Hoppa yfir valmynd

Nr. 246/2017 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 19. apríl 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 246/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17020001

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 7. febrúar 2017 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 9. janúar 2017, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og endursenda hann til Svíþjóðar.Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar.Til vara krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og Útlendingastofnun gert að taka málið til meðferðar að nýju. Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 5. október 2016. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum, þann 5. október 2016, kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Svíþjóð. Þann 11. október 2016 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Svíþjóð, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Þann 14. október 2016 barst svar frá sænskum yfirvöldum þess efnis að þau samþykktu viðtöku kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 9. janúar 2017 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að hann skyldi endursendur til Svíþjóðar. Kærandi kærði ákvörðunina þann 7. febrúar 2017 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 21. febrúar 2017, ásamt fylgigögnum. Í greinargerð óskaði kærandi eftir að fá að tjá sig við nefndina um efni málsins. Kærunefnd taldi ekki ástæðu til að gefa kæranda kost á að koma fyrir nefndina, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga. Viðbótargögn bárust kærunefnd þann 29. mars 2017.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að umsókn kæranda um alþjóðlega vernd yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og hann skyldi endursendur til Svíþjóðar. Lagt var til grundvallar að Svíþjóð virði ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, þar með talið bann við endursendingu til ríkis þar sem líf og frelsi kæranda kynni að vera í hættu (non-refoulement). Því fæli flutningur kæranda til Svíþjóðar ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga. Þá var talið að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Aðstæður kæranda féllu ekki undir 16. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og væru ekki slíkar að ástæða væri til að beita 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar í málinu. Að gættum ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og íslenskum lögum er málið varði væri það niðurstaða Útlendingastofnunar að hagsmunum kæranda væri ekki stefnt í hættu með því að senda hann til Svíþjóðar. Kærandi skyldi yfirgefa Ísland og bæri að senda hann til Svíþjóðar, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Í niðurstöðu ákvörðunar Útlendingastofnunar kemur fram að stofnunin taki undir með kæranda að umsækjendum um alþjóðlega vernd í Svíþjóð hafi fjölgað verulega með tilheyrandi álagi á hæliskerfið þar í landi. Hins vegar verði að líta til þess að ekki hafi verið sýnt fram á það að sænsk stjórnvöld séu ekki í stakk búin að sinna þörfum kæranda, þ.e. veita honum húsaskjól og helstu nauðsynjar. Jafnframt verði ekki dregin sú ályktun af framburði kæranda að hann hafi búið við slæm skilyrði í Svíþjóð, þvert á móti hafi hann gengið í skóla og allur aðbúnaður virðist hafa verið til staðar til að mæta hans þörfum.

Í niðurstöðu ákvörðunar sinnar tekur Útlendingastofnun til skoðunar hvað sé kæranda fyrir bestu. Fram kemur að kærandi hafi lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd í Svíþjóð í desember 2013 en á Íslandi í október 2016. Útlendingastofnun telji því að kærandi hafi verið í Svíþjóð í tæplega þrjú ár. Kærandi hafi greint frá því að hann hafi eignast vini í Svíþjóð og gengið þar í skóla. Kærandi hafi þar af leiðandi myndað samfélagsleg tengsl í Svíþjóð. Kærandi hafi hins vegar engin slík tengsl við Ísland. Að mati Útlendingastofnunar verði að líta til þess að það geti verið mjög íþyngjandi fyrir kæranda að ganga í gegnum það ferli sem fylgir því að leggja fram umsókn um alþjóðlega vernd og kunni það að vera sérlega þungbært þegar tekið sé mið af ungum aldri kæranda og fyrirliggjandi áhyggjum og streitu sem hann hafi þurft að glíma við. Útlendingastofnun meti það með hliðsjón af framansögðu að það samræmist hagsmunum kæranda að snúa aftur til Svíþjóðar frekar en að dvelja lengur í hæliskerfi í landi sem hann hafi engin tengsl við. Þá kemur einnig fram í niðurstöðu ákvörðunar Útlendingastofnunar að í málinu hafi ekki verið deilt um að kærandi sé fylgdarlaust ungmenni og þá sé jafnframt óumdeilt að fylgdarlaus ungmenni teljist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem umsækjendur um alþjóðlega vernd. Vísar Útlendingastofnun í móttökutilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2013/33 og 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga þessu til stuðnings. Útlendingastofnun hafi því tekið til skoðunar hvort unnt væri að endursenda kæranda sem sé fylgdarlaust ungmenni og þar af leiðandi í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Vísar Útlendingastofnun til úrlausnar Mannréttindadómstóls Evrópu í máli A.S. gegn Sviss (nr. 39350/13) frá 30. júní 2015 en þar hafi niðurstaðan verið sú að það yrði ekki brot á 3. eða 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu að flytja aftur sýrlenskan umsækjanda um alþjóðlega vernd til Ítalíu sem hafi þjáðst af alvarlegri áfallastreituröskun sem auk þess átti fjölskyldu í Sviss. Útlendingastofnun telji að með hliðsjón af þessum dómi Mannréttindadómstólsins sé ljóst að unnt sé að endursenda umsækjendur um alþjóðlega vernd, á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, þrátt fyrir að þeir séu í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Þá vísar Útlendingastofnun einnig í dóm Evrópudómstólsins frá 6. júní 2013, í máli nr. C-648/11, þar sem fram hafi komið að ekki sé unnt að leggja þá skyldu á aðildarríki að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar sem áður hafi verið synjað í öðru ríki. Um sé að ræða túlkun dómsstólsins á 25. gr., sem nú er 33. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2013/32, en þar sé vísað til Dyflinnarreglugerðarinnar. Að mati Útlendingastofnunar hafi framangreind sjónarmið mikla þýðingu við túlkun á Dyflinnarreglugerðinni og skilyrðum þess að synja umsókn um efnismeðferð. Jafnframt beri að horfa til þess að fyrir liggur samþykki sænskra stjórnvalda á ábyrgð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd.Í niðurstöðu ákvörðunar Útlendingastofnunar segir að þegar allt framangreint sé metið í heild sinni, þ.e. engin tengsl við Ísland, tæplega þriggja ára dvöl í Svíþjóð auk tiltölulega sterkra samfélagslegra tengsla þar í landi og þess að það geti verið verulega íþyngjandi fyrir kæranda að ganga í gegnum annað umsóknarferli, sérstaklega í ljósi þess að hann hafi haft áhyggjur og sé haldinn streitu, þá sé það mat stofnunarinnar að það samræmist hagsmunum kæranda að fara aftur til Svíþjóðar. Útlendingastofnun tók í ákvörðun sinni einnig til skoðunar hvort um sérstakar aðstæður í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga væri að ræða í máli kæranda. Við meðferð málsins hafi verið litið til þess hvort kærandi væri í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem gæti haft áhrif á niðurstöðu máls hans, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga. Í niðurstöðu Útlendingastofnunar segir um þetta atriði að eins og rakið hafi verið í niðurstöðunni þá lægi fyrir að kærandi væri í sérstaklega viðkvæmri stöðu og yrði því tekið tillit til þess við ákvörðun í máli hans. Það sé mat Útlendingastofnunar að engin viðvarandi mannréttindabrot væru í Svíþjóð og að íbúar landsins gætu fengið vernd gegn ofbeldisbrotum og glæpum með aðstoð lögreglu og annarra yfirvalda. Með vísan til framangreinds væri það mat Útlendingastofnunar að sérstakar aðstæður í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga ætti ekki við um mál kæranda. Í niðurstöðu ákvörðunar Útlendingastofnunar kemur fram að krafa hafi verið lögð fram um að kærandi fengi að gangast undir sálfræðimat. Segir Útlendingastofnun um þessa kröfu kæranda að í ljósi þess að fallist hafi verið á að hann sé í viðkvæmri stöðu og að lagt hafi verið áhersla á að hann nyti viðeigandi þjónustu á meðan hann væri staddur hér á landi teldi stofnunin að ekki væri ástæða til að kanna ástand hans með sérstöku mati þar sem slíkt sálfræðimat myndi ekki hafa grundvallarþýðingu í málinu. Útlendingastofnun hafi því hafnað beiðni um sálfræðimat. Útlendingastofnun vísaði frá varakröfu kæranda um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga, í ljósi þess að ekki yrði fjallað efnislega um mál kæranda.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að í viðtali við hann hjá Barnahúsi þann 19. október 2016 hafi hann greint frá því að hann hafi fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd í Svíþjóð. Af ótta við sambýlismenn sína í húsnæði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd í Svíþjóð hafi kærandi ekki greint sænskum stjórnvöldum frá því að hann sé [...]. Þá hafi honum ekki verið gefinn kostur á að funda með lögfræðingi fyrr en eftir að niðurstaða sænskra stjórnvalda um synjun á umsókn hans hafi legið fyrir. Kærandi hafi þá sagt lögfræðingnum frá því að hann væri [...] en lögfræðingurinn hafi tjáð honum að það væri of seint að segja stjórnvöldum frá því. Vegna [...] sinnar óttist kærandi um líf sitt verði hann sendur aftur til [...].

Eftir komuna til Íslands hafi kærandi eignast góða vini og stigið stórt skref í átt að aðlögun að íslensku samfélagi. Kærandi hafi sótt kennslu hjá Mími og Tækniskólanum, tekið þátt í [...] og í ýmis konar félagslífi. Kærandi leggi fram nokkur skjöl sem tengist [...] hans, aðstæðum hans í Svíþjóð og aðlögun hans á Íslandi.

Kærandi byggir aðallega á því að íslenskum stjórnvöldum sé óheimilt að endursenda kæranda til Svíþjóðar og þeim beri skylda til að taka mál hans til efnislegrar meðferðar. Byggt er á því annars vegar að ábyrgðin á meðferð umsóknarinnar hvíli á Íslandi í ljósi c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, sbr. 4. mgr. 8. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og hins vegar að fyrir hendi séu sérstakar ástæður skv. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga sem skylda íslensk stjórnvöld til að taka mál kæranda til efnismeðferðar. Enn fremur er byggt á því að með vísan til laga og ákvæða alþjóðasamninga um réttindi barna verði það ekki með nokkru móti talið samræmast hagsmunum kæranda að vera endursendur til Svíþjóðar. Einnig sé byggt á því að ákvörðun Útlendingastofnunar um að endursenda kæranda til Svíþjóðar sé í andstöðu við ákvæði 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga.

Í greinargerð kæranda er umfjöllun um stöðu barnsins og það sem barni sé fyrir bestu. Í ákvæði 4. mgr. 8. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar segi berum orðum að ef engir aðstandendur séu fyrir hendi skuli aðildarríkið þar sem fylgdarlausa ólögráða barnið lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd bera ábyrgð á meðferð umsóknar þess að því tilskyldu að það samræmist hagsmunum barnsins. Vísar kærandi af þessu tilefni til dóms Evrópudómsstóls frá 6. júní 2013 í máli nr. C-648/11 þar sem sambærilegt ákvæði eldri útgáfu Dyflinnarreglugerðarinnar hafi komið til skoðunar. Telji kærandi að Útlendingastofnun hafi í niðurstöðu sinni rangtúlkað framangreindan dóm og komist að þeirri fráleitu niðurstöðu að hagsmunum kæranda sé betur borgið með endursendingu hans til Svíþjóðar. Kærandi vísi í 1. mgr. 6. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, 2. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003 og 1. mgr. 3. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013, máli sínu til stuðnings en í þessum ákvæðum sé kveðið á um að ávallt skuli hafa hagsmuni barnsins að leiðarljósi. Telji kærandi að það muni án nokkurs vafa samræmast hagsmunum hans betur að íslensk stjórnvöld taki mál hans til efnismeðferðar og það gangi beinlínis gegn hagsmunum hans að verða endursendur til Svíþjóðar. Þá liggi fyrir að kærandi sjálfur sé mótfallinn því að vera endursendur til Svíþjóðar. Kærandi vísar einnig til leiðbeininga Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um mat á því hvað sé barni fyrir bestu. Í leiðbeiningunum komi fram að viðtal við barnið sjálft, þar sem fram komi hugsanir, tilfinningar og skoðanir þess, sé lykilgagn við mat á því hvaða afleiðingar tiltekin aðgerð eða niðurstaða hafi á velferð barnsins. Telji kærandi því að með hliðsjón af framangreindu verði að líta svo á að sú afstaða kæranda að vilja ekki verða endursendur til Svíþjóðar vegi þyngst við mat á því hvað sé honum fyrir bestu.

Þá bendir kærandi á að hlutfall samþykktra umsókna um alþjóðlega vernd sem lagðar séu fram af hálfu [...] sé mun hærra á Íslandi en í Svíþjóð. Með vísan til þess og þeirrar staðreyndar að kæranda hafi þegar verið synjað um alþjóðlega vernd í Svíþjóð telji kærandi að það sé óumdeilanlegt að það sé honum fyrir bestu að umsókn hans um alþjóðlega vernd verði tekin til efnislegrar meðferðar á Íslandi.

Kærandi vísar einnig í umsögn Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna frá febrúar 2015 um tillögu á breytingu á 8. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Í umsögninni komi fram það mat stofnunarinnar að flutningur fylgdarlausra barna á milli aðildarríkja hafi alls ekki gefið góða raun hingað til. Ekki sé alltaf tryggt að börnum sé séð fyrir gistingu í kjölfar flutnings, sem leiði til þess að börn verði heimilislaus og lendi á vergangi. Þá hafi skortur á gagnkvæmri viðurkenningu aldursgreininga leitt til þess að börn séu vistuð við óásættanlegar aðstæður og jafnvel sett í varðhald. Jafnframt hafi tafir á skipun tilsjónarmanns leitt til þess að aðgangur barns að umsóknarferlinu hafi ekki verið nægilega greiður.

Það liggi fyrir að umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hafi verið synjað í Svíþjóð. Telji kærandi að synjunin hafi byggst á röngum forsendum þar sem að [...] hans hafi ekki legið til grundvallar í máli hans þar. Til að fá slíka ákvörðun leiðrétta þurfi kærandi að leggja fram viðbótarumsókn í Svíþjóð en við slíka málsmeðferð muni hann ekki eiga rétt á lögfræðilegri aðstoð og verði það honum torvelt og þungbært, ekki síst vegna ungs aldurs og andlegra vandamála sem hann glími við.

Þá er í greinargerð kæranda að finna almenna umfjöllun um stöðu fylgdarlausra barna í hæliskerfinu í Svíþjóð en mikill fjöldi barna hafi lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd á undanförnum misserum og hafi það valdið miklu álagi á tilheyrandi hluta kerfisins. Vegna álagsins hafi verið misbrestur á því að sum börn fái þá umönnun og athygli sem þau þarfnist og eigi rétt á. Hafi innanríkisráðherra Svíþjóðar gefið frá sér yfirlýsingu þann 11. nóvember 2015 þess efnis að vegna mikils álags sem hafi verið á sænska hæliskerfinu yrði tekið upp tímabundið eftirlit á landamærum landsins sem yrði framlengt eftir þörfum. Þá ríki mikil spenna í Svíþjóð í tengslum við þann mikla fjölda fólks sem hafi lagt fram umsóknir um alþjóðlega vernd í landinu. Til að mynda hafi ítrekað verið kveikt í húsnæði umsækjenda víðsvegar um landið.

Í greinargerð kæranda er umfjöllun um 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og hugtakið sérstakar ástæður. Fram kemur að kærandi telji að taka skuli mál hans til efnislegrar meðferðar vegna sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Vísað er til athugasemda við sambærilegt ákvæði með frumvarpi því sem varð að breytingarlögum nr. 115/2010. Frumvarpið sem varð að núgildandi lögum nr. 80/2016 vísi í fyrrnefndar athugasemdir og endurtaki sömu skýringar en bæti við umfjöllun um viðkvæma stöðu einstaklinga. Að mati kæranda sé þessi viðbót athyglisverð og hún gefi leiðbeiningar um vilja löggjafans til að víkka út gildissvið ákvæðisins miðað við beitingu stjórnvalda á sambærilegu ákvæði í hinum eldri lögum, enda sé það í samræmi við meginreglu nýju laganna um að allar umsóknir um alþjóðlega vernd skuli teknar til efnismeðferðar. Kærandi telji, að teknu tilliti til ástandsins í Svíþjóð, einstaklingsbundinna aðstæðna hans og umfjöllunar um það hvað sé barni fyrir bestu, að íslenskum stjórnvöldum beri ótvíræð skylda til að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, sem og samkvæmt skyldu þeirra samkvæmt ákvæðum Dyflinnarreglugerðarinnar.

Kærandi byggir enn fremur á því að með vísan til 42. gr. laga um útlendinga sé óheimilt að endursenda hann til Svíþjóðar þar sem í ákvæðinu segi að ekki megi senda útlending til svæðis þar sem hann hafi ástæðu til að óttast ofsóknir sem geti leitt til þess að hann teljist flóttamaður eða ef ekki sé tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis (non-refoulement). Reglan feli í sér bæði bann við beinni endursendingu einstaklings til ríkis þar sem líf hans og frelsi kann að vera í hættu (e. direct refoulement) og jafnframt endursendingu til þriðja ríkis ef fyrirsjáanlegt er að það muni senda hann áfram í slíka hættu (e. indirect refoulement). Reglan feli þannig hvort tveggja í sér bann við endursendingu vegna aðstæðna í Svíþjóð og vegna hættunnar á endursendingu til [...]. Að auki myndi ákvörðun um endursendingu brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.

Til vara er gerð sú krafa að ákvörðun Útlendingastofnunar verði ógilt og stofnuninni gert að taka mál kæranda til meðferðar að nýju. Kærandi telji að með ákvörðun sinni hafi Útlendingastofnun brotið gegn rannsóknarreglu í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem hin kærða ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli ófullnægjandi upplýsinga auk þess sem að ákvörðunin hafi ekki verið rökstudd með fullnægjandi hætti líkt og gerð sé krafa um í 22. gr. sömu laga. Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga skuli Útlendingastofnun af sjálfsdáðum afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga vegna málmeðferðar umsóknar um alþjóðlega vernd. Þá hafi Útlendingastofnun ekki framkvæmt einstaklingsbundið mat á aðstæðum kæranda. Þá telji kærandi að það sé ótvíræður og verulegur annmarki á hinni kærðu ákvörðun að Útlendingastofnun hafi ekki aflað umsagnar frá Barnaverndarstofu áður en ákvörðun í máli kæranda var tekin, en skv. 2. málsl. 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga beri stofnuninni að hafa samráð við barnaverndaryfirvöld þegar lagt sé mat á hvað sé fylgdarlausu barni fyrir bestu. Hvergi í ákvörðuninni sé að finna heilsteypt mat á því hvað sé hinu fylgdarlausa barni fyrir bestu. Að mati kæranda leggi Útlendingastofnun takmarkaða áherslu á að fjalla um mál kæranda sem fylgdarlauss barns en fari fremur með kæranda sem fullorðinn einstakling í viðkvæmri stöðu.

Þá gerir kærandi athugasemd við það að Útlendingastofnun skuli vísa í dóm Mannréttindadómstóls Evrópu frá 30. júní 2015 í máli A.S. gegn Sviss (nr. 39350/13) til stuðnings því að unnt sé að senda kæranda til Svíþjóðar. Kærandi telji að dómurinn hafi enga raunhæfa þýðingu í málinu enda hafi mál fylgdarlausra barna algera sérstöðu gagnvart málum annarra sem teljast vera í viðkvæmri stöðu og um mál þeirra gildi sérstakar reglur. Jafnframt telji kærandi að túlkun Útlendingastofnunar á dómi Evrópudómstólsins frá 6. júní 2013, í máli nr. C-648/11, sé byggð á misskilningi. Útlendingastofnun hafi komist að þeirri niðurstöðu við túlkun dómsins að ekki sé unnt að leggja þá skyldu á aðildarríki að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar sem hafi verið áður synjað í öðru aðildarríki. Kærandi bendir hins vegar á að túlka skuli dóminn á þá leið að þegar sú staða sé uppi sem lýst sé í 4. mgr. 8. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar geti það ríki sem barnið sé statt aðeins synjað að taka umsókn barnsins um efnismeðferð þegar það gangi beinlínis gegn hagsmunum barnsins. Að lokum bendir kærandi á það að Útlendingastofnun hafi ekki tekið afstöðu til allra þeirra málsástæðna sem reifaðar hafi verið í greinargerð sem hann lagði fram við málsmeðferð hjá stofnuninni og sé það í andstöðu við framangreindar rannsóknarreglur laga um útlendinga og stjórnsýslulaga auk reglna um rökstuðning stjórnvaldsákvarðana.

Þann 29. mars 2017 lagði kærandi fram viðbótargreinargerð ásamt viðbótargögnum sem voru annars vegar greinargerð Guðbrands Ísberg Árnasonar, sálfræðings, um mat á andlegri heilsu hans, dags. 27. mars 2017, og hins vegar læknisvottorð Björns Hjálmarssonar, sérfræðilæknis á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans, dags. 24. mars 2017. Í viðbótargreinargerð kæranda kemur fram að hann sé í mjög viðkvæmu ástandi, hann hafi sýnt áfallastreitueinkenni, glími við þunglyndi, kvíða og sjálfsvígshugsanir. Kærandi vísar til framangreindra viðbótargagna um staðfestingu á því hvernig andlegri heilsu hans sé háttað. Telji kærandi að í ljósi þess hve alvarlegt andlegt ástand hans sé að fyrir hendi séu slíkar sérstakar ástæður sem skylda íslensk stjórnvöld til að taka mál hans til efnismeðferðar skv. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Til stuðnings á framangreindu vísar kærandi jafnframt til úrskurðar kærunefndar í máli nr. KNU16100021. Kærandi þess máls hafi verið barn sem hafi glímt við samskonar andlega erfiðleika og kærandi og séu málavextir í því máli með svipuðum hætti og í máli kæranda.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Fyrir liggur í máli þessu að sænsk stjórnvöld hafa samþykkt viðtöku á kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, en Ísland skuldbatt sig til að fylgja reglugerðinni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Samþykki Svíþjóðar er byggt á því að kærandi hafi fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd þar í landi. Þá liggur fyrir að kærandi sem er undir 18 ára aldri er fylgdarlaust ólögráða barn.

Staða barna á flótta ræðst af viðeigandi reglum í þjóðarétti og landsrétti. Í 22. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, segir í fyrsta lagi að aðildarríki skuli gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að barn sem leiti eftir réttarstöðu sem flóttamaður, eða sem talið sé flóttamaður samkvæmt viðeigandi reglum eða starfsháttum þjóðaréttar eða landslaga, fái, hvort sem það sé í fylgd foreldra eða annarra eða ekki, viðeigandi vernd og mannúðlega aðstoð við að nýta sér þau réttindi sem við eigi og kveðið sé á um í samningnum.

Í 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 segir að ákvarðanir sem varði barn skuli teknar með það sem því sé fyrir bestu að leiðarljósi, því tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í málum sem það varði og tekið tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Í 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga kemur fram að við ákvörðun sem sé háð mati stjórnvalds skuli huga að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska og möguleika þess til að sameinast fjölskyldu sinni.

Í tengslum við mál kæranda hefur kærunefnd kynnt sér eftirfarandi skýrslur um málefni barna á flótta:

  • Guidelines on Policies and Procedures in dealing with Unaccompanied Children seeking Asylum (UNHCR, febrúar 1997);
  • Position on Refugee Children (European Council on Refugees and Exiles, nóvember 1996);
  • Guidelines on International Protection No. 8 (UNHCR, 22. september 2009);
  • Children‘s rights in return policy and practice in Europe (Unicef, janúar 2015);
  • Exchange of information and best practices on first reception, protection and treatment of unaccompanied minors (IOM, september 2008) og
  • UNHCR Guidelines on Determing the Best Interests of the Child (UNHCR, maí 2008).

Kærandi er fylgdarlaust barn og liggur því fyrir að hann er einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga.

Í c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að umsókn um alþjóðlega vernd skv. 37. gr. skuli tekin til efnismeðferðar nema heimilt sé að krefja annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda. Í 2. mgr. 36. gr. kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Þá er í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga tekið fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því landi sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Eins og að framan greinir liggur fyrir Svíþjóð hefur samþykkt endurviðtöku kæranda á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður umsækjenda um alþjóðlega vernd í Svíþjóð og sérstaklega rannsakað móttökuskilyrði og málsmeðferð í þeim tilvikum þar sem umsækjendur eru fylgdarlaus börn er háttað þar í landi. Athugun kærunefndar á aðstæðum í Svíþjóð leiddi ekki í ljós gögn sem gefa tilefni til að líta svo á að aðstæður eða móttökuskilyrði þeirra þar í landi séu almennt þess eðlis að hætta sé á að endursending umsækjenda um alþjóðlega vernd, sem eru fylgdarlaus börn, til Svíþjóðar brjóti í bága við 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Krafa kæranda um að ábyrgð á meðferð umsóknar hans um alþjóðlega vernd hvíli á íslenskum stjórnvöldum er annars vegar gerð með vísan til 4. mgr. 8. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og hins vegar með vísan til þess fyrir hendi séu sérstakar ástæður í máli hans sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærandi telji að það samræmist ekki með nokkru móti hagsmunum hans að vera endursendur til Svíþjóðar.

Í ákvæði 4. mgr. 8. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar er kveðið á um að ef engir aðstandendur, systkini eða skyldmenni, eins og um geti í 1. og 2. mgr. sömu greinar, eru fyrir hendi skuli aðildarríkið, þar sem fylgdarlaust, ólögráða barn lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd, bera ábyrgð á umsókninni, að því tilskildu að slíkt samræmist hagsmunum barnsins. Samkvæmt ákvæðinu, sbr. dóm Evrópudómstólsins í máli nr. C-648/11, er meginreglan sú að það ríki sem barnið er statt í beri ábyrgð á umsókn fylgdarlausa barnsins um alþjóðlega vernd. Ef hins vegar fyrir liggur að það samrýmist ekki hagsmunum barnsins að taka umsókn þess um alþjóðlega vernd til skoðunar í því ríki þar sem það er statt þá skuli endursenda barnið til þess ríkis sem hefur samþykkt ábyrgð á umsókn þess samkvæmt öðrum ákvæðum Dyflinnarreglugerðarinnar.

Í samræmi við þær þjóðréttarlegu skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist með samningi um hina svonefndu Dyflinnarreglugerð telur kærunefnd útlendingamála rétt að túlka ákvæði 36. gr. laga um útlendinga til samræmis við ákvæði reglugerðarinnar. Þegar fyrir liggur endurviðtökusamþykki vegna fylgdarlauss barns á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, skuli mat á því hvort aðstæður barnsins teljist sérstakar í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga taka sérstakt mið af því hvort endursending til viðtökuríkis samrýmist hagsmunum barnsins. Í samræmi við hina almennu reglu sem leiða má af 4. mgr. 8. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar skal ganga út frá því að taka beri umsókn fylgdarlauss barns til efnismeðferðar hér á landi nema flutningur til ríkis, sem samþykkt hefur viðtöku barnsins, sé í betra samræmi við hagsmuni þess, öryggi, velferð, félagslegan þroska og möguleika barns á því að sameinast fjölskyldu sinni, sbr. jafnframt 2. mgr. 10. gr. og 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga. Vegna vísunar Útlendingastofnunar til ákvæða tilskipunar nr. 2013/32/EU tekur kærunefnd sérstaklega fram að Ísland hefur ekki með þjóðréttarlegum samningi skuldbundið sig til að fylgja þeirri tilskipun og verður hún ekki notuð við túlkun ákvæða 36. gr. laga um útlendinga.

Í máli þessu liggur fyrir að kærandi er [...] ára fylgdarlaust ólögráða barn. Hann hefur fengið synjun umsóknar sinnar um alþjóðlega vernd í Svíþjóð. Þá liggur fyrir að kærandi er mótfallinn því að verða sendur til Svíþjóðar, m.a. vegna þess að hann óttast afleiðingar þess að upp komist um [...] hans. Eins og fram kemur í ákvörðun Útlendingastofnunar liggur þó jafnframt fyrir að hann hefur dvalið í Svíþjóð í þrjú ár þar sem hann hafi m.a. gengið í skóla.

Kærandi kvaðst í viðtali í Barnahúsi þann 19. október 2016 vera líkamlega hraustur en hvað varði andlega heilsu hans þá sé hann stressaður, eigi erfitt með að einbeita sér og sofi ekki vel. Þá liggja fyrir í málinu nýlegri læknisfræðileg gögn um andlega heilsu kæranda. Annars vegar greinargerð Guðbrands Árna Ísberg, sálfræðings, dags. 27. mars 2017 og hins vegar læknisvottorð frá Barna- og unglingageðdeild Landspítalans, dags. 24. mars 2017. Í greinargerð Guðbrands kemur m.a. fram að kærandi sýni greinileg merki [...]. Flutningur kæranda frá landinu við núverandi aðstæður myndi án vafa gera þunglynd hans verra. Ef kærandi fengi að búa í öryggi með viðeigandi stuðningi og sálfræðilegri meðferð gæti hann náð góðum bata. Í læknisvottorði frá Barna- og unglingageðdeild kemur fram að kæranda hafi verið vísað til geðdeildarinnar vegna áfallastreitueinkenna og [...]. Hann hafi fengið sefandi lyf og sé í meðferð hjá sálfræðingi. Kærandi hafi í endurkomu á Barna- og unglingageðdeild sýnt merki um betri líðan. Í samantekt læknisvottorðsins kemur fram að kærandi sýni skýr áfallastreitu- og þunglyndiseinkenni sem sennilega magnist við þá óvissu sem hann búi við.

Kærunefnd telur að framangreind læknisfræðileg gögn sýni fram á að andleg heilsa kæranda sé ekki góð. Gögn málsins bendi því til þess að flutningur til Svíþjóðar komi til með að valda kæranda aukinni andlegri vanlíðan. Þá hefur kærandi lýst því eindregið yfir að hann vilji ekki fara aftur til Svíþjóðar. Þótt kærunefnd taki að einhverju leyti undir það mat Útlendingastofnunar að ný efnismeðferð umsóknar um alþjóðlega vernd geti verið verulega íþyngjandi fyrir kæranda er það mat nefndarinnar að það sjónarmið vegi ekki nógu þungt á móti framangreindum sjónarmiðum um andlega heilsu kæranda og skoðanir hans að lagt verði til grundvallar að flutningur sé í betra samræmi við hagsmuni kæranda, öryggi hans, velferð og félagslegan þroska.

Í ljósi þess sem rakið hefur verið er það mat kærunefndar að aðstæður kæranda séu slíkar að það samræmist hagsmunum hans að taka mál hans til efnislegrar meðferðar hér á landi vegna sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þrátt fyrir að staðfesting sænskra stjórnvalda á ábyrgð þeirra á kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd liggi fyrir þá beri eins og hér háttar sérstaklega til að flytja ábyrgð á efnislegri meðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd yfir á íslensk stjórnvöld á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Niðurstaða kærunefndar er byggð á heildstæðu mati á þeim sjónarmiðum og gögnum er liggja fyrir í máli kæranda.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda til efnismeðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate of Immigration shall examine the merits of the application of the applicant for asylum in Iceland.Anna Tryggvadóttir, varaformaðurÞorbjörg Inga Jónsdóttir Erna Kristín Blöndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta