Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 1/2009. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 23. janúar 2009

í máli nr. 1/2009:

Tómas ehf. og

Aflgröfur ehf.

gegn

Ríkiskaupum

Með bréfi, dags. 7. janúar 2008, kæra Tómas ehf. og Aflgröfur ehf. ákvörðun Ríkiskaupa um val á samningsaðilum í útboði nr. 14585 – Flutningur á áfengi og tóbaki innanlands fyrir ÁTVR. Í kæru eru kröfur kæranda orðaðar með eftirfarandi hætti:

„1. Að kærunefnd útboðsmála stöðvi samningsgerð kærða við valda aðila þar til endanlega hefur verið leyst úr kæru kæranda.

2. Að kærunefnd útboðsmála ógildi ákvörðun kærða um að ganga til samninga við valda aðila.

3. Að kærandi sé metinn til stiga og verðs á öllum leiðum sem boðnar voru út. Eins og segir í útboðsgögnum (1.2.3 val á samningsaðila).

Varakrafa:

Að kærunefnd útboðsmála láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu kærða gagnvart kæranda.

Í öllum tilvikum er þess krafist að kærunefnd útboðsmála ákveði að kærði greiði kæranda kostnað við að hafa kæru þessa uppi að skaðlausu samkvæmt mati nefndarinnar eða framlögðu málskostnaðaryfirliti.“

Kærði krefst þess að kröfum kæranda verði hafnað.

Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála til skoðunar hvort rétt þyki að stöðva samningsgerð í tengslum við útboðið. Endanlega verður leyst úr efnisatriðum kærunnar síðar.

I.

Kærði, fyrir hönd Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR), óskaði í september 2008 eftir tilboðum í flutning á áfengi, tóbaki og öðrum vörum innanlands, frá Reykjavík til vínbúða utan höfuðborgarsvæðisins. Áætlað var að flytja 8.770 tonn á ári og á 36 flutningaleiðum. Heimilt var að bjóða í einstaka leiðir. Tilboð voru opnuð 18. nóvember 2008.

Í ákvæði 1.2.3 í útboðslýsingu kom fram að við mat á tilboðum yrðu samningsaðilar metnir eftir ákveðnu stigakerfi. Flest stig gæfi verð eða 85 stig. Þannig fengi lægsta verð samkvæmt gildu tilboði hæstu einkunn. Þjónustugeta veitti síðan samtals 15 stig, sem skiptist í breidd í framboði umboðinna flutningaleiða (5 stig), tíðni ferða (5 stig) og vörumeðhöndlun (5 stig).

Kærandi átti lægsta tilboð í 35 af 36 flutningsleiðum í útboði. Boðaði kærði kæranda á fund í kjölfarið þar sem farið var yfir tilboðið, einkum drög að akstursáætlun sem fylgt hafði tilboðinu. Leiddi það til þess að kærandi sendi kærða nýja akstursáætlun með tölvupósti daginn eftir.

Þátttakendum í útboðinu var kynnt niðurstaða útboðsins með tölvupósti 31. desember 2008. Kom þar fram að kærði tæki tilboði kæranda í fjórar af þeim 36 flutningsleiðum sem boðnar höfðu verið út en tilboði annarra bjóðenda í hinar 32 leiðirnar.

II.

Við val á tilboði skal kaupandi ávallt ganga út frá hagkvæmasta boði. Samkvæmt 1. mgr. 72. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup telst hagkvæmasta tilboðið það boð sem er lægst að fjárhæð eða það boð sem fullnægir þörfum kaupanda best samkvæmt þeim forsendum sem settar hafa verið fram í útboðsgögnum. Óheimilt er að meta tilboð á grundvelli annarra forsendna en fram koma í útboðsgögnum. Þá skal í útboðslýsingu tilgreina hlutfallslegt vægi hvers viðmiðs sem vísað er til sem forsendu fyrir vali tilboðs, sbr. 3. mgr. 45. gr. laga nr. 84/2007.

Samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga nr. 84/2007, um opinber innkaup, getur kærunefnd útboðsmála stöðvað gerð samnings, þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru, telji nefndin að verulegar líkur séu á því að brotið hafi verið gegn lögunum. Miðað við fyrirliggjandi gögn virðast ekki verulegar líkur á því að brotið hafi verið gegn lögum um opinber innkaup og telur nefndin því rétt að hafna kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar í kjölfar hins kærða útboðs.

Ákvörðunarorð:

Hafnað er kröfu kæranda, Tómasar ehf. og Aflgrafna ehf., um stöðvun samningsgerðar í kjölfar útboðs Ríkiskaupa nr. 14585 – Flutningur á áfengi og tóbaki innanlands fyrir ÁTVR.

                                                          

Reykjavík, 23. janúar 2009.

                                                Páll Sigurðsson

                                                Sigfús Jónsson

Stanley Pálsson

 

                                                              

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík, 23. janúar 2009.




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta