Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 145/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 145//2021

Fimmtudaginn 3. júní 2021

A

gegn

Barnavernd Reykjavíkur

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurðar Guðrún Agnes Þorsteinsdóttir formaður úrskurðarnefndar velferðarmála.

Með bréfi, dags. 17. mars 2021, kærði B, fyrir hönd  A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Barnaverndar Reykjavíkur um fjárstyrk til greiðslu lögmannskostnaðar. Með vísan til 2. mgr. 51. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) fer formaður úrskurðarnefndar velferðarmála ein með málið og kveður upp úrskurð í því. 

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Mál þetta varðar ágreining um greiðslu fjárstyrks vegna lögmannskostnaðar í tengslum við barnaverndarmál A vegna barns hennar,  C.

Þann 6. október 2020 gerði Barnaverndarnefnd Reykjavíkur þær kröfur fyrir dómi að kærandi yrði svipt forsjá stúlkunnar á grundvelli a- og d-liða 29. gr. bvl.

Á fundi Barnaverndarnefndar Reykjavíkur þann 15. desember 2020 var fjallað um umgengni í tímabundnu fóstri í kjölfar þess að borgarlögmanni var falið að gera þá kröfu fyrir dómi að kærandi yrði svipt forsjá stúlkunnar. Fyrir fundinn lá fyrir greinargerð starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur, dags. 7. desember 2020, með tillögu um að umgengni stúlkunnar við foreldra sína, á meðan forsjársviptingarmál er rekið fyrir dómstólum, verði mánaðarlega í tvær klukkustundir í senn, undir eftirliti í húsnæði Barnaverndar Reykjavíkur. Ekki náðist samkomulag um umgengni kæranda við stúlkuna og var málið því tekið til úrskurðar.

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur kvað upp úrskurð varðandi umgengni stúlkunnar við kæranda þann 22. desember 2020.

Með tölvupósti þann 28. janúar 2021 fór kærandi fram á styrk til greiðslu lögmannskostnaðar. Meðfylgjandi var tímaskýrsla B lögmanns, samtals 38,25 klst., og D fulltrúa hennar, samtals 56,84 klst., eða samtals 95,09 klst., og reikningur vegna lögfræðiþjónustu vegna framangreindra vinnustunda, samtals að fjárhæð 2.004.498 kr. með virðisaukaskatti.

Barnaverndarnefndin úrskurðaði þann 10. febrúar 2021 að stúlkan skyldi vistuð á heimili á vegum nefndarinnar í tvo mánuði, sbr. b-lið 1. mgr. 27. gr. bvl.

Með bréfi Barnaverndar Reykjavíkur þann 11. mars 2021 var tekin ákvörðun um að veita kæranda styrk sem nam 42 klst. Vísað var til þess að ákvörðun væri byggð á umfangi máls og gögnum svo og að teknu tilliti til fjárstyrkja sem veittir hafa verið vegna sambærilegra mála. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 17. mars 2021.

Þann 5. mars 2021 staðfesti Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurð barnaverndarnefndarinnar um vistun stúlkunnar utan heimilis. Úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur var skotið til Landsréttar sem staðfesti þann 19. mars 2021 úrskurð barnaverndarnefndarinnar um vistun stúlkunnar. Hæstiréttur hafnaði beiðni um málskot til réttarins með ákvörðun, dags. 20. apríl 2021. 

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og Barnavernd Reykjavíkur verði gert að leggja til grundvallar tímaskýrslu lögmanns kæranda við ákvörðun lögmannskostnaðar.

Með bréfi, dags. 11. mars 2021, tilkynnti Barnavernd Reykjavíkur lögmanni kæranda um þá ákvörðun sína að greiða mun lægri lögmannskostnað en reikningur hljóðaði upp á vegna vinnu við fyrirhugaðan umgengnisúrskurð Barnaverndarnefndar Reykjavíkur, auk kæru A á úrskurði Barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 22. desember 2020 um umgengni hennar við dóttur sína C til úrskurðarnefndar velferðarmála. Samþykkti Barnavernd Reykjavíkur að greiða sem svaraði 42 klst. á tímagjaldi kr. 17.000, auk virðisaukaskatts vegna vinnuframlags lögmannsins og fulltrúa hennar vegna málsins.

Rökin fyrir þessari ákvörðun eru annars vegar þau að við ákvörðun málskostnaðar fyrir Héraðsdómi E hafi verið tekið tillit til vinnu og yfirferðar á dagálum. Hins vegar telji Barnavernd Reykjavíkur að málið hafi ekki verið frábrugðið sambærilegum málum þar sem aðeins 5-11 stundir fari í kæru til úrskurðarnefndar.

Hvað fyrri rökin varði virðist Barnavernd Reykjavíkur draga þá ályktun að vinna við yfirferð dagála hafi aðeins tekið 7.33 klst. samanlagt. Það sé ekki rétt og fráleitt að það hefði verið raunhæft. Hið rétta sé að kostnaði vegna yfirferðar á dagálum hafi verið skipt niður á verkefni, enda komi fram á meðfylgjandi tímaskýrslu hversu margar vinnustundir hafi farið í það vegna umgengnismálsins. Þá séu dagálar hátt í 400 talsins og séu þá frátalin öll önnur gögn sem hlaupa á fleiri hundruð síðum, ef ekki þúsund.

Því sé mótmælt að málið sé ekki frábrugðið öðrum málum þar sem aðila greinir á um réttmæti umgengnisúrskurða. Ef það væri sambærilegt væri það venjulegt vinnulag barnaverndarnefnda að byggja úrskurði sína á rangfærslum á rangfærslur ofan og miðað við venjulegan fjölda vinnustunda lögmanna við kæru til úrskurðarnefndar yrði niðurstaðan sú að lögmenn kærðu sig almennt kollótta um það þótt brotið væri á umbjóðendum þeirra.

Hér sé ekki aðeins um að ræða umfangsmikil gögn heldur einnig óheyrilegt magn rangra og villandi fullyrðinga og staðhæfinga í gögnum sem stafa frá barnavernd, ítrekað og yfir langt tímabil. Meðfylgjandi yfirlit gefi grófa hugmynd um það hversu fjölþættar og yfirgripsmiklar rangfærslur liggja að baki úrskurðinum en um þetta hafi einnig verið fjallað í kæru til úrskurðarnefndarinnar. Ekki sé hægt að ætlast til þess að úrskurðarnefnd taki upplýsta ákvörðun á grundvelli svo rangra gagna. Það leiðir af skyldu lögmanns til að gæta hagsmuna umbjóðanda síns, og stuðla að því að hagsmunir barns séu hafðir í fyrirrúmi og að auki að ákvörðun úrskurðarnefndar sé tekin á réttum grunni og að málinu upplýstu, að lögmaður þarf að sjá til þess að úrskurðaraðilar fái réttar upplýsingar. Augljóslega væru rannsóknarskylda stjórnvalda og andmælaréttur þess sem ákvarðanir beinast að tilgangslaus ef stjórnvöld gætu tekið geðþóttaákvarðanir á grundvelli ósannra staðhæfinga. Úrskurðar- og kærunefndum sé meðal annars ætlað að girða fyrir slíka ósvinnu en til þess að það sé raunhæft þurfi að leiðrétta rangfærslur, sem liggja umdeildum ákvörðunum til grundvallar og sem hinn kærði úrskurður byggði á, til að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig.

Auk annarra gagna liggja fyrir hátt á fjórða hundrað dagála í málinu. Þá hafi farið mikil vinna eingöngu í það að fá umrædda dagála afhenta, en það hafi verið verulegum vandkvæðum bundið. Fyrst hafi lögmanni kæranda verið tjáð að umræddar skráningar væru ekki til (símleiðis af lögfræðingi barnaverndar), en þegar lögmaður sá vísað til þeirra í gögnum máls hafi beiðni um dagála verið ítrekuð (16. desember 2020) og margítrekuð þar til dagálar bárust loksins 23. desember 2020 en þá ranglega, allir í belg og biðu (ekki í tímaröð), sumir komu margsinnis fyrir og nú sé orðið ljóst að ekki voru þeir allir afhentir þá, þrátt fyrir ítrekaðar fullyrðingar barnaverndar um hið gagnstæða. Þegar óskað var eftir að fá dagálana í tímaröð voru andsvör ýmist þau að það væri of mikil vinna við að afhenda þá í tímaröð, en svo að það væri ekki hægt af því að um svokallaðar “systkinaskráningar” væri að ræða. Á endanum var gerð krafa fyrir dómi um að barnavernd yrði með úrskurði skylt að afhenda umrædda dagála í tímaröð og þá loksins voru þeir afhentir með þeim skýringum að gerðar hefðu verið breytingar á tölvukerfi borgarinnar í tilefni af beiðninni og nú væri loksins hægt að prenta þá út í tímaröð. Kom þá í ljóst að talsvert mikið af dagálum hafði vantað í fyrri afhendinguna, meðal annars dagála um hótanir frá föður barnsins um að ryðjast inn á heimili vistforeldra (vistfaðir er föðurbróðir stúlkunnar) og taka barnið frá þeim.

Til þess að sýna úrskurðarnefnd fram á samhengið hafi verið nauðsynlegt að fara vandlega í gegnum alla dagála, sýna rétta tímalínu og finna uppruna rangra fullyrðinga, leiðrétta þær og setja atburði í rétt samhengi. Það sé til dæmis auðvelt fyrir barnaverndarnefnd að halda því fram að móðir hafi ekki tekið á móti eftirliti en fela upplýsingar um að óboðað eftirlit hafi iðulega mætt á heimili hennar í Reykjavík stuttu eftir að hún hafði tilkynnt að hún yrði úti á landi, innan um hundruð annarra dagála. Vinnan við að leiða samhengi sem þetta í ljós hefði að sjálfsögðu orðið mun minni ef þrábeiðni lögmanns um að fá a) alla dagála, og b) dagálana í réttri tímaröð hefði borið árangur. Þá eigi lögmaður ekki að þurfa að leggjast í tugi tíma vinnu við að leiðrétta rangfærslur og villandi fullyrðingar í skýrslum opinbers stjórnvalds sem að sjálfsögðu á að gæta sannmælis og byggja ákvarðanir á staðreyndum en ekki rógburði.

Þar sem hinn umdeildi úrskurður hafi verið til þess fallinn að hafa í för með sér verulegan velferðarmissi fyrir umbjóðanda lögmanns og börn hennar (en systkinin fengu nánast ekkert að umgangast þann tíma sem yngsta dóttirin, sú er úrskurðurinn lýtur að, var vistuð utan heimilis frá 23. desember 2019 til 27. janúar 2021) var einnig nauðsynlegt að kanna dómaframkvæmd og úrskurði í svipuðum málum.

Enn bætist svo við kostnaður við að vefengja valdbærni Barnaverndarnefndar Reykjavíkur til að úrskurða um umgengni, en rétt sé að geta þess að nú liggur fyrir bréf frá Barnaverndarstofu sem staðfestir þá afstöðu hennar að mál barnsins heyri undir barnaverndarnefnd á [ ] E en ekki Reykjavík.

Það geti varla talist eðlilegt að barnaverndarnefnd útbúi umfangsmikil gögn full af rangfærslum og villandi upplýsingum, leggi þau til grundvallar íþyngjandi ákvörðunum þar sem leitast sé við að svipta fólk börnum sínum, sendi þau frá sér í belg og biðu og segi ósatt til um möguleika á afhendingu þeirra eða um að þau hafi í reynd öll verið afhent, neiti svo að bera kostnaðinn af vinnu lögmanns við að greiða úr flækjunni og leiðrétta rangfærslurnar.

Slíkt myndi girða fyrir rétt einstaklings til eðlilegrar og raunverulegrar hagsmunagæslu lögmanns í málum þar sem svo íþyngjandi og alvarlegt inngrip stjórnvalds inn í friðhelgi einkalífs og fjölskyldu fólks er að ræða, en lögmönnum ber skylda til að gæta þeirra hagsmuna í hvívetna og gera allt sem í þeirra valdi stendur til að hrinda órétti og efla rétt og væri það beinlínis siðareglubrot af hálfu lögmanns að láta slíkar rangfærslur opinbers embættis óátaldar.

III.  Sjónarmið Barnaverndarnefndar Reykjavíkur

 

Í greinargerð Barnaverndar Reykjavíkur kemur fram að samkvæmt 2. mgr. 47. gr. bvl. skuli barnaverndarnefnd veita foreldrum og barni, sem sé aðili máls, fjárstyrk til greiðslu lögmannsaðstoðar samkvæmt 1. mgr. sömu greinar og í tengslum við rekstur máls fyrir úrskurðarnefnd velferðarmála eftir reglum sem nefndin setur. Í reglunum skal taka tillit til efnahags foreldra, eðlis og umfangs málsins. Samkvæmt 1. mgr. lagagreinarinnar skulu aðilar barnaverndarmáls eiga kost á að tjá sig munnlega eða skriflega, þar með talið með aðstoð lögmanns, um efni máls og annað sem lýtur að málsmeðferðinni áður en barnaverndarnefnd kveður upp úrskurð.

 

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur setti reglur um veitingu fjárstyrks til greiðslu lögmannskostnaðar samkvæmt 47. gr. barnaverndarlaga þann 19. febrúar 2019. Í 1. gr. reglnanna kemur fram að veittur sé fjárstyrkur vegna fyrirtöku á fundi barnaverndarnefndar, þ.e. vegna vinnuframlags til undirbúnings og mætingar á fund nefndarinnar þegar til greina komi að beita þvingunarúrræðum samkvæmt bvl. Eftir atvikum sé jafnframt veittur styrkur til kynningar á niðurstöðum nefndarinnar. Þá komi fram að ekki sé veittur styrkur vegna viðveru lögmanns á fundum með starfsmönnum nefndarinnar nema sérstaklega hafi verið óskað eftir viðveru lögmanns af hálfu starfsmanns. Auk þessa sé ekki veittur styrkur vegna kostnaðar vegna ferðalaga og/eða ferðatíma lögmanna á fundi Barnaverndarnefndar Reykjavíkur nema sérstaklega sé um annað samið.

 

Lögmenn Barnaverndar Reykjavíkur afgreiða umsóknir um fjárstyrk til greiðslu lögmannskostnaðar, sbr. 5. gr. tilvitnaðra reglna og skal fjárhæð styrks metin með hliðsjón af eðli og umfangi málsins.

 

Líkt og fram komi í bréfi lögfræðings Barnaverndar Reykjavíkur til lögmanns, dags. 11. mars 2021, féllst Barnavernd Reykjavíkur á að greiða að fullu þá vinnu sem lögmaður vann í tengslum við fyrirtöku umgengnismálsins hjá Barnaverndarnefnd Reykjavíkur og kæru hennar til úrskurðarnefndar velferðamála, samanlagt 38,25 klst. Samkvæmt tímaskýrslu lögmannsins var um að ræða 12 klst. vinnuframlag lögmannsins eftir að barnaverndarnefnd úrskurðaði í málinu þann 22. desember 2020 og varða því gerð kærunnar til úrskurðarnefndar velferðarmála. Þessu til viðbótar féllst Barnavernd Reykjavíkur á að greiða 3,75 klst. vinnuframlag aðstoðarmanns lögmannsins í tengslum við kæruna til úrskurðarnefndar velferðarmála. Samtals var fallist á að greiða fyrir 42ja klukkustunda vinnuframlag vegna framangreinds.

 

Að mati Barnaverndar Reykjavíkur sé ekki óeðlilegt að meta þetta tiltekna mál með hliðsjón af öðrum málum þar sem fjallað er um umgengni í tímabundnu fóstri. Við yfirferð vinnuskýrslna og reikninga síðstliðna 12 mánuði hjá Barnavernd Reykjavíkur má sjá að vinnuframlag lögmanna vegna kæru úrskurða Barnaverndar Reykjavíkur varðandi umgengni er 5-11 klst. Þá bendir Barnavernd Reykjavíkur á að þegar mál séu komin á það stig að úrskurðað sé um umgengni við forsjáraðila í tímabundnu fóstri sé, eðli málsins samkvæmt, ekki fjallað um það á fundi barnaverndarnefnar eða í úrskurði nefndarinnar hvort ákvörðun um vistun barnsins utan heimilis hafi verið réttmæt. Sá hluti málsins var enda rekinn fyrir dómstólum og hafa bæði Héraðsdómur Reykjavíkur með úrskurði, dags. 5. mars 2021, og Landsréttur með úrskurði, dags. 19. mars 2021, staðfest þá ákvörðun Barnaverndarnefndar Reykjavíkur og þar með heimild Barnaverndarnefndar Reykjavíkur til að vinna málið. Hæstiréttur Íslands hafnaði beiðni lögmanns um málskot til réttarins með ákvörðun þann 20. apríl 2021.

 

Líkt og að framan greinir sé í 5. gr. reglna Barnaverndar Reykjavíkur um veitingu fjárstyrks til greiðslu lögmannskostnaðar samkvæmt 47. gr. barnaverndarlaga kveðið á um það að lögmenn barnaverndar taki mið af umfangi og eðli málsins þegar tekin sé ákvörðun um veitingu fjárstyrks. Að mati lögfræðings Barnaverndar Reykjavíkur hafi ekki verið tilefni til þess að fara í jafn umfangsmikla vinnu í þessu tiltekna máli í tengslum við kæru á úrskurði um umgengni. Öll vinna D, samstarfsmanns B, samanlagt 56,84 klst., hafi verið innt af hendi eftir að Barnaverndarnefnd Reykjavíkur kvað upp úrskurð sinn þann 22. desember 2020, að 3,75 klst. undanskildum sem fallist var á að greiða og unnar voru þann 24. nóvember 2020. Í sundurliðaðri tímaskýrslu D kemur fram að 14,92 klst. hafi verið samtals unnar í "skjalavinnu vegna kæru til úrskurðanefndar velferðarmála og að tvær klst. séu skráðar í tímaskýrsluna með skýringunni" Bjó til exel skjal með yfirliti sem fylgiskjal með kæru til Úrvel". Þá eru þrjár klst. skráðar í tímaskýrslunni með skýringunni "Bætt inn í exelskjal og flokkaði niður. Vann yfirlit yfir rangfærslur í stefnu og úrskurði BV". Í tímaskýrslu D eru auk þessa skráðar vinnustundir vegna "dóma og fræðigreinaleitar vegna lyfjabyrlunar". Þá eru sex klst. skráðar með skýringuna "fFór vandlega í gegnum dagála og fyllti í tímalínu og lagfærði villur í kæru til Úrvel í samræmi". Getur Barnavernd Reykjavíkur með engu móti fallist á að umfang og eðli málsins hafi krafist jafn mikillar vinnu og tímaskýrsla D kveður á um.

 

Með hliðsjón af framangreindu sé óskað eftir því að úrskurðarnefnd velferðarmála staðfesti ákvörðun Barnaverndar Reykjavíkur um styrk til greiðslu lögmannskostnaðar samkvæmt 2. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga sem lögmanninum B var kynnt með bréfi dags. 11. mars 2021.

IV. Niðurstaða

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun Barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 11. mars 2021 um greiðslu styrks vegna lögmannskostnaðar verði felld úr gildi og barnaverndarnefndinni verði gert að leggja til grundvallar tímaskýrslu B lögmanns og fulltrúa hennar, D, við ákvörðun lögmannskostnaðar til kæranda, samtals 95,09 klst. Með hinni kærðu ákvörðun var fallist á að greiða 42ja klst. vinnuframlag. Ágreiningur er um vinnuframlag fulltrúa lögmannsins sem nemur rúmlega 53,09 klst. vegna kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála.

 

Samkvæmt 2. mgr. 47. gr. bvl. er barnaverndarnefnd skylt að veita foreldri fjárstyrk, sbr. 1. mgr. sömu lagagreinar, til að greiða fyrir lögmannsaðstoð sem veitt er í tengslum við andmælarétt foreldris við meðferð barnaverndarmáls áður en kveðinn er upp úrskurður í því. Samkvæmt 1. mgr. 47. gr. bvl. skulu aðilar barnaverndarmáls eiga þess kost að tjá sig munnlega eða skriflega, þar með talið með aðstoð lögmanns, um efni máls og annað sem lýtur að málsmeðferðinni áður en barnaverndarnefnd kveður upp úrskurð í málinu. Barnaverndarnefnd skal veita foreldrum fjárstyrk til að greiða fyrir lögmannsaðstoð samkvæmt 2. mgr. 47. gr. bvl. eftir reglum sem nefndin setur. Þá segir í lagaákvæðinu að í reglunum skuli taka tillit til efnahags foreldra, eðlis og umfangs málsins.

 

Barnavernd Reykjavíkur samþykkti þann 19. febrúar 2019 reglur um veitingu fjárstyrks til greiðslu lögmannskostnaðar, sbr. 47. gr. bvl. nr. 80/2002. Í 1. gr. er kveðið á um að veittur sé fjárstyrkur vegna fyrirtöku á fundi barnaverndarnefndar, þ.e. vegna vinnuframlags til undirbúnings og mætingar á fund nefndarinnar þegar til greina kemur að beita þvingunarúrræðum samkvæmt barnaverndarlögum nr. 80/2002. Í 2. gr. kemur fram að jafnframt sé aðilum máls veittur fjárstyrkur til greiðslu lögmannskostnaðar fyrir kærunefnd barnaverndarmála, nú úrskurðarnefnd velferðarmála. Í 2. mgr. 5. gr. reglanna er kveðið á um að með beiðni um fjárstyrk vegna lögmannsaðstoðar skuli fylgja tímaskýrsla lögmanns og að fjárhæð styrks skuli metin með hliðsjón af eðli og umfangi málsins og að taka skuli tillit til efnahags styrkbeiðanda þegar ákvörðun um fjárstyrk er tekin.

 

Af hálfu kæranda hefur verið lögð fram tímaskýrsla lögmanns frá 28. janúar 2021 vegna lögmannsaðstoðar við kæranda á tímabilinu 20. nóvember 2020 til 15. janúar 2021. Ekki er ágreiningur um vinnuframlag lögmanns, 38,25 klst., og féllst Barnavernd Reykjavíkur á að greiða fyrir vinnu lögmanns að fullu. Hvað varðar vinnuframlag aðstoðarmanns lögmanns var fallist á að greiða 3,75 klst. vinnuframlag, eða samtals 42 klst. á tímagjaldinu 17.000 kr., auk virðisaukaskatts.

 

Samkvæmt ofangreindum reglum um veitingu fjárstyrks til greiðslu fyrir lögmannsaðstoð samkvæmt 47. gr. bvl. skal fjárhæð styrks metin með hliðsjón af eðli og umfangi málsins og að teknu tilliti til efnahags styrkbeiðanda þegar ákvörðun um fjárstyrk er tekin. Samkvæmt reglunum ber að framvísa tímaskýrslu lögmanns með beiðni um fjárstyrk, en telja verður að tímaskýrslan þjóni þeim tilgangi að veita upplýsingar um vinnu lögmanns vegna málsins. Tímaskýrslan hefur einnig þann tilgang, ásamt öðrum gögnum, að varpa ljósi á eðli og umfang málsins. Hún verður því höfð til hliðsjónar eins og önnur gögn málsins við ákvörðun styrkfjárhæðar.

 

Í sundurliðaðri tímaskýrslu lögmanns kæranda er vinna lögmannsins B og fulltrúa hennar, D, vegna hagsmunagæslu fyrir kæranda, tilgreind á tímabilinu 20. nóvember 2020 til og með 15. janúar 2021, samtals 95,09 vinnustundir. Tímaskýrslan er að miklu leyti greinargóð og vel sundurliðuð og verður hún því, ásamt öðrum gögnum málsins, lögð til grundvallar um eðli og umfang málsins sem horfa verður til þegar ákvörðun er tekin samkvæmt 2. mgr. 47. gr. bvl. og 5. gr. reglna barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 19. febrúar 2019 um veitingu fjárstyrks til greiðslu lögmannskostnaðar. Með hliðsjón af framangreindu er ekkert sem bendir til þess að við mat Barnaverndar Reykjavíkur á hæfilegum tímafjölda vegna framangreindrar vinnu hafi ekki verið gætt málefnalegra sjónarmiða.

Með hliðsjón af framangreindu, framlagðri tímaskýrslu, eðli og umfangi máls, svo og fjárstyrkjum sem veittir hafa verið í sambærilegum málum, er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun Barnaverndar Reykjavíkur.

Ákvörðun Barnaverndar Reykjavíkur um greiðslu lögmannskostnaðar er staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Barnaverndar Reykjavíkur frá 11. mars 2021 í máli A, vegna fjárstyrks til greiðslu lögmannskostnaðar, er staðfest.

 

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

                            

Guðrún Agnes Þorsteinsdóttir,

formaður

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta