Hoppa yfir valmynd

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 24. nóvember 2008

Ár 2008, mánudaginn 24. nóvember, er í matsnefnd eignarnámsbóta samkvæmt lögum nr. 11/1973 tekið fyrir matsmálið nr. 4/2008.

                                                                   Vegagerðin

                                                                    gegn

                                                                    Eigendum Reykjahlíðar

 

og í því kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR

Úrskurð þennan kveða upp Allan Vagn Magnússon, héraðsdómari og varaformaður matsnefndar eignarnámsbóta, ásamt meðnefndarmönnunum Sverri Kristinssyni, löggiltum fasteignasala, og Vífli Oddssyni verkfræðingi, en varaformaður hefur kvatt þá til starfa í málinu skv. heimild í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973.

Með bréfi, dagsettu 23. júlí 2008 sl., beiddist eignarnemi, sem er Vegagerðin, þess að Matsnefnd eignarnámsbóta meti bætur vegna framkvæmda við vegagerð og efnistöku í óskiptu landi Reykjahlíðar, Skútustaðahreppi.

Enn fremur var þess farið á leit, að Matsnefnd eignarnámsbóta heimilaði eignarnema að taka umráð hins eignarnumda, eftir atvikum að lokinni vettvangsskoðun, þrátt fyrir að mati á bótum hafi ekki verið lokið, sbr. 13. gr. laga nr. 11/1973.

Með úrskurði nefndarinnar hinn 26. ágúst var eignarnema heimiluð umraðataka og gert að setja 20 milljón króna tryggingu fyrir væntanlegum bótum til eignarnámsþola.

 

Eignarnemi er Vegagerðin, Borgartúni 5 og 7, Reykjavík.

Eigendur jarðanna Reykjahlíðar I-IV, Reynihlíðar, Bjargs og Víðihlíðar í Skútustaðahreppi hafa talið til eignarréttar yfir hinu óskipta landi, þar sem hin eignarnumda landspilda og jarðefni til vegagerðar er staðsett. Eignarnámsþolar eru þinglýstir og skráðir eigendur þessara jarða og eru eftirtaldir:

Reykjahlíð I:

Guðrún M. Valgeirsdóttir (25,0000%)          

kt. 100464-2179                                               

Reykjahlíð II:

Sigurður J. Þorbergsson (8,8889%)                 Sigurður Baldursson (7,7778%)

kt. 170849-3969                                              150256-2679

Þuríður Sigurðardóttir (8,8889%)                   Finnur Baldursson (7,7778%)

191213-3659                                                   100652-3669

Reykjahlíð III:

Bryndís Jónsdóttir (8,3333%)                         Ólafur H. Jónsson (8,3333%)                          

140647-3659                                                   071249-2719                                                   Reykjahlíð IV:

Finnur og Sigurður Baldurssynir (sjá Reykjahlíð II)

Reynihlíð:

Pétur Gíslason (6,2500%)

040168-3899

Bjarg:

Sigfús Illugason (6,2500%)                            Jón Illugason (3,1250%)

261148-7819                                                   050638-4729

Sólveig Illugadóttir (3,1250%)                       

210739-2389                                                    

Víðihlíð:

Héðinn Sverrisson (1,5625%)                        Sigrún Sverrisdóttir (1,5625%)

200949-3319                                                   090553-5349

Kristín Sverrisdóttir (1,5625%)                      Gísli Sverrisson (1,5625%)

061259-3849                                                   180561-7069

 

Andlag eignarnáms er nánar tiltekið land undir 40 m breitt vegsvæði Dettifossvegar, hluta vegar frá Dettifossvegi að Dettifossi, áningarstað við Hraunsdal og  jarðefni til vegagerðar úr landi umræddrar jarðar sem hér segir:

 

Land undir vegsvæði                                    87,26 ha.

 

Jarðefni til vegagerðar:

Fyllingarefni:                                                   148.715 m3

Burðarlagsefni:                                                152.823 m³

Efni í bundið slitlag                                            5.895 m³

 

Samtals jarðefni                                            307.433 m³

 

Eignarnemi lýsir hinni eignarnumdu spildu þannig að hún liggi um hálendi í um 350-370 metra hæð yfir sjávarmáli. Landið sé alls staðar þurrt og hvergi samfellt vatnsrennsli í farvegum allt árið. Spildan sé gróðurlaus eða gróðurlítil, skiptist á hraun, sandur, grýttur jökulruðningur og melar. Á hluta leiðarinnar sé sandfok áberandi. Á stöku stað sé gróður að finna og þá um þunna gróðurslikju að ræða eða uppblásin rofabörð. Landslag sé á köflum hrikalegt með miklu útsýni og nálægð við Jökulsá gefi landinu sérstakt náttúruverndargildi sem valdið hafi andstöðu náttúruverndaraðila við lagningu vegarins.

 

Skipulagsstofnun hafi lagst gegn lagningu vegarins vegna náttúruverndarsjónarmiða. Meginröksemdir fyrir því hafi m.a. verið að vernda bæri flóðaset Jökulsár á Fjöllum og vernda svæðið sem ósnortið land í nálægð við þjóðgarð Jökulsárgljúfra.  Hugmyndir um stækkun þjóðgarðsins hafi einnig komið fram og þar með að friða beri svæðið. Skútustaðahreppur hafi hins vegar ákveðið að heimila lagningu vegarins á þeim stað sem hér um ræði þar sem lega hans við núverandi veg hefði haft í för með sér meiri spjöll á grónu landi auk þess að vera mun óhagkvæmari í framkvæmd og rekstri fyrir eignarnema.

Hefðbundnar nytjar af hinni eignarnumdu spildu, s.s. til ræktunar, beitar eða bygginga séu ekki fyrir hendi eftir því sem vitað sé, enda landið ekki tækt til slíkra nota. Svo sem áður sagði sé landið gróðursnautt að mestu, hátt yfir sjávarmáli og fjarri byggð. Landið sé hins vegar talið hafa náttúruverndargildi vegna nálægðar við Jökulsá á Fjöllum, Dettifoss og þjóðgarðinn. Umferð ferðamanna að Dettifossi og þjóðgarðinum sé umstalsverð og muni framkvæmdin bæta verulega aðgengi að þessum stöðum með nýjum vegi.

Eignarnemi hafi gert eignarnámsþolum tilboð með bréfi dags. 5. desember 2007, að fjárhæð 7.911.431 kr., og hafi þar verið um að ræða fyrsta tilboð eignarnema. Tilboðið  hafi falið í sér eftirfarandi einingaverð:

 

Land undir veg:                    25.000 kr./ha.

Jarðefni til vegagerðar:

Fyllingarefni                              9 kr./

Burðarlagsefni                         27 kr./

Efni í bundið slitlag                45 kr./ m³

 

Tilboðinu hafi verið hafnað og samningaviðræður farið fram á milli aðila sem leitt hafi til verulegrar hækkunar á tilboði eignarnema sem gert heafi lokatilboð að heildarfjárhæð 16.783.410 kr., en einingaverð hafi verið voru hér segir:

 

Land undir veg:                    100.000 kr./ha.

Jarðefni til vegagerðar:

Fyllingarefni                            10 kr./

Burðarlagsefni                         30 kr./

Efni í bundið slitlag                50 kr./ m³

 

Lokatilboð eignarnema hafi ekki leitt til samnings og er litið svo á að það sé nú óskuldbindandi fyrir hann telji matsnefnd að meta eigi aðrar og lægri bætur í máli þessu.

 

SJÓNARMIÐ EIGNARNEMA

Eignarnemi gerir þá kröfu að bætur fyrir hið eignarnumda land og jarðefni til vegagerðar verði ákvarðaðar í samræmi við sjónarmið sem gerð er grein fyrir hér að aftan, og verði að lágmarki í samræmi við fyrsta tilboð  en að hámarki í samræmi við lokatilboð eignarnema, sem gerð var grein fyrir hér að framan.

Enn fremur er þess krafist að eignarnámsþola verði ákvarðaður hæfilegur málskostnaður sem taki mið af umfangi og tímalengd málsmeðferðar fyrir matsnefnd eignarnámsbóta.

Af hálfu eignarnema er á því byggt, að bætur til eignarnámsþola geti aldrei numið hærri fjárhæð en sem jafngildi því fjárhagslega tjóni sem eignarnámsþoli verður fyrir við eignarnámið. Eignarnámsþoli eigi með fullum bótum að verða sem líkast settur fjárhagslega og eignarnámið hefði ekki farið fram. Miða eigi bætur við sannað fjárhagslegt verðmæti hins eignarnumda á matsdegi miðað við staðgreiðslu. Til frádráttar bótum eigi að koma sérstakar hagsbætur eða ávinningur, sem ætla megi að eignarnámsþoli muni njóta af framkvæmdum þeim, sem eru tilefni eignarnámsins.

Til stuðnings kröfum sínum og sjónarmiðum varðandi ákvörðun bóta vísar eignarnemi til 72. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 með síðari breytingum, sem áskilji fullar bætur fyrir eignarnám, og til ákvæða vegalaga nr. 80/2007, einkum ákvæða VII. kafla laganna. Í 39. gr. sé að finna nánari ákvæði um ákvörðun eignarnámsbóta með mati. Þar komi m.a. fram að taka eigi tilliti til árlegs afraksturs af landinu og athuga vandlega allt það er getur haft áhrif á verðmæti þess er meta skal. Samkvæmt 3. mgr. 39. gr. ber að meta sérstaklega þá hagsbót sem eiganda hlotnast við eignarnámið, umfram aðra landeigendur eða rétthafa, s.s. ef land kann að hækka í verði umfram aðrar eignir.

Enn fremur er vísað til laga um framkvæmd eignarnáms nr. 11/1973 varðandi framkvæmd matsins. Loks er vísað til almennra ólögfestra reglna og viðurkenndra sjónarmiða um ákvörðun eignarnámsbóta, sem m.a. birtast í úrskurðaframkvæmd nefndarinnar, úrlausnum dómstóla og skrifum fræðimanna.

Eignarnemi kveðst hafa haft samráð um áratuga skeið við Bændasamtök Íslands um útgáfu viðmiðana um lágmarksbætur fyrir land undir veg og efnistöku. Í ljósi verðþróunar á fasteignamarkaði undanfarin ár og með hliðsjón af úrskurðum matsnefndar eignarnámsbóta hafi eignarnemi einhliða endurskoðað viðmiðanir hvað þetta varðar og gefið út vinnureglur um greiðslu bóta vegna vegagerðar.

Í vinnureglum eignarnema sé byggt á þeirri almennu ólögfestu reglu um ákvörðun eignarnámsbóta að miða beri bætur fyrir land við ætlað söluverð lands hverju sinni. Liggi ekki fyrir áreiðanlegar upplýsingar sem unnt sé að byggja á til ákvörðunar á ætluðu söluverði viðkomandi lands séu gefnar leiðbeiningar við ákvörðun bóta sem taki til mismunandi lands með tilliti til staðsetningar, landgæða, notkunarmöguleika o.fl.

Eignarnemi hafi aflað sér upplýsinga um þá þætti sem notaðir séu til viðmiðunar við mat lands hjá Fasteignamati ríkisins og lagt að nokkru leyti til grundvallar við gerð vinnureglnanna. Ennfremur hafi verið miðað við að færa til nútíma þær viðmiðanir sem eignarnemi styðjist við m.a. þannig að fjölþættari not lands komi til skoðunar við ákvörðun bóta hverju sinni en gert hafi verið skv. eldri orðsendingum um landbætur. T.d. sé sérstaklega tekið fram að horfa eigi til þess við mat á bótum ef land sem um ræði teljist ákjósanlegt til bygginga vegna staðsetningar og landgæða.

Eignarnemi telur að vinnureglur um bætur fyrir land feli í sér lágmarksviðmiðanir grunnverðs fyrir land sem unnt sé að miða við í flestum tilvikum þegar um sé að ræða hefðbundið landbúnaðarland og annað land utan þéttbýlis, fjarri vinsælum svæðum fyrir sumarhúsabyggð. Í sumum tilvikum geti þessar bætur verið ríflegar, s.s. á afskekktari svæðum og einnig þar sem landnotkun takmarkast af náttúrulegum aðstæðum, s.s. hæð yfir sjávarmáli.

Af hálfu eignarnema er litið svo á að hefðu eignarnámsþolar tekið tilboði um eignarnámsbætur sem áður er rakið, hefðu þeir fengið í sinn hlut ríflega fullar bætur fyrir hið eignarnumda land og jarðefni. Bæturnar hefðu tryggt eignarnámsþolum svo óyggjandi væri fullkomið skaðleysi af völdum eignarnámsins og jafnvel gott betur. Við matið telur eignarnemi óhjákvæmilegt að hafa í huga, að tilboð eignarnema hafi verið sett fram í því skyni að stuðla að samningum og forðast eignarnám í lengstu lög. Allur vafi hafi þar verið metinn eignarnámsþolum í hag og boðið hærra verð fyrir land og jarðefni en fáanlegt hefði verið fyrir þá í kaupum og sölum. Jafnframt telur eignarnemi að boðnar hafi verið hærri bætur en lesa megi út úr úrskurðum matsnefndar eignarnámsbóta í sambærilegum málum. Mikilvægt hafi þótt að tryggja aðgengi að landinu strax í byrjun sumars til að nýta mætti til fulls stuttan framkvæmdatíma ársins. Því miður hafi þær fyrirætlanir eignarnema ekki tekist og þar með megi gera ráð fyrir verulegum töfum á verklokum. Ekki sé ljóst hvort verktaki verði fyrir tjóni af þessum sökum.

Eignarnema sé ekki kunnugt um þekkt dæmi af sölu lands, sem sambærilegt er við það sem hér um ræðir. Land af þessu tagi gangi að jafnaði ekki í kaupum og sölum nema það fylgi með sem útland eða afréttur jarða. Landið sé óskipt eign og eigi eignarnámsþolar hlutdeild í því sem fylgi eign þeirra að tilteknum jörðum. Ekki liggi fyrir hvers virði óskipta landið sé í raun og veru þannig að óljóst sé hvort það hafi nokkur áhrif á verðmæti jarða eignarnámsþola. Markaðsverð landsins eða tæk viðmiðun um það í viðskiptum með sambærilegar jarðir liggi því ekki fyrir að mati eignarnema. Eignarnemi hafi metið landið í tilboði 1 á 25.000 kr./ha. Með hliðsjón af nýlegri úrskurðaframkvæmd telur eignarnemi að þetta verð hafi verið nærri lagi, en lokatilboð eignarnema hafi miðað við allt of hátt landverð. Lokatilboðið beri þess merki að það hafi verið sett fram til þess að forðast tafir og kostnað af eignarnámi og til að tryggja að umráð lands fengjust fyrir s.l. sumar. Skoða beri lokatilboðið í því ljósi að það sé sett fram í mjög svo eindreginni viðleitni eignarnema til að ná samningum.

Eignarnemi hafi miðað tilboð 1 við að um væri að ræða land sem engar hefðbundnar nytjar, s.s. ræktun, beit eða búseta væru mögulegar með skynsamlegum hætti. Enn fremur að aðgengi að landinu væri verulega takmarkað fyrir framkvæmdir. Hin eignarnumda landspilda liggi á svæði sem ekki muni metið sérstaklega til fasteignamats sem eign. Hafi því ekki verið að finna neina leiðsögn um verðmæti landsins í fasteignamatsverði þess sem eignarnemi hafi getað stuðst við.

Eignarnemi byggir á því að við matið beri samkvæmt fyrri fordæmum matsnefndar að taka mið af því til lækkunar bótum, að Reykjahlíð hafi löngum verið talin ein víðáttumesta jörð landsins. Lagning þjóðvegar um landið hafi lítil áhrif á heildarstærð jarðarinnar. Hins vegar muni greiðfær vegur auðvelda aðgengi að landinu fyrir eignarnámsþola. Enginn átroðningur hljótist af lagningu vegarins svo fjarri byggð og búsetu fyrir eigendur hins óskipta lands.

Eignarnemi vísar til fordæma í nýlegum úrskurðum matsnefndar eignarnámsbóta eftir því sem við geti átt. Til hliðsjónar megi nefna mál nr. 3/2006, vegna lónsstæðis Kárahnjúkavirkjunar og tilheyrandi efnistöku. Í því máli hafi matsnefnd eignarnámsbóta metið bætur vegna ótímabundinna nota á 3.025 ha landi undir lónsstæði Kárahnjúkastíflu, þar af 37 ha efnistökusvæði, þar sem teknir hafi verið 400.000 m³ af jarðefni til mannvirkjagerðar. Talið hafi verið að hin ótímabundnu afnot lands væru með þeim hætti meta bæri bætur með sama hætti og um eignarnám á landinu væri að ræða enda alls óvíst hvenær og í hvaða ástandi landinu yrði skilað. Bætur fyrir land undir lónstæði hafi verið metnar á 20.000 kr./ha.  Um sé að ræða land á hálendi, sem að ýmsu leyti svipi til þess lands sem hér um ræði, þó með þeirri undantekningu að land undir lónsstæðið hafi að hluta verið gróið land. Á móti komi að lónsstæðið sé lengra inni á hálendinu en land Reykjahlíðar auk þess sem töluvert stærra svæði hafi verið metið en gert sé í máli þessu. Hin ótímabundnu afnot af lónsstæði hafi verið metin að jöfnu við eignarnám og málin því sambærileg að því leyti. Að öllu samanlögðu verði landverð skv. tilboði 1 að teljast í nokkuð góðu samræmi við það fordæmi sem felist í úrskurðinum.

Ennfremur megi til hliðsjónar líta til úrskurða í málum nr. 7 og 8/1998, varðandi lagningu Hringvegar um s.k. Háreksstaðaleið. Um sé að ræða mál vegna mats á bótum vegna lagningar vegar um lönd  Háreksstaða og Arnórsstaða en þar hafi verið um að ræða heiðaland í sambærilegri hæð og hér um ræðir. Hins vegar hafi þar að stórum hluta verið um gróið land að ræða með lynggróðri og beitilandi. 41,6 ha. lands Háreksstaða hafi verið metnir á 360.000 kr. og 37,6 ha. lands Arnórsstaða verið metnir á 270.000 kr., eða rúmlega 7.200 kr./ha. Tilboð 1 að fjárhæð 25.000 kr./ha. sé meira en þrefalt hærra en niðurstöður í þessum málum sem jafngildi ríflega þeirri hækkun, sem almennt hafi orðið á fasteignum, t.d. fasteignum á höfuðborgarsvæðinu, á því tímabili sem liðið er frá Háreksstaðaúrskurðunum. Í ljósi þess að verðþróun hafi væntanlega ekki verið eins hröð á ”kaldari svæðum” auk þess munar sem sé á gróðurfari, megi segja að eignarnámsþolar hafi notið fyllsta vafa í tilboði 1 m.a. í ljósi þess að land það sem meta eigi í þessu máli sé nær alveg gróðurlaust, þurrt, sendið og grýtt.

Svo sem sjá má af framangreindu hafi lokatilboð eignarnema, sem miðað hafi við 100.000 kr./ha., ekki verið í takt við úrskurðaframkvæmd svo langt sem hún nái. Þar sem önnur haldbær gögn um verðmæti landsins hnígi ekki í aðra átt hljóti að mega álykta sem svo að tilboðið hafi verið of hátt. Af þeim sökum telur eignarnemi að matsnefnd beri að líta framhjá lokatilboðinu og meta bætur í samræmi við tilboð 1.

Eignarnemi telur að við mat á bótum fyrir jarðefni úr óskiptu landi Reykjahlíðar megi byggja á vinnureglum um landbætur o.fl., sem notaðar séu til viðmiðunar við greiðslu fyrir jarðefni til vegagerðar. Þar sé gerður greinarmunur á efni eftir gæðum, þ.e. hvort efni sé nýtanlegt í fyllingar, burðarlag eða bundið slitlag. Enn fremur sé gerður greinarmunur á því hvort efni sé tekið innan eða utan markaðssvæða.

Eignarnemi byggir á því að um sé að ræða efnistöku utan markaðssvæða. Ekki sé um að ræða stöðuga og verulega eftirspurn eftir jarðefni til mannvirkjagerðar í óskiptu landi Reykjahlíðar, sem sé skilyrði þess að jarðefni teljist á markaðssvæði. Þvert á móti sé engin eftirspurn eftir efninu frá öðrum en eignarnema. Af þeim sökum séu boðnar bætur miðaðar við verð utan markaðssvæða skv. vinnureglum eignarnema. Boðnar séu bætur að fjárhæð 10 kr./ m³ fyrir fyllingarefni, 30 kr./ m³ fyrir neðra burðarlagsefni og 50 kr./ m³ fyrir efni í bundið slitlag.

Eignarnemi bendir á að um efnistöku sé að ræða á hálendi, fjarri byggð, þar sem engin eftirspurn sé eftir jarðefni til mannvirkjagerðar nema af hálfu eignarnema í sambandi við fyrirhugaða framkvæmd. Eignarnemi telur að markaðsvirði efnisins sé sem næst ekkert þar sem kaupendur skorti alfarið. Í samræmi við hefð séu þó boðnar fram bætur fyrir efnið sem tryggi fullar bætur fyrir það til handa eignarnámsþolum.

Eignarnemi bendir einnig á að hið mikla magn, sem hér um ræði, leiði til þess að meta beri hlutfallslega lægra verð á hvern rúmmetra en gert sé þegar um minna magn efnis sé að ræða. Enn fremur sé til þess að líta, að væntanlega sé malarefni í hinu víðáttumikla landi eignarnámsþola nánast óþrjótandi og áhrif efnistökunnar því lítil á möguleika til efnissölu. Ef svo ólíklega vilji til að sýnt verði fram á efnissölu til annarra ber að hafa þessi sjónarmið í huga að mati eignarnema.

Eignarnemi vísar til áralangrar venju í úrskurðum matsnefndar eignarnámsbóta við mat á jarðefni til vegagerðar, sem komin sé nokkur festa í, sbr. t.d. úrskurður í máli nr. 10/2004, sem og ofangreindir úrskurðir frá árinu 1998 vegna Háreksstaðaleiðar. Auk þess sé til hliðsjónar vísað til áðurgreinds úrskurðar í máli nr. 3/2006, en þar hafi auk bóta fyrir lónsstæði verið metnar bætur fyrir 37 ha lands, sem m.a. hafi verið nýtt til náms á 400.000 m³ jarðefnis til mannvirkjagerðar. Landið hafi verið metið á 3.940.000 kr., sem jafngildi 9,85 kr./ m³ efnis sem taka hafi átt úr landinu.

Með vísan til framangreinds áréttar eignarnemi tilboð sitt um bætur fyrir jarðefni úr óskiptu landi Reykjahlíðar og lítur svo á að um ríflegar fullnaðarbætur sé að ræða samkvæmt tilboðinu.

Loks áréttar eignarnemi að venju samkvæmt sé allt jarðrask jafnað og sáð í sár á grónu landi en það séu lagalegar skyldur eignarnema skv. ákvæðum vegalaga nr. 80/2007 og náttúruverndarlaga nr. 44/1999.

Eignarnemi bendir á að áhrif vegarlagningarinnar verði fyrst og fremst þau að auðveldara verði að komast að óskiptu landi Reykjahlíðar með tilkomu vegarins. Þar sem framkvæmdin sé nær eingöngu í landi Reykjahlíðar, að frátöldum örstuttum kafla innan þjóðgarðs, megi segja að um sérstakt hagræði eða ávinning sé að ræða fyrir eignarnámsþola umfram aðra landeigendur á svæðinu, sem beinlínis leiði af framkvæmdum þeim sem séu tilefni eignarnámsins.

Með bættu aðgengi að hinu óskipta landi ætti verðmæti landsins að hækka í verði umfram aðrar eignir á svæðinu. Eignarnemi telur þennan sérstaka ávinning eiga að koma til frádráttar bótum.

 

 

 

 

SJÓNARMIÐ EIGNARNÁMSÞOLA

 Landeigendur gera þá kröfu að þeim verði ákvarðaðar fullar bætur fyrir það tjón sem eignarnám umrædds lands hefur fyrir þá, jafnt til skemmri sem lengri tíma litið.  Verði um það efni einkum litið til eftirtalinna sjónarmiða:

Umrætt landsvæði sé eitt af merkilegustu landsvæðum hér á landi það liggi vestan við Jökulsá á Fjöllum frá þjóðvegi 1 til norðurs og fari um nær ósnortið landsvæði.  Vegagerðin muni gerbreyta ásýnd landsins og girða jafnframt fyrir eða takmarka að verulegu leyti ferðamennsku af ákveðnum toga, nýtingu svæðisins til rannsókna, vísindaferða, náttúruskoðunar og gönguferða. Á Íslandi verði sífellt til fleiri gönguleiðir sem veki áhuga og umrædd leið gefi ýmsa möguleika sem megi sjá sem hluta af Herðubreiðargönguleið. Návist vegarins við ána muni raska svæðinu og gera það óaðlaðandi fyrir göngufólk og muni þannig spilla sýnilegu virði svæðisins, bæði beint (sýnilegt og umferðarhávaði) og óbeint (ímynd). Vegur á fyrirhuguðu vegstæði skemmi því fyrir framtíðarmöguleikum á ferðamennsku sem byggi á skoðun á óröskuðu svæði sem sé einstakt á heimsvísu.  Vegurinn muni einnig rýra bæði sýnilegt virði og valkostavirði svæðisins.

 Á og við fyrirhugað vegstæði séu bæði falleg rofform og setmyndanir sem myndast hafi í stórhlaupum í Jökulsá á Fjöllum. Þetta gefi svæðinu afar mikla sérstöðu. Verðmæti þess sem sé fágætt sé erfitt að meta til fjár. Mjög líklegt sé að yrði svæðið sett í sölu kæmi kaupandi á sjónarsviðið. Þess séu mörg dæmi að fjársterkir einstaklingar hafi keypt svæði sem verið hafi einstök og fágæt í þeim tilgangi einum að vernda þau. Þetta valkostavirði yrði að engu gert við vegagerð.

Ef litið sé til náttúrufars og landslags eigi svæðið óumdeilanlega heima sem hluti Vatnajökulsþjóðgarðs. Þegar fram líði stundir sé ekki ólíklegt að ríkisvaldið muni sækjast eftir þessu landi í þessum tilgangi og verði reiðubúið til að greiða landeigendum fyrir landið. Vegagerð um landið muni spilla þessum möguleika (valkosti). Í þessu sambandi megi  minna á að Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökin (IUCN) hafa ákveðið viðmið um þjóðgarða og uppbyggðir vegir séu ekki í samræmi við þessi viðmið. Uppbyggður vegur muni því spilla möguleikum til að selja eða leigja landið undir Vatnajökulsþjóðgarð. Valkostavirði svæðisins muni því hvað þetta varðar spillast með vegagerð.

Annar hugsanlegur valkostur í framtíðinni séu sumarhús. Ekki sé ólíklegt að í framtíðinni verði áhugi fyrir því að eiga sumarhús á þessu stórbrotna svæði. Sé litið til þróunar undanfarin  30 ár sé margt sem bendi til þess að fólk hafi í auknum mæli áhuga á því að eiga sumarbústað á svæði eins og hér um ræði jafnvel þó það sé hrjóstrugt eða einmitt vegna þess.  Valkostavirði svæðisins sé þannig umtalsvert.

Svæðið henti mjög vel til uppgræðslu skóga sem síðan megi versla með sem CO2 – kvóta svæði.  Hafi það nú þegar verið til umræðu í félagi landeigenda.

Svæðið hafi ákveðið gildi fyrir landeigendur sem og aðra landsmenn eins og það er í dag, hrjóstrugt, stórbrotið og vitnisburður ótrúlegra krafta náttúrunnar. Það hafi tilfinningalegt gildi fyrir eigendur, en einnig fjölda annarra einstaklinga á Íslandi, og jafnvel víðar. Þetta sé huglægt gildi en hagfræðin hafi þróað ýmsar aðferðir til að meta það til fjár, og það hafi víða verið gert. Vegagerð á svæðinu muni spilla tilvistargildinu, bæði fyrir eigendum en einnig öðrum. Hugsanlega megi skoða mat á tilvistargildi annarra svæða til að fá hugmynd um hvert tilvistargildi þessa svæði sé. Gerð hafi verið athugun á tilvistargildi Jökulánna í Skagafirði sem hugsanlega mætti líta til hvað það varðar.

Fyrirhugað sé að gera svæðið að þjóðgarði.  Heildarverðmæti landsins skerðist mjög mikið vegna hinna fyrirhuguðu framkvæmda, jafnt sýnilegt virði, valkostavirði sem tilvistarvirði af ástæðum þeim sem fram koma hér að framan.  Sérstaklega skuli á það bent að nýtingarmöguleikar landsins séu mun fjölbreyttari en nýting þess til hefðbundins landbúnaðar. Af þeim ástæðum nægi ekki að líta eingöngu til úreltra og gamaldags viðhorfa í hugmyndum eignarnema í gjaldskrám og  öðrum viðmiðunarpésum um mögulega landnýtingu. Landnám þetta muni hafa neikvæð áhrif á verðmæti mun stærra landsvæðis en þeirra 87,26 ha. lands sem fari undir hið eiginlega vegsvæði.  Þannig sé ljóst að nýting næsta nágrennis vegstæðisins muni takmörkunum háð og þess megi vænta að mikið ósamræmi verði milli væntanlegra bóta og verðmætis næsta nágrennis vegstæðisins ef bætur vegna vegstæðisins takmarkist við flatarmál þess eingöngu. 

Hugur landeigenda standi þrátt fyrir það ekki til þess að krefjast þess að eignarnámið nái til „næsta nágrennis“ vegna þess að þó verðmæti þess skerðist að umtalsverðu leyti til framtíðar muni það áfram nýtast þeim að hluta til þó kostir þess vegi hvergi nærri upp gallana í því sambandi.  Landeigendur krefjist ekki eignarnáms á „næsta nágrenni“ á grundvelli 1. og 2. mgr. 12. gr. laga nr. 11/1973 en krefjist þess á grundvelli þeirra ákvæða per analogiam að til þess tjóns þeirra á „næsta nágrenni“ verði litið við mat á tjóni þeirra vegna vegstæðisins sjálfs.  Aðeins með þeim hætti fái landeigendur fullt verð fyrir hinar eignarnumdu eignir svo sem skylt sé samkvæmt ákvæðum 72. gr. Stjórnarskrár Íslands.

Þannig vilji til að landeigendur leigi land undir fjarskiptaþjónustu af ýmsu tagi um Reykjahlíðarland.  Megi þar nefna sem viðsemjendur landeigenda Landsnet, Símann, Fjarska o.fl.  Samkvæmt ákvæðum 69. greinar laga nr 81/2003 um fjarskipti sé landeiganda skylt að heimila fjarskiptalagnir um fasteign sína.  Þess megi vænta að fjarskiptafyrirtæki muni óska eftir heimild til lagningar slíkra fjarskiptaleiðslna um fyrirhugað vegstæði og muni eignarnemi væntanlega ekki geta staðið gegn því.  Með þeim hætti megi vænta þess að landeigendur verði fyrir fjárhagslegu tjóni nema annað af tvennu komi til, sú kvöð verði lögð á land eignarnema að komi til lagningar slíkra leiðslna um vegstæðið, með eða án hans vilja, muni landeigendur eiga rétt til greiðslna fyrir þá nýtingu frá fjarskiptafyrirtækinu, eða hið fyrirsjáanlega tap landeigenda af missi tekna af þessum fjarskiptum verði metið að álitum í formi bóta við eignarnám þetta.  Landeigendur gera kröfu til þess að matsnefnd taki annan hvorn þessara kosta til álita og ákvörðunar.

Nú fari fram stefnumörkun hér á landi varðandi gjaldtöku fyrir aðgang að náttúruperlum landsins í þágu kostnaðar vegna þeirrar auknu umferðar.  Veghaldari, eignarnemi í þessu máli, gæti þannig lagt gjald á umferð um veg þann sem hér er stofnað til enda sé hann ekki hvað síst til þess lagður að auðvelda aðgang að ýmsum merkisstöðum á þessu svæði.  Komi til slíkrar gjaldtöku af hálfu eignarnema muni hún rýra möguleika landeigenda til hins sama.  Tjón þeirra af þessum möguleika beri einnig að meta við eignarnám þetta.

Landeigendur hafi aldrei getað fellt sig við eða samþykkt einingarverð í hinum svokölluðu gjaldskrám eða orðsendingum eignarnema en þeir virði að sjálfsögðu þau verð sem matsnefnd eignarnámsbóta hafi ákvarðað í hinum ýmsu úrskurðum nefndarinnar.

Vísað er til þess að gjaldmiðill landsins sé hruninn eða að litlu eða engu orðinn. Þegar tilboð eignarnema hafi verið sett fram eða hinn 12. febrúar 2008 hafi gengisvísitalan numið 131,3 stigum en þegar greinargerð sé  rituð eða hinn 7. nóvember 2008, nemi hún 223,3 stigum.   

Verðmæti andlags eignarnáms þessa hafi aftur á móti ekkert rýrnað nema síður sé.  Landverð og réttur til efnisnáms haldist óbreytt eða hækki ef eitthvað er enda þótt verðmæti gjaldmiðilsins rýrni.  Þess er krafist að hin eignarnumdu gæði verði metin til verðs miðað við verðmat þeirra á úrskurðardegi í þeim verðmæli sem þá kann að verða lögmætur gjaldmiðill hér á landi.  Því er alfarið mótmælt að verðmæti landsins hafi rýrnað þó núverandi gjaldmiðill hafi rýrnað sem slíkur.  Ef verðmiðill Íslands verði hin íslenska króna á úrskurðardegi blasi við að nota verður mun fleiri krónur en áður til þess að eignarnámsþolar nái fullum bótum samkvæmt ákvæðum stjórnarskrárinnar.  Ljóst sé að gagnkvæm tilboð beggja málsaðila, jafnt heildartilboð sem einingarverð, séu nú algjörlega úrelt orðin og fullkomlega ómarktæk og ónothæf sem viðmið úrskurðar án breytinga til umtalsverðrar hækkunar.  Sé treyst á sérþekkingu sérfróðra matmanna í matsnefnd eignarnámsbóta um rétt verðmat tjóns landeigenda á úrskurðardegi.

 

NIÐURSTAÐA

            Fram kom við flutning málsins fyrir nefndinni að eignarnemi gerir engar kröfur vegna eldra vegstæðis.

            Koma því hér til mats 87.26 ha lands og samtals 307.433 m3  í efnistöku.

            Svæði það sem fyrirhugaður vegur liggur um er að mestu leyti gróðursnautt en þó er töluverður samfelldur gróður á norðurhluta þess. Landsvæði þetta er að mestu leyti í um 350-370 metra hæð yfir sjávarmáli. Heildarflatarmál svæðisins er 87,26 ha. Á norðurhluta svæðisins eru u.þ.b. 20 ha gróins lands og telur nefndin að hæfilegt matsverð fyrir hvern hektara þessa hluta landssvæðisins sé 150.000 krónur. Að öðru leyti er svæðið lítt gróið og er hver hektari þess hluta landsins hæfilega metinn á 100.000 krónur.

            Samkvæmt þessu telur matsnefndin landssvæði þetta hæfilega metið á 9.726.000 krónur.

            Matsnefndin lítur svo á að taka verði tillit til þess að vegstæðið skiptir landsvæði sem er samfelld heild í tvo hluta, annars vegar ræmu meðfram Jökulsá og hins vegar svæði vestan vegar. Þetta rýrir heildargildi svæðisins og telur matsnefndin hæfilegar bætur vegna þessa vera 4.000.000 króna.

            Ágreiningslaust er með aðilum að magn fyllingarefnis sem ætlað er til vegagerðarinnar og fyrirhugað er að taka séu 148.715 m3. Matsnefndin telur hæfilegt verð fyrir hvern rúmmetra vera 25 krónur þannig að mat á þessum lið er 3.717.875 krónur.

            Þá er ágreiningslaust með aðilum að magn burðarlagsefnis sem ætlað er til vegagerðarinnar og fyrirhugað er að taka séu 152.823 m3. Matsnefndin telur hæfilegt verð fyrir hvern rúmmetra vera 60 krónur þannig að mat á þessum lið er 9.169.380 krónur.

            Loks er ágreiningslaust með aðilum að magn slitlags sem ætlað er til vegagerðarinnar og fyrirhugað er að taka séu 5.895 m3. Matsnefndin telur hæfilegt verð fyrir hvern rúmmetra vera 90 krónur þannig að mat á þessum lið er 530.550 krónur.

            Heildarmat vegna efnistöku er þannig 13.417.805 krónur.

           

            Matsnefndin telur samkvæmt framansögðu hæfilegar bætur til eignarnámsþola nema samtals 27.143.805 krónum.

            Matsfjárhæð miðast við 26. ágúst sl. en þá heimilaði matsnefndin eignarnema að taka umráð svæðisins með úrskurði þann dag.

            Líta verður til þess tíma sem liðinn er frá því að umráðataka var heimiluð og ber að meta eignanámsþola arð af matsfjárhæð frá þeim tíma og telst hann hæfilega ákvarðaður 1.029.000 krónur.

            Samkvæmt öllu framansögðu þykja hæfilegar bætur til eignarnámsþola vegna eignarnámsins vera 28.172.805 krónur. Þá skal eignarnemi greiða eignarnámsþola 1.984.200 krónur að viðbættum virðisaukaskatti í málskostnað og 1.800.000 krónur í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

 

ÚRSKURÐARORÐ

            Eignarnemi, Vegagerðin greiði eignanámsþolum, eigendum Reykjahlíðar 28.172.805 krónur í eignarnámsbætur og 1.984.200 krónur að viðbættum virðisaukaskatti, í málskostnað.

            Þá greiði eignarnemi 1.800.000 krónur í kostnað vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu. 

                                                                        Allan V. Magnússon

                                                                        Sverrir Kristinsson

                                                                        Vífill Oddsson

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta