Nr. 678/2023 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Hinn 15. nóvember 2023 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 678/2023
í stjórnsýslumáli nr. KNU23070122
Kæra [...]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Hinn 23. júlí 2023 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Indlands ( hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 7. júlí 2023, um að synja umsókn hennar um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar, sbr. 70. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.
Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og fallist verði á beiðni hennar um dvalarleyfi á Íslandi.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
Lagagrundvöllur
Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi hefur aldrei haft dvalarleyfi hér á landi. Samkvæmt gögnum málsins gekk hún í hjúskap með íslenskum ríkisborgara [...] og lagði fram umsókn um dvalarleyfi á grundvelli hjúskaparins, dags. 14. mars 2022.
Við meðferð umsóknarinnar kom í ljós að hluti fylgigagna með umsókn væru ekki í samræmi við fyrirmyndir skjala frá heimaríki. Með bréfi, dags. 28. febrúar 2023, óskaði Útlendingastofnun eftir því að lögreglan á Suðurnesjum framkvæmdi áreiðanleikakönnun á umræddum skjölum. Samkvæmt áreiðanleikakönnun, dags. 25. maí 2023, var hjúskaparvottorð kæranda metið ótraustvekjandi hvort tveggja hvað varðar skjalið sjálft og innihald þess. Þar að auki lagði kærandi ekki fram gögn sem sýndu fram á trausta framfærslu né sjúkratryggingu. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 7. júlí 2023, var umsókn kæranda því synjað með vísan til 70. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. mgr. 52. gr. og a-lið 1. mgr. 55. gr. sömu laga. Ákvörðun Útlendingastofnunar var birt kæranda 11. júlí 2023. Hinn 23. júlí 2023 kærði kærandi ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála. Meðal fylgigagna sem lögð voru fram á kærustigi eru staðfesting á sjúkrakostnaðartryggingu, hjúskaparstöðuvottorð maka kæranda, útgefið af Þjóðskrá Íslands, auk hjúskaparvottorðs kæranda, stimpluðu af indverska sendiráðinu á Íslandi.
Við meðferð málsins sendi kærunefnd útlendingamála Þjóðskrá Íslands tölvubréf, dags. 20. október 2023, og óskaði eftir skýringum um skráningu og viðurkenningu hjúskapar, með vísan til 25. gr. a. hjúskaparlaga. Með fyrirspurninni vildi kærunefnd varpa ljósi á það hvaða mat væri lagt á fylgigögn með skráningu, hvaða tilvik féllu undir þau atriði sem nefnd eru í 3. mgr. 25. gr. a., svo og hversu mikið þyrfti að koma til svo að 4. mgr. 25. gr. a. myndi virkjast. Með tölvubréfi, dags. 6. nóvember 2023, barst svar Þjóðskrár við fyrirspurn kærunefndar. Er þar í fyrsta lagi vísað til 18. gr. laga um skráningu einstaklinga nr. 140/2019 þar sem fram kemur í 1. mgr. að Þjóðskrá Íslands leggi mat á skjöl sem framvísað er vegna skráningar. Skjöl skulu vera í frumriti eða ljósrit þeirra staðfest, og getur Þjóðskrá krafist þess að löggiltar þýðingar skjala skuli lagðar fram. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins getur Þjóðskrá krafist þess að staðfesting yfirvalds á gildi erlendra skjala eða vottorða sé lögð fram. Í athugasemdum í frumvarpi því er varð að lögum nr. 140/2019 er áréttað að veigamiklir hagsmunir geti verið fyrir hendi þegar um er að ræða skráningu í þjóðskrá, og því þykir rétt að gera nokkuð ríkar kröfur til þeirra gagna sem lögð eru fram sem grundvöllur fyrir skráningu í þjóðskrá. Vegna 3. mgr. 25. gr. a. hjúskaparlaga vísar Þjóðskrá til þess að lagt sé mat á það hvort uppfyllt séu hjónavígsluskilyrði, sbr. II. kafla hjúskaparlaga. Vegna 4. mgr. 25. gr. a. hjúskaparlaga vísar Þjóðskrá til þess að meginreglan sé sú að reglur um stofnun hjúskapar í vígslulandinu þurfi að vera uppfyllt. Samkvæmt athugasemdum í frumvarpi því er varð að breytingalögum nr. 40/2022, er meginreglan áréttuð en tekið fram að ekki þyki rétt að Þjóðskrá ákveði að hvaða marki ber að víkja frá meginreglunni. Í ljósi þess er það lagt fyrir sýslumann að meta hvort hjúskapur brjóti í bága við grunnreglur íslenskrar réttarskipunar eða allsherjarreglu. Samkvæmt Þjóðskrá Íslands hefur [...] málum verið beint til sýslumanns á þessu ári, en í öllum tilvikum var um að ræða hjúskap þar sem annar aðilar eða báðir voru yngri en 18 ára þegar vígsla fór fram.
III. Málsástæður og rök kæranda
Í kæru sinni vísar kærandi til þess að hún hafi gifst maka sínum í heimaríki og vísar til þess að form skjala séu ólík á milli ríkja. Kærandi hafi nú lagt fram hjúskaparstöðuvottorð maka síns, dags. 20. júlí 2023, útgefið af Þjóðskrá Íslands, en af skjalinu megi ráða að hjúskapur þeirra hafi verið viðurkenndur af íslenskum stjórnvöldum. Með vísan til hinna nýju gagna telur kærandi nauðsynlegt að fá endurskoðun á máli sínu fyrir íslenskum stjórnvöldum.
IV. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Í 1. og 2. mgr. 55. gr. laga um útlendinga kemur fram að heimilt er að veita útlendingi dvalarleyfi í samræmi við ákvæði VI.-IX. kafla samkvæmt umsókn, séu grunnskilyrði uppfyllt og að tilgangur dvalar sé í samræmi við það dvalarleyfi sem sótt er um. Í 70. gr. laga um útlendinga er fjallað um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar eða sambúðar. Í 1. mgr. ákvæðisins segir að heimilt sé að veita útlendingi dvalarleyfi hér á landi hyggist hann flytjast hingað til lands til að búa með maka sínum eða sambúðarmaka. Skilyrði þess er að makinn hafi rétt til fjölskyldusameiningar samkvæmt VIII. kafla laga um útlendinga og hann sé annaðhvort í hjúskap eða sambúð, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 70. gr. laganna. Samkvæmt 1. málsl. 69. gr. laga um útlendinga getur nánasti aðstandandi íslensks ríkisborgara sem er með fasta búsetu hér á landi eða útlendings sem dvelst hér á landi á grundvelli dvalarleyfis samkvæmt 61.-65. 70., 73., 74. og 78. gr. eða ótímabundins dvalarleyfis samkvæmt 58. gr. með umsókn fengið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar að fullnægðum skilyrðum 55. gr. og VIII. kafla.
Samkvæmt 2. mgr. 52. gr. laga um útlendinga skulu umsókn um dvalarleyfi fylgja öll þau gögn og vottorð sem Útlendingastofnun gerir kröfu um til staðfestingar á að umsækjandi uppfylli skilyrði laga, reglugerðar og annarra stjórnvaldsfyrirmæla. 2. mgr. 52. gr. laga um útlendinga er útfærð með nánari hætti í 10. gr. reglugerðar um útlendinga, sbr. 3. mgr. 52. gr. laga um útlendinga. Í 6. málsl. 3. mgr. 10. gr. reglugerðar um útlendinga er mælt fyrir um heimild Útlendingastofnunar til þess að framsenda gögn til annarra stjórnvalda til staðfestingar.
Á grundvelli 1. mgr. 25. gr. a. hjúskaparlaga nr. 31/1993, sbr. 6. gr. breytingalaga nr. 40/2022, geta hjón sem hafa gengið í hjúskap erlendis fengið hjúskapinn skráðan og viðurkenndan á Íslandi. Skilyrði þess eru að hjónavígsluskilyrði og reglur um stofnun hjúskapar í vígslulandinu séu uppfyllt. Fjallar 2. mgr. ákvæðisins um svonefnd barnabrúðkaup, þar sem annað eða bæði hjóna voru yngri en 18 ára þegar vígsla fór fram. Samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins verður hjúskapur sem brýtur í bága við grunnreglur íslenskrar réttarskipunar eða allsherjarreglu ekki viðurkenndur hér á landi. Í 4. mgr. kemur fram að hjón sem óska viðurkenningar og skráningar á hjónavígslu sem hefur farið fram erlendis skulu beina erindi sínu til Þjóðskrár Íslands. Ef vafi leikur á því hvort skilyrði skráningar hjónavígslunnar skv. 2. og 3. mgr. ákvæðisins séu uppfyllt skal Þjóðskrá Íslands beina máli til sýslumanns sem úrskurðar um skráningu hjónavígslu.
Líkt og þegar hefur komið fram lagði kærandi fram hjá kærunefnd hjúskaparstöðuvottorð maka síns, dags. 20. júlí 2023. Samkvæmt vottorðinu er hjúskapur þeirra, dags. 25. janúar 2022, skráður í Þjóðskrá Íslands, sbr. 1. mgr. 25. gr. a. hjúskaparlaga. Vegna framangreinds óskaði kærunefnd eftir tilteknum upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands um framkvæmd og aðdraganda skráningar, einkum varðandi mat á skjölum og hjúskap sem brýtur í bága við grunnreglur íslenskrar réttarskipunar eða allsherjarreglu. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands, dags. 6. nóvember 2023, tekur stofnunin til skoðunar hvort að hjónavígsluskilyrði, sbr. II. kafli hjúskaparlaga, séu uppfyllt við mat á grunnreglum íslenskrar réttarskipunar eða allsherjarreglu. Þar að auki er sérstaklega kveðið á um svonefnd barnabrúðkaup í 2. mgr. 25. gr. a. hjúskaparlaga. Í gögnum málsins er ekkert sem bendir til þess að kærandi eða maki hennar hafi verið undir 18 ára aldri þegar vígsla þeirra fór fram. Þá bendir skráning hjónavígslunnar til þess að könnun Þjóðskrár Íslands hafi ekki leitt annað í ljós en að hjónavígsluskilyrði hafi verið uppfyllt að öðru leyti.
Ljóst er að skráning hjúskaparins í Þjóðskrá Íslands hefur réttarskipandi áhrif á kæranda og maka hennar, m.a. m.t.t. hjúskaparlaga, erfðalaga nr. 8/1962, og eftir atvikum annarra laga. Þrátt fyrir það skal ekki ályktað að hjúskapurinn skapi rétt til dvalarleyfis, þegar af þeirri ástæðu að hann hafi verið skráður í Þjóðskrá Íslands, enda ljóst að ákvörðunarvald hvílir hjá valdbærum stjórnvöldum, sbr. til hliðsjónar 1. málsl. 1. mgr. 52. gr. og 1. mgr. 6. gr. laga um útlendinga. Í ljósi framangreinds lítur kærunefnd ekki svo á að innihald umrædds hjúskaparstöðuvottorðs valdi því sjálfkrafa að ákvörðun Útlendingastofnunar skuli felld úr gildi.
Samkvæmt gögnum málsins eru hjónavígslugögn sem lögð voru fram vegna umsóknar kæranda ekki í samræmi við fyrirmyndir. Óskaði Útlendingastofnun því eftir því við lögregluna á Suðurnesjum, að áreiðanleikakönnun færi fram á hjónavígslugögnum kæranda, með tilliti til hugsanlegrar fölsunar, sbr. bréf stofnunarinnar, dags. 28. febrúar 2023. Skjalarannsóknarskýrsla skilríkjarannsóknarstofu lögreglunnar á Suðurnesjum, dags. 25. maí 2023, fjallar um fjögur skjöl. Um er að ræða hjúskaparvottorð, dags. 17. febrúar 2023, tvær yfirlýsingar, báðar dags. 18. júlí 2022, og staðfestingarvottorð, dags. 10. ágúst 2022. Hvert um sig eru skjölin rannsökuð, m.a. m.t.t. gæða pappírs, prenttækni, tegunda stimpla, texta o.fl. Samkvæmt ályktun skýrsluhöfunda er hjúskaparvottorðið ótraustvekjandi, bæði hvað varðar skjalið sjálft og innihald þess. Staðfestingarvottorðið er að forminu til ótraust en skýrsluhöfundar fullyrða ekkert um innihaldið. Yfirlýsingarnar eru báðar ótraustvekjandi, hvort tveggja er varðar innihald og skjölin sjálf. Skjalarannsóknarskýrslan tilgreinir ályktunarskala sem hún byggist á en skalinn inniheldur 7 möguleika, allt frá ófölsuðu skjali og til falsaðs skjals. Samkvæmt efni skýrslunnar falla þrjú skjöl í 5. tölul. skalans, þ.e. að bæði skjal og innihald sé ótraustvekjandi en eitt skjal fellur undir 4. tölul., þ.e. að skjalið sé ótraust að forminu til, en ekkert verður fullyrt um innihaldið. Dregur kærunefnd innihald skjalarannsóknarskýrslunnar ekki í efa.
Samkvæmt bréfi, dags. 8. júní 2023, var kæranda veittur 15 daga frestur til þess að leggja fram andmæli vegna skjalarannsóknarskýrslunnar. Í bréfinu var enn fremur tekið fram að kærandi hefði ekki lagt fram gögn sem sýndu fram á örugga framfærslu og sjúkratryggingu sbr. a-lið 1. mgr. 55. gr. sbr. og 56. gr. laga um útlendinga. Í ákvörðun Útlendingastofnunar er tekið fram að kærandi hafi lagt fram sama hjúskaparvottorð og áður, að viðbættum stimpli frá sendiráði Indlands í Reykjavík. Gögn málsins bera ekki með sér að kærandi hafi andmælt skjalarannsóknarskýrslunni að öðru leyti. Ákvörðun Útlendingastofnunar tekur einnig mið af skilyrðum hvað varðar framfærslu og sjúkratryggingu. Hvað hjónavígslugögnin varðar kemst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að ekki er unnt að byggja dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar á hjúskaparvottorði sem haldið er slíkum annmarka og fram kemur í skjalarannsókn lögreglu.
Meðal fylgigagna sem lögð voru fram samhliða kæru eru staðfesting á sjúkrakostnaðartryggingu, hjúskaparstöðuvottorð maka kæranda, útgefið af Þjóðskrá Íslands, ásamt hjúskaparvottorði sem stimplað er af indverska sendiráðinu á Íslandi. Líkt og þegar hefur komið fram aflaði kærunefnd upplýsinga frá Þjóðskrá Íslands varðandi framkvæmd og aðdraganda skráningar og viðurkenningar á erlendum hjónavígslum sbr. 25. gr. a. hjúskaparlaga. Meðal atriða sem lögð voru fyrir Þjóðskrá Íslands var hvaða mat færi fram á skjölum, m.t.t. hugsanlegrar fölsunar en í svörum stofnunarinnar má einkum finna tilvísun til 18. gr. laga um skráningu einstaklinga nr. 140/2019. Eins og málsatvik og gögn málsins liggja fyrir í máli kæranda telur kærunefnd svör Þjóðskrár Íslands ekki til þess fallin að hrinda þeirri ítarlegu rannsókn sem fram fór á skjölum kæranda hjá lögreglunni á Suðurnesjum. Í ljósi framangreinds er það mat kærunefndar að þrátt fyrir skráningu hjúskaparins í Þjóðskrá Íslands, standi skjalarannsóknarskýrsla lögreglu um hjónavígsluskjöl kæranda, og innihald þeirra eftir því sem við á, óhögguð. Hjúskaparvottorð kæranda, með nýjum stimpli indverska sendiráðsins á Íslandi, var lagt fram við meðferð málsins, hvort tveggja hjá Útlendingastofnun og hjá kærunefnd. Um sama skjal er að ræða og áður hefur verið lagt fram, að viðbættum stimplinum. Í ákvörðun Útlendingastofnunar er vísað til áreiðanleikakönnunar lögreglu hvað varðar gildi hjúskaparvottorðsins. Má álykta af umfjöllun stofnunarinnar að hinn nýi stimpill hafi ekki haggað skýrslu lögreglu, enda um sama skjalið að ræða.
Með vísan til framangreinds er það mat kærunefndar að skjöl sem kærandi lagði fram til sönnunar á þeim fjölskyldutengslum sem dvalarleyfisumsókn grundvallast á, sbr. 70. gr. laga um útlendinga, séu ekki áreiðanleg, og geta ekki verið grundvöllur dvalarleyfis sbr. 2. mgr. 52. gr. laga um útlendinga. Þar að auki hefur kærandi ekki sýnt fram á trygga framfærslu sbr. a-lið 1. mgr. 55. gr. sbr. og 56. gr. laga um útlendinga, hvorki við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun né á kærustigi, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir, síðast með bréfi, dags. 8. júní 2023.
Að öllu framangreindu virtu verður ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest.
Hinn 15. desember 2022 voru samþykkt lög um landamæri nr. 136/2022 á Alþingi þar sem m.a. voru gerðar breytingar á 98. gr. laga um útlendinga. Var a-liður 1. mgr. 98. gr. felldur brott og orðalagi 2. mgr. ákvæðisins breytt á þann veg að svo framarlega sem 102. gr. laga um útlendinga eigi ekki við skuli vísa útlendingi úr landi sem dveljist ólöglega í landinu eða þegar tekin hafi verið ákvörðun sem bindi enda á heimild útlendings til dvalar í landinu. Í frumvarpi því er síðar varð að lögum um landamæri kemur fram að lagt sé til í 2. tölul. e-liðar 25. gr. laga um landamæri að 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga verði breytt þannig að lögin verði í samræmi við brottvísunartilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2008/115/EB og kveði skýrt á um að stjórnvöld skuli vísa brott útlendingum sem dveljist hér á landi án heimildar. Þannig skuli útlendingum sem dveljast hér á landi án heimildar vísað brott og í kjölfarið veittur frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugir. Þannig verði breyting á ákvörðunum er lúta að ákvörðun um umsóknir um dvalarleyfi og alþjóðlega vernd hér á landi.
Í ákvörðun Útlendingastofnunar er tekið fram að kærandi sé ekki stödd á landinu. Ljóst er af gögnum málsins að kæranda var veitt vegabréfsáritun til Íslands í mars 2023, þá kom hún í afgreiðslu Útlendingastofnunar 20. október 2023 og í afgreiðslu kærunefndar Útlendingamála í lok október 2023. Benda gögn málsins því til að kærandi sé stödd hér á landi. Þar sem Útlendingastofnun fjallaði ekki um brottvísun kæranda í ákvörðun sinni verður ekki úrskurðað um brottvísun hennar samkvæmt ákvæðinu að svo stöddu. Í ljósi þess að engar leiðbeiningar fylgdu um heimild kæranda til dvalar er henni veittur 30 daga frestur frá móttöku úrskurðar þessa til þess að yfirgefa landið, sem er hámarksfrestur sbr. 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Að öðrum kosti skal Útlendingastofnun taka ákvörðun um brottvísun hennar frá landinu og ákveða henni endurkomubann til Íslands og Schengen-svæðisins.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.
Valgerður María Sigurðardóttir
Gunnar Páll Baldvinsson Sandra Hlíf Ocares