Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 281/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 281/2021

Fimmtudaginn 26. ágúst 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 9. júní 2021, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 10. mars 2021, um að staðfesta ákvörðun frá 3. mars 2021 þess efnis að fella niður bótarétt hennar í tvo mánuði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálstofnun 27. maí 2020 og var umsókn hennar samþykkt 21. júlí 2020. Kærandi skráði sig á námskeið á vegum Vinnumálastofnunar og þann 7. janúar 2021 var kæranda tilkynnt að námskeiðið yrði haldið á tímabilinu 12. janúar til 4. febrúar 2021 og tekið fram að um skyldumætingu væri að ræða. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 8. febrúar 2021, var óskað eftir skriflegri afstöðu kæranda á ástæðum þess að hún hefði hafnað þátttöku í vinnumarkaðsúrræði. Í bréfinu vakti stofnunin athygli á því að samkvæmt 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar geti þeir sem hafni þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, án gildra ástæðna, þurft að sæta biðtíma á grundvelli laganna. Skýringar bárust frá kæranda með tölvupósti 25. febrúar 2021. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 3. mars 2021, var kæranda tilkynnt að bótaréttur hennar væri felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 58. gr. laga nr. 54/2006. Þar sem Vinnumálastofnun hafði ekki lagt mat á framkomnar skýringar kæranda var mál hennar tekið fyrir að nýju og með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 10. mars 2021, var kæranda tilkynnt að ákvörðun frá 3. mars 2021 væri staðfest.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 9. júní 2021. Með bréfi, dags. 14. júní 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 5. júlí 2021 og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 7. júlí 2021. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að þegar hún hafi skráð sig á námskeið, sem hafi verið haldið af Fræðslunetinu, hafi hvergi komið fram viðvörun frá Vinnumálastofnun um að greiðslur yrðu felldar niður ef kærandi myndi ekki mæta á námskeiðið. Það eina sem hafi komið fram hafi verið að um 100% þátttöku- og mætingarskyldu væri að ræða. Sú tilkynning sé mjög misvísandi. Gera mætti ráð fyrir að þetta þýddi að ef viðkomandi myndi ekki mæta á námskeiðið myndi sá hinn sami ekki standast námskeiðið, fá viðurkenningu um að hafa lokið námskeiðinu og myndi ekki geta sett námskeiðið á ferilskrána sína, svipað og eigi við um mætingu á tungumálanámskeið Mímis. Þá hafi þátttaka á umrætt námskeið verið valfrjáls og námskeiðið hafi ekki virst mikilvægt. Ef Vinnumálastofnun hefði haft þetta skýrt hefði kærandi 100% mætt í öll skiptin. Kærandi hefði aldrei viljað eiga á hættu að missa greiðslurnar, hún þurfi að sjá sér fyrir fæði, húsnæði og greiða reikninga.

Til viðbótar við þessa óljósu viðvörun við skráningu á námskeiðið hafi kærandi aldrei fengið viðvörun vegna mætingarleysis á meðan á námskeiðinu hafi staðið. Ef Vinnumálastofnun hefði kannski hringt í kæranda eða sent henni tölvupóst til að vara hana við hefði kærandi getað komið í veg fyrir þetta og byrjað að mæta á námskeiðið.

Kærandi hafi verið skráð hjá Vinnumálastofnun vegna atvinnuleysisbóta tvisvar. Á þeim tíma hafi kærandi aldrei brotið reglurnar. Það að fella niður greiðslur til kæranda fyrir fyrsta brot hljóti að þykja mjög hörð refsing.

Þar sem bætur kæranda hafi verið felldar niður hafi Vinnumálastofnun sett kæranda í alvarlega fjárhagslega stöðu og hún finni enn fyrir afleiðingunum. Kærandi hafi ekki getað staðið skil á afborgunum lána sem hafi leitt til skuldasöfnunar að fjárhæð 400.000 kr. ofan á það sem kærandi hafi upphaflega skuldað.

Kærandi vilji leggja áherslu á þá staðreynd að umrætt námskeið á vegum Vinnumálastofnunar hafi ekki virst vera mikilvægt þar sem það hafi verið valfrjálst og kærandi hafi ekki fengið neina tilkynningu um að hún ætti á hættu að greiðslur til sín yrðu felldar niður.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi skráð sig á námskeiðið ,,Self-empowerment and communication“ á vegum stofnunarinnar. Þann 7. janúar 2021 hafi kæranda verið gefnar upplýsingar um hvaða daga námskeiðið færi fram, bæði með tölvupósti og smáskilaboðum. Þá hafi athygli kæranda verið vakin á því að mætingarskylda væri á námskeiðið.

Þann 25. janúar 2021 hafi Greiðslustofu Vinnumálastofnunar borist tilkynning þess efnis að mæting kæranda á umrætt námskeið hafi verið ófullnægjandi, en kærandi hafi ekkert mætt á námskeiðið. Þá hafi engin forföll verið boðuð. Kæranda hafi í kjölfarið verið boðið að skila skriflegum skýringum á ástæðum höfnunar með erindi, dags. 5. febrúar 2021. Athygli kæranda hafi verið vakin á því að skýringar þyrftu að berast innan 7 virkra daga frá dagsetningu erindisins. Engar skýringar hafi borist frá kæranda innan þess frests sem tiltekinn hafi verið í erindi, dags. 5. febrúar 2021. Kæranda hafi því verið tilkynnt þann 1. mars 2021 að bótaréttur hennar hafi verið felldur niður á grundvelli 58. gr. laga um nr. 54/2006 atvinnuleysistryggingar, frá og með 3. mars 2021 í tvo mánuði.

Kærandi hafi sent Vinnumálastofnun skýringar á ástæðum höfnunar þann 25. febrúar 2021. Þær skýringar hafi aftur á móti ekki verið mótteknar af stofnuninni fyrr en þann 1. mars 2021. Skýringar kæranda snúi að því að hún hafi ekki vitað hvaða afleiðingar það kynni að hafa ef hún mætti ekki á umrætt námskeið. Kærandi hafi þó tekið fram að hún hafi vitað að 100% mæting væri á námskeið. Þá hafi kærandi sagst hafa verið skráð á íslenskunámskeið á svipuðum tíma. Í kjölfar skýringa kæranda hafi verið fjallað um mál hennar að nýju. Með erindi, dags. 10. mars 2021, hafi kæranda verið tilkynnt að fyrri ákvörðun stofnunarinnar um að bótaréttur hennar skyldi felldur niður á grundvelli 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar í tvo mánuði skyldi standa. Að mati Vinnumálastofnunar hafi skýringar hennar ekki gefið tilefni til að falla frá fyrri ákvörðun.

Í 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna. Í a. lið 1. mgr. 13. gr. sé kveðið á um það skilyrði að atvinnuleitandi skuli vera í virkri atvinnuleit. Samkvæmt h-lið 14. gr. felist virk atvinnuleit meðal annars í því að hafa vilja og getu til að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum sem standi til boða. Í 13. gr. laga nr. 55/2006 um vinnumarkaðsaðgerðir komi einnig fram skylda þess sem teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar til að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum sem Vinnumálastofnun bjóði upp á. Ákvæðið sé svohljóðandi:

,,Atvinnuleitandi skal fylgja eftir áætlun um atvinnuleit og þátttöku í viðeigandi vinnumarkaðsúrræðum skv. 11. gr. og gera það sem í hans valdi stendur til að bæta vinnufærni sína til þess að verða virkur þátttakandi á vinnumarkaði. Þar á meðal skal atvinnuleitandi ávallt mæta í viðtöl til ráðgjafa Vinnumálastofnunar skv. 14. gr. og taka þátt í þeim vinnumarkaðsúrræðum er standa honum til boða. Atvinnuleitandi skal jafnframt tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti án ástæðulausrar tafar.“

Atvinnuleitendum beri samkvæmt 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni eða aðstæðum að öðru leyti samkvæmt 1. mgr. sömu greinar, þar á meðal um tilfallandi veikindi og fjarveru á boðaðan fund, án ástæðulausrar tafar. Kærandi hafi ekki tilkynnt Vinnumálastofnun um fjarveru sína á umrætt námskeið.

Í 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar komi skýrt fram að hafni einstaklingur þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum skuli hann sæta tveggja mánaða biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Í greinargerð er hafi fylgt frumvarpi því er hafi orðið að lögum um atvinnuleysistryggingar sé efni 58. gr. laganna nánar skýrt. Segi þar að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða og að litið sé svo á að þeim sem tryggðir séu innan atvinnuleysistryggingakerfisins sé skylt að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum. Þá sé jafnframt tekið fram í greinargerðinni að bregðist hinn tryggði þeirri skyldu leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Fyrir liggi að kærandi hafi skráð sig á námskeið á vegum Vinnumálastofnunar. Kæranda hafi, bæði með tölvupósti og smáskilaboðum þann 7. janúar 2021, verið tilkynnt að mætingarskylda væri á námskeiðið. Kærandi hafi jafnframt tekið fram í skýringum sínum að hún hafi vitað að mætingarskylda væri á námskeiðið. Þrátt fyrir það hafi kærandi hvorki mætt á umrætt námskeið né boðað forföll.

Með vísan til framangreinds sé það afstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli sæta viðurlögum á grundvelli 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og að þær skýringar sem kærandi hafi gefið vegna fjarveru sinnar á umrætt námskeið geti ekki talist gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.

Með vísan til alls framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að réttilega hafi verið staðið að ákvörðun stofnunarinnar um að kærandi skuli sæta viðurlögum á grundvelli 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta lýtur að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður bótarétt kæranda í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Í 58. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um viðurlög við því ef þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum er hafnað. Segir þar í 1. mgr. að sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar eftir að hafa verið í atvinnuleit í að minnsta kosti fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur, skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt VII. kafla laganna fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama gildir þegar hinn tryggði mætir ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma samkvæmt 6. mgr. 9. gr., 3. mgr. 13. gr. eða 3. mgr. 18. gr. laganna.

Í athugasemdum greinargerðar við frumvarp það er varð að lögum nr. 54/2006 segir meðal annars um 1. mgr. 58. gr. að ekki séu tilgreindar sérstakar vinnumarkaðsaðgerðir sem geti valdið því að hinn tryggði þurfi að sæta viðurlögum samkvæmt ákvæðinu heldur eigi það við um allar aðgerðir sem hinum tryggða sé boðið að taka þátt í til að auka líkur sínar á að fá vinnu við hæfi. Gert sé ráð fyrir að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða og hinir tryggðu njóti faglegrar ráðgjafar sérfræðinga stofnunarinnar. Þannig megi ætla að þeim, sem eru tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins, verði boðin þátttaka í vinnumarkaðsúrræðum við hæfi en litið sé svo á að þeim sé skylt að taka þátt í slíkum úrræðum. Bregðist hinn tryggði þessum skyldum sínum leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Samkvæmt gögnum málsins skráði kærandi sig á námskeið á vegum Vinnumálastofnunar sem haldið var á tímabilinu 12. janúar til 4. febrúar 2021. Í tölvupósti frá Vinnumálastofnun, dags. 7. janúar 2021, var kæranda greint frá því að um skyldumætingu væri að ræða. Kærandi mætti ekkert á framangreint námskeið. Kærandi hefur borið því við námskeiðið hafi verið valfrjálst og að hún hafi ekki verið vöruð við afleiðingunum þess að mæta ekki á það.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála hefur kærandi ekki fært fram viðunandi skýringar sem réttlæta að hún hafi ekki mætt á vinnumarkaðsúrræðið sem henni var gert að sækja. Í 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 kemur skýrt fram að sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum skuli sæta viðurlögum á grundvelli ákvæðisins. Ákvæðið er fortakslaust og því er ekki heimilt að beita vægari úrræðum en þar er kveðið á um. Að því virtu er hin kærða ákvörðun staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 10. mars 2021, um að staðfesta ákvörðun frá 3. mars 2021 þess efnis að fella niður bótarétt A, í tvo mánuði, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta