Hoppa yfir valmynd

Nr. 526/2022 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 15. desember 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 526/2022

í stjórnsýslumálum nr. KNU22100084, KNU22100085, KNU22100086 og KNU22100087

 

Beiðni um endurupptöku og frestun réttaráhrifa í máli [...] og barns hennar

 

  1. Málsatvik

    Með úrskurði kærunefndar útlendingamála í máli nr. 339/2022, dags. 7. september 2022, var ákvörðun Útlendingastofnunar um að taka umsókn [...], fd. [...], ríkisborgara Venesúela (hér eftir kærandi), um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og vísa henni frá landinu felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka mál kæranda og sonar hennar, [...], fd. [...], ríkisborgara Síle (hér eftir A), til meðferðar á ný. Með úrskurðum kærunefndar útlendingamála í málum nr. 427/2022 og 428/2022, dags. 20. október 2022, staðfesti nefndin ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kæranda og A, dags. 12. september 2022. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda 21. október 2022. Hinn 28. október 2022 lagði kærandi fram beiðni um frestun réttaráhrifa á úrskurðum kærunefndar og endurupptöku málanna, ásamt fylgigögnum.

    Beiðni kæranda um endurupptöku á málum þeirra er reist á grundvelli 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá krefst kærandi þess að réttaráhrifum úrskurða kærunefndar útlendingamála verði frestað á meðan hún fer með mál sitt fyrir dómstóla, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

  2. Málsástæður og rök kæranda

    Kærandi byggir á því að úrskurður kærunefndar sé ófullnægjandi og beri ekki með sér að viðhlítandi rannsókn hafi farið fram í samræmi við kröfu stjórnsýslulaga og óskráðar meginreglur stjórnsýsluréttar um rannsókn og undirbúning ákvarðana. Kærandi hafi við meðferð máls hennar lagt fram mikið magn af gögnum umsókn sinni til stuðnings um þá hættu og ofsóknir auk fordóma sem hún hafi orðið fyrir í Síle. Kærandi hafi m.a. lagt fram myndbandsupptökur og hljóðupptökur, lögreglukæru og samskipti við fyrri leigusala sem sanni þann ótta sem hún hafi búið við. Kærunefnd hafi ekki gert þessum gögnum skil í úrskurði sínum og því telur kærandi að aðeins hafi verið horft til almennra upplýsinga um ástand og aðstæður í Síle án tillits til einstaklingsbundinna aðstæðna hennar. Telur kærandi að efnislegur rökstuðningur máls hennar uppfylli ekki 10. gr. stjórnsýslulaga. Þá telur kærandi að mat kærunefndar á þeim heilsufarsgögnum sem hún hafi lagt fram gangi í berhögg við tilgang og markmið laga um útlendinga. Fyrirliggjandi heilsufarsgögn sýni að hún hafi greinst með frumubreytingar og þurfi að undirgangast […] til að koma í veg fyrir […]. Þá glími kærandi við þunglyndi og kvíða auk þess sem hún teljist í hættu á sjálfskaða. Slíkar aðstæður setji einstakling í sérstaklega viðkvæma stöðu og eigi það bæði við um kæranda og son hennar. Þá telur kærandi að mat kærunefndar í málinu í heild sé rangt og því verði að gefa þeim tækifæri á að fá málið endurskoðað af dómstólum.

    Þá telur kærandi að brotið hafi verið gegn skyldu stjórnvaldsins til að rökstyðja ákvörðun sína. Samkvæmt 2. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga skuli rekja í stuttu máli upplýsingar um þau málsatvik sem hafi verulega þýðingu við úrlausn málsins. Kærandi telur að vart sé að finna efnislega umfjöllun um margar af helstu málsástæðum hennar umfram staðlaðan texta um aðstæður og ástand í Síle. Enga einstaklingsbundna umfjöllun sé að finna um ástæður þess að kærandi flúði sem byggt sé á í greinargerð og hún hafi lýst í viðtali hjá Útlendingastofnun. Telur kærandi að um brot á 2. mgr. 22. gr. og 10. gr. stjórnsýslulaga sé að ræða.

    Kærandi telur að úrskurðir kærunefndar og ákvarðanir Útlendingastofnunar byggi á ófullnægjandi upplýsingum og beri þess merki að ekki hafi verið horft til fjölda þeirra gagna og upplýsinga sem kærandi hafi lagt fram máli sínu til stuðnings. Vísar kærandi til 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga í þessu samhengi. Þá vísar kærandi til 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga en kærandi sé nú í sambandi með íslenskum manni. Hún og A hafi búið hjá honum síðastliðna fimm mánuði og hann gengið A í föðurstað. Kærandi telur að hún eigi sérstök tengsl við Ísland sem ekki hafi legið fyrir við fyrri ákvörðun í máli hennar. Þá hafi orðið verulegar vendingar á aðstæðum hennar og A vegna hótana föður A um að taka hann frá móður sinni. Hafi þannig orðið grundvallarbreyting á atvikum sem liggi að baki ákvörðun í máli kæranda. Samkvæmt framangreindu fer kærandi fram á að mál hennar og A verði endurupptekin á grundvelli 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Sé eigi fallist á endurupptöku krefst kærandi þess að réttaráhrifum verði frestað þannig að hún hafi færi á að bera málin undir dómstóla samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.

  3. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála um endurupptöku stjórnsýslumáls

  1. Krafa um endurupptöku

    Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

    Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurði í máli kæranda og A 20. október 2022. Með úrskurðunum var komist að þeirri niðurstöðu að synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á Íslandi og frávísun frá landinu bryti ekki gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Jafnframt var ekki talið að kærandi hefði slík tengsl við landið að nærtækast væri að hún fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka umsókn hennar um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá komst kærunefnd að þeirri niðurstöðu í máli A að hann uppfyllti ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því ætti hann ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður A í heimaríki væru ekki með þeim hætti að veita bæri honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.

    Kærandi reisir beiðni sína um endurupptöku m.a. á því að kærunefnd hafi ekki horft til fjölda þeirra gagna og upplýsinga sem hún hafi lagt fram máli sínu til stuðnings.

    Við meðferð máls kæranda hjá Útlendingastofnun og kærunefnd lagði kærandi fram ýmis gögn, þ. á m. skjáskot af fréttum, myndbönd af því þegar ráðist var á kæranda í Síle, umfjallanir og myndskeið af útlendingahatri og tölvubréf til leigusala. Lagði kærunefnd heildstætt mat á mál kæranda og A og tók fram að af upplýsingum um Síle mætti ráða að öryggislögreglan (s. Carabineros) ásamt rannsóknarlögreglu bæri ábyrgð á löggæslu þar í landi. Þá væri öryggislögreglan ein fagmannlegasta og best þjálfaða lögreglusveit Rómönsku Ameríku ásamt því að vera sú sveit þar sem minnst sé af spillingu innanborðs. Kærandi bar fyrir sig að hafa orðið fyrir og eiga á hættu að verða fyrir fordómum og mismunun í Síle vegna þjóðernis auk þess sem hún óttist glæpahóp þar í landi sem hafi ráðist á sig og sent sér hótanir. Tók kærunefnd fram að af þeim gögnum sem nefndin hefði kynnt sér væri mismunun og ofbeldi á grundvelli þjóðernis vandamál í Síle. Var það þó mat kærunefndar að kærandi gæti leitað ásjár yfirvalda í Síle yrði hún fyrir mismunun á grundvelli þjóðernis þar í landi. Þá gæti hún leitað til lögregluyfirvalda eða annarra þar til bærra stjórnvalda óttist hún um öryggi sitt. Taldi því kærunefnd að gögn málsins bæru ekki með sér að kærandi myndi eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar, s.s. ef ríkið útilokar viðkomandi frá menntun, nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu, nauðsynlegri þjónustu vegna fötlunar eða atvinnuþátttöku á grundvelli kynhneigðar, kynþáttar eða kyns eða hún geti vænst þess að staða hennar, í ljósi sömu ástæðna, verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki, sbr. viðmið í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Þá taldi kærunefnd að kærandi hefði ekki sýnt fram á að aðrar aðstæður hennar í viðtökuríki væru slíkar að önnur viðmið tengd alvarlegri mismunun, sambærileg þeim sem 32. gr. a reglugerðarinnar lýsi, leiddu til þess að taka bæri umsókn hennar til efnismeðferðar hér á landi. Að framangreindu virtu fellst kærunefnd ekki á með kæranda að úrskurður kærunefndar í máli hennar hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. laga um útlendinga.

    Þá vísar kærandi til þess að hún sé nú í sambandi með íslenskum manni, en hún og A hafi búið hjá honum síðastliðna fimm mánuði og hann gengið A í föðurstað. Kærandi telur að hún hafi sérstök tengsl við Ísland sem ekki hafi legið fyrir við fyrri ákvörðun í máli hennar, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Með endurupptöku lagði kærandi fram skjáskot af samskiptum þeirra á milli. Þá liggur fyrir bréf frá sambýlismanni kæranda, dags. 25. október 2022, þar sem fram kemur að kærandi og A hafi búið á heimili hans síðastliðna fimm mánuði.

    Lög um útlendinga veita ekki skýrar leiðbeiningar um hvernig hugtakið sérstök tengsl samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga skuli túlkað í framkvæmd. Við túlkun ákvæðisins hefur kærunefnd litið til athugasemda sem fylgdu ákvæðinu í frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga og lagt til grundvallar að ákvæðinu sé ætlað að taka m.a. til þeirra tilvika þegar umsækjendur eiga ættingja hér á landi en ekki í því ríki sem þeir yrðu aftur sendir til. Þetta geti einnig átt við í öðrum tilfellum þar sem tengsl eru ríkari en við viðtökuríki, svo sem vegna fyrri dvalar. Þá gera athugasemdir í frumvarpi og ákvæði 32. gr. b reglugerðar um útlendinga ráð fyrir því að fyrri dvöl umsækjenda hér á landi geti leitt til þess að um sérstök tengsl séu að ræða. Með fyrri dvöl er átt við útgefið dvalarleyfi hér á landi í eitt ár eða lengur líkt og segir í ákvæðinu.

    Kærunefnd telur að af framangreindu sé ljóst að meta þurfi einstaklingsbundnar aðstæður umsækjenda um alþjóðlega vernd m.t.t. fyrirliggjandi gagna við mat á því hvort skilyrðum ákvæðisins sé fullnægt. Líkt og að framan greinir hefur kærandi greint frá því að hún sé nú í sambúð með íslenskum manni. Samkvæmt gögnum málsins sótti kærandi um alþjóðlega vernd hér á landi 14. mars 2022. Í hælisbeiðni kemur m.a. fram að kærandi kveðist ekki þekkja neinn á Íslandi. Þá greindi kærandi frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun 23. maí 2022 að hún þekkti engan hér á landi. Þá kemur fram í bréfi frá sambýlismanni kæranda að þau hafi verið í sambúð síðastliðna fimm mánuði. Ljóst er af gögnum máls að kærandi og sambýlismaður hennar hafi ekki þekkt hvort annað áður en kærandi kom hingað til lands. Kærunefnd vísar, er þetta atriði varðar, til hliðsjónar, til dóms Hæstaréttar í máli nr. 164/2015 frá 8. október 2015, þar sem dómur Héraðsdóms Reykjavíkur var staðfestur með skírskotun til forsendna hans. Í dómi héraðsdóms var fjallað um hugtakið sérstök tengsl samkvæmt þágildandi lögum um útlendinga, nr. 96/2002, en ákvæði þeirra laga er efnislega samhljóða 2. mgr. 36. gr. núgildandi laga um útlendinga. Í dóminum kom fram að tengsl sem umsækjandi hafði myndað við konu hér á landi eftir að hann kom til landsins voru ekki talin hafa þá þýðingu að hann teldist hafa sérstök tengsl við landið. Af dóminum verður ekki annað ráðið en að tengsl sem myndast eftir að umsækjandi sækir um alþjóðlega vernd hér á landi, hvers eðlis sem þau tengsl séu, hafi takmarkað vægi við mat á því hvort umsækjandi teljist hafa sérstök tengsl við landið í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Eins og fram hefur komið bera fyrirliggjandi gögn með sér að kærandi hafi kynnst sambýlismanni sínum hér á landi eftir að hún sótti um alþjóðlega vernd. Kærunefnd telur þá ljóst að kærandi eigi ekki ættingja hér á landi, líkt og lögskýringargögn um 36. gr. laga um útlendinga gera ráð fyrir að geti verið til staðar svo um sérstök tengsl geti verið að ræða. Þá bera gögn málsins með sér að kærandi hafi einungs dvalið hér á landi í tengslum við umsókn sína um alþjóðlega vernd. Eins og málum er hér háttað er það mat kærunefndar að tengslum kæranda við landið verði ekki jafnað til sérstakra tengsla í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

    Í greinargerð kæranda er jafnframt vísað til þess að henni hafi borist hótanir frá barnsföður sínum og því sé hún hrædd við að snúa aftur til Síle. Með vísan til framangreindrar umfjöllunar um löggæslu í Síle telur kærunefnd að kærandi geti leitað ásjár lögregluyfirvalda eða annarra þar til bærra stjórnvalda óttist hún um öryggi sitt.

    Í ljósi framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurðir kærunefndar útlendingamála, nr. 427/2022 og 428/2022, dags. 20. október 2022, hafi byggt á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik hafi breyst verulega á þann hátt að kærandi og A eigi rétt á endurupptöku málanna, sbr. 1. og 2 tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

    Að öllu framangreindu virtu er kröfu kæranda um endurupptöku málanna því hafnað.

  2. Krafa um frestun réttaráhrifa úrskurðar kærunefndar útlendingamála samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga

Í íslenskum rétti gildir sú meginregla að málskot til dómstóla frestar ekki réttaráhrifum endanlegra ákvarðana stjórnvalda, sjá til hliðsjónar 2. málsl. 60. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Reglan er áréttuð í 1. málsl. 6. mgr. 104. laga um útlendinga nr. 80/2016 en þar segir að málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun á stjórnsýslustigi um að útlendingur skuli yfirgefa landið fresti ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess, sbr. 2. málsl. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Frestun á réttaráhrifum skal bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að málið hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.  

Niðurstaða um hvort ástæða sé til að fresta réttaráhrifum úrskurðar kærunefndar ræðst af heildstæðu mati á hagsmunum kæranda af því að réttaráhrifum úrskurðarins verði frestað og sjónarmiðum sem mæla gegn slíkri frestun. Meðal þeirra sjónarmiða sem líta ber til við þetta mat er hvort framkvæmd úrskurðarins valdi kæranda óafturkræfum skaða, hvort framkvæmdin feli í sér verulegar hindranir á aðgengi kæranda að dómstólum, hvort aðstæður sem þýðingu geta haft fyrir málið hafi breyst verulega eða hvort þörf sé á sérstakri varúð, m.a. með tilliti til hagsmuna barna. Þá lítur kærunefnd til þess hlutverks stjórnvalda að tryggja skilvirka framkvæmd laga um útlendinga. Kærunefnd hefur jafnframt litið til þess að heimild til frestunar réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar er undantekning frá meginreglu sem aðeins sé ætlað að ná til tilvika þar sem ástæða er til þess að fresta framkvæmd. Réttaráhrifum úrskurðar verði því ekki frestað af þeirri ástæðu einni að úrskurðurinn verði borinn undir dómstóla heldur þurfi að liggja fyrir tilteknar ástæður í fyrirliggjandi máli svo kærunefnd fallist á slíka beiðni.

Í beiðni um frestun réttaráhrifa kemur fram sú afstaða kæranda að framkvæmd úrskurðar kærunefndar útlendingamála um að hún skuli yfirgefa landið takmarki möguleika hennar til að fá endurskoðun úrskurðarins hjá dómstólum og njóta þar réttlátrar málsmeðferðar, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Af því tilefni tekur kærunefnd fram að vera kæranda á landinu er ekki forsenda fyrir því að mál sem hún höfðar til ógildingar á úrskurði kærunefndar sé tækt til meðferðar hjá dómstólum. Þá hefur kærandi möguleika á að gefa skýrslu fyrir dómi þótt hún sé ekki hér á landi, sbr. 2. mgr. 49. gr. og 3. og 4. mgr. 51. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Í því ljósi og með vísan til aðstæðna kæranda að öðru leyti er það niðurstaða kærunefndar að ekki sé ástæða til að fresta réttaráhrifum úrskurðar í máli kæranda á þeim grundvelli að framkvæmd úrskurðarins valdi tjóni á málatilbúnaði hennar fyrir dómstólum eða skerði réttindi sem henni eru tryggð samkvæmt 70. gr. stjórnarskrárinnar.

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála hefur verið tekin afstaða til málsástæðna kæranda varðandi umsókn kæranda og sonar hennar um alþjóðlega vernd hér á landi og komist að niðurstöðu um að synja umsóknum þeirra um efnismeðferð. Kærunefnd ítrekar það sem kemur fram í úrskurðum nefndarinnar í málum kæranda og sonar hennar að athugun nefndarinnar hefur ekki leitt í ljós gögn sem gefa tilefni til að ætla að aðstæður í viðtökuríki séu þess eðlis að endursending kæranda þangað sé í andstöðu við 1. og 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu eða að kæranda sé ekki tryggð raunhæf leið til að ná fram rétti sínum þar í landi, sbr. 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Tiltölulega skammur tími er liðinn síðan nefndin úrskurðaði í málum kæranda og sonar hennar. Ekkert í gögnum málanna, þ.m.t. þeim upplýsingum sem fylgdu beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa, bendir til þess að aðstæður þeirra eða aðstæður í ríkinu, sem vísa á þeim til, hafi breyst verulega síðan nefndin úrskurðaði í málunum á þann hátt að nefndin telji að það gæti haft áhrif á efnislega niðurstöðu málanna. Eftir skoðun á beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa telur kærunefnd að athugasemdir sem þar koma fram séu ekki þess eðlis að ástæða sé til að ætla að niðurstaða kærunefndar í málunum sé haldin annmörkum sem leitt gæti til ógildingar úrskurðarins.

Líkt og fram kemur í úrskurði kærunefndar frá 20. október 2022 er kærandi venesúelskur ríkisborgari sem hefur dvalið í Síle undanfarin ár og er með ótímabundið dvalarleyfi þar í landi. Þá er sonur kæranda með ríkisborgararétt í Síle. Í úrskurðinum komst kærunefnd m.a. að þeirri niðurstöðu að aðstæður kæranda í viðtökuríki féllu undir skilyrði a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og var það því niðurstaða kærunefndar að umsókn hennar um alþjóðlega vernd yrði ekki tekin til efnismeðferðar. Kærunefnd telur að líta verði til þess að hér er um eitt af fyrstu málum sinnar tegundar sem óskað er eftir frestun réttaráhrifa á, en óumdeilt er að kærandi hefur ekki hlotið alþjóðlega vernd í viðtökuríki og hefur ekki hlotið ríkisborgararétt þar í landi. Því lítur kærunefnd til þess að í máli kæranda hafa komið fram álitaefni sem rétt sé, í þágu sjónarmiða um réttaröryggi, að fá skorið úr um fyrir dómstólum. Kærunefnd telur að hagsmunir kæranda að fá niðurstöðu dómstóla um mál sitt og hagsmunir hennar af því að dvelja áfram hér á landi meðan beðið er eftir niðurstöðu dómstóla vegi þungt gagnvart hagsmunum tengdum skilvirkni framkvæmdar laga um útlendinga.

Með vísan til framangreinds telur kærunefnd að ástæða sé til, eins og hér stendur sérstaklega á, að fresta réttaráhrifum úrskurðar kærunefndar í máli kæranda, dags. 20. október 2022, meðan kærandi rekur mál sitt fyrir dómstólum, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga, með þeim skilyrðum sem koma fram í ákvæðinu og áréttuð eru í úrskurðarorði. Þar sem umsóknir kæranda og A hafa verið afgreiddar samhliða telur kærunefnd, í ljósi aldurs A og meginreglunnar um einingu fjölskyldunnar, að einnig skuli fresta réttaráhrifum úrskurðar kærunefndar í máli A, dags. 20. október 2022.

Kæranda er leiðbeint um að uppfylli hún ekki nefnd skilyrði kunna úrskurðir kærunefndar í málum þeirra, dags. 13. apríl 2022, að verða framkvæmdarhæfir.


 

Úrskurðarorð:

 

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

The appellant’s request to re-examine the case is denied.

Réttaráhrifum úrskurða kærunefndar útlendingamála í málum kærenda, dags. 20. október 2022, er frestað á meðan kærendur reka mál sín fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegum ákvörðunum í málum sínum á stjórnsýslustigi. Frestun réttaráhrifa úrskurðanna eru bundin því skilyrði að kærendur beri málin undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar þessarar og óski eftir flýtimeðferð. Sé beiðni um flýtimeðferð synjað skal þá höfðað mál innan sjö daga frá þeirri synjun.

The legal effects of the decisions of the appeals board in the cases of the applicants, dated 20 October 2022, are suspended during the time that the applicants’ legal proceedings for the annulment of the final administrative decisions in the applicants‘ cases are under way. The suspension of legal effects is subject to the condition that the applicants bring the cases to court within five days of the date of the notification of this decision and request accelerated procedures. If the requests for accelerated procedure are denied the applicants shall initiate legal proceedings before a court within seven days of that denial.

 

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

 

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                              Sandra Hlíf Ocares


 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta