Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 40/2014

Mánudaginn 29. apríl 2014


A

gegn

skipuðum umsjónarmanni B hdl.

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Lára Sverrisdóttir og Arndís Anna K. Gunnarsdóttir.

Þann 10. apríl 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun skipaðs umsjónarmanns, B héraðsdómslögmanns, sem tilkynnt var með bréfi 19. mars 2014, þar sem umsjónarmaður mælir gegn því að nauðasamningur og greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna komist á með vísan til 18. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.).

I. Málsatvik

Umboðsmaður skuldara samþykkti umsókn kæranda um greiðsluaðlögun 22. mars 2012. Þann 27. mars 2012 var B hdl. skipuð umsjónarmaður með greiðsluaðlögunarumleitunum kæranda. Tímabundin frestun greiðslna hófst hjá kæranda 30. júní 2011 þegar umboðsmanni skuldara barst umsókn hennar.

Frumvarp að greiðsluaðlögunarsamningi var í fyrra sinn sent kröfuhöfum 25. nóvember 2013. Kröfuhafar mótmæltu frumvarpinu sem var síðan breytt og lagt fyrir kröfuhafa að nýju 13. desember 2013. Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda gerði athugasemdir við frumvarpið 16. desember 2013 þess efnis að kærandi hefði safnað skuldum í greiðsluskjóli. Tollstjórinn í Reykjavík gerði sömuleiðis athugasemdir við frumvarpið 17. desember 2013 vegna skuldasöfnunar kæranda. Íslandsbanki, Landsbanki, Arion banki og Íbúðalánasjóður mótmæltu, höfnuðu eða gerðu fyrirvara við frumvarpið.

Umsjónarmaður upplýsti kæranda um mótmæli kröfuhafa og óskaði meðal annars eftir skýringum hennar á því að sparnaður væri ekki hærri en raun bar vitni. Svör kæranda bárust umsjónarmanni 6. febrúar 2014 sem bar þau undir kröfuhafa. Arion banki hafnaði frumvarpinu 13. febrúar 2014.

Kærandi lýsti því yfir við fulltrúa umsjónarmanns 18. mars 2014 að hún vildi leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar og greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

Umsjónarmaður tilkynnti kæranda með bréfi 19. mars 2014 ákvörðun sína um að mæla gegn nauðasamningi til greiðsluaðlögunar og greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna á grundvelli 1. mgr. 18. gr. lge., sbr. a- og d-liði 1. mgr. 12. gr. lge.

II. Sjónarmið skipaðs umsjónarmanns

Í ákvörðun umsjónarmanns kemur fram að við mat á því hvort mælt sé með því að nauðasamningur til greiðsluaðlögunar eða að tímabundin greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna komist á skuli umsjónarmaður meðal annars líta til þess hvort nokkuð hafi komið fram sem í öndverðu hefði átt að standa í vegi greiðsluaðlögunar, hvort skuldari leiti eftirgjafar umfram það sem eðlilegt megi telja í ljósi fjárhags hans og framtíðarhorfa, hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum samkvæmt 12. gr. lge. og staðið að öðru leyti heiðarlega að verki við umleitanir til greiðsluaðlögunar, hvort raunhæft sé að skuldari muni geta staðið við skuldbindingar sínar að fenginni greiðsluaðlögun og hvert sé viðhorf þeirra lánardrottna sem látið hafa umleitanir til sín taka, sbr. 1. mgr. 18. gr. lge.

Samkvæmt upplýsingum frá Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda séu vanskil kæranda á iðgjöldum samtals 410.588 krónur. Samkvæmt upplýsingum frá Tollstjóranum í Reykjavík séu vanskil vegna opinberra gjalda, staðgreiðslu og tryggingagjalds samtals 523.000 krónur. Uppsafnaðar skuldir kæranda á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana séu því 933.588 krónur. Kærandi hafi ekki upplýst umsjónarmann um framangreindar kröfur en borið því við að hún hafi talið að sér bæri ekki að greiða þær. Þá hafi hún vísað til þess að hún hefði samið við embætti tollstjóra um greiðslu vanskila.

Í d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. sé kveðið á um að á meðan leitað sé greiðsluaðlögunar skuli skuldari ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna nema til skuldbindingar hafi verið stofnað til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða. Kærandi hafi stofnað til skulda að fjárhæð 933.588 krónur á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana. Að mati umsjónarmanns sé skuldasöfnun kæranda brot á d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Samkomulag kæranda við embætti tollstjóra frá því í nóvember 2013 um greiðslu 15.000 króna á mánuði breyti engu um brot kæranda og framangreinda niðurstöðu.

Í frumvarpi um samning til greiðsluaðlögunar, sem unnið hafi verið í samráði við kæranda, hafi verið gert ráð fyrir að mánaðarleg greiðslugeta hennar væri 155.000 krónur. Kærandi hafi notið tímabundinnar frestunar greiðslna frá 30. júní 2011 þegar umsókn hennar um heimild til að leita greiðsluaðlögunar var móttekin eða í um 32 mánuði. Miðað við framangreinda greiðslugetu geri hámarksáætlun ráð fyrir að kærandi hefði á þessu tímabili átt að geta lagt fyrir samtals 4.960.000 krónur. Sparnaður hennar hafi ekki numið nema 400.000 krónum. Skýringar kæranda hafi verið þær að hún hefði ekki haft fé til að leggja til hliðar.

Jafnvel þótt framangreind hámarksáætlun kunni að gera strangar kröfur til kæranda sé ljóst að sparnaður hennar að fjárhæð 400.000 krónur sé langt frá því sem vænta mátti miðað við greiðslugetu hennar á 32 mánaða tímabili. Þannig sé til að mynda ljóst að þótt aðeins væri gerð krafa um helming af framangreindri fjárhæð eða 2.480.000 krónur sé sparnaður kæranda fjarri þeirri fjárhæð. Að mati umsjónarmanns sé ljóst að kærandi hafi ekki staðið við skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. um að leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem hafi verið umfram það sem hún þurfti til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Með frumvarpi til greiðsluaðlögunar 13. desember 2012 hafi kærandi boðist til að standa við mánaðarlega greiðslu til kröfuhafa að fjárhæð 155.000 krónur í 24 mánuði. Í ljósi þess að kærandi stóð ekki við skyldu sína til að leggja til hliðar fé á 32 mánaða tímabili greiðsluskjóls og með vísan til skuldasöfnunar kæranda á sama tímabili, sé það mat umsjónarmanns að óraunhæft sé að kærandi geti staðið við skuldbindingar sínar að fenginni greiðsluaðlögun. Mæli það gegn því að nauðasamningur og greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna komist á. Þá hafi kröfuhafar tekið afstöðu gegn frumvarpi til greiðsluaðlögunar kæranda og gert ýmsar athugasemdir við það.

Að öllu framangreindu virtu hafi það verið niðurstaða umsjónarmanns að mæla gegn því að nauðasamningur og greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna kæmust á fyrir kæranda.

III. Sjónarmið kæranda

Engar kröfur eru settar fram í málinu en skilja verður málatilbúnað kæranda á þann veg að þess sé krafist að ákvörðun umsjónarmanns verði felld úr gildi.

Fram kemur í kæru að gjaldeyriskaup kæranda að fjárhæð 150.000 krónur hafi verið gerð fyrir hönd sonar hennar. Hann hafi boðið kæranda til útlanda og hafi gjaldeyrinn verið greiddur með peningum hans. Til sé staðfesting fyrir því að hann hafi greitt farmiða kæranda.

Varðandi sparnað á tímabilinu telji kærandi að ekki hafi verið mögulegt fyrir sig að leggja peninga til hliðar þar sem hún hafi ekki haft leigutekjur af íbúð sinni að C götu nr.  24 í sveitarfélaginu D. Íbúðinni hafi ekki verið viðhaldið í mörg ár og hún verið illa farin sökum aldurs. Fyrrverandi eiginmaður kæranda hafi gert upp íbúðina og hafi hann lagt fram töluverða vinnu og lagt út fyrir kostnaði en það hafi verið ígildi leigutekna. Að öðrum kosti hefði íbúðin staðið tóm þar sem hún hafi verið ónothæf til útleigu.

Kærandi kveðst hafa misst son sinn í slysi árið 2011 og í kjölfarið hafi henni verið erfitt að sjá um marga einfalda hluti. Á þessum tíma hafi hún verið í greiðsluskjóli. Það hafi tekið óþægilega langan tíma að afgreiða mál kæranda á lögmannsstofu umsjónarmanns. Jafnframt hafi margir lögfræðingar komið að málinu hjá lögmannsstofunni og margt skolast til. Fyrrverandi eiginmaður kæranda hafi til dæmis látið starfsmann hjá lögmannsstofunni vita að til væri einhver sparnaður sem hann myndi persónulega leggja fram fyrir kæranda en það hefði hugsanlega getað verið grundvöllur samnings. Að mati kæranda hafi leiðbeiningar ekki veittar að frumkvæði umsjónarmanns.

Að sögn kæranda séu hún og fyrrverandi eiginmaður hennar staðráðin í að halda fasteign sinni að C götu nr. 24 og það sé öllum til hagsbóta að á komist greiðsluaðlögunarsamningur. Það geti vart talist til hagsbóta fyrir kæranda að þurfa að leigja húsnæði fyrir 180.000 krónur á mánuði ef mögulegt sé að halda fasteigninni.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun skipaðs umsjónarmanns byggist á 18. gr. lge. Í 1. mgr. lagagreinarinnar er kveðið á um að hafi samningur um greiðsluaðlögun samkvæmt ákvæðum IV. kafla laganna ekki tekist þá geti skuldari lýst yfir við umsjónarmann að hann vilji leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar eða greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði. Við mat umsjónarmanns á því hvort mælt sé með að samningur komist á skal umsjónarmaður meðal annars líta til þess hvort nokkuð hafi komið fram sem í öndverðu hefði átt að standa í vegi greiðsluaðlögunar, hvort skuldari leiti eftirgjafar umfram það sem eðlilegt megi telja í ljósi fjárhags hans og framtíðarhorfa, hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum samkvæmt 12. gr. laganna og staðið að öðru leyti heiðarlega að verki við umleitanir til greiðsluaðlögunar, hvort raunhæft sé að hann muni geta staðið við skuldbindingar sínar að fenginni greiðsluaðlögun og hvert sé viðhorf þeirra lánardrottna sem látið hafa umleitanir til greiðsluaðlögunar til sín taka.

Ákvörðun umsjónarmanns um að mæla gegn því að nauðasamningur komist á byggist meðal annars á því að kærandi hafi ekki staðið við skyldur sínar á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt 12. gr. lge. skal skuldari haga fjármálum sínum með ákveðnum hætti meðan leitað er greiðsluaðlögunar. Í a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. kemur fram að á meðan skuldari leitar greiðsluaðlögunar skuli hann leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Jafnframt kemur fram í d-lið að skuldari skuli ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna nema skuldbinding sem stofnað sé til sé nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða.

Samkvæmt útreikningum umsjónarmanns hefði kærandi frá því hún sótti um heimild til greiðsluaðlögunar 30. júní 2011 átt að geta lagt fyrir 155.000 krónur á mánuði í 32 mánuði, samtals 4.960.000 krónur. Að sögn kæranda hefur hún lagt fyrir 400.000 krónur á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana. Fram kemur í kæru að kæranda hafi ekki verið mögulegt að leggja meira til hliðar þar sem hún hafi í greiðsluskjóli ekki haft leigutekjur af íbúð sinni á þeim tíma og hún hafi sjálf þurft að leigja íbúð meðan viðgerðir á íbúð hennar stóðu yfir. Fram kemur í kæru að kærandi leigi nú út fasteign sína að C götu nr. 24. Miðað við röksemdir kæranda verður að líta svo á að hún hafi nýtt talsverðan hluta þeirra fjármuna sem lagðir voru til hliðar af launum og öðrum tekjum til greiðslu húsaleigu á meðan fyrrverandi eiginmaður hennar bjó í fasteign hennar.

Samkvæmt því og með vísan til þess sem kærandi heldur fram í kæru voru fjármunir umfram framfærslu nýttir til greiðslu húsaleigu. Miðað við útreikning umsjónarmanns vantar rúmlega 4.500.000 krónur upp á sparnað kæranda. Samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum 1. mgr. 12. gr. lge. var kæranda í fyrsta lagi skylt að leggja til hliðar það fé sem var umfram framfærslu og í öðru lagi var henni skylt að stofna ekki til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna. Telja verður að kærandi hafi skaðað hagsmuni lánardrottna með því að láta öðrum í té endurgjaldslaus afnot af fasteign hennar og á sama tíma tekið á leigu annað húsnæði sem hún þurfti að greiða fyrir. Kærandi hefur að mati kærunefndarinnar ekki sýnt fram á nauðsyn þess að stofna til þessara fjárútláta. Með þessu þykir kærandi hafa brotið gegn fyrirmælum a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Ber með vísan til þessa að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun skipaðs umsjónarmanns, B hdl., um að mæla gegn nauðasamningi til greiðsluaðlögunar og greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna A er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta