Mál nr. 71/2012
Fimmtudaginn 8. maí 2014
A og B
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.
Þann 21. mars 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 13. mars 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.
Með bréfi 26. mars 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 7. maí 2012. Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 14. maí 2012 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum.
Greinargerð kærenda barst 2. ágúst 2012. Var greinargerðin send umboðsmanni skuldara til kynningar með bréfi 7. ágúst 2012 og óskað eftir afstöðu embættisins. Framhaldsgreinargerð umboðsmanns skuldara barst með bréfi 20. september 2012. Var hún send kærendum til kynningar með bréfi 21. september 2012 og þeim boðið að gera athugasemdir. Framhaldsgreinargerð kærenda barst kærunefndinni 8. október 2012.
I. Málsatvik
Kærendur eru fædd 1952 og 1956. Þau eru gift og búa í 100 fermetra leiguíbúð að C götu nr. 5c í sveitarfélaginu D.
Kærandi A starfar hjá X en kærandi B er lögmaður með eigin rekstur. Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur þeirra eru 716.040 krónur.
Að mati kærenda má rekja fjárhagserfiðleika þeirra til ábyrgðarskuldbindinga og erfiðleika í rekstri. Árið 2000 hafi fallið á kæranda B ábyrgðarskuld að fjárhæð 25.000.000 króna vegna Y ehf. en á þessum tíma hafi hann starfað sem löggiltur skipasali hjá félaginu. Starfsmaður félagsins hafi orðið uppvís að því að skila ekki vörslufé vegna bátasölu og því hafi ábyrgðin fallið á kæranda B. Árið 2006 hafi hann ásamt öðrum manni hafið rekstur fiskibáts í félaginu Z ehf. en fljótlega hafi rekstrarforsendur brostið meðal annars vegna hækkunar á verði leigukvóta. Afleiðingin hafi verið sú að hann hafi setið uppi með ábyrgðarskuldir fyrir 20‒25.000.000 króna til viðbótar. Vegna þessa hafi kærendur leitað samninga um skuldauppgjör við sinn stærsta lánardrottinn, Landsbankann. Hafi þeim lokið þannig að kærendur hafi afsalað fasteign sinni til bankans og gefið út skuldabréf fyrir 8.000.000 króna. Einnig hafi ættingjar kærenda tekið samtals 3.000.000 króna lán og greitt andvirðið til Landsbankans.
Heildarskuldir kærenda samkvæmt gögnum málsins eru 18.104.932 krónur en þar af falla 534.446 krónur utan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Innan samnings falla því skuldir að fjárhæð 18.382.896 krónur.
Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 14. apríl 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 13. mars 2012 var umsókn þeirra hafnað með vísan til a-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.
II. Sjónarmið kærenda
Þess er krafist að synjun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi. Jafnframt er þess krafist að kærunefndin mæli fyrir um að umboðsmanni skuldara sé skylt að samþykkja umsókn kærenda um greiðsluaðlögun.
Kærendur telja að fyrirliggjandi gögn sýni fram á að tekjur þeirra nú og um fyrirséða framtíð nægi þeim ekki til að geta staðið í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Gera kærendur grein fyrir því í eftirfarandi yfirliti yfir mánaðarlegar tekjur, framfærslukostnað, afborganir skulda og eignir:
Mánaðarleg útborguð laun kærenda | 716.040 |
Framfærsla skv. viðmiði umboðsmanns skuldara | 183.867 |
Húsaleiga | 145.000 |
Hússjóður | 12.105 |
Rafmagn og hiti | 5.694 |
Tryggingar | 13.455 |
Útvarpsgjald | 3.134 |
Framkvæmdasjóður aldraðra | 1.530 |
Afborganir tveggja skuldabréfa | 146.415 |
Afborgun af bílasamningi Íslandsbanka | 55.353 |
Afborganir skulda við tvo ættingja | 55.979 |
Alls mánaðarleg útgjöld: | 622.532 |
Gjaldfallin skuld við tollstjóra | 5.954.240 |
Gjaldfallin skuld vegna greiðslukorts | 654.894 |
Alls gjaldfallnar skuldir: | 6.609.134 |
* Allar fjárhæðir eru í krónum.
Eignastaða kærenda sé þessi:
Bifreið | 1.850.000 |
Bílasamningur | 1.351.785 |
Eignastaða | 498.215 |
* Allar fjárhæðir eru í krónum.
Skuldir gagnvart ættingjum segja kærendur að eigi rót sína að rekja til skuldauppgjörs kærenda við Landsbankann. Til að geta gengið að tilboði bankans um uppgjör skulda hafi þau orðið að standa skil á 3.000.000 króna greiðslu þegar gengið hafi verið frá samkomulagi um skuldauppgjörið 11. febrúar 2010. Kærendur hafi hvorki getað uppfyllt þetta skilyrði með peningagreiðslu né lántöku. Þau hafi því leitað til ættingja um aðstoð. Hafi tveir ættingjar tekið 1.500.000 króna lán hvor hjá Landsbankanum 9. febrúar 2011 til að kærendur gætu greitt þessa fjárhæð. Það sé út af fyrir sig rétt hjá umboðsmanni skuldara að kærendum sé ekki lögskylt að endurgreiða þessi lán til Landsbankans, en þó Landsbankinn eigi ekki kröfu á kærendur á grundvelli lána þessara hafi kærendur gefið ættingjum sínum loforð um að greiða þessar skuldir. Kærendur hafi því skyldur gagnvart ættingjunum og njóti kröfur þeirra réttarverndar eins og aðrar kröfur. Skuldir vegna fjárkrafna séu ekki formbundnar og ljóst að skyldur kærenda gagnvart ættingjum þeirra séu skýrar enda hafi ættingjarnir greitt upp í skuld kærenda við Landsbankann. Að áliti kærenda verði umboðsmaður skuldara að líta á málið í heild og af sanngirni og taka tillit til þess að þetta séu í raun skuldir kærenda.
Af framangreindri sundurliðun megi sjá að mánaðarlegar tekjur kærenda nægi til að standa skil á mánaðarlegum skuldbindingum þeirra og framfærslu. Eftir standi 93.508 krónur til að greiða niður gjaldfallnar skuldir sem nemi um 6.600.000 krónum. Sú greiðslugeta sé augljóslega ekki nægileg til að greiða af hinum gjaldföllnu skuldum og kærendur eigi engar eignir til að selja. Þyki kærendum því blasa við að þau verði ekki fær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð.
Hafa verði í huga að kærendur séu bæði í 100% starfi og séu á síðari hluta starfsævi sinnar. Því verði að gera ráð fyrir því að tekjur þeirra muni lækka frekar en hækka í framtíðinni. Einnig sé rétt að taka fram að mánaðarlegar skuldir kærenda séu til lengri tíma.
Kærendur telja að ákvörðun umboðsmanns skuldara, rökstuðningur og lagatilvísanir eigi ekki við í máli þeirra og að mat umboðsmanns á stöðu þeirra til að greiða af skuldum sínum sé ekki rétt. Kærendur telja að jafnvel þó ekki væri tekið tillit til skulda þeirra gagnvart ættingjum séu þau allt að einu ógjaldfær. Hvernig sem litið sé á stöðu kærenda gagnvart ættingjum þeirra standi ávallt eftir um það bil 6.600.000 króna skuldir á hendur kærendum sem þau geti ekki staðið skil á. Kærendur telja það ekki rétt sem umboðsmaður skuldara haldi fram að þau geti gert upp þessar skuldir með því fé sem þau hafi lagt til hliðar í greiðsluskjóli. Kærendur skilji lög um greiðsluaðlögun svo að sá sparnaður skuli greiddur hlutfallslega til allra kröfuhafa eftir reglum þar um svo ekki sé gert upp á milli þeirra. Lögin heimili því kærendum ekki að ráðstafa öllum sparnaðinum til eins kröfuhafa. Ef kærendur myndu greiða gjaldfallnar skuldir sínar nú væri útséð með að þau gætu notið greiðsluaðlögunar. Þá stæðu þau frammi fyrir allt annarri stöðu varðandi aðrar kröfur enda myndu þá bætast við þær dráttarvextir vegna 17 mánaða vanskila. Af málatilbúnaði umboðsmanns sé því ekki hægt að sjá að kærendur geti greitt framfærslukostnað, staðið skil á mánaðarlegum skuldbindingum og jafnframt greitt upp hinar gjaldföllnu skuldir.
Kærendur telja sig augljóslega ekki geta staðið skil á fjárskuldbindingum sínum og eigi þau því lögformlegan rétt til þess að fá að leita frjálsra samninga við kröfuhafa á grundvelli opinbers úrræðis. Einnig telja þau að synjun umboðsmanns stríði gegn jafnræði enda sé stór hluti þeirra sem fái að njóta greiðsluaðlögunar í fullkomlega sambærilegri stöðu og kærendur með jákvæða greiðslugetu en óviðráðanlegar skuldir. Álíta kærendur það öfugsnúið að umboðsmaður skuldara leggi sig sérstaklega fram um að kærendur fái ekki tækifæri til að semja við kröfuhafa sína en kærendur fái ekki séð að sú afstaða þjóni hagsmunum nokkurs aðila.
Kærendur benda á þau grundvallarsjónarmið sem þau telja að liggi að baki greiðsluaðlögun. Í greinargerð með lge. megi glöggt sjá að markmið laganna hafi verið að lögfesta úrræði til að aðstoða einstaklinga í greiðsluvanda, forða fólki frá því að missa heimili sín og gera því kleift að standa undir greiðslubyrði lána. Með lögunum hafi verið stefnt að því að greiða úr skuldavanda einstaklinga með samningum um greiðsluaðlögun á meðan fyrirtæki yrðu frekar gjaldþrota. Þyki kærendum það hastarlegt ef þau þurfi að þola jafn þrönga túlkun á reglum laga sem gagngert hafi verið sett til að veita skuldurum rétt til að leita frjálsra samninga við kröfuhafa. Slík heimild feli ekki sjálfkrafa í sér að samningar muni nást enda þurfi allir kröfuhafar að samþykkja það frumvarp sem lagt verði fram.
Í lge. sé einnig fjallað sérstaklega um það við hvaða aðstæður umboðsmanni skuldara sé rétt og heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar. Séu þar nefnd ýmis tilvik og dæmi um hegðun skuldara sem umboðsmaður skuli líta til og meta hverju sinni hvort óhæfilegt þyki að veita heimild til greiðsluaðlögunar. Undir þessi tilvik falli kærendur ekki enda sé ekki til þeirra vísað í ákvörðun umboðsmanns.
Fái kærendur ekki heimild til að leita greiðsluaðlögunar blasi ekkert annað við þeim en gjaldþrot en afleiðingar þess yrðu óhagstæðar öllum aðilum. Gjaldþrot myndi skaða aflahæfi kæranda B mikið enda myndi hann þá missa réttindi til að sinna núverandi starfi. Gjaldþrot myndi einnig koma í veg fyrir að kröfuhafar fengju eitthvað í sinn hlut. Gjaldþrot einstaklinga verði samfélaginu ekki til góðs en löggjafinn hafi ekki síst verið að líta til heildarhagsmuna samfélagsins með setningu lge.
Kærendur telja að gera verði ríkar kröfur til röksemdafærslu umboðsmanns skuldara í tilvikum þar sem skuldara sé synjað um heimild til að leita frjálsra samninga við kröfuhafa til að leysa úr þeim skuldavanda sem þeir eigi við að etja.
Kærendur segja ljóst að þau muni þurfa að semja um skattskuldir og muni það fé sem sé umfram greiðslu framfærslukostnaðar og afborganir annarra skulda fara til greiðslu skattskuldanna.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að sá einstaklingur geti leitað greiðsluaðlögunar sem sýni fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Sé þá miðað við að hann geti ekki eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð með tilliti til eðlis skuldanna, eigna og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna hans að öðru leyti.
Við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 1. mgr. 6. gr. komi fram að synja beri um heimild til greiðsluaðlögunar ef þær aðstæður sem taldar eru upp í stafliðum ákvæðisins eigi við. Í a-lið 1. mgr. 6. gr. sé kveðið á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýni ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar. Í 2. gr. laganna sé kveðið á um þau skilyrði sem uppfylla þurfi til að leita greiðsluaðlögunar. Í 1. mgr. 2. gr. sé kveðið á um að einstaklingur þurfi að sýna fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar til að hann geti leitað greiðsluaðlögunar.
Í almennum athugasemdum með frumvarpi til lge. komi fram að skuldari skuli sýna fram á greiðsluvanda sinn og að hafna beri umsókn sé greiðslugeta til staðar enda þótt eiginfjárstaða viðkomandi sé neikvæð. Í athugasemdum með 2. gr. lge. komi fram að skuldari skuli leita annarra leiða til að aðlaga skuldir sínar ef mögulegt sé, áður en hann sæki um greiðsluaðlögun. Samkvæmt gögnum málsins hafi kærendur gengið í gegnum skuldauppgjör við viðskiptabanka sinn vegna fjárhagserfiðleika sem hafi átt rót sína að rekja til fyrri atvinnustarfsemi.
Eftir að tillit hafi verið tekið til athugasemda kærenda við framfærslukostnað telji umboðsmaður skuldara greiðslugetu kærenda vera 302.749 krónur á mánuði. Að mati embættisins uppfylli þau ekki skilyrði lge. um að vera ógjaldfær, hvorki nú né um fyrirsjáanlega framtíð þar sem umsamdar mánaðarlegar afborganir kærenda séu tæpar 200.000 krónur. Einnig hafi annar kærenda sótt um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum hjá tollstjóra í samræmi við lögum greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri nr. 24/2010 en umsókninni hafi verið hafnað. Samkvæmt upplýsingum frá tollstjóra megi ætla að sá kærandi þyrfti að greiða mánaðarlega á bilinu 100.000 til 200.000 krónur vegna gjaldanna en kærandi hafi ekki óskað eftir eða gert greiðsluáætlun vegna opinberra gjalda og því óljóst hver greiðslubyrði vegna þessa yrðu.
Kærendur telji á hinn bóginn að greiðslubyrði þeirra nemi 257.747 krónum á mánuði. Þar af nemi greiðslubyrði af skuldbindingum við ættingja 55.979 krónum en ættingjar hafi tekið alls 3.000.000 króna lán í tengslum við skuldauppgjör kærenda við Landsbankann. Í þessu sambandi bendir umboðsmaður skuldara á að í 1. mgr. 2. gr. lge. sé að finna það skilyrði fyrir heimild til greiðsluaðlögunar að skuldari sýni fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Þá segi 1. mgr. 3. gr. lge. að greiðsluaðlögun taki til allra annarra krafna á hendur skuldara en þeirra sem tilgreindar eru í stafliðum ákvæðisins. Engin gögn hafi komið fram í málinu sem sýni fram á að kærendum sé lögskylt að greiða af tilteknum skuldum ættingja sinna við fjármálastofnanir. Þyki því ófært að leggja til grundvallar að um skuldir kærenda sé að ræða. Samkvæmt þessu telji umboðsmaður skuldara að kærendur eigi 149.487 krónur eftir þegar þau hafi greitt framfærslukostnað og mánaðarlegar afborganir af fjárskuldbindingum sínum. Eftir standi þá skuldir kærenda við tollstjóra að fjárhæð 5.945.240 krónur og kreditkortaskuld við Arion banka að fjárhæð 654.894 krónur. Leggja verði til grundvallar samkvæmt framansögðu að kærendur hafi greiðslugetu sem nemi 149.487 krónum til að greiða af þessum skuldum.
Einnig sé ljóst að eignarhlutur kærenda í bifreið sé 498.215 krónur samkvæmt upplýsingum frá kærendum. Loks sé þess að geta að kærendur hafi notið greiðsluskjóls frá 14. apríl 2011 eða í rúmlega 17 mánuði. Séu upplýsingar sem kærendur hafi lagt fram um eigin greiðslugetu lagðar til grundvallar sé ljóst að þau hafi nú þegar lagt til hliðar 6.201.345 krónur af tekjum sínum að því gefnu að þau hafi staðið við skyldur sínar í greiðsluskjóli samkvæmt a- og c-liðum 1. mgr. 12. gr. lge. Þessa fjárhæð vanti í tilgreiningu kærenda á fjárhagsstöðu sinni í viðbótargreinargerð þeirra.
Í ljósi núverandi greiðslugetu, skulda- og eignastöðu kærenda og að teknu tilliti til markmiðs lge. og þeirrar forsendu að skuldari verði að eiga við verulega greiðsluerfiðleika að etja og/eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum telur umboðsmaður skuldara einsýnt að kærendur uppfylli ekki skilyrði 1. og 2. mgr. 2. gr. lge. Sé umboðsmanni því skylt að synja kærendum um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli a-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.
Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.
IV. Niðurstaða
Kærendur krefjast þess að synjun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi. Jafnframt er þess krafist að kærunefndin mæli fyrir um að umboðsmanni skuldara sé skylt að samþykkja umsókn kærenda um greiðsluaðlögun.
Samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Ef umboðsmaður skuldara synjar skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar getur skuldari kært þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála samkvæmt 4. mgr. 7. gr. lge. Samkvæmt lögunum er gert ráð fyrir að samþykki umboðsmanns skuldara fylgi ákveðin réttaráhrif, sbr. 8. gr. laganna, þar sem segir að með samþykki umboðsmanns skuldara á umsókn um greiðsluaðlögun hefjist tímabil greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. og 1. mgr. 11. gr., en þar segir að þegar umboðsmaður skuldara hafi samþykkt umsókn hefjist tímabundin frestun greiðslna. Samkvæmt því gegnir umboðsmaður skuldara því hlutverki að veita heimild til greiðsluaðlögunar. Getur þar af leiðandi ekki komið til þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála samþykki slíka umsókn eða mæli fyrir um að hún skuli samþykkt. Við úrlausn málsins fyrir kærunefndinni getur því aðeins komið til þess að kærunefndin staðfesti synjun umboðsmanns skuldara á umsókn kærenda eða felli hana úr gildi og að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að taka ákvörðun að nýju. Með tilliti til þessa verður að skilja kröfugerð kærenda þannig að farið sé fram á að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að taka ákvörðun að nýju.
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um synjun byggist á a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. Í lagaákvæðinu kemur fram að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar.
Kærendur halda því fram að skuldir ættingja samkvæmt tveimur skuldabréfum séu í raun skuldir kærenda. Ástæðan sé sú að kærendur hafi gert samning um skuldauppgjör við Landsbankann 11. febrúar 2010. Hluti samningsins hafi verið að kærendur greiddu bankanum 3.000.000 króna. Kærendur segjast hvorki hafa átt handbært fé né getað fengið lán fyrir þessari fjárhæð. Hafi því tilgreindir ættingjar þeirra tekið tvö lán fyrir fjárhæðinni og greitt bankanum andvirðið gegn því að kærendur greiddu af lánunum. Um er að ræða tvö lán, bæði útgefin 9. febrúar 2010 annað til Landsbankans og hitt til Arion banka, hvort um sig að fjárhæð 1.500.000 krónur. Annað lánið er til níu ára en hitt til fimm ára.
Að mati umboðsmanns skuldara er ekki unnt að telja þessi lán til skulda kærenda þar sem skuldarar þeirra séu aðrir en kærendur. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 3. gr. lge. er gert ráð fyrir að heimild til greiðsluaðlögunar taki til fjárskuldbindinga viðkomandi skuldara en ekki skuldbindinga annarra. Kærendur taka út af fyrir sig undir það að þeim sé ekki lögskylt að endurgreiða þessi lán til kröfuhafa en allt að einu hafi þau gefið ættingjum sínum loforð um að greiða þessar skuldir. Kærendur hafi því skyldur gagnvart ættingjunum og njóti kröfur þeirra réttarverndar eins og aðrar kröfur.
Meðal gagna málsins er greiðslukvittun vegna annars láns ættingja kærenda. Ber hún með sér að kærandi B hafi greitt einn gjalddaga lánsins í júlí 2012. Önnur gögn liggja ekki fyrir um greiðslur eða tilurð þessara lána. Á skattskýrslu kærenda vegna ársins 2010 eru engar skuldir við ættingja tilgreindar. Í málinu liggja því ekki fyrir nein gögn sem styðja þá staðhæfingu kærenda að nefndar skuldir ættingja séu í raun skuldir sem kærendum beri að greiða. Samkvæmt þessu getur kærunefndin ekki talið umrædd lán á meðal skulda kærenda.
Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að kærendur hafi verið upplýst um að fyrirliggjandi gögn gæfu til kynna að þau uppfylltu ekki skilyrði lge. um að vera ógjaldfær í ljósi tekna þeirra. Greiðslugeta kærenda var í upphafi áætluð jákvæð um ríflega 400.000 krónur. Kærendur gerðu athugasemdir við greiðsluáætlun sem umboðsmaður skuldara hafði útbúið og var hún uppfærð með því að hækka framfærslu. Lækkaði greiðslugeta kærenda við þetta í 302.749 krónur sem að mati embættisins þótti ekki nægilega mikil lækkun til að sýna fram á ógjaldfærni vegna skuldbindinga kærenda. Af gögnum málsins hafi umsamdar mánaðarlegar afborganir kærenda árið 2011 verið tæpar 200.000 krónur en ekki hafi verið lögð fram gögn sem sýndu fram á samningsumleitanir við embætti tollstjóra eða að ekki hafi verið mögulegt að semja við embættið. Þó liggi fyrir að öðrum kæranda var hafnað um greiðsluuppgjör hjá tollstjóra, sbr. lög um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri nr. 24/2010. Telur umboðsmaður skuldara miðað við upplýsingar frá tollstjóra að áætla mætti að sá kærandi þyrfti að greiða á bilinu 100‒200.000 krónur mánaðarlega vegna gjaldanna, en kærandi hafi ekki óskað eftir að gerð yrði greiðsluáætlun við tollstjóra og því óljóst hverjar endanlegar lyktir yrðu.
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur kærenda eru samkvæmt gögnum málsins 716.040 krónur. Að virtum mánaðarlegum framfærslukostnaði kærenda ásamt þekktri greiðslubyrði gjaldfallinna skulda, sem samtals nema 566.553 krónum, nam tekjuafgangur kærenda samkvæmt framangreindu 149.487 krónum í hverjum mánuði þegar hin kærða ákvörðun var tekin. Heildarfjárhæð eftirstandandi gjaldfallinna skulda kærenda eru 6.600.000 krónur.
Skilyrði fyrir því að unnt sé að meta umsókn kærenda er að fyrir liggi hver fjárhagsstaða þeirra var á þeim tíma er þau sóttu um greiðsluaðlögun svo og hver væntanleg þróun fjárhags þeirra verði á þeim tíma sem greiðsluaðlögun er ætlað að standa. Sýna þarf fram á greiðsluvanda, hverjar ástæður eru fyrir honum, hvort hann er tímabundinn og annað sem skiptir máli við mat á því hvort kærendur uppfylli skilyrði laganna til að fá heimild til að leita greiðsluaðlögunar svo og hvort þær aðstæður eru fyrir hendi sem komið geta í veg fyrir að heimild til að leita greiðsluaðlögunar verði veitt. Gögn þurfa því að liggja fyrir sem veita viðhlítandi upplýsingar um það sem skiptir máli en samkvæmt a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. skal synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar. Samkvæmt lögskýringargögnum verður skuldari að sýna fram á greiðsluvanda sinn með viðhlítandi gögnum og samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. má ekki samþykkja greiðsluaðlögun veiti fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Í lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga er byggt á því að skuldara beri að taka virkan þátt í og sýna viðeigandi viðleitni við að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður. Sama verður að teljast eiga við um greiðsluerfiðleika, hverjir þeir eru, hvað er til marks um þá, hversu alvarlegir þeir eru og hvort þeir eru skammvinnir eða langvarandi.
Með bréfi umboðsmanns skuldara 14. desember 2011 var kærendum boðið að leggja fram gögn er sýndu fram á að kærendur uppfylltu skilyrði 1. mgr. 2. gr. lge. Fram kemur í bréfinu að við mat á því hvort einstaklingur uppfylli skilyrði laganna til greiðsluaðlögunar beri að horfa til gjaldfærni hans. Er tekið fram að umboðsmaður skuldara telji gögn málsins sýna fram á greiðslugeta kærenda væri fyrir hendi. Kærendur gerðu athugasemdir sem lagðar voru til grundvallar nýrri greiðsluáætlun sem að mati umboðsmanns skuldara sýndi ekki fram á ógjaldfærni kærenda.
Kærunefndin telur að á skorti að kærendur hafi sýnt fram á að ekki sé mögulegt að ná samningi við embætti tollstjóra um greiðslu á vanskilaskuld þeirra á grundvelli mánaðarlegrar greiðslugetu þeirra. Samkvæmt því verður að telja að fyrirliggjandi gögn sýni ekki fram á að kærendur uppfylli skilyrði lge. til að leita greiðsluaðlögunar, sbr. a-lið 1. mgr. 6. gr. laganna. Er það mat kærunefndarinnar að umboðsmanni skuldara hafi af þeim sökum verið rétt að synja kærendum um heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.
Sigríður Ingvarsdóttir
Arndís Anna K. Gunnarsdóttir
Lára Sverrisdóttir