Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 269/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 269/2021

Fimmtudaginn 2. september 2021

A

gegn

Hafnarfjarðarbæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 3. júní 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Hafnarfjarðarbæjar, dags. 25. maí 2021, á beiðni hennar um niðurfellingu á húsaleigu/styrk til greiðslu húsaleigu.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi fékk úthlutaðri félagslegri leiguíbúð hjá Hafnarfjarðarbæ í nóvember 2020. Kærandi var þá að leigja íbúð á almennum leigumarkaði og skuldbundin með leigugreiðslur fyrir þá íbúð þar til 1. janúar 2021. Kærandi fékk íbúðina afhenta 11. nóvember 2020 og var gjalddagi vegna leigu fyrir nóvembermánuð ákveðinn 1. janúar 2021 og greiðslum dreift á fimm mánuði. Þann 26. janúar 2021 óskaði kærandi eftir endurskoðun á þeirri ákvörðun að hún þyrfti að greiða leigu fyrir nóvembermánuð. Með tölvupósti félagsráðgjafa Hafnarfjarðarbæjar 2. febrúar 2021 var kæranda tilkynnt að niðurstaða fundar húsnæðisteymis væri sú að ekki væri hægt að fella niður húsaleigugreiðsluna. Með erindi, dags. 20. apríl 2021, óskaði kærandi á ný eftir niðurfellingu á húsaleigu fyrir nóvembermánuð. Sú beiðni var tekin fyrir á fundi fjölskyldu- og barnamálasviðs 27. apríl 2021 sem synjaði beiðninni með vísan til 10. og 1. mgr. 11. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ. Kærandi áfrýjaði niðurstöðu fjölskyldu- og barnamálasviðs til fjölskylduráðs Hafnarfjarðar sem tók mál kæranda fyrir á fundi þann 21. maí 2021 og staðfesti synjunina. Sú ákvörðun var kynnt kæranda með bréfi, dags. 25. maí 2021.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 3. júní 2021. Með bréfi, dags. 7. júní 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Hafnarfjarðarbæjar vegna kærunnar. Greinargerð Hafnarfjarðarbæjar barst með bréfi, dags. 8. júlí 2021, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 9. júlí 2021. Athugasemdir bárust frá kæranda 19. júlí 2021.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún hafi fengið úthlutaðri félagslegri íbúð hjá Hafnarfjarðarbæ í byrjun nóvember 2020. Kærandi hafi verið lengi á biðlista og önnur dóttir hennar að verða 18 ára nokkrum mánuðum síðar. Kærandi hafi haft örfáa daga til að svara, fengið úthlutaðri þriggja herbergja íbúð sem þýddi að hún og yngri dóttir hennar yrðu saman í herbergi. Kærandi hafi verið að leigja á almennum markaði og verið með sex mánaða uppsagnarfrest. Kærandi hafi haft samband við leigusala varðandi uppsögn og það hafi ekki reynst hægt fyrr en 1. janúar. Þar með hafi kærandi verið komin með leigu á tveimur stöðum í desember, 250.000 kr. og 163.000 kr. Að fá úthlutaðri íbúð hjá sveitarfélaginu væri eins og lottóvinningur og því hafi hún ekki þorað öðru en að samþykkja. Eftir á að hyggja hefði kærandi aldrei átt að segja já því að 15 ára dóttir hennar ætti ekki að þurfa að deila herbergi með sér. Kærandi sé afar ósátt við að sveitarfélagið skuli rukka hana um leigu í desember, allt þetta ferli sé mjög furðulegt og í raun hálf skrýtið að félagsþjónustan setji fólk í svona klemmu. Kærandi hafi fengið lánaðan pening fyrir húsaleigunni hjá syni sínum en þurfi auðvitað að borga hann til baka. Kærandi hafi fengið tíma hjá bæjarstjóranum vegna málsins og sé búin að senda beiðni um endurskoðun tvisvar en hafi verið neitað í bæði skiptin þar sem hún sé svo tekjuhá. Kærandi sé ekki biðja um fjárhagsaðstoð heldur leiðréttingu á mistökum bæjarins. Kæranda hafi verið boðið að semja við fjárreiðudeild bæjarins um að skipta einni greiðslu á marga mánuði ef hún ætti í erfiðleikum með að borga en málið snúist ekki um það.

Í athugasemdum vegna greinargerðar Hafnarfjarðarbæjar ítrekar kærandi að ástæða kærunnar sé sú ákvörðun sveitarfélagsins að gera henni ókleift að klára fyrri leigusamning áður en hún tæki við íbúðinni. Miðað við þá skjólstæðinga sem þetta kerfi sé að sjá um, fólk í viðkvæmri fjárhagslegri stöðu, sé um úrelt kerfi að ræða. Kærandi hafi ekki verið að biðja bæinn um fjárhagsaðstoð heldur að þetta yrði endurskoðað. Þeir pappírar sem bærinn hafi sent með greinargerðinni séu mjög persónulegir póstar frá henni til félagsráðgjafa, uppskrifuð símasamtöl þar sem hlutir komi ekki fram í réttu ljósi. Þeir sýni kannski bara fram á hversu erfiðri aðstöðu kærandi sé í. Hún muni gera athugasemd við meðferð þessara pósta á öðrum vettvangi.

III. Sjónarmið Hafnarfjarðarbæjar

Í greinargerð Hafnarfjarðarbæjar kemur fram að kærandi hafi verið á biðlista hjá Hafnarfjarðarbæ eftir félagslegri leiguíbúð frá því í mars 2016. Kærandi sé öryrki og búi með tveimur fötluðum dætrum sínum.Vegna erfiðra aðstæðna í fjölskyldu hennar hafi hún lagt mikla áherslu á að fá félagslega leiguíbúð með viðráðanlegri leigu. Í byrjun nóvember 2020 hafi kærandi fengið úthlutað íbúð að B í Hafnarfirði. Kærandi hafi í fyrstu verið mjög sátt við úthlutunina en vandkvæði hafi komið í ljós vegna skila á fyrra húsnæði hennar þar sem hún hafi þurft að greiða þar leigu lengur en hún hafi gert ráð fyrir. Kærandi hafi þá óskað eftir að felld yrði niður leiga hjá Hafnarfjarðarbæ fyrir nóvembermánuð svo að hún gæti staðið í skilum við fyrri leigusala sinn. Þegar í ljós hafi komið að kærandi myndi eiga erfitt með að greiða húsaleigu fyrir tvær íbúðir í nóvember hafi allra leiða verið leitað til að koma til móts við hana til að auðvelda henni að standa skil á leigugreiðslum. Kæranda hafi þó verið gerð grein fyrir því að ekki væri unnt að fella niður húsaleigu eftir að hún myndi taka við íbúðinni en Hafnarfjarðarbær væri þó fús til að koma til móts við hana og dreifa leigugreiðslum fyrir þennan eina mánuð sem um ræddi, á fimm mánuði. Þar sem kærandi hafi ekki verið sátt við þá niðurstöðu hafi henni verið bent á að reyna þá leið að sækja um styrk til greiðslu leigunnar og hafi umsókn hennar um fjárhagsaðstoð vegna þessa verið lögð fyrir afgreiðslufund ráðgjafarteymis þann 27. apríl 2021. Þar hafi beiðni kæranda verið synjað með vísan til 10. gr. og 1. mgr. 11. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ þar sem tekjur hennar væru yfir tilgreindum viðmiðunarmörkum. Fjölskylduráð hafi staðfest þá niðurstöðu og bent kæranda á að leita til fjárreiðudeildar bæjarins til að semja um greiðslur.

Fyrir liggi að kærandi hafi fengið íbúðina að B afhenta í nóvember 2020 og því borið að greiða leigu af henni frá gerð leigusamnings. Oft sé enginn eða lítill fyrirvari á því að íbúðir í félagslega kerfinu losni, þeim sé þá úthlutað hið allra bráðasta því að margir séu um hituna og í þörf fyrir húsnæði. Iðulega séu tilvonandi leigjendur hjá Hafnarfjarðarbæ með íbúðir á leigu annars staðar og hvorki unnt að gera ráð fyrir því að Hafnarfjarðarbær felli niður leigu eftir að leiguhúsnæði sé úthlutað, svo að fólk geti staðið við skuldbindingar sínar vegna annars húsnæðis, né að bærinn hlutist til um samskipti leigjenda við fyrri leigusala. Í tilviki kæranda hafi því ekki verið um að ræða nein mistök af hálfu Hafnarfjarðarbæjar heldur venjulegt vinnulag sem viðhaft sé í málum af þessu tagi. Kæranda hafi verið boðið að dreifa greiðslum á fimm mánuði og með vísan til framangreinds sé það mat fjölskyldu- og barnamálasviðs að komið hafi verið til móts við kæranda á allan þann hátt sem frekast sé unnt til að auðvelda henni að leysa úr þeim vandamálum sem hafi komið upp vegna leigugreiðslna.

IV. Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að synjun Hafnarfjarðarbæjar á beiðni kæranda um niðurfellingu á húsaleigu í kjölfar úthlutunar á félagslegu leiguhúsnæði. Fyrir liggur að eftir að þeirri beiðni var synjað af hálfu húsnæðisteymis var beiðnin sett fram sem umsókn um styrk til greiðslu húsaleigu, á grundvelli reglna sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð. Fyrst verður vikið að þeim þætti málsins er varðar niðurfellingu á húsaleigu.

Hlutverk úrskurðarnefndar velferðarmála er að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála. Í 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. laganna kemur fram að aðila máls hjá félagsþjónustu sveitarfélaga sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru samkvæmt lögunum til úrskurðarnefndar velferðarmála. Þannig er grundvöllur þess að úrskurðarnefndin geti tekið kæru til efnislegrar meðferðar að fyrir liggi stjórnvaldsákvörðun. Um stjórnvaldsákvörðun er að ræða þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt eða skyldur manna í skjóli stjórnsýsluvalds, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kemur því til skoðunar hvort ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar um að synja beiðni kæranda um niðurfellingu á húsaleigu sé stjórnvaldsákvörðun, þ.e. ákvörðun um réttindi og skyldur kæranda tekin í skjóli stjórnsýsluvalds. Þær ákvarðanir stjórnvalda sem ekki eru teknar í skjóli stjórnsýsluvalds, til dæmis þær sem eru einkaréttarlegs eðlis, teljast ekki stjórnvaldsákvarðanir. Þegar stjórnvaldsákvörðun hefur verið tekin um úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis á grundvelli laga nr. 40/1991 er gerður leigusamningur við umsækjanda, standi vilji til þess hjá viðkomandi. Þar er um að ræða leigusamning sem húsaleigulög nr. 36/1994 gilda um. Þær ákvarðanir sem lúta að leigusamningnum sjálfum, svo sem um greiðslu húsaleigu, eru því að mati úrskurðarnefndarinnar ekki stjórnvaldsákvarðanir. Ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar um að synja beiðni kæranda um niðurfellingu á húsaleigu er því ekki tæk til efnismeðferðar. Að því virtu er þeim þætti kærunnar vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

 

Verður þá vikið að þeirri ákvörðun sveitarfélagsins að synja kæranda um styrk til greiðslu húsaleigu. Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skal þess gætt við framkvæmd félagsþjónustunnar að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við fjárhagsaðstoð, sbr. 1. mgr. 2. gr. Í 1. mgr. 12. gr. laganna kemur fram að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Þá segir í 2. mgr. 12. gr. að aðstoð og þjónusta skuli jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf. Í athugasemdum með ákvæði 12. gr. í frumvarpi til laga nr. 40/1991 kemur fram að skyldur sveitarfélaga miðist annars vegar við að veita þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og hins vegar að tryggja að íbúar geti séð fyrir sér og fjölskyldum sínum.

Í VI. kafla laga nr. 40/1991 er kveðið á um fjárhagsaðstoð en í 19. gr. laganna kemur fram sú grundvallarregla að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í 1. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ er kveðið á um inntak fjárhagsaðstoðar. Þar kemur fram í 1. mgr. að skylt sé að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geta séð sér og sínum farborða án aðstoðar. Samkvæmt 5. mgr. 1. gr.  reglnanna skal fjárhagsaðstoð veitt í eðlilegum tengslum við önnur úrræði félagsþjónustunnar, svo sem ráðgjöf og leiðbeiningar, í samræmi við V. kafla laga nr. 40/1991 þar sem kveðið er á um félagslega ráðgjöf. Samkvæmt 6. mgr. 1. gr. reglnanna skal fjárhagsaðstoð veitt á formi framfærslustuðnings eða tilboðs um starf eða virkniúrræði. Tilgangur aðstoðar er að styðja einstaklinga sem aðstoðar njóta til sjálfsbjargar, gera þeim kleift að framfleyta sér og fjölskyldu sinni án aðstoðar og að stuðla að valdeflingu þeirra.

Í 10. gr. reglnanna segir að við ákvörðun á fjárhagsaðstoð skuli grunnfjárþörf til framfærslu, sbr. 11. gr., lögð til grundvallar og frá henni dregnar heildartekjur, sbr. 12. gr. Óumdeilt er að tekjur kæranda eru hærri en grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar og var umsókn hennar synjað með vísan til þess. Í IV. kafla reglna sveitarfélagsins er kveðið á um heimildir vegna sérstakra aðstæðna. Ljóst er að ekkert af þeim ákvæðum sem þar eru tilgreind eiga við um aðstæður kæranda. Að því virtu er ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar um að synja beiðni kæranda um styrk til greiðslu húsaleigu staðfest


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar, dags. 25. maí 2021, um að synja beiðni A, um styrk til greiðslu húsaleigu, er staðfest. Þeim hluta kærunnar er varðar synjun sveitarfélagsins á beiðni kæranda um niðurfellingu á húsaleigu er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

                                                                    

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta