Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 83/2012

Mánudaginn 12. maí 2014

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Ú r s k u r ð u r

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 10. maí 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 26. apríl 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 11. maí 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 1. júní 2012. Var greinargerðin send kæranda með bréfi 8. júní 2012 og honum boðið að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur 1953. Hann býr ásamt eiginkonu sinni, tveimur börnum þeirra og uppkominni dóttur eiginkonunnar í eigin 223,2 fermetra einbýlishúsi að B götu nr. 40 í sveitarfélaginu C. Kærandi er menntaður pípulagningamaður og rak lengi pípulagninga- og byggingafyrirtækið X ehf. Félagið hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta og er kærandi nú atvinnulaus.

Kærandi fær atvinnuleysisbætur að fjárhæð 152.677 krónur á mánuði að meðaltali. Að auki fær hann barnabætur að fjárhæð 11.114 krónur á mánuði. Ráðstöfunartekjur kæranda eru því að meðaltali 163.791 króna á mánuði.

Kærandi stofnaði félagið X ehf. árið 1994. Hann kveður reksturinn hafa gengið vel en félagið hafi verið eitt af þeim stærstu sem starfað hafi við pípulagnir. Í kringum 2004 hafi starfsemi félagsins verið breytt í sérhæft byggingafyrirtæki sem hafi byggt stórbyggingar, svo sem verslanir og vöruhús úr stáli. Allt frá haustinu 2007 hafi borið á því að félagið hafi ekki fengið greitt fyrir unnin verk. Árið 2009 hafi félagið verið komið í greiðsluþrot en afleiðing þess hafi verið mikil tekjulækkun kæranda. Einnig hafi ábyrgðir sem hann hafi gengist í vegna félaga sinna reynst honum erfiðar.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt gögnum málsins eru 34.008.610 krónur og falla allar innan samnings um greiðsluaðlögun samkvæmt 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Að auki eru ábyrgðarskuldbindingar að fjárhæð 272.481.170 krónur orðnar virkar á hendur kæranda. Ábyrgðarskuldbindingarnar stafa allar frá atvinnurekstri. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2005 til 2008.

Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 8. febrúar 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 26. apríl 2012 var umsókn hans hafnað með vísan til þess að óhæfilegt þótti að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála samþykki greiðsluaðlögun hans.

Að mati kæranda eiga þær forsendur sem umboðsmaður skuldara leggi til grundvallar synjun sinni ekki við rök að styðjast. Ákvörðun umboðsmanns sé byggð á misskilningi eða röngum forsendum. Kærandi telji að umsókn sín um greiðsluaðlögun hafi hvorki verið metin heildstætt né í réttu samhengi.

Helstu rök umboðsmanns skuldara fyrir synjun virðast annars vegar vera þau að stór hluti ráðstöfunartekna kæranda hafi verið arðgreiðslur og hins vegar að 88,18% skulda hans séu vegna atvinnurekstrar. Telji kærandi það ekki standast skoðun að halda því fram að tekjur vegna arðgreiðslna séu ótraustari en launatekjur. Í fyrsta lagi hafi það verið nánast undantekningarlaust að menn sem hafi staðið í arðbærum fyrirtækjarekstri hafi fremur greitt sér tekjur sem arð en sem laun þar sem skattar og gjöld af arði hafi verið umtalsvert lægri en af launum. Fjöldi fólks hafi haft mjög háar tekjur á þessum tíma en þær hafi lækkað mikið við efnahagshrunið. Því verði ekki talið að einn tekjustofn sé traustari en annar þar sem staðreyndin sé sú að ráðstöfunartekjur einstaklinga, hvort sem séu laun eða aðrar tekjur, haldist í hendur við arðsemi og hagnað fyrirtækja. Þegar algjör forsendubrestur verði í efnahagslífi komi það niður á öllum tekjum hvort sem þær eru af arði eða hefðbundnar launatekjur.

Kærandi telji að einnig beri að líta til þess að skuldir og skuldbindingar séu ekki það sama. Þær skuldir sem umboðsmaður skuldara tilgreini séu að stærstum hluta ábyrgðir sem kærandi hafi gengist í fyrir félög í sinni eigu. Þótt ábyrgðirnar teljist til skuldbindinga kæranda álíti kærandi það ekki hið sama og að telja þær til skulda þar sem ábyrgðir séu frábrugðnar skuldum að því leyti að alls óvíst sé hvort á þær reyni. Stærstur hluti þessara ábyrgðarskuldbindinga hafi komið til af brýnni nauðsyn þegar aðrir kostir til að bjarga rekstri kæranda hafi lokast. Kærandi hafi aldrei átt von á því að ástandið yrði jafn slæmt og það varð í raun enda hefði hann aldrei gengist í nefndar ábyrgðir hefði hann órað fyrir því.

Skuldbindingar kæranda vegna atvinnurekstrar séu háar. Að mati hans verði þó að telja það óeðlilegan samanburð að skoða skuldir vegna atvinnurekstrar sem hlutfall heildarskuldbindinga þar sem eignir kæranda hafi lítið verið veðsettar að öðru leyti. Staða kæranda hefði hæglega getað verið sú að hann hefði verið í góðu starfi í banka, haft háar tekjur, hús hans væri keypt á 100% erlendum lánum, hann skuldaði bílalán og hugsanlega önnur neyslulán. Þrátt fyrir það væri staða hans lítið breytt frá því sem hún er í dag. Það verði því vart hægt að halda öðru fram en að kærandi hafi sýnt ráðdeild þar sem hann hafi átt lítið veðsett íbúðarhúsnæði, veðbandalausa jörð og bifreið. Synjun á greiðsluaðlögun kæranda verði því að teljast óeðlileg. Gildi þá einu hvort umboðsmaður skuldara vísi til frumvarps með lge. varðandi það til hverra greiðsluaðlögun eigi að ná. Í umræddu frumvarpi komi hvergi fram að loku sé skotið fyrir að einstaklingur í þeirri stöðu sem kærandi sé fái heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Þvert á móti komi eftirfarandi fram: „Það er þó ekki vilji löggjafans að einstaklingar sem fyrst og fremst eiga í vanda vegna atvinnurekstrar nýti sér þetta úrræði. Með því að fella brott þá takmörkun sem felst í því að skuldir einstaklings megi ekki nema að litlum hluta rekja til atvinnurekstrar er gengið nokkuð langt til að mæta þeim óvenjulegu aðstæðum sem uppi eru í íslensku samfélagi. Því leggur nefndin áherslu á að fylgst verði náið með þróun þessa úrræðis til að tryggja að löggjöfin þjóni því markmiði að gera einstaklingum en ekki atvinnurekstri kleift að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar.“

Ekki sjáist annað en að með þessu sé verið að koma í veg fyrir að gera atvinnurekstri, eða eftir atvikum einstaklingum í atvinnurekstri, fært að nýta sér greiðsluaðlögun. Enda sé kærandi ekki í atvinnurekstri lengur og þær skuldbindingar sem tilkomnar hafi verið vegna atvinnurekstrar séu því að fullu orðnar persónulegar skuldbindingar hans. Jafnvel þó það sé orðað á þann veg að það sé ekki vilji löggjafans að einstaklingar sem eigi í vanda vegna atvinnurekstrar nýti sér úrræðið sé vart hægt að túlka það orðalag sem svo að slíkt komi í veg fyrir að einstaklingar eins og kærandi geti fengið heimild til greiðsluaðlögunar.

Ljóst sé að greiðslugeta kæranda sé neikvæð og hann sé og verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa undir skuldbindingum sínum. Telja verði því að kærandi uppfylli þau skilyrði sem til þurfi til að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt lge.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geti í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun ef óhæfilegt þyki að veita hana.

Í c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Í gögnum málsins komi fram að kærandi sé í ábyrgðum fyrir 272.481.170 krónum vegna þriggja félaga; X ehf., Y ehf. og Z ehf.

Kærandi kveður félag sitt X ehf. hafa gengið mjög vel frá stofnun þess árið 1994 og hafi félagið á tímabili verið eitt af stærstu fyrirtækjunum í pípulögnum. Árin 2006 til 2007 hafi 30 til 40 manns verið starfandi hjá félaginu en haustið 2007 hafi farið að bera á því að ekki hafi verið greitt fyrir unnin verk. Kærandi greini frá því að félagið hafi átt miklar eignir í tækjum og fleiru en samkvæmt tilkynningu um skiptalok félagsins hafi engar eignir fundist í búinu. Skiptum hafi verið lokið 29. apríl 2011 samkvæmt 155. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 án þess að greiðsla fengist upp í lýstar kröfur, en þær hafi numið 283.539.944 krónum.

Samkvæmt gögnum málsins sé kærandi ábyrgðarmaður á tveimur lánum vegna X ehf. Annars vegar sé um að ræða sjálfskuldarábyrgðaryfirlýsingu frá 16. apríl 2009 upphaflega að fjárhæð 20.000.000 króna er standi nú í 28.180.114 krónum. Hins vegar tryggingarbréf frá 20. október 2010 upphaflega að fjárhæð 42.000.000 króna sem nú standi í 71.547.789 krónum en það hvíli jafnframt á fasteign kæranda. Ábyrgðir þessar nemi því samtals 102.727.903 krónum.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi einnig gengist í ábyrgð fyrir Y ehf. en samkvæmt upplýsingum frá kæranda hafi félagið flutt inn stálgrindarhús sem X ehf. hafi reist. Hafi ábyrgðin upphaflega numið 9.000.000 króna en sé nú 13.232.190 krónur. Y ehf. hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta og hafi skiptum lokið í apríl 2010 án þess að greiðsla fengist upp í lýstar kröfur sem hafi numið 52.786.659 krónum.

Loks hafi kærandi gengist í ábyrgð fyrir Z ehf. í október 2007. Að sögn kæranda hafi félagið að öllu leyti verið í eigu Þ ehf. en það félag hafi aftur verið í eigu kæranda. Ábyrgðin hafi verið vegna láns sem tekið hafi verið vegna kaupa á þyrlu. Upphafleg fjárhæð ábyrgðar hafi verið 108.000.000 króna en standi nú í 159.521.077 krónum.

Með bréfi 8. mars 2012 hafi kæranda verið veitt færi á að skýra frekar hvers vegna hann hafi tekist á hendur nefndar ábyrgðir og færa rök fyrir því að hann hefði ekki tekið fjárhagslega áhættu í skilningi c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Í svari kæranda komi fram að ábyrgð fyrir X ehf. sé tilkomin vegna yfirdráttarheimildar félagsins hjá Byr. Þar sem byggingastarfsemi bindi oft mikið fé áður en greiðslur berist hafi félagið fengið hækkun á yfirdráttarheimild sinni hjá Byr til að geta mætt aukinni fjárþörf ef til þess kæmi. Hafi félagið haft yfirdráttarheimildina frá árinu 2005 án nokkurra vandræða, reksturinn hafi verið í miklum vexti og félagið hafi ávallt staðið í skilum. Velta X ehf. á árinu 2007 hafi verið 1.231.000.000 króna, hagnaður 41.000.000 króna og bókfært virði eigna félagsins það ár hafi verið 690.000.000 króna. Ábyrgð vegna Y ehf. sé vegna endurnýjunar á ábyrgð sem standa hafi átt til tryggingar á yfirdráttarskuld félagsins. Ábyrgðin hafi átt að mæta aukinni fjárþörf ef þess þyrfti. Bæði X ehf. og Y ehf. hafi verið í mjög umsvifamiklum rekstri og miklum vexti á þessum tíma. Í kjölfar efnahagshrunsins hafi fjarað verulega undan fyrirtækjum í byggingariðnaði hér á landi. Í tilviki þessara félaga hafi fjöldi húsa verið í byggingu og fyrir hafi legið samningar um sölu á þeim. Í kjölfar hrunsins hafi kaupendur húsanna ekki staðið við gerða samninga og því hafi félögin setið uppi með hálf- eða fullkláruð hús sem ekki hafi verið mögulegt að koma í verð sökum efnahagsástandsins. Eðli málsins samkvæmt hafi félögin verið búin að leggja út í gríðarlega mikinn kostnað við byggingu þessara húsa en sá kostnaður hafi aldrei fengist greiddur. Ábyrgð vegna Z  ehf. hafi verið vegna kaupa félagsins á nýrri þyrlu. Mikill vöxtur hafi verið hjá félaginu á þessum tíma og því hafi verið ráðist í kaupin. Þyrla sé mjög dýr og almenn venja að dýrar vélar og tæki séu fjármögnuð af banka eða fjármögnunarfyrirtæki gegn veði í viðkomandi tæki. Ekki sé þó hægt að veðsetja slík tæki fyrr en þau hafi verið skráð hér á landi og þurfi þyrla svokallað lofthæfisskírteini til að unnt sé að veðsetja hana. Til að greiða fyrir fjármögnun þyrlunnar hafi verið samþykkt að kærandi yrði tímabundið persónulega ábyrgur eða þangað til hægt væri að veðsetja þyrluna hér á landi. Þessa tillögu hafi banki kæranda, Byr, lagt til sem málamiðlun þar sem staða hans hafi verið mjög góð á þessum tíma og bankinn hafi talið að eignir hans stæðu vel undir þessari ábyrgð. Hafi kærandi átt mikil viðskipti við Byr og hafi þessi háttur áður verið hafður á við fjármögnun verkefna sem félög hans komu að. Þegar þyrlan hafi komið hingað til lands hafi verið á henni galli sem tekið hafi um sex mánuði að gera við. Vegna þessa hafi ekki verið hægt að veðsetja þyrluna og fella niður ábyrgð kæranda á þeim tíma sem upphaflega hafi staðið til. Þegar komið hafi verið að því að veðsetja þyrluna hafi bankinn hafnað því að fella niður ábyrgð kæranda vegna þeirrar stöðu sem upp hafi verið komin í íslensku bankakerfi. Kærandi hafi selt fyrirtækið árið 2009 í von um að nýr eigandi með aukið fjármagn myndi geta bætt reksturinn og greitt niður skuldir. Í dag sé verkefnastaða félagsins ágæt og fari staða þess batnandi. Félagið eigi nú í viðræðum við Íslandsbanka um eftirgjöf á skuldum.

Í svari sínu bendi kærandi á að fjárhæðir þær sem hann hafi ábyrgst séu vissulega ekki lágar. Það sé þó mikilvægt að setja þær í samhengi við þá fjárhagslegu stöðu sem kærandi hafi verið í á þessum tíma. Samanlögð velta félaganna hafi verið um 1.500.000.000 króna árið 2007 og eignir þeirra um 1.350.000.000 króna. Þar að auki hafi kærandi á þessum tíma verið með mjög góðar tekjur, en ráðstöfunartekjur hans á árinu 2007 hafi verið 30.937.619 krónur að fjármagnstekjum meðtöldum. Einnig beri að nefna að umræddar ábyrgðir hafi upphaflega verið að fjárhæð um 159.000.000 króna en það efnahagsástand sem ríkt hafi hér á landi hafi orðið til þess að þær hafi hækkað langt umfram það sem eðlilegt geti talist. Það sé mat kæranda að hann hafi ekki tekist á hendur hærri ábyrgðarskuldbindingar eða meiri áhættu en fjárhagsleg staða hans á þessum tíma hafi gefið tilefni til enda hefði hann vel getað staðið undir öllum sínum skuldbindingum á þessum tíma að teknu tilliti til tekna og rekstrarumsvifa.

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að af ársreikningum X ehf. fyrir rekstrarárin 2005 til 2008 megi ráða að rekstrarafkoman hafi verið eftirfarandi í krónum:

Ár Hagnaður/tap
2005 3.455.405
2006 14.063.663
2007 41.477.259
2008 -207.595.669

Af ársreikningum Y ehf. fyrir rekstrarárin 2005 til 2007 megi ráða að rekstrarhagnaður hafi verið eftirfarandi í krónum:

Ár Hagnaður
2005 588.285
2006 1.337.244
2007 161.322

Af ársreikningum Z ehf. fyrir rekstrarárin 2007 til 2009 megi ráða að rekstrarafkoman hafi verið eftirfarandi í krónum:

Ár Hagnaður/tap
2007 -25.278.679
2008 15.436.245
2009 -67.122.138

Félagið hafi verið selt 2009.

Samkvæmt skattframtölum kæranda hafi fjárhagsstaða hans verið eftirfarandi í krónum þegar hann gekkst í nefndar ábyrgðir:

  2005 2006 2007 2008
Tekjur* alls 2.792.593 4.677.912 6.619.164 2.645.550
Fjármagnstekjur   12.505.918 27.007.016  
Meðaltekjur* á mán. 232.716 1.327.770 2.579.461 220.463
Eignir alls 51.725.477 67.206.893 77.691.963 86.786.621
· B gata nr.  40 39.360.000 43.130.000 48.050.000 18.050.000
·D 2.804.500 3.071.500 3.416.000 3.585.000
· E       28.890.000
· Bifreið R 8.500.000 7.650.000    
· Bifreið S   6.294.297 5.664.867 5.098.380
· Bifreið T     12.900.000 11.610.000
· Bifreið U       12.145.621
· Hlutabréf (nafnverð) 1.060.977 7.061.096 7.661.096 7.407.620
Skuldir 42.518.030 32.948.924 25.383.166 38.816.119
Nettóeignastaða 9.207.447 34.257.969 52.308.797 47.970.502

* Með tekjum er átt við ráðstöfunartekjur.

Telja verði að þrátt fyrir góða eignastöðu hafi kærandi tekið talsverða áhættu er hann tókst á hendur nefndar ábyrgðarskuldbindingar enda fjárhæðir þeirra mjög háar. Sérstaklega verði að líta til þess að ráðstöfunartekjur kæranda árin 2006 og 2007 séu að stærstum hluta fjármagnstekjur vegna greiðslu arðs úr félaginu Þ ehf. Ekki sé hægt að gera ráð fyrir að há arðgreiðsla tvö ár í röð bendi til svipaðra fjárhæða í framtíðinni. Því sé nauðsynlegt að líta til launatekna kæranda en þær hafi verið að meðaltali 389.826 krónur á mánuði á árinu 2006 og 551.597 krónur að meðaltali á mánuði 2007.

Í október 2007 gekkst kærandi í sjálfskuldarábyrgð vegna lánasamnings Z ehf. um kaup á þyrlu þrátt fyrir að félagið væri rekið með tapi. Verði að telja slíkt fela í sér talsverða áhættu enda upphafleg fjárhæð ábyrgðarskuldarinnar 108.000.000 króna.

Í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 19/2011 hafi nefndin komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé hægt að leggja að jöfnu ábyrgðarskuldbindingar vegna þriðja manns og beinar fjárhagslegar skuldbindingar við mat á því hvort óhæfilegt sé að veita heimild til greiðsluaðlögunar samkvæmt 2. mgr. 6. gr. lge. Þá segi nefndin: „Sá sem gengst undir ábyrgðarskuldbindingar þarf vissulega að gera ráð fyrir þeim möguleika að kröfum vegna þeirra verði beint að honum, að hluta eða í heild, þó ekki verði gengið svo langt að gera þá kröfu að ábyrgðaraðili gangi fortakslaust út frá því að hann muni á endanum þurfa að greiða allar þær skuldbindingar sem hann hefur ábyrgst efndir á.“ Kærandi þurfi því að vera reiðubúinn til að greiða ábyrgðirnar ef til þess kæmi að þær féllu á hann.

Þegar kærandi hafi tekist á hendur ábyrgð á 42.000.000 króna tryggingarbréfi vegna X árið 2005 hafi laun hans að meðaltali verið 232.682 krónur á mánuði. Tryggingabréfið sé einnig tryggt með veði í fasteign kæranda. Til þess sé einnig að líta að ofangreindar tekjur kæranda hafi verið launatekjur frá félaginu og ekki verði séð að kærandi gæti staðið skil á ábyrgðinni ef á reyndi.

Umboðsmanni skuldara þyki aðstæður c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. eiga við í málinu.

Í athugasemdum við frumvarp til lge. komi fram að frumvarpinu sé fyrst og fremst ætlað að ná til heimilisrekstrar einstaklinga en mikilvægt sé að mæta aðstæðum þeirra sem séu með atvinnurekstur samofinn heimilisrekstri, til dæmis einyrkja, bænda og þeirra sem séu með atvinnurekstur í eigin nafni. Það sé þó ekki vilji löggjafans að einstaklingar sem fyrst og fremst eigi í vanda vegna atvinnurekstrar nýti sér úrræðið. Í tilviki kæranda sé ljóst að stærstur hluti skulda hans, eða 88,18%, stafi frá atvinnurekstri sem ekki sé samofinn heimilisrekstri.

Þá beri að líta til þess að í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 56/2011 fjalli nefndin um að tæplega 70% af skuldum kæranda séu vegna atvinnurekstrar. Þannig hafi nefndin tekið undir það sjónarmið umboðsmanns skuldara að meta beri skuldbindingar vegna atvinnurekstrar sem hlutfall af heildarskuldbindingum kæranda. Þar segi jafnframt að með því að kærandi hafi tekist á hendur svo stórfelldar skuldbindingar sem raun beri vitni „hafi kærandi tekið áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hennar á þeim tíma sem hún gekkst undir þær“. Í því máli hafi kærandi tekist á hendur ábyrgðarskuldbindingar upphaflega að fjárhæð 118.000.000 króna.

Að öllu ofangreindu virtu þyki óhæfilegt að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna.

 

IV. Niðurstaða

Kærandi krefst þess að kærunefndin fallist á umsókn hans um greiðsluaðlögun. Samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Ef umboðsmaður skuldara synjar skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar getur skuldari kært þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála samkvæmt 4. mgr. 7 gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga. Samkvæmt lögunum er gert ráð fyrir að samþykki umboðsmanns skuldara fylgi ákveðin réttaráhrif, sbr. 8. gr. laganna, þar sem segir að með samþykki umboðsmanns skuldara á umsókn um greiðsluaðlögun hefjist tímabil greiðsluaðlögunarumleitana, og 1. mgr. 11. gr., en þar segir að þegar umboðsmaður skuldara hafi samþykkt umsókn hefjist tímabundin frestun greiðslna. Samkvæmt því gegnir umboðsmaður skuldara því hlutverki að veita heimild til greiðsluaðlögunar. Getur þar af leiðandi ekki komið til þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála samþykki slíka umsókn. Við úrlausn málsins fyrir kærunefndinni getur því aðeins komið til þess að kærunefndin felli synjun umboðsmanns skuldara á sameiginlegri umsókn kæranda úr gildi og að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að taka ákvörðun að nýju. Með tilliti til þessa verður að skilja kröfugerð kæranda þannig að farið sé fram á að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að taka ákvörðun að nýju.

Umboðsmaður skuldara byggir synjun á heimild til greiðsluaðlögunar á c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. en þar kemur fram að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Samkvæmt skattskýrslum og öðrum gögnum málsins var fjárhagsstaða kæranda á árunum 2005 til 2008 sem hér segir í krónum:

  2005 2006 2007 2008
Meðaltekjur* á mánuði 232.862 1.327.770 2.579.461 222.283
Eignir alls 63.462.533 67.206.893 77.691.963 116.786.621
Skuldir 42.518.030 32.948.924 25.383.166 38.816.119
Nettóeignastaða 20.944.503 34.257.969 52.308.797 77.970.502
Veð í B götu nr.  40        
vegna X ehf. 42.000.000 42.000.000 42.000.000 42.000.000
Höfuðstóll ábyrgðarskuld-        
bindinga vegna félaga 20.000.000 20.000.000 128.000.000 137.000.000

* Ráðstöfunartekjur.

Af töflunni má sjá að frá 2005 til 2008 var eignastaða kæranda jákvæð í sívaxandi mæli. Hrein eign hans nam tæplega 21.000.000 króna á árinu 2005 og tæplega 78.000.000 króna árið 2008. Á árinu 2005 veðsetti kærandi fasteign sína að B götu nr.  40 fyrir 42.000.000 króna vegna skulda X ehf. við Sparisjóð Hafnarfjarðar. Þá jukust þær ábyrgðarskuldbindingar sem kærandi tókst á hendur úr 20.000.000 króna árið 2005 í 128.000.000 króna árið 2007 og 137.000.000 króna árið 2008. Hér má sjá yfirlit yfir ábyrgðarskuldbindingarnar:

Kröfuhafi Ár Skuldari Tegund Höfuðstóll Staða 2012
Byr 2005 X ehf. Yfirdráttur 20.000.000 28.180.114
Byr 2007 Z ehf. Ábyrgðaryfirlýsing 108.000.000 159.521.077
Byr 2008 Y ehf. Yfirdráttur 9.000.000 13.232.190
LÍN   F Námslán   2.823.661
      Alls kr. 137.000.000 203.757.042

Í málinu kemur til skoðunar hvort kærandi hafi tekist á hendur svo miklar ábyrgðarskuldbindingar að hann teljist hafa hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað í skilningi c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Skipta þar mestu máli veðsetning fasteignarinnar að B götu árið 2005 fyrir X ehf. að fjárhæð 42.000.000 króna og skuldbindingar þær sem hann ábyrgðist á árunum 2007 og 2008 alls að fjárhæð 117.000.000 króna.

Að því er varðar nefnda veðsetningu telur kærunefndin rétt að skoða saman fjárhag kæranda og rekstur X ehf. árið 2005 er til veðsetningarinnar var stofnað:

Fjárhagsstaða kæranda 2005 í krónum
  Fjárhagsstaða X ehf. 2005 í krónum
Meðaltekjur* á mánuði 232.862   Hagnaður 3.455.405
Eignir alls 63.462.533   Efnislegar eignir 179.955.722
Skuldir kr. 42.518.030   Skuldir 155.292.141
Nettóeignastaða 20.944.503   Eigið fé 24.663.581
Veð í B götu nr.  40  


vegna X ehf. 42.000.000


Höfuðstóll ábyrgðarskuld-  


bindinga vegna félaga 20.000.000


Samkvæmt fyrirliggjandi ársreikningum átti X ehf. á þessum tíma efnislegar eignir sem námu 24.663.581 krónu umfram skuldir. Gögn málsins sýna ekki fram á annað en líkur hafi verið á að félagið gæti staðið við þáverandi skuldir sínar, eftir atvikum með sölu eigna. Telur kærunefndin því að hvorki sé unnt að líta svo á að fyrrgreind veðsetning hafi verið verulega ámælisverð né að kærandi hafi tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað. Með hliðsjón af því hefðu persónulegar eignir kæranda nægt fyrir ábyrgðarskuldbindingum hans á þessum tíma.

Að því er varðar ábyrgðarskuldbindingar kæranda fyrir Z ehf. árið 2007 að fjárhæð 108.000.000 króna telur kærunefndin rétt að bera saman fjárhagsstöðu kæranda, X ehf. og Z ehf. samkvæmt ársreikningum félaganna og skattframtali kæranda árin 2006 og 2007:

Fjárhagsstaða kæranda í krónum 2006 2007
Meðaltekjur* á mánuði 1.327.770 2.579.461
Eignir alls 67.206.893 77.691.963
Skuldir kr. 32.948.924 25.383.166
Nettóeignastaða 34.257.969 52.308.797
Veð í B götu nr.  40    
vegna X ehf. 42.000.000 42.000.000
Höfuðstóll ábyrgðarskuld-    
bindinga vegna félaga 20.000.000 128.000.000
* Hér er átt við ráðstöfunartekjur.

Fjárhagsstaða 2006 2007
Z ehf.    
Hagnaður/tap 7.676.000 -25.278.679
Efnislegar eignir 11.263.000 598.589.501
Skuldir 1.780.000 598.802.467
Eigið fé 8.983.000 -212.966

 

Fjárhagsstaða 2006 2007
X ehf.    
Hagnaður/tap 14.063.663 4.577.259
Efnislegar eignir 305.263.126 645.224.775
Skuldir 266.535.881 601.320.270
Eigið fé 38.727.245 43.904.505

Ef tekið er tillit til veðsetningar kæranda fyrir X ehf. sem áður hefur verið gerð grein fyrir má sjá að fjárhagsstaða félagsins batnaði á milli áranna 2005 og 2006. Nettóeignir félagsins árið 2006 hefðu að mestu leyti nægt til að gera upp veðkröfu félagsins í fasteign kæranda en hann hefði getað mætt því sem upp á hefði vantað með eigin eignum. Enn batnaði fjárhagsstaða félagsins á árinu 2007 og verður af því dregin sú ályktun að á þeim tíma gefi skattframtöl kæranda raunhæfa mynd af eignastöðu hans.

Á milli áranna 2006 og 2007 varð mikil breyting á fjárhag Z ehf. vegna þyrlukaupa félagsins. Efnislegar eignir félagsins jukust um rúmlega 587.000.000 króna og skuldir um 597.000.000 króna. Af fyrirliggjandi gögnum verður ekki séð að eigið fé félagsins hafi verið aukið þrátt fyrir þyrlukaupin. Eigið fé félagsins lækkaði því um ríflega 9.000.000 króna og varð lítillega neikvætt. Árið 2007 tókst kærandi á hendur nefnda sjálfskuldarábyrgð að fjárhæð 108.000.000 króna en hrein eign kæranda á því ári var rúmlega 52.000.000 króna. Fjárhæð ábyrgðarinnar var því 56.000.000 króna hærri en skír eign kæranda. Jafnvel þótt mánaðarlegar ráðstöfunartekjur kæranda á þessum tíma hafi verið ríflega 2.700.000 krónur er það mat kærunefndarinnar að með ábyrgðinni hafi kærandi tekið mikla fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma er til skuldbindinganna var stofnað. Er þá einnig litið til bágborinnar fjárhagsstöðu félagsins.

Þá verður einnig að líta til þess að nefnd ábyrgðarskuldbinding kæranda er vegna atvinnurekstrar. Samkvæmt núgildandi lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga girða skuldir vegna atvinnurekstrar ekki fyrir heimild til greiðsluaðlögunar en takmörkun af því tagi var í 2. mgr. 63. gr. a laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 sem felld var úr gildi með lögum nr. 101/2010. Þar kom fram að ákvæði laganna um nauðasamning til greiðsluaðlögunar næði ekki til einstaklinga sem undangengin þrjú ár hefðu borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi, hvort sem þeir hefðu lagt stund á hana einir eða í félagi við aðra, nema því aðeins að atvinnurekstri hefði verið hætt og þær skuldir sem stöfuðu frá atvinnu­rekstrinum væru tiltölulega lítill hluti af heildarskuldum þeirra. Þó bendir umfjöllun í greinargerð með frumvarpi til núgildandi laga til þess að tilgangur þess að fella slíkar takmarkanir úr gildi hafi fyrst og fremst verið sá að greiða fyrir greiðsluaðlögun þeirra einstaklinga sem eru með atvinnurekstur samofinn heimilisrekstri. Segir í greinargerð með lögunum að það sé ekki ætlun löggjafans að þeir sem eigi í greiðsluerfiðleikum fyrst og fremst vegna atvinnurekstrar nýti sér þetta úrræði og jafnframt bent á að líta megi til ákvæða í 2. mgr. 6. gr. lge. varðandi fjárhagslega áhættu í þessu sambandi.

Þegar allt framanritað er virt telur kærunefndin að kærandi hafi hagað fjármálum sínum með þeim hætti sem fjallað er um í c-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að A hafi réttilega verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta