Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 43/2013

Miðvikudagurinn 5. júní 2013

 

A

gegn

skipuðum umsjónarmanni B hdl.

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Kristrún Heimisdóttir og Þórhildur Líndal.

Þann 15. mars 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun skipaðs umsjónarmanns, B hdl., sem tilkynnt var með bréfi, dags. 20. febrúar 2013, þar sem umsjónarmaður mælir gegn nauðasamningi með vísan til 18. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.).

I. Málsatvik

Umsókn kæranda um greiðsluaðlögun var samþykkt af umboðsmanni skuldara þann 6. desember 2012. Þann 12. desember 2012 var umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum kæranda.

Frumvarp til greiðsluaðlögunarsamnings var fyrst sent kröfuhöfum 13. september 2012. Samdægurs bárust athugasemdir frá embætti sýslumannsins í Hafnarfirði. Í athugasemdum embættisins kom fram að kærandi væri í vanskilum með opinber gjöld að fjárhæð 2.627.686 krónur sem öll féllu utan greiðsluaðlögunar. Af þessum kröfum var virðisaukaskattur að fjárhæð 1.950.200 krónur.

Þann 19. september 2012 bárust athugasemdir frá Landsbankanum. Hafnaði bankinn frumvarpinu á þeim forsendum að bifreið kæranda hafi ekki verið skilað. Þá hafnaði bankinn frumvarpinu einnig vegna þess að kærandi hefði á tíma greiðsluskjóls keypt gjaldeyri fyrir um 150.000 krónur.

Þann 27. september 2012 upplýsti umsjónarmaður kæranda símleiðis um framkomnar athugasemdir kröfuhafa og óskaði eftir útskýringum á tilteknum atriðum. Fulltrúi umsjónarmanns skuldara sendi kæranda samdægurs tölvupóst með þeim atriðum sem óskað var skýringa á. Kærandi svaraði spurningum umsjónarmanns samdægurs með tölvupósti, meðal annars þess efnis að vanskil hjá sýslumanni væru tilkomin vegna áætlana sem kærandi hygðist leiðrétta.

Þann 17. desember 2012 óskaði fulltrúi umsjónarmanns eftir upplýsingum með tölvupósti frá sýslumanninum í Hafnarfirði um skuldastöðu kæranda. Samkvæmt upplýsingum embættisins skuldaði kærandi 2.079.492 krónur.

Umsjónarmaður fór yfir málið með kæranda á fundi þann 13. febrúar 2013. Á fundinum lýsti kærandi yfir vilja sínum til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar skv. 18. gr. lge.

Umsjónarmaður tilkynnti kæranda með bréfi, dags. 20. febrúar 2013, um þá ákvörðun sína að mæla gegn nauðasamningnum.

II. Sjónarmið skipaðs umsjónarmanns

Í ákvörðun skipaðs umsjónarmanns kemur fram að hann telji að kærandi hafi brotið skyldur sínar skv. 12. gr. lge. og þá einkum gegn d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt upplýsingum frá embætti sýslumannsins í Hafnarfirði, dags. 23. janúar 2013, námu skuldir kæranda við embættið alls 1.985.523 krónum, þar af var 1.244.641 króna vegna virðisaukaskatts.

Þá kemur fram í ákvörðun að þau gjöld sem séu í vanskilum hjá sýslumanninum í Hafnarfirði séu öll tilkomin eftir að kærandi fór í greiðsluskjól og hafi hann þar með stofnað til nýrra skulda í skilningi d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Umsjónarmaður mælir þannig gegn því að nauðasamningur kæranda og kröfuhafa komist á, sbr. 1. mgr. 18. gr. lge.

III. Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að synjun byggist á skuld við sýslumanninn í Hafnarfirði. Kærandi hafi í nálægt tvö ár reynt að komast að samkomulagi við sýslumannsembættið um skuld að fjárhæð 1.500.000 krónur sem sé aðeins brot af heildarskuldum hans. Kærandi telur sér ekki heimilt að greiða skuldina og því sé synjun umsjónarmanns óskiljanleg. Hann telur sig geta borgað skuldina fái hann leyfi til þess.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun skipaðs umsjónarmanns byggist á 18. gr. lge., sbr. d-lið 1. mgr. 12. gr. Í 1. mgr. 18. gr. er kveðið á um að hafi samningur um greiðsluaðlögun samkvæmt ákvæðum IV. kafla lge. ekki tekist geti skuldari lýst því yfir við umsjónarmann að hann vilji leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Við mat umsjónarmanns á því hvort mælt sé með því að nauðasamningur komist á skal hann meðal annars líta til þess hvort nokkuð hafi komið fram í öndverðu sem hefði átt að standa í vegi greiðsluaðlögunar, hvort skuldari leiti eftirgjafar umfram það sem eðlilegt megi telja í ljósi fjárhags hans og framtíðarhorfa, hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum skv. 12. gr. lge. og staðið að öðru leyti heiðarlega að verki við umleitanir til greiðsluaðlögunar, hvort raunhæft sé að hann muni geta staðið við skuldbindingar sínar að fenginni greiðsluaðlögun og hvert sé viðhorf þeirra lánardrottna sem látið hafa umleitanir til greiðsluaðlögunar til sín taka.

Ákvörðun umsjónarmanns um að mæla gegn því að nauðasamningur komist á byggist á því að kærandi hafi stofnað til nýrra skulda á sama tíma og hann naut tímabundinnar frestunar greiðslna. Í ákvörðun umsjónarmanns er vísað til skuldar vegna virðisaukaskatts að fjárhæð 1.244.641 króna. Þessi nýja skuldsetning hafi verið brot á 1. mgr. 12. gr. lge., nánar tiltekið d-lið, þar sem skuldari hafi brugðist skyldu sinni við greiðsluaðlögun með því að stofna til nýrra skulda.

Í eldri úrskurðum kærunefndar greiðsluaðlögunarmála, til að mynda í málum nr. 12/2013 og 15/2013, kemur fram að greiði skuldari ekki virðisaukaskatt sem hann hafi innheimt á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana hafi hann stofnað til skulda í skilningi d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Það er því mat kærunefndar að kærandi hafi stofnað til nýrra skulda á tímabilinu að fjárhæð 1.244.641 króna.

Samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. er það skylda skuldara við greiðsluaðlögun að stofna ekki til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna nema skuldbinding sem stofnað er til sé nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða. Í nefndaráliti félags- og tryggingamálanefndar kemur fram að framangreind undanþága sé sett til að tryggt sé að námsmönnum sé heimilt að sækja um fyrirgreiðslu til banka vegna framfærslu. Ákvæðið sé ekki einskorðað við námsmenn en því sé þó ætlað að hafa þröngt gildissvið. Undir það falla til að mynda skuldbindingar vegna húsnæðis og öflunar aðfanga sem eru nauðsynleg heilsu og velferð fjölskyldunnar. Samkvæmt ákvæðinu er skuldara því heimilt að stofna til nýrra skulda eða gera ráðstafanir sem skaðað geta hagsmuni kröfuhafa hafi honum verið nauðsynlegt að stofna til þeirra til þess að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Af fyrirliggjandi gögnum má ráða að á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana hafi tekjur kæranda verið hærri en framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara kveður á um. Kærandi var samkvæmt því með jákvæða greiðslugetu á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana. Með vísan til þess telur kærunefndin að kæranda hafi ekki verið heimilt að stofna til umræddra skulda í því skyni sem d-liður 1. mgr. 12. gr. lge. leyfir.

Í ljósi framangreinds er ákvörðun umsjónarmanns staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun skipaðs umsjónarmanns, B hdl., um að mæla gegn nauðasamningi A er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

           Kristrún Heimisdóttir            

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta