Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 360/2015

 ÚRSKURÐUR ÚRSKURÐARNEFNDAR UM LEIÐRÉTTINGU VERÐTRYGGÐRA FASTEIGNAVEÐLÁNA

 NR. 360/2015

Ár 2015, fimmtudaginn 9. júlí, er tekið fyrir mál nr. 330/2015; kæra A og B. Í málinu úrskurða Eva Dís Pálmadóttir, Ingi Tryggvason og Kristján Jónasson. Upp er kveðinn svofelldur

 

ú r s k u r ð u r :

 

I.

Málavextir eru þeir að af hálfu kærenda var sótt um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána þann 4. júní 2014. Útreikningur á leiðréttingu grundvallaðist á þeim verðtryggðu lánum sem tilgreind voru í lið 5.2 í skattframtölum kærenda árin 2009 og 2010 vegna tekjuáranna 2008 og 2009, nánar tiltekið á lánum sjóðs X nr. 1 og 2 og láni banka Y nr. 3. Í skattframtali kærenda bæði árin var jafnframt tiltekið lán banka Z nr. 4, en það lán var ekki tekið með í útreikning ríkisskattstjóra á leiðréttingu kærenda.      

Í kæru til úrskurðarnefndar, dags. 19. mars 2015, var kærð fjárhæð og framkvæmd leiðréttingar, sbr. 9. og 11. gr. laga nr. 35/2014 um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Í kæru kemur fram að kærendur kæri þann mismun sem þau verði fyrir varðandi leiðréttingu fasteignaveðlána, þar sem ekki sé reiknuð leiðrétting á lánum í sjóði Þ sem tekin hafi verið vegna kaupa kærenda á búsetuíbúð að M götu. Krafa kærenda sé að reiknuð verði höfuðstólsleiðrétting á láni sjóðs Þ sem tekið hafi verið og skráð á búsetufyrirtæki vegna kærenda á fasteigninni að M götu á árinu 2003, eins og gert hafi verið við önnur lán sem tekin hafi verið á vegum kærenda. Kærendur vísa til þess að í umræðunni á sínum tíma hafi verið talað um að allir sem fengju vaxtabætur á ákveðnum tíma fengju reiknaða leiðréttingu á þau lán sem þar væru á bak við. Kærendur hafi fengið greiddar vaxtabætur og sérstakar vaxtabætur vegna þeirra lána sem þau höfðu á því tímabili sem höfuðstólsleiðrétting eigi að ná til. Kærendur segja að síðan séu dregnar frá leiðréttingu, sem hafi verið af öðrum lánum, allar greiddar vaxtabætur samkvæmt lögum, líka þær sem hafi mátt rekja til láns sjóðs Þ vegna búsetaíbúðarinnar að M götu. Túlkun kærenda á þessum mismun, varðandi að fá ekki höfuðstólsleiðréttingu á láni sjóðs Þ vegna búsetuíbúðar, sé að verið sé að brjóta jafnræðisreglu á kærendum. Það sé klárt mannréttindabrot þar sem kærendum sé mismunað gagnvart öðrum hér á landi sem séu með sambærilegt umhverfi. Kærendur hafi verið eigendur að búsetaíbúð að M götu á leiðréttingartímabilinu og áskilji sér allan rétt til að sækja þetta mál fyrir íslenskum dómstólum og fara með það fyrir alþjóðlega mannréttindadómstóla ef þörf reynist.

Þann 15. júní 2015 sendi úrskurðarnefndin bankanum Z umsagnarbeiðni með vísan til 5. mgr. 14. gr. laga nr. 35/2014. Í beiðninni kom fram að í kæru gerðu kærendur athugasemd við að leiðrétting næði ekki til láns sem hafi verið tekið til kaupa á búseturéttaríbúð. Af gögnum málsins hafi mátt ráða að um lán nr. 4 hjá bankanum Z væri að ræða, en væri það ekki rétt var óskað upplýsinga um lánið. Í umsjónarkerfi leiðréttingarinnar væru lántakendur þess skráðir kærendur en tilgreint að ekki væri um fasteignaveðlán að ræða heldur búseturétt. Óskað var eftir umsögn bankans um það hvort um væri að ræða veðlán sem kærendur hafi tekið til kaupa á búseturétti eða lán sem búsetufyrirtæki hafi tekið og afstöðu bankans til þess hvort lánið skuli hljóta leiðréttingu á grundvelli laga nr. 35/2014.

Svar banka Z barst samdægurs. Þar kom fram að umrætt lán hafi verið veitt af búsetufyrirtæki og keypt af banka Æ. Um sé að ræða kaup á búseturétti. Lánið sé ekki veðlán, heldur tryggt með sjálfskuldarábyrgð. Við útsendingu gagna frá bankanum til ríkisskattstjóra hafi þetta lán verið flokkað í kafla 5.5. í skattskýrslum, en ekki kafla 5.2.

Þann 16. júní 2015 var umsögn banka Z send kærendum til yfirferðar og andmæla. Kærendur svöruðu erindi úrskurðarnefndarinnar þann 19. júní 2015 og sögðu að umsögn banka Z virtist eiga við lán sem búseturéttarfyrirtæki hafi veitt vegna kaupa á búseturétti. Kæra snúi að láni frá sjóði Þ sem veitt hafi verið vegna búsetuíbúðar kærenda. Þetta séu alls ólík lán og mál kærenda snúist um lánið frá sjóði Þ.

Í tilefni af svörum kærenda sendi úrskurðarnefndin sjóði Þ umsagnarbeiðni með vísan til 5. mgr. 14. gr. laga nr. 35/2014 þann 22. júní 2015. Óskað var umsagnar um lánið sem kærendur vísuðu til. Sérstaklega var óskað eftir upplýsingum um það hvort um væri að ræða veðlán sem kærendur hafi tekið til kaupa á búseturétti eða lán sem búsetufyrirtæki hafi tekið. Einnig var óskað eftir afstöðu sjóðsins til þess hvort lánið skuli hljóta leiðréttingu á grundvelli laga nr. 35/2014. Svar Þ barst 23. júní 2015. Þar kom fram að sjóðurinn Þ veitti ekki einstaklingum lán til kaupa á búseturétti heldur væri hér um að ræða lán sem búsetufyrirtæki hafi tekið. Hvað varði afstöðu sjóðsins til þess hvort lánið skuli hljóta leiðréttingu á grundvelli laga nr. 35/2014 þá var vísað til 3. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2014, þar sem segi að leiðrétting taki ekki til lögaðila, þrátt fyrir að til láns hafi verið stofnað með beinum eða óbeinum hætti í þágu einstaklinga, þ.m.t. samkvæmt lögum um húsnæðissamvinnufélög.

Þann 23. júní 2015 var umsögn sjóðsins Þ send kærendum til yfirferðar og andmæla. Í svari kærenda kom fram að umsögn sjóðsins Þ væri rétt samkvæmt gildandi lögum. Það sem kærendur gagnrýni sé að þó að búsetufyrirtæki sé lántaki sé lánið veitt til þeirra á þeim grundvelli að búseturéttarhafi greiði af láninu þó það sé í gegnum búsetufyrirtækið. Á þessum grunni fái búseturéttarhafi síðan endurgreiddan hluta vaxtagreiðsla frá hinu opinbera. Þessi endurgreiðsla á vöxtum sé því í raun sú sama og lögaðili fái, sem taki lán beint frá sjóðnum Þ. Kærendur spyrja hvernig hægt sé að endurgreiða vexti til húsnæðiskaupa á þennan hátt, ef það tengist ekki því láni sem tekið sé af búsetafyrirtæki vegna viðkomandi greiðanda. Það sé klárlega brot á mannréttindum að mismuna þeim sem séu að greiða af lánum í gegnum búseturétt og að þeir fái ekki niðurgreiðslu eins og aðrir beinir lögaðilar.

 

II.

Í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2014, kemur fram það skilyrði fyrir því að lán séu leiðrétt samkvæmt ákvæðum þeirra laga, að leiðrétting taki ekki til lögaðila, þrátt fyrir að til láns hafi verið stofnað með beinum eða óbeinum hætti í þágu einstaklinga, þ.m.t. samkvæmt lögum nr. 66/2003, um húsnæðissamvinnufélög. Ágreiningslaust er að það lán sjóðsins Þ sem kærendur krefjast leiðréttingar á er tekið af búsetufélagi, en ekki kærendum sjálfum. Búsetufélagið er húsnæðissamvinnufélag og starfar sem slíkt samkvæmt lögum um húsnæðissamvinnufélög nr. 66/2003. Þegar af þeirri ástæðu er ljóst að ekki er til staðar lagaheimild til leiðréttingar lánsins á grundvelli laga nr. 35/2014, enda hafa verið tekin af tvímæli þar um með skýrum hætti í lögunum.

Hvað varðar frádrátt frá útreiknaðri leiðréttingarfjárhæð lána kærenda er ljóst af forsendum ríkisskattstjóra að eingöngu var um að ræða frádrátt vegna sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu. Fjallað er um frádráttarliði í 8. gr. laga nr. 35/2014. Þar kemur fram í f-lið 1. mgr. að frá þeirri fjárhæð leiðréttingar sem ákvarðast samkvæmt 7. gr. laganna skuli draga m.a. sérstaka vaxtaniðurgreiðslu samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XLII í lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 6. gr. laga nr. 164/2010. Ekki var um annan frádrátt að ræða frá útreiknaðri leiðréttingu kærenda en þann, svo ljóst er að lagaheimild var til hans, óháð því hvaða lán voru grundvöllur útreiknings vaxtaniðurgreiðslunnar.

Ákvörðun ríkisskattstjóra á leiðréttingafjárhæð kærenda, sem byggir á því að lán sjóðsins X nr. 1 og 2 og láni banka Y nr. 3 séu leiðrétt, og frá útreiknaðri leiðréttingarfjárhæð dragist sérstök vaxtaniðurgreiðsla, hefur að öðru leyti ekki sætt andmælum og verður því ekki hnekkt. Kröfu kærenda er hafnað.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kærenda er hafnað.

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta