Mál nr. 157/2012
Mánudaginn 5. maí 2014
A
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.
Þann 8. ágúst 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 9. júlí 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.
Með bréfi 13. ágúst 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara og barst hún með bréfi 4. september 2012. Greinargerð umboðsmanns var send kæranda með bréfi 5. september 2012 þar sem honum var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við greinargerðina. Greinargerð kæranda barst 9. október 2012.
I. Málsatvik
Kærandi er fæddur 1982. Hann býr ásamt sambýliskonu sinni og syni í eigin húsnæði að B götu nr. 17 í sveitarfélaginu C.
Kærandi er S-starfsmaður. Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur hans nema 409.256 krónum á mánuði. Einnig fékk hann sérstaka vaxtaniðurgreiðslu á árinu 2012 að fjárhæð 4.836 krónur á mánuði.
Að mati kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hans til íbúðarkaupa á árinu 2010 Kærandi kveðst hafa farið út í nám árið 2002 en af óviðráðanlegum orsökum hafi hann þurft að hætta námi. Lán sem kærandi tók til að standa undir framfærslu- og námskostnaði hafi í kjölfarið farið í vanskil. Þá hafi kærandi þurft að skuldsetja sig þegar hann missti starf sitt árið 2003 vegna umferðarslyss. Nú hafi öll lán hækkað vegna verðtryggingar og að sögn kæranda er nú svo komið að hann sjái ekki fram á að geta staðið við skuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð ásamt því að reka heimili.
Heildarskuldir kæranda samkvæmt gögnum málsins eru 28.745.250 krónur og falla þær allar innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).
Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 30. júní 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 9. júlí 2012 var umsókn hans hafnað með vísan til a-liðar 1. mgr. 6. gr. lge., sbr. 1. og 2. mgr. 2. gr. laganna.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi krefst þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi, henni snúið við eða að málið verði sent aftur til umboðsmanns skuldara til afgreiðslu.
Í kæru kveðst kærandi telja að ekki hafi verið litið til þess rökstuðnings sem fram hafi komið bæði í umsókn hans og andmælabréfi sem sent var umboðsmanni skuldara. Einnig líti kærandi svo á að umboðsmaður skuldara hafi túlkað lge. á rangan hátt og hafi það orðið til þess að umsókn hans var synjað.
Í greinargerð kæranda segir að umboðsmaður skuldara gangi út frá því að kærandi hafi 414.092 krónur í ráðstöfunartekjur á mánuði og að árið 2011 hafi ráðstöfunartekjur numið 576.000 krónum á mánuði. Kærandi vísar til þess að sambýliskona hans sé í sumarstarfi með um 130.000 krónur í laun á mánuði en hún sé annars í háskóla og fái námslán. Kærandi mótmælir því að umboðsmaður skuldara miði við framangreindar launatölur þar sem laun hans á síðustu árum endurspegli ekki framtíðartekjur hans. Telur kærandi að í fyrirsjáanlegri framtíð muni hann aðeins hafa um 296.000 krónur fyrir frádrátt skatts auk 35 fastra yfirvinnutíma. Einungis hafi verið samið um þá yfirvinnu til áramóta 2012/2013 en ekki sé fyrirséð að um hana verði samið áfram. Þau laun sem kærandi hafi fengið aukalega og umboðsmaður skuldara miði við séu vegna mikillar aukavinnu sem kærandi hafi unnið. Hann sjái ekki fram á að geta unnið svo mikla aukavinnu um fyrirsjáanlega framtíð þar sem ekki sé sjálfsagt að honum bjóðist aukavinna auk þess sem slíkri vinnu fylgi streita og álag. Kærandi bendir á að hann hafi nú eignast barn og vilji eyða sem mestum tíma með fjölskyldu sinni. Það sé mat hans að hann geti ekki staðið við fjárskuldbindingar sínar næstu árin nema með því að vera í burtu frá fjölskyldu sinni og hætta bæði andlegri og líkamlegri heilsu sinni til þess að eiga um 20.000 krónur í afgang um hver mánaðamót.
Kærandi telur ekki sanngjarnt að honum skuli neitað um aðstoð sem hann hefði ella fengið hefði hann ekki reynt að standa við skuldbindingar sínar með mikilli vinnu. Þá þyki honum ekki tækt að neita manni um greiðsluaðlögun sem skuldi tíu milljónir króna umfram eignir. Maður í þeirri stöðu þurfi að hafa verulega há laun í hverjum mánuði um langa framtíð.
Gerir kærandi kröfu um að farið verði yfir mál hans með framangreint í huga og einnig stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands um greiðslu- og skuldavanda heimilanna.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Umboðsmaður skuldara gerir kröfu um að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna.
Í greinargerð umboðsmanns segir að við mat á umsókn um greiðsluaðlögun beri embættinu að líta til þeirra aðstæðna sem komið geti í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 6. gr. beri umboðsmanni að synja um greiðsluaðlögun sýni fyrirliggjandi gögn ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar.
Þá rekur umboðsmaður ákvæði 1. og 2. mgr. 2. gr. lge. þar sem fjárhagslegum skilyrðum til að leita greiðsluaðlögunar er lýst. Í 1. mgr. segi að einstaklingur sem sýni fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar geti leitað greiðsluaðlögunar. Í 2. mgr. sé nánari lýsing á því í hvaða tilvikum skuldari geti talist ófær um að standa við fjárskuldbindingar sínar.
Í hinni kærðu ákvörðun hafi tekjur kæranda verið bornar saman við áætlaða greiðslubyrði og framfærslukostnað. Miðað við það sem þar komi fram hafi þótt ljóst að kærandi gæti staðið við fjárskuldbindingar sínar.
Ekki verði séð að kærandi hafi sýnt fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Við meðferð málsins hafi kæranda verið boðið að leggja fram frekari gögn eða rökstuðning fyrir því að hann uppfyllti framangreind skilyrði lge. en athugasemdir kæranda hafi ekki breytt niðurstöðu embættisins.
Hafi kæranda verið bent á að greiðsluaðlögun kæmi hugsanlega ekki til álita í hans tilviki. Hafi honum verið bent á önnur úrræði sem kynnu að leysa úr tilteknum tímabundnum skuldavanda sem þó þótti ljóst að kærandi væri í. Kærandi hafi kosið að halda sig við umsókn sína um greiðsluaðlögun.
Greiðsluaðlögun sé fyrst og fremst ætluð einstaklingum sem geti ekki staðið við skuldbindingar sínar vegna varanlegra aðstæðna. Neikvæð eignastaða skuldara leiði ekki til þess að hann sé sjálfkrafa álitinn ófær um að standa við fjárskuldbindingar sínar, enda myndi slík ályktun leiða til þess að verulegur hluti ungs fólks með námsskuldir myndi falla undir þá skilgreiningu. Venjulegt verði að teljast að einstaklingar séu með neikvæða eignastöðu um nokkurt árabil á meðan engin eða lítil eignamyndun eigi sér stað vegna húsnæðisskulda og námslána.
Þau atvik sem kærandi nefni, svo sem að tímabundið muni koma til aukakostnaðar af hans hálfu þar sem sambýliskona hans hyggi á nám, geti ekki orðið til þess að kærandi teljist ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar í skilningi lge. Til þess þurfi breytingar á tekjum og aðstæðum skuldara að vera meiri og varanlegri. Til að mynda hafi tímabundin skerðing á greiðslugetu, til dæmis vegna atvinnuleysis, ekki verið talin þess eðlis að aðstæður skuldara falli undir skilgreiningu 2. mgr. 2. gr. lge.
Við meðferð málsins og í hinni kærðu ákvörðun kveður umboðsmaður embættið hafa gert athugasemd við það að kærandi hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt 12. gr. lge. þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan hann nýtur frestunar greiðslna. Í samræmi við bráðabirgðaákvæði II við lge. hafi kærandi notið frestunar greiðslna frá því hann lagði inn umsókn um greiðsluaðlögun hinn 30. júní 2011. Segir umboðsmaður þennan þátt ekki hafa haft áhrif á ákvörðunina en að hann myndi koma til skoðunar ef til þess kæmi að umboðsmaður skuldara fengi umsókn kæranda til meðferðar á ný. Í samræmi við f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. beri umboðsmanni skuldara að skoða hvort skuldari hafi staðið við skuldbindingar sínar eftir því sem honum framast var unnt við mat á því hvort óhæfilegt þyki að veita heimild til greiðsluaðlögunar.
Telur umboðsmaður ekkert hafa komið fram á síðari stigum sem breytt geti forsendum þeim sem synjun á heimild kæranda til greiðsluaðlögunar er byggð á. Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður því fram á að hún verði staðfest.
IV. Niðurstaða
Kærandi krefst þess að synjun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi. Jafnframt er farið fram á það af hálfu kæranda að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að hafna umsókn hans um greiðsluaðlögun verði snúið við eða að málið verði sent aftur til umboðsmanns skuldara til afgreiðslu.
Samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Ef umboðsmaður skuldara synjar skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar getur skuldari kært þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála samkvæmt 4. mgr. 7 gr. lge. Samkvæmt lögunum er gert ráð fyrir að samþykki umboðsmanns skuldara fylgi ákveðin réttaráhrif, sbr. 8. gr. laganna, þar sem segir að með samþykki umboðsmanns skuldara á umsókn um greiðsluaðlögun hefjist tímabil greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. og 1. mgr. 11. gr., en þar segir að þegar umboðsmaður skuldara hafi samþykkt umsókn hefjist tímabundin frestun greiðslna. Samkvæmt því gegnir umboðsmaður skuldara því hlutverki að veita heimild til greiðsluaðlögunar. Getur þar af leiðandi ekki komið til þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála samþykki slíka umsókn eða mæli fyrir um að hún skuli samþykkt. Við úrlausn málsins fyrir kærunefndinni getur því aðeins komið til þess að kærunefndin staðfesti synjun umboðsmanns skuldara á umsókn kæranda eða felli hana úr gildi og að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að taka ákvörðun að nýju. Með tilliti til þessa verður að skilja kröfugerð kæranda þannig að farið sé fram á að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að taka ákvörðun að nýju.
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um synjun byggist á a-lið 1. mgr. 6. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 2. gr. lge. Nánar tiltekið er talið að kærandi geti greitt af þeim skuldum sem falla innan greiðsluaðlögunar og því sé hann ekki ógjaldfær í skilningi lge. Í 1. mgr. 2. gr. segir að einstaklingur sem sýni fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar geti leitað greiðsluaðlögunar í samræmi við lögin. Í 2. mgr. 2. gr. segir að einstaklingur teljist ófær um að standa við fjárskuldbindingar sínar þegar ætla megi að hann geti ekki eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð með tilliti til eðlis skuldanna, eigna og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna hans að öðru leyti. Í a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. segir að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar.
Samkvæmt gögnum málsins eru skuldir kæranda eftirtaldar í krónum:
Kröfuhafi | Ár | Tegund | Upphafleg | Staða | Vanskil |
fjárhæð | 2012 | ||||
Íbúðalánasjóður | 2004 | Veðkrafa | 13.440.000 | 22.449.379 | 1.359.321 |
Arion banki hf. | Tékkareikn./Yfirdráttur | 0 | 353.142 | - | |
Arion banki hf. | Skuldabréf m/sjálfskuldaráb. | 517.000 | 206.623 | - | |
Arion banki hf. | Skuldabréf m/sjálfskuldaráb. | 1.149.999 | 1.206.460 | - | |
Tryggingamiðstöðin hf. | Bílalán | 1.220.169 | 207.700 | - | |
Tryggingamiðstöðin hf. | Tryggingar | 0 | 86.417 | - | |
Sparisjóður Vestmannaeyja | Tékkareikn./Yfirdráttur | 0 | 579.100 | - | |
Sparisjóður Vestmannaeyja | Skuldabréf m/sjálfskuldaráb. | 2.684.929 | 3.656.429 | 334.915 | |
Alls: | 19.012.097 | 28.745.250 | 1.694.236 |
Kærandi mótmælir þeirri fjárhæð ráðstöfunartekna sem umboðsmaður skuldara byggir á sem of hárri þar sem hann sjái ekki fram á að geta unnið jafn mikið í framtíðinni vegna breyttra fjölskylduaðstæðna og álags. Einnig sé óvíst að honum bjóðist svo mikil vinna áfram. Samkvæmt skattframtölum sem liggja fyrir í málinu voru nettótekjur kæranda á mánuði samtals 613.239 krónur árið 2010 samkvæmt skattframtali 2011 og samtals 576.239 krónur samkvæmt skattframtali 2012 vegna tekjuársins 2011. Samkvæmt þremur launaseðlum kæranda sem lagðir voru fram við meðferð málsins voru tekjur kæranda þá að meðaltali 409.256 krónur á mánuði, en það er sú tala sem umboðsmaður skuldara byggir á í ákvörðun sinni, að viðbættri sérstakri vaxtaniðurgreiðslu að fjárhæð 4.836 krónur á mánuði, samtals 414.092 krónur.
Við mat á því hvort einstaklingur uppfylli skilyrði 2. gr. lge. getur kærunefndin ekki miðað við aðrar ráðstöfunartekjur en þær sem kærandi hafði við umsókn um greiðsluaðlögun nema kærandi sýni ótvírætt fram á að þær muni breytast í fyrirsjáanlegri framtíð. Kærunefndin telur að það hafi kærandi ekki gert. Af þessu leiðir að þegar kærandi hefur greitt framfærslukostnað sinn og mánaðarleg útgjöld er greiðslugeta hans vegna gjaldfallinna skulda samkvæmt gögnum málsins eftirfarandi í krónum:
Mánaðarleg útborguð laun | 414.092 |
Framfærsla skv. viðmiði umboðsmanns skuldara | 144.473 |
Rafmagn, hiti og hússjóður | 9.000 |
Fasteignagjöld | 3.500 |
Tryggingar 1/2 | 4.000 |
Skóli og dagvistun ½ | 22.648 |
Útvarpsgjald | 3.133 |
Gjald í framkvæmdasjóð aldraðra | 1.530 |
Alls mánaðarleg útgjöld | 188.284 |
Mánaðarleg greiðslugeta upp í gjaldfallnar skuldir | 225.808 |
Eignir kæranda eru fasteign að B götu nr. 17 í sveitarfélaginu C og Renault Megane bifreið. Skuldir kæranda umfram eignir samkvæmt skattframtali 2012 eru 10.065.551 krónur.
Í athugasemdum með frumvarpi til lge. kemur fram að forsenda þess að umboðsmaður skuldara samþykki umsókn skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar sé sú að skuldari sé einstaklingur og ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar eða verði það um fyrirsjáanlega framtíð. Greiðsluerfiðleikar verði að hafa staðið eða vera líklegir til að standa um nokkurn tíma og lausn þeirra ekki í sjónmáli. Þegar afstaða sé tekin til þess hvort veita skuli heimild til að leita greiðsluaðlögunar þurfi að meta greiðslugetu skuldarans og möguleika hans á að standa í skilum. Hafna beri umsókn ef greiðslugeta er til staðar enda þótt eiginfjárstaða viðkomandi sé neikvæð.
Eins og áður hefur komið fram nema mánaðarlegar ráðstöfunartekjur kæranda 414.092 krónum. Samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara er áætluð greiðslubyrði lána kæranda um 187.340 krónur á mánuði. Af gögnum málsins er ekki ljóst hvernig áætluð greiðslubyrði er reiknuð út en um hana er hins vegar ekki deilt í málinu. Miðað við útreikninga umboðsmanns skuldara nema mánaðarlegar ráðstöfunartekjur kæranda því 38.468 krónum umfram framfærslukostnað og áætlaða greiðslubyrði lána sem kærunefndin telur að leggja verði til grundvallar við úrlausn málsins. Kærandi vísar til þess að hann geri ekki ráð fyrir að hafa jafn háar tekjur áfram og hann hefur haft og að við það verði að miða þegar greiðslugeta hans er metin. Eins og að framan greinir getur kærunefndin ekki miðað við aðrar ráðstöfunartekjur en þær sem kærandi hafði við umsókn um greiðsluaðlögun nema hann sýni ótvírætt fram á að þær muni breytast í fyrirsjáanlegri framtíð en kærunefndin telur að það hafi hann ekki gert.
Samkvæmt gögnum málsins hófust vanskil kæranda á lánum hans í febrúar 2011 og námu vanskilin að minnsta kosti 1.694.236 krónum þegar kærandi sótti um heimild til greiðsluaðlögunar í júní sama ár.
Við mat á því hvort kærandi eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð verður að líta til þess að almennt er gert ráð fyrir því að skuldari geti leitað annarra leiða til að aðlaga skuldbindingar sínar að slíkum aðstæðum, svo sem með greiðslufresti, öðrum skilmálabreytingum eða með greiðsluaðlögun fasteignaveðlána. Hér verður einnig að líta til þess að vanskil kæranda verða að teljast hlutfallslega lítil miðað við skuldir. Þá liggur ekki fyrir í málinu að kærandi hafi leitað annarra úrræða til að leysa úr þeim vanda sem af vanskilunum leiðir en hann verður að sýna fram á að það hafi hann gert. Greiðsluerfiðleikar kæranda teljast því ekki vera með þeim hætti að hann geti ekki eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar í skilningi 1. og 2. mgr. 2. gr. lge.
Er ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar á grundvelli a-liðar 1. mgr. 6. gr. lge., sbr. 1. og 2. mgr. 2. gr. laganna, því staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.
Sigríður Ingvarsdóttir
Arndís Anna K. Gunnarsdóttir
Lára Sverrisdóttir