Hoppa yfir valmynd

Nr. 236/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 23. júlí 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 236/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20060039

Beiðni [...] um endurupptöku

 

I. Málsatvik

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála í stjórnsýslumáli nr. KNU19110021, dags. 7. maí 2020, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar frá 25. október 2019 um að taka ekki umsókn einstaklings er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd á Íslandi til efnismeðferðar og vísa honum frá landinu.

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 26. ágúst 2019. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 11. maí 2020. Þann 14. maí 2020 lagði kærandi fram beiðni um frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar og barst nefndinni greinargerð í málinu þann 22. maí 2020. Beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa var synjað af kærunefnd þann 3. júní 2020. Þann 26. júní 2020 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku málsins ásamt greinargerð og fylgigögnum.

Af endurupptökubeiðni kæranda má ráða að krafan byggi á 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga þar sem að ákvörðun hafi byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að ákvörðun var tekin. Þá fer kærandi fram á að endursendingu verði frestað með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 þar til framlögð gögn hafi verið könnuð.

Í greinargerð kæranda kemur fram að eftir að máli hans hafi verið lokið hjá yfirvöldum á Íslandi og endursending til Tékklands væri í vændum hafi smyglari sá sem hafi komið honum til Tékklands haft samband við hann og hafi síðan þá hótað og ógnað kæranda og fjölskyldu hans í heimaríki. Til stuðnings beiðni sinni hefur kærandi lagt fram gögn, þ. á m. hljóðupptökur og önnur gögn sem tengjast samskiptum við smyglarann.

Þá fer kærandi þess á leit við kærunefnd að nefndin kalli eftir sjónarmiðum hans eða frekari skýringum, telji nefndin að skilyrði fyrir endurupptöku séu ekki fyrir hendi.

III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál hans verði tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda þann 7. maí 2020. Með úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að synjun á efnismeðferð kæranda um alþjóðlega vernd á Íslandi og frávísun frá landinu bryti ekki gegn 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá var ekki talið að kærandi hefði slík tengsl við landið eða að aðstæður hans væru að öðru leyti svo sérstakar að taka ætti umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Til stuðnings beiðni um endurupptöku lagði kærandi fram ýmis gögn, s.s. afrit af vegabréfi og fæðingarvottorði kæranda, ljósmyndir af lyfseðli og lyfjum og gögn sem tengist samskiptum við tiltekinn smyglara. Á meðal gagnanna voru ný gögn sem eiga að sýna að tiltekinn smyglari hafi hótað og ógnað kæranda eftir að kærunefnd úrskurðaði í máli hans, þ. á m. hljóðupptökur. Kærunefnd hefur farið yfir beiðni kæranda um endurupptöku á úrskurði nefndarinnar frá 7. maí sl., ásamt áðurgreindum fylgigögnum sem liggja fyrir í málinu. Telur kærunefnd að um sé að ræða ítarlegri upplýsingar um það sem þegar lá fyrir við uppkvaðningu úrskurðar í máli kæranda. Þá þegar lá fyrir að kærandi óttaðist smyglara og var það lagt til grundvallar við úrlausn málsins. Vísar kærunefnd til umfjöllunar um aðstæður og málsmeðferð í Tékklandi í framangreindum úrskurði kærunefndar frá 7. maí sl. Þar var m.a. tekið fram að gögn málsins bæru með sér að tékknesk stjórnvöld hafi yfir að ráða fullnægjandi úrræðum til að bregðast við afbrotum og að kærandi geti leitað ásjár þarlendra löggæsluyfirvalda eða annarra þar til bærra stjórnvalda óttist hann um öryggi sitt í Tékklandi. Þá var lagt til grundvallar að kærandi hefði aðgang að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu þar í landi.

Að teknu tilliti til gagna málsins er það mat kærunefndar að í greinargerð kæranda með beiðni um endurupptöku á máli hans sé byggt á sömu málsatvikum og málsástæðum og hann byggði á og bar fyrir sig í kærumáli sínu til kærunefndar, en kærunefnd hefur þegar tekið afstöðu til þeirra málsástæðna.

Í ljósi framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar útlendingamála, dags. 7. maí 2020, hafi byggt á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik máls hafi breyst verulega frá því að fyrrgreindur úrskurður var kveðinn upp, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Þá vill kærunefnd árétta að kærunefnd útlendingamála getur ekki frestað framkvæmd ákvörðunar á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt orðalagi ákvæðisins er það Útlendingastofnun sem hefur heimild til að fresta framkvæmd ákvörðunar vegna sérstakra aðstæðna útlendings eða vegna þess að ómögulegt sé að framkvæma ákvörðun að svo stöddu.

Að öllu framangreindu virtu er kröfu kæranda um endurupptöku málsins því hafnað.  

 

Úrskurðarorð

 

Kröfu kæranda er hafnað.

The appellant‘s request is denied.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                              Bjarnveig Eiríksdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta