Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 46/2013

Miðvikudagurinn 5. júní 2013

 

  A

gegn

skipuðum umsjónarmanni B hdl.

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir formaður, Kristrún Heimisdóttir og Þórhildur Líndal.

Þann 20. mars 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun skipaðs umsjónarmanns, B hdl., sem tilkynnt var með bréfi, dags. 14. mars 2013, þar sem umsjónarmaður mælir gegn nauðasamningi með vísan til 18. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.).  

I. Málsatvik

Þann 8. ágúst 2011 var umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum kæranda. Í desember 2012 var frumvarp sent til kröfuhafa.

Samkvæmt þeim málavöxtum sem tilgreindir eru í ákvörðun bárust andmæli við frumvarpinu frá embætti Tollstjóra vegna opinberra gjalda sem féllu utan samnings. Kærandi taldi kröfur Tollstjóra tilkomnar vegna áætlana og sagði að þær yrðu leiðréttar þannig að hann yrði skuldlaus við embættið. Þann 21. nóvember 2012 kom í ljós að þrátt fyrir leiðréttingarskýrslu kæranda vegna opinberra gjalda 2011 stóð hann enn í skuld við embættið. Að mati umsjónarmanns var því ekki unnt að gera samning til greiðsluaðlögunar, enda féll Tollstjóri ekki frá mótmælum sínum.

Með tölvupósti þann 2. mars 2013 lýsti kærandi því yfir að hann óskaði eftir því að leita nauðasamnings. Umsjónarmaður kallaði kæranda á sinn fund og greindi kærandi frá því á fundinum að tekjur hans hefðu ekki breyst og greiðslugeta hans væri neikvæð.

Umsjónarmaður tilkynnti kæranda með bréfi, dags. 14. mars 2013, ákvörðun sína um að mæla gegn nauðasamningnum.

II. Sjónarmið skipaðs umsjónarmanns

Í ákvörðun skipaðs umsjónarmanns kemur fram að kærandi hafi keypt þrjú ökutæki á sama tíma og hann hafi verið í greiðsluskjóli og greiðslugeta hans hafi verið talin neikvæð. Lausleg könnun umsjónarmanns hafi leitt í ljós að verðmæti þessara ökutækja geti verið á bilinu 700.000–1.500.000 krónur. Þá hafi komið í ljós að kærandi hafi selt eina bifreið á meðan hann var í greiðsluskjóli án þess að upplýsa umsjónarmann um það, en slíkt gangi gegn c-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umsjónarmaður telur að á grundvelli þessa sé ljóst að fyrirliggjandi gögn í málinu gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag kæranda, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge., en kærandi hafi ítrekað haldið því fram að greiðslugeta hans væri neikvæð. Þá telur umsjónarmaður kaup kæranda á tilgreindum ökutækjum ganga gegn skyldum hans skv. 12. gr. lge.

Umsjónarmaður mælir gegn því að nauðasamningur kæranda og kröfuhafa komist á með vísan til 18. gr. lge.

III. Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi óski þess að nauðasamningur verði gerður vegna þess að staða hans hafi lítið breyst undanfarin ár. Kærandi búi í foreldrahúsum eða hjá kærustu og hafi ekki efni á að leigja eða kaupa íbúð. Bifreiðina Honda HRV hafi kærandi keypt á 100.000 krónur vegna þess að honum hafi verið nauðsynlegt að hafa bifreið til umráða. Vélhjólið Honda VT Shadow sé skráð á nafn kæranda en hann sé ekki eigandi þess nema að mjög litlu leyti en eignarhluti kæranda sé um 36.000 krónur. Hann hafi fengið hjólið sem vinargreiða og fái að borga af því þegar hann geti. Kærandi kveðst ekki hafa vitað að hann mætti ekki eiga eignir til að nauðasamningur kæmist á. Kærandi sé tilbúinn til að láta kaupin á vélhjólinu ganga til baka til að liðka fyrir samningum. Vélhjólið TDR KLX sé ekki í eigu kæranda og viti hann ekki hvar það sé niðurkomið.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun skipaðs umsjónarmanns byggist á 18. gr. lge., sbr. 12. gr. og b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. Í 1. mgr. 18. gr. er kveðið á um að hafi samningur um greiðsluaðlögun samkvæmt ákvæðum IV. kafla lge. ekki tekist þá geti skuldari lýst yfir við umsjónarmann að hann vilji leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Við mat umsjónarmanns á því hvort mælt sé með að nauðasamningur komist á skal umsjónarmaður meðal annars líta til þess hvort nokkuð hafi komið fram í öndverðu sem hefði átt að standa í vegi greiðsluaðlögunar, hvort skuldari leiti eftirgjafar umfram það sem eðlilegt megi telja í ljósi fjárhags hans og framtíðarhorfa, hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum skv. 12. gr. lge. og staðið að öðru leyti heiðarlega að verki við umleitanir til greiðsluaðlögunar, hvort raunhæft sé að hann muni geta staðið við skuldbindingar sínar að fenginni greiðsluaðlögun og hvert sé viðhorf þeirra lánardrottna sem látið hafa umleitanir til greiðsluaðlögunar til sín taka.

Ákvörðun umsjónarmanns um að mæla gegn því að nauðasamningur komist á byggist á því að kærandi hafi í fyrsta lagi brotið gegn c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með sölu bifreiðar án þess að upplýsa umsjónarmann. Í öðru lagi telur umsjónarmaður að kærandi hafi brotið gegn skyldum sínum skv. 12. gr. með því að kaupa ökutæki í greiðsluskjóli og í þriðja lagi telur umsjónarmaður að fyrirliggjandi gögn í máli kæranda gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag hans, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. er það skylda skuldara við greiðsluaðlögun að stofna ekki til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna nema skuldbinding sem stofnað er til sé nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða. Í nefndaráliti félags- og tryggingamálanefndar kemur fram að framangreind undanþága sé sett til að tryggt sé að námsmönnum sé heimilt að sækja um fyrirgreiðslu til banka vegna framfærslu. Ákvæðið sé ekki einskorðað við námsmenn en því sé þó ætlað að hafa þröngt gildissvið. Undir það falla til að mynda skuldbindingar vegna húsnæðis og öflunar aðfanga sem eru nauðsynleg heilsu og velferð fjölskyldunnar. Samkvæmt ákvæðinu er skuldara því heimilt að stofna til nýrra skulda eða gera ráðstafanir sem skaðað geta hagsmuni kröfuhafa hafi honum verið nauðsynlegt að stofna til þeirra til þess að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi keypt þrjú ökutæki á sama tíma og hann hefur notið greiðsluskjóls. Að mati umsjónarmanns er verðmæti þessara ökutækja á bilinu 700.000–1.500.000 krónur. Eins og áður segir eru skuldurum settar ákveðnar skorður við stofnun nýrra skulda á meðan leitað er greiðsluaðlögunar skv. d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Að mati nefndarinnar hefur kærandi ekki fullnægt þeim kröfum sem áskildar eru í d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. og ber þegar af þeirri ástæðu að staðfesta ákvörðun skipaðs umsjónarmanns með vísan til d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun skipaðs umsjónarmanns, B hdl., um að mæla gegn nauðasamningi A er staðfest.

 

Lára Sverrisdóttir

          Kristrún Heimisdóttir            

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta