Hoppa yfir valmynd

Nr. 163/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 23. mars 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 163/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23010007

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 22. desember 2022 kærði einstaklingur er kveðst heita […], vera […] og vera ríkisborgari Palestínu (hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 25. nóvember 2022, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa honum frá landinu.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Í ákvæði 7. gr. kemur fram að ákvarðanir Útlendingastofnunar sé heimilt að kæra til kærunefndar útlendingamála innan 15 daga frá því að útlendingi var tilkynnt um ákvörðunina. Ákvörðun Útlendingastofnunar var birt kæranda 29. nóvember 2022. Kærandi kærði ákvörðunina 22. desember 2022. Ljóst er að kærufresturinn, sem var til 14. desember 2022, var liðinn þegar kæran barst.

Í greinargerð kæranda kemur fram að kæranda hafi verið birt ákvörðun útlendingastofnunar 22. desember 2022 og að tilkynnt hafi verið um kæru þann sama dag. Með tölvubréfi til talsmanns kæranda, dags. 15. mars 2023, óskaði kærunefnd eftir skýringum á því hvers vegna kæra hafi borist utan frests. Engar skýringar bárust frá kæranda.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um réttaráhrif þess þegar kæra berst æðra stjórnvaldi að liðnum kærufresti. Þar segir í 1. mgr.:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá, nema:

1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.“

Í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga er því að finna tvær undantekningarreglur frá þeirri meginreglu laganna að kærumáli skuli vísað frá æðra stjórnvaldi ef kæra berst að liðnum kærufresti. Í athugasemdum við einstakar greinar í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum segir um ákvæðið að í fyrsta lagi sé gerð undantekning þegar afsakanlegt er að kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Hér getur t.a.m. fallið undir ef stjórnvald lætur hjá líða að veita leiðbeiningar um kæruheimild skv. 20. gr. laganna eða veitt rangar eða ófullnægjandi upplýsingar. Í öðru lagi má taka mál til meðferðar ef veigamiklar ástæður mæla með því. Við mat á því hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar skal m.a. litið til hagsmuna aðila máls og hvort mál hafi fordæmisgildi.

Ákvörðun Útlendingastofnunar var sem fyrr segir birt kæranda 29. nóvember 2022. Í ákvörðun Útlendingastofnunar var, í samræmi við 2. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga, gerð grein fyrir kæruheimild, kærufresti og hvert kærandi skyldi beina kæru. Ekki verður séð að þær upplýsingar sem kæranda voru veittar í ákvörðun Útlendingastofnunar varðandi kæru til kærunefndar útlendingamála hafi verið ófullnægjandi eða að leiðbeiningarskyldu hafi ekki verið gætt. Í 7. gr. laga um útlendinga kemur fram að ákvarðanir Útlendingastofnunar er heimilt að kæra til kærunefndar útlendingamála innan 15 daga frá því að útlendingi var tilkynnt um ákvörðunina. Kveðið er á um útreikning frests í 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga á eftirfarandi hátt: ,,Þar sem kveðið er á um frest í lögum telst sá dagur, sem fresturinn er talinn frá, ekki með í frestinum.“ Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til stjórnsýslulaga segir: ,,Í 8. gr. er að finna skýringarreglu á því hvernig reikna beri út fresti í lögum er varða stjórnsýsluna, en stundum kemur upp ágreiningur um þetta atriði í framkvæmd. Samkvæmt reglunni skal sá dagur, sem frestur er talinn frá, ekki teljast með innan frestsins.“

Kærandi hefur ekki lagt fram neinar skýringar fyrir því að kæra hafi borist of seint í máli hans þrátt fyrir að hafa verið leiðbeint um að leggja slíkar skýringar fram.

Í 1. mgr. 39. gr. stjórnsýslulaga kemur fram að stjórnvaldsákvörðun eða önnur gögn á rafrænu formi teljist birt aðila þegar hann eigi þess kost að kynna sér efni þeirra. Aðili máls ber ábyrgð á því að vél- og hugbúnaður hans fullnægi þeim kröfum sem til hans eru gerðar, sbr. 1. mgr. 35. gr., og nauðsynlegar eru svo að hann geti kynnt sér efni stjórnvaldsákvörðunar eða annarra gagna sem stjórnvald sendir honum á rafrænu formi. Í 3. mgr. 39. gr. stjórnsýslulaga kemur fram að þegar sett lög, almenn stjórnvaldsfyrirmæli eða venjur áskilja að stjórnvöld birti aðila gögn með sannanlegum hætti telst slíkum áskilnaði fullnægt með notkun rafræns búnaðar sem staðfestir að gögn séu komin til aðila.

Meðal gagna málsins er kvittun vegna staðfestingar á sendingu skráar úr kerfi Signet Transfer, dags. 29. nóvember 2022, vegna tilkynningar í máli kæranda. Þar kemur fram að talsmaður kæranda sé móttakandi skráar. Líkt og áður greinir barst kæra á ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda 22. desember 2022 og er því ljóst að kærufresturinn, sem var til 14. desember 2022, var liðinn þegar kæran barst. Að mati kærunefndar bera gögn málsins ekki með sér að afsakanlegt hafi verið að kæra hafi borist of seint, auk þess hefur kærandi ekki borið slíkt fyrir sig. Að framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndar að ekki séu forsendur til að taka kæruna til meðferðar á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Þá hefur kærunefnd farið yfir gögn málsins, þ.m.t. ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda. Að mati nefndarinnar verður hvorki séð af gögnum málsins að um slíkt fordæmisgefandi mál sé að ræða né að hagsmunir kæranda eða almannahagsmunir krefjist þess að málið verði tekið til meðferðar, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Við það mat er horft til þess að kærandi hefur alþjóðlega vernd í Grikklandi, þess að kærunefnd hefur í fyrri úrskurðum sínum talið endursendingu til Grikklands tæka í tilvikum líkt og í máli kæranda og þess að ekki sé að sjá að neinir ágallar hafi verið á vinnslu málsins hjá Útlendingastofnun. Kærunefnd áréttar að kærandi getur óskað eftir endurupptöku hjá Útlendingastofnun, telji hann að aðstæður hafi breyst verulega frá því ákvörðun í máli hans var tekin eða að ákvörðun sé byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum, í samræmi við 24. gr. stjórnsýslulaga.

Að öllu framangreindu virtu er það mat kærunefndar að vísa beri kæru þessari frá nefndinni.

Úrskurðarorð:

 

Kæru kæranda á ákvörðun Útlendingastofnunar er vísað frá.

 

The applicants appeal of the decision of the Directorate of Immigration is dismissed.

 

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                               Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta