hafi talið það geta þjónað hagsmunum drengsins að fá að hitta systur sínar í umgengni með móður. Barnaverndarnefnd hafi fallist á tillögur starfsmanna. Þar sem umgengni hafði þegar farið fram í tvígang hafi verið úrskurðað um eina umgengni í október samkvæmt 74. gr. bvl. Úrskurðurinn hafi verið kveðinn upp þann 8. september 2020. Móðir hafi átt umgengni við drenginn 15. september.

 

Þann 2. nóvember 2020 hafi lögmaður móður sent starfsmönnum barnaverndar beiðni um umgengni móður við drenginn í varanlegu fóstri. Fram kom að móðir vildi eiga umgengni við drenginn aðra hvora helgi. Þá vildi móðir að helgina á móti ætti drengurinn umgengni við systur sína og móðurömmu.

Í samtali starfsmanns við kærendur þann 19. nóvember 2020 hafi komið fram að umgengni á reynslutímanum hefði almennt gengið vel. Sögðu kærendur að drengurinn hafi verið ringlaður eftir umgengni og saknað móður sinnar og systur. Kærendur greindu frá því að drengurinn færi úr jafnvægi eftir hverja umgengni og það tæki tíma að ná að skapa stöðugleika hjá honum að nýju í kjölfar umgengni. Í ljósi þessa væri það mat kærenda að umgengni væri hæfileg tvisvar sinnum á ári undir eftirliti í húsnæði Barnaverndar C.

Fjallað hafi verið um málið á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar C þann 19. nóvember 2020 þar sem hafi verið bókuð sú tillaga starfsmanna að umgengni drengsins við móður yrði tvisvar á ári undir eftirliti. Móðir hafi ekki fallist á tillögur starfsmanna og málið verið lagt fyrir fund Barnaverndarnefndar C þann 15. desember 2020 með framangreindum tillögum starfsmanna.

Í greinargerð starfsmanna, dags. 9. desember 2020, komi fram það mat að krafa móður um umgengni sé ekki í samræmi við hagsmuni drengsins og þau markmið sem stefnt sé að með vistun hans í varanlegu fóstri. Starfsmenn telji að svo mikil umgengni geti raskað ró og stöðugleika í lífi drengsins líkt og gerst hafi eftir þá tíðu umgengni sem ákveðin hafi verið til reynslu og hafi farið fram í júní, ágúst og október 2020. Að mati starfsmanna sé mikilvægt að horfa til þess að drengurinn á einnig umgengni við báðar systur sínar og móðurömmu. Þá bendi starfsmenn á að ekki sé stefnt að því að drengurinn fari aftur í umsjá móður sinnar. Mikilvægast sé að vinna að því markmiði að hann búi við sem mesta ró, öryggi og stöðugleika á fósturheimilinu. Þá sé það markmiðið með umgengni í varanlegu fóstri að barn þekki uppruna sinn og eigi sérstaklega við þegar um svo ungt barn sé að ræða.

Kærendur hafi mætt á fund barnaverndarnefndar og gert grein fyrir afstöðu sinni. Fram kom að afstaða þeirra til umgengni hefði breyst frá því að afstöðu þeirra var aflað í tengslum við tillögur starfsmanna. Að mati kærenda samrýmdist umgengni einu sinni á ári hagsmunum drengsins best. Sögðu kærendur drenginn hafa borið merki vanrækslu þegar hann hafi komið í þeirra umsjá. Hann hefði sýnt mikið óöryggi í kjölfar umgengni og það þyrfti að skapa ró í kringum hann. Kærendur hafi lagt til að umgengni yrði takmörkuð við eitt skipti á ári í eitt ár og drengnum þannig gefið tækifæri til að fá ró í sálina.

Móðir drengsins hafi mætt á fund barnaverndarnefndar ásamt lögmanni sínum. Fram kom hjá móður að hún gerði kröfu um umgengni aðra hvora helgi. Þá hafi hún viljað fá upplýsingar frá leikskóla drengsins. Móðir benti á að henni væri treystandi fyrir yngri systur drengsina alla daga og máli stúlkunnar hefði verið lokað hjá Barnavernd C. Móðir drengsins kveðist vera að sinna edrúmennsku vel. Móðir benti einnig á að hún væri að annast eldri dóttur sína aðra hvora viku og börn sambýlismanns síns einnig með reglulegum hætti. Lögmaður móður hafi sagt gögn málsins bera með sér að drengurinn saknaði móður sinnar og því væri óeðlilegt að draga úr umgengni þeirra á milli.

Barnaverndarnefnd C hafi úrskurðað í málinu þann 17. desember 2020 á þá leið að umgengni drengsins við móður í varanlegu fóstri yrði fjórum sinnum á ári, undir eftirliti í húsnæði á vegum Barnaverndar C.

Í bókun Barnaverndarnefndar C, dags. 15. desember 2020, og úrskurði nefndarinnar hafi nefndin tekið að mestu undir mat starfsmanna sem fram komi í greinargerð, dags. 9. desember 2020. Nefndin vísi í niðurstöðu sinni til þess að samkvæmt 3. gr. reglugerðar um fóstur nr. 804/2004 sé markmið með varanlegu fóstri að tryggja til frambúðar umönnun, öryggi og stöðugleika í lífi barns innan fósturfjölskyldu. Í 4. gr. reglugerðarinnar komi fram að við ráðstöfun barns í fóstur skuli barnaverndarnefnd ávallt hafa hagsmuni barns í fyrirrúmi og taka tillit til sjónarmiða og óska barns eftir því sem aldur þess og þroski gefi tilefni til. Stuðla beri að því að stöðugleiki verði í uppvexti og sem minnst röskun á lífi barnsins. Í 25. gr. reglugerðarinnar komi fram að við ákvörðun um umgengni við barn í fóstri skuli tekið mið af því hvað þjónar hagsmunum barnsins best með það fyrir augum að ná markmiði sem stefnt er að. Í handbók Barnaverndarstofu varðandi umgengni í fóstri komi fram að við ákvörðun um umgengni barns í fóstri við kynforeldra sína eða aðra þarf að meta í hverju einstöku tilviki þörf barnsins fyrir umgengni og hvaða áhrif umgengnin hafi á það. Hafa beri í huga að almennt sé börnum mikilvægt að þekkja uppruna sinn, sögu og foreldra.

Í ákvörðun nefndarinnar hafi verið horft til þess að móðir drengsins hafi haft ríkulega umgengni við drenginn frá því að hann hafi verið vistaður utan heimilis. Umgengni móður við drenginn hafi að mati nefndarinnar að mestu gengið vel og móðir sinnt drengnum vel. Nefndin hafi ekki talið tilefni til að verða við óskum móður um jafn rúma umgengni og hún hafi farið fram á. Taldi nefndin að með umgengni fjórum sinnum á ári væri þess gætt að drengurinn fengi svigrúm til að tengjast fósturforeldrum sínum á eigin forsendum og að jafnframt væri gætt að því að hann byggi við stöðugleika og ró. Að mati nefndarinnar sé ákvörðun um umgengni með þessum hætti í samræmi við hagsmuni drengsins.

 

IV. Afstaða móður

Með tölvupósti 18. maí 2021 óskaði úrskurðarnefndin eftir afstöðu móður til kærunnar og barst hún með bréfi lögmanns kæranda þann 26. maí 2021.

Fram kemur í greinargerð lögmanns að málið sé um margt sérstakt. Móðir hafi kynnst syni kærenda árið 2014 og hafi þau fljótlega tekið upp samband. Neysla þeirra varð fljótt mikil en er móðir varð ólétt af drengnum árið X hætti hún allri neyslu og var edrú allt þar til hann varð X mánaða er hún féll. Foreldrar drengsins hafi verið sundur og saman en móðir hafi kynnst öðrum manni árið X, G. Móðir hafi farið í meðferð á H X. og verið edrú frá þeim degi en þá hafi hún nýlega verið orðin ólétt af I, sem þau G eignuðust X, en fyrir átti hún Í, fædda árið X.

Þegar yngri dóttir hennar hafi fæðst hafi líf móður tekið miklum breytingum og hún eignast gott og heilbrigt fjölskyldulíf með sambýlismanni sínum og dætrunum tveimur, auk þess sem börn hans komi í umgengni aðra hvora helgi. Hún hafi á þeim tíma verið í endurhæfingu en hafi nú hafið nám í J til að ljúka stúdentsprófi og stefni á frekara nám. Sambýlismaður hennar sé K.

Lífið hafi virst blasa við þeim að því frátöldu að E sé ekki hjá þeim þar sem móðir hafi skrifað undir dómsátt í máli Héraðsdóms C nr. E-1234/2019 þann 24. mars X þar sem hún afsalaði forsjá sonar síns til Barnaverndarnefndar C. Móðir hafi verið full af hormónum á þessum tíma, en hún hafði eignast I mánuði áður og engan veginn áttað sig á því hvað afsal hennar á forsjá drengsins hefði í för með sér. Þá hafi hún fengið rangar upplýsingar um hvernig umgengni við hann yrði háttað. Enginn hafi útskýrt fyrir henni að hin reglulega umgengni sem hún fengi væri í formi tveggja klukkustunda samveru annan hvorn mánuð undir eftirliti og með því að búið væri að fela föðurforeldrum drengsins forsjá hans, yrði stefnt að því að slíta á tengsl hennar við drenginn.

Þetta hafi tekið mikið á móður sem ætli sér að fá aftur forsjá drengsins. Hún hafi af því tilefni höfðað mál til ógildingar á dómsáttinni frá nóvember 2020. L hafi tekið til fullra varna í málinu og af þeim sökum hafi málið dregist. Matsgerð muni að öllu jöfnu liggja fyrir 1. júní 2021. Þótt matið liggi ekki fyrir sé forsjárhæfni móður góð og þrátt fyrir tilraunir kærenda og barnaverndarnefndar til að slíta á tengsl hennar við drenginn, séu enn rík og góð tengsl þeirra á milli. Enda í samræmi við það sem fram komi í mati M, sem barnaverndarnefnd fékk til að meta forsjárhæfni móður haustið 2019 en hann sagði að forsjárhæfni hennar væri góð svo lengi sem hún væri ekki í neyslu. Hún hefði góða innsýn í hlutverk sitt sem móðir og sinni börnunum vel. Móðir hafi verið edrú frá júlí 2019 þannig að edrútímabil hennar spanni mun lengra tímabil en barnaverndarnefnd geri almennt körfu um. Í því sambandi sé á það bent að hún lauk dagsmeðferð á N haustið X og meðferð hjá fíkniráðgjafa hjá P árið X. Þess beri að geta að faðir drengsins hafi greiðan aðgang að drengnum í gegnum kærendur, enda séu þau foreldrar hans.

Þá sé það ámælisvert og ófaglegt að barnaverndarnefnd geri ekki athugasemdir við forsjárhæfni móður þegar kemur að dætrum hennar tveimur en telji hana ekki hæfa til að fara með forsjá drengsins. Hún geti boðið drengnum, sem og dætrum sínum, öruggt og gott heimili. Barnavernd hafði eftirlit með móður á meðgöngu og eftir að I fæddist en lauk máli stúlkunnar í nóvember X með þeim orðum að ekkert væri við forsjárhæfni móður eða aðstæður stúlkunnar að athuga. Það sé með öllu óskiljanlegt að barnavernd og kærendur telji móður ekki hæfa til að fara með forsjá sonar síns, enda talin fullkomlega hæf til að fara með forsjá dætra sinna og fá börn sambýlismanns í umgengni aðra hvora helgi. Móðir telji augljóst að það séu hagsmunir drengsins að hann fái að alast upp hjá kynforeldri.

Í desember X þegar málið var tekið fyrir á fundi barnaverndarnefndar lá fyrir að móðir hafði höfðað mál til ógildingar á sáttinni, fyrir lá ákvörðun um að loka máli I þar sem ekkert væri athugavert við forsjárhæfni móður eða aðstæður barnsins og fyrir lá að drengurinn saknaði móður sinnar sárt, en þá var umgengni allt í einu úrskurðuð aðeins fjögur skipti á ári. Var þá barnaverndarnefndin að úrskurða um helmingi meiri umgengni en lögð hafði verið til í greinargerð starfsmanna barnaverndar sem taldi hæfilegt að umgengni færi fram á hálfs árs fresti. Móðir taldi umgengni augljóslega of litla og alls ekki í samræmi við hagsmuni drengsins en taldi jafnframt að hún hefði ekki hag af því að kæra úrskurð barnaverndarnefndarinnar, enda fengi hún að líkindum forsjá drengsins aftur áður en niðurstaða lægi fyrir.

Barnaverndarnefndin hafi því ákveðið að fara eftir því sem almennt sé markmið forsjársviptingar þegar foreldrar séu sviptir ótímabundið forsjá með dómi. Það hefði ekki átt að gera í þessu tilviki og í stað þess að stuðla að þeim grundvallaréttindum drengsins að fá að njóta samvista og tengsla við móður sína, vilja kærendur og barnavernd setja sem markmið að slíta á tengsl þeirra. Kærendur séu ekki foreldrar drengsins og verði að sætta sig við að þau verða það ekki. Móðir telur að þau hafi verið einstaklega óliðleg, til dæmis hafa þau ekki leyft móður að færa barni sínu afmælis- eða jólagjafir og leggjast gegn umgengni barnsins við móðurömmu sem hann hafi þó verið mjög tengdur. Þá séu það gríðarleg vonbrigði, vægast sagt, að kærendur leggi til að drengurinn fái að hitta móður sína einu sinni á ári í tvær klukkustundir og sýni það eitt að þau hafa hagsmuni drengsins ekki að leiðarljósi.

Móðir mótmæli málavöxtum og málsástæðum sem séu í ósamræmi við málavaxtalýsingu og röksendir hennar en þess sé þó sérstaklega mótmælt að móðir „mati“ drenginn í tveggja klukkustunda umgengni undir eftirliti að hann eigi að eiga heima hjá henni, enda alrangt. Drengurinn einfaldlega sakni mömmu sinnar og skilji líklega ekki af hverju hann megi ekki búa hjá fjölskyldu sinni.

Kærandi telji að það séu grundvallarmannréttindi drengsins að fá að umgangast móður sína og að brotið hafi verið gróflega gegn stjórnarskrárvörðum réttindum hans til friðhelgi einkalífs og fjölskyldu er umgengni hennar við drenginn var ákveðin tvær klukkustundir, þriðja hvern mánuð, undir eftirliti. Það athugist að helstu röksemdir barnaverndar og kærenda fyrir skerðingu á umgengni voru þær að drengurinn saknaði mömmu sinnar alltaf svo mikið eftir umgengni. Í stað þess að auka umgengni þannig að drengurinn gæti viðhaldið góðum tengslum við móður sína án þess að þurfa að hafa af því áhyggjur hvenær hann fengi að hitta hana aftur, hafi verið lagt til af hálfu starfsmanna barnaverndar að minnka umgengni enn frekar og hafa svo litla umgengni að drengurinn missi bara tengsl við móður sína þannig að hann þurfi ekkert að sakna hennar. Móðir sjái þetta ekki öðruvísi en svo að verið sé að beita drenginn hennar ofbeldi og tilfinningar hans og grundvallarmannréttindi séu að engu höfð.

Taka beri tillit til aðstæðna í hverju máli fyrir sig og ljóst megi vera að þetta mál sé ekki sambærilegt hefðbundnum málum þar sem foreldri er svipt forsjá barns síns varanlega með dómi. Taka beri tilliti til þessa og úrskurða um ríkulega umgengni sem hafi það að markmiði að drengurinn fái að njóta góðra tengsla við móður en ekki slíta á þau, enda ljóst að um tímabundið ástand er að ræða. Í því sambandi sé sérstaklega bent á það sem fram komi í greinargerð með 74. gr. barnaverndarlaga um að umgengni eigi að vera í samræmi við markmið með fóstri. Þegar barni sé ráðstafað í fóstur, sem sé ætlað sé að vara þar til barn verði lögráða, verði almennt að gera ráð fyrir því að foreldrar hafi ekki verið færir um að búa barninu viðunandi uppeldisaðstæður og hafi jafnvel verið sviptir forsjá barnsins. Þannig hátti málum alls ekki í þessu máli. Móðir hafi ekki verið svipt forsjá með dómi en hafi vissulega afsalað forsjá þótt það hafi verið gert á röngum forsendum og á grundvelli loforða lögmanna og dómara sem ekki hafi staðist. Móðir sé fullfær um að búa barninu viðunandi uppeldisaðstæður og vísar móðir til þess sem fram hafi komið um að ekki hafi þótt tilefni til afskipta vegna yngstu dóttur hennar. Ef ekki séu áhyggjur af velferð hennar ættu væntanlega ekki að vera áhyggjur af velferð E í umsjá móður. Ljóst megi þannig vera að um tímabundið ástand sé að ræða.

Móðir telji að hin ákveðna umgengni sé svo lítil að leggja megi hana að jöfnu við enga umgengni. Á meðan dómstólar leysi úr kröfu móður um ógildingu dómsáttar og barnavernd endurskoðar ráðstöfun forsjár, telur móðir sanngjarnt og eðlilegt að umgengni drengsins við hana sé ríkuleg og engin ástæða til að skerða hana líkt og um vanhæfi foreldra sé að ræða sem barni stafi hætta af umgengni við. Umgengni ætti ekki að vera minni en önnur hvor helgi þannig að drengurinn, móðir og fjölskylda þeirra geti hlakkað til umgengni en ekki að svo langt sé á milli umgengni þeirra að drengurinn upplifi það að hann fái aldrei aftur að umgangast móður sína. Hann þurfi þannig ekki að vera leiður að umgengni lokinni eins og kærendur lýsa vegna þess að hann saknar mömmu sinnar heldur geti hann verið öruggur um að hann hitti hana nokkuð fljótt aftur.

Þá sé athyglisvert að bæði í greinargerð starfsmanna barnaverndar og í úrskurði barnaverndar sé lagt til að umgengni drengsins verði meiri en almennt sé þegar um varanlegt fóstur sé að ræða. Samt sem áður sé lögð til umgengni tvisvar til fjórum sinnum á ári sem geti ekki talist annað en verulega skert umgengni. Ítrekað sé að úrskurða skal um ríkari umgengni ef barni sé ætlað að snúa aftur til foreldra sinna. Þó að barnavernd og kærendur kjósi að hafa hag barnsins ekki að leiðarljósi og sé fullkunnugt um að ekkert mæli gegn því að móðir fái aftur forsjá drengsins, vilji þau leggja til grundvallar að umgengni sé sambærileg og þegar um vanhæfa foreldra sé að ræða sem ekki munu aftur fá forsjá barna sinna. Að mati móður sé það ámælisvert.

Þess sé krafist að umgengni móður við drenginn verði aðra hvora helgi frá föstudagseftirmiðdegi til mánudagsmorguns.

 

V. Afstaða barns

Vegna ungs aldurs var ekki rætt við barnið varðandi afstöðu þess til umgengni við móður.

VI. Niðurstaða

Kærður er úrskurður Barnaverndarnefndar C um umgengni fósturbarns kærenda við móður sína. Með úrskurðinum var samþykkt að umgengni yrði tvær klukkustundir í senn, undir eftirliti í húsnæði á vegum Barnaverndar C, fjórum sinnum á tólf mánuðum. Fósturforeldrum sé heimilt að vera viðstödd umgengni kjósi þau það.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd hennar.

Í 74. gr. a. barnaverndarlaga er kveðið á um réttarstöðu fósturforeldra við ákvörðun um umgengni. Þar segir í 1. mgr. að ávallt skuli kanna viðhorf fósturforeldra til umgengni áður en gengið sé frá samningi eða kveðinn upp úrskurður um umgengni. Liggur fyrir að það var gert áður en hinn kærði úrskurður var kveðinn upp og lýstu fósturforeldrar því yfir þau vilji að umgengni verði einu sinni á ári í eitt ár og drengnum þannig gefið tækifæri til að fá ró í sálina. Það sé ekki ósk fósturforeldra að umgengni verði með þeim hætti til frambúðar en að drengurinn þurfi tækifæri til að öðlast ró í sínu umhverfi.

Það er meginregla í barnaverndarstarfi að beita skuli þeim ráðstöfunum sem ætla má að séu barni fyrir bestu og skulu hagsmunir barna ávallt hafðir í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda, sbr. 1. mgr. 4. gr. bvl. Við úrlausn þessa máls ber að mati úrskurðarnefndarinnar að líta til þess hvaða hagsmuni drengurinn hefur af umgengni við kæranda.

Í greinargerð starfsmanna Barnaverndar C, dags. 9. desember 2020, kemur fram það mat starfsmanna barnaverndar að umgengni drengsins við móður ætti að vera tvisvar sinnum á ári, í febrúar og október. Þá ætti umgengni að vera í tvær klukkustundir í senn, í húsnæði á vegum Barnaverndar undir eftirliti og fósturforeldrar viðstaddir umgengni ef þau kysu. Starfsmenn barnaverndar litu til þess að um væri að ræða tæplega fjögurra ára gamlan dreng sem væri kominn í varanlegt fóstur en hann hafi búið hjá fósturforeldrum sínum í rúmlega tvö ár. Drengurinn búi við góðar aðstæður á fósturheimili og hafi dafnað og þroskast eðlilega. Umgengni hafi verið til reynslu í þrjú skipti eftir að móðir hafi afsalað sér forsjá drengins og nú sé mikilvægt að taka ákvörðun um umgengni í varanlegu fóstri. Ekki sé stefnt að því að drengurinn fari aftur í umsjá móður sinnar. Mikilvægast sé að vinna að því markmiði að hann búi við sem mesta ró, öryggi og stöðugleika á fósturheimilinu. Markmiðið með umgengni í varanlegu fóstri sé að barn þekki uppruna sinn, sérstaklega þegar um svo ungt barn sé að ræða. Starfsmenn telji að svo mikil umgengni eins og móðir óski eftir, samræmist ekki hagsmunum barnsins og þeim markmiðum sem stefnt sé að. Starfsmenn telji að svo mikil umgengni geti raskað ró og stöðugleika í lífi drengsins og hafi það í raun verið staðan eftir þá tíðu umgengni sem hafi verið til reynslu í júní, ágúst og október 2020. Ljóst sé að drengurinn muni eiga umgengni við systkini sín, eldri systur og móðurömmu og mikilvægt sé að hafa það í huga þegar taka eigi ákvörðun um umgengni í varanlegu fóstri.

Af hálfu Barnaverndarnefndar C hefur komið fram að drengurinn sé vistaður í varanlegu fóstri og ekki sé unnt að verða við óskum móður um svo ríkulega umgengni. Ljóst sé að umgengni hafi að einhverju leyti áhrif á drenginn og hafi fósturforeldrar greint frá því að hann fari úr jafnvægi í kjölfar umgengni. Drengurinn búi við gott atlæti í umsjá fósturforeldra sinna, hafi tengst þeim vel og beri upplýsingar frá fósturforeldrum og leikskóla með sér að drengurinn sé í góðu jafnvægi alla jafna. Að mati barnaverndarnefndar verði að horfa til þess að móðir hafi haft ríkulega umgengni við drenginn frá því að hann hafi verið vistaður utan heimilis. Þá hafi barnaverndarnefnd úrskurðað um umgengni drengsins við hálfsystur hans aðra hvora viku. Umgengni móður við drenginn hafi að mestu gengið vel, móðir hafi sinnt drengnum vel og verið góð við hann. Varðandi hagsmuni drengsins skipti máli að hann búi við stöðugleika, frið og ró í fóstrinu, fái svigrúm til að tengjast fósturforeldrum á eigin forsendum og að umgengni valdi sem minnstri truflun. Drengnum líði vel, hafi haft talsverða umgengni við móður sína og hálfsystur og ekkert bendi til að hann hafi þörf fyrir verulegar breytingar nú. Það sé því mat barnaverndarnefndar að umgengni móður við drenginn verði í fjögur skipti á ári.

Eins og vikið er að hér að framan ber að mati úrskurðarnefndarinnar við úrlausn málsins að líta til þess hvaða hagsmuni drengurinn hefur af umgengni við kæranda. Nefndin telur að það séu lögvarðir hagsmunir hans að búa við stöðugleika, frið og ró í fóstrinu og að þannig séu þroskamöguleikar hans best tryggðir til frambúðar. Hann þarf að fá svigrúm til að tengjast fósturfjölskyldunni og að umgengni valdi sem minnstri truflun. Hvað varðar umgengni við móður drengsins er ekki verið að reyna styrkja þau tengsl, heldur viðhalda þeim tengslum sem þegar eru fyrir hendi, ekki síst í þeim tilgangi að drengurinn þekki uppruna sinn.

Að mati úrskurðarnefndarinnar verður auk ofangreinds ekki horft fram hjá því að drengurinn hefur allt frá því að hann var tekinn úr umsjá móður sinnar í apríl 2018, þá X mánaða gamall, haft ríkulega umgengni við hana. Verulega hefur þó dregið úr umgengninni eftir að drengurinn fór í varanlegt fóstur til núverandi fósturforeldra. Gögn málsins gefa jafnframt til kynna að sú umgengni, sem átt hafi sér stað, hafi alla jafnan gengið nokkuð vel. Í ljósi alls þess, sem að framan greinir svo og þeirra aðstæðna sem nú eru uppi í málinu, er það mat nefndarinnar að ekki sé tilefni til að svo stöddu að gera breytingar á þeirri tilhögun á umgengni sem ákveðin var með hinum kærða úrskurði. Ekki verður séð að sú umgengni sem þar var ákveðin sé í andstöðu við fyrri úrskurði úrskurðarnefndarinnar hvað varðar umgengni foreldra við börn sem eru í varanlegu fóstri. Horfa verður til þess að hvert mál er einstakt og ætíð þarf að leggja mat á þarfir og hagsmuni barns hverju sinni.

Því verður að telja að umgengnin hafi verið ákveðin í samræmi við þau sjónarmið sem leggja ber til grundvallar samkvæmt 2., 3. og 4. mgr. 74. gr. bvl. þegar umgengni barns í varanlegu fóstri við foreldri er ákveðin. Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, ber að staðfesta hinn kærða úrskurð Barnaverndarnefndar C.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður Barnaverndarnefndar Reykjavíkur um umgengni E, við F, er staðfestur.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta