Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 8/2001. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 8. janúar 2002

í máli nr. 8/2001:

Grímur Bjarndal og

Þráinn Elíasson

gegn

Umferðarráði

Með bréfi 29. desember 2001, sem barst kærunefnd útboðsmála 31. sama mánaðar, kæra Grímur Bjarndal Jónsson og Þráinn Elíasson innkaup Umferðarráðs á umsjón með skriflegum og verklegum ökuprófum á öllu landinu. Kærendur krefjast þess að ákvörðun Umferðarráðs 21. desember 2001 um að ganga til samninga við Frumherja hf. verði ógilt, gerð samningsins stöðvuð og innkaupin auglýst á nýjan leik. Verði ekki á það fallist er þess krafist að nefndin tjái sig um skaðabótaskyldu kærða og grundvöll skaðabóta. Þá er þess krafist að kærða verði gert að greiða kærendum kostnað við að hafa kæruna uppi.

Kærða hefur verið gefinn kostur á að tjá sig sérstaklega um kröfu kæranda um stöðvun samningskaupanna um stundarsakir. Í athugasemdum sínum krefst kærði þess að þessari kröfu kærenda verði hafnað.

Eins og málið liggur fyrir telur nefndin rétt að taka afstöðu til kröfu kærenda um stöðvun samningsgerðar um stundarsakir þegar í stað, en láta úrlausn um kröfur kærenda að öðru leyti bíða endanlegs úrskurðar.

I.

Samkvæmt gögnum málsins lúta umrædd innkaup kæranda að fyrirhuguðum samningi við bjóðanda um framkvæmd skriflegra og verklegra ökuprófa á öllu landinu, sbr. umsóknarskilmála um framkvæmd ökuprófa 12. desember 2001. Nánari lýsingu þeirrar þjónustu, sem viðsemjandi kærða á að veita, er að finna í umsóknarskilmálunum og handbók ökuprófa. Eins og þar kemur nánar fram er um að ræða framkvæmd skriflegra og verklegra ökuprófa samkvæmt samkvæmt 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og reglugerð nr. 501/1997 um ökuskírteini.

Kröfur kærenda eru á því reistar að innkaup kærða séu útboð í skilningi laga nr. 94/2001 um opinber innkaup og hafi kærða borið að fara eftir ákvæðum laganna um útboð við framkvæmd þeirra, meðal annars að því er varðar fyrirkomulag útboðs, fresti, breytingar á útboðsskilmálum og opnun tilboð. Þá hafi fjárhæðir innkaupanna einnig verið yfir viðmiðunarmörkum 56. gr. laganna og því hafi átt að auglýsa útboðið á Evrópska efnahagssvæðinu

II.

Samkvæmt lokamálslið 1. mgr. 12. gr. laga nr. 94/2001 er ekki skylt að bjóða út innkaup á þeirri þjónustu, sem talin er upp í I. viðauka B við lögin, en viðaukinn tekur mið af viðauka I B við tilskipun nr. 92/50/EBE um samræmingu reglna um útboð og gerð opinberra samninga um kaup á þjónustu, eins og henni hefur síðar verið breytt og hún tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Meðal þeirrar þjónustu sem þar er talin upp er kennsla- og starfsmenntunarþjónusta (CPA tilvísunarnúmer 80). Undir kennslu- og starfsmenntunarþjónustu fellur meðal annars starfsemi ökuskóla (e. driving-school services), ökuprófun (e. driving-test services) og ökukennsla (e. driving lessons) samkvæmt nánari sundurliðun á flokki 80 (sbr. tilvísunarnúmer 80411000, 80411100 og 80411200). Samkvæmt framangreindu verður að telja að sú þjónusta, sem kærði óskaði kaupa á samkvæmt framangreindu, hafi fallið undir I. viðauka B laga nr. 94/2001.

Ekki liggur fyrir að fjármálaráðherra hafi sett sérstakar reglur um innkaup á umræddri þjónustu samkvæmt heimild í 2. mgr. 12. gr. laga nr. 94/2001. Var kærða því ekki skylt að bjóða innkaupin út, hvorki innanlands né á hinu Evrópska efnahagssvæði, sbr. 1. mgr. 12. gr. laganna. Eins og málið liggur fyrir að svo stöddu verður ekki annað ráðið en að gætt hafi verið jafnræðis við framkvæmd innkaupanna, sbr. 11. gr. laga nr. 94/2001. Þegar af þessum ástæðum er því ekki fullnægt skilyrðum laganna til að stöðva samningsgerð kærða um stundarsakir þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru kærenda.

Ákvörðunarorð :

Kröfu kærenda, Gríms Bjarndals Jónssonar og Þráins Elíassonar, um stöðvun samningsgerðar um stundarsakir vegna innkaupa kærða, Umferðaráðs, á umsjón með skriflegum og verklegum ökuprófum, er hafnað.

Reykjavík, 8. janúar 2002.

Páll Sigurðsson

Sigfús Jónsson

Rétt endurrit staðfestir.

08.01.2002


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta