Hoppa yfir valmynd

Nr. 156/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

 

Mál nr. 156/2019

Föstudaginn 9. ágúst 2019

 

 

A

 

gegn

 

umboðsmanni skuldara

 

 

ÚRSKURÐUR

 

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Þann 16. apríl 2019 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara, sem tilkynnt var með bréfi 8. apríl 2019, þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 23. apríl 2019 óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 29. apríl 2019. Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 2. maí 2019 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda við greinargerð bárust með bréfi 16. maí 2019. Þær voru sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 17. maí 2019  og óskað eftir afstöðu embættisins. Framhaldsgreinargerð umboðsmanns barst með bréfi 22. maí 2019. Hún var send kæranda með bréfi 23. maí 2019 og henni boðið að koma á framfæri andmælum sínum. Athugasemdir kæranda við framhaldsgreinargerð umboðsmanns skuldara bárust með bréfi 28. maí 2019 og voru þær sendar umboðsmanni skuldara til kynningar 29. maí 2019. Með tölvupósti 4. júní 2019 upplýsti umboðsmaður að hann teldi ekki ástæðu til að gera frekari athugasemdir í málinu.

 

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi er fædd árið X. Hún býr ásamt sambýlismanni og X börnum  í leiguhúsnæði í B. [...].

Samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara frá 8. apríl 2019 eru heildarskuldir kæranda 5.761.486 krónur en þar af fellur skuld vegna námslána að fjárhæð 700.149 krónur utan greiðsluaðlögunar samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Að sögn kæranda má rekja greiðsluerfiðleika hennar til þess að hún hafi sagt upp þáverandi starfi sínu vegna of mikils álags í vinnu [...]. Hún hafi því verið atvinnulaus frá X 2018. Þá hafi kærandi einnig tekið of mikið af lánum.

Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 10. desember 2018 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 8. apríl 2019 var umsókn hennar synjað með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi óskar þess að mál hennar verði tekið til endurskoðunar og fjölskyldunni veitt nauðsynleg aðstoð til að hún þurfi ekki að lifa í stanslausum ótta og kvíða yfir því að lenda á götunni, eiga ekki peninga fyrir mat og svo framvegis. Verður að skilja þetta svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar verði felld úr gildi.

Kærandi telji að umboðsmaður skuldara hafi ekki sinnt máli hennar af heilum hug. Kærandi hafi aldrei heyrt frá umboðsmanni og hafi hvorki náð sambandi við hann til að fá upplýsingar um stöðu málsins né hafi henni verið gefið tækifæri til að koma að frekari útskýringum vegna málsins.

Kærandi greinir frá því að hún sé X barna móðir [...] og allar tekjur hennar fari í að greiða húsaleigu. Kærandi hafi fest í vítahring smálána og hafi gert allt sem hún hafi getað til að standa í skilum. Það hafi gengið vel þar til hún missti vinnuna.

Sambýlismaður kæranda hafi verið atvinnulaus meira eða minna allt árið 2018. Frá því að hann fékk vinnu hafi hann aldrei getað unnið heilan mánuð vegna þess að [...]. Þar af leiðandi hafi sambýlismaður kæranda aldrei fengið greidd laun fyrir heilan mánuð.

Kærandi telji að umboðsmaður skuldara hafi ekki tekið tillit til breyttra aðstæðna frá því að fyrri umsókn hennar um greiðsluaðlögun hafi verið hafnað. Þær hafi breyst þannig að fjölskyldan hafi þurft að stækka við sig húsnæði og hafi húsaleigan hækkað úr 110.000 krónum í 250.000 krónur á mánuði. [...].[...] Síðustu smálánin hafi kærandi síðan tekið í júlí/ágúst 2018.

Kærandi og sambýlismaður hennar hafi átt erfitt með að ná endum saman í tæpt ár og hafi hún farið að taka smálán til að framfleyta fjölskyldunni. Þegar smálánin voru tekin í byrjun árs 2018 hafi ekki staðið til að [...] og kærandi ekki séð fyrir að þurfa að minnka svo hratt við sig vinnu. Ekki hafi heldur staðið til að fjölskyldan stækkaði við sig húsnæði svo hratt eða að sambýlismaður kæranda fengi ekki vinnu fyrr en X. Þegar lánin voru tekin hafi kærandi gert ráð fyrir að hún yrði áfram í X% vinnu og að sambýlismaður kæranda fengi strax starf. [...]. Lán, sem tekin hafi verið eftir að umsókn hafi verið send umboðsmanni skuldara í júní 2018, hafi sem fyrr segir verið tekin vegna þess að fjölskyldan hafi ekki átt peninga fyrir mat eða annarri nauðsynjavöru og ekki átt möguleika á að fá hjálp annars staðar frá.

Kærandi hafi gert allt sem í hennar valdi hafi staðið til að semja við kröfuhafa en það ekki tekist. Auk þess hafi óvænt útgjöld komið upp seint á árinu 2018 og snemma árs 2019, meðal annars hafi bifreið kæranda eyðilagst. Þá hafi þau ekki fengið aðstoð frá þjónustumiðstöð hverfisins því þó að kærandi væri [...] hafi hún verið langt yfir lágmarkstekjum fyrir fjárhagsaðstoð.

Kærandi kveður þá fullyrðingu umboðsmanns skuldara að hann hafi hringt í sig vera ósanna. Kærandi hafi ekkert heyrt frá umboðsmanni og því hafi hún sjálf hringt til embættisins þar sem henni hafi borist skipanir um að mæta fyrir dóm og því viljað fá aðstoð umboðsmanns. Einu svörin sem kærandi hafi fengið hafi verið þau að mæta eða semja. Svo hafi umboðsmaður sagt við kæranda að hún gæti allt eins hætt við umsókn sína því að henni yrði hafnað hvort sem væri. Kærandi hafi reynt að útskýra að hún gæti ekki samið en hún hefði ekki efni á því þar sem allar hennar tekjur færu í að greiða húsaleigu og sambýlismaður hennar fengi engin laun, en á það hafi ekki verið hlustað.

Að sögn kæranda hafi hún svarað bréfi umboðsmanns skuldara skriflega. Hún hafi sjálf farið með bréfið til embættisins innan viku frá því að hún hafi fengið það. Þá hafi hún beðið um að fá að hitta umboðsmann en verið tjáð að hann væri nýfarinn á fund. Kærandi hafi þá óskað eftir að umboðsmaður myndi hringja við tækifæri en hún hafi aldrei heyrt frá honum. Því telji kærandi að máli hennar hafi ekki verið sinnt.

Að auki hafi allt framangreint sett mikið strik í reikninginn hjá henni varðandi andlega heilsu. Kærandi hafi verið haldin endalausum kvíða og beðið eftir að heyra frá umboðsmanni í von um hjálp eða aðstoð af einhverju tagi.

Kærandi óski eftir því að umboðsmaður skuldara skoði mál hennar betur og taki tillit til þess að hún standi ein undir greiðslu af húsaleigu, rafmagni og matarinnkaupum en hún sé atvinnulaus og heima fram í X 2019 [...]. Eins og fram hafi komið hafi sambýlismaður hennar ekki haft tekjur til þess að aðstoða.

Samkvæmt því sem umboðsmaður skuldara segi þá sé það tímabilið frá 7. mars 2018 til 27. júlí 2018 sem sé til skoðunar. Kærandi telji það út í hött því hún hafi sótt um greiðsluaðlögun í desember 2018 þegar hún hafi séð fram á að geta ekki staðið skilum. Kærandi spyrji af hverju verið sé að skoða þetta tímabil þegar taka eigi til greina hvernig staða hennar sé núna og skoða hvers vegna hún geti ekki staðið í skilum nú.

Að mati kæranda gefi nafnið umboðsmaður skuldara ekki rétta mynd af stofnuninni þar sem hún sé ekki boðin og búin til að leggja allt sitt af mörkum til að aðstoða þá sem til embættisins leita. Kærandi sé ekki að sækjast eftir því að fá greiðslur sínar frystar eða felldar niður, enda viti kærandi að hún hafi tekið þessi lán án þess að hafa hugsað um framhaldið. Hún sé aðallega að leita eftir því að létta á kvíðanum með því að fá aðstoð fagaðila við að semja um greiðslur skulda sinna.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til þeirra aðstæðna sem þar séu tilgreindar.

Í b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef stofnað hafi verið til skulda á þeim tíma er skuldari hafi greinilega verið ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið sömu lagagreinar sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lge. komi fram að þær aðstæður sem fjallað sé um í 2. mgr. 6. gr. lge. eigi það sameiginlegt að ekki geti verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun, verði vandi hans að einhverju leyti rakinn til atvika sem hann beri sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni.

 

Jan.

Feb.

Mars

Apríl

Maí

Júní

Júlí

Ágúst

Sept.

Okt.

Nóv.

Des.

Tekjur

358,712

330,887

329,923

337,000

306,778

406,765

277,863

749,751

461,698

401,520

367,605

367,605

Húsnæðisbætur

21,472

21,472

21,472

42,945

50,261

50,261

50,261

50,261

42,831

42,831

22,047

22,047

Samtals

380,184

352,359

351,395

379,945

357,039

457,026

328,124

800,012

504,529

444,351

389,652

389,652

Framfærslukostn.

271,051

260,722

260,722

260,722

408,270

408,270

408,270

408,270

408,270

408,270

433,913

433,913

Greiðslugeta

109,133

91,637

90,673

119,223

-51,231

48,756

-80,146

391,742

96,259

36,081

-44,261

-44,261

Kærandi hafi áður sótt um greiðsluaðlögun. Samkvæmt þeim gögnum sem fyrir liggi hjá Embætti umboðsmanns skuldara hafi tekjur kæranda, kostnaður vegna framfærslu og greiðslugeta verið eftirfarandi á árinu 2018:

 

Tekjur séu samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra en húsnæðisbætur vegna janúar, febrúar og mars séu miðaðar við upplýsingar úr fyrri umsókn kæranda um greiðsluaðlögun. Kostnaður vegna framfærslu sé miðaður við upplýsingar úr fyrri umsókn kæranda um greiðsluaðlögun

Á tímabilinu X 2017 til 27. júlí 2018 hafi kærandi tekið 56 lán/ raðgreiðslusamninga samtals að fjárhæð 3.712.690 krónur. Þar af hafi hún gert 46 samninga að fjárhæð alls 2.721.632 krónur frá 7. mars 2018.

Í mars 2018 hafi mánaðarleg greiðslugeta kæranda verið jákvæð um 90.673 krónur. Mánaðarleg greiðslubyrði þeirra lána sem tekin hafi verið á tímabilinu 29. nóvember 2017 til og með 10. mars 2018 hafi verið 95.652 krónur. Þannig hafi verið ljóst að þegar kærandi hafi tekið lán að fjárhæð 100.000 krónur 10. mars 2018 hafi hana vantað 4.979 krónur til þess að geta staðið í skilum með greiðslur af láninu. Mánaðarleg greiðslugeta kæranda hafi síðan hækkað í 119.223 krónur í apríl 2018, en á þeim tíma hafi greiðslubyrði þeirra lána sem kærandi hafi tekið frá nóvember 2017 til og með 30. apríl 2018 verið komin í 163.088 krónur. Kæranda hafi því vantað 43.865 krónur á mánuði til að geta staðið í skilum með allar skuldbindingar sínar.

Í júlí 2018 hafi mánaðarleg greiðslugeta kæranda verið orðin neikvæð um 80.146 krónur. Þegar hún hafi gert fjölgreiðslusamning 27. júlí 2018 hafi hana vantað 768.835 krónur til að geta staðið í skilum með allar skuldbindingar sínar. Mánaðarleg greiðslubyrði af þeim 56 lánum sem kærandi hafi tekið hafi verið komin í 688.689 krónur.

Kærandi hafi lagt fram umsókn um ráðgjöf hjá umboðsmanni skuldara 6. mars 2018. Niðurstaða ráðgjafar hafi verið sú að þar sem óljóst væri hver greiðslugeta hennar yrði hafi ekki verið ljóst hvað hún gæti greitt af skuldum sínum. Eftir 6. mars 2018 og fyrir 6. júní 2018 hafi kærandi tekið 32 lán/raðgreiðslusamninga en þeir séu allir í vanskilum.

Kærandi hafi lagt fram umsókn um greiðsluaðlögun 6. júní 2018. Þeirri umsókn hafi verið synjað á grundvelli a-, b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. Eftir 6. júní hafi kærandi tekið 14 lán/raðgreiðslusamninga.

Með vísan til alls framangreinds sé það heildstætt mat umboðsmanns skuldara að kærandi hafi stofnað til skulda á þeim tíma sem hún hafi greinilega verið ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar, hagað fjármálum sínum á ámælisverðan hátt og tekið fjárhagslega áhættu, sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu hennar á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað, með því að taka lán/ raðgreiðslusamninga á tímabilinu 7. mars 2018 til og með 27. júlí 2018, sbr. b- og c-liði 2. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara heldur því fram að umsókn kæranda hafi ekki verið synjað fyrir fram eins og hún gefi í skyn. Kærandi hafi á hinn bóginn verið upplýst um þau atriði sem leitt hafi til synjunar á fyrri umsókn hennar um greiðsluaðlögun og að þau atriði kæmu einnig til skoðunar við mat á síðari umsókn hennar.

Þá mótmæli embættið því að máli kæranda hafi ekki verið sinnt af heilum hug. Henni hafi verið sent andmælabréf með ábyrgðarpósti 19. mars 2019. Bréfið hafi einnig verið sent henni í tölvupósti á uppgefið netfang 20. mars 2019 þar sem hún hafi verið upplýst um bréfið og efni þess. Með tölvupósti sama dag, hafi kærandi óskað eftir að koma til fundar við starfsmann embættisins til að svara spurningum og útvega gögn. Starfsmaður embættisins hafi sent kæranda tölvupóst sama dag þar sem fram komi að fundur myndi ekki skila árangri, hefði kærandi ekki kynnt sér efni bréfsins. Þá hafi kærandi jafnframt verið upplýst um að svara bæri bréfinu skriflega.

Kæranda hafi því verið veitt færi á að gera athugasemdir og leggja fram gögn í málinu vegna þeirra atriða sem þótt hafi geta leitt til synjunar á umsókn um greiðsluaðlögun.

Meðal þess sem fram komi í athugasemdum kæranda sé fullyrðing hennar um að í símtali við starfsmann embættisins hafi komið fram að kærandi „gæti allt eins hætt við þessa umsókn því henni yrði hafnað hvort sem er“. Þetta sé ekki rétt. Kærandi hafi á hinn bóginn verið upplýst um að þau atriði sem hafi leitt til synjunar á fyrri umsókn hennar um greiðsluaðlögun, kæmu einnig til skoðunar við mat á þeirri umsókn sem hér sé til umfjöllunar.

Kærandi greini frá því að óvæntir hlutir hafi komið upp síðla árs 2018 og snemma árs 2019. [...] hennar hafi eyðilagst, sambýlismaður hennar ítrekað verið svikinn um laun og hann ekki fengið [...]. Þá hafi þau ekki fengið aðstoð frá þjónustumiðstöð hverfisins vegna tekjuviðmiða. Framangreindar skýringar kæranda hafi ekki borist embættinu í kjölfar andmælabréfs sem henni hafi verið sent 19. mars 2019. Umboðsmaður bendi á hinn bóginn á að það tímabil sem sé til skoðunar, sé frá 7. mars 2018 til 27. júlí 2018. Ekki verði því séð að skýringar kæranda eigi við í málinu vegna þeirra lána sem hún hafi tekið og leitt hafi til synjunar á umsókn hennar.

Um framkvæmd b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. í greiðsluaðlögunarmálum hjá Embætti umboðsmanns skuldara og kærunefnd greiðsluaðlögunarmála megi vísa til úrskurða nefndarinnar í málum nr. 11/2011, 17/2011, 23/2011 og 31/2011. Af þeim verði ráðið að taka beri tillit til samspils tekna og skulda á þeim tíma sem umsækjendur um greiðsluaðlögun hafi stofnað til skuldbindinga. Ljóst þyki að hafi þeir ekki getað staðið við skuldbindingar þegar til þeirra hafi verið stofnað sé umboðsmanni skuldara heimilt að synja um greiðsluaðlögun. Hin kærða ákvörðun byggi þannig á heildstæðu mati á aðstæðum kæranda, miðað við þau gögn sem fyrir hafi legið.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að ákvörðun um að synja kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar frá 8. apríl 2019 verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á b- og c-liðum 2. mgr. 6. gr. lge. Samkvæmt b-lið er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið ákvæðisins er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Kærandi sótti um heimild til að leita greiðsluaðlögunar 10. desember 2018. Að mati úrskurðarnefndarinnar þykir rétt að líta til alls ársins 2018 að því er varðar tekjur og framfærslukostnað kæranda í aðdraganda þess að hún sótti um greiðsluaðlögun.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtali ársins 2019 vegna tekna ársins 2018 og öðrum gögnum málsins var fjárhagsstaða kæranda eftirfarandi á árinu 2018 í krónum:

Tímabilið 1. janúar til 31. desember 2018: 12 mánuðir

Nettótekjur alls

5.094.998

Alls til ráðstöfunar

5.094.998

Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali

424.583

Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns

438.050

Greiðslugeta kærenda á mánuði að meðaltali

-13.467

 

Nettótekjur samanstanda af launum, húsnæðisbótum og húsaleigubótum samkvæmt skattframtali.

Eignir kæranda í lok ársins 2018 voru bankainnstæður að fjárhæð 43.517 krónur og bifreið að fjárhæð 239.149 krónur. Skuldir í lok árs námu samkvæmt skattframtali 4.104.673 krónur og voru vegna smálána, námslána, ofgreiðslu bóta, o.fl.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum tók kærandi lán hjá ýmsum aðilum á tímabilinu janúar til júlí 2018 samtals að höfuðstólsfjárhæð 2.959.841 króna. Greiðslubyrði af höfuðstól þessara lána var 283.855 krónur á mánuði. Greiðslugeta kæranda var að meðaltali neikvæð um 13.467 krónur á mánuði. Á þessum tíma skuldaði hún námslán en samkvæmt gögnum málsins greiddi hún ekki afborgun á gjalddaga þeirra 30. júní 2018 sem var að fjárhæð 132.690 krónur.

Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir þeim atriðum sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Í því lagaákvæði eru í sjö stafliðum rakin atriði sem umboðsmaður skuldara skal sérstaklega líta til við mat á slíku. Þetta eru ástæður sem eiga það sameiginlegt að byggjast á því að ekki geti verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun verði vandi hans að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni, sbr. athugasemdir með frumvarpi til lge. Meðal þeirra atriða eru b- og c- liðir 2. mgr. 6. gr. lge., sem þegar hefur verið gerð grein fyrir, en umboðsmaður skuldara synjaði kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli þessara ákvæða.

Eins og að framan er rakið var greiðslugeta kæranda neikvæð um 13.467 krónur að meðaltali á mánuði allt árið 2018. Fyrir liggur að kærandi stofnaði til skulda sem voru langt umfram greiðslugetu hennar á þeim tíma. Úrskurðarnefndin telur því, með vísan til þess sem greinir hér að framan, að kærandi hafi stofnað til skuldbindinga á árinu 2018 sem hún var greinilega ófær um að standa við. Með þessu hagaði hún jafnframt fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt, enda gat henni ekki dulist að hún væri engan veginn í stakk búin til að greiða af þeim lánum sem hún tók á árinu 2018.

Samkvæmt öllu því, sem hér hefur verið rakið, telur úrskurðarnefndin að kæranda hafi réttilega verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c- liða 2. mgr. 6. gr. lge. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 


 

 

ÚRSKURÐARORÐ

 

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

 

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

 

 

 

Lára Sverrisdóttir

  Sigríður Ingvarsdóttir                                       Þórhildur Líndal

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta