Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 92/2012

Mánudaginn 12. maí 2014

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Eggert Óskarsson.

Þann 18. maí 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 3. maí 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var hafnað.

Með bréfi 29. maí 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 18. júní 2012. Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 6. desember 2012 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 8. janúar 2013. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur 1980. Hann býr ásamt eiginkonu sinni og syni hennar í 73 fermetra leiguíbúð að B götu nr. 15 í sveitarfélaginu C. Kærandi á tvö börn sem hann greiðir meðlag með.

Kærandi stundar nám við Háskólann í Reykjavík. Mánaðarlega hefur hann til ráðstöfunar 87.934 krónur frá Lánasjóði íslenskra námsmanna samkvæmt lánsáætlun. Einnig kveðst hann hafa leigutekjur að fjárhæð 150.000 krónur á mánuði af fasteign sinni að D götu nr. 6 í sveitarfélaginu C. Kærandi hefur þó ekki talið fram nefndar leigutekjur. Samkvæmt framangreindu hefur kærandi mánaðarlega 237.934 krónur til ráðstöfunar.

Að mati kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hans til efnahagshrunsins 2008. Árið 2007 hafi kærandi og fyrrverandi eiginkona hans keypt parhús í sveitarfélaginu C sem þau hafi að hluta fjármagnað með erlendum lánum. Einnig hafi kærandi fengið úthlutað lóð í sveitarfélaginu H sem hann hafi fjármagnað með erlendu láni. Við fall krónunnar hafi lánin hækkað mikið. Í október 2007 hafi kærandi orðið fyrir líkamsárás og orðið óvinnufær í nokkra mánuði. Vegna þessa hafi hann þurft að greiða lækniskostnað fyrir um 200.000 krónur en hann hafi einungis fengið 250.000 krónur í bætur. Þetta hafi komið sér afar illa fyrir kæranda þar sem hann hafi verið skuldsettur og greiðslubyrði lána mikil. Kærandi hafi verið starfandi vörubílstjóri frá 2008 til 2009 en misst vinnuna vegna samdráttar. Hann hafi þá ákveðið að fara í nám þar sem nánast enga vinnu hafi verið að fá. Á árinu 2009 hafi kærandi og eiginkona hans skilið en þau hafi samið um að fasteignirnar ásamt áhvílandi veðskuldum kæmu í hlut kæranda. Kærandi greinir einnig frá því að hann hafi átt töluverðar fjárhæðir í hlutabréfum sem tapast hafi í hruninu.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt gögnum málsins eru 69.671.549 krónur. Innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.), falla skuldir að fjárhæð 57.933.758 krónur en utan samnings falla námslán, meðlagsskuld og fleira alls að fjárhæð 11.713.968 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað árið 2007 vegna fasteignakaupa.

Ábyrgðarskuldbindingar kæranda eru 7.700.309 krónur.

Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 30. júní 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 3. maí 2012 var umsókn hans hafnað þar sem óhæfilegt þótti að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að mál hans verði á ný tekið fyrir hjá umboðsmanni skuldara. Skilja verður málatilbúnað kæranda þannig að hann krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns verði felld úr gildi.

Kærandi greinir frá því að sumarið 2007 hafi hann keypti fasteign í sveitarfélaginu C fyrir 54.500.000 krónur. Hafi kaupin verið fjármögnuð með eigin fé að fjárhæð 19.500.000 krónur og erlendu láni að fjárhæð 35.000.000 króna. Alls hafi veðsetningarhlutfall eignarinnar því verið um 64%. Að mati umboðsmanns skuldara hafi þetta verið áhættufjárfesting og umfram greiðslugetu kæranda og fyrrum eiginkonu hans. Þessu mótmæli kærandi þar sem fjöldi fólks hafi tekið lán á árunum fyrir hrun þar sem veðsetningarhlutfall hafi verið 80% og allt að 100% en að mati kæranda geti það talist áhættufjárfesting að kaupa húsnæði þar sem veðsetningarhlutfall er 90% eða meira. Á þeim tíma hafi kærandi staðist allar kröfur sem gerðar hafi verið til íbúðarkaupa að því er varði eigið fé og laun.

Samanlögð laun kæranda og þáverandi eiginkonu hans hafi verið um 365.000 krónur á mánuði sem hafi vel nægt fyrir afborgunum af lánum á húsinu því greiðsluáætlun hafi aðeins verið um 150.000 krónur á mánuði. Umboðsmaður skuldara hafi talið hann ófæran um að standa við skuldbindingar sínar í lok árs 2007 sem hafi verið á sama tíma og hann hafi stofnað til skuldanna. Það sé ekki rétt því til skuldanna hafi verið stofnað sumarið 2007 áður en krónan tók að veikjast og forsendur að breytast. Þrátt fyrir það hafi kærandi staðið við skuldbindingar sínar. Eftir fall krónunnar hafi lánið hækkað í 92.000.000 króna en enginn venjulegur maður geti greitt af slíku láni. Alls hafi kærandi greitt hátt í 6.000.000 króna af húsinu en í september 2009 hafi kærandi flutt úr húsinu þar sem hann hafi þurft að leigja það út til að getað borgað umsamdar greiðslur.

Einnig telji kærandi rétt að taka fram að engar afborganir hafi verið af láni því er hann hafi tekið vegna lóðarkaupa því gefinn hafi verið frestur í eitt ár til að hefja byggingu. Vegna hruns krónunnar hafi þau áform ekki gengið eftir.

Á árinu 2009 hafi kærandi yfirtekið bílasamning hjá Lýsingu. Samningurinn hafi áður verið á nafni fyrirtækis kæranda og því hafi aðeins verið um kennitölubreytingu að ræða. Endurskoðandi kæranda hafi mælt með því að þetta yrði gert. Geri kærandi sér vonir um að þegar vaxtaútreikningar hafi verið leiðréttir muni lánið lækka töluvert. Þá muni kærandi gera kröfu um að lánið verði lækkað til samræmis við verðmæti bílsins svo hugsanlega sé hægt að selja hann með yfirtöku lánsins og þannig gæti kærandi gert lánið upp.

Kærandi hafi eftir fremsta megni reynt að vinna úr skuldavanda sínum. Hafi þetta borið árangur og bætt stöðuna nokkuð en enn eigi eftir að semja þannig að skuldir séu í eðlilegu samhengi við eignir og að gerlegt sé að greiða af þeim.

Kærandi útskrifist úr háskólanámi sínu í júní 2012. Í framhaldinu ætti hann að geta staðið við skuldir sínar þegar þær hafi verið leiðréttar.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana.

Í b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. segir að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Á árinu 2007 hafi kærandi og fyrrverandi eiginkona hans keypt parhús að D götu nr. 6 í sveitarfélaginu C fyrir 54.500.000 krónur. Til kaupanna hafi þau notað eigið fé og að auki gert gengistryggða lánasamninga við Frjálsa fjárfestingarbankann hf. að fjárhæð 35.000.000 króna. Þá hafi kærandi keypt lóð að E götu nr. 62 í sveitarfélaginu H í júlí 2007 en hann hafi fjármagnað kaupin með láni frá Frjálsa fjárfestingarbankanum hf. að fjárhæð 10.100.160 krónur. Þá hafi kærandi yfirtekið bílasamning, upphaflega að fjárhæð 4.170.604 krónur. við Lýsingu hf. á árinu 2009.

Á því tímabili sem hér er til skoðunar voru ráðstöfunartekjur kæranda og fyrrum eiginkonu hans, eignir og skuldir þessar í krónum samkvæmt skattframtölum:

  2006 2007 2009
Meðaltekjur á mán. (nettó) 117.006 364.116 27.686
Eignir 37.175.000 53.231.907 49.763.247
Skuldir 33.593.046 68.769.283 179.598.194

Samkvæmt gögnum málsins hafi uppgefnar tekjur kæranda og fyrrum eiginkonu hans ekki dugað fyrir framfærslukostnaði fjölskyldunnar sé miðað við bráðabirgðaneysluviðmið umboðsmanns skuldara og annan áætlaðan kostnað vegna rekstrar fasteignar og bifreiðar, hvað þá afborgunum lána sem hafi í árslok 2006 numið alls 33.593.046 krónum.

Á árinu 2007 hafi kærandi og eiginkona hans keypt fasteignina að D götu nr. 6 og lóðina við E götu nr. 62 og selt þáverandi fasteignir sínar. Þá hafi samanlagðar ráðstöfunartekjur þeirra verið 364.116 krónur á mánuði. Sé tekið mið af bráðabirgðaneysluviðmiði umboðsmanns skuldara vegna fjögurra manna fjölskyldu og öðrum áætluðum kostnaði hafi mánaðarleg greiðslugeta þeirra verið 146.902 krónur. Áætluð greiðslubyrði lána í lok árs 2007 muni hafa verið um 250.000 krónur á mánuði. Því sé það mat umboðsmanns skuldara að kærandi hafi stofnað til skulda á þeim tíma sem hann hafi verið ófær um að standa við skuldbindingar sínar, sbr. b-lið 2. mgr. 6. gr. lge., þegar hann og þáverandi eiginkona hans keyptu parhús og lóð og einnig þegar kærandi yfirtók bílasamning hjá Lýsingu hf. á árinu 2009 upphaflega að fjárhæð 4.170.604 krónur.

Við ofangreinda niðurstöðu hafi kærandi gert athugasemdir. Hann bendi á að þegar parhúsið hafi verið keypt á árinu 2007 hafi afborganir af láni vegna þess numið 150.000 krónum. Ráðstöfunartekjur hafi á þeim tíma numið 365.000 krónum og því hafi afborganir verið innan viðráðanlegra marka. Umboðsmaður bendi á að auk lána vegna kaupanna hafi aðrar skuldir hvílt á kæranda og þáverandi eiginkonu hans auk þess sem þau hafi stofnað til viðbótarskulda að fjárhæð 10.100.160 krónur við fyrrnefnd lóðarkaup. Við þetta bætist bílasamningurinn sem kærandi hafi gert á árinu 2009 en þá hafði skuldastaða kæranda versnað til muna frá árinu 2007 og tekjur hans lækkað mjög. Breyti þessar athugasemdir kæranda ekki ákvörðun umboðsmanns skuldara.

Við mat á því hvort beita skuli ákvæðum b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. verði að líta til samspils tekna og skuldasöfnunar kæranda á því tímabili sem til skoðunar sé, einkum ársins 2007. Einnig beri að taka tillit til tekna fyrrum eiginkonu kæranda enda geti þær upplýsingar haft þýðingu við mat á framfærslukostnaði og greiðslugetu á sambúðartímanum en þau hafi þá verið í hjónabandi og haft gagnkvæma framfærsluskyldu hvort gagnvart öðru. Þá sé litið til bifreiðakaupa kæranda árið 2009 þegar hann hafi yfirtekið fyrrgreindan bílasamning en yfirtakan verði að teljast veruleg fjárhæð miðað við tekjur, eigna- og skuldastöðu hans á þeim tíma. Að mati umboðsmanns skuldara teljist þetta verulega ámælisvert og fjárhagsleg áhætta sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu kæranda á þeim tíma er til fjárskuldbindinganna hafi verið stofnað í skilningi c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður vísar til greinargerðar með frumvarpi til lge. en ákvæði 2. mgr. 6. gr. taki að hluta mið af þágildandi lagaákvæði um greiðsluaðlögun í 2. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 enda hafi verið komin nokkur reynsla á framkvæmd og dómvenja á beitingu ákvæðisins. Með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 657/2009 hafi beiðni um greiðsluaðlögun á grundvelli laga nr. 21/1991 verið hafnað með vísan til 2. tölul. 1. mgr. 63. gr. d. laganna. Í því máli hafi umsækjandinn skuldsett sig umtalsvert vegna fasteigna- og bifreiðakaupa. Greiðslubyrði lánanna hafi verið umfram þær tekjur sem af gögnum málsins hafi verið ráðið að hann hafi haft á þeim tíma.

Í ljósi þessa fordæmis telur umboðsmaður skuldara að skuldasöfnun kæranda geti talist fjárhagsleg áhætta sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað. Einnig er vísað til úrskurðar kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 23/2011.

Við meðferð málsins hjá umboðsmanni skuldara hafi kærandi tiltekið allnokkrar tekjur sem ekki komi fram á skattframtölum. Umboðsmaður geti ekki miðað við slíkar upplýsingar. Mönnum beri að gefa allar tekjur sínar upp á skattframtali og því verði ekki miðað við aðrar tekjur en þær sem þar komi fram. Að mati umboðsmanns skipti ekki máli hvort kærandi hafi staðið við skuldbindingar sínar þrátt fyrir lágar uppgefnar tekjur enda verði að telja útilokað fyrir umboðsmann skuldara að sannreyna fullyrðingar kæranda um tekjur sem ekki hafi verið taldar fram. Þá verði að telja það samfélagslega óásættanlegt að það sé háð tilviljun eða eigin hagsmunum borgarans hverju sinni hvaða tekjur hann kveðist hafa gefið upp til skatts þannig að hann geti gefið upp lægri tekjur við stjórnvöld sem leggi á gjöld og skatta, svo sem ríkisskattstjóra, en hærri tekjur þegar það skipti máli varðandi ívilnandi úrræði hjá öðru stjórnvaldi, svo sem vegna þess mats er fram fari samkvæmt 2. mgr. 6. gr. lge. hjá umboðsmanni skuldara.

Í rökstuðningi með kæru nefni kærandi ýmis atvik sem komið hafi til eftir þann tíma sem til skoðunar hafi verið. Við mat umboðsmanns skuldara samkvæmt 2. mgr. 6. gr. lge. hafi ekki verið tekið tillit til þeirrar hækkunar sem orðið hafi á gengistryggðum lánum kæranda heldur hafi verið miðað við upphaflegar fjárhæðir og þær bornar saman við fjárhagsstöðu kæranda á þeim tíma er til skuldanna hafi verið stofnað. Um tímamark þess mats sem fari fram samkvæmt b- og c-liðum 2. mgr. 6. gr. lge. megi vísa til úrskurðar kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 18/2011. Þar hafi verið talið að staða kærandans nú og í framtíðinni hafi ekki þýðingu við mat á því hvort ákvæðin ættu við enda sé þar ekki miðað við háttsemi eða stöðu einstaklings á þeim tíma er til skuldanna hafi verið stofnað.

Með því að taka yfir bílasamning á árinu 2009 hafi kærandi bætt við sig skuldum. Ekki verði séð að hugsanlegt skattahagræði hafi getað réttlætt það. Varðandi athugasemd kæranda um að ábyrgðarskuldbinding sem hann hafi gengist undir vegna námsláns muni falla niður hafi það ekki áhrif á niðurstöðu hinnar kærðu ákvörðunar enda hafi skuldbinding þessi ekki verið skoðuð sérstaklega þegar ákvörðun hafi verið tekin.

Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lge. segir að í 2. mgr. 6. gr. lge. sé miðað við að vandi skuldara verði að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann verði sjálfur talinn bera ábyrgð á með framgöngu sinni. Ekki verði annað séð en að kærandi hafi sjálfur borið ábyrgð á þeim atriðum sem vægi hafi haft við töku hinnar kærðu ákvörðunar. Skipti þá ekki máli að eign kæranda og fyrrum eiginkonu hans hafi verið orðin yfirveðsett vegna þeirra lána sem þau hafi tekið heldur hafi verið litið til þess að kærandi hafi ekki getað staðið undir greiðslubyrði af þeim skuldum sem hann hafi stofnað til.

Við heildstætt mat á aðstæðum kæranda er það niðurstaða umboðsmanns skuldara að óhæfilegt sé að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar og að synja beri umsókn á grundvelli b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um synjun byggist á b- og c-liðum 2. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Samkvæmt gögnum málsins eru skuldir kærenda eftirtaldar í krónum:

Kröfuhafi Ár Tegund Upphafleg Staða 2012 Vanskil
      fjárhæð   frá
Tollstjóri 2005 Þing- og sveitarsjgj. 217.026 244.719 2005
Frjálsi fjárfestingarbankinn 2007 Erlent lán 21.000.000 31.598.009 2011
Frjálsi fjárfestingarbankinn 2007 Erlent lán 14.000.000 19.922.183 2011
Lýsing 2009 Bílasamningur 4.170.604 4.680.643 2011
Arion banki   Yfirdráttur   858.970 2011
Arion banki   Yfirdráttur   340.684 2011
Arion banki   Greiðslukort   250.242 2011
Innheimtustofnun sveitarfélaga 2009 Meðlag 788.080 916.849 2009
Tollstjóri 2010 Sekt 70.000 70.000 2010
LÍN   Námslán   10.789.250 2011
    Alls 40.245.710 69.671.549  

Á tímabilinu 2006 til 2009 voru tekjur kæranda og fyrrverandi eiginkonu hans, eignir og skuldir eftirfarandi í krónum:

  2006 2007 2008 2009
Meðaltekjur* á mán. (nettó) 169.045 349.741 405.364 27.686
Eignir alls 37.175.000 53.231.907 51.996.648 49.763.247
· D gata nr. 6   47.750.000 47.580.000 45.350.000
· F gata nr. 19 21.450.000      
· G gata nr. 1 14.900.000      
· Bifreið R   3.450.000 3.105.000  
· Bifreið S       3.900.000
· Torfæruhjól 825.000      
· Bifhjól        
· Hlutir í félögum (nafnverð)   960.000 950.000 500.000
· Bankainnstæður o.fl.   1.071.907 361.648 13.247
Skuldir 33.593.046 68.769.283 164.049.176 179.608.194
Nettóeignastaða 3.581.954 -15.537.376 -112.052.528 -129.844.947

* Ráðstöfunartekjur.

Af töflunum má sjá að á árinu 2007 tókust kærandi og fyrrverandi eignkona hans á hendur nýjar skuldbindingar að fjárhæð 35.000.000 króna. Í lok þess árs voru heildarskuldir þeirra tæplega 69.000.000 króna og samkvæmt gögnum málsins var mánaðarleg greiðslubyrði vegna þeirra um 269.000 krónur. Hér má sjá útreikning á greiðslugetu þeirra á árinu 2007 í krónum:

Ráðstöfunartekjur 349.741


Framfærslukostnaður* 148.409
Rekstur fasteignar,  
bifreiðar o.fl. 68.806
Alls 217.215


Greiðslugeta 132.526
Afborganir lána á mánuði 269.000
Greiðslustaða -136.474

* Bráðabirgðaneysluviðmið umboðsmanns skuldara miðað við fjögurra manna fjölskyldu.

Hér má sjá að þegar framfærslukostnaður, kostnaður við rekstur fasteignar, kostnaður við rekstur bifreiðar og annar áætlaður kostnaður hafði verið greiddur, vantaði kæranda og fyrrverandi eiginkonu hans 136.474 krónur til þess að geta greitt af öllum lánum sínum, þar með talið þeim lánum sem þau tóku árið 2007.

Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir þeim atriðum sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef augljóst má vera að óhæfilegt sé að veita hana. Í 2. mgr. 6. gr. eru taldar upp ástæður sem eiga það sameiginlegt að ekki getur verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verður að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni, sbr. athugasemdir með frumvarpi að lge. Í framhaldinu eru í sjö liðum rakin atriði sem umboðsmaður skuldara skal sérstaklega líta til við mat á slíku. Meðal þeirra atriða eru b- og c-liðir 2. mgr. 6. gr. lge. sem þegar hefur verið gerð grein fyrir en umboðsmaður skuldara synjaði kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli þessara ákvæða.

Kærandi telur sig hafa verið færan um að standa við skuldbindingar sínar þegar hann tókst á hendur nefndar skuldir árið 2007. Það rökstyður hann með því að samanlögð laun hans og þáverandi eiginkonu hans hafi verið um 365.000 krónur á mánuði sem hafi vel nægt fyrir afborgunum af lánum á húsinu því greiðsluáætlun hafi aðeins verið um 150.000 krónur á mánuði. Hér miðar kærandi aðeins við hluta þeirra lána sem greiða þurfti af, þ.e. þau lán sem kærandi tók árið 2007, og lætur auk þess hjá líða að gera ráð fyrir framfærslukostnaði. Sú framsetning gefur ekki heildarmynd af fjárhag kæranda eins og rakið hefur verið hér að ofan en mat á því hvort veita eigi heimild til að leita greiðsluaðlögunar fer fram með hliðsjón af fjárhag kæranda í heild, eins og hann er á þeim tíma sem er til skoðunar.

Þær tölulegu upplýsingar sem gerð er grein fyrir hér að framan bera skýrt með sér að kærandi tókst á hendur skuldir langt umfram greiðslugetu á árinu 2007. Eignastaða kæranda gaf honum heldur ekki tilefni til skuldsetningar en árið 2007 var eignastaðan neikvæð um ríflega 15.500.000 krónur. Því voru ekki fyrir hendi eignir til að mæta afborgunum lána umfram eignastöðu. Telur kærunefndin því að kærandi hafi stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við þær í skilningi b-liðar 2. mgr. 6. gr .lge.

Við mat á því hvort beita skuli c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. ber að líta til samspils eigna, tekna og skuldasöfnunar á því tímabili sem til skoðunar er, sbr. það sem greinir hér að ofan. Í máli þessu eru 42,5% skulda kæranda vegna kaupa á fasteigninni við D götu nr. 6. Á þeim tíma er kærandi tók lánin yfir hafði hann hvorki greiðslugetu til að greiða af þeim, sbr. það sem áður er rakið, né átti hann eignir til að selja á móti skuldunum. Að mati kærunefndarinnar tók kærandi fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Þegar allt framaritað er virt telur kærunefndin að með skuldasöfnun sinni hafi kærandi stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar og tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað í skilningi b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að A hafi réttilega verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Lára Sverrisdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Eggert Óskarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta