Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 53/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 53/2021

Fimmtudaginn 20. maí 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 1. febrúar 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 7. janúar 2021, um upphæð greiðslna í sóttkví á grundvelli laga nr. 24/2020.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 16. desember 2020, sótti kærandi um greiðslur frá Vinnumálastofnun á grundvelli laga nr. 24/2020 um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir vegna barns kæranda sem sætti sóttkví. Umsókn kæranda var samþykkt með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 7. janúar 2021. Kærandi sótti um greiðslur vegna fimm daga og námu greiðslur til kæranda alls 880 kr.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 1. febrúar 2021. Með bréfi, dags. 2. febrúar 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 19. febrúar 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 22. febrúar 2021, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi fer fram á endurmat greiðslna vegna barns í sóttkví. Kærandi hafi verið með barn í sóttkví í nóvember og því hafi verið borin saman laun sem hafi verið greidd út 1. nóvember og 1. desember. Þar sem desemberuppbót sé greidd út 1. desember sé nánast enginn munur á launum kæranda umrædda mánuði. Kærandi fer fram á að endurskoðað verði hvernig laun í sóttkví séu reiknuð. Desemberuppbót, sem allir fái og eigi rétt á, eigi ekki að koma upp á móti því að kærandi hafi verið launalaus í viku í nóvember. Réttara væri að athuga tímakaup einstaklinga og meðalvinnutíma. Annað finnist kæranda einfaldlega ósanngjarnt.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að lög nr. 24/2020 um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir taki til greiðslna til atvinnurekanda sem greitt hafa launamönnum, sem sæta sóttkví, laun. Enn fremur gildi lögin um greiðslur til launamanna sem sæta sóttkví en fá ekki greidd laun frá atvinnurekanda. Þá gildi lögin um greiðslur til sjálfstætt starfandi einstaklinga sem sæta sóttkví.

Mál þetta varði útreikning Vinnumálastofnunar vegna launa kæranda sem hafi sætt sóttkví samkvæmt beinum fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda. Ákvörðunin hafi verið tekin á grundvelli 1. og 2. mgr. 6. gr. laga nr. 24/2020. Í 1. mgr. 6. gr. laganna segi að greiðsla til atvinnurekanda skuli taka mið af heildarlaunum launamanns í þeim almanaksmánuði eða almanaksmánuðum sem hann eða barn í hans forsjá hafi verið í sóttkví. Til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald þann mánuð sem launamanni hafi verið gert að vera í sóttkví. Til að finna út fjárhæð greiðslna fyrir hvern dag skuli miða við 30 daga í mánuði. Lögin geri því ráð fyrir að til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald þann mánuð sem launamanni var gert að sæta sóttkví. Í 2. mgr. 6. gr. laganna sé kveðið á um hvernig skuli ákvarða greiðslur í þeim tilvikum er launamaður sækir um greiðslur vegna launa í sóttkví. Þar komi fram að þegar launamaður sæki um greiðslu á grundvelli 2. mgr. 5. gr. skuli greiðsla taka mið af heildarlaunum hans fyrir undanfarandi almanaksmánuð áður en honum hafi verið gert að vera í sóttkví eða hann hafi annast barn í sóttkví. Heildargreiðslur til launamanns geti þó aldrei verið hærri en sem nemi mismun heildarlauna þann mánuð sem honum hafi verið gert að vera í sóttkví eða hann hafi annast barn í sóttkví og heildarlauna undanfarandi mánaðar.

Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 24/2020 komi fram að greiðslur taki mið af heildarlaunum launamanns í þeim almanaksmánuði eða almanaksmánuðum sem hann hafi sætt sóttkví en með almanaksmánuðum sé átt við þau tilvik þegar sóttkví vari yfir mánaðamót. Gert sé ráð fyrir að til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald þann mánuð sem launamanni hafi verið gert að sæta sóttkví. Desemberuppbót teljist því til launa þegar greiðslur í sóttkví séu reiknaðar. Af þessum sökum teljist desemberuppbót til heildarlauna þegar greiðslur til launþega séu reiknaðar. Útreikningurinn byggi lögum samkvæmt á því að tekið sé mið af heildarlaunum launþega fyrir undanfarandi almanaksmánuð áður en honum hafi verið gert að vera í sóttkví eða hann hafi annast barn í sóttkví. Samkvæmt skýru orðalagi ákvæðisins geti greiðslur aldrei orðið hærri en sem nemi mismun heildarlauna þann mánuð sem launþega hafi verið gert að vera í sóttkví/hafi annast barn í sóttkví og heildarlauna undanfarandi mánaðar. Greiðsla desemberuppbótar, líkt og aðrar launagreiðslur, geti því valdið hækkun eða lækkun á heildargreiðslum til starfsmanns eftir því hvenær viðkomandi stafsmaður hafi sætt sóttkví.

Kærandi hafi sótt um greiðslur í sóttkví vegna fimm daga. Laun kæranda fyrir októbermánuð hafi numið alls 409.708 kr. Laun kæranda í sóttkvíarmánuði, þ.e. nóvember, hafi verið alls 408.826 kr. Vegna skilyrða 2. mgr. 6. gr. laga nr. 24/2020 geti greiðslur til launþega aldrei orðið hærri en sem nemi mismun heildarlauna þann mánuð sem launþega hafi verið gert að vera í sóttkví/hafi annast barn í sóttkví og heildarlauna undanfarandi mánaðar. Mismunur milli launa kæranda í sóttkvíarmánuði og undanfarandi mánaðar hafi einungis verið 880 kr. Greiðslur í sóttkví nemi því 880 kr. vegna viðkomandi starfsmanns. Framlag til lífeyrissjóðs sé -35 kr. Mótframlag kæranda til lífeyrissjóðs sé því 101 kr. Reiknuð staðgreiðsla launa sé -296 kr. Útborguð laun frá stofnuninni hafi því verið 549 kr. Stofnunin telji sér óheimilt að standa að útreikningi greiðslna til kæranda með öðrum hætti þegar litið sé til skýrs orðalags 6. gr. um annars vegar heildarlaun og hins vegar um mismun heildarlauna í sóttkvíarmánuði og undanfarandi mánaðar.

Með vísan til framangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að útreikningur vegna greiðslna í sóttkví skuli reiknaður með þeim hætti sem stofnunin hafi lagt til grundvallar með vísan til 6. gr. laga nr. 24/2020 og athugasemda við 6. gr. í frumvarpi til laganna.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að greiða kæranda 880 kr. á grundvelli laga nr. 24/2020 um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir. Ágreiningur málsins lýtur að útreikningi Vinnumálastofnunar vegna þeirrar greiðslu.

Í 2. gr. laga nr. 24/2020 kemur fram að markmið laganna sé að styðja við atvinnurekendur sem greiða launamönnum sem sæta sóttkví laun þegar önnur réttindi, svo sem veikindaréttur samkvæmt kjarasamningum, eigi ekki við. Með því sé stefnt að því að einstaklingar geti fylgt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda um að sæta sóttkví án þess að hafa áhyggjur af afkomu sinni.

Í 5. gr. laganna er kveðið á um skilyrði fyrir greiðslum vegna launamanna en þar segir í 1. mgr. að heimilt sé að greiða atvinnurekanda launakostnað eftir því sem nánar sé mælt fyrir um í lögunum. Í athugasemdum við 5. gr. í frumvarpi til laganna kemur fram að lagt sé til að heimilt verði að greiða atvinnurekanda launakostnað hafi hann greitt launamanni, sem sæti sóttkví, laun. Gert sé ráð fyrir að skilyrði fyrir greiðslum verði það að launamaður hafi sætt sóttkví og hafi ekki getað sinnt vinnu að öllu leyti eða hluta þaðan sem hann sætti sóttkví. Þannig sé gert ráð fyrir að ekki geti komið til greiðslna til atvinnurekanda hafi launamaður sinnt starfi sínu áfram þaðan sem hann hafi sætt sóttkví, enda hafi atvinnurekandi þá notið vinnuframlags starfsmannsins á því tímabili sem um ræðir hverju sinni. Jafnframt sé gert ráð fyrir að skilyrði fyrir greiðslu til atvinnurekanda sé það að önnur atvik hafi ekki staðið í vegi fyrir því að launamaður hafi mætt til vinnu á vinnustað og að atvinnurekandi hafi sannanlega greitt launamanni laun á meðan hann sætti sóttkví. Í 2. mgr. 5. gr. segir að heimilt sé að greiða launamanni launatap hafi hann ekki fengið greidd laun, svo sem vegna rekstrarörðugleika eða tekjufalls atvinnurekanda, enda séu skilyrði a-c-liða 1. mgr. uppfyllt. Vinnumálastofnun sé heimilt að óska eftir staðfestingu frá atvinnurekanda um að laun hafi ekki verið greidd og upplýsingum um ástæður þess. Í athugasemdum við 5. gr. í frumvarpi til laganna kemur fram að í yfirlýsingu forsætisráðherra, Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins sé gert ráð fyrir því að Samtök atvinnulífsins muni beina þeim tilmælum til atvinnurekenda að laun verði greidd til launamanna sem sæta sóttkví að fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda. Í ljósi þess megi ætla að það muni heyra til undantekninga að launamenn sæki um greiðslur þar sem þeir hafi ekki fengið greidd laun á meðan þeir sættu sóttkví.

Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 24/2020 skal greiðsla til atvinnurekanda taka mið af heildarlaunum launamanns í þeim almanaksmánuði eða almanaksmánuðum sem hann eða barn í hans forsjá var í sóttkví. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald þann mánuð sem launamanni var gert að vera í sóttkví. Til að finna út fjárhæð greiðslna fyrir hvern dag skal miða við 30 daga í mánuði. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laganna skal greiðsla til launamanns taka mið af heildarlaunum hans fyrir undanfarandi almanaksmánuð áður en honum var gert að vera í sóttkví eða hann annaðist barn í sóttkví. Heildargreiðslur til launamanns geta þó aldrei verið hærri en sem nemur mismun heildarlauna þann mánuð sem honum var gert að vera í sóttkví eða hann annaðist barn í sóttkví og heildarlauna undanfarandi mánaðar.

Líkt og að framan greinir lýtur ágreiningur málsins að útreikningi Vinnumálastofnunar vegna greiðslu til kæranda sem annaðist barn sem var í sóttkví. Sóttkví barns kæranda stóð yfir í 13 daga á tímabilinu 8. til 20. nóvember 2020 og sótti kærandi um greiðslur vegna fimm daga á tímabilinu. Laun kæranda fyrir október 2020, sem var undanfarandi almanaksmánuður áður en barni hennar var gert að sæta sóttkví, voru 409.708 kr. Laun kæranda fyrir nóvember 2020, þann mánuð er barni hennar var gert að sæta sóttkví, voru 408.826 kr. en af þeirri upphæð nam desemberuppbót 84.600 kr. Þar sem greiðsla desemberuppbótar hækkaði heildarlaun kæranda fyrir sóttkvíarmánuð var verulega lítill munur á heildarlaunum þess mánaðar og samanburðarmánaðar. Greiðsla til kæranda nam því einungis 880 kr., eða mismun launa þessara tveggja mánaða og hefur Vinnumálastofnun vísað til þess að óheimilt sé að standa að útreikningi greiðslna til kæranda með öðrum hætti þegar litið sé til skýrs orðalags 6. gr. laga nr. 24/2020.

Samkvæmt 6. gr. laga nr. 24/2020 skal telja til launa hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Í 7. gr. laga nr. 113/1990 um tryggingagjald kemur fram að til gjaldstofns samkvæmt 6. gr. sömu laga teljist hvers konar laun og þóknanir, þar með talið ákvæðislaun, biðlaun, nefndarlaun, stjórnarlaun, launauppbætur, staðaruppbætur, orlofsfé og greiðslur fyrir ónotað orlof og framlag vinnuveitanda í lífeyrissjóð. Samkvæmt framansögðu fellur desemberuppbót því undir laun í skilningi 6. gr. laga nr. 24/2020.

Í grein 1.3 í kjarasamningi milli Landssambands íslenzkra verzlunarmanna og Samtaka atvinnulífsins kemur fram að desemberuppbót fyrir hvert almanaksár, miðað við fullt starf, hafi á árinu 2020 verið 94.000 kr. Uppbótin skuli greiðast eigi síðar en 15. desember ár hvert, miðað við starfshlutfall og starfstíma, öllum starfsmönnum sem verið hafa samfellt í starfi hjá atvinnurekanda í 12 vikur á síðustu 12 mánuðum eða eru í starfi fyrstu viku í desember. Heimilt sé með samkomulagi við starfsmann að uppgjörstímabil sé frá 1. desember til 30. nóvember ár hvert í stað almanaksárs. Þá kemur fram að desemberuppbót innifeli orlof, sé föst tala og taki ekki breytingum samkvæmt öðrum ákvæðum. Af framangreindu er ljóst að um áunnin réttindi er að ræða í samræmi við starfshlutfall og starfstíma viðkomandi sem greitt er út eftir að ávinnslutímabili lýkur.

Kærandi fékk greidda desemberuppbót 1. desember 2020 að fjárhæð 84.600 kr., með launum fyrir nóvembermánuð, í samræmi við kjarasamningsbundinn rétt sinn. Að mati úrskurðarnefndarinnar getur sú greiðsla ekki talist sem laun fyrir nóvembermánuð nema hlutfallslega í samræmi við framangreinda ávinnslu- og reiknireglu kjarasamnings Landssambands íslenzkra verzlunarmanna og Samtaka atvinnulífsins. Er því aðeins heimilt að telja kæranda til tekna í nóvember 1/12 af fjárhæð desemberuppbótarinnar, eða 7.050 kr. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar hjá Vinnumálastofnun.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 7. janúar 2021, um greiðslu á grundvelli laga nr. 24/2020 til handa A, er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar stofnunarinnar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta